Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1015, 151. löggjafarþing 335. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. (niðurdæling koldíoxíðs).
Lög nr. 12 18. mars 2021.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um loftslagsmál (niðurdæling koldíoxíðs).


I. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar:
      Áætlun um úrbætur er áætlun um ráðstafanir vegna frávika, leka eða umtalsverðrar hættu á leka í starfsemi, sem fylgir m.a. umsókn um starfsleyfi til niðurdælingar skv. VI. kafla A og Umhverfisstofnun samþykkir.
      Flutningskerfi koldíoxíðs eru lagnir og mannvirki þeim tengd til flutnings á koldíoxíði til niðurdælingarsvæðis.
      Föngun koldíoxíðs er ferli þar sem koldíoxíð er fangað, venjulega úr útblæstri iðjuvera og orkuvera en einnig beint úr andrúmslofti, svo að hægt sé að flytja það til niðurdælingar eða endurnýtingar.
      Föngunarstöð er mannvirki sem hefur þann tilgang að fanga koldíoxíð til niðurdælingar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
      Hentug jarðlög til niðurdælingar eru jarðlög sem hafa eiginleika sem stuðla að öruggri og áreiðanlegri geymslu eða steinrenningu koldíoxíðs neðan jarðar.
      Niðurdæling koldíoxíðs til varanlegrar geymslu í jarðlögum er þegar óblönduðu koldíoxíði er dælt niður til geymslu í holrýmum í jarðlögum eða þegar koldíoxíði sem hefur verið bundið í vatni er dælt niður í jarðlög sem steinrenna því.
      Niðurdælingargeymir er niðurdælingarsvæðið, þ.e. jarðlög þess og allt sem getur haft áhrif á öryggi og áreiðanleika niðurdælingar á svæðinu.
      Niðurdælingarsvæði er skilgreint svæði innan jarðlaga sem notað er til niðurdælingar koldíoxíðs til geymslu eða steinrenningar auk tilheyrandi búnaðar, hvort sem hann er ofan jarðar eða neðan jarðar.
      Rekstrartímabil niðurdælingarsvæðis er tíminn frá því að starfsleyfi er gefið út og niðurdæling koldíoxíðs hefst á niðurdælingarsvæðinu og þar til starfsemi lýkur.
      Vatnssúla er samfelldur lóðréttur vatnsmassi frá yfirborði að botnseti.

2. gr.

      Í stað orðsins „geymslusvæði“ í a-lið 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: niðurdælingarsvæði.

3. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Niðurdæling koldíoxíðs í jarðlög, með tíu nýjum greinum, 33. gr. a – 33. gr. j, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (33. gr. a.)
Gildissvið kaflans.
     Þessi kafli gildir um niðurdælingu koldíoxíðs í jarðlög á landi og innan efnahagslögsögu Íslands.
     Geymsla koldíoxíðs í vatnssúlu ofan jarðlaga er óheimil.
     Ákvæði þessa kafla taka ekki til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni sem snúa að varanlegri geymslu á minna en 100 kílótonnum af koldíoxíði.
     
     b. (33. gr. b.)
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd ákvæða þessa kafla, þ.m.t. um:
  1. Starfsleyfi til niðurdælingar, þ.m.t. um mögulega könnun á fýsileika niðurdælingargeymis, form og efni umsóknar og leyfis, fjárhagslega tryggingu, breytingar á útgefnum leyfum, kröfur vegna aðilaskipta, niðurfellingu leyfis þegar starfsemi er hætt eða forsendur leyfis bresta og málsmeðferð við veitingu leyfis.
  2. Eftirlit með niðurdælingargeymi og rekstri niðurdælingarsvæðis.
  3. Endurskoðun, uppfærslu og niðurfellingu starfsleyfa til niðurdælingar.
  4. Form og efni vöktunarskýrslna, umfang vöktunar og búnað til vöktunar og niðurdælingar.
  5. Aðgang þriðja aðila að flutningskerfi koldíoxíðs og niðurdælingarsvæði.
  6. Lokun niðurdælingarsvæða, afturköllun starfsleyfis og flutning ábyrgðar.

     
     c. (33. gr. c.)
Könnun og starfsleyfi til niðurdælingar.
     Niðurdælingarsvæði skal ekki starfrækt án starfsleyfis til niðurdælingar og aðeins einn rekstraraðili skal starfa á hverju niðurdælingarsvæði.
     Rekstraraðili skal sækja um starfsleyfi til niðurdælingar hjá Umhverfisstofnun. Umsókninni skulu m.a. fylgja niðurdælingaráætlun, könnun eða mat á hugsanlegum niðurdælingargeymi til niðurdælingar koldíoxíðs, fyrirhuguð vöktunaráætlun, fyrirhuguð áætlun um úrbætur, upplýsingar vegna mats á umhverfisáhrifum og fjárhagsleg trygging.
     Umsækjandi starfsleyfis til niðurdælingar hefur í þeim tilvikum þegar könnun þarf að fara fram einkarétt til könnunar á umræddum niðurdælingargeymi, auk forgangsréttar til niðurdælingar á sama svæði að uppfylltum nánari skilyrðum.
     Ósamrýmanleg not niðurdælingargeymis eru óheimil á meðan könnun stendur yfir og á gildistíma starfsleyfis til niðurdælingar.
     Umhverfisstofnun skal setja skilyrði í starfsleyfi um aðgang þriðja aðila að niðurdælingarsvæði.
     Umhverfisstofnun ber að senda Eftirlitsstofnun EFTA drög að starfsleyfi til niðurdælingar áður en leyfi er veitt.
     
     d. (33. gr. d.)
Samsetning efnisstraums til niðurdælingar.
     Efnisstraumur til niðurdælingar koldíoxíðs skal ekki innihalda úrgang. Efnisstraumur getur þó innihaldið tilfallandi tengd efni úr uppsprettunni, fönguninni eða niðurdælingarferlinu og snefilefni sem bætt er í hann til að auðvelda vöktun niðurdælingarvökvans.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að blanda vatni við efnisstraum koldíoxíðs til steinrenningar til að auka öryggi niðurdælingar og/eða auðvelda niðurdælingu þess til steinrenningar.
     Rekstraraðili skal sjá til þess að innihald koldíoxíðsstraums sé efnagreint og að fram fari áhættumat sem staðfesti að mengunarstig koldíoxíðsstraums sé í samræmi við kröfur 1. mgr.
     Styrkur viðbættra efna skal ekki vera svo hár að hann:
  1. hafi skaðleg áhrif á áreiðanleika niðurdælingarsvæðis eða tengdra innviða,
  2. stofni umhverfinu eða heilbrigði fólks í hættu.

     
     e. (33. gr. e.)
Vöktun og skýrslugjöf.
     Vöktun rekstraraðila skal byggjast á vöktunaráætlun sem samþykkt hefur verið af Umhverfisstofnun.
     Rekstraraðili skal vakta niðurdælingargeymi, niðurdælingarsvæði og niðurdælingarbúnað, auk nærliggjandi svæðis ef við á, á rekstrartímabili.
     Rekstraraðili skal skila vöktunarskýrslu til Umhverfisstofnunar einu sinni á ári.
     
     f. (33. gr. f.)
Ábyrgð vegna leka eða umtalsverðrar hættu á leka og afturköllun starfsleyfis.
     Komi fram leki eða umtalsverð hætta á leka á niðurdælingarsvæði er Umhverfisstofnun heimilt að nýta fjárhagslega tryggingu, sem lögð hefur verið fram af rekstraraðila, til að bæta úr því ástandi, sbr. 1. mgr. 33. gr. j.
     Ef Umhverfisstofnun er tilkynnt um leka eða umtalsverða hættu á leka getur stofnunin, ef nauðsyn krefur, afturkallað starfsleyfi til niðurdælingar.
     Um ábyrgð á tjóni á umhverfi og loftslagi af völdum föngunar, flutnings og niðurdælingar koldíoxíðs til varanlegrar geymslu fer samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð og lögum um loftslagsmál.
     
     g. (33. gr. g.)
Flutningur ábyrgðar.
     Ábyrgð á niðurdælingarsvæði færist yfir til Umhverfisstofnunar þegar niðurdælingarsvæði hefur verið lokað, sbr. 16. gr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
  1. Öll tiltæk gögn benda til þess að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað eða steinrunnið allt að 20 árum eftir að niðurdælingarsvæði var lokað eða fyrr ef unnt er að sýna fram á að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað eða steinrunnið.
  2. Fjárhagslegar skyldur skv. 33. gr. j eru uppfylltar.
  3. Niðurdælingarsvæði hefur verið lokað og öll mannvirki tengd niðurdælingu fjarlægð eða frá þeim gengið.

     Rekstraraðili ber ábyrgð á viðhaldi, vöktun, skýrslugjöf og ráðstöfunum til úrbóta á grundvelli áætlunar þar að lútandi sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt þar til ábyrgð flyst til Umhverfisstofnunar.
     
     h. (33. gr. h.)
Aðgangur þriðja aðila að flutningskerfi og niðurdælingarsvæði.
     Mögulegir notendur skulu hafa aðgang að flutningskerfi koldíoxíðs og eða niðurdælingarsvæði rekstraraðila, í þeim tilgangi að flytja þangað og/eða dæla þar niður koldíoxíði til varanlegrar geymslu. Rekstraraðila er heimilt að innheimta fyrir það gjald.
     Rekstraraðila er heimilt að synja um aðgang að flutningskerfi og/eða niðurdælingarsvæði, svo sem vegna skorts á rými, ef tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og í þeim tilvikum þegar tenging er ekki til staðar og erfitt er að bæta úr.
     Synji rekstraraðili um aðgang að flutningskerfi og niðurdælingarsvæði skal sú ákvörðun rökstudd.
     
     i. (33. gr. i.)
Lausn deilumála vegna aðgangs að flutningskerfi og niðurdælingarsvæði.
     Komi upp ágreiningur um aðgang að flutningskerfi og niðurdælingarsvæði milli rekstraraðila og mögulegra notenda sker Umhverfisstofnun úr. Umhverfisstofnun skal taka tillit til:
  1. niðurdælingargetu sem eðlilegt er að sé tiltæk á niðurdælingarsvæði,
  2. markmiðs íslenskra stjórnvalda samkvæmt alþjóðalögum um kolefnisföngun og niðurdælingu koldíoxíðs,
  3. nauðsynjar þess að synja um aðgang í tilvikum þegar tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og erfitt er að bæta úr,
  4. fjölda þeirra aðila sem óska eftir aðgangi.

     Rekstraraðila ber að veita allar viðeigandi upplýsingar sem geta stuðlað að lausn ágreinings. Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun svo fljótt sem auðið er.
     Ef ágreiningur nær yfir landamæri ber að vinna að úrlausn hans eftir þeim reglum er gilda í því landi sem hefur lögsögu yfir flutningskerfi koldíoxíðs og niðurdælingarsvæði sem synjað hefur verið um aðgang að.
     
     j. (33. gr. j.)
Fjárhagslegar skyldur.
     Rekstraraðili skal, þegar hann sækir um starfsleyfi til niðurdælingar, sýna fram á að hann sé með tryggingu fyrir allri starfsemi á niðurdælingarsvæði.
     Rekstraraðili skal, áður en ábyrgð á niðurdælingarsvæði flyst til Umhverfisstofnunar, greiða fyrirsjáanlegan kostnað við vöktun þar til koldíoxíð er fullkomlega og varanlega aflokað eða steinrunnið.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: könnun og starfsleyfi til niðurdælingar, sbr. 33. gr. c.
  2. Við bætist ný málsgrein, er verður 7. mgr., svohljóðandi:
  3.      Umhverfisstofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á lögaðila sem veitir rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum sem máli skipta í tengslum við niðurdælingarsvæði, leyfisveitingar og tilkynningarskyldu um leka eða umtalsverða hættu á leka, sbr. VI. kafla A.


5. gr.

     Töluliður 6.9 í viðauka I við lögin orðast svo: Föngun koldíoxíðsstrauma frá stöðvum sem falla undir lög þessi til varanlegrar geymslu í jörðu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. viðauka við lögin:
  1. Í stað orðsins „geymslu“ í lið 3.11, 3.12, 3.13, 3.27 og 3.28 kemur: varanlegrar geymslu.
  2. Í stað orðsins „Geymslusvæði“ í lið 3.26 kemur: Niðurdælingarsvæði.


III. KAFLI
Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012.

7. gr.

     3. tölul. 3. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „5. mgr.“ í 2. málsl. 7. mgr. 14. gr. a og 12., 13., 14. og 16. tölul. 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: 6. mgr.

9. gr.

     Á eftir 4. mgr. 21. gr. b laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Rekstraraðilar skulu í vöktunaráætlun sinni gera grein fyrir niðurdælingu koldíoxíðs í samræmi við starfsleyfi til niðurdælingar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

10. gr.

     IX. kafli A laganna, Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum, fellur brott.

IV. KAFLI
Innleiðing og gildistaka.

11. gr.

     Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/2006 sem vísað er til í tölulið 21at í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 frá 15. júní 2012.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 2021.