Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 485, 151. löggjafarþing 13. mál: viðskiptaleyndarmál.
Lög nr. 131 9. desember 2020.

Lög um viðskiptaleyndarmál.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
  1. Brotavarningur: Varningur sem verulegur ávinningur hlýst af vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmála, í krafti hönnunar, eiginleika, virkni, framleiðsluferlis eða markaðssetningar hans.
  2. Handhafi viðskiptaleyndarmáls: Einstaklingur eða lögaðili sem ræður löglega yfir viðskiptaleyndarmáli.
  3. Hinn brotlegi: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur öðlast, notað eða afhjúpað viðskiptaleyndarmál ólöglega.
  4. Viðskiptaleyndarmál: Upplýsingar sem:
    1. eru leyndarmál í þeim skilningi að þær eru ekki, sem heild eða í samskipan og samsetningu einstakra hluta þeirra, almennt þekktar eða auðvelt að nálgast meðal aðila í hópum sem venjulega fjalla um þá tegund upplýsinga sem um er að ræða,
    2. hafa viðskiptalegt gildi vegna þess að þær eru leyndarmál,
    3. einstaklingur eða lögaðili ræður löglega yfir og hefur gert eðlilegar ráðstafanir eftir aðstæðum til að halda leyndum.


II. KAFLI
Öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

3. gr.

Lögmæt öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.
     Öflun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt sé þess aflað með:
  1. sjálfstæðri uppgötvun eða sköpun,
  2. athugun, rannsókn, sundurhlutun eða prófun vöru eða hlutar sem hefur verið gerður aðgengilegur almenningi eða er lögleg eign þess sem fær upplýsingarnar og er ekki skuldbundinn að lögum til að takmarka öflun viðskiptaleyndarmálsins,
  3. nýtingu réttar launþega eða fulltrúa þeirra til upplýsinga og samráðs í samræmi við lög og venjur og skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða
  4. hvers konar annarri framkvæmd sem er eftir aðstæðum í samræmi við heiðarlega viðskiptahætti.

     Öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt að svo miklu leyti sem hennar er krafist eða hún leyfð samkvæmt lögum eða skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

4. gr.

Ólögmæt öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.
     Ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls er bönnuð.
     Öflun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt sé þess aflað með:
  1. óheimilum aðgangi að skjölum, hlutum, efni eða rafrænum skrám sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins ræður löglega yfir og sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða hægt er að draga ályktanir um viðskiptaleyndarmál af, eða óheimilli töku eða afritun þeirra gagna eða
  2. hvers konar annarri háttsemi sem, eftir aðstæðum, telst í andstöðu við heiðarlega viðskiptahætti.

     Notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt sé það notað eða afhjúpað af þeim sem:
  1. hefur aflað viðskiptaleyndarmálsins ólöglega,
  2. brýtur gegn trúnaðarsamkomulagi eða öðrum skyldum um að afhjúpa viðskiptaleyndarmálið ekki eða
  3. brýtur gegn samningi eða öðrum skyldum um að takmarka notkun viðskiptaleyndarmálsins.

     Ólögmætt telst að afla, nota eða afhjúpa viðskiptaleyndarmál þegar sá sem það gerir vissi eða mátti vita þegar hann aflaði, notaði eða afhjúpaði viðskiptaleyndarmálið að það var fengið beint eða óbeint frá öðrum einstaklingi eða lögaðila sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega skv. 3. mgr.
     Ólögmætt telst að framleiða, bjóða eða setja á markað eða flytja inn, flytja út eða geyma brotavarning í því skyni þegar sá sem gerir slíkt vissi eða mátti vita að viðskiptaleyndarmálið var notað ólöglega skv. 3. mgr.

5. gr.

Vernd uppljóstrara og starfsmanna.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. telst öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmáls lögmæt þegar:
  1. hún á sér stað til að ljóstra upp um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi svo fremi það sé gert í því skyni að vernda almannahagsmuni eða
  2. starfsmenn miðla viðskiptaleyndarmáli til fulltrúa sinna og það er liður í að viðkomandi fulltrúar inni störf sín af hendi í samræmi við lög eða kjarasamning svo fremi að miðlunin hafi verið nauðsynleg í þeim tilgangi.


III. KAFLI
Vernd viðskiptaleyndarmála fyrir dómi og við lögbannsgerð.

6. gr.

Trúnaðarmerking.
     Að kröfu málsaðila getur sýslumaður eða dómari trúnaðarmerkt upplýsingar sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

7. gr.

Þagnarskylda.
     Þeir sem koma að málum um ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls eða hafa aðgang að skjölum mála eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt þessari grein og ákvæðum annarra laga eftir því sem við á.
     Á sérfróðum meðdómsmönnum og matsmönnum hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
     Lögmönnum, lögmannsfulltrúum og starfsmönnum lögmanna er óheimilt að notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns.
     Málsaðilum, vitnum og öðrum þeim sem taka þátt í máli um ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls eða hafa aðgang að skjölum málsins er óheimilt að afhjúpa eða notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmálið eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um vegna aðildar að málinu eða aðgangs að skjölum þess.
     Þagnarskylda helst eftir að máli lýkur. Ef ákveðið er með dómi að upplýsingar teljist ekki viðskiptaleyndarmál eða þær verða almennt þekktar eða aðgengilegar meðal einstaklinga innan hópa sem venjulega fást við þess konar upplýsingar fellur þagnarskyldan niður.

8. gr.

Vernd viðskiptaleyndarmála fyrir dómi.
     Við ákvörðun dómara skv. 8. gr., 14. gr., 4. mgr. 52. gr., 3. mgr. 53. gr. og 69. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 10. gr., 16. gr., 2. mgr. 118. gr., 3. og 4. mgr. 119. gr. og 136. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og við ákvörðun um afhendingu upplýsinga og gagna til almennings eða birtingu dóma og úrskurða í málum um ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls skal tekið tillit til:
  1. þess að rétturinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns og réttlátrar málsmeðferðar sé tryggður,
  2. lögmætra hagsmuna málsaðila eða þriðja aðila og
  3. hugsanlegs tjóns sem ákvörðunin kann að valda fyrir annan hvorn málsaðila eða þriðja aðila.


IV. KAFLI
Lögbann.

9. gr.

Lögbann.
     Handhafi viðskiptaleyndarmáls getur fengið lagt lögbann við öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. þó 2. og 4. mgr.
     Lögbann má leggja við athöfn skv. 1. mgr. ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að:
  1. viðskiptaleyndarmál sé fyrir hendi,
  2. gerðarbeiðandi sé handhafi viðskiptaleyndarmálsins og
  3. viðskiptaleyndarmálsins hafi verið aflað ólöglega, það sé notað eða afhjúpað ólöglega eða ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins sé yfirvofandi.

     Við mat á því hvort lögbann verði lagt á skv. 1. mgr. skal tekið tillit til sérstakra aðstæðna í málinu, þ.m.t. eftir því sem við á:
  1. verðmæta og annarra séreinkenna viðskiptaleyndarmálsins,
  2. ráðstafana sem gerðar hafa verið til að vernda viðskiptaleyndarmálið,
  3. framferðis gerðarþola við öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
  4. áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
  5. lögmætra hagsmuna málsaðila og áhrifa sem það gæti haft á þá ef lögbannið verður lagt á eða því hafnað,
  6. lögmætra hagsmuna þriðja aðila,
  7. almannahagsmuna og
  8. verndar grundvallarréttinda.

     Að kröfu gerðarþola getur sýslumaður fellt lögbann úr gildi ef upplýsingarnar sem lögbannið varðar teljast ekki lengur viðskiptaleyndarmál af ástæðum sem ekki verða raktar til gerðarþola.
     Í stað lögbanns getur sýslumaður ákveðið að hinn brotlegi geti haldið áfram notkun viðskiptaleyndarmálsins enda sé trygging sett fyrir endurgjaldi til þess sem misgert er við.

10. gr.

Afhending muna við lögbannsgerð.
     Við lögbannsgerð getur sýslumaður að kröfu handhafa viðskiptaleyndarmáls tekið muni úr vörslum gerðarþola og afhent þá handhafa viðskiptaleyndarmálsins hafi þeir verið nýttir eða bersýnilega verið ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbann er lagt við, enda þyki sýnt að brýn hætta sé á að gerðarþoli muni nýta þá til að brjóta lögbannið ef hann heldur vörslum þeirra.

V. KAFLI
Dómar í málum um viðskiptaleyndarmál.

11. gr.

Ráðstafanir með dómi.
     Ef öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls telst ólögmæt má grípa til eftirfarandi ráðstafana með dómi:
  1. stöðvunar eða, eftir atvikum, banns við notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
  2. banns við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í því skyni,
  3. innköllunar brotavarnings af markaði,
  4. að þeir eiginleikar brotavarnings sem brjóta gegn viðskiptaleyndarmáli séu fjarlægðir,
  5. eyðingar brotavarnings eða, eftir því sem við á, að hann sé fjarlægður af markaði, svo fremi að það grafi ekki undan verndun viðskiptaleyndarmálsins,
  6. eyðingar skjals, hlutar, efnis eða rafrænnar skrár, í heild eða að hluta, sem hefur að geyma eða felur í sér viðskiptaleyndarmálið eða, eftir því sem við á, afhendingar skjalsins, hlutarins, efnisins eða rafrænu skrárinnar til stefnanda í heild eða að hluta.

     Við mat á því hvaða ráðstafanir verða gerðar skv. 1. mgr. og hvort þær hæfi brotinu skal tekið tillit til sérstakra aðstæðna í málinu, þ.m.t. eftir því sem við á:
  1. verðmæta og annarra séreinkenna viðskiptaleyndarmálsins,
  2. ráðstafana sem gerðar hafa verið til að vernda viðskiptaleyndarmálið,
  3. framferðis hins brotlega við öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
  4. áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
  5. lögmætra hagsmuna málsaðila og áhrifa sem það gæti haft á þá ef lögbannið yrði lagt á eða því hafnað,
  6. lögmætra hagsmuna þriðja aðila,
  7. almannahagsmuna og
  8. verndar grundvallarréttinda.

     Ef ákveðið er að gildistími ráðstafana skv. a- og b-lið 1. mgr. skuli takmarkaður skal hann vera nægur til að útiloka hvers kyns viðskiptalegan eða efnahagslegan ávinning sem hinn brotlegi gæti hafa fengið af ólögmætri öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins. Ráðstafanir sem gripið hefur verið til með dómi falla úr gildi ef þær varða ekki lengur viðskiptaleyndarmál af ástæðum sem ekki verða raktar til stefnda.
     Ráðstafanir skv. c–f-lið 1. mgr. skulu vera á kostnað hins brotlega nema sérstakar ástæður mæli á móti því. Ráðstafanirnar taka ekki til mögulegra skaðabóta fyrir tjón sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins kann að verða fyrir af völdum ólögmætrar öflunar, notkunar eða birtingar viðskiptaleyndarmálsins.

12. gr.

Bætur fyrir fjártjón.
     Í stað ráðstafana skv. 11. gr. má að kröfu þess sem þær beinast að ákveða með dómi að hann skuli greiða handhafa viðskiptaleyndarmáls bætur fyrir fjártjón ef:
  1. hann hvorki vissi né hefði mátt vita, miðað við aðstæður þegar notkun eða afhjúpun fór fram, að viðskiptaleyndarmálið var fengið frá öðrum einstaklingi sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega,
  2. ráðstafanirnar mundu valda honum óhóflegum skaða og
  3. bætur til tjónþola virðast hæfilegar.

     Bætur skv. 1. mgr. skulu ekki vera hærri en rétthafagreiðslur eða gjöld sem komið hefðu til greiðslu hefði sá sem dæmdur er til að greiða handhafa bætur fyrir fjártjón óskað eftir heimild til að nota viðkomandi viðskiptaleyndarmál fyrir tímabilið sem hefði verið hægt að banna notkun þess.

13. gr.

Skaðabætur.
     Þeim sem brýtur af ásetningi eða gáleysi gegn ákvæðum 4. gr. er skylt að greiða skaðabætur vegna tjóns sem handhafi viðskiptaleyndarmáls hefur orðið fyrir vegna þess.
     Við ákvörðun bóta skal m.a. litið til tapaðs hagnaðar handhafa viðskiptaleyndarmálsins og óréttmætrar auðgunar hins brotlega.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. má ákveða að bætur svari a.m.k. til hæfilegs endurgjalds fyrir hagnýtingu viðskiptaleyndarmálsins.
     Auk bóta fyrir fjártjón má dæma bætur til handhafa viðskiptaleyndarmálsins vegna ófjárhagslegs tjóns.

14. gr.

Miðlun dómsniðurstöðu.
     Að kröfu þess sem misgert er við má gera viðeigandi ráðstafanir með dómi til að miðla upplýsingum um dóm í máli á kostnað hins brotlega.
     Þegar ráðstafanir skv. 1. mgr. eru gerðar skal gætt að því að viðskiptaleyndarmál sé varðveitt.
     Þegar ráðstafanir skv. 1. mgr. eru gerðar og við mat á því hvort þær hæfi brotinu skal, eftir því sem við á, litið til:
  1. verðmætis viðskiptaleyndarmálsins,
  2. framferðis hins brotlega við að afla, nota eða afhjúpa viðskiptaleyndarmálið,
  3. áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
  4. þess hve líklegt er að hinn brotlegi noti frekar eða afhjúpi viðskiptaleyndarmálið ólöglega og
  5. hvort upplýsingarnar um hinn brotlega séu þess eðlis að hægt sé að bera kennsl á einstakling og, ef svo er, hvort birting þeirra sé réttlætanleg, einkum í ljósi hugsanlegs tjóns sem ráðstöfunin gæti haft í för með sér fyrir friðhelgi einkalífs og orðspor hins brotlega.


VI. KAFLI
Frestir.

15. gr.

Málshöfðunarfrestir.
     Beiðni um lögbann skv. 9. gr. skal beint til sýslumanns innan fjögurra ára frá þeim degi þegar handhafi viðskiptaleyndarmáls fékk nauðsynlegar upplýsingar um hina ólögmætu öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins til grundvallar kröfu máls eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
     Mál um kröfu um ráðstafanir skv. 11. gr. skal höfðað innan fjögurra ára frá þeim degi þegar handhafi viðskiptaleyndarmáls fékk nauðsynlegar upplýsingar um hina ólögmætu öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins til grundvallar kröfu máls eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
     Ef mál er réttilega höfðað til staðfestingar lögbanni sem beiðst var innan frests telst það höfðað innan frests samkvæmt þessari grein.

VII. KAFLI
Viðurlög o.fl.

16. gr.

Dagsektir.
     Við fullnustu dóma um ráðstafanir skv. 11. gr. og við brot á lögbanni skv. 9 gr. er sýslumanni heimilt að ákveða gerðarþola dagsektir samkvæmt kröfu handhafa viðskiptaleyndarmáls.
     Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til farið er að dóminum eða lögbanninu. Gera má aðför fyrir dagsektum þessum og renna þær í ríkissjóð.
     Um meðferð mála fer að öðru leyti eftir lögum um aðför og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eftir því sem við á.

17. gr.

Viðurlög.
     Hver sem aflar sér eða öðrum umráða eða vitneskju um viðskiptaleyndarmál ólöglega skal sæta fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum en allt að fjórum árum ef brot er stórfellt. Við mat á því hvort brot sé stórfellt skal sérstaklega líta til þess tjóns sem verknaður hefur valdið, umfangs verknaðar og þeirrar aðferðar sem notuð var.
     Brot gegn ákvæðum 4. gr. varða fésektum eða fangelsi allt að einu ári ef sá sem brot fremur:
  1. er í vinnu- eða verksambandi við þann sem misgert er við eða er í félagi við hann,
  2. hefur löglegan aðgang að starfsstöð þess sem misgert er við eða
  3. hefur vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar.

     Ef brot skv. 2. mgr. er stórfellt getur það varðað allt að fjögurra ára fangelsi. Við mat á því hvort brot sé stórfellt skal sérstaklega líta til þess tjóns sem verknaður hefur valdið eða hvort verknaður hafi haft í för með sér augljósa hættu.
     Brot lögmanna, lögmannsfulltrúa og starfsmanna lögmanna gegn þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 7. gr., varða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot málsaðila, vitna og annarra gegn þagnarskyldu, sbr. 4. mgr. 7. gr., varða fésektum eða fangelsi allt að einu ári.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í broti er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum. Fésektir má gera jafnt einstaklingi sem lögaðila í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga.
     Brot skv. 2. mgr. sæta ákæru eftir kröfu þess sem misgert var við.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

18. gr.

Innleiðing á tilskipun.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskiptaupplýsinga (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra sem vísað er til í XVII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 frá 29. mars 2019, sem birt var 2. júlí 2020 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44, bls. 92. Tilskipunin var birt 19. desember 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 101, bls. 85–102.

19. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Frestir skv. 15. gr. renna fyrst út fjórum árum eftir gildistöku laga þessara.

20. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Stjórnsýslulög, nr. 37/1993: Í stað orðanna „atvinnu- og framleiðsluleyndarmál“ í 9. tölul. 1. mgr. 42. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
  2. Lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000: Í stað orðsins „atvinnuleyndarmál“ í 4. mgr. 64. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
  3. Lög um neytendakaup, nr. 48/2003: Í stað orðsins „atvinnuleyndarmál“ í 4. mgr. 49. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
  4. Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005: 16. gr. c laganna fellur brott.
  5. Lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014: Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
    1. Orðin „atvinnu-, framleiðslu- eða“ falla brott.
    2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingar um viðskiptaleyndarmál.
  6. Lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019: Orðin „rekstrar- og“ í 1. málsl. 4. gr., 3. mgr. 6. gr. og d-lið 11. gr. laganna falla brott.


Samþykkt á Alþingi 2. desember 2020.