Lagasafn.  Íslensk lög 15. október 2021.  Útgáfa 151c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um framboð og kjör forseta Íslands1)

1945 nr. 36 12. febrúar


    1)Lögin falla úr gildi 1. jan. 2022 skv. l. 112/2021, 143. gr.
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. febrúar 1945. Breytt með: L. 39/1963 (tóku gildi 15. maí 1963). L. 6/1984 (tóku gildi 28. mars 1984). L. 43/1996 (tóku gildi 17. maí 1996). L. 24/2000 (tóku gildi 19. maí 2000). L. 9/2004 (tóku gildi 24. mars 2004). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 85/2012 (tóku gildi 11. sept. 2012 nema 2. málsl. b-liðar 12. gr. sem tók gildi 1. sept. 2013). L. 30/2020 (tóku gildi 17. apríl 2020). L. 109/2021 (tóku gildi 15. júlí 2021 nema e–k-liður 3. gr. sem tekur gildi 1. jan. 2022).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Um kjörskrár til afnota við kjör forseta Íslands fer á sama hátt og við alþingiskosningar. Þær skulu þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. [Um aðgang frambjóðenda í forsetakjöri að kjörskrá fer samkvæmt sömu reglum og gilda um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.] 1)
Mörk kjördæma skulu vera hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum.] 2)
    1)L. 109/2021, 15. gr. 2)L. 9/2004, 1. gr.
2. gr.
Undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir eru hinar sömu og við alþingiskosningar, en auk þessara kjörstjórna hefur hæstiréttur þau störf með höndum, sem segir í lögum þessum.
3. gr.
Forsetakjör skal fara fram síðasta [laugardag] 1) í júnímánuði fjórða hvert ár, sbr. þó 2. mgr. [Sá ráðherra er fer með málefni embættis forseta Íslands] 2) auglýsir kosninguna í útvarpi og Lögbirtingablaði eigi síðar en þrem mánuðum fyrir kjördag og tiltekur hámarks- og lágmarkstölu meðmælenda forsetaefnis úr landsfjórðungi hverjum í réttu hlutfalli við kjósendatölu þar.
Nú deyr forseti eða lætur af störfum, áður en kjörtíma hans er lokið, og skal þá innan árs kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá þeirri kosningu. Ákveður [hlutaðeigandi ráðherra, sbr. 1. mgr.], 2) þá kjördag, en að öðru leyti fer eftir fyrirmælum laga þessara.
    1)L. 6/1984, 1. gr. 2)L. 126/2011, 21. gr.
4. gr.
Framboðum til forsetakjörs skal skila í hendur [ráðuneytinu] 1) ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um, að þeir séu [kosningarbærir], 2) eigi síðar en 5 vikum fyrir kjördag, og auglýsir [ráðuneytið] 1) með sama hætti og segir í 3. gr. innan viku, hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins, en afgreiðir til hæstaréttar öll áðurnefnd skjöl.
    1)L. 126/2011, 21. gr. 2)L. 43/1996, 1. gr.
5. gr.
[Ráðuneytið] 1) sér um gerð og prentun kjörseðla og sendingu þeirra til yfirkjörstjórna, sem síðan annast framsendingu þeirra til undirkjörstjórna með sama hætti og kjörseðla til alþingiskosninga. Á kjörseðla skal prenta skýru letri nöfn forsetaefna í stafrófsröð.
    1)L. 126/2011, 21. gr.
6. gr.
[Kjósandi, er greiðir atkvæði utan kjörfundar, ritar á kjörseðilinn fullt nafn þess frambjóðanda, er hann vill kjósa af þeim, sem í kjöri eru. Ekki skal þó meta atkvæði ógilt, þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett, ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt.
Kjósandi, er greiðir atkvæði á kjörfundi, markar með ritblýi kross á kjörseðilinn framan við nafn þess frambjóðanda, er hann vill kjósa, af þeim, sem í kjöri eru.
Um kosningaathöfnina sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.] 1)
    1)L. 6/1984, 2. gr.
7. gr.
Nú deyr forsetaefni, áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn, og má þá annað forsetaefni gefa kost á sér í stað hins, ef fullur helmingur meðmælenda hins látna er meðal meðmælenda hans.
Annars úrskurðar hæstiréttur um það, hvort fresta þarf kosningu vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kosningu að nýju.
8. gr.
Kjörstjórnir nota sömu gerðabækur og við alþingiskosningar, en hæstiréttur notar sérstaka gerðabók um þessi efni.
9. gr.
Að lokinni kosningu senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana og ónotaða og ónýtta kjörseðla í þeim umbúðum, er segir í lögum um alþingiskosningar. Á áður auglýstum stað og stund opnar yfirkjörstjórn atkvæðakassana, og fer síðan talning atkvæða fram með sama hætti og segir í lögum um kosningar til Alþingis, svo og um það, hvort kjörseðill telst gildur eða ekki, og um meðferð ágreiningsseðla.
10. gr.
Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn hæstarétti eftirrit af gerðabók sinni ásamt þeim kjörseðlum, sem ágreiningur hefur verið um.
11. gr.
Þegar hæstiréttur hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla, boðar hann forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem hann úrskurðar um gildi ágreiningsseðlanna, lýsir úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa því forsetaefni, sem hæstri atkvæðatölu hefur náð.
Nú er ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis, og sker þá hæstiréttur úr.
12. gr.
Nú hefur aðeins einn maður verið í kjöri til forsetaembættisins, og er hann þá rétt kjörinn forseti Íslands án atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann kjörgengisskilyrðum. Gefur hæstiréttur út kjörbréf handa honum þegar að liðnum framboðsfresti.
13. gr.
Staðfest eftirrit af kjörbréfi forseta sendir hæstiréttur [þeim ráðherra er fer með málefni embættis forseta Íslands] 1) og forseta … 2) Alþingis.
    1)L. 126/2011, 21. gr. 2)L. 85/2012, 29. gr.
14. gr.
Ákvæði [114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla] 1) laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem við getur átt.
Kærur um ólögmæti forsetakjörs, aðrar en refsikærur, skulu sendar hæstarétti eigi síðar en 5 dögum fyrir fund þann, er í 11. gr. getur.
    1)L. 24/2000, 130. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.1)] 2)
    1)Ákvæðið féll úr gildi 1. jan. 2021 skv. 3. mgr. 2)L. 30/2020, 1. gr.