Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins
2014 nr. 105 30. október
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 7. nóvember 2014. EES-samningurinn: V. viðauki reglugerð 492/2011. Breytt með: L. 75/2018 (tóku gildi 27. júní 2018 nema 9., 10., 11. og 14. gr., 34. og 35. gr., 59. gr. og 63. gr. sem tóku gildi 1. ágúst 2018 að því er varðar þau fyrirtæki og aðila sem nánar eru tilgreindir í 70. gr. s.l.; EES-samningurinn: V. viðauki tilskipun 2014/54/ESB). L. 34/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022; EES-samningurinn: V. viðauki reglugerð 2016/589).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
[Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 27. september 2012, bls. 299–310, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 52/2012 frá 30. mars 2012, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 43 frá 2. ágúst 2012, bls. 39, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, með breytingum skv. 39. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 12. mars 2020, bls. 145–172.] 1)
… 1) Ákvæði 2. og 3. þáttar I. kafla [reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins] 1) skulu enn fremur gilda um ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyinga.
1)L. 34/2022, 1. gr.
2. gr.
Aðstandandi ríkisborgara EES-ríkis eða EFTA-ríkis sem dvelur löglega hér á landi á rétt til að ráða sig til starfa eða að starfa sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði óháð þjóðerni.
Aðstandendur ríkisborgara EES-ríkis eða EFTA-ríkis skv. 1. mgr. eru:
a. maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki,
b. niðji hans og/eða maka hans, ef niðjinn er yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri,
c. ættmenni hans eða maka hans, í beinan legg, sem er á framfæri þeirra.
[2. gr. a.
Atvinnurekanda er óheimilt að láta starfsmann sem fellur undir frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins gjalda þess hafi starfsmaðurinn leitað réttar síns samkvæmt lögum þessum.
Séu leiddar líkur að því að brotið hafi verið gegn 1. mgr. skal hlutaðeigandi atvinnurekandi sýna fram á að ástæður þær sem legið hafa til grundvallar þeirri meðferð sem um ræðir tengist ekki því að viðkomandi starfsmaður hafi leitað réttar síns á grundvelli laga þessara. Eigi ætlað brot sér stað meira en einu ári eftir að kvörtun, kæra eða krafa um leiðréttingu kom fram á grundvelli laga þessara verður þó ekki litið svo á að um brot hafi verið að ræða.] 1)
1)L. 75/2018, 68. gr.
3. gr.
Ráðherra skal skipa þriggja manna nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga og getur hún beint tilmælum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Alþýðusamband Íslands skal tilnefna einn fulltrúa, Samtök atvinnulífsins annan fulltrúa og þriðji fulltrúinn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Skipunartími nefndar skal vera fjögur ár.
Komi upp ágreiningur um hvort fylgt sé ákvæðum 7. gr. reglugerðar nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, eins og henni var breytt með ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilt að vísa þeim ágreiningi til nefndarinnar, sbr. 1. mgr., sem leitast skal við að leysa þann ágreining. Í þessum tilgangi getur nefndin leitað eftir upplýsingum hjá stofnunum, samtökum eða einstökum fyrirtækjum sem veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar um almenn ráðningar- og starfskjör í atvinnugreinum og fyrirtækjum. Verði sátt eigi komið á með aðilum er heimilt að leita til dómstóla.
Þegar nefndin fjallar um mál sem varðar sérstaklega opinbera starfsmenn er falla undir atvinnu- og búseturéttindi Evrópska efnahagssvæðisins skulu tveir fulltrúar taka sæti í nefndinni auk fulltrúa skv. 1. mgr. Skal annar þeirra tilnefndur af hlutaðeigandi heildarsamtökum opinberra starfsmanna og hinn af ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við á.
Þegar nefndin fjallar um mál sem varða sérstaklega önnur heildarsamtök launafólks eða atvinnurekenda en þau sem kveðið er á um í 1. og 3. mgr. skulu fulltrúar þeirra samtaka taka sæti í nefndinni.
4. gr.
Ráðherra getur með reglugerð gefið nánari fyrirmæli um framkvæmd eftirlits skv. 3. gr.
[4. gr. a.
Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/54/ESB frá 16. apríl 2014 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að launþegar geti nýtt sér þau réttindi sem þeir hafa í tengslum við frjálsa för launþega, sem vísað er til í V. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 219/2015 frá 25. september 2015.] 1)
1)L. 75/2018, 69. gr.
5. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, taka þó ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara skv. 2. gr. laganna.
Fylgiskjal. …1)
1)L. 34/2022, 2. gr.