Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands

1982 nr. 36 7. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 24. maí 1982. Breytt með: L. 95/2002 (tóku gildi 31. maí 2002). L. 7/2007 (tóku gildi 3. febr. 2007). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Hljómsveitin heitir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn. Málefni hennar heyra undir [ráðuneytið]. 1)
    1)L. 126/2011, 95. gr.
2. gr.
Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar miði að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp. Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast.
Í öllu starfi hljómsveitarinnar skal kappkosta að hafa sem best samstarf við þá aðila aðra sem að skyldum markmiðum vinna, einkum aðra íslenska flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.
Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistarkennslu í landinu svo sem kostur er.
3. gr.
Að rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands standa eftirtaldir aðilar og greiða þeir rekstrarkostnað hennar í eftirgreindum hlutföllum:
    a. Ríkissjóður [82%]. 1)
    b.1)
    c. Borgarsjóður Reykjavíkur 18%.
    d.1)
Með samþykki rekstraraðila getur [ráðuneytið] 2) heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.
Efna má til samvinnu á viðskiptagrundvelli milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, Íslensku óperunnar, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast til og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir.
[Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið skulu gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar.] 1)
Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi, svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar.
    1)L. 7/2007, 1. gr. 2)L. 126/2011, 95. gr.
4. gr.
[Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar skal skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af Reykjavíkurborg, einum tilnefndum af starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, einum tilnefndum af því ráðuneyti er fer með fjárreiður ríkisins og einum tilnefndum af ráðuneytinu sem einnig skipar formann án tilnefningar.] 1) [Ráðuneytið] 1) skipar stjórnina til fjögurra ára og ákveður henni þóknun sem greiðist af rekstrarfé hljómsveitarinnar.
    1)L. 126/2011, 95. gr.
5. gr.
Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður sér framkvæmdastjóra og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Hann skal ráðinn til 4 ára í senn en endurráðning er heimil. Stjórn hljómsveitarinnar ákveður verksvið framkvæmdastjóra.
6. gr.
Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.
Stjórnin ræður hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Aðra hljóðfæraleikara ræður stjórnin eftir því sem viðfangsefni krefjast, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra og innan þeirra marka sem fjárframlög heimila, enda hafi viðfangsefnið verið samþykkt í fjárhagsáætlun.
Um launakjör og vinnutíma starfsmanna hljómsveitarinnar fer eftir kjarasamningum þeirra og [þess ráðherra er fer með launa- og kjaramál ríkisins]. 1)
Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma eða fá verk til flutnings hjá tónskáldum.
    1)L. 126/2011, 95. gr.
7. gr.
[Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar er heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.] 1)
    1)L. 7/2007, 3. gr.
8. gr.
Stjórn hljómsveitarinnar skal leggja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir fjárveitingaraðila með nægum fyrirvara til þess að gögn liggi fyrir þegar fjárlög eru undirbúin og afgreidd og fjárhagsáætlanir viðkomandi sveitarfélaga. Framkvæmdastjóri býr starfs- og fjárhagsáætlunina í hendur stjórnarinnar. Stjórnin ber ábyrgð á að fjárreiður og reikningshald sé í góðu lagi. Efnahags- og rekstrarreikningur skal gerður að loknu hverju almanaksári og sendur ríkisendurskoðun til endurskoðunar. Við gildistöku þessara laga telst Sinfóníuhljómsveit Íslands eiga höfuðstól samkvæmt efnahagsreikningi hljómsveitarinnar pr. 31. desember 1980.
9. gr.
Heimilt er að semja við [Fjársýslu ríkisins] 1) um að það taki að sér bókhald Sinfóníuhljómsveitarinnar. Starfsfólk á skrifstofu og til aðstoðar við æfingar, tónleika, nótnavörslu og annað skal framkvæmdastjóri ráða að fengnu samþykki ráðninganefndar ríkisins.
    1)L. 95/2002, 6. gr.
10. gr.
Sinfóníuhljómsveit Íslands skal árlega fara í tónleikaferðir um landið. Gera skal sérstaka fjárhagsáætlun vegna ferðanna. Hluti skemmtanaskatts (10%) samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1970 1) um skemmtanaskatt rennur til greiðslu kostnaðar ferðanna.
    1)L. 58/1970 voru felld úr gildi með l. 93/1998.
11. gr.
[Ráðuneytið] 1) getur í reglugerð 2) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 95. gr. 2)Rg. 1103/2020.