Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 13. apríl 2021. Útgáfa 151b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um viðspyrnustyrki
2020 nr. 160 23. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 6. janúar 2021.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
2. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
2. Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
3. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
4. Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/ 2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
5. Stöðugildi: Starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð.
6. Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna.
II. kafli. Viðspyrnustyrkur.
4. gr. Skilyrði.
Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á viðspyrnustyrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá nóvember 2020 til og með maí 2021:
1. Tekjur hans í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar voru a.m.k. 60% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi hann hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skal miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til loka október 2020. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–2. málsl. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði 2018. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar skal hann ekki talinn til tekna í þeim mánuði við útreikning á tekjufalli samkvæmt þessu ákvæði.
2. Tekjur hans frá 1. janúar 2020 til loka október 2020 voru a.m.k. 500 þús. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka október 2020 í 305 daga viðmiðunartekjur.
3. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
4. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
5. gr. Fjárhæð.
Fjárhæð viðspyrnustyrks skal vera 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Viðspyrnustyrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. í viðkomandi almanaksmánuði. Viðspyrnustyrkur fyrir hvern almanaksmánuð getur jafnframt aldrei orðið hærri en:
a. 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum eða í sama mánuði 2019 og ekki hærri en 2 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. á bilinu 60–80%.
b. 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum eða í sama mánuði 2019 og ekki hærri en 2,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. meira en 80%.
Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama mánaðar 2019 og umsókn um viðspyrnustyrk varðar er heimilt að miða fjölda stöðugilda við meðalfjölda mánaðarlegra stöðugilda hjá rekstraraðila þá heilu almanaksmánuði 2019 sem hann starfaði.
Í stað þess að telja til rekstrarkostnaðar skv. 1. málsl. 1. mgr. reiknað endurgjald fyrir almanaksmánuðinn sem umsókn varðar er rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar sömu fjárhæð og hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds í þeim mánuði í skattframtali rekstrarársins 2019. Hafi rekstraraðili fengið atvinnuleysisbætur fyrir mánuðinn sem umsókn varðar dragast þær frá þannig reiknuðum rekstrarkostnaði.
Hafi rekstraraðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti vegna þess almanaksmánaðar sem umsókn varðar skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr.
Hafi rekstraraðili hlotið styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nr. 918/2020, vegna þess almanaksmánaðar sem umsókn varðar skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr.
Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru vegna þess tímabils sem umsókn varðar dregst hann frá viðspyrnustyrk.
Viðspyrnustyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.
6. gr. Umsókn.
Umsókn um viðspyrnustyrk skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 30. júní 2021. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti skal hún vera á því formi sem Skatturinn ákveður og henni skulu fylgja þau gögn sem Skatturinn áskilur.
Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli öll skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
7. gr. Ákvörðun.
Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um viðspyrnustyrk getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til styrks.
Skatturinn skal endurákvarða viðspyrnustyrk komi í ljós að rekstraraðili hafi ekki átt rétt á styrknum eða átt rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður.
Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.– 97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.
8. gr. Málskot.
Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
9. gr. Ofgreiðsla.
Hafi rekstraraðili fengið viðspyrnustyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.
Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef rekstraraðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra viðspyrnustyrkja eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.
III. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr. Hámarksstuðningur við tengda aðila.
Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum og lögum um ferðagjöf, lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki.
Sé um að ræða fyrirtæki sem töldust í erfiðleikum 31. desember 2019, önnur en lítil fyrirtæki sem ekki hafa hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, getur heildarfjárhæð viðspyrnustyrkja til tengdra rekstraraðila þó að hámarki numið 30 millj. kr. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.
11. gr. Birting upplýsinga.
Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum þessum. Birta skal upplýsingar um alla styrkþega og fjárhæð styrkja nemi þeir jafnvirði 100 þús. evra eða meira.
12. gr. Viðurlög.
Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um viðspyrnustyrk, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot megi teljast minni háttar.
13. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.
14. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
15. gr. Breyting á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en í mars 2021. Við þá endurskoðun skal m.a. lagt mat á lengd þess tímabils sem viðspyrnustyrkir ná yfir.