Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2007. Útgáfa 134. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa
2007 nr. 30 23. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Taka gildi 1. janúar 2008.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að tryggja öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra og efla varnir gegn mengun sjávar.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um áhafnir íslenskra skipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa, annarra en farþegaskipa og flutningaskipa. Lög þessi taka jafnframt til áhafna þeirra erlendu skemmtibáta sem notaðir eru að staðaldri í íslenskri landhelgi, sbr. 4. mgr. 7. gr.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Alþjóðasamþykktin er alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skips samkvæmt STCW eða STCW-F.
2. Áritun er viðurkenning skírteina erlendra ríkisborgara til starfa á íslenskum skipum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
3. Brúttótonn er mælieining fyrir heildarstærð skips eins og hún er ákvörðuð samkvæmt lögum um skipamælingar. Skip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um skipamælingar frá 23. júní 1969. Skip sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum reglugerðar um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.
4. Farsvið er nánari landfræðileg skilgreining á því hafsvæði sem skipi er heimilt að sigla um að teknu tilliti til smíði, ástands og stærðar skips, búnaðar þess, mönnunar og umhverfisþátta.
5. Fiskiskip er hvert það skip, skrásett sem fiskiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem notað er í atvinnuskyni til að veiða fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
6. Fjarskiptamaður er lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar. Með alþjóðaradíóreglugerðinni er átt við reglur um fjarskipti sem eru viðauki við, eða sem taldar eru viðauki við, alþjóðafjarskiptasamþykktina.
7. Fyrsti vélstjóri er sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og tekur við vélstjórn og ábyrgð yfirvélstjóra í forföllum hans. Fyrsti vélstjóri er sá sami og telst annar vélstjóri samkvæmt alþjóðasamþykktinni og skal uppfylla sömu kröfur og þar eru gerðar.
8. Innanlandssigling er sigling innan íslenskrar efnahagslögsögu.
9. Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi sem er í förum og fullnægir skilyrðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
10. Skemmtibátur er hvert það skip, skrásett sem skemmtiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem er ekki notað í atvinnuskyni og ætlað til skemmtisiglinga, óháð þeirri orku sem knýr skipið.
11. Skemmtibátaskírteini er skjal sem er í gildi og er staðfesting á réttindum samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
12. Skip er hvert það skip sem skráð er samkvæmt lögum um skráningu skipa og lög þessi taka til.
13. Skipherra er sá sem fer með æðsta vald á varðskipi.
14. Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi, sbr. ákvæði sjómannalaga.
15. Skipstjórnarmaður er hver sá sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um til að fá útgefið skírteini til skipstjórnar.
16. Skírteini ( skipstjórnarskírteini og vélstjórnarskírteini) er skjal sem er í gildi og er staðfesting á atvinnuréttindum samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í skírteininu skal tilgreina þá stöðu sem skírteinishafi hefur heimild til að gegna um borð í skipi miðað við gerð, stærð og vélarafl þess.
17. Skráningarlengd er sú lengd skips sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum um mælingar skipa.
18. Smáskip eru skip sem eru 12 metrar að skráningarlengd eða styttri.
19. Strandsigling er sigling innan 50 sjómílna frá strönd.
20. Stýrimaður er sá stýrimaður sem er lægra settur en yfirstýrimaður.
21. STCW er alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skipa frá 1978, með síðari breytingum.
22. Útgerðarmaður er sá sem mannar skipið, ræður ferðum þess, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðsins af þeim.
23. Varðskip er hvert það skip, skrásett sem varðskip eða gæsluskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem notað er til landhelgisgæslu og björgunarstarfa undir yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
24. Vélarafl er bremsuafl, þ.e. heildarúttaksafl véla sem notaðar eru til að knýja skipið áfram, eins og það er tilgreint í skráningarskírteini skips.
25. Vélavörður er sá sem hefur lokið vélstjórnarnámi samkvæmt reglugerð.
26. Undirvélstjóri er sá vélstjóri sem er lægra settur en yfirvélstjóri eða fyrsti vélstjóri.
27. Vélstjórnarmaður er hver sá sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um til að fá útgefið skírteini til vélstjórnar.
28. Yfirstýrimaður gengur næst skipstjóra og tekur við ábyrgð og skipstjórn í forföllum hans.
29. Yfirvélstjóri er æðsti vélstjóri um borð og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess.
30. Önnur skip eru hver þau skip sem ekki teljast vera farþegaskip eða flutningaskip samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og teljast ekki vera fiskiskip, skemmtibátar eða varðskip samkvæmt lögum þessum.
II. kafli. Nám og réttindi.
4. gr. Menntun og þjálfun.
Menntun og þjálfun áhafna skipa annast skólar sem uppfylla kröfur alþjóðasamþykktarinnar. Um inntökuskilyrði í þá skóla, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nám og kennsla í þeim skólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.
Starfsgreinaráð sjávarútvegs- og siglingagreina, sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla, gerir tillögu til menntamálaráðherra, að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands, um námskrár skólanna.
Menntamálaráðuneytið setur reglugerð varðandi námskröfur til réttinda á smáskipum.
Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með að nám við þá skóla uppfylli kröfur alþjóðasamþykktarinnar.
5. gr. Skipstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Sá einn sem er lögmætur handhafi skipstjórnarskírteinis skv. 8. gr. og hefur fullnægt skilyrðum reglugerðar sem samgönguráðherra setur hefur rétt til starfa við skipstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Lágmarksaldur til að fá útgefið skipstjórnarskírteini er 18 ár.
Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók, innlendri eða erlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar Íslands. Til staðfestingar siglingatíma á skipum þar sem ekki er krafist lögskráningar má leggja fram vottorð tveggja trúverðugra manna.
Skipstjórnarmenn skulu uppfylla kröfur til þess að öðlast skírteini fjarskiptamanns eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipstjórnarmenntun til grundvallar réttindum, m.a. að teknu tilliti til stærðar skips og farsviðs þess, auk aldurs og siglingatíma skipstjórnarmanns.
6. gr. Vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Sá einn sem er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis skv. 8. gr. og hefur fullnægt skilyrðum reglugerðar sem samgönguráðherra setur hefur rétt til starfa við vélstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Lágmarksaldur til að fá útgefið vélstjórnarskírteini er 18 ár.
Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók, innlendri eða erlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar Íslands. Til staðfestingar siglingatíma á skipum þar sem ekki er krafist lögskráningar má leggja fram vottorð tveggja trúverðugra manna.
Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vélgæslu- og vélstjórnarmenntun til grundvallar réttindum, m.a. að teknu tilliti til stærðar skips, vélarafls og farsviðs þess, auk aldurs, starfsreynslu og siglingatíma vélgæslu- og vélstjórnarmanns.
7. gr. Skemmtibátar.
Sá einn sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til stjórnunar skráningarskylds skemmtibáts hefur rétt til að annast stjórn hans að uppfylltum skilyrðum sem samgönguráðherra setur um aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn. Menntamálaráðuneytið setur reglur um menntun og þjálfun til stjórnunar skemmtibátum.
Samgönguráðherra setur nánari reglur um skemmtibáta, þ.m.t. um útgáfu skírteina, gildistíma og endurnýjun þeirra, gerð skemmtibáta, stærð þeirra, afl og farsvið og um öryggiskröfur sem gerðar eru til skemmtibáta og stjórnenda þeirra.
Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð kröfur skv. 1. og 2. mgr. um stjórn skemmtibáta sem ekki eru skráningarskyldir en hafa vélarafl sem er meira en 50 kW.
Þeir sem stjórna skemmtibátum sem skrásettir eru erlendis og notaðir eru í íslenskri landhelgi að staðaldri skulu uppfylla kröfur reglugerðar skv. 1.–3. mgr. um skírteini eða vera handhafar annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Siglingastofnunar Íslands.
III. kafli. Skírteini.
8. gr. Útgáfa skírteina.
Hver íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum laga þessara um menntun, siglingatíma, aldur og heilsufar á rétt á að fá útgefið skírteini og stunda samkvæmt því atvinnu sem skipstjórnarmaður og/eða vélstjórnarmaður á íslenskum skipum.
Sama rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyingar.
Siglingastofnun Íslands gefur út skírteini til vélstjórnar- og skipstjórnarréttinda samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Skírteinin skulu rituð á íslensku og ensku. Útgáfa skipstjórnarskírteina og vélstjórnarskírteina og áritanir þeirra skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Umsóknum um skírteini skal skilað til Siglingastofnunar Íslands á þar til gerðu umsóknareyðublaði eða rafrænt samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar.
Skírteini skv. 1.–3. mgr. skal veita umsækjanda sem:
a. Fullnægir skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, m.a. um menntun, þjálfun og aldur. Skal hann m.a. hafa sótt þau námskeið sem krafist er til endurnýjunar atvinnuréttinda.
b. Er svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Skal hann leggja fram vottorð læknis til staðfestingar á hæfni til vaktstöðu og því að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur.
c. Hefur að baki fullnægjandi siglingatíma, sbr. 5. og 6. gr. og reglugerð þar um. Hann skal færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Staðfesting lögskráningarstjóra eða rétt útfyllt og árituð sjóferðabók telst fullnægjandi sönnun á siglingatíma. Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma á fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar Íslands.
d. Auk þess að uppfylla skilyrði a–c-liðar skal sá sem gegnir stöðu skipstjóra á íslensku skipi og hefur íslensku ekki að móðurmáli hafa staðist sérstakt próf um kunnáttu og færni í íslensku og þekkingu á íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem hann fær réttindi til að gegna. Samgönguráðherra setur reglur um framkvæmd prófa samkvæmt ákvæði þessu.
Frumrit skírteinis sem krafist er skal ávallt vera um borð í því skipi sem skírteinishafi er skráður eða ráðinn á samkvæmt lögskráningarkerfi sjómanna og skal hann eða skipstjóri geta framvísað því þegar þess er óskað vegna eftirlits.
Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir útgefin skírteini.
9. gr. Gildistími og endurnýjun skírteina.
Skírteini sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum skulu gilda í allt að fimm árum frá útgáfudegi.
Heimilt er vegna sérstakra aðstæðna að gefa út bráðabirgðaskírteini sem gildir allt að 60 dögum.
Endurnýja skal skírteini sem gefin eru út samkvæmt alþjóðasamþykktinni til allt að fimm árum í senn. Heimilt er að endurnýja skírteini sem ekki falla undir alþjóðasamþykktina til lengri tíma eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Við endurnýjun skírteina skal umsækjandi:
a. fullnægja þeim heilbrigðiskröfum sem gerðar eru á hverjum tíma til að öðlast skírteini, þ.m.t. varðandi sjón og heyrn, sbr. b-lið 4. mgr. 8. gr., og
b. hafa að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til í a.m.k. eitt ár á síðustu fimm árum, sbr. c-lið 4. mgr. 8. gr. eða
c. hafa verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst a.m.k. sambærilegt við siglingatíma sem krafist er skv. b-lið þessarar málsgreinar eða með því að:
1. hafa staðist viðurkennd próf eða lokið á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði/ endurmenntunarnámskeiði eða
2. hafa a.m.k. þriggja mánaða siglingatíma í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af Siglingastofnun Íslands og skulu þau m.a. taka mið af gildandi alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó, alþjóðasamþykktinni og reglum um varnir gegn mengun sjávar.
10. gr. Viðurkenning erlendra skírteina.
Siglingastofnun Íslands er heimilt að viðurkenna og árita erlend skírteini í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Stofnuninni er heimilt að veita handhöfum erlendra skírteina leyfi í allt að þremur mánuðum til að gegna tilteknu starfi á ákveðnu skipi þar sem krafist er skipstjórnar- eða vélstjórnarréttinda á meðan staðreynt er lögmæti hins erlenda skírteinis, enda:
a. séu lögð fram fullgild gögn um menntun sem samræmist kröfum til skip- eða vélstjórnar samkvæmt lögum þessum,
b. geti viðkomandi skilið fyrirmæli yfirmanna skipsins og stjórnað verkum í þeirra umboði.
Um umsóknir frá ríkisborgurum Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á réttindum til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara í samræmi við lög og reglur um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum. Hið sama gildir um umsóknir frá ríkisborgurum aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu sem og Færeyingum.
Um umsóknir frá ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á réttindum til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara eftir ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur.
Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir viðurkennd erlend skírteini.
11. gr. Afturköllun skírteinis.
Siglingastofnun Íslands er heimilt að afturkalla skírteini ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim til að vera skírteinishafi. Þá er stofnuninni heimilt að afturkalla skírteini hafi það verið gefið út á röngum forsendum eða fyrir mistök. Við afturköllun skírteinis skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
Nú telur Siglingastofnun Íslands að skilyrði séu fyrir hendi til sviptingar starfsréttinda og er stofnuninni þá heimilt að svipta viðkomandi starfsréttindum til bráðabirgða. Skal slík svipting vera tímabundin eða ákvörðuð til þess tíma þegar endanleg ákvörðun dómstóls um sviptinguna liggur fyrir.
Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.
Bera má slíka ákvörðun Siglingastofnunar Íslands undir dómstóla samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og skal stofnunin leiðbeina viðkomandi um þann rétt.
IV. kafli. Mönnun og undanþágur.
12. gr. Lágmarksfjöldi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Á hverju fiskiskipi og öðru skipi skal vera skipstjóri. Um fjölda stýrimanna á fiskiskipum og öðrum skipum fer sem hér segir:
a. Á skipi sem er styttra en 12 metrar að skráningarlengd má skipstjóri vera hinn sami og vélavörður sé hann eini réttindamaðurinn í áhöfn, enda taki vinnu- og hvíldartími mið af 64. gr. sjómannalaga.
b. Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður ef útivera skips fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er styttri en 14 klst. er heimilt að vera án stýrimanns, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. Siglingastofnun Íslands skal halda skrá yfir þau skip sem slíka heimild hafa hlotið. Séu reglur um skilyrtan útivistartíma brotnar skal mönnunarnefnd afturkalla heimildina.
c. Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
d. Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
Á hverju varðskipi skal vera skipherra. Um fjölda stýrimanna á varðskipum fer sem hér segir:
a. Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
b. Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
c. Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera þrír stýrimenn.
Um fjölda vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum fer sem hér segir:
a. Á skipi með vélarafl frá og með 250 kW til og með 750 kW skal vera:
1. Vélavörður, sé skipið styttra en 12 metrar að skráningarlengd. Vélavörður má vera hinn sami og skipstjóri sé hann eini réttindamaðurinn í áhöfn, enda taki vinnu- og hvíldartími mið af 64. gr. sjómannalaga.
2. Yfirvélstjóri, sé skipið 12 metrar að skráningarlengd eða lengra.
3. Yfirvélstjóri og vélavörður, sé skipið 12 metrar að skráningarlengd eða lengra og útivera þess fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er styttri en 14 klst. er heimilt að vera án vélavarðar, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. Siglingastofnun Íslands skal halda skrá yfir þau skip sem slíka heimild hafa hlotið. Séu reglur um skilyrtan útivistartíma brotnar skal mönnunarnefnd afturkalla heimildina.
b. Á skipi með vélarafl frá og með 751 kW til og með 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri og fyrsti vélstjóri.
c. Á skipi með vélarafl yfir 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri og undirvélstjóri.
Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð er ekki skylt að vélavörður sé í áhöfn skips sem er 12 metrar eða styttra að skráningarlengd ef gerður hefur verið samningur við þjónustuaðila um viðhald vélbúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Siglingastofnun Íslands.
Lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna um borð í skipum skv. 1.–3. mgr. skal að öðru leyti taka mið af úthaldi skips og tryggja að ákvæðum 64. gr. sjómannalaga um vinnu og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum sé fullnægt ásamt ákvæðum reglugerðar um sama efni.
Mönnunarnefnd skv. 13. gr. ákveður undanþágur frá mönnun skipa samkvæmt þessari grein.
13. gr. Mönnunarnefnd.
Samgönguráðherra skipar fimm menn í mönnunarnefnd skipa, til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara. Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samtökum útgerðaraðila, einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einum tilnefndum af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Samgönguráðherra skipar formann og varamann hans án tilnefningar og skal a.m.k. annar þeirra uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
Mönnunarnefnd hefur heimild til að:
a. ákveða frávik frá ákvæðum 12. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum eftir því sem tilefni gefst til, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar, þar sem m.a. skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér,
b. ákveða tímabundna breytingu á mönnun skips til reynslu með skilyrðum sem nefndin setur, þó ekki lengur en sex mánuði í senn,
c. ákveða að sjómaður sem hlotið hefur skilgreinda þjálfun undir staðfestri leiðsögn skipstjóra eða yfirvélstjóra geti fengið undanþágu til starfa sem undirstýrimaður eða undirvélstjóri á því skipi sem hann fékk þjálfunina á eða öðru sambærilegu skipi,
d. meta starfstíma við vélstjórn til atvinnuréttinda samkvæmt ákvæðum reglugerðar.
Siglingastofnun Íslands ber ábyrgð á því að ákvörðun mönnunarnefndar um frávik frá 12. gr. sé skráð í lögskráningarkerfi sjómanna. Nefndin skal senda Siglingastofnun og lögskráningarstjóra í því umdæmi þar sem lögskráning skal fara fram samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna samrit ákvörðunar um mönnun skips.
14. gr. Undanþágur.
Samgönguráðherra skipar fimm menn í undanþágunefnd til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara. Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samtökum útgerðarmanna, einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einum tilnefndum af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Samgönguráðherra skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar og skal a.m.k. annar þeirra uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
Í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin réttindi vantar til starfa getur undanþágunefnd veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi umsækjandi ekki tilskilin réttindi, sbr. 5. og 6. gr., enda telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og að viðkomandi sé hæfur til að annast starfið á öruggan hátt.
Undanþágu má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfyllir kröfur reglugerðar um undanþágur. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu lægri stöðu má veita þeim undanþágu sem að mati undanþágunefndar hefur næga þekkingu og reynslu.
Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra skv. 5. gr. eða yfirvélstjóra skv. 6. gr. nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.
Undanþágunefnd veitir undanþágur til starfa á skipum samkvæmt lögum þessum.
Undanþágur samkvæmt þessari grein má ekki veita til lengri tíma en sex mánaða.
V. kafli. Ýmis ákvæði.
15. gr. Ábyrgð skipstjóra.
Skipstjóri á íslensku skipi ber fulla ábyrgð á framkvæmd þeirra laga og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.
16. gr. Vafatilvik.
Leiki vafi á því hvort skip telst fiskiskip, varðskip, skemmtibátur eða annað skip samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sker Siglingastofnun Íslands úr um það.
17. gr. Kærur.
Ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands, undanþágunefndar og mönnunarnefndar samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til samgönguráðuneytisins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
18. gr. Gjöld.
Greiða skal gjald fyrir útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina og veitingu undanþágna samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands sem af því hlýst.
Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.
19. gr. Reglugerð.
Samgönguráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um próf, skírteini og skilyrði þeirra, útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, vaktstöður, undanþágur, mönnun skipa og skipan og starfshætti undanþágunefndar og mönnunarnefndar.
Ákvæði reglugerðarinnar skulu að lágmarki uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktinni.
Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal ráðherra setja með reglugerð nánari ákvæði um lágmarksréttindi til skipstjórnar og vélgæslu á björgunarskipum sem gegna sérhæfðu hlutverki. Björgunarskip skulu mönnuð skipstjórnarmönnum sem hafi að lágmarki 30 brúttórúmlesta réttindi eða önnur sambærileg réttindi og sem hlotið hafa þjálfun á sérstökum námskeiðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Slysavarnaskóla sjómanna.
20. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum. Beita skal ákvæðum III. kafla almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.
21. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.
…
Ákvæði til bráðabirgða.
Þeir sem eru lögmætir handhafar skírteina samkvæmt lögum sem falla úr gildi við gildistöku laga þessara skulu halda réttindum sínum óskertum, enda fullnægi þeir öðrum kröfum laga þessara, sbr. 4. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 9. gr.
Heimilt er að gefa út ný skírteini í stað eldri skírteina í samræmi við ákvæði reglugerðar. Nánar skal kveðið á um gildistíma eldri skírteina í reglugerð.
Hafi skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa á skipi samkvæmt brúttórúmlestaviðmiðun eldri laga, sem hann hefur ekki réttindi til að gegna samkvæmt lögum þessum, skal hann eigi að síður eiga rétt á að fá útgefin skírteini til þess að gegna sömu störfum á því skipi og skipum sem eins háttar um, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Þeir sem við gildistöku laga þessara eru lögmætir handhafar 30 brúttórúmlesta atvinnuréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum sem eru 12 metrar og styttri að skráningarlengd í strandsiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu. Þeir sem þegar hafa öðlast 30 brúttórúmlesta atvinnuréttindi halda þeim.
Þeir sem eru lögmætir handhafar 80 brúttórúmlesta skipstjórnarréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum allt að 24 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu.
Þeir sem eru lögmætir handhafar 200 brúttórúmlesta skipstjórnarréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum allt að 45 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu.
Skipa skal í nefndir skv. 13. og 14. gr. að nýju við gildistöku laga þessara.
Viðauki.1)
1)Um texta viðaukans vísast til Stjtíð. A 2007, bls. 67.