Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. maí 1999.  Útgáfa 123b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

1999 nr. 43 22. marsI. kafli.
Gildissvið.
1. gr. Markmið laga þessara er að laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónvarpsefni hér á landi með því að endurgreiða tímabundið hluta af innlendum framleiðslukostnaði.
2. gr. Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi, sbr. 6. gr. þessara laga.
Með framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Skilyrði er þó að kostnaðurinn falli til hér á landi og að greidd laun og verktakagreiðslur séu sannanlega skattlagðar hér á landi.

II. kafli.
Umsókn.
3. gr. Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skal send iðnaðarráðuneytinu. Endurgreiðslubeiðni, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en framleiðsla hefst hér á landi. Iðnaðarráðherra skipar þriggja manna nefnd sem yfirfer umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Í nefndinni skulu eiga sæti fulltrúar menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Fulltrúi iðnaðarráðherra skal jafnframt vera formaður.
Skilyrði endurgreiðslu.
4. gr. Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði myndar skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
    a. að stofnað sé sérstakt félag um framleiðslu myndarinnar hér á landi,
    b. að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun,
    c. að lágmarksframleiðslukostnaður við gerð myndar hér á landi sé 80 millj. kr., sbr. þó 2. mgr. 5. gr.,
    d. að endurskoðað kostnaðaruppgjör liggi fyrir að lokinni framleiðslu myndar,
    e. að framleiðslu myndar hér á landi sé lokið innan þriggja ára frá því að endurgreiðslubeiðnin er móttekin.
Sé skilyrðum 1. mgr. ekki fullnægt er heimilt að hafna endurgreiðslubeiðni.
Verði breyting á áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. b-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal iðnaðarráðuneyti send ný kostnaðaráætlun.

III. kafli.
Endurgreiðsla.
5. gr. Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar skal vera sem hér segir:
Á árunum 1999–2002 12%
Á árunum 2003–2005 9%
Endurgreiðsluhlutfall skv. 1. mgr. skal lækka um helming sé framleiðslukostnaður á bilinu 80–100 millj. kr. en um fjórðung sé framleiðslukostnaður á bilinu 101–120 millj. kr.
6. gr. Iðnaðarráðherra ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Ákvörðun um endurgreiðslu skal byggjast á endurskoðuðu kostnaðaruppgjöri. Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar verður miðað við það ár sem framleiðsla hefst hér á landi.
Ekki verður endurgreitt fyrr en að lokinni framleiðslu hérlendis og þegar viðkomandi félagi skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. hefur verið slitið. Frá endurgreiðslu skal draga vangreidda skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.
7. gr. Hafi umsækjandi hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu myndar fær hann ekki endurgreitt samkvæmt lögum þessum.

IV. kafli.
8. gr. Iðnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
Gildistaka.
9. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.