Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Orkustofnun
2003 nr. 87 26. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 10. apríl 2003 en komu til framkvæmda 1. júlí sama ár. Breytt með: L. 48/2007 (tóku gildi 3. apríl 2007). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 70/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 110/2014 (tóku gildi 1. jan. 2015). L. 112/2019 (tóku gildi 19. sept. 2019 nema a- og b-liður 6. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2020). L. 76/2020 (tóku gildi 14. júlí 2020). L. 22/2024 (tóku gildi 22. mars 2024 nema 3. og 19. gr. sem taka gildi 1. jan. 2026).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Orkustofnun er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn [ráðherra]. 1) [Innan Orkustofnunar skal starfa sérstök eining sem nefnist Raforkueftirlitið. Raforkueftirlitið er sjálfstætt í störfum sínum þegar það sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.] 2)
1)L. 126/2011, 375. gr. 2)L. 22/2024, 1. gr.
2. gr.
Hlutverk Orkustofnunar er:
1. að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál sem stofnuninni eru falin með lögum og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál,
2. að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra,
3. að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings,
4. að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins,
5. að stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum,
6. að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja,
7. að annast umsýslu Orkusjóðs.
Orkustofnun skal enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
Orkustofnun er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd skilgreindra verkefna, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. Leita skal staðfestingar ráðherra á samningum sem gerðir eru til lengri tíma en tveggja ára.
Orkustofnun er heimilt að hafa samvinnu við stofnanir eða fyrirtæki um þjónustustarfsemi, svo sem rekstur húsnæðis, símvörslu, tölvuþjónustu o.fl.
[Til að sinna hlutverki sínu skv. 3. tölul. 1. mgr. er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Í reglugerð 1) skal kveða nánar á um tegund gagna, gæði þeirra og skilafrest.
Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.] 2)
1)Rg. 870/2013, sbr. 97/2021. Rg. 549/2015. 2)L. 48/2007, 1. gr.
3. gr.
[Hlutverk Raforkueftirlitsins er:
1. að sinna raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra,
2. að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og umsagnar um raforkumál,
3. að annast önnur verkefni sem Raforkueftirlitinu eru falin samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
Til að tryggja sjálfstæði sitt, gagnsæi og jafnræði við raforkueftirlit skal Raforkueftirlitið setja sér starfsreglur og birta þær almenningi.
Raforkueftirlitið skal vera sjálfstæð eining innan Orkustofnunar sem er rekin fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar.] 1)
1)L. 22/2024, 2. gr.
4. gr.
Orkustofnun skal gera framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn um þau verkefni sem stofnunin vinnur að skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. Skal hún endurskoðuð árlega og lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.
5. gr.
Ráðherra skipar forstöðumann Orkustofnunar til fimm ára í senn. Nefnist hann orkumálastjóri. Orkumálastjóri fer með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Orkumálastjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar.
[Ráðherra skipar skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins til fimm ára í senn að fengnu mati hæfnisnefndar, sbr. 3. mgr. Ber hann faglega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri Raforkueftirlitsins. Sama einstakling er aðeins hægt að skipa skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins tvisvar sinnum.
Við skipun í embætti skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Niðurstaða hæfnisnefndar er ráðgefandi við skipun í embætti.] 1)
1)L. 22/2024, 3. gr. Málsgreinarnar taka gildi 1. jan. 2026 skv. 18. gr. s.l.
6. gr. … 1)
1)L. 110/2014, 1. gr.
7. gr.
Ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlunargerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins skal framkvæmdaraðili endurgreiða Orkustofnun þann kostnað þegar honum er veitt virkjunar- eða nýtingarleyfi. Kostnaðarliðir skulu framreiknaðir með vísitölu neysluverðs til gjalddaga. Orkustofnun skal leggja fram rökstudda greinargerð um endurgreiðslukröfu í hverju tilviki. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal hann lagður í gerð þriggja manna að kröfu annars aðila eða beggja á grundvelli laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Endurgreiðslu skal að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Endurgreiddu fé skal varið til að fjármagna rannsóknir á orkulindum landsins sem gerðar eru skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga þessara.
8. gr. … 1)
1)L. 76/2020, 9. gr.
9. gr.
Ráðherra getur í reglugerð 1) mælt nánar fyrir um starfsemi Orkustofnunar og framkvæmd laga þessara.
1)Rg. 400/2009.
10. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. júlí 2003.
…
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Iðnaðarráðherra ákveður í samráði við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir hvaða eignir og skuldir Orkustofnunar skuli tilheyra hvorri stofnun. Þó skulu allar rannsóknaniðurstöður og gagnasöfn sem fjármögnuð hafa verið með opinberu fé áfram vera eign Orkustofnunar.
[II.
Starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar lýtur yfirstjórn umhverfisráðherra frá 1. janúar 2008. Umhverfisráðherra skal vinna að sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar í eina stofnun eigi síðar en 1. janúar 2009. Orkustofnun annast starfsemi vatnamælinga, undir yfirstjórn umhverfisráðherra, þar til ný stofnun tekur til starfa.] 1)
1)L. 167/2007, 33. gr.