Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um utanfararstyrk presta

1931 nr. 18 6. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. október 1931. Breytt með: L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Ráðuneytið] 1) veitir árlega, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum, 2–5 prestum, þeim er þjónað hafa embætti a.m.k. 2 ár, styrk til utanfarar með þeim skilmálum, er segir í lögum þessum.
    1)L. 126/2011, 8. gr.
2. gr.
Styrkur skv. 1. gr. veitist með því skilyrði, að prestur sá, er hans nýtur, dvelji eigi skemur en 4 mánuði erlendis, til að kynnast þar kirkju- og menntalífi eða mannúðarmálum í samráði við kirkjuráð, þegar sett verður. Skal hann síðan flytja í héraði sínu erindi um einhver þau efni, er hann hefur kynnt sér í utanför sinni, og skal að minnsta kosti eitt þeirra birt á prenti eða flutt í útvarp.
3. gr.
Styrkur veitist 2000 kr. hverjum presti. Greiðist helmingur styrks þegar utanförin er hafin, en hinn helmingurinn þegar 3 mánuðir eru liðnir frá heimanför.
4. gr.
Prestum þjóðkirkjunnar skal skylt að þjóna endurgjaldslaust prestakalli nágrannaprests síns, allt að 6 mánuðum, meðan hann er í utanför samkvæmt lögum þessum. Og skipta þeir þá með sér verkum eftir því, sem biskup og prófastur mæla fyrir.
Nú verður þjónustu nágrannaprests alls eigi komið við, að dómi kirkjustjórnar, og sér hún þá prestakallinu fyrir prestsþjónustu.
5. gr.
Sæki eitthvert ár fleiri prestar um styrk til utanfarar en heimilt er að veita það ár, sker kirkjustjórnin úr um það, hverjir fái styrkinn.
6. gr.
Eigi má veita sama manni utanfararstyrk oftar en 7. hvert ár, nema sérstaklega standi á. Þeim presti, sem notið hefur utanfararstyrks úr Sáttmálasjóði, má eigi veita styrk samkvæmt lögum þessum fyrr en 5 ár eru liðin frá því hann fékk styrk úr þeim sjóði.