Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1197, 152. löggjafarþing 333. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (menntun og eftirlit).
Lög nr. 46 22. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (menntun og eftirlit).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sem fellur“ í 1. tölul. kemur: og annarri starfsemi eða athöfnum sem falla.
  2. 2. tölul. orðast svo: umgengni og hreinlæti utan húss, þar á meðal umhirðu og frágang lausamuna, og heimildir heilbrigðisnefndar til að gera kröfu um ráðstafanir vegna framangreinds.
  3. 20. tölul. orðast svo: lágmarkskröfur um menntun, þ.m.t. endurmenntun, námsefni, þjálfun, námskeið og hæfnispróf, sem og kröfur til þeirra sem halda námskeið og próf.


2. gr.

     Í stað orðanna „ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: skráður samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur skv. 1. mgr. 8. gr.

3. gr.

     3. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Rekstraraðili atvinnurekstrar, sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr., skal skrá starfsemi sína áður en hún hefst í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur skv. 1. mgr. Hlutaðeigandi eftirlitsaðili skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemi hans.

4. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í starfsleyfi.

5. gr.

     Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Sérákvæði um hollustuhætti, með fjórum nýjum greinum, 18. gr. a – 18. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (18. gr. a.)
Öryggi og sóttvarnir.
     Þau sem vinna á stöðum þar sem börn dvelja eða í íþróttamannvirkjum skulu hafa lágmarksþekkingu og hæfni í sóttvörnum, skyndihjálp og öryggisþáttum eftir því sem nánar er tilgreint í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 4. gr.
     
     b. (18. gr. b.)
Vinna við húðrof.
     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um sýkingavarnir og kröfur um hæfnispróf sem þau sem stunda húðrof, þ.e. húðgötun, húðflúrun eða veita meðferð með nálastungum, skulu standast, sbr. 4. gr.
     
     c. (18. gr. c.)
Laugarverðir, þjálfarar og sundkennarar.
     Þau sem í störfum sínum sinna laugargæslu, sundkennslu eða sundþjálfun skulu hafa lágmarksþekkingu á skyndihjálp, björgun úr laug og öðrum öryggisþáttum eftir því sem nánar er tilgreint í reglugerð sem ráðherra setur. Þau skulu jafnframt standast hæfnispróf og ber að viðhalda færni sinni og þekkingu, m.a. með námskeiðum, endurmenntun og verklegri þjálfun eftir því sem nánar er tilgreint í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 4. gr.
     
     d. (18. gr. d.)
Þjálfun, námskeið og próf.
     Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum sem stofnunin metur hæfa á grundvelli þekkingar og reynslu að hafa umsjón með þjálfun, námskeiðum, endurmenntun og hæfnisprófum sem kveðið er á um í þessum kafla.

6. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna orðast svo: Rekstraraðili atvinnurekstrar, sbr. viðauka I–IV, sem hefur í för með sér losun mengandi efna skal eftir því sem við á árlega skila rafrænt til Umhverfisstofnunar upplýsingum um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð og öðrum upplýsingum sem stofnunin telur þörf á til að sinna lögbundnu hlutverki sínu eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 53. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Útgáfu“ í 1. tölul. kemur: Námskeið, útgáfu.
  2. Við bætist nýr töluliður, sem verður 2. tölul., svohljóðandi: Skráningu rekstraraðila, sbr. 8. gr.


8. gr.

     Fyrirsögn 54. gr. laganna orðast svo: Eftirlit með starfsleyfis- og skráningarskyldum atvinnurekstri.

9. gr.

     Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Eftirlit með annarri starfsemi og athöfnum.
     Eftirlitsaðili getur haft eftirlit með starfsemi og athöfnum sem eru hvorki starfsleyfis- né skráningarskyldar í því skyni að kanna hvort starfsemin eða athafnirnar séu í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli 4. og 5. gr., sbr. hlutverk eftirlitsaðila skv. 47. og 51. gr. Ákvæði 2.–5. mgr. 54. gr. gilda um eftirlit með slíkri starfsemi og athöfnum eftir því sem við á og um frávik fer samkvæmt ákvæðum 55. gr. og um þvingunarúrræði skv. XVII. kafla.

10. gr.

     Fyrirsögn XIV. kafla laganna verður: Eftirlit með atvinnurekstri og athöfnum.

11. gr.

     Á eftir orðinu „reglugerðum“ í 1. málsl. 60. gr. laganna kemur: starfsleyfum.

12. gr.

     Við 1. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: mengunarvarnir, hvíld svæðis, skýrsluskil eða mælingar sem og ef starfað er umfram leyfileg mörk útgefins starfsleyfis rekstraraðila.

13. gr.

     Við 19. tölul. viðauka IV við lögin bætist: önnur en í viðauka I.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2022.