Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 202 . mál.


Ed.

273. Frumvarp til lagaum norrænan þróunarsjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)1. gr.

    Stofna skal norrænan þróunarsjóð samkvæmt samningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns þróunarsjóðs sem undirritaður var í Stokkhólmi 3. nóvember 1988.

2. gr.

    Sjóðurinn skal undanþeginn ákvæðum laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, svo og annarra laga er setja kunna hömlur á greiðslur í erlendum gjaldeyri eða gjaldeyrisviðskipti, að svo miklu leyti sem slík ákvæði hindra eða torvelda starfsemi sjóðsins eða efndir skuldbindinga hans.

3. gr.

    Sjóðurinn skal vera undanþeginn aðstöðugjaldi, landsútsvari, tekjuskatti og eignarskatti, svo og öðrum gjöldum sem lögð kunna að vera á tekjur, eignir eða veltu til ríkis eða sveitarfélaga.

4. gr.

    Lánssamningar, sem sjóðurinn er aðili að, skulu vera undanþegnir stimpilgjöldum og öðrum gjöldum hins opinbera.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um norrænan þróunarsjóð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við stofnun norræns þróunarsjóðs, en samningur þar að lútandi var undirritaður milli ríkisstjórna Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í Stokkhólmi 3. nóvember 1988 ásamt
samþykktum fyrir sjóðinn. Samningurinn og samþykktirnar eru birtar í heild sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Aðdraganda stofnunar sjóðsins má rekja til þess að árið 1984 samþykkti Norðurlandaráð ályktun til norrænu ráðherranefndarinnar um að láta gera athugun á því með hvaða hætti unnt væri að veita svokölluð „mjúk“ lán, þ.e. vaxtalaus lán til langs tíma, til þróunarverkefna og fjárfestinga í þróunarlöndum.
    Tillaga um stofnun þróunarsjóðs var lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í mars 1988 og var síðan gengið frá drögum að samningnum og samþykktunum á fundum bráðabirgðastjórnar sjóðsins.
    Sjóðnum er ætlað að örva efnahagskjör og þjóðfélagslegar framfarir í þróunarlöndunum með því að taka þátt í að fjármagna með sérstaklega hagstæðum kjörum verkefni í þróunarlöndunum þar sem samnorrænna hagsmuna er að gæta.
    Starfsstöð sjóðsins verður í skrifstofu Norræna fjárfestingarbankans, en frumvarp þetta er flutt til þess að tryggja fullnægjandi lagaheimildir vegna hugsanlegrar starfsemi sjóðsins hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.Um 1. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 6. gr. samningsins skal sjóðurinn vera undanþeginn greiðsluhöftum og stefnumarkandi lánaráðstöfunum sem gætu komið í veg fyrir eða torveldað starfsemi hans eða girt fyrir að hann geti staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt aðrar skyldur. Því er nauðsynlegt að sjóðurinn sé undanþeginn ákvæðum laga um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, að svo miklu leyti sem slík ákvæði hindra eða torvelda starfsemi hans.

Um 3. gr.


    Hér er að finna heimild til þess að undanþiggja eignir og tekjur sjóðsins sköttum eins og kveðið er á um í 6. gr. samningsins.

Um 4. gr.


    Í 6. gr. samningsins er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði undanþeginn stimpilgjöldum og öðrum gjöldum til hins opinbera að því er fjármögnunarstarfsemina varðar.

Um 5. gr.


    Samkvæmt 8. gr. samningsins öðlast hann gildi þrjátíu dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt sænska utanríkisráðuneytinu að þeir hafi samþykkt samninginn. Eðlilegt er að gildistaka laga um sjóðinn tengist því beinlínis að samningurinn um stofnun sjóðsins gangi í gildi.
Fylgiskjal.


SAMNINGUR


um stofnun norræns þróunarsjóðs.>a6<


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa ákveðið að efla norræna þróunarsamvinnu, sem hefur að markmiði að styðja efnahagslega og félagslega þróun í þróunarlöndunum, og hafa í því skyni orðið sammála um eftirfarandi:

1. gr.

    Norrænn þróunarsjóður, en heiti hans á ensku er Nordic Development Fund, hér eftir nefndur Sjóðurinn, skal stofnaður með því markmiði að efla efnahagslega og félagslega þróun í þróunarlöndum með því að taka þátt í að fjármagna verkefni sem eru samnorrænt hagsmunamál með sérstaklega hagstæðum kjörum.

2. gr.

    Sjóðurinn skal hafa stöðu lögpersónu.

3. gr.

    Starfsemi Sjóðsins fer eftir þeim samþykktum sem fylgja samningi þessum. Norræna ráðherranefndin getur ákvarðað að breyta samþykktum þessum.

4. gr.

    Samningsaðilar leggja fram stofnfé Sjóðsins.
    Aukning stofnfjár getur átt sér stað á grundvelli ákvörðunar norrænu ráðherranefndarinnar að fenginni beiðni frá stjórn Sjóðsins.
    Upphæð stofnfjár, tækifæri til að leggja fram viðbótarstofnfé og skiptingin milli þátttökulandanna skal ákveðin í 2. gr. samþykktanna.

5. gr.

    Starfsstöð Sjóðsins skal vera í höfuðstöðvum Norræna fjárfestingarbankans.

6. gr.

    Sjóðurinn skal vera laus undan greiðsluhöftum og öðrum stefnumarkandi lánaráðstöfunum sem geta hindrað eða torveldað starfsemi Sjóðsins í framkvæmd.
    Fjármagn og tekjur Sjóðsins skulu vera undanþegnar skattlagningu. Að því er fjármögnunarstarfsemina varðar skal Sjóðurinn vera undanþeginn stimpilgjöldum og öðrum gjöldum til hins opinbera.

7. gr.

    Norræna ráðherranefndin tekur í síðasta lagi hinn 1.12.1991 afstöðu til áframhaldandi starfsemi Sjóðsins.
    Norræna ráðherranefndin getur ákvarðað að leysa skuli Sjóðinn upp samkvæmt þeirri tilhögun sem greinir í 10. gr. samþykktanna.

8. gr.

    Samningurinn og samþykktirnar, sem greinir í 3. gr., taka gildi 30 dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt sænska utanríkisráðuneytinu um samþykki sitt á samningnum.
    Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga og gildistöku samningsins.

9. gr.

    Samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu þar að lútandi til sænska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir öðrum samningsaðilum og stjórn Sjóðsins um móttöku tilkynningarinnar og efni hennar. Uppsögnin tekur í fyrsta lagi gildi við lok þess reikningsárs sem kemur á eftir því ári sem uppsögnin átti sér stað á og í fyrsta lagi að liðnum 5 árum eftir gildistöku þessa samnings.
    Taki norræna ráðherranefndin ekki ákvörðun um, eftir að samningsaðili hefur sagt samningnum upp, að leysa Sjóðinn upp skal hún taka ákvörðun um, í síðasta lagi áður en uppsögnin öðlast gildi, á hvern hátt skal útkljá samskipti Sjóðsins og þess aðila sem hættir aðild. Tryggja skal að aðili sem
hættir aðild sé áfram ábyrgur á sama hátt og aðrir aðilar fyrir skuldbindingum Sjóðsins sem voru fyrir hendi þegar hann hætti aðild.

10. gr.

    Frumtexti þessa samnings skal varðveittur í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur öðrum samningsaðilum í té staðfest endurrit hans.

    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullgilt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Stokkhólmi hinn 3. nóvember 1988 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og skulu allir textarnir jafngildir.


SAMÞYKKTIR FYRIR NORRÆNAN ÞRÓUNARSJÓÐ>a6<


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa með samningi dagsettum 3. nóvember 1988 ákveðið að stofna norrænan þróunarsjóð.

Markmið.


1. gr.

    Norrænn þróunarsjóður, en heiti hans á ensku er Nordic Development Fund, hér eftir nefndur Sjóðurinn, hefur að markmiði að efla efnahagslega og félagslega þróun í þróunarlöndum með því að taka þátt í að fjármagna verkefni sem eru samnorrænt hagsmunamál með sérstaklega hagstæðum kjörum.

Stofnfé.


2. gr.

    Stofnfé Sjóðsins er 100 millj. SDR.
    Fimmta hluta stofnfjárins (20 millj. SDR) skal greiða inn í Sjóðinn í síðasta lagi hinn 1.1.1989 samkvæmt gengi SDR á innborgunardeginum.
    SDR er skilgreint í samræmi við þá skráningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ákvað frá 1. janúar 1981. Ef þessi skráning verður breytt mun stjórnin fylgja þeirri ákvörðun sem stjórn Norræna fjárfestingarbankans tekur um það að hve miklu leyti bankinn skuli fylgja hinum nýju reglum.
    Af stofnfé til starfsemi Sjóðsins er hluti danska ríkisins 20,0 millj. SDR, finnska ríkisins 20,3 millj. SDR, íslenska ríkisins 0,9 millj. SDR,
norska ríkisins 21,5 millj. SDR og sænska ríkisins 37,3 millj. SDR. Framlög ríkjanna eru afhent Sjóðnum til ráðstöfunar á gjafagrundvelli.
    Aukning stofnfjár getur átt sér stað á grundvelli ákvörðunar norrænu ráðherranefndarinnar að fenginni beiðni frá stjórn Sjóðsins. Aukningin skiptist milli ríkjanna samkvæmt því hlutfalli sem á hverjum tíma gildir um samnorrænar fjárfestingar.
    Þess er vænst að ráðstöfunarfé Sjóðsins verði ávaxtað á tryggilegan hátt og afraksturinn verði notaður til starfsemi Sjóðsins.

Starfsemi.


3. gr.

    Sjóðurinn veitir vaxtalaus lán til þróunarlanda í verkefni sem styrkja þróun. Við lánveitingar til annarra ríkja en þeirra sem eru fullvalda skal Sjóðurinn jafnan krefjast ríkisábyrgðar eða tryggingar sem hann metur gildar.
    Sjóðurinn skal einbeita sér að fátækum löndum og aðeins í undantekningartilvikum veita lán til annarra landa en þeirra sem hafa lágar tekjur og lægri meðaltekjur.
    Við þátttöku Sjóðsins í fjármögnun verkefna ber að taka tillit til greiðslugetu móttökulandsins.
    Sjóðurinn getur og gert aðrar þær ráðstafanir sem tengjast starfsemi hans og eru nauðsynlegar eða æskilegar til að ná markmiðum hans.

4. gr.

    Reikningshald Sjóðsins skal vera í SDR. Reikningsárið fylgir almanaksárinu.
    Ársskýrsla Sjóðsins og ársreikningar skulu sendir norrænu ráðherranefndinni.

Stjórn.


5. gr.

    Með málefni Sjóðsins fer stjórn, framkvæmdastjóri og annað starfslið sem nauðsynlegt er fyrir starfsemi hans.

6. gr.

    Stjórnin er skipuð fimm mönnum. Hvert ríkjanna tilnefnir mann í stjórnina til allt að fimm ára. Hvert ríki tilnefnir á sama hátt varamann fyrir hvern stjórnarmann.
    Stjórnin kýs sér formann og varaformann til eins árs. Fulltrúar landanna skiptast á um formennsku og varaformennsku í stjórninni.
    Stjórnin kemur saman til fundar eftir ákvörðun formanns eða þegar tveir stjórnarmenn eða framkvæmdastjórinn fara þess á leit.
    Stjórnin er ályktunarhæf þegar a.m.k. fjórir stjórnarmenn eða atkvæðisbærir varamenn eru mættir. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði, en varamaður er aðeins atkvæðisbær í fjarveru stjórnarmanns. Ákvörðun stjórnarinnar er því aðeins gild að enginn atkvæðisbær stjórnarmaður sé andvígur henni.
    Stjórnin setur sér sjálf fundarsköp.
    Fulltrúi Norræna fjarfestingarbankans situr fundi stjórnarinnar án atvæðisréttar.

7. gr.

    Stjórnin fer með vald um málefni Sjóðsins, en getur í þeim mæli, er hún telur heppilegt, falið framkvæmdastjóranum það eða Norræna fjárfestingarbankanum.
    Framkvæmdastjórinn annast daglegan rekstur Sjóðsins og fylgir þeim meginreglum og fyrirmælum sem stjórnin hefur sett.
    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra til mest fimm ára í senn. Framkvæmdastjórinn má ekki vera stjórnarmaður eða varamaður í stjórn. Framkvæmdastjórinn situr fundi stjórnarinnar án atkvæðisréttar.

8. gr.

    Til að skuldbinda Sjóðinn undirskrifa tveir af eftirtöldum: stjórnarmenn, varamenn, framkvæmdastjórinn eða þeir sem stjórnin hefur veitt umboð til þess.

Önnur ákvæði.


9. gr.

    Eftirlitsnefnd skal fylgjast með því að starfsemi Sjóðsins sé rekin í samræmi við samþykktirnar. Eftirlitsnefndin er ábyrg fyrir endurskoðun og sendir árlega endurskoðunarskýrslu til norrænu ráðherranefndarinnar.
    Hlutverki eftirlitsnefndar gegnir sú eftirlitsnefnd sem norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa kjörið til að annast endurskoðun Norræna fjárfestingarbankans.

10. gr.

    Nú hyggst norræna ráðherranefndin leysa upp Sjóðinn og skal ráðherranefndin þá velja menn til að annast það verk. Ekki er unnt að leysa
Sjóðinn upp og endurgreiða eða ráðstafa stofnfénu fyrr en skuldbindingartími gagnvart lánum eða öðrum rekstri er liðinn.