Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2008.  Útgáfa 135a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa

2005 nr. 24 21. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2005.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Ákvæði laga þessara taka til slysa og atvika sem tengjast umferð ökutækja og í lögum þessum eru nefnd umferðarslys.
Rannsóknir umferðarslysa samkvæmt lögum þessum skulu ná til rannsókna einstakra umferðarslysa og til flokka umferðarslysa eða umferðarslysa sem teljast af sama tagi.
Samgönguráðherra skal í reglugerð tilgreina nánar hvað fellur undir umferðarslys í lögum þessum.
2. gr. Rannsóknir umferðarslysa samkvæmt lögum þessum skulu miða að því að leiða í ljós orsakir umferðarslyss til að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og draga úr afleiðingum sambærilegra slysa og stuðla með því að auknu öryggi í umferðinni.
Rannsókn umferðarslysa samkvæmt lögum þessum er óháð rannsókn umferðarslysa samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

II. kafli. Skipulag umferðarslysarannsókna.
3. gr. Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum.
Í rannsóknarnefnd umferðarslysa eiga sæti þrír menn sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og skal einn skipaður formaður. Að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Samgönguráðherra skipar varamenn til sama tíma.
Allur kostnaður við starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa greiðist úr ríkissjóði.
4. gr. Samgönguráðherra skipar nefndinni forstöðumann til fimm ára í senn.
Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og gætir þess að hann sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma.
Forstöðumaður ræður til nefndarinnar annað starfsfólk.
5. gr. Þeir sem skipaðir eru í rannsóknarnefnd umferðarslysa skulu hafa menntun eða starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við umferðarslysarannsóknir.
Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
6. gr. Forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að tilnefna staðgengil rannsóknarstjóra.
Forstöðumaður skal hafa sérmenntun eða starfsreynslu á sviði umferðarmála eða umferðarslysarannsókna.
Um sérstakt hæfi forstöðumanns fer eftir því sem segir í 2. mgr. 5. gr.

III. kafli. Tilkynning um umferðarslys. Framkvæmd rannsóknar.
7. gr. Verði umferðarslys, sbr. 1. gr., skal vaktstöð samræmdrar neyðarsímsvörunar, eða lögreglan, svo fljótt sem verða má koma boðum um umferðarslysið til rannsóknarstjóra. Rannsóknarstjóri skal tilkynna vaktstöð eða lögreglu svo fljótt sem kostur er hvort hann hyggst koma á vettvang slyssins.
8. gr. Rannsóknarstjóri skal hafa óhindraðan aðgang að vettvangi umferðarslyss. Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal hafa aðgang að vettvangi umferðarslyss í samráði við lögreglu fari þar fram lögreglurannsókn.
Rannsóknarstjóri skal við vettvangsrannsókn hafa rétt til að óska aðstoðar lögreglu.
Rannsóknarstjóri skal hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi þegar sérstaklega stendur á.
Rannsóknarstjóri skal við vettvangsrannsókn hafa samráð við lögreglu rannsaki lögregla vettvang.
9. gr. Óski rannsóknarstjóri þess á vettvangi skal hvorki hreyfa né flytja á brott ökutæki eða hrófla við ummerkjum slyssins uns rannsókn er lokið nema að svo miklu leyti sem slíkt er talið nauðsynlegt til verndar veigameiri hagsmunum.
Rannsóknarstjóra er heimilt að taka til vörslu ökutæki eða hluta þess og annað ef ætla má að það geti haft þýðingu við rannsókn.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal svo fljótt sem verða má láta af hendi ökutæki, hluta þess eða annað það sem nefndin hefur tekið í sína vörslu.
Hafi lögregla tekið ökutæki, hluta þess eða önnur gögn sem tengjast umferðarslysi í sínar vörslur á grundvelli laga um meðferð opinberra mála er rannsóknarstjóra heimilt að krefjast þess að slíkt verði ekki afhent eiganda eða lögmætum rétthafa nema að höfðu samráði við rannsóknarstjóra.
10. gr. Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt við rannsókn mála að leita eftir upplýsingum varðandi ökutæki, ökumenn, farþega, vitni og annað sem kann að skipta máli varðandi rannsóknina. Heimild þessi nær til öflunar upplýsinga og gagna hjá stjórnvöldum og öðrum, þar á meðal lögreglu, vátryggingafélögum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Er þessum aðilum skylt að láta nefndinni slíkar upplýsingar í té.
Heimild 1. mgr. nær til persónugreinanlegra upplýsinga, þ.m.t. viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við sjúkra- og krufningarskýrslur, auk annarra upplýsinga sem nefndin telur nauðsynlegar í þágu rannsóknar máls.
Meðferð og vinnsla nefndarinnar á persónuupplýsingum skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.
Rannsóknarstjóra og rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að taka skýrslur af ökumanni, farþegum og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyss.
Rannsóknarstjóra og rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að hljóðrita skýrslur aðila og vitna. Skýrslur aðila og vitna teljast réttar nema gerðar séu athugasemdir við þær.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana og stofnana sem starfa á sviði umferðarmála, innlendra sem erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn umferðarslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni þessa aðstoð.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa er heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt.
11. gr. Rannsóknarnefnd umferðarslysa, forstöðumaður, starfslið og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum í þágu nefndarinnar.
Um aðgang að rannsóknargögnum og öðrum gögnum fer samkvæmt ákvæðum IV. kafla.

IV. kafli. Skýrslur um rannsóknir umferðarslysa. Aðgangur að gögnum.
12. gr. Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal gefa út og birta skýrslu um störf sín ár hvert. Í skýrslunni skal m.a. vera að finna yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir auk almennra tillagna um öryggisúrbætur á sviði umferðarmála.
Þegar rannsókn einstaks máls er lokið skv. 1. gr. getur rannsóknarnefnd umferðarslysa samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar telji hún tilefni til. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skal skýrslan gerð opinber svo fljótt sem verða má.
Rannsóknarnefndin getur beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn gefur tilefni til og skulu þeir sem tillögum er beint til taka tilhlýðilegt tillit til tilmælanna ef kostur er og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Rannsóknarnefndin getur að liðnum sex mánuðum frá því að tilmæli voru gefin út krafist upplýsinga um hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum.
Við skýrslugerð samkvæmt ákvæði þessu skal rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa aðilum þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal fella úr skýrslum sínum um einstök mál skv. 2. mgr. beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, svo og gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, sé rannsókn opinbers máls ekki lokið nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss. Nöfn aðila er tengjast umferðarslysi skulu jafnframt afmáð úr skýrslu nefndarinnar.
Í skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.
13. gr. Óheimilt er rannsóknarnefnd umferðarslysa að veita aðgang að trúnaðargögnum þeim sem nefndin aflar í tengslum við rannsókn einstakra mála nema að því marki sem slíkt reynist nauðsynlegt vegna umsagna aðila um skýrslur rannsóknarnefndar umferðarslysa. Eru slík gögn undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, nr. 50/1996.
Til trúnaðargagna í skilningi 1. mgr. teljast m.a. heilsufarslegar upplýsingar, álitsgerðir sem aflað hefur verið í tengslum við rannsókn máls og skýrslur vitna og annarra aðila.
Umsagnaraðilar og þeir sem starfa í þeirra þágu, sbr. 12. gr., skulu virða þagnarskyldu um hvaðeina það sem þeim verður kunnugt vegna aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæði þessu. Er umsagnaraðilum óheimilt að veita öðrum en þeim sem starfa í þeirra þágu við að veita umsögn upplýsingar um eða aðgang að slíkum gögnum.
14. gr. Skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa um rannsókn einstakra slysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum.

V. kafli. Endurupptaka mála o.fl.
15. gr. Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur endurupptekið mál þótt rannsókn nefndarinnar sé lokið, sbr. 12. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati.
Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd umferðarslysa að rannsaka nánar tiltekið umferðarslys eða sérstök atriði sem tengjast umferðarslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn rannsóknarnefndarinnar er lokið.

VI. kafli. Reglugerðarheimild. Gildistaka.
16. gr. Samgönguráðherra setur í reglugerð 1) nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um skilgreiningu umferðarslysa skv. 1. gr., meðferð og vörslu málsgagna, persónuskilríki með upplýsingum um réttarstöðu nefndarmanna, rannsóknarstjóra og annarra starfsmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað, tæki og þjálfun nefndarinnar til vettvangsrannsókna, um fyrirkomulag á birtingu skýrslna nefndarinnar og aðra þætti málsmeðferðar hjá nefndinni.
    1)Rg. 702/2005.
17. gr. Lög þessi taka gildi 1. september 2005. …
Ákvæði til bráðabirgða. Skipunartíma rannsóknarnefndar umferðarslysa skv. 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, lýkur við gildistöku laga þessara.