Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1251, 151. löggjafarþing 366. mál: Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu (upplýsingaréttur almennings).
Lög nr. 34 29. apríl 2021.

Lög um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Þegar takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum eiga ekki við er skylt að veita upplýsingar um eftirtalin atriði sem varða starfsmenn Ríkisútvarpsins:
    1. nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn,
    2. nöfn starfsmanna og starfssvið,
    3. föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda,
    4. launakjör æðstu stjórnenda, og
    5. áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra.

  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Enn fremur er heimilt að veita upplýsingar, aðrar en viðkvæmar persónuupplýsingar, um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.
         Almenningur á rétt til aðgangs að upplýsingum skv. 2. mgr. jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli.
  5. Fyrirsögn greinarinnar verður: Önnur lög og upplýsingaréttur almennings.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. apríl 2021.