Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um leysing á sóknarbandi

1882 nr. 9 12. maí


Breytt með: L. 22/1928 (tóku gildi 3. ágúst 1928). L. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990).


1. gr.
Öllum húsráðendum, börnum þeirra og hverjum öðrum, sem fermdur er og 18 ára, skal heimilt að kjósa sér annan prest en sóknarprest sinn. Sóknarprestar einir mega kjörprestar vera.
2. gr.
Semja skal maður við kjörprest sinn, hverja prestsþjónustu hann vill af honum þiggja. Síðan skýrir hann héraðsprófasti frá samningi þeirra, en prófastur aftur sóknarprestinum. Nú vill maður aftur hverfa til sóknarprests síns, og skal hann tjá það prófasti, en prófastur aftur sóknarpresti og kjörpresti.
3. gr.
Verði prófastur þess vís, að kjörprestur hafi fermt barn úr öðru prestakalli, er honum þykir óhæfilegt til fermingar sakir fáfræði, skal prófastur skýra biskupi frá því, og leggur biskup úrskurð á það mál.
4. gr.
Gefa skal sóknarleysingi sóknarpresti greinilegar skýrslur um öll þau prestsverk, er kjörprestur hefur fyrir hann gert; en sóknarprestur er skyldur að geta þeirra í kirkjubók sinni, svo sem lög standa til. Skýrsla leysingja skal gefin eigi síðar en á 14 nátta fresti, og skal henni fylgja vottorð frá kjörpresti. Prestsverka þeirra, er skylt er að rita í kirkjubók, skal kjörprestur geta í embættisbók sinni, en eigi skulu þau talin í ársskýrslu hans, nema ferming sé. … 1)
    1)L. 116/1990, 5. gr.
5. gr.
Nú fæðist leysingja barn, og skal skýra frá því presti þar í sókn, er barnið fæðist.
6. gr.
Til hjúskapar skal sóknarprestur brúðarinnar lýsa, enda skal og lýsa fyrir honum meinbugum og hjúskaparbanni, og gefur hann síðan hjónaefnunum greinilegt vottorð um lýsingarnar. En að öðru leyti fer um ábyrgð prests þess, er saman vígir, á lögmæti hjónabandsins, sem lög standa.
7. gr.1)
    1)L. 22/1928, 2. gr.
8. gr.
Sáttatilraun þá, er lögboðin er, ef hjón vilja slíta sambúð eða skilja að fullu, skal kjörprestur þeirra gera. 1)
    1)Sjá l. 60/1972, 44. gr.
9. gr.
Skyldur er sóknarprestur að semja og senda allar lögboðnar skýrslur um fæðingar, skírn, hjónavígslur og andlát, svo og gefa vottorð þau, er rituð eru upp úr kirkjubók, fyrir ferming utan, því um hana skal sá prestur skýrslu gefa og vottorð senda, er sjálfur fermt hefur.
10. gr.
Sóknarleysingja er rétt að láta kjörprest sinn fremja skírn, ferming, hjónavígslu, skriftamál og altarisgöngu, flytja líkræðu og syngja yfir í sóknarkirkjunni, svo og jarða lík í kirkjugarðinum. Þó skal hann fengið hafa vissu um það hjá sóknarprestinum, að sjálfur hann þurfi eigi á kirkju að halda eða kirkjugarði til prestsverka á sama tíma.
Heimilt er kjörpresti að nota öll áhöld kirkjunnar til prestsþjónustu, svo sem messuskrúða, ljós, graftól, vín og bakstur; en skylt er honum að hafa að minnsta kosti einn meðhjálpara sóknar þeirrar viðstaddan þjónustugerðina.
11. gr.
Gjalda skal leysingi til sóknarkirkjunnar öll lögboðin gjöld og sóknarpresti allar fastar tekjur.