Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 15. október 2021.  Útgáfa 151c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra

2016 nr. 45 8. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. júní 2016.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Bann við vinnustöðvunum.
Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra gagnvart Isavia ohf., svo og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir félagsins sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar frá gildistöku laga þessara og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðilum heimilt að semja um breytingar frá því fyrirkomulagi sem lög þessi kveða á um en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun eða öðrum aðgerðum.
2. gr. Skipun gerðardóms.
Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki undirritað kjarasamning fyrir 24. júní 2016 skal gerðardómur fyrir 18. júlí 2016 ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi með sama hætti og kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram eigi síðar en einum og hálfum mánuði eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir.
Í gerðardómi skulu eiga sæti þrír dómendur sem skipaðir eru af ráðherra. Skal einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og einn af Samtökum atvinnulífsins. Dómendur skulu hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Að auki skulu þeir vera ótengdir aðilum skv. 1. gr. Sá aðili sem tilnefndur er af Hæstarétti skal vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.
Gerðardómur setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim sem gerðardómur telur nauðsynlegt. Aðilar skulu eiga rétt á að gera gerðardómi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómur ætla þeim hæfilegan tíma í því skyni.
Kostnaður af starfi gerðardóms greiðist úr ríkissjóði.
3. gr. Ákvörðun gerðardóms.
Gerðardómur skal við ákvarðanir um laun og önnur starfskjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu missiri.
Heimilt er gerðardómi að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardóms, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómur ekki ákvörðun um þau atriði sem samkomulagið eða dómsáttin tekur til.
Komi aðilar vinnudeilunnar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómur taka mið af því við ákvörðun sína og tekur hann þá ekki ákvörðun um þau atriði sem samkomulag aðila nær til.
4. gr. Gildistaka.
Lög þessi taka þegar gildi.