Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Tónlistarlög
2023 nr. 33 22. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 7. júní 2023. III. kafli kom til framkvæmda skv. fyrirmælum í 13. gr.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og yfirstjórn.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.
Við framkvæmd þessara laga skal gæta jafnréttis og huga sérstaklega að jafnri stöðu kynjanna.
Ráðherra fer með yfirstjórn málefna er varða tónlist samkvæmt lögum þessum.
II. kafli. Tónlistarmiðstöð og tónlistarráð.
2. gr. Rekstrarform.
Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.
3. gr. Hlutverk og helstu verkefni.
Hlutverk tónlistarmiðstöðvar er að:
a. vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar,
b. hafa umsjón með rekstri og starfsemi tónlistarsjóðs,
c. stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskri tónlist og nótum og starfrækja nótnaveitu fyrir íslensk tónverk,
d. veita tónlistarfólki og fyrirtækjum sem markaðssetja tónlist ráðgjöf og þjónustu, styðja útflutning á tónlist og stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar,
e. sinna afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað,
f. styðja varðveislu menningararfleifðar á sviði tónlistar með ráðgjöf, fræðslu og þjónustu.
4. gr. Stjórn tónlistarmiðstöðvar.
Ráðherra skipar sjö fulltrúa í stjórn tónlistarmiðstöðvar til þriggja ára í senn, tvo án tilnefningar og skal annar vera formaður, en aðrir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningum eftirfarandi hagaðila innan tónlistar sem hver um sig tilnefnir einn stjórnarmann: STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
Stjórn tónlistarmiðstöðvar ræður framkvæmdastjóra og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur tónlistarmiðstöðvar í umboði stjórnar, ræður annað starfsfólk og er í forsvari fyrir hana. Framkvæmdastjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði tónlistarmiðstöðvar.
Stjórn samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun tónlistarmiðstöðvar og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.
Stjórn boðar til aðalfundar tónlistarmiðstöðvar sem haldinn skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu eiga stofnaðilar, þeir sem skipa fulltrúa í stjórn tónlistarmiðstöðvar og fulltrúar í tónlistarráði. Stjórn er heimilt að bjóða fleirum til áheyrnar á aðalfundi.
5. gr. Fjárhagur og gjaldtaka tónlistarmiðstöðvar.
Starfsemi tónlistarmiðstöðvar skal fjármögnuð með:
a. þjónustusamningum við ríki, stofnanir og samtök,
b. þóknun fyrir veitta þjónustu, þar á meðal sölu og leigu á nótum,
c. sérstökum framlögum og öðrum tekjum.
Gerður skal þjónustusamningur til þriggja ára í senn á milli ríkisins og tónlistarmiðstöðvar um ráðstöfun fjárveitinga hennar.
Tónlistarmiðstöð setur sér gjaldskrá sem skal staðfest af stjórn.
6. gr. Tónlistarráð.
Tónlistarráð er stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni er varða tónlist. Tónlistarráð tekur þátt í stefnumótun tónlistarmiðstöðvar.
Ráðherra skipar fulltrúa í tónlistarráð til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningum hagaðila sem tilgreindir eru á lista sem ráðuneytið heldur utan um og uppfærir eftir þörfum. Einn fulltrúi í tónlistarráði skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins.
III. kafli. Tónlistarsjóður.
7. gr. Tónlistarsjóður.
Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.
Tekjur tónlistarsjóðs eru:
a. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
b. önnur framlög.
Tónlistarsjóður skiptist í fjórar deildir, þróun og innviði, frumsköpun og útgáfu, lifandi flutning og útflutning.
Fjármagn til sjóðsins skiptist á milli deilda á eftirfarandi hátt: Þróun og innviðir 21%, frumsköpun og útgáfa 25%, lifandi flutningur 25% og útflutningur 17%. Þar að auki munu 12% deilast á milli sjóða eftir ásókn umsækjenda og áherslum sjóðsins hverju sinni.
Ráðherra skipar úthlutunarnefnd fyrir hverja deild til tveggja ára í senn. Í hverri úthlutunarnefnd skulu eiga sæti þrír fulltrúar, tveir tilnefndir af fagfélögum innan tónlistar og einn, sem jafnframt er formaður, skal skipaður af ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild. Nefndarmönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn.
Ráðherra úthlutar styrkjum úr tónlistarsjóði að fengnum tillögum úthlutunarnefndar.
Ráðherra ákveður stefnu og áherslur í starfi tónlistarsjóðs og setur nánari reglur 1) um meðferð umsókna, afgreiðslu og úthlutun styrkveitinga úr sjóðnum.
Tónlistarsjóður er í umsýslu tónlistarmiðstöðvar.
Stefna og áherslur í starfi tónlistarsjóðs skulu endurskoðaðar á þriggja ára fresti. Tónlistarmiðstöð mótar tillögur um endurskoðaða stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára og færir ráðherra til samþykktar.
Þóknun fulltrúa í úthlutunarnefndum og annar kostnaður við störf úthlutunarnefnda greiðist úr tónlistarsjóði.
Úthlutunarnefndum er heimilt að leita utanaðkomandi faglegrar ráðgjafar við mat umsókna.
1) Rgl. 1270/2023.
IV. kafli. Sinfóníuhljómsveit Íslands.
8. gr. Hlutverk og helstu verkefni.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er eign íslensku þjóðarinnar. Hún skal stuðla að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á sígildri tónlist og samtímatónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarpi, sjónvarpi og á vefmiðlum. Áherslu ber að leggja á kynningu og útbreiðslu á íslenskri tónlist hér á landi og erlendis.
Sinfóníuhljómsveit Íslands skal leitast við að tengja starf sitt tónlistarmenntun í landinu.
9. gr. Stjórn og starfsemi.
Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal skipuð fimm fulltrúum, einum tilnefndum af Reykjavíkurborg, einum af starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, einum af þeim ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins og tveimur af ráðherra, þar af skal annar vera formaður. Ráðherra skipar stjórnina til fjögurra ára og ákveður þóknun stjórnarmanna sem greiðist af rekstrarfé hljómsveitarinnar.
Stjórnin ræður sér framkvæmdastjóra og setur honum starfslýsingu og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Hann skal ráðinn til fjögurra ára í senn. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu og til aðstoðar við æfingar, tónleika, nótnavörslu og annað að fengnu samþykki stjórnar.
Aðeins er heimilt að ráða sama einstakling framkvæmdastjóra tvisvar sinnum.
Stjórnin ræður aðalhljómsveitarstjóra og aðra fasta hljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.
Stjórnin ræður hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Aðra hljóðfæraleikara ræður stjórnin eftir því sem viðfangsefni krefjast, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra og innan þeirra marka sem fjárframlög heimila, enda hafi viðfangsefnin verið samþykkt í fjárhagsáætlun.
Um launakjör og vinnutíma starfsfólks hljómsveitarinnar fer eftir kjarasamningum þess og þess ráðherra er fer með launa- og kjaramál ríkisins.
Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma eða fá verk til flutnings hjá tónskáldum.
Stjórninni er heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar skipulag og hlutverk nefndarinnar.
Stjórnin skal leggja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir ráðherra með nægum fyrirvara til þess að gögn liggi fyrir þegar fjárlög eru undirbúin og afgreidd. Framkvæmdastjóri vinnur starfs- og fjárhagsáætlun fyrir stjórnina. Stjórnin ber ábyrgð á að fjárreiður og reikningshald hljómsveitarinnar sé í góðu lagi.
10. gr. Samstarf.
Í öllu starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal leggja áherslu á að hafa sem best samstarf við aðila sem vinna að skyldum markmiðum, einkum aðra íslenska flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.
Efna má til samvinnu milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast til og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir.
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið ohf. skulu gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar.
11. gr. Fjárhagur og gjaldtaka.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn.
Að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar standa eftirtaldir aðilar og greiða þeir rekstrarkostnað hennar í eftirfarandi hlutföllum:
a. ríkissjóður Íslands 82%,
b. borgarsjóður Reykjavíkur 18%.
Með samþykki rekstraraðila getur ráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er heimilt að semja við Fjársýslu ríkisins um að taka að sér bókhald hljómsveitarinnar.
V. kafli. Reglugerðir og gildistaka.
12. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um stefnu og starfsemi tónlistarmiðstöðvar, tónlistarsjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og um úthlutun styrkja úr tónlistarsjóði, sbr. 7. mgr. 7. gr.
13. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. … Þó skal III. kafli koma til framkvæmda 1. desember 2023 …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Við gildistöku laga þessara er ráðherra heimilt að skipa stjórn tónlistarmiðstöðvar til bráðabirgða sem skal starfa fram að stofnfundi hennar sem haldinn skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir gildistöku laga þessara. Verkefni stjórnarinnar er að undirbúa stofnun tónlistarmiðstöðvar og boða til stofnfundar. Þegar ný stjórn hefur verið skipuð í samræmi við 4. gr. fellur umboð stjórnar samkvæmt ákvæði þessu niður.
II.
Tónlistarsjóður skv. III. kafla skal taka við samningum sem gerðir hafa verið við styrkþega vegna úthlutana fyrir gildistöku laga þessara og sem gerðir eru á árinu 2023.
III.
Þjónustusamningur skv. 2. mgr. 5. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir gildistöku laga þessara.