Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar
2013 nr. 119 21. nóvember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 26. nóvember 2013.
1. gr.
Þegar Norðurlandasamningur um almannatryggingar, sem gerður var í Bergen 12. júní 2012 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi. 1)
1)Samningurinn tók gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2014.
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Fylgiskjal.
Norðurlandasamningur um almannatryggingar.
Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
sem hafa, frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) öðlaðist gildi, beitt ákvæðum Evrópusambandsins um samræmingu reglna um almannatryggingar fyrir launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga og aðstandendur þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, einnig gagnvart þeim sem flytja á milli norrænu landanna,
sem gerðu síðast með sér Norðurlandasamning um almannatryggingar 18. ágúst 2003 til viðbótar reglugerð Evrópusambandsins um samræmingu almannatryggingakerfa en með honum skuldbinda norrænu löndin sig til að beita ákvæðum reglugerðarinnar að verulegu leyti einnig gagnvart tilteknum hópum manna sem reglugerðin tekur ekki beint til, þ.e.a.s. þeim sem eru ekki ríkisborgarar í EES-landi eða sem eru ekki eða hafa verið launþegar eða sjálfstætt starfandi í skilningi reglugerðarinnar,
sem vilja gera með sér samning um almannatryggingar sem byggist á meginreglum reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og samrýmist grundvallarsjónarmiðum hennar,
sem vilja laga Norðurlandasamninginn að reglugerð (EB) nr. 883/2004, sem einnig tekur til einstaklinga, sem ekki eru eða hafa verið launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar, reglugerð (EB) nr. 987/2009 sem kveður á um framkvæmd hennar og að þeirri þróun sem hefur orðið á löggjöf norrænu landanna um almannatryggingar,
sem hafa hliðsjón af því að fyrir hendi er ríkjasamband Danmerkur, Færeyja og Grænlands og að hvorki Færeyjar né Grænland eiga aðild að Evrópusambandinu eða heyra undir EES-samninginn,
hafa komið sér saman um að gera nýjan Norðurlandasamning um almannatryggingar. Samningurinn kemur til fyllingar reglugerðum ESB og veitir í vissum tilvikum ríkari réttindi til handa einstaklingum sem flytjast á milli norrænu landanna.
Samningurinn er svohljóðandi:
I. hluti. Almenn ákvæði.
1. gr. Skilgreiningar.
1. Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. „norrænt land“:
hvert og eitt samningslandanna ásamt sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum og Grænlandi, sem hafa sjálf valdheimildir á þeim sviðum sem heyra undir samninginn, og Álandseyjum að því marki sem þessi svæði hafa samþykkt að samningurinn skuli gilda fyrir þau,
2. „reglugerðin“:
reglugerð (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa með því orðalagi sem í gildi er milli norrænu landanna á hverjum tíma og með þeirri aðlögun sem á hverjum tíma leiðir af VI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992 (EES-samningurinn),
3. „framkvæmdarreglugerðin“:
reglugerð (EB) nr. 987/2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 með því orðalagi sem í gildi er milli norrænu landanna á hverjum tíma og með þeirri aðlögun sem á hverjum tíma leiðir af VI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992 (EES-samningurinn),
4. „grunnlífeyrir“:
lífeyrir sem grundvallast á búsetu og viðbót við lífeyri sem greiddur er þeim sem fær engan eða lítinn starfstengdan lífeyri; sbr. 1. viðauka við framkvæmdarsamninginn við þennan samning þar sem fram kemur hvaða bætur teljast til grunnlífeyris í norrænu löndunum.
2. Önnur hugtök í þessum samningi hafa sömu merkingu og þau hafa í reglugerðinni, framkvæmdarreglugerðinni eða í innlendri löggjöf norrænu landanna.
2. gr. Efnislegt gildissvið.
Samningur þessi gildir um alla löggjöf sem efnislegt gildissvið reglugerðarinnar tekur til.
3. gr. Persónulegt gildissvið.
1. Samningur þessi gildir um einstaklinga sem falla undir persónulegt gildissvið reglugerðarinnar og heyra undir eða hafa heyrt undir löggjöf í norrænu landi.
2. Samningur þessi gildir einnig um eftirtalda einstaklinga sem falla ekki undir persónulegt gildissvið reglugerðarinnar:
a. einstaklinga sem heyra undir eða hafa heyrt undir löggjöf í norrænu landi,
b. aðstandendur eða eftirlifendur sem rekja rétt sinn til einstaklinga sem um getur í a-lið.
3. Í Danmörku eiga ákvæði 1. og 2. mgr. aðeins við um ríkisborgara í norrænu landi þegar beitt er
a. reglum um fjölskyldubætur í 8. kafla reglugerðarinnar,
b. ákvæðum 64. gr. reglugerðarinnar um atvinnulausa einstaklinga sem fara til annars aðildarríkis,
c. reglum um grunnlífeyri.
4. gr. Rýmkun gildissviðs reglugerðarinnar.
Ef ekki er annars getið í þessum samningi skal rýmka gildissvið reglugerðarinnar og framkvæmdarreglugerðarinnar þannig að reglugerðirnar taki til allra þeirra sem heyra undir þennan samning og eru búsettir í norrænu landi.
II. hluti. Ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita.
5. gr. Búseta.
Einstaklingur telst vera búsettur í norrænu landi í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis. Komi upp ágreiningur um hvaða löggjöf skuli beita gagnvart einstaklingi skal hann teljast búsettur í því norræna landi þar sem hann er skráður í þjóðskrá ef ekki eru sérstakar ástæður til annars.
6. gr. Starf á landgrunninu.
Við beitingu ákvæða II. bálks reglugerðarinnar telst einnig starf við rannsóknir og nýtingu náttúruauðlinda á landgrunni lands sem starf í því landi.
III. hluti. Sérákvæði um rétt til bóta.
1. kafli. Veikindi.
7. gr. Greiðsla vegna kostnaðar við heimferð.
1. Ef einstaklingur er búsettur í norrænu landi og á rétt á aðstoð þar en fær aðstoð meðan hann dvelur tímabundið í öðru norrænu landi skal dvalarlandið standa straum af þeim aukakostnaði við heimferð til búsetulandsins sem leiðir af því að vegna veikindanna verður viðkomandi að nota dýrari ferðamáta en hann ella mundi gera.
2. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um einstakling sem fær leyfi til að fara til annars norræns lands til þess að fá þá meðferð sem hann þarfnast.
2. kafli. Bætur vegna örorku, elli og andláts.
8. gr. Grunnlífeyrir á grundvelli búsetu í landi sem er aðili að EES-samningnum.
Einstaklingur á rétt á grunnlífeyri, sem hann hefur öðlast í norrænu landi, með sömu skilyrðum og eiga við samkvæmt reglugerðinni eða kveðið er á um í þessum samningi á meðan hann er búsettur í landi sem er aðili að EES-samningnum.
9. gr. Samkomulag skv. i. lið í b-lið 2. mgr. 54. gr. reglugerðarinnar.
Hafi skilyrðum fyrir því að lífeyrir sé einnig reiknaður út á grundvelli ætlaðra trygginga- eða búsetutímabila, sem hefðu komið til hefði lífeyrisatburður ekki gerst, verið fullnægt í fleiri en einu norrænu landi skal við útreikning í hverju einstöku landi eingöngu tekið tillit til hluta ætlaðra tímabila. Sá hluti er ákveðinn á grundvelli raunverulegra trygginga- eða búsetutímabila sem eru notuð við lífeyrisútreikninginn út frá hlutfallinu milli raunverulegra tímabila í landinu og samanlagðra raunverulegra tímabila í löndunum.
3. kafli. Atvinnuleysisbætur.
10. gr. Undanþágur frá tilteknum kröfum um að tímabilum sé lokið.
Skilyrði 2. mgr. 61. gr. reglugerðarinnar um tryggingatímabil eða starfstímabil launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eiga ekki við um þá einstaklinga sem hafa annaðhvort starfað í þeim mæli að viðkomandi hafi fallið undir löggjöf um atvinnuleysisbætur eða hafi fengið atvinnuleysisbætur í því norræna landi þar sem sótt er um bætur. Starfið skal þó hafa verið leyst af hendi eða bætur greiddar innan fimm ára frá þeim degi sem sótt var um atvinnu hjá opinberri vinnumiðlun og, ef við á, um félagaskráningu hjá viðkomandi atvinnuleysistryggingasjóði.
4. kafli. Fjölskyldubætur.
11. gr. Útreikningur á viðbótargreiðslu og umframfjárhæð.
1. Ekki skal taka tillit til bóta vegna tekjumissis við barnsfæðingu við beitingu 2. mgr. 68. gr. reglugerðarinnar í tengslum við tímabundna niðurfellingu bóta eða útreikning á viðbótarfjárhæð.
2. Það yfirvald eða stofnun, sem skal fella niður bætur tímabundið og greiða viðbót í samræmi við 2. mgr. 68. gr. reglugerðarinnar, skal reikna samanlagða fjárhæð fjölskyldubóta fyrir hvert barn um sig og fella bæturnar niður upp að þeirri fjárhæð sem greiða ber í hinu ríkinu og greiða viðbótarfjárhæð.
5. kafli. Endurhæfing.
12. gr. Samstarf.
1. Þegar aðstæður ná yfir landamæri skulu hlutaðeigandi stofnanir í viðkomandi aðildarríki og í búseturíki vinna saman að því að veita einstaklingum aðstoð og gera virkar ráðstafanir til að auka möguleika þeirra á að komast inn á vinnumarkaðinn og að snúa aftur til starfa. Stofnunin í búsetulandinu skal, að höfðu samráði við stofnunina í hlutaðeigandi ríki, annast þær aðgerðir sem eru mögulegar og rúmast innan ramma löggjafar landsins.
2. Leiði slík afskipti til þess að breytingar verða á því hvar hlutaðeigandi einstaklingur nýtur almannatrygginga skulu stofnanirnar, eins og framast er unnt, leysa málið til hagsbóta fyrir hann.
IV. hluti. Önnur ákvæði.
13. gr. Framkvæmdarsamningur.
Lögbær yfirvöld eða stofnun sem þau tilnefna skulu gera framkvæmdarsamning með þeim ákvæðum sem eru nauðsynleg til þess að tryggja samræmda norræna framkvæmd þessa samnings.
14. gr. Samvinna á sviði stjórnsýslu og samskiptastofnun.
1. Við framkvæmd þessa samnings skulu yfirvöld og stofnanir veita gagnkvæma aðstoð eftir þörfum.
2. Þegar aðstæður ná yfir landamæri skulu hlutaðeigandi yfirvöld og stofnanir í viðkomandi ríkjum vinna saman að því að bæta stjórnsýsluvenjur og veita gagnkvæma aðstoð, auk þess að hafa með sér samvinnu í einstaka málum, sérstaklega að því er varðar álitaefni um lagaval með það að markmiði að leysa úr málum einstaklinga þeim til hagsbóta eins og framast er unnt.
3. Í hverju norrænu landi skal vera samskiptastofnun sem lögbær yfirvöld tilnefna.
15. gr. Afsal endurgreiðslna.
1. Ef ekki er samið um annað milli tveggja eða fleiri norrænna landa afsala þau sér skv. 35. gr., 41. gr. og 65. gr. reglugerðarinnar allri endurgreiðslu sín í milli á útgjöldum við aðstoð vegna veikinda og barnsburðar og vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma, vegna bóta til atvinnulausra og útgjalda við stjórnsýslueftirlit og læknisskoðun.
2. Afsal endurgreiðslu nær einnig til útgjalda vegna ráðstafana sem um getur í 1. mgr. 12. gr. um endurhæfingu.
3. Afsal endurgreiðslu nær ekki til aðstoðar við þann sem fær leyfi skv. 1. mgr. 20. gr., 1. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar til að fara til annars norræns lands og fá þar þá meðferð sem ástand hans krefst.
16. gr. Gildistaka.
1. Samningur þessi öðlast gildi með þeim fyrirvara að VI. viðauki við EES-samninginn hafi verið lagaður að reglugerð (EB) nr. 883/2004.
2. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að allar ríkisstjórnir hafa tilkynnt dönsku ríkisstjórninni að þær hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir gildistöku samningsins.
3. Hvað varðar Færeyjar, Grænland og Álandseyjar öðlast samningurinn gildi 30 dögum eftir að ríkisstjórnir Danmerkur og Finnlands hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu að færeyska landsstjórnin, grænlenska landsstjórnin og þing Álandseyja hafi tilkynnt að samningurinn skuli gilda fyrir Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.
4. Í tengslum við aðild sína skulu landsstjórnir Færeyja og Grænlands ákveða hvort persónulega gildissviðið í 3. mgr. 3. gr. og undantekningar í reglugerðinni frá reglum um grunnlífeyri, sem eiga við í Danmörku, skuli einnig gilda um þau.
5. Danska utanríkisráðuneytið skal tilkynna öðrum aðilum og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar um viðtöku þessara tilkynninga og hvenær samningurinn öðlast gildi.
17. gr. Uppsögn samningsins.
1. Óski aðili eftir að segja samningnum upp skal hann afhenda danska utanríkisráðuneytinu skriflega tilkynningu þess efnis og skal ráðuneytið gera öðrum aðilum viðvart um viðtöku tilkynningarinnar og efni hennar.
2. Uppsögn á aðeins við um þann aðila sem segir upp og gildir hún frá og með byrjun þess almanaksárs sem hefst að liðnum sex mánuðum hið minnsta frá þeim degi er danska utanríkisráðuneytinu berst tilkynning um uppsögnina.
3. Sé samningnum sagt upp haldast þau réttindi sem fengist hafa samkvæmt honum.
18. gr. Bráðabirgðaákvæði.
1. Við gildistöku samnings þessa fellur Norðurlandasamningurinn frá 18. ágúst 2003 um almannatryggingar úr gildi. Samningur þessi skal ekki leiða til lækkunar bótafjárhæða sem greiddar eru við gildistöku samningsins þegar um er að ræða bætur sem falla undir samninginn. Samningurinn frá 18. ágúst 2003 um almannatryggingar gildir þó áfram gagnvart Færeyjum og Grænlandi þar til þessi samningur tekur gildi, þó aldrei lengur en í eitt ár eftir gildistöku samningsins skv. 16. gr.
2. Hafi einstaklingur öðlast rétt til grunnlífeyris frá norrænu landi á grundvelli búsetu í landinu fyrir 1. janúar 1994 og á sama tíma öðlast rétt til starfstengds lífeyris í öðru norrænu landi skal grunnlífeyrir fyrir þetta tímabil eingöngu koma frá síðarnefnda landinu. Hafi einstaklingur á þessu tímabili öðlast samtímis rétt til starfstengds lífeyris frá fleiri norrænum löndum, og þar af hafi eitt þeirra verið búsetuland hans, skal grunnlífeyrir einungis koma frá síðastnefnda landinu.
3. Umsóknir um bætur, sem eru lagðar fram eftir gildistöku þessa samnings, skulu afgreiddar samkvæmt þessum samningi einnig þegar um er að ræða bætur fyrir tímabil fyrir gildistökuna.
19. gr. Undirritun.
Frumtexti samnings þessa skal varðveittur í danska utanríkisráðuneytinu sem lætur öðrum aðilum í té staðfest afrit af honum.
Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
Gjört í Bergen hinn 12. júní 2012 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.