Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi, og því, sem þeim fylgir

1789 24. júlí


Breytt með: L. 91/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992). L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992).


1)
Eins og það er skylda prófastanna að hafa eftirlit með því, að kirkjum og prestssetrum sé haldið í tilhlýðilegu standi, og að tilkynna í tíma stiftamtmanni og biskupi, ef þeim er eigi haldið við sem vera ber, þannig eiga þeir og framvegis eins og ævagömul venja er til á Íslandi, þegar prestar deyja eða fara frá brauðunum og yfir höfuð þegar þess gerist þörf og biskup fyrirskipar það, að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir og inventaria þeirra.
2)
Úttektargerðir þessar skulu ritaðar í kirkjubækurnar, og skal í þeim nákvæmlega lýst ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga þeirra, er á hafa orðið, frá því er úttekt var síðast gerð, svo og álags þess, er gert er fyrir annmarka og hrörnun, og skal síðan tafarlaust gera ráðstöfun til að bæta það, sem áfátt er.
3)
Prófastur tekur með sér til skoðunar- og virðingargerðanna 2 kunnuga menn, og skulu þeir einir fremja skoðunargerðina án þess prófastur hafi þar nokkurt atkvæði.
4)
Nú er viðtakandi eða annar hlutaðeigandi óánægður með gerð skoðunarmanna, og má hann þá [fá dómkvadda] 1) helmingi fleiri skoðunarmenn, og skal yfirskoðun þeirra útkljá það mál; greiði þá sá, er eigi fær framgengt kröfu sinni hjá yfirskoðunarmönnum, kostnað þann, er af yfirskoðuninni leiddi.
    1)L. 92/1991, 1. gr.
5)1)
    1)L. 91/1991, 160. gr.
6)1)
    1)L. 29/1875.
7)
Nú ber það við, að brauð stendur lengi laust, eður prestur sá, er það hefur fengið, getur eigi komið að því innan fardaga réttra, og skal þá prófastur annast um, að prestssetrið verði á meðan byggt duglegum manni, og yfir höfuð gera það, sem hagkvæmast þykir til viðurhalds eignunum, og skal sýslumaður vera honum hjálplegur í því. Skorist sýslumaður undan því, þá skýrir prófastur biskupi frá því, en hann leitar fulltingis amtmanns, svo sem þarf.
8)
Ef presturinn, sem fjarverandi er, hefur eigi sjálfur veitt neinum umboð til að gæta réttar síns við úttektina, þá skal sýslumaður skipa til þess fullveðja mann á kostnað hans.