Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 20. janúar 2019.  Útgáfa 149a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skógræktardag skólafólks

1952 nr. 13 31. janúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 16. febrúar 1952.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis- og auðlindaráðherra eða umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Heimilt er skógræktarstjóra, í samráði við hlutaðeigandi skólanefnd og skólastjóra, að kveðja hvern þann ófatlaðan nemanda, pilt eða stúlku, sem nýtur ókeypis kennslu í ríkisskóla, til starfa í þjónustu Skógræktar ríkisins einn dag á ári.
Skógræktarstjóri skipuleggur starfið og sér fyrir hæfri verkstjórn og góðri vinnuaðstöðu.
Verkefni séu jafnan valin innan skólahverfisins eða í nánd við skólastað.
2. gr.
Skógræktardagurinn sé á vorin, að jafnaði áður en skólar hætta störfum. Skal ákveða hann með nægum fyrirvara í samráði við stjórnendur skólanna. Ber að taka tillit til staðhátta og ákveða daginn einvörðungu með tilliti til þess, að ræktunarstarf skólafólksins geti borið sem bestan árangur.
3. gr.
Nú þykja ekki ákjósanleg verkefni fyrir hendi á einhverjum stað við skóggræðslu, og mega þá stjórnendur skóla, í samráði við viðkomandi sveitarstjórn, fela skólafólkinu verkefni við gróðursetningu trjáplantna eða skrúðjurta, til fegrunar á umhverfi skóla, kirkna, sjúkrahúsa, elliheimila eða annarra opinberra menningar- og líknarstofnana.
4. gr.
Nánari ákvæði um tilhögun starfa og verkefnaval á skógræktardaginn má setja með reglugerð, er skógræktarstjóri semur, í samráði við fræðslumálastjóra, og ráðherra staðfestir.