Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir

2020 nr. 80 10. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 21. júlí 2020.

1. gr. Heimild til að semja við einkaaðila um tilteknar framkvæmdir.
Vegagerðinni er heimilt að undangengnu útboði að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum þessum.
Framkvæmdir sem heimilt er að bjóða út sem samvinnuverkefni eru eftirfarandi:
    a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá.
    b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
    c. Axarvegur.
    d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
    e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
    f. Sundabraut.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Samvinnuverkefni: Verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun opinbers mannvirkis, í heild eða að hluta, eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri þess, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Samvinnuverkefni felur að jafnaði í sér samvinnu um eftirtalið: fjármögnun, áætlanagerð, hönnun, uppbyggingu mannvirkja, viðhald, rekstur og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og reka mannvirki í tiltekinn tíma.
    2. Umráðamaður: Sá sem með samþykki eiganda ökutækis hefur umráð yfir því. Aðili telst ekki umráðamaður nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá, t.d. samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.
    3. Veggjald: Gjald sem greitt er fyrir rétt til að nota tiltekinn veg eða vegarkafla, á tilteknum tíma í tiltekin skipti.
    4. Viðbótarálag: Gjald sem leggst ofan á veggjald í þeim tilvikum þegar ekið er um gjaldskyld mannvirki án þess að greiða fyrir aðgang. Gjaldið tekur mið af kostnaði vegna aukinnar umsýslu við innheimtuna þegar ekki er greitt í samræmi við gjaldskrá.
3. gr. Gjaldtaka af umferð.
Heimilt er að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um mannvirki sem samvinnuverkefnið nær til. Veggjöld geta í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu mannvirkis. Gjaldtaka vegna notkunar tiltekins mannvirkis skal ekki hefjast fyrr en framkvæmd lýkur og opnað er fyrir almenna umferð. Gjaldtaka fyrir hvert mannvirki skal ekki standa lengur en í 30 ár.
Vegagerðinni er heimilt að fela einkaaðilum með samningi um samvinnuverkefni að taka gjald af umferð á samningstímanum. Vegagerðinni er einnig heimilt að stofna sérstakt félag eða fela sérstöku félagi í eigu ríkisins það hlutverk að sjá um gjaldtöku, eftir atvikum samhliða því að annast einstaka þætti samvinnuverkefnis.
4. gr. Innheimta veggjalda.
Eigandi ökutækis eða umráðamaður ber ábyrgð á greiðslu veggjalds samkvæmt ákvæði þessu.
Þeim aðila sem annast gjaldtöku samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að leggja á viðbótarálag í þeim tilvikum þegar ekið er um gjaldskyld mannvirki án þess að greiða fyrir aðgang að þeim í samræmi við fyrirframbirta gjaldskrá.
Veggjöld og viðbótarálag skulu hvíla sem lögveð á því ökutæki sem ekið er um gjaldskyld mannvirki án þess að greiða fyrir aðgang að þeim og ganga framar öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla, nema gjöldum til ríkissjóðs og lögboðnum ökutækjatryggingum, í eitt ár frá því að gjaldið féll til. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.
Þar sem ákvæði þessu sleppir skal um gjaldtökuna, þ.m.t. viðurlög vegna brota við álagningu og innheimtu gjalda, fara eftir viðeigandi ákvæðum vegalaga og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
5. gr. Eignarnámsheimild.
Vegagerðinni er heimilt að taka eignarnámi land, jarðefni og önnur eignarréttindi eins og nauðsyn krefur vegna framkvæmda sem taldar eru upp í 2. mgr. 1. gr. Um málsmeðferð vegna eignarnámsákvörðunarinnar gilda þau ákvæði VII. kafla vegalaga sem varða eignarnám.
6. gr. Eignarhald.
Þegar framkvæmdum skv. 1. gr. er lokið í samræmi við samning skulu mannvirkin teljast til þjóðvega samkvæmt ákvæðum vegalaga.
Heimilt er að ákveða að eignarhald mannvirkjanna verði á samningstímanum í höndum einkaaðila er annast framkvæmdirnar. Við lok samningstímans skulu mannvirkin ásamt öllu tilheyrandi verða eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.
7. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.