Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heiðurslaun listamanna

2012 nr. 66 25. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2012.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Alþingi veitir árlega allt að 25 listamönnum heiðurslaun á fjárlögum.
2. gr.
Allsherjar- og menntamálanefnd leggur fram breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga ár hvert um þann hóp listamanna sem nýtur heiðurslauna.
3. gr.
Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi. Taka skal tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kyni.
Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina kemur að njóti heiðurslauna Alþingis. Skal einn tilnefndur af ráðherra menningarmála, einn af Bandalagi íslenskra listamanna og einn af samstarfsnefnd háskólastigsins.
4. gr.
Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verði þau 80% af starfslaunum.
5. gr.
Ráðherra hefur heimild, samkvæmt ósk þess sem nýtur heiðurslauna, til að ákveða að listamaður geti afsalað sér heiðurslaunum tímabundið vegna annarra starfa en haldið sæti sínu á heiðurslaunalistanum.
6. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2012.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. um að allt að 25 listamenn njóti heiðurslauna skulu þeir sem njóta heiðurslauna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 áfram njóta þeirra.