Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 20. janúar 2019. Útgáfa 149a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um lögheimili og aðsetur
2018 nr. 80 25. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2019 nema 3. mgr. 2. gr. og 7. gr. sem taka gildi 1. janúar 2020 og brbákv. I sem tók gildi 28. júní 2018. Breytt með l. 150/2018 (tóku gildi 8. jan. 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs einstaklinga á hverjum tíma. Jafnframt er það markmið laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis.
2. gr. Lögheimili og aðsetur.
Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.
Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Lögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang. 1)
Með aðsetri er átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis skv. 3. mgr., þar sem skráning er heimil samkvæmt ákvæðum laga þessara.
1)Málsgreinin tekur gildi 1. jan. 2020 skv. 19. gr.
3. gr. Frávik frá meginreglu um lögheimilisskráningu.
Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. er heimilt að skrá lögheimili á stofnunum fyrir aldraða, í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og starfsmannabústöðum þótt húsnæðið sé ekki skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá.
Heimilt er að skrá tímabundið lögheimili á skráðum áfangaheimilum, í starfsmannabúðum og sambærilegu húsnæði enda sé fyrir hendi leyfi til reksturs starfseminnar.
Fyrirsvarsmaður þeirrar starfsemi sem getið er í 1. og 2. mgr. skal hlutast til um skráningu lögheimilis.
4. gr. Óvissa um lögheimili.
Leiki vafi á því hvar föst búseta einstaklings er, t.d. vegna þess að hann býr á fleiri en einum stað og í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína enda hafi hann þar búsetu. Um er að ræða aðalatvinnu þegar hún gefur tvo þriðju hluta af árstekjum eða meira.
Verði ekki skorið úr um lögheimili einstaklings skv. 1. mgr. er heimilt að skrá einstakling til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs. Skal þá miðað við það sveitarfélag þar sem hann hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl.
5. gr. Lögheimili hjóna og skráð sambúð.
Hjón eiga sama lögheimili. Hjónum er þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum.
Þegar gefið hefur verið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, eða dómur gengið um hið sama, skulu hjónin eiga sitt lögheimilið hvort. Hafi hjón slitið samvistir og fyrir liggur samkomulag eða dómur um hjá hvoru þeirra lögheimili barna skal vera skal skrá lögheimili hjá öðru hvoru þeirra.
Tveir einstaklingar sem eru í samvistum og uppfylla hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga geta skráð sambúð sína í þjóðskrá. Skulu þeir hafa sama lögheimili og skal upphaf sambúðar miðað við þann dag þegar beiðni er lögð fram um skráningu.
6. gr. Lögheimili barna.
Barn yngra en 18 ára hefur sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir eru í hjúskap eða skráðri sambúð. Hafi foreldrar skilið eða slitið sambúð hefur barnið skráð lögheimili hjá öðru foreldri sínu.
Hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns skal lögheimili barns vera hjá því foreldri sem fer með forsjá þess.
Barn í varanlegu fóstri hefur lögheimili hjá fósturforeldrum. Barn í tímabundnu fóstri hefur lögheimili hjá fósturforeldrum ákveði barnaverndarnefnd það.
Ákveði hjón sem eiga börn yngri en 18 ára að skrá lögheimili hvort á sínum staðnum skal liggja fyrir ákvörðun þeirra um hjá hvoru þeirra lögheimili barna þeirra verði.
Að öðru leyti gilda ákvæði barnalaga um lögheimili barna.
7. gr. Dulið lögheimili.1)
Þjóðskrá Íslands getur heimilað einstaklingi og fjölskyldu hans að fá lögheimili sitt dulið í þjóðskrá og að því verði ekki miðlað. Heimild til þess að fá heimilisfang sitt dulið í þjóðskrá gildir til eins árs í senn.
1)Greinin tekur gildi 1. jan. 2020 skv. 19. gr.
8. gr. Skráning aðseturs innan lands.
Skráning aðseturs innan lands er heimil þeim sem vegna náms eða veikinda þurfa að búa annars staðar en á lögheimili sínu. Skilyrði er að staðfesting náms eða veikinda liggi fyrir.
Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili á þeim stað þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður tilkynni hann aðsetur sitt til Þjóðskrár Íslands. Sama gildir um ráðherra. Ákvæðið getur átt við um maka alþingismanna eða ráðherra og börn þeirra.
9. gr. Námsmenn erlendis.
Einstaklingi sem stundar nám erlendis er heimilt að hafa lögheimili á Íslandi meðan á náminu stendur enda sé hann ekki skráður með lögheimili erlendis á meðan. Námsmanni ber að tilkynna til Þjóðskrár Íslands um námsdvöl erlendis og framvísa staðfestingu um skólavist.
Heimild skv. 1. mgr. er háð því að námsmaðurinn hafi haft lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en nám erlendis hófst. Ákvæðið gildir einnig um maka námsmanns og börn þeirra sem dveljast erlendis með námsmanni.
Heimild skv. 1. mgr. fellur niður að fjórum árum liðnum nema nýrri staðfestingu um skólavist sé framvísað hjá Þjóðskrá Íslands. Berist staðfesting ekki innan tilskilins frests er Þjóðskrá Íslands heimilt að fella niður aðsetursskráningu og skrá lögheimili námsmannsins erlendis.
Heimild skv. 1. mgr. nær ekki til þeirra einstaklinga sem hafa tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu enda ber þeim að eiga lögheimili þar á meðan dvöl á Norðurlöndunum stendur.
10. gr. Íslenskir starfsmenn hjá sendiráðum, ræðisskrifstofum o.fl.
Íslenskur ríkisborgari sem gegnir störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði, svo og íslenskur ríkisborgari sem er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að, á lögheimili hér á landi. Lögheimili hans skal vera í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili þegar hann fór af landi brott nema hann hafi skráð lögheimili sitt á öðrum stað. Sérstaklega skal skrá aðsetur í þjóðskrá.
Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um skyldulið þeirra sem þar um ræðir sem dvelur með þeim erlendis.
11. gr. Aðsetur erlendis.
Einstaklingum er heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis vegna veikinda. Framvísa þarf vottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, hjá Þjóðskrá Íslands um nauðsyn dvalar erlendis vegna veikindanna og tilkynna um aðsetur erlendis.
Heimild skv. 1. mgr. er háð því að einstaklingurinn hafi haft lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en veikindi hófust, auk annarra skilyrða sem ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð.
Heimild skv. 1. mgr. fellur niður að einu ári liðnu nema óskað sé eftir áframhaldandi aðsetursskráningu erlendis enda sé nýju læknisvottorði framvísað hjá Þjóðskrá Íslands. Þjóðskrá Íslands er heimilt að fella niður aðsetursskráningu einstaklings og skrá lögheimili hans erlendis berist stofnuninni ekki fullnægjandi umsókn samkvæmt þessari grein.
12. gr. Skráning lögheimilis og aðseturs.
Skráning lögheimilis og aðseturs einstaklinga fer fram hjá Þjóðskrá Íslands samkvæmt þeim reglum sem gilda um skráningu í þjóðskrá.
Sérhver sjálfráða einstaklingur sem á lögheimili á Íslandi skal skrá og viðhalda réttri skráningu samkvæmt lögum þessum. Þjóðskrá Íslands skal sannreyna sjálfræði einstaklings í skrá yfir lögræðissvipta menn.
Þinglýstur eigandi fasteignar skal hlutast til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans sé rétt. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar á Ísland.is um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu.
Réttindi og skyldur einstaklings sem miðast við lögheimilisskráningu afmarkast frá þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningu um skráningu lögheimilis til Þjóðskrár Íslands.
13. gr. Tilkynning um skráningu lögheimilis og aðseturs.
Tilkynning um breytingu á lögheimili innan lands og aðsetri skal gerð rafrænt eða á starfsstöðvum Þjóðskrár Íslands í samræmi við reglugerð sem ráðherra er heimilt að setja.
Tilkynna skal um breytt lögheimili eigi síðar en sjö dögum eftir að breytingar á búsetu eiga sér stað. Einungis er heimilt að skrá nýtt lögheimili fjórtán daga aftur í tímann. Sama regla gildir um tilkynningar um aðsetur samkvæmt lögum þessum.
Hver sá sem ætlar að dveljast erlendis í sex mánuði eða lengur skal tilkynna um flutning lögheimilis úr landi til Þjóðskrár Íslands skv. 1. mgr. og tilgreina til hvaða lands er flutt, sbr. þó 9.–11. gr. Samþykki forsjáraðila þarf til að flytja lögheimili barna úr landi.
14. gr. Flutningur til Íslands og dvöl.
Sá sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má skrá lögheimili hér. Dveljist einstaklingur í landinu í sex mánuði eða lengur skal hann eiga hér lögheimili samkvæmt því sem mælt er fyrir um í lögum þessum.
Við tilkynningu flutnings til Íslands skal sá sem flytur koma í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi lögregluembættis, sanna á sér deili og skrá lögheimili sitt. Skal framvísa gildum persónuskilríkjum við skráningu.
Réttaráhrif skráningar teljast frá þeim degi þegar fullnægjandi gögnum hefur verið framvísað hjá Þjóðskrá Íslands.
Ríkisborgurum í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu er heimilt að dvelja hér á landi án skráningar lögheimilis í allt að þrjá mánuði. Sé sýnt fram á að dvöl hér á landi er vegna atvinnuleitar er þeim heimilt að dvelja hér á landi í allt að sex mánuði án skráningar. Ríkisborgarar sem ekki eru frá aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og hyggjast dvelja hér á landi lengur en þrjá mánuði þurfa að hafa gilt dvalarleyfi útgefið af Útlendingastofnun til þess að vera heimilt að skrá lögheimili sitt hér á landi. Að öðru leyti fer um skráningu útlendinga eftir lögum um útlendinga.
Starfsmenn sendiráða á Íslandi sem eru erlendir ríkisborgarar, sem og liðsmenn Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, og erlendur liðsafli samkvæmt lögum nr. 72/2007 og 7. tölul. 5. gr. laga nr. 34/2008, eiga ekki lögheimili í landinu. Sama gildir um skyldulið þeirra sem dvelst hérlendis og hefur ekki íslenskt ríkisfang, nema því aðeins að fyrir liggi samningar um annað.
Um flutning manns á lögheimili sínu hingað til lands frá einhverju Norðurlandanna eða flutning manns á lögheimili sínu héðan til einhvers Norðurlandanna gildir Norðurlandasamningur um almannaskráningu eins og hann er á hverjum tíma.
15. gr. Eftirlit, upplýsingaöflun og upplýsingagjöf.
Þjóðskrá Íslands hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Þjóðskrá Íslands er heimilt að leita aðstoðar lögreglu og Útlendingastofnunar í þeim tilgangi.
Þegar uppi er vafi um rétta skráningu á lögheimili er Þjóðskrá Íslands heimilt að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri, sem búa yfir eða varðveita upplýsingar um búsetu einstaklinga, í þeim tilgangi að ákvarða rétta skráningu. Stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri er rétt og skylt að verða við beiðni Þjóðskrár Íslands. Þá er stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri heimilt að eigin frumkvæði að upplýsa Þjóðskrá Íslands þegar þau verða þess vör að ósamræmi er á milli lögheimilisskráningar og raunverulegrar búsetu.
[Þjóðskrá Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar, þjóðerni, trúarbrögð og hjúskaparstöðu og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur í té, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.] 1)
1)L. 150/2018, 13. gr.
16. gr. Leiðrétting og málsmeðferð.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að leiðrétta augljósar villur sem orðið hafa á skráningu lögheimilis einstaklinga og hafna skráningu tilkynningar um lögheimili sem er augljóslega röng.
Þjóðskrá Íslands getur breytt skráningu lögheimilis einstaklinga að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðni frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta. Varði beiðni afskráningu maka einstaklings af sameiginlegu lögheimili þeirra gilda ákvæði 5. gr.
Áður en Þjóðskrá Íslands ákvarðar um breytingu lögheimilis skal stofnunin tilkynna viðkomandi einstaklingi um fyrirhugaða breytingu á skráningu.
Þjóðskrá Íslands getur þegar sérstaklega stendur á breytt skráningu lögheimilis allt að eitt ár aftur í tímann, talið frá þeim degi þegar beiðni er lögð fram, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn um að einstaklingur hafi haft fasta búsetu á tilgreindu lögheimili á því tímabili sem um ræðir.
Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til ráðherra. Heimilt er að viðhafa málsmeðferð með rafrænum hætti. Tilkynning Þjóðskrár Íslands í pósthólf á Ísland.is telst fullnægjandi birting. Um aðild, kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.
17. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn 12. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 2. mgr. 15. gr. laga þessara og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
18. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd laga þessara, m.a. um:
a. skráningu aðseturs einstaklinga,
b. tímabundið lögheimili einstaklinga,
c. skráningu lögheimilis,
d. leiðréttingar, upplýsingaöflun og upplýsingagjöf einstaklinga og lögaðila um lögheimili,
e. skráningu lögheimilis í íbúðir,
f. framkvæmd eftirlits með skráningu lögheimilis einstaklinga.
1)Rg. 1277/2018.
19. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019 nema 3. mgr. 2. gr. og 7. gr. sem taka gildi 1. janúar 2020. Ákvæði til bráðabirgða I öðlast þegar gildi.
…
20. gr. Breyting á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Til að flýta fyrir og auðvelda skráningu skv. 3. mgr. 2. gr. er Þjóðskrá Íslands heimilt að óska eftir því að einstaklingar staðfesti lögheimili sitt með rafrænum hætti á þar til gerðu vefsvæði. Jafnframt er Þjóðskrá Íslands heimilt að birta lögheimili þeirra sem skráðir eru á tilteknu lögheimili fyrir öllum þeim sem þar eru skráðir. Í þessum sama tilgangi er Þjóðskrá Íslands að auki heimilt að samkeyra upplýsingar úr þjóðskrá við upplýsingar um eignarhald og afnot fasteigna úr fasteignaskrá, þ.m.t. upplýsingar úr þinglýsingarhluta fasteignaskrár.
II.
Ákvæði 3. mgr. 2. gr. raskar ekki skráningu lögheimilis í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð sem færð hefur verið í þjóðskrá fyrir 1. janúar 2007 en ef viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda hans flytur úr húsnæðinu fellur réttur til skráningar lögheimilis þar niður. Með fjölskyldu er átt við hjón, fólk í staðfestri samvist eða skráðri sambúð og ólögráða börn þeirra.
[III.
Fram til 1. janúar 2020 skal lögheimili skráð í tilteknu húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang.] 1)
1)L. 150/2018, 14. gr.