Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í febrúar 1996.  Útgáfa 120a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kafarastörf1)

1976 nr. 12 13. apríl    1)Rg. 88/1989.
1. gr. Enginn má í atvinnuskyni stunda köfun í ám eða vötnum, við strendur landsins eða frá íslenskum skipum hér við land, nema hann fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru í lögum þessum.
2. gr. Köfun merkir í lögum þessum allar athafnir undir yfirborði vatns eða sjávar og annars staðar þar sem loft undir yfirþrýstingi er notað til öndunar.
3. gr. Hver sá, er stunda vill köfun, skal fullnægja eftirgreindum skilyrðum:
    a. vera fullra 20 ára,
    b. hafa með fullnægjandi árangri gengið undir tilskilda læknisskoðun,
    c. hafa staðist kafarapróf samkvæmt 4. gr.
4. gr. Við kafarapróf þau, sem getur í c-lið 3. gr., skal sannreynt hvort sá, sem prófið tekur, hafi fullnægjandi fræðilega og verklega þekkingu á kafarastörfum, meðal annars hvort hann þekkir allar almennar ráðstafanir til öryggis kafaranum meðan hann vinnur starf sitt, svo og, að hann hafi nákvæma þekkingu á hlutum þeim, sem notast við köfun, og hvernig þeim skuli haldið við.
Ráðherra er heimilt að efna á hæfilegum fresti til námskeiða fyrir þá, sem þreyta vilja kafarapróf og fullnægja til þess skilyrðum a- og b-liðar 3. gr. Ákvæði um tilhögun námskeiða, námsgreina, kennslu og kennslugjöld skulu sett í reglugerð.
5. gr. Siglingamálastofnun ríkisins afhendir hverjum þeim, er fullnægir skilyrðum 3. gr., skírteini, sem viðkomandi sanni síðan hæfni sína með.
Halda skal nákvæma skrá um handhafa slíkra skírteina.
6. gr. Kafaraskírteini skv. 5. gr. skal endurnýja á fimm ára fresti og skal með umsókn um endurnýjun leggja fram fullnægjandi læknisvottorð.
Nú er heilbrigðisvottorð ekki fullnægjandi að mati Siglingamálastofnunar ríkisins, sbr. 5. gr., og skal þá ekki gefa út nýtt skírteini. Rísi ágreiningur um þetta atriði skal málinu vísað til ráðherra, sem gefur úrskurð eftir að hafa aflað sér umsagnar landlæknis. Eftir að handhafi skírteinis hefur náð 60 ára aldri skal endurnýjun gerð árlega.
7. gr. Allur kafarabúnaður, hverju nafni sem hann nefnist, skal vera af viðurkenndri gerð og merktur eftir því sem nauðsyn krefur, svo sem nafn framleiðanda, notkunarreglur o.þ.h.
Ráðherra setur reglur um viðurkenningu og eftirlit samkvæmt þessari grein svo og gjöld í því sambandi.
Gjöld samkvæmt grein þessari skulu lögtakskræf.
8. gr. Óheimilt er að ráða til köfunarstarfa eða til aðstoðar við djúpköfun aðra en handhafa köfunarskírteinis, nánari kröfur um aðstoðarmenn skal setja í reglugerð.
Eigandi köfunarbúnaðar ber ábyrgð á því, að hann fullnægi skilyrðum 7. gr.
9. gr. Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum, nema þyngri hegning liggi við að öðrum lögum.
10. gr. Kafaraskírteini, sem menn hafa öðlast fyrir gildistöku laga þessara erlendis frá og talin eru jafngild skírteinum þeim, sem veitt eru samkvæmt lögum þessum, skulu gilda áfram, en leita skal umsagnar Félags íslenskra kafara áður en skírteinin verða viðurkennd.
Hver sá maður, sem færir fullnægjandi sannanir fyrir því, að hann hafi fyrir gildistöku laga þessara stundað köfunarstörf í atvinnuskyni án þess að hafa öðlast kafaraskírteini, en hefur þó með fullnægjandi árangri gengið undir læknisskoðun, sbr. 3. gr., getur innan árs frá gildistöku laganna öðlast kafaraskírteini hjá ráðuneytinu, enda mæli Félag íslenskra kafara með því.