Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 15. apríl 2018.  Útgáfa 148b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kjararáð

2016 nr. 130 30. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2017. Breytt með l. 37/2017 (tóku gildi 16. júní 2017).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Verkefni kjararáðs.
Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, sendiherra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Kjararáð ákveður einnig laun og starfskjör nefndarmanna yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála sem eru í fullu starfi. Í störfum sínum skal kjararáð fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við á, sem og ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012.
2. gr. Skipun kjararáðs.
Kjararáð skal skipað fimm ráðsmönnum og jafnmörgum vararáðsmönnum.
Alþingi kýs þrjá ráðsmenn. Hæstiréttur skipar einn ráðsmann og ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins annan. Sömu aðilar velja vararáðsmenn. Kjararáðsmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn.
Kjararáð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna og setur sér sjálft starfsreglur.
Ráðherra skal tryggja ráðinu hæfileg starfsskilyrði.
3. gr. Gagnaöflun.
Kjararáð aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga og er því rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af starfsmönnum og launagreiðendum þeirra sem heyra undir kjararáð. Skulu þeir m.a. veita upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem störfunum fylgja.
Þeim sem undir úrskurðarvald kjararáðs falla, talsmönnum þeirra, öðrum ráðuneytum vegna starfsmanna og stofnana sem undir þau heyra og ráðuneyti er fer með starfsmannamál ríkisins skal gefinn kostur á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir ráðinu.
Kjararáð getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu ráðsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.
4. gr. Launaákvarðanir.
Kjararáð ákveður þingfararkaup samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.
[Kjararáð skal ákvarða föst laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun sem starfinu fylgja og kveða á um önnur starfskjör.] 1) Kjararáð skal við úrlausn mála taka tillit til starfsskyldna og ábyrgðar, hæfniskrafna, vinnuframlags og álags er starfi fylgja. Ráðið skal einnig meta og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum, þ.m.t. lífeyrisréttinda og ráðningarkjara. Einnig getur ráðið ákveðið sérstakan tímabundinn launaauka vegna sérstaks álags er starfinu fylgir.
Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Í þessu skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.
Kjararáð skal í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði. Kjararáði er þó heimilt að ákveða að laun taki árlega breytingum til samræmis við sameiginlega launastefnu á vinnumarkaði eða önnur viðmið sem lýsa almennri launaþróun á vinnumarkaði.
Kjararáð úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.
    1)L. 37/2017, 1. gr.
5. gr. Málsmeðferð.
Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa. Eigi sjaldnar en árlega skal kjararáð meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem það ákveður og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á launum í þjóðfélaginu.
Kjararáð skal birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti. Við endurmat launasetningar einstakra hópa skal kjararáð skilgreina samanburðarhópa og birta í úrskurði sínum tölulegar upplýsingar um laun og launaþróun þeirra.
Ákvörðunum og úrskurðum kjararáðs verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
6. gr. Kostnaður.
Kostnaður við kjararáð skal greiðast úr ríkissjóði. Ráðherra ákvarðar greiðslur til þeirra sem sitja í kjararáði.
7. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.
8. gr. Breyting á öðrum lögum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skulu allir þeir sem falla undan úrskurðarvaldi kjararáðs halda kjaraákvörðunum samkvæmt lögum nr. 47/2006 þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör þeirra samkvæmt lögum þessum.
Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skal forseti Hæstaréttar ákvarða laun og starfskjör skrifstofustjóra Hæstaréttar skv. 2. mgr. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þar til lög um dómstóla, nr. 50/2016, taka gildi.
Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skal ákvörðun um laun og starfskjör biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar heyra undir kjararáð þar til samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag.
Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skulu núverandi kjararáðsmenn halda skipun sinni út skipunartímann.
Málum sem við gildistöku laga þessara hafa verið tekin til meðferðar skal lokið samkvæmt ákvæðum laga nr. 47/2006. Eftir atvikum er kjararáði þó heimilt að vísa þeim til meðferðar hjá fimm manna kjararáði skv. 2. gr. laga þessara.
Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skulu ákvarðanir bankaráðs Seðlabanka Íslands um rétt núverandi seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til biðlauna og eftirlauna og ákvarðanir um önnur réttindi sem varða fjárhagslega hagsmuni seðlabankastjóra halda gildi sínu.