Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 10. janúar 2020.  Útgáfa 150a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um verkstjóranámskeið

1961 nr. 49 29. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 2. maí 1961.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Halda skal, að fengnu samþykki ráðherra, námskeið í verkstjórn árlega, eða oftar, ef þörf krefur.
2. gr.
Stjórn námskeiðanna annast þrír menn, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, samkvæmt tilnefningu Verkstjórasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Ráðherra skipar formann námskeiðsstjórnar úr hópi tilnefndra stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Ráðherra iðnaðarmála fer með yfirstjórn þessara mála.
3. gr.
Ráðherra ákveður með reglugerð inntökuskilyrði á námskeiðin.
4. gr.
Ráðherra setur ákvæði um það með reglugerð, 1) að fengnum tillögum Verkstjórasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Iðnaðarmálastofnunar Íslands, hvaða námsgreinar skuli kenna og hverjar prófkröfur skuli vera, svo og um það, hvernig kennslu, prófum, einkunnagjöf og útgáfu prófskírteina skuli hagað, um skólagjald og annað, er að kennslu og undirbúningi lýtur.
    1)Rg. 178/1962, sbr. 184/1963.
5. gr.
Próf skulu haldin að loknu námskeiði.
Ráðherra skipar prófdómendur, að fengnum tillögum stjórnar námskeiðanna.
Skýrslur um prófið, ásamt fullu nafni hvers próftaka, fæðingarstað, degi og ári, svo og einkunnum þeim, sem hann hefur hlotið, skal rita í bækur, sem ráðuneytið löggildir til þess. Prófdómendur og stjórn námskeiðanna skulu staðfesta skýrslurnar með undirskrift sinni.
6. gr.
Stjórn verkstjóranámskeiðanna skal hafa samstarf við samtök framleiðenda og aðra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta, og gera árlega tillögur um, hvar, hvenær og með hvaða sniði verkstjóranámskeið skulu haldin næsta ár á eftir.
Kostnaðaráætlun skal fylgja slíkum tillögum hverju sinni.
Iðnaðarmálastofnun Íslands skal annast framkvæmd námskeiðanna í umboði námskeiðsstjórnar og hafa á hendi fjárreiður þeirra og varðveita gögn þau og muni, sem námskeiðunum tilheyra.
7. gr.
Jafnframt verkstjóranámskeiðum skal stjórn námskeiðanna heimilt að starfrækja bréfaskóla í verkstjórn, ef henta þykir.
8. gr.
Kostnaður við verkstjóranámskeið og bréfaskóla samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt í fjárlögum.