Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum
2012 nr. 155 28. desember
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 3. janúar 2013.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
fjármála- og efnahagsráðherra eða
fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
1. gr.
Sala eignarhluta.
Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fenginni heimild í fjárlögum og fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins skv. i- og j-lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins:
1. Eignarhlut ríkisins í Arion banka hf.
2. Eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf.
3. Eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf. umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans.
4. Eignarhluti ríkisins í sparisjóðum.
Ráðherra er heimilt að selja eignarhluti ríkisins skv. 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. í því skyni að uppfylla skyldur ríkisins sem leiðir af nýtingu kaupréttar á eignarhlut ríkisins, innlausnarréttar á eignarhlut ríkisins eða réttar meirihlutaeiganda til þess að krefjast þess að ríkið sem minnihlutaeigandi selji eignarhlut á sama tíma og meirihlutaeigandi, samkvæmt samningum sem ríkið á aðild að eða samkvæmt lögum. Í þeim tilvikum skulu ákvæði 2.–5. gr. ekki gilda um sölu viðkomandi eignarhluta.
2. gr.
Ákvörðun um sölumeðferð.
Þegar ráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtæki skv. 1. mgr. 1. gr. skal hann útbúa greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggja fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherra skal jafnframt leita umsagnar Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerðinni skulu m.a. koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti. Nefndunum skal veittur hæfilegur frestur til þess að gera athugasemdir við efni greinargerðarinnar.
Að liðnum fresti skv. 1. mgr. skal ráðherra taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina.
3. gr.
Meginreglur við sölumeðferð.
Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.
4. gr.
Sölumeðferð eignarhluta.
Bankasýsla ríkisins skal annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra, sbr. 2. gr. Bankasýsla ríkisins undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.
Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.
5. gr.
Skýrslugjöf.
Þegar sölumeðferð er lokið skal ráðherra leggja fyrir Alþingi skýrslu um sölumeðferð eignarhlutarins þar sem gerð skal grein fyrir helstu niðurstöðum.
6. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Ákvæði laga þessara gilda ekki um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í sparisjóðum sem þegar er hafin við gildistöku laganna með ákvörðun ráðherra, að fengnum tillögum Bankasýslu ríkisins skv. i- og j-lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins.
II.
Alþingi hefur ályktað að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003. Þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir skal fjármála- og efnahagsráðherra endurskoða einstök ákvæði þessara laga til samræmis við ábendingar rannsóknarnefndarinnar ef tilefni þykir til.