Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 1999.  Útgáfa 123a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Landsvirkjun

1983 nr. 42 23. mars1. gr. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Á ríkissjóður 50% eignarhluta í fyrirtækinu, Reykjavíkurborg 44,525% og Akureyrarbær 5,475%.
Hver eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum. Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna.
2. gr. Tilgangur Landsvirkjunar er:
    1. Að vinna, flytja og selja í heildsölu raforku til almenningsrafveitna svo og til iðjufyrirtækja samkvæmt sérstökum samningum að svo miklu leyti sem almenningsrafveitur hafa ekki milligöngu um slíka raforkusölu.
    2. Að byggja og reka raforkuver og meginstofnlínukerfi landsins.
    3. Að annast áætlanagerð um ný raforkuver og stofnlínur á orkusvæði Landsvirkjunar.
    4. Að vinna að því, í samvinnu við rafveitur á orkusvæði sínu, að raforka komi í stað annarra orkugjafa eftir því sem hagkvæmt er talið.
    5. Að hafa með viðunandi öryggi tiltæka nægilega raforku til þess að anna þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma.
[Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.] 1)
    1)L. 9/1997, 1. gr.
3. gr. Orkusvæði Landsvirkjunar er landið allt eftir því sem raforkuver hennar og stofnlínukerfi spanna.
Landsvirkjun er heimilt með samningum að kaupa raforkuver og stofnlínukerfi af öðrum aðilum og starfrækja þessi mannvirki.
Verkefni og orkusvæði Landsvirkjunar skal nánar tilgreint í reglugerð.
4. gr. Landsvirkjun er eigandi raforkuvera, annarra mannvirkja, vatnsréttinda og búnaðar sem fyrirtækið hefur eignast fyrir setningu laga þessara.
Samkvæmt sameignarsamningi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, dagsettum 27. febrúar 1981, tekur Landsvirkjun hinn 1. júlí 1983 við eignarhlut ríkissjóðs og Akureyrarbæjar í Laxárvirkjun.
5. gr. [Ríkissjóður, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa lagt Landsvirkjun til eigendaframlög í formi stofnframlaga, sbr. 4. gr. og sameignarsamning aðila frá 27. febrúar 1981, og í formi sérstakra eiginfjárframlaga.
Landsvirkjun greiðir eigendum arð af eigendaframlögum skv. 1. mgr. og af eigendaframlögum sem eigendur kunna síðar að leggja fram til Landsvirkjunar.
Eigendaframlög skv. 1. mgr., svo sem þau hafa verið endurmetin miðað við 31. desember 1995, sbr. samning eignaraðila frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi aðila, og eigendaframlög, er síðar kunna að verða lögð fram, skulu framreiknuð til verðlags hvers tíma samkvæmt byggingarvísitölu og ákveður ársfundur Landsvirkjunar, að fenginni tillögu stjórnar, arðgreiðslu sem hundraðshluta þeirrar fjárhæðar.
Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.] 1)
    1)L. 9/1997, 2. gr.
6. gr. Landsvirkjun reisir og rekur, samkvæmt lögum nr. 60/1981 um raforkuver og samkvæmt sérstöku samkomulagi við ríkisstjórn Íslands, dagsettu 11. ágúst 1982, eftirtalin raforkuver að fengnu leyfi ráðherra orkumála skv. 7. gr.: Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli. Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli. Villinganesvirkjun með allt að 40 MW afli.
[Landsvirkjun reisir og rekur, samkvæmt lögum nr. 60/1981, eftirtalin raforkuver, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra skv. 7. gr. þessara laga: Búrfellsvirkjun, með allt að 310 MW afli, Sultartangavirkjun, með allt að 130 MW afli, Hrauneyjafossvirkjun, með allt að 280 MW afli, Sigölduvirkjun, með allt að 200 MW afli, Kröfluvirkjun, með allt að 60 MW afli.
Landsvirkjun er heimilt, að fengnu samþykki iðnaðarráðherra, að gera ráðstafanir til að tryggja rekstur orkuvera á Þjórsársvæðinu, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga.] 1)
Landsvirkjun ber að hafa forgöngu um virkjanir á orkusvæði sínu svo að tryggt verði að afl- og orkuþörf viðskiptavina fyrirtækisins verði ávallt fullnægt. Einnig ber Landsvirkjun að kappkosta styrkingu og frekari uppbyggingu meginstofnlínukerfis síns með það fyrir augum að tryggja sem best rekstraröryggi Landsvirkjunarkerfisins í heild.
    1)L. 74/1990, 4. gr.
7. gr. Til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess sem fer með orkumál. Áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru raforkuver eða meginstofnlínur, skal Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með orkumál, uppdrætti af hinum fyrirhuguðu mannvirkjum, ásamt lýsingu á þeim.
Getur ráðherra krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.
8. gr. [Stjórn Landsvirkjunar skal skipuð sjö mönnum. Ráðherra orkumála skipar þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Ráðherra orkumála skipar formann stjórnarinnar úr hópi þeirra stjórnarmanna sem hann skipar. Á stjórnarfundum skal atkvæði formanns vega tvöfalt.
Varamenn, jafnmargir, skulu kosnir og skipaðir á sama hátt.
Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá ársfundi Landsvirkjunar á viðkomandi ári til ársfundar á næsta ári.
Ársfundur ákveður þóknun stjórnarmanna.
Nánari ákvæði um starfshætti stjórnarinnar skulu sett í reglugerð.] 1)
    1)L. 9/1997, 3. gr.
9. gr. [Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
Stjórn Landsvirkjunar fer með málefni fyrirtækisins og skal annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
Forstjóri annast daglegan rekstur fyrirtækisins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
Stjórn Landsvirkjunar skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
Einungis stjórn Landsvirkjunar getur veitt prókúruumboð.
Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.
Nánari ákvæði um starfssvið stjórnar og forstjóra skulu sett í reglugerð.] 1)
    1)L. 9/1997, 4. gr.
10. gr. [Halda skal í aprílmánuði ár hvert ársfund Landsvirkjunar. Á ársfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
    1. Skýrsla stjórnar um starfsemi Landsvirkjunar síðastliðið starfsár.
    2. Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
    3. Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Landsvirkjunar og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar á reikningsárinu.
    4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.
    5. Lýst kjöri stjórnar.
    6. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
    7. Umræður um önnur mál.
Rétt til setu á ársfundi eiga einn fulltrúi hvers eignaraðila, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Ráðherra orkumála tilnefnir fulltrúa ríkissjóðs á ársfundinum. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi skal vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra.
Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið ársfundar skal setja í reglugerð.] 1)
    1)L. 9/1997, 5. gr.
11. gr. [Halda skal sérstakan samráðsfund Landsvirkjunar þegar að loknum ársfundi fyrirtækisins ár hvert. Fulltrúar á samráðsfundi skulu vera sem hér segir:
Fjórir menn tilnefndir af ráðherra orkumála, fjórir menn kosnir af Reykjavíkurborg og fjórir menn kosnir af Akureyrarbæ. Þá skulu hver hinna einstöku landshlutasamtaka sveitarfélaga eiga rétt á að kjósa á aðalfundi sínum fjóra menn til setu á samráðsfundinum. Í reglugerð skal nánar kveðið á um kosningu fulltrúa á samráðsfund. Varamenn skulu skipaðir eða kosnir á sama hátt og aðalmenn.
Verði um að ræða fjölgun eignaraðila skal taka skipan samráðsfundar til endurskoðunar.
Stjórn og forstjóri Landsvirkjunar skulu sitja samráðsfundinn.
Á samráðsfundinum skal kynna afkomu Landsvirkjunar og áætlanir og ræða þau atriði er þar koma fram. Skal þar sérstaklega fjalla um mál er varða öryggi í vinnslu og flutning raforku um landið, svo og atriði er varða raforkuverð. Þá skal á samráðsfundi ræða raforkumál er varða einstaka landshluta eftir því sem ástæða er til.
Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið samráðsfunda skal setja í reglugerð.] 1)
    1)L. 9/1997, 6. gr.
12. gr. [Starfsár Landsvirkjunar og reikningsár er almanaksárið.
Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju og skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar.
Ársfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.
Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning Landsvirkjunar í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju og í því sambandi kanna bókhaldsgögn fyrirtækisins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og skal áritunin fylgja ársreikningnum sem skýrsla hans.] 1)
    1)L. 9/1997, 7. gr.
13. gr. Sama gjaldskrá skal gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á afhendingarstöðum Landsvirkjunar.
[Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun.] 1) Í gjaldskrá skal raforkuverðið við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku.
Landsvirkjun gerir orkusölusamninga við almenningsrafveitur og iðjuver innan þeirra marka sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma, við iðjuver sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess er fer með orkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.
Landsvirkjun gerir samrekstrarsamninga við aðra raforkuframleiðendur sem tengjast stofnlínukerfi fyrirtækisins.
    1)L. 9/1997, 8. gr.
14. gr. Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju, þarf Landsvirkjun að leita samþykkis eignaraðila.
Af hálfu ríkisins þurfa iðnaðar- og fjármálaráðherra að staðfesta slíkt samþykki.
15. gr. Heimilt er vegna virkjanaframkvæmda skv. 1. mgr. 6. gr. að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld, sérstakt tímabundið vörugjald og söluskatt af efni, vélum og tækjum til virkjana og stofnlína þeim tilheyrandi. Sama skal gilda um eldsneytisaflstöðvar.
Niðurfelling gjalda skv. 1. mgr. nær ekki til vinnuvéla vegna framkvæmdanna. Þó skal heimilt að endurgreiða gjöld vegna notkunar vinnuvéla við virkjunarframkvæmdir skv. 1. mgr. Við ákvörðun endurgreiðslu gjalda af vinnuvélum skal höfð hliðsjón af fyrningu vélanna vegna notkunar þeirra við virkjunarframkvæmdirnar.
Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar og getur þar m.a. kveðið á um fyrningargrunn og fyrningarhlutföll vegna endurgreiðslna gjalda af vinnuvélum.
16. gr. [Landsvirkjun er undanþegin tekjuskatti, eignarskatti, stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins, útsvari, aðstöðugjaldi svo og öðrum gjöldum til sveitarfélaga. Þó skal Landsvirkjun greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum Landsvirkjunar samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.] 1)
    1)L. 108/1988, 21. gr.
17. gr. [Sveitarfélögum, samtökum þeirra og sameignarfélögum þeirra er heimilt að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun með þessum skilyrðum:] 1)
    1. Sá sem hyggst hagnýta sér rétt til að gerast eignaraðili skal tilkynna það stjórn Landsvirkjunar með 12 mánaða fyrirvara.
    2. Sá sem eignaraðildar óskar tekur á sig þær skuldbindingar sem fylgja eignaraðild í Landsvirkjun.
    3. Sá sem eignaraðildar óskar skal leggja fram verðmæti er nema skulu minnst 1% af endurmetnum höfuðstól Landsvirkjunar í upphafi þess árs er eignaraðild kemur til framkvæmda.
Áður en eignaraðild kemur til framkvæmda skal hinn nýi eignaraðili inna af hendi framlag sitt til fyrirtækisins. Verði eignarhlutur ríkisins samkvæmt þessu undir helmingi skal ríkisstjórnin leggja Landsvirkjun til nýtt fjárframlag eða taka að sér greiðslu skulda, þannig að tryggð verði helmingseign af hálfu ríkisins.
Ef nýr eignaraðili á minni hlut í Landsvirkjun en sá sem minnstan hlut á við gildistöku laga þessara, þarf ekki að leita samþykkis hans til lántöku, sbr. 14. gr.
Ef fjölgun eignaraðila leiðir til þess að nýr eignaraðili hafi jafnan eða stærri hlut en sá aðili sem minnstan hlut á við gildistöku laga þessara, skal taka skipan stjórnar til endurskoðunar og fjölga stjórnarmönnum án þess þó að stjórnarhlutdeild raskist milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar.
    1)L. 108/1988, 22. gr.
18. gr. Ráðherra getur heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi sem nauðsynleg eru til framkvæmda samkvæmt lögum þessum. Um framkvæmd eignarnámsins fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
19. gr. Mál er varða framkvæmd laga þessara og aðild ríkisins að Landsvirkjun falla undir ráðherra þann er fer með orkumál.
20. gr. Nýr sameignarsamningur um Landsvirkjun milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, sem gerður var 27. febrúar 1981, tekur gildi hinn 1. júlí 1983. Fellur þá úr gildi sameignarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun, dags. 1. júlí 1965.
Eignaraðilar undirbúi, í samráði við stjórn Landsvirkjunar, reglugerð 1) fyrir fyrirtækið þar sem setja skal nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Reglugerðina setur ráðherra sá sem fer með orkumál.

    1)Rg. 259/1997.