Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 133. mál.


Nd. 137.

Frumvarp til laga



um einkaleyfi.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Rétt til að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu samkvæmt lögum þessum hefur uppfinningamaður eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Einkaleyfi er veitt eftir umsókn fyrir uppfinningu sem hagnýta má í atvinnulífi. Leyfið veitir einkarétt til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni.
    Helstu nýjungar, sem ekki verða taldar til uppfinninga, eru þær sem eingöngu varða:
     1.      Uppgötvanir, vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir.
     2.      Listræn verk.
     3.      Skipulag, reglur eða aðferðir við hugarstarfsemi, leiki eða atvinnustarfsemi eða forrit fyrir tölvur.
     4.      Miðlun upplýsinga.
    Aðferðir við handlækningar, endurhæfingu eða sjúkdómsgreiningu á mönnum eða dýrum verða heldur ekki taldar til uppfinninga. Þetta er þó ekki því til fyrirstöðu að veita megi einkaleyfi fyrir tækjum og afurðum til nota við þessar aðferðir, þar á meðal fyrir efnum og efnablöndum.
    Einkaleyfi má ekki veita fyrir:
     1.      Uppfinningum sem stríða mundu gegn siðgæði eða allsherjarreglu.
     2.      Plöntu- eða dýraafbrigðum eða aðferðum við að framleiða plöntur eða dýr sem eru aðallega líffræðilegar. Þó má veita einkaleyfi fyrir aðferðum á sviði örverufræði og afurðum slíkra aðferða.

2. gr.

    Einkaleyfi verður einungis veitt fyrir uppfinningum sem eru nýjar með tilliti til þess sem þekkt er fyrir umsóknardag og eru að auki frábrugðnar því í verulegum atriðum.
    Það telst þekkt sem almennur aðgangur er að í rituðu máli, fyrirlestrum, með hagnýtingu eða á annan hátt. Einnig telst efni einkaleyfisumsóknar, sem lögð hefur verið inn hér á landi fyrir umsóknardag annarrar umsóknar, þekkt ef aðgangur verður almennur að fyrri umsókninni samkvæmt reglum 22. gr. Skilyrðið í 1. mgr. um að uppfinningin sé í verulegum atriðum frábrugðin því sem þekkt er gildir þó ekki gagnvart efni slíkrar umsóknar.
    Umsóknir, sem um er fjallað í III. kafla, skulu í sérstökum tilvikum hafa sömu áhrif hér á landi og um er rætt í 2. mgr., sbr. 29. og 38. gr.
    Skilyrði í 1. mgr. um að uppfinningar skuli vera nýjar er ekki því til fyrirstöðu að veitt verði einkaleyfi fyrir þekktu efni eða efnablöndum til notkunar við aðferðir þær sem nefndar eru í 3. mgr. 1. gr. svo fremi sem efnið eða efnablöndurnar eru ekki þekktar við einhverjar þessara aðferða.
    Einkaleyfi má veita fyrir uppfinningu þótt hún hafi orðið almenningi aðgengileg innan sex mánaða fyrir umsóknardag þegar það má rekja til:
     1.      augljósrar misbeitingar gagnvart umsækjanda eða einhvers sem hann sækir rétt sinn til eða
     2.      að umsækjandi eða einhver, sem hann sækir rétt sinn til, hafi sýnt uppfinninguna á opinberri eða opinberlega viðurkenndri alþjóðlegri sýningu samkvæmt sáttmála um alþjóðlegar sýningar sem gerður var í París 22. nóvember 1928.

3. gr.

    Einkaréttur sá, sem menn öðlast með einkaleyfi, felur það í sér að aðrir en einkaleyfishafi mega ekki án samþykkis hans hagnýta sér uppfinninguna með því að:
     1.      framleiða, bjóða til sölu, setja á markað, nota eða flytja inn eða hafa í fórum sínum í þeim tilgangi tæki eða aðrar afurðir sem veitt hefur verið einkaleyfi fyrir eða
     2.      nota aðferð, sem nýtur einkaleyfisverndar, eða bjóða hana til notkunar hér á landi, ef sá sem býður fram aðferðina veit að hana má ekki nota án samþykkis einkaleyfishafa eða slíkt má vera ljóst af aðstæðum eða
     3.      bjóða, setja á markað eða nota afurð, sem framleidd er með aðferð sem vernduð er með einkaleyfi, eða flytja inn, eiga eða hafa slíka afurð í fórum sínum í ofangreindum tilgangi.
    Í einkaréttinum felst einnig að aðrir en einkaleyfishafi mega ekki án hans samþykkis hagnýta sér uppfinninguna með því að afhenda eða bjóða þeim sem ekki hafa heimild til að nota uppfinninguna tilföng til að nota hana hér á landi. Þetta á við ef tilföngin varða verulegan þátt uppfinningar og sá sem lætur þau af hendi eða tilboðsgjafinn veit að þau henta og eru ætluð til slíkra nota eða slíkt er ljóst af aðstæðum. Sé tilfang almenn verslunarvara gildir þetta þó því aðeins að sá sem afhendir eða býðst til að afhenda það hvetji móttakandann til að hafa þann verknað í frammi sem nefndur er í 1. mgr. Við beitingu ákvæða 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar verður að líta svo á að þeir sem fara að með þeim hætti, sem nefndur er í 1., 3. og 4. tölul. 3. mgr., hafi ekki rétt til að notfæra sér uppfinninguna.
    Einkaréttur tekur ekki til:
     1.      athafna sem ekki tengjast atvinnustarfsemi,
     2.      hagnýtingar á framleiðsluafurð sem nýtur einkaleyfisverndar og sett er á markað hér á landi af einkaleyfishafa eða með samþykki hans,
     3.      tilrauna með efni uppfinningar,
     4.      tilreiðslu lyfja í lyfjabúð samkvæmt forskrift frá lækni í einstökum tilvikum eða ráðstöfunar lyfs sem þannig er tilreitt.

4. gr.

    Hagnýti einhver sér uppfinningu í atvinnuskyni hér á landi þegar annar leggur inn einkaleyfisumsókn um hana má hinn fyrrnefndi halda þeirri hagnýtingu áfram með sem líkustum hætti þrátt fyrir veitt einkaleyfi, svo fremi að hún sé ekki augljós misbeiting gagnvart umsækjanda eða einhverjum sem hann sækir rétt sinn til. Á sama hátt er hagnýting heimil þeim sem gert hafði verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi.
    Aðilaskipti að rétti skv. 1. mgr. geta aðeins orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri sem rétturinn á uppruna sinn í eða starfsemi þar sem notkun hans var áformuð.

5. gr.

    Einkaleyfi hindrar ekki að vernduð uppfinning sé hagnýtt af öðrum en einkaleyfishafa við notkun erlends ökutækis, skips eða loftfars þegar viðkomandi samgöngutæki er statt hér um stundarsakir eða af tilviljun.
    Iðnaðarráðherra getur ákveðið að þrátt fyrir veitt einkaleyfi megi flytja inn varahluti og annað tilheyrandi loftförum og nota hér við viðgerðir á loftförum sem skráð eru í öðru ríki ef það ríki veitir íslenskum loftförum sams konar réttindi.

6. gr.

    Nú er sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningu sem umsækjandi eða einhver, sem hann sækir rétt sinn til, hefur á síðustu 12 mánuðum fyrir umsóknardag lýst í annarri umsókn um einkaleyfi hér á landi eða í annarri umsókn um einkaleyfi, uppfinningarskírteini eða í umsókn um smáeinkaleyfi í öðru landi sem er aðili að Parísarsáttmálanum frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Skal þá litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri að því er varðar efni 1., 2. og 4. mgr. 2. gr. svo og 4. gr., enda leggi umsækjandi fram kröfu þar að lútandi. Einnig má byggja forgangsrétt á umsókn um vernd sem lögð er inn í ríki sem ekki er aðili að Parísarsáttmálanum ef íslenskar umsóknir um einkaleyfi njóta sambærilegra réttinda í því ríki og löggjöf þar er í aðalatriðum í samræmi við sáttmálann.
    Iðnaðarráðuneytið ákveður nánari skilyrði fyrir heimild til að slíkur forgangsréttur taki gildi.

II. KAFLI

Einkaleyfisumsóknir og meðferð þeirra.

7. gr.

    Lög þessi falla undir iðnaðarráðuneytið. Á vegum ráðuneytisins er starfrækt einkaleyfa- skrifstofa sem fer með framkvæmd laganna. Með einkaleyfayfirvöldum í lögum þessum er átt við þá skrifstofu nema annað sé tekið fram.
    Iðnaðarráðherra skipar áfrýjunarnefnd í einkaleyfamálum. Nefndin úrskurðar í málum sem til hennar verður skotið og varða ákvarðanir einkaleyfayfirvalda, sbr. 25. gr. og 67. gr. þessara laga. Um hæfi formanns og skipunartíma, meðnefndarmenn og málsmeðferð fyrir nefndinni gilda reglur 44. gr. laga nr. 47/1968, sbr. lög nr. 31/1984. Í reglugerð verður nánar kveðið á um nefndina.

8. gr.

    Umsókn um einkaleyfi skal skila skriflega til einkaleyfayfirvaldanna eða, ef um er að ræða tilvik sem greinir í III. kafla, til einkaleyfayfirvalda í erlendu ríki eða alþjóðastofnunar.
    Einkaleyfisumsókn skal hafa að geyma lýsingu á uppfinningunni ásamt teikningum, sé þeirra þörf, og greinargóða skilgreiningu á því sem krafist er einkaleyfis fyrir (einkaleyfiskröfur). Lýsingin skal vera svo skýr að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna. Ef uppfinningin varðar örverufræðilega aðferð eða afurð framleidda með slíkri aðferð telst henni ekki nægilega vel lýst nema skilyrði 6. mgr. séu uppfyllt.
    Umsókn skal hafa að geyma ágrip af lýsingu og einkaleyfiskröfum. Ágripinu er eingöngu ætlað að veita tæknilegar upplýsingar um uppfinninguna en hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.
    Nafn uppfinningamanns skal tilgreint í umsókn. Sé umsækjandi annar en uppfinningamaður skal umsækjandi sanna rétt sinn til uppfinningarinnar.
    Umsækjandi skal greiða tilskilið umsóknargjald. Fyrir einkaleyfisumsókn skal einnig greiða tilskilið árgjald fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða áður en endanleg ákvörðun er tekin um umsókn. Gjaldár samkvæmt lögum þessum er 12 mánuðir og reiknast í fyrsta skipti frá umsóknardegi, en eftir það frá tilsvarandi degi á almanaksárinu.
    Ef við uppfinninguna þarf að nota örverur sem hvorki eru aðgengilegar almenningi né hægt að lýsa í umsókn þannig að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna skal rækt af örverustofninum lögð inn til varðveislu í síðasta lagi á umsóknardegi. Ræktina skal þaðan í frá varðveita stöðugt þannig að hver sá, sem heimild hefur samkvæmt lögum þessum, geti fengið afhent sýni af henni hér á landi. Í reglugerð skal kveðið á um hvar slík varðveisla sé heimil.
    Ef varðveitt örverurækt verður óvirk eða ekki er af öðrum ástæðum hægt að láta í té sýni af ræktinni má skipta um hana með nýrri rækt af sama örverustofni innan tilskilins tíma og að öðru leyti í samræmi við ákvæði í reglugerð. Í slíkum tilvikum telst nýja varðveislan hefjast sama dag og hin fyrri.

9. gr.

    Að beiðni umsækjanda og gegn greiðslu tilskilinna gjalda skulu einkaleyfayfirvöld, í samræmi við nánari ákvæði í reglugerð, láta rannsaka nýnæmi uppfinningarinnar hjá alþjóðlegri nýnæmisrannsóknastofnun, sbr. ákvæði 5. mgr. 15. gr. alþjóðasamstarfssáttmálans um einkaleyfi (PCT) sem gerður var í Washington 19. júní 1970.

10. gr.

    Í einni og sömu umsókn má ekki sækja um einkaleyfi fyrir tveimur eða fleiri óskyldum uppfinningum.

11. gr.

    Sæki maður um einkaleyfi fyrir uppfinningu sem felst í eldri einkaleyfisumsókn hans og ekki hefur hlotið endanlega afgreiðslu skal að beiðni umsækjanda og að uppfylltum skilyrðum í reglugerð litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð inn samtímis því að gögn, sem fela í sér uppfinninguna, bárust einkaleyfayfirvöldum.

12. gr.

    Hafi umsækjandi ekki heimilisfesti hér á landi skal hann hafa umboðsmann búsettan hérlendis sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því er varðar umsóknina.

13. gr.

    Umsókn um einkaleyfi má ekki breyta á þann hátt að sótt sé um einkaleyfi fyrir einhverju því sem ekki kom fram í umsókninni þegar hún var lögð inn eða á þeim tíma sem hún telst lögð inn skv. 14. gr.

14. gr.

    Geri umsækjandi breytingar á umsókn sinni innan sex mánaða frá umsóknardegi skal umsóknin, að beiðni umsækjanda, teljast lögð inn á þeim degi sem breytingarnar bárust einkaleyfayfirvöldum.
    Beiðni skv. 1. mgr. skal sett fram innan tveggja ára frá umsóknardegi. Slíka beiðni má ekki setja fram oftar en einu sinni og hún verður ekki afturkölluð.

15. gr.

    Hafi umsækjandi ekki farið að settum reglum um umsóknir eða einkaleyfayfirvöld telja af öðrum ástæðum að eitthvað sé því til fyrirstöðu að umsókn verði samþykkt skal umsækjanda tilkynnt það og honum gefinn kostur á að tala sínu máli eða bæta umsóknina innan ákveðins frests. Einkaleyfayfirvöld geta þó án samráðs við umsækjanda gert þær breytingar á ágripi umsóknarinnar sem þau telja nauðsynlegar.
    Ef umsækjandi hvorki tjáir sig um málið né gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta umsóknina innan þess frests sem einkaleyfayfirvöld setja skal hún afskrifuð. Tekið skal fram í tilkynningu skv. 1. mgr. að svo verði gert.
    Einkaleyfisumsókn verður þó tekin til meðferðar á ný ef umsækjandi tjáir sig um málið eða bætir umsóknina innan fjögurra mánaða frá því að hinn tiltekni frestur rann út, enda greiði hann tilskilið endurupptökugjald.
    Ef árgjald skv. 8., 41. og 42. gr. er ekki greitt verður umsóknin afskrifuð án undanfarandi tilkynningar. Umsókn, sem hefur af þessum ástæðum verið afskrifuð, verður ekki tekin til meðferðar að nýju.

16. gr.

    Telji einkaleyfayfirvöld, að fengnu svari umsækjanda, enn eitthvað mæla á móti því að umsóknin verði samþykkt og hafi umsækjandi haft möguleika á því að tjá sig um það atriði skal hafna umsókninni nema einkaleyfayfirvöld telji ástæðu til að gefa umsækjanda að nýju kost á að tala máli sínu eða bæta umsóknina skv. 1. mgr. 15. gr.

17. gr.

    Staðhæfi einhver við einkaleyfayfirvöld að hann, en ekki umsækjandi, sé rétthafi uppfinningarinnar geta einkaleyfayfirvöld, ef þau telja vafa leika á í þessum efnum, beint þeim tilmælum til viðkomandi að hann höfði mál til staðfestingar kröfu sinni innan tiltekins frests. Ef viðkomandi verður ekki við tilmælunum geta einkaleyfayfirvöld litið fram hjá staðhæfingu hans við afgreiðslu einkaleyfisumsóknarinnar. Þessa skal getið í tilmælunum.
    Ef höfðað er mál fyrir dómstólum um rétt til uppfinningar sem sótt er um einkaleyfi fyrir má fresta frekari meðferð einkaleyfisumsóknarinnar þar til málinu er endanlega lokið.

18. gr.

    Færi einhver sönnur á að hann, en ekki umsækjandi, eigi réttinn til uppfinningar skulu einkaleyfayfirvöld skrá umsóknina á hans nafn, enda setji viðkomandi fram kröfu um það. Sá sem fær einkaleyfisumsókn skráða á sitt nafn með þessum hætti skal greiða umsóknargjald að nýju.
    Komi fram krafa um yfirfærslu einkaleyfisumsóknar skv. 1. mgr. má ekki afskrifa, hafna eða samþykkja umsóknina fyrr en tekin hefur verið endanleg afstaða til kröfunnar.

19. gr.

    Ef umsóknin er í samræmi við settar reglur og fyrirmæli og ekkert er því til fyrirstöðu að veita einkaleyfi skal umsóknin samþykkt til framlagningar skv. 21. gr.
    Eftir að umsókn hefur verið samþykkt til framlagningar verður ekki lögð fram krafa skv. 14. gr. eða einkaleyfiskröfum breytt þannig að umfang einkaleyfisverndar verði víðtækara.

20. gr.

    Umsækjandi skal greiða tilskilið framlagningargjald innan tveggja mánaða frá því einkaleyfayfirvöld tilkynntu honum að umsóknin hefði verið samþykkt til framlagningar. Sé gjaldið ekki greitt skal umsóknin afskrifuð. Umsóknin verður þó tekin til meðferðar að nýju ef umsækjandi greiðir framlagningargjaldið og tilskilið endurupptökugjald innan fjögurra mánaða frá því að frestur rann út.
    Uppfinningamaður, sem sjálfur sækir um einkaleyfi, getur, innan þess frests sem um ræðir í fyrri málslið 1. mgr., farið fram á að hann verði undanþeginn greiðslu á framlagningargjaldi. Einkaleyfayfirvöld geta orðið við slíkri beiðni ef telja má að umsækjandi eigi í verulegum erfiðleikum með að greiða gjaldið. Ef slíkri beiðni er synjað telst greiðsla, sem innt er af hendi innan tveggja mánaða frá synjun, vera greidd á réttum tíma.

21. gr.

    Þegar framlagningargjald skv. 20. gr. hefur verið greitt eða undanþága veitt frá greiðslu þess skulu einkaleyfayfirvöld leggja umsóknina fram svo almenningur eigi þess kost að skoða hana og bera fram andmæli gegn henni. Framlagningin skal auglýst.
    Andmæli skulu vera skrifleg og hafa borist einkaleyfayfirvöldum innan þriggja mánaða frá því að framlagningin var auglýst.
    Frá þeim tíma, sem framlagningin er auglýst, skal vera hægt að fá hjá einkaleyfayfirvöldum prentuð eintök af lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi umsóknar. Þar skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda og uppfinningamann.

22. gr.

    Frá og með framlagningardegi umsóknar skulu umsóknargögnin vera öllum aðgengileg.
    Þegar liðnir eru 18 mánuðir frá umsóknardegi eða þeim degi, sem krafist er forgangsréttar frá, sbr. 6. gr., skulu umsóknargögnin vera öllum aðgengileg, jafnvel þótt umsóknin hafi ekki verið lögð fram. Hafi verið tekin ákvörðun um að afskrifa eða hafna umsókninni má þó ekki veita aðgang að umsóknargögnunum nema umsækjandi krefjist endurupptöku, áfrýi ákvörðun um höfnun eða krefjist endurveitingar réttinda skv. 72. eða 73. gr.
    Ef umsækjandi óskar skulu gögn varðandi umsóknina gerð aðgengileg fyrr en lýst er í 1. og 2. mgr.
    Þegar umsóknargögn verða aðgengileg skv. 2. eða 3. mgr. skal birta auglýsingu um það.
    Hafi skjal að geyma viðskiptaleyndarmál sem ekki varðar uppfinningu þá sem sótt er um einkaleyfi fyrir geta einkaleyfayfirvöld, ef þess er óskað og sérstakar ástæður eru fyrir hendi, ákveðið að skjalið í heild eða að hluta verði ekki aðgengilegt almenningi. Hafi slík beiðni verið sett fram verður skjalið ekki gert aðgengilegt fyrr en tekin hefur verið ákvörðun þar að lútandi eða liðinn er áfrýjunarfrestur vegna þeirrar ákvörðunar. Áfrýjun hefur í för með sér frestun á framkvæmd ákvörðunar.
    Ef rækt af örverustofni er varðveitt í samræmi við ákvæði 8. gr. getur hver sem er fengið afhent sýni af ræktinni í samræmi við ákvæði 1., 2. eða 3. mgr. Þetta þýðir þó ekki að sýni verði afhent neinum þeim sem samkvæmt reglugerð eða lagaákvæðum er óheimilt að meðhöndla varðveittar örverur. Sýni verður heldur ekki afhent neinum þeim sem vegna skaðlegra eiginleika örverunnar er ekki talinn hæfur til að meðhöndla sýnið án verulegrar áhættu.
    Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. getur umsækjandi farið fram á að sýni af örveruræktinni skuli aðeins afhent sérfræðingum þar til umsókn er lögð fram eða þar til endanlega hefur verið úrskurðað um hana án þess að hún sé lögð fram. Iðnaðarráðherra setur reglur um frest til að setja slíka beiðni fram og hverjir teljast skuli sérfræðingar í þessu samhengi.
    Beiðni um afhendingu sýnis skal borin fram skriflega við einkaleyfayfirvöld og skal hún hafa að geyma yfirlýsingu um að fylgt verði þeim takmörkunum varðandi notkun sýnisins sem iðnaðarráðherra ákveður. Ef afhenda á sýnið sérfræðingi skal hann gefa slíka yfirlýsingu í stað þess sem ber fram beiðnina.

23. gr.

    Þegar frestur skv. 2. mgr. 21. gr. er liðinn er umsóknin tekin til frekari umfjöllunar í því skyni að ákveða hvort orðið skuli við henni. Við þá meðferð gilda, eftir því sem við á, ákvæði 15.,16.,17. og 18. gr.
    Hafi komið fram andmæli gegn umsókninni skal umsækjanda tilkynnt það og honum gefinn kostur á að segja álit sitt á þeim.

24. gr.

    Umsækjandi getur skotið endanlegum ákvörðunum einkaleyfaskrifstofunnar varðandi umsóknina til áfrýjunarnefndar. Ef einkaleyfi er veitt þrátt fyrir rétt fram komin andmæli getur andmælandi einnig skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar. Falli andmælandi frá málskoti sínu er eigi að síður heimilt að taka það til umfjöllunar ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Ef beiðni um endurupptöku skv. 3. mgr. 15. gr. eða 1. mgr. 20. gr. er hafnað eða orðið er við beiðni um yfirfærslu umsóknar skv. 18. gr. getur umsækjandi skotið slíkum ákvörðunum til áfrýjunarnefndar. Ef beiðni um yfirfærslu umsóknar er hafnað getur sá sem setti beiðnina fram skotið ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar.
    Ef beiðni skv. 5. og 8. mgr. 22. gr. er hafnað getur sá sem sett hefur slíka beiðni fram skotið ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar.

25. gr.

    Þegar ákvörðun varðandi einkaleyfisumsókn er áfrýjað skal það tilkynnt áfrýjunarnefnd í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynntu viðkomandi um ákvörðunina. Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé það ekki gert skal vísa áfrýjuninni frá.
    Ákvarðanir áfrýjunarnefndar verða ekki bornar undir æðra stjórnvald.
    Dómsmál vegna þeirra ákvarðana einkaleyfaskrifstofunnar, sem skjóta má til áfrýjunarnefndar, verður ekki höfðað fyrr en fyrir liggur niðurstaða áfrýjunarnefndar, sbr. þó 52. og 53. gr. Dómsmál vegna þeirrar ákvörðunar áfrýjunarnefndar að hafna einkaleyfisumsókn skal höfðað innan tveggja mánaða frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðunina.
    Ákvæði 5. mgr. 22. gr. gilda einnig um gögn sem lögð hafa verið fyrir áfrýjunarnefnd.

26. gr.

    Einkaleyfi telst veitt þegar umsókn hefur verið endanlega samþykkt. Þegar einkaleyfi hefur verið veitt skal það auglýst og einkaleyfisskjal gefið út. Hafi lýsingu eða einkaleyfiskröfum verið breytt frá útgáfu eintaka sem um getur í 3. mgr. 21. gr. skal vera unnt að fá hjá einkaleyfayfirvöldum afrit af endanlegri gerð einkaleyfisins. Þar skal getið nafns einkaleyfishafa og uppfinningamanns.
    Sé umsókn, sem almenningur hefur haft aðgang að, endanlega hafnað eða hún afskrifuð skal birta auglýsingu um það.

27. gr.

    Veitt einkaleyfi skulu færð inn í einkaleyfaskrá sem haldin er af einkaleyfayfirvöldum.

III. KAFLI

Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir.

28. gr.

    Með alþjóðlegri einkaleyfisumsókn er átt við umsókn samkvæmt ákvæðum samstarfssáttmálans um einkaleyfi sem undirritaður var í Washington 19. júní 1970.
    Alþjóðleg einkaleyfisumsókn skal lögð inn hjá einkaleyfayfirvöldum eða alþjóðastofnun sem í samræmi við ákvæði sáttmálans og reglur, sem settar eru samkvæmt honum, hafa heimild til að veita viðtöku slíkum umsóknum (viðtökuyfirvöld). Alþjóðlega einkaleyfisumsókn er hægt að leggja inn hjá einkaleyfayfirvöldum hér á landi í samræmi við ákvæði reglugerðar sem iðnaðarráðherra setur. Umsækjandi skal greiða einkaleyfayfirvöldum tilskilið umsóknargjald.
    Ákvæði 29.–38. gr. eiga við um alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir sem taka til Íslands.

29. gr.

    Alþjóðleg einkaleyfisumsókn, sem fengið hefur alþjóðlegan umsóknardag samkvæmt ákvörðun viðtökuyfirvalda, hefur sömu áhrif og einkaleyfisumsókn lögð inn hér á landi sama dag. Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. eiga þó því aðeins við að umsóknin hafi verið yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr.

30. gr.

    Alþjóðleg einkaleyfisumsókn telst afturkölluð að því er Ísland varðar í tilvikum sem nefnd eru í (i)- og (ii)-lið 1. mgr. 24. gr. samstarfssáttmálans um einkaleyfi.

31. gr.

    Óski umsækjandi eftir því að yfirfæra alþjóðlega einkaleyfisumsókn til Íslands skal hann innan 20 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi umsóknarinnar, sé forgangsréttar krafist, greiða tilskilin gjöld til einkaleyfayfirvalda. Enn fremur skal umsækjandi afhenda þýðingu á íslensku af umsókninni að því marki sem ákveðið er í reglugerð. Hafi umsóknin verið lögð inn á íslensku skal afhenda afrit af henni.
    Ef umsækjandi óskar að gerð verði alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi alþjóðlegrar umsóknar og lýsi hann því yfir innan 19 mánaða frá þeim degi sem getið er um í 1. mgr. að hann í samræmi við ákvæði samningsins hyggist nota niðurstöður þeirrar athugunar við umsókn um einkaleyfi á Íslandi skal hann innan 30 mánaða frá fyrrnefndri dagsetningu hafa uppfyllt skilyrði 1. mgr.
    Hafi umsækjandi greitt þau gjöld, sem krafist er, innan þess frests, sem um getur í 1. og 2. mgr., má leggja inn tilskilda þýðingu eða afrit innan tveggja mánaða viðbótarfrests gegn því að greitt sé ákveðið viðbótargjald áður en sá frestur rennur út.
    Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði þessarar greinar telst umsóknin hafa verið dregin til baka að því er varðar Ísland.

32. gr.

    Dragi umsækjandi til baka beiðni um alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi eða yfirlýsingu um að hann hyggist nota niðurstöður slíkrar athugunar við umsókn um einkaleyfi á Íslandi skal litið svo á að alþjóðlega umsóknin hafi verið dregin til baka að því er Ísland varðar nema umsækjandi hafi dregið beiðnina til baka innan þess frests sem gildir skv. 1. mgr. 31. gr. og yfirfært umsóknina innan þeirra tímamarka sem gilda skv. 1. mgr. 31. gr., sbr. 3. mgr. sömu greinar.

33. gr.

    Þegar alþjóðleg einkaleyfisumsókn er yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr. gilda ákvæði II. kafla um umsóknina og meðferð hennar ef ekki er kveðið á um annað í þessari grein eða 34.–37. gr. Umsóknina má þó því aðeins taka til meðferðar að liðnir séu frestir skv. 1. eða 2. mgr. 31. gr. nema umsækjandi óski annars.
    Ákvæði 12. gr. tekur ekki gildi fyrr en einkaleyfayfirvöld geta tekið umsóknina til meðferðar.
    Þótt umsókn hafi ekki verið yfirfærð koma ákvæði 22. gr. til framkvæmda um leið og umsækjandi hefur uppfyllt skyldur sínar skv. 31. gr. með því að leggja inn þýðingu á umsókninni eða, ef umsóknin er á íslensku, þegar umsækjandi hefur lagt inn afrit af henni til einkaleyfayfirvalda.
    Við beitingu ákvæða 48., 56. og 60. gr. telst alþjóðleg einkaleyfisumsókn orðin öllum aðgengileg þegar hún hefur verið gerð aðgengileg samkvæmt ákvæðum 3. mgr. Ef einkaleyfisumsóknin uppfyllir skilyrði samstarfssáttmálans um form og innihald skal hún samþykkt að því leyti.

34. gr.

    Alþjóðleg einkaleyfisumsókn verður ekki samþykkt til framlagningar eða henni hafnað fyrr en liðinn er frestur samkvæmt reglugerð nema umsækjandi hafi samþykkt að tekin verði ákvörðun um umsóknina innan þess frests.

35. gr.

    Án samþykkis umsækjanda mega einkaleyfayfirvöld ekki leggja fram alþjóðlega einkaleyfisumsókn eða gera hana opinbera í prentuðu máli fyrr en umsóknin hefur verið gerð opinber af Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) eða 20 mánuðir eru liðnir frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi sé forgangsréttar krafist.

36. gr.

    Hafi hvorki verið gerð alþjóðleg nýnæmisrannsókn á hluta af alþjóðlegri einkaleyfisumsókn né alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi þess hluta, af þeirri ástæðu að umsóknin er talin hafa að geyma tvær eða fleiri uppfinningar óskyldar hver annarri, og hafi umsækjandi ekki greitt viðbótargjald innan tilskilins frests í samræmi við ákvæði samstarfssáttmálans skulu einkaleyfayfirvöld rannsaka hvort matið var rétt. Reynist svo vera skal umræddur hluti umsóknarinnar teljast afturkallaður hjá einkaleyfayfirvöldum nema því aðeins að umsækjandi greiði tilskilið gjald innan tveggja mánaða frá því að einkaleyfayfirvöld tilkynntu honum um niðurstöðu rannsóknarinnar. Ef einkaleyfayfirvöld komast að þeirri niðurstöðu að matið hafi ekki verið rétt, ber þeim að halda áfram málsmeðferð umsóknarinnar í heild sinni.
    Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun skv. 1. mgr. þess efnis að umsókn varði tvær eða fleiri óskyldar uppfinningar. Ákvæði 1.–3. mgr. 25. gr. eiga hér við.
    Ef úrskurður einkaleyfayfirvalda er staðfestur telst frestur til greiðslu skv. 2. málsl. 1. mgr. frá þeim degi sem endanlegur úrskurður lá fyrir.

37. gr.

    Hafi ekki farið fram alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi hluta alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar af þeirri ástæðu að umsækjandi hefur takmarkað einkaleyfiskröfurnar samkvæmt ábendingu alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar skal líta svo á að umræddur hluti umsóknarinnar hafi verið afturkallaður hjá einkaleyfayfirvöldum nema umsækjandi greiði tilskilið gjald innan tveggja mánaða frá því að einkaleyfayfirvöld sendu honum tilkynningu þar að lútandi með vísun til takmörkunar á þeirri rannsókn sem fram fór.

38. gr.

    Hafi viðtökuyfirvöld hafnað því að veita alþjóðlegri einkaleyfisumsókn alþjóðlegan umsóknardag, eða tekið ákvörðun um að umsóknin eða beiðni þess efnis að umsóknin taki til Íslands teljist afturkölluð, skulu einkaleyfayfirvöld að beiðni umsækjanda sannreyna hvort ákvörðunin hafi verið rétt. Sama gildir ef alþjóðaskrifstofan hefur úrskurðað að einkaleyfisumsóknin teljist afturkölluð.
    Beiðni um endurmat skv. 1. mgr. skal koma á framfæri við alþjóðaskrifstofuna innan frests sem ákveðinn er í reglugerð. Innan sama frests, og að því marki sem kveðið er á um í reglugerð, ber umsækjanda að leggja fram þýðingu á umsókninni til einkaleyfayfirvalda og greiða að auki tilskilið umsóknargjald.
    Telji einkaleyfayfirvöld að úrskurður viðtökuyfirvalda eða alþjóðaskrifstofunnar sé rangur skulu þau fara með umsóknina í samræmi við ákvæði II. kafla. Hafi viðtökuyfirvöld ekki ákvarðað alþjóðlegan umsóknardag telst hún vera lögð inn þann dag sem einkaleyfayfirvöld telja að hefði átt að ákvarða sem alþjóðlegan umsóknardag. Sé umsóknin í samræmi við ákvæði samstarfssáttmálans að því er varðar form og efni skal hún viðurkennd að því leyti.
    Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. gildir um umsókn sem tekin er til meðferðar skv. 3. mgr., svo fremi hún verði gerð almenningi aðgengileg samkvæmt ákvæðum 22. gr.

IV. KAFLI

Umfang einkaleyfis og gildistími.

39. gr.

    Umfang einkaleyfisverndar ákvarðast af einkaleyfiskröfum. Skýringa á einkaleyfiskröfum má leita í lýsingu.

40. gr.

    Veittu einkaleyfi er unnt að halda í gildi í 20 ár frá umsóknardegi. Greiða skal árgjald af einkaleyfi fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða eftir að leyfið er veitt. Verði einkaleyfi veitt áður en árgjöld fyrir umsóknina falla í gjalddaga, sbr. ákvæði 41. gr., skal eigandi einkaleyfisins einnig, um leið og árgjald fyrir einkaleyfið gjaldfellur í fyrsta skipti, greiða árgjöld fyrir þau gjaldár sem hafist hafa fyrir veitingu leyfisins.

V. KAFLI

Greiðsla árgjalda.

41. gr.

    Árgjald fellur í gjalddaga síðasta dag fyrsta almanaksmánaðar í gjaldári. Árgjöld fyrir fyrstu tvö gjaldárin falla þó ekki í gjalddaga fyrr en árgjald fyrir þriðja gjaldár gjaldfellur. Heimilt er að greiða árgjald allt að þremur mánuðum fyrir gjalddaga. Ef dómstólar hnekkja úrskurði áfrýjunarnefndar um að hafna umsókn gjaldfellur árgjald, fyrir gjaldár sem hefst eftir að úrskurður áfrýjunarnefndar er kveðinn upp og þar til dómurinn öðlast réttargildi, ekki fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá síðastgreindum degi.
    Þegar um er að ræða seinni umsókn skv. 11. gr. teljast árgjöld, fyrir gjaldár sem hefjast áður en hún er lögð inn eða innan tveggja mánaða frá þeim degi, undir engum kringumstæðum fallin í gjalddaga fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá umræddum degi. Þegar um er að ræða alþjóðlega umsókn sem yfirfærð hefur verið skv. 31. gr. teljast árgjöld, fyrir gjaldár sem hefjast fyrir yfirfærsludag eða fyrir þann dag sem umsókn hefur verið tekin til meðferðar skv. 38. gr. eða innan tveggja mánaða frá þeim degi, undir engum kringumstæðum fallin í gjalddaga fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá þeim degi.
    Árgjald má, með tilskilinni hækkun, greiða innan sex mánaða frá gjalddaga.

42. gr.

    Ef uppfinningamaður er umsækjandi eða eigandi einkaleyfis og teljist það verulegum erfiðleikum bundið fyrir hann að greiða árgjöld geta einkaleyfayfirvöld veitt honum greiðslufrest, enda komi fram beiðni um það í síðasta lagi þann dag sem árgjöldin falla í fyrsta sinn í gjalddaga. Greiðslufrest má veita þrjú ár í senn en þó ekki lengur en í þrjú ár frá veitingu einkaleyfis. Beiðni um lengingu frests skal í síðasta lagi bera fram þann dag sem veittur frestur rennur út.
    Ef beiðni um greiðslufrest á árgjaldi eða lengingu hans er hafnað telst greiðsla, sem berst innan tveggja mánaða frá því, greidd á réttum tíma.
    Árgjald, sem veittur hefur verið frestur til að greiða skv. 1. mgr., má greiða innan sex mánaða frá þeim tíma, er frestur rann út, með sömu hækkun og nefnd er í 3. mgr. 41. gr.

VI. KAFLI

Nytjaleyfi, framsal o.fl.

43. gr.

    Hafi einkaleyfishafi veitt öðrum nytjaleyfi, þ.e. heimild til að hagnýta uppfinningu í atvinnuskyni, er nytjaleyfishafa óheimilt að framselja þann rétt til annarra nema um annað hafi verið samið.

44. gr.

    Ef aðilaskipti verða að einkaleyfi eða nytjaleyfi er veitt skulu slíkar breytingar færðar í einkaleyfaskrá sé þess óskað.
    Ef færðar eru sönnur á að skráð nytjaleyfi sé fallið niður skal það afmáð í einkaleyfaskránni.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. taka einnig til nauðungarleyfa og heimilda skv. 2. mgr. 53. gr. Málsókn vegna einkaleyfis má ætíð beina að þeim sem er skráður einkaleyfishafi í einkaleyfaskrá og tilkynningar frá einkaleyfayfirvöldum má senda honum.

45. gr.

    Hafi einkaleyfð uppfinning ekki verið notuð hér á landi með eðlilegum hætti þegar liðin eru þrjú ár frá útgáfu einkaleyfis og fjögur ár frá umsóknardegi getur sá sem vill nota uppfinninguna hér á landi fengið nauðungarleyfi í því skyni nema gildar ástæður séu fyrir því að uppfinningin hafi ekki verið notuð.
    Við beitingu ákvæða 1. mgr. getur iðnaðarráðherra ákveðið ef fullnægt er skilyrðum um gagnkvæmni að notkun í öðru landi teljist jafngild notkun hér á landi.

46. gr.

    Þegar hagnýting einkaleyfðrar uppfinningar er háð einkaleyfi sem annar á getur eigandi fyrrnefnda einkaleyfisins fengið nauðungarleyfi til að hagnýta uppfinningu þá sem vernduð er með síðarnefnda einkaleyfinu teljist það sanngjarnt með hliðsjón af mikilvægi fyrrnefndu uppfinningarinnar eða af öðrum sérstökum ástæðum.
    Hafi verið veitt nauðungarleyfi skv. 1. mgr. til að hagnýta einkaleyfða uppfinningu getur einkaleyfishafi þeirrar uppfinningar einnig fengið nauðungarleyfi til að hagnýta hina uppfinninguna nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

47. gr.

    Ef það telst nauðsynlegt vegna ríkra almannahagsmuna má veita þeim sem hagnýta vill í atvinnuskyni uppfinningu sem annar hefur einkaleyfi fyrir nauðungarleyfi til slíkrar hagnýtingar.

48. gr.

    Nú hagnýtir einhver í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu sem sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir þegar umsóknin verður aðgengileg almenningi. Getur viðkomandi þá, ef mjög sérstakar ástæður mæla með því og umsóknin leiðir til einkaleyfis, fengið nauðungarleyfi til að hagnýta uppfinninguna. Það verður því aðeins veitt að viðkomandi hafi ekki vitað um umsóknina og þess verði heldur ekki með sanngirni af honum krafist að hann hafi getað aflað sér slíkrar vitneskju. Á sömu forsendum getur sá er gert hefur verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni einnig öðlast slíkan rétt.
    Nauðungarleyfi skv. 1. mgr. getur náð til tímans fyrir veitingu einkaleyfisins.

49. gr.

    Nauðungarleyfi verður eingöngu veitt þeim sem ætla má að sé fær um að hagnýta uppfinninguna á sanngjarnan og viðunandi hátt og í samræmi við leyfið.
    Nauðungarleyfi hindrar ekki að einkaleyfishafi sjálfur hagnýti uppfinninguna eða veiti öðrum nytjaleyfi. Aðilaskipti að nauðungarleyfi eru aðeins heimil í tengslum við aðilaskipti að atvinnurekstri þeim sem leyfið er hagnýtt í eða til stóð að hagnýta það.

50. gr.

    Bæjarþing Reykjavíkur sker úr um það hvort nauðungarleyfi skuli veitt, að hvaða marki hagnýta má uppfinninguna, hve hátt endurgjald skuli greitt einkaleyfishafa og önnur skilyrði nauðungarleyfis. Breytist aðstæður verulega getur dómstóllinn að kröfu annars hvors aðila fellt leyfið úr gildi eða ákveðið nýja skilmála.

VII. KAFLI

Brottfall einkaleyfis o. fl.

51. gr.

    Sé árgjald ekki greitt samkvæmt reglum í 40., 41. og 42. gr. fellur einkaleyfið úr gildi frá og með byrjun þess gjaldárs sem ekki er greitt fyrir.

52. gr.

    Ógilda má einkaleyfi með dómi ef:
     1.      það hefur verið veitt án þess að skilyrðum 1. og 2. gr. hafi verið fullnægt,
     2.      það varðar uppfinningu sem ekki er lýst svo greinilega að fagmaður geti á grundvelli lýsingarinnar útfært uppfinninguna,
     3.      það tekur til einhvers sem ekki kom fram í umsókn þegar hún var lögð inn eða
     4.      það hefur verið veitt þótt verndarsvið þess hafi verið rýmkað eftir að umsóknin var samþykkt til framlagningar.
    Einkaleyfi verður þó ekki dæmt ógilt í heild sinni af þeirri ástæðu að einkaleyfishafinn hafi einungis átt rétt til einkaleyfisins að hluta.
    Að frátöldu tilviki því, er greinir í 4. mgr., getur hver sem er höfðað mál samkvæmt grein þessari.
    Mál, sem reist er á því að annar hafi öðlast einkaleyfi en sá sem skv. 1. gr. á rétt til þess, getur sá einn höfðað er telur sig eiga rétt til einkaleyfisins. Mál skal höfðað innan eins árs frá því að viðkomandi fékk vitneskju um útgáfu einkaleyfisins og önnur þau atvik sem málsóknin er reist á. Hafi einkaleyfishafi verið í góðri trú, þegar einkaleyfið var veitt eða þegar hann eignaðist það verður mál undir engum kringumstæðum höfðað eftir að þrjú ár eru liðin frá útgáfu einkaleyfisins.

53. gr.

    Hafi einkaleyfi verið veitt öðrum en þeim sem skv. 1. gr. á rétt til leyfisins skal rétturinn til þess yfirfærður til rétthafa með dómi ef hann krefst þess. Um málshöfðunarfresti fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 52. gr.
    Hafi maður, sem misst hefur einkaleyfi með dómi, í góðri trú hagnýtt uppfinningu í atvinnuskyni hérlendis eða gert verulegar ráðstafanir til þess er honum heimilt gegn sanngjörnu gjaldi og að öðru leyti með sanngjörnum skilmálum að halda þeirri hagnýtingu áfram með sem líkustum hætti eða hefja fyrirhugaða hagnýtingu innan sömu marka. Handhafi skráðs nytjaleyfis hefur einnig sama rétt á sömu forsendum.
    Aðilaskipti að rétti skv. 2. mgr. geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.

54. gr.

    Falli einkaleyfishafi frá einkaleyfi sínu með skriflegri yfirlýsingu til einkaleyfayfirvalda skulu þau lýsa einkaleyfið niður fallið.
    Nú er byrjuð málsókn um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis og má þá ekki lýsa einkaleyfið niður fallið fyrr en úrlausn er fengin í málinu.

55. gr.

    Þegar einkaleyfi fellur úr gildi eða það er lýst niður fallið, það dæmt ógilt eða réttur til þess yfirfærður skulu einkaleyfayfirvöld gefa út tilkynningu um það.

VIII. KAFLI

Skylda til að veita upplýsingar um einkaleyfi.

56. gr.

    Beri umsækjandi um einkaleyfi fyrir sig umsókn sína gagnvart öðrum áður en hún er gerð almenningi aðgengileg er honum skylt að veita þeim aðgang að umsóknargögnunum sé þess krafist. Hafi rækt af örverustofni verið lögð inn til varðveislu í tengslum við umsóknina, sbr. 6. mgr. 8. gr., skal viðkomandi aðili einnig eiga rétt á því að fá afhent sýni af ræktinni. Ákvæði 2. og 3. málsl. 6. mgr. 22. gr. ásamt 7. og 8. mgr. sömu greinar eiga hér við.
    Gefi maður til kynna með því að snúa sér beint til annars eða með auglýsingu, með áritun á vöru eða umbúðir hennar eða með öðrum hætti að sótt hafi verið um einkaleyfi eða það veitt, án þess þó jafnframt að tilgreina númer einkaleyfisins eða umsóknarinnar, er honum skylt að veita þeim sem þess krefst þær upplýsingar án ástæðulausrar tafar. Ef upplýsingar eru til þess fallnar að gefa í skyn að um einkaleyfi hafi verið sótt eða það veitt, án þess að slíkt sé skýrt tekið fram, er skylt, sé þess krafist, að veita án ástæðulausrar tafar upplýsingar um hvort svo sé.

IX. KAFLI

Refsi- og bótaábyrgð o.fl.

57. gr.

    Sá sem af ásetningi skerðir einkarétt þann er einkaleyfi veitir skal sæta sektum eða, ef sök er mikil, varðhaldi allt að þremur mánuðum.
    Nú er brot framið af félagi eða öðru fyrirtæki og er þá heimilt að dæma það í fésekt.
    Sókn sakar á sá sem misgert er við.

58. gr.

    Sá sem af ásetningi eða gáleysi skerðir einkaleyfisrétt skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu uppfinningar og að auki skaðabætur fyrir annað það tjón sem skerðingin hefur haft í för með sér.
    Skerði einhver einkaleyfisrétt án þess að um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða er hann, ef og að því marki sem það telst sanngjarnt, skyldur til að greiða endurgjald og skaðabætur samkvæmt ákvæðum 1. mgr.

59. gr.

    Nú hefur einkaleyfisréttur verið skertur og getur þá dómstóll, sé þess krafist og að svo miklu leyti sem það telst sanngjarnt, mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun afurða, sem framleiddar hafa verið samkvæmt einkaleyfðri uppfinningu, eða misnotkun tækja, útbúnaðar eða annars sem hefði skerðingu einkaleyfisréttar í för með sér. Þannig má mæla fyrir um að hlut verði breytt á ákveðinn hátt, hann eyðilagður eða, þegar um er að ræða einkaleyfisverndaðan hlut, að hann verði afhentur gegn endurgjaldi þeim sem misgert var við. Þetta á þó ekki við gagnvart þeim sem í góðri trú hefur eignast viðkomandi hlut eða öðlast umráðarétt yfir honum og hefur ekki sjálfur framið einkaleyfisbrot.
    Þegar mjög sérstæðar ástæður liggja til grundvallar getur dómstóll, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. og sé þess krafist, veitt eiganda afurða þeirra, tækja, útbúnaðar og annars sem nefnt er í 1. mgr., heimild til umráða yfir þeim á gildistíma einkaleyfis eða hluta af honum gegn sanngjörnu endurgjaldi og að öðru leyti með sanngjörnum skilmálum.

60. gr.

    Hagnýti einhver uppfinningu án heimildar í atvinnuskyni eftir að umsóknargögn hafa verið gerð almenningi aðgengileg og leiði umsóknin til veitingar einkaleyfis verður ákvæðum um einkaleyfisskerðingu beitt eftir því sem við getur átt, að undanskildum ákvæðum 57. gr. Áður en framlagning skv. 21. gr. er auglýst nær einkaleyfisverndin þó aðeins til þess sem leiða má bæði af einkaleyfiskröfum eins og þær voru þegar umsóknin varð almenningi aðgengileg og af einkaleyfiskröfum í einkaleyfinu.
    Brotlegur aðili er aðeins skyldur til greiðslu skaðabóta að því marki sem um ræðir í 2. mgr. 58. gr. fyrir tjón sem leiðir af skerðingu sem átt hefur sér stað áður en framlagning umsóknar skv. 21. gr. er auglýst.

61. gr.

    Í málum, er varða einkaleyfisskerðingu, verður einkaleyfi því aðeins lýst ógilt að kröfu þess efnis hafi verið beint að einkaleyfishafa, eftir atvikum eftir að honum var stefnt samkvæmt reglum 4. mgr. 63. gr. Verði einkaleyfið dæmt ógilt verður ákvæðum 57.–60. gr. ekki beitt.

62. gr.

    Sá sem lætur undir höfuð leggjast að uppfylla skyldur sínar skv. 56. gr. eða gefur rangar upplýsingar skal sæta sektum ef ekki liggur þyngri refsing við broti hans samkvæmt öðrum lögum. Hann skal og bæta það tjón sem af háttsemi hans hefur hlotist, að því marki sem sanngjarnt verður talið.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 57. gr. eiga hér einnig við.

63. gr.

    Sá sem höfðar mál til ógildingar einkaleyfi eða um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis eða til að öðlast nauðungarleyfi skal tilkynna það einkaleyfayfirvöldum. Samtímis skal hann með ábyrgðarbréfi tilkynna málshöfðunina öllum skráðum nytjaleyfishöfum sé heimilisfangs þeirra getið í einkaleyfaskránni. Nytjaleyfishafi, sem höfða vill mál vegna skerðingar á einkaleyfi, skal með sama hætti tilkynna það einkaleyfishafa, enda sé heimilisfangs hans getið í skránni.
    Sanni stefnandi ekki á þingfestingardegi að tilkynningar skv. 1. mgr. hafi verið sendar getur dómstóllinn veitt honum frest svo skilyrðum 1. mgr. verði fullnægt. Nýti stefnandi ekki frestinn í þessu skyni skal vísa máli hans frá dómi.
    Nú höfðar einkaleyfishafi mál vegna einkaleyfisskerðingar og vilji stefndi gera kröfu um að einkaleyfið verði dæmt ógilt skal hann samkvæmt ákvæðum 1. mgr. tilkynna það einkaleyfayfirvöldum og skráðum nytjaleyfishöfum. Ákvæði 2. mgr. eiga hér einnig við og verður kröfunni um ógildingu einkaleyfis vísað frá dómi ef stefndi nýtir ekki frestinn.
    Í málum um einkaleyfisskerðingu, sem nytjaleyfishafi höfðar, getur stefndi stefnt einkaleyfishafanum án tillits til varnarþings hans til að beina að honum kröfu um ógildingu einkaleyfisins. Ákvæði IV. kafla laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, eiga hér við.

64. gr.

    Eftirgreind mál skal höfða fyrir bæjarþingi Reykjavíkur:
     1.      mál um rétt til uppfinningar sem sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir,
     2.      mál um veitingu einkaleyfis, sbr. 3. mgr. 25. gr.,
     3.      mál um ógildingu einkaleyfis eða um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis, sbr. 52. og 53. gr., svo og mál um réttindi skv. 2. mgr. 53. gr.,
     4.      mál um réttindi skv. 4. gr. og 2. mgr. 74. gr.,
     5.      mál um einkaleyfisskerðingu,
     6.      mál um aðilaskipti að einkaleyfi og mál um nytjaleyfi.
    Umsækjendur og einkaleyfishafar, sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, skulu taldir eiga varnarþing í Reykjavík í málum samkvæmt lögum þessum.

65. gr.

    Endurrit dóma í málum skv. 50. gr. og 1. mgr. 64. gr. skal dómari að eigin frumkvæði láta einkaleyfayfirvöldum í té.

X. KAFLI

Ýmis ákvæði.

66. gr.

    Einkaleyfishafi, sem ekki hefur heimilisfesti hér á landi, skal hafa umboðsmann sem búsettur er hérlendis. Í einkaleyfaskrá skal skrá hver umboðsmaður er. Umboðsmaður hefur, fyrir hönd einkaleyfishafa, heimild til að taka við stefnu og öðrum tilkynningum er einkaleyfið varða.
    Hafi einkaleyfishafi ekki umboðsmann fer um birtingu stefnu eftir því sem segir í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 85/1936. Einnig skal í ábyrgðarbréfi senda skráðum einkaleyfishafa afrit stefnu. Sama gildir um aðrar tilkynningar er einkaleyfið varða.
    Iðnaðarráðherra getur ákveðið að reglur 1. mgr. gildi ekki gagnvart einkaleyfishafa sem heimilisfesti á í öðru landi ef einkaleyfishafar, sem heimilisfesti eiga hér á landi, njóta sama réttar að þessu leyti í hinu erlenda ríki. Hið sama gildir einnig ef einkaleyfishafi hefur umboðsmann sem búsettur er í viðkomandi ríki og sá hinn sami er skráður í einkaleyfaskrá hér á landi sem umboðsmaður með heimild til að taka við stefnu og öðrum tilkynningum.

67. gr.

    Umsækjandi eða einkaleyfishafi getur skotið til áfrýjunarnefndar öðrum endanlegum ákvörðunum einkaleyfaskrifstofunnar en getið er í 24. gr. í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Sama gildir um ákvarðanir skv. 42. gr. eða 1. og 2. mgr. 72. gr., svo og 73. gr. Aðrir, sem hagsmuna eiga að gæta, geta með sama hætti skotið umræddum ákvörðunum til áfrýjunarnefndar í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að hún var birt.
    Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé það ekki gert skal vísa áfrýjuninni frá.

68. gr.

    Í reglugerð skal kveðið á um gjöld samkvæmt lögum þessum, þóknun fyrir þjónustu og þess háttar. Einnig er heimilt að ákveða í reglugerð að ekki verði greitt árgjald skv. 41. gr. fyrir eitt eða fleiri hinna fyrstu gjaldára.

69. gr.

    Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um einkaleyfisumsóknir og meðferð þeirra, um skipulag og færslu einkaleyfaskrár, um útgáfu og efni einkaleyfatíðinda, um skipulag og starfshætti einkaleyfaskrifstofu og áfrýjunarnefndar svo og almennt um framkvæmd laga þessara. Þar má m.a. kveða á um að dagbækur einkaleyfaskrifstofunnar um inn komnar umsóknir skuli vera öllum aðgengilegar.
    Iðnaðarráðherra getur ákveðið, að ósk yfirvalda í öðru landi, að einkaleyfayfirvöld hér á landi veiti hinu erlenda yfirvaldi upplýsingar um meðferð á innlögðum einkaleyfisumsóknum. Einnig getur iðnaðarráðherra ákveðið að einkaleyfayfirvöld hér á landi geti við mat á einkaleyfishæfi umsóknar lagt til grundvallar rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningar sem fram hefur farið hjá einkaleyfayfirvöldum í öðru landi eða hjá alþjóðlegri stofnun.
    Iðnaðarráðherra getur enn fremur ákveðið að umsækjandi hér á landi, sem lagt hefur inn sambærilega umsókn um einkaleyfi í öðru landi, skuli, að kröfu einkaleyfayfirvalda hér á landi, innan ákveðins frests láta í té upplýsingar sem honum hafa verið veittar af einkaleyfayfirvöldum í viðkomandi landi um niðurstöður rannsóknar á einkaleyfishæfi uppfinningar ásamt afriti af bréfaskriftum þeirra á milli. Upplýsinga verður þó ekki krafist vegna alþjóðlegrar umsóknar sem fjallað er um í III. kafla laganna ef fram hefur farið alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi hennar og skýrsla um rannsóknina hefur verið látin einkaleyfayfirvöldum í té.

70. gr.

    Ef nauðsyn krefur vegna neyðarástands af völdum náttúruhamfara, stríðs eða yfirvofandi stríðshættu getur iðnaðarráðherra ákveðið að réttur til að hagnýta uppfinningu falli til ríkisins eða annars aðila sem ráðherra ákveður. Fullt endurgjald skal koma fyrir slíka yfirtöku. Náist ekki samkomulag um endurgjald skal það ákveðið með mati samkvæmt lögum nr. 11/1973.
    Ef réttur til að hagnýta uppfinningu er yfirtekinn á grundvelli ákvörðunar skv. 1. mgr. af öðrum en ríkinu og sá aðili greiðir ekki endurgjald það sem þar um ræðir er ríkinu skylt að kröfu þess, sem rétt á til endurgjaldsins, að greiða það samstundis.

71. gr.

    Einkaleyfaskrifstofunni er heimilt að taka að sér verkefni við öflun eða úrvinnslu gagna er hún varðveitir eða hefur aðgang að og eru orðin almenningi aðgengileg. Nánar skal kveðið á um slíka upplýsingaþjónustu og gjaldtöku fyrir hana í reglugerð.

72. gr.

    Nú glatar einkaleyfisumsækjandi, að frátöldum þeim tilvikum sem nefnd eru í 2. mgr., rétti af þeirri ástæðu að hann eða umboðsmaður hans hefur ekki gert ráðstafanir hjá einkaleyfayfirvöldum innan þess frests sem settur er í lögum þessum eða á grundvelli þeirra og hafi hlutaðeigandi gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að virða frestinn og geri hann viðeigandi ráðstafanir innan tveggja mánaða frá brottfalli hindrunar er töfinni olli, en þó aldrei síðar en einu ári frá lokum frestsins, skulu einkaleyfayfirvöld endurveita honum réttinn. Til þess að rétturinn verði endurveittur þarf, innan sama frests, að leggja fram skriflega beiðni þar að lútandi og greiða tilskilin gjöld.
    Ákvæði 1. mgr. eiga með sama hætti við ef umsækjandi eða einkaleyfishafi hefur ekki greitt árgjald innan þess frests sem ákveðinn er í 3. mgr. 41. gr. eða 3. mgr. 42. gr. Beiðni um endurveitingu réttinda í þeim tilvikum þarf þó að hafa borist og árgjaldið greitt í síðasta lagi sex mánuðum frá lokum frestsins.
    Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um frest skv. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 25. gr.

73. gr.

    Nú hefur umsækjandi í þeim tilvikum, er greinir í 31. gr. og 38. gr., sent gögn eða gjöld í pósti, en sendingin ekki komið fram á réttum tíma, og hafi viðeigandi gögnum eða gjaldi verið komið til einkaleyfayfirvalda innan tveggja mánaða frá því að umsækjanda varð ljóst eða hann mátti vita að frestur var liðinn eða í síðasta lagi einu ári eftir að frestur var liðinn skulu einkaleyfayfirvöld endurveita réttindin ef:
     1.      póstsamgöngur hafa legið niðri síðustu 10 daga fyrir lok frestsins vegna stríðs, byltingar, uppþots, verkfalls, náttúruhamfara eða af öðrum svipuðum ástæðum á þeim stað þar sem sendandi dvelur eða hefur starfsemi sína og gögnin eða gjöldin eru send einkaleyfayfirvöldum innan fimm daga frá því að póstsamgöngur hófust að nýju eða
     2.      gögnin eða gjaldið hafa verið send í ábyrgðarpósti til einkaleyfayfirvalda í síðasta lagi fimm dögum fyrir lok frestsins. Ákvæðið á þó aðeins við ef ábyrgðarsendingin var send í flugpósti nema slíkt sé ekki mögulegt eða ef sendandi hefur haft ástæðu til að ætla að hún kæmist til skila í síðasta lagi tveimur dögum frá sendingardegi.
    Óski umsækjandi eftir endurveitingu réttinda skv. 1. mgr. skal hann innan þar tilgreinds frests senda einkaleyfayfirvöldum skriflega beiðni þar að lútandi.

74. gr.

    Það skal auglýst ef orðið er við beiðni um endurveitingu skv. 72. eða 73. gr. og umsókn, sem hefur verið afskrifuð eða hafnað eftir að hún var gerð almenningi aðgengileg, er tekin til áframhaldandi meðferðar eða niðurfallið einkaleyfi öðlast gildi að nýju á grundvelli endurveitingarinnar.
    Hafi maður í góðri trú byrjað að hagnýta uppfinningu hér á landi í atvinnuskyni, eða gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að liðinn er tilskilinn frestur til endurupptöku umsóknar sem hefur verið afskrifuð eða hafnað, ellegar eftir að tilkynnt hefur verið að einkaleyfi sé fallið úr gildi, en þó áður en auglýsing skv. 1. mgr. hefur verið gefin út, þá getur hlutaðeigandi haldið hagnýtingu áfram með sama hætti og áður var.
    Aðilaskipti að rétti skv. 2. mgr. geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.

XI. KAFLI

Gildistökuákvæði.

75. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar sex mánuðir eru liðnir frá staðfestingu þeirra. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 12 20. júní 1923, um einkaleyfi, með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum þessa kafla. Þá falla úr gildi lög nr. 15 2. apríl 1946, um breytingu á lögum nr. 12 20. júní 1923.
    Ekki er hægt að veita einkaleyfi fyrir læknislyfjum fyrr en fimm árum eftir gildistöku laga þessara. Einkaleyfi má þó veita fyrir sérstakri aðferð við tilreiðslu slíkra efna.
    Ákvæði III. kafla laganna taka ekki gildi fyrr en auglýsing hefur verið birt um að Ísland hafi gerst aðili að samstarfssáttmálanum.
    Ákvæði 8., 22. og 56. gr. laganna um varðveislu ræktar af örverustofni taka ekki gildi fyrr en slíkt verður ákveðið með reglugerð og verður einungis beitt varðandi umsóknir sem lagðar eru inn eftir að ákvæðin taka gildi.

76. gr.

    Lögin gilda um einkaleyfi, sem veitt hafa verið eða veitt verða í samræmi við eldri lög, með þeim takmörkunum sem leiðir af eftirfarandi ákvæðum:
     1.      Einkaleyfi, sem um ræðir í 1. málsl. þessarar greinar verða einungis ógilt í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 12 20. júní 1923.
     2.      Gildistími einkaleyfa, sem veitt eru 10 árum fyrir gildistöku þessara laga eða fyrr, ræðst af ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 12 20. júní 1923. Gildistími annarra einkaleyfa, sem veitt eru í samræmi við eldri lög, ræðst af lögum þessum en þó þannig að hann verði ekki styttri en 15 ár frá útgáfudegi.
     3.      Ákvæði laga nr. 12 20. júní 1923 um viðbótareinkaleyfi gilda áfram um þau viðbótareinkaleyfi sem veitt hafa verið í samræmi við þau lög.

77. gr.

    Hafi stofnast réttur til að hagnýta uppfinningu á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 6. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 áður en lög þessi taka gildi skal sá réttur haldast þótt skilyrði 4. gr. þessara laga séu ekki uppfyllt.

78. gr.

    Um meðferð einkaleyfisumsókna, sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku laga þessara, fer eftir ákvæðum laga nr. 12 20. júní 1923 með þeim undantekningum sem leiða má af öðrum ákvæðum þessa kafla.

79. gr.

    Hafi umsókn, sem við gildistöku laga þessara er til meðferðar hjá einkaleyfayfirvöldum, ekki verið auglýst í samræmi við 13. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 þá gilda ákvæði þessara laga um aðgengileika umsóknarinnar, framlagningu og andmælafrest.

80. gr.

    Nú hagnýtir einhver við gildistöku laga þessara í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu sem ekki hefur verið unnt að veita einkaleyfi fyrir samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 eða gerir verulegar ráðstafanir til að hagnýta slíka uppfinningu. Honum er þá heimilt að halda þeirri hagnýtingu áfram í samræmi við 4. gr. þessara laga óháð því hvort hagnýtingin eða ráðstafanir þar að lútandi hófust eftir að umsókn um einkaleyfi fyrir viðkomandi uppfinningu var lögð inn og óháð því hvort einkaleyfi verður síðar veitt fyrir henni.
    Nú hagnýtir einhver við gildistöku laga þessara í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu sem annar hefur einkaleyfi fyrir án þess að sú hagnýting sé óheimil með tilliti til 5. gr. laga nr. 12 20. júní 1923, eða gerir verulegar ráðstafanir til slíkrar hagnýtingar. Honum er þá heimilt að halda þeirri hagnýtingu áfram innan sömu marka þrátt fyrir að hagnýtingin væri óheimil skv. 3. gr. þessara laga. Aðilaskipti að slíkum rétti geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.

81. gr.

    Nú hefur uppfinning orðið kunnug almenningi fyrir gildistöku laga þessara vegna aðgerða af hálfu umsækjanda eða einhvers sem hann sækir rétt sinn til. Ef lögð er inn umsókn um einkaleyfi fyrir þeirri uppfinningu innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara skulu einungis ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 gilda við mat á því að hve miklu leyti hægt sé að veita einkaleyfi með tilliti til ofangreindra aðgerða eða að hve miklu leyti veitt einkaleyfi verði ógilt.

82. gr.

    Árgjöld af einkaleyfum, sem veitt hafa verið eða veitt verða í samræmi við eldri lög, gjaldfalla í fyrsta sinn þegar einkaleyfisgjald samkvæmt núgildandi reglum. sbr. 8. gr. rg. nr. 59/1966, hefði næst átt að gjaldfalla eftir gildistöku laga þessara. Eftir það gjaldfalla þau í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Greiða skal árgjöld af umsóknum sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku laga þessara. Árgjald fyrir slíkar umsóknir reiknast í fyrsta sinn frá þeim almanaksdegi eftir gildistöku laganna sem umsóknin var upphaflega lögð inn á. Árgjöld fyrir fyrstu tvö gjaldárin eftir gildistöku laganna falla þó ekki í gjalddaga fyrr en árgjald fyrir þriðja gjaldár gjaldfellur.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpinu er ætlað að verða grundvöllur nýrrar einkaleyfalöggjafar sem betur svari þörfum iðnaðarins og almennings en núgildandi lög. Verði frumvarpið að lögum mun það leysa af hólmi núgildandi lög um einkaleyfi sem eru frá árinu 1923.
    Samningu frumvarpsins lauk á sl. vori (1990) og var það lagt fram til kynningar í lok 112. löggjafarþingsins. Iðnaðarráðuneytið sendi síðan frumvarpið til umsagnar þeim aðilum sem talið var að einkum ættu hagsmuna að gæta eða sérstakan áhuga hefðu á efni þess.
    Á fskj. III er listi yfir þá 46 aðila sem fengu frv. til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. júní 1990. Skriflegar umsagnir bárust frá 15 aðilum og lýstu þeir allir stuðningi við frv. Á fskj. IV eru birt bréf þeirra aðila sem höfðu fram að færa beinar athugasemdir og ábendingar.
    Við frágang á frv. eins og það nú liggur fyrir hefur verið reynt að taka tillit til fram kominna athugasemda, en þær vörðuðu einkum gildistökuákvæði í XI. kafla frv. Nokkrar minni háttar breytingar og leiðréttingar hafa einnig verið gerðar á skýringum við einstakar greinar og greinargerð þeirri sem hér fer á eftir.

Um aðdraganda og samningu frumvarpsins.


    Umfjöllun um endurskoðun á núgildandi einkaleyfalögum má rekja allt aftur til ársins 1981 er þáverandi iðnaðarráðherra setti starfshóp til að fjalla um þörfina á endurbættri löggjöf á þessu sviði. Síðan hafa þrjár nefndir verið skipaðar til að takast á við þetta verkefni. Sú fyrsta starfaði á árunum 1983–85. Nefndin skilaði áfangaáliti 1983 um ýmsa þætti eignarréttinda á sviði iðnaðar. Hún var leyst frá störfum í mars 1985. Næsta nefnd var skipuð í október 1985. Gerði hún tillögu til iðnaðarráðherra um að hafinn yrði undirbúningur að samningu frv. um mynsturvernd. Nefndin var fljótlega leyst frá störfum.
    Í nóvember 1987 skipaði iðnaðarráðherra þriggja manna starfshóp til að vinna að úttekt vegna endurskoðunar á lögum um einkaleyfi. Í starfshópnum voru Gunnar Örn Harðarson tæknifræðingur, Jón L. Arnalds borgardómari og Þorgeir Örlygsson prófessor. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu til iðnaðarráðherra 1. febrúar 1988. Var skýrslan lögð fyrir Alþingi í apríl 1988. Í framhaldi af því fól iðnaðarráðherra starfshópnum að vinna að samningu frumvarps til laga um einkaleyfi. Starfshópurinn lauk störfum í júlí 1989 og skilaði þá til ráðuneytisins drögum að frumvarpi ásamt skýringum við einstakar greinar þess.
    Um það leyti, sem frumvarpsdrög starfshópsins lágu fyrir, réð iðnaðarráðuneytið til starfa lögfræðing með sérmenntun á þessu sviði. Var lögfræðingnum, Rán Tryggvadóttur, falið að yfirfara fyrirliggjandi frumvarpsdrög í samstarfi við starfsmenn einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins.
    Þegar á heildina er litið er frumvarpið í öllum meginatriðum og eftir því sem aðstæður hér frekast leyfa samhljóða einkaleyfalöggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Þar hefur löggjöf um þetta efni í meginatriðum verið samræmd og aðlöguð löggjöf í helstu iðnríkjum Evrópu og þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðavettvangi á síðustu árum.
    Norræna einkaleyfalöggjöfin var samræmd að undangenginni vandaðri athugun. Nefndin, sem vann að þeirri athugun, skilaði áliti árið 1963 (Nordisk patentlovgivning, Nordisk utredningsserie 1963:6). Þá hafa önnur ríki á Norðurlöndum einnig samræmt reglugerðir og reglur um framkvæmd laganna. Verði frv. þetta að lögum er að því stefnt að reglugerð við lögin verði sem líkust því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Hugmyndalegur grunnur einkaleyfa.


    Einkaleyfi eru í eðli sínu alþjóðleg. Tilgangur þeirra er að stuðla að alhliða tækniframförum í atvinnulífi og flytja þekkingu frá einu landi til annars. Einkaleyfi eru af hálfu samfélagsins (löggjafans) hugsuð sem hvatning fyrir þá sem vinna að hvers konar nýsköpun. Ein meginforsenda þess, að einkaleyfisumsókn geti leitt til einkaleyfis, er að uppfinningin teljist nýjung. Í því felst m.a. að uppfinningin má ekki áður hafa komið fyrir almenningssjónir né hafa verið notuð opinberlega. Sú tæknilega lausn, sem fólgin er í uppfinningunni, má ekki heldur vera svo „einföld“ að lausnin liggi í augum uppi fyrir kunnáttumann væri hann beðinn að leysa „vandamálið“. Síðast en ekki síst þarf að lýsa uppfinningunni það vel í rituðu máli og með teikningum, ef við á, að kunnáttumaður á viðkomandi sviði skilji hana til hlítar og geti fært sér hana í nyt. Af þessu leiðir að uppfinningin verður að vera tæknilega framkvæmanleg.
    Sú vernd, sem hugvitsmaður eða einkaleyfishafi öðlast með einkaleyfi, er tímabundin, oftast 15–20 ár, breytilegt eftir löndum. Á þessu tímabili eða svo lengi sem leyfið er í gildi hefur leyfishafi löghelgaðan rétt til að hindra að aðrir hagnýti uppfinninguna í atvinnuskyni án heimildar. Hugvitsmaðurinn getur sjálfur hagnýtt einkaleyfið telji hann það ábatavænlegt eða heimilað öðrum að hagnýta það gegn samningsbundinni þóknun (nytjaleyfi). Eins getur hann valið þann kost að framselja leyfið og réttindi sem því fylgja til annars aðila.
    Hinn samfélagslegi ávinningur liggur e.t.v. ekki alltaf í augum uppi. Með því að birta einkaleyfisumsókn opinberlega er almenningi veittur aðgangur að þeirri tækni sem lýst er í umsókninni. Þess er vænst að tækninýjungar, sem í umsóknunum felast, veki hugmyndir hjá lesandanum um aðra og e.t.v. betri lausn á því tæknilega vandamáli sem hver einstök umsókn fjallar um. Og þegar gildistími einkaleyfisins er útrunninn eða eigandi þess telur ekki lengur ávinning að því að halda leyfinu í gildi er öllum frjálst að hagnýta sér uppfinninguna.

Helstu nýmæli.


    Helstu nýmæli, sem fram koma í frv., og breytingar frá núgildandi lögum, felast í eftirfarandi:
     .      Skýrari ákvæði eru sett varðandi umfang og takmörk einkaleyfisverndar. (1. og 3. gr.)
     .      Ekki verður lengur bannað að veita einkaleyfi fyrir lyfjum og næringarefnum.
     .      Tekið er skýrt fram að heimilt sé að veita einkaleyfi fyrir efnum, efnablöndum og uppfinningum á sviði líftækni. (1. gr.)
     .      Betur er skilgreint hvað talist getur einkaleyfishæf uppfinning með tilliti til nýnæmis og frumleikastigs, þ.e. að hve miklu leyti uppfinning er frábrugðin þekktri tækni. (2. gr.)
     .      Uppfinningar, sem lýst er í einkaleyfisumsóknum og birtar hafa verið almenningi fyrir umsóknardag, verða samkvæmt frv. „nýnæmishindrandi“, þ.e. taldar til þess sem er þekkt. Sama máli gegnir um efni óbirtra umsókna sem síðar verða aðgengilegar. (2. gr.)
     .      Skýrari ákvæði eru um frágang einkaleyfisumsókna og meðferð þeirra á öllum stigum. (II. kafli.)
     .      Lagt er til að umsóknir verði gerðar aðgengilegar almenningi í síðasta lagi 18 mánuðum eftir innlagningu. (22. gr.)
     .      Mun ítarlegri ákvæði eru um andmæli gegn veitingu einkaleyfis og ágreiningsmál sem rísa kunna vegna réttar til einkaleyfis. (17., 18., 21. og 23.–25. gr.)
     .      Gert er ráð fyrir aðild Íslands að alþjóðasamningi um einkaleyfisumsóknir (PCT). Í samningnum felst m.a. að sama umsókn getur tekið gildi í mörgum löndum samtímis. (III. kafli.)
     .      Einkaleyfi verður hægt að halda í gildi í 20 ár frá innlagningardegi. Skv. núgildandi lögum hefur gildistími verið að hámarki 15 ár frá útgáfudegi. (410. gr.)
     .      Fyllri ákvæði eru um nytjaleyfi og rýmkuð eru skilyrði um veitingu nauðungarleyfa. (43.–50. gr.)
     .      Skýrari ákvæði eru um refsi- og bótaábyrgð. (57.–65 gr.)
     .      Heimilað er undir vissum kringumstæðum að endurveita réttindi skv. einkaleyfisumsóknum sem fallið hafa niður vegna þess að frestir hafa ekki verið virtir. (72. og 73. gr.)
     .      Ýmsar breytingar verða á gjaldtöku fyrir umsóknir og einkaleyfi. Þar á meðal er gert ráð fyrir greiðslu árgjalda af einkaleyfisumsóknum. (8., 20., 25., 41.–42. og 51. gr.)
     .      Ákvæði er um að umsækjanda einkaleyfis og einkaleyfishafa, sem ekki hefur búsetu hér á landi, sé skylt að hafa umboðsmann. (12. og 66. gr.)
     .      Horfið er frá veitingu svonefndra viðbótareinkaleyfa.

Nokkrir drættir í alþjóðlegri þróun.


    Parísarsáttmálinn frá 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar er sá grunnur sem einkaleyfalög standa á. Aðildarríki voru 100 1. janúar 1990. Sáttmálinn hefur verið endurskoðaður sex sinnum, síðast í Stokkhólmi 1967. Alþjóðahugverkastofnunin, WlPO, er stjórnsýslumiðstöð fyrir málefni þau er sáttmálinn fjallar um. Hlutverk stofnunarinnar er að treysta vernd hugverka og hafa milligöngu um samstarf aðildarríkja á þessu sviði. Á fskj. II er, í samantekt Ránar Tryggvadóttur lögfræðings, yfirlit um upphaf einkaleyfaverndar og alþjóðasamstarf.
    Frá því lög voru sett hér um einkaleyfi hafa orðið miklar breytingar á skipan einkaleyfamála á alþjóðavettvangi að ekki sé talað um hinar stórfelldu breytingar í tækniþróun. Ný þekking hefur fætt af sér ný og víðfeðm tæknisvið og nýjar framleiðsluafurðir. Nægir hér að nefna sem dæmi líftækni, rafeindatækni og tölvutækni. Í takt við þessar framfarir hefur uppfinningum í iðnríkjum fjölgað ár frá ári og einkaleyfisumsóknum að sama skapi.
    Þessi þróun hefur kallað á tíðari endurskoðun á ýmsum þáttum einkaleyfalöggjafar en menn óraði fyrir. Ástæðuna má m.a. rekja til alþjóðasamninga á þessu sviði. Þá hafa einnig í nálægum löndum orðið miklar breytingar á stjórnsýslu einkaleyfakerfisins og meðferð einkaleyfisumsókna. Þar kemur hvort tveggja til, fjölgun einkaleyfisumsókna í iðnríkjum og sá veruleiki að einkaleyfisumsóknir taka stöðugt til flóknari fyrirbæra. Þetta þýðir að rannsókn á einkaleyfishæfi hverrar einstakrar uppfinningar verður yfirgripsmeiri og vandasamari.
    Stjórnvöld og einkaleyfastofnanir í hverju landi hafa reynt að bregðast við framangreindri þróun með því m.a. að endurskipuleggja starfsemi einkaleyfastofnananna. að auka samstarf ríkjaheilda og að hagnýta alþjóðastofnanir og alþjóðasamninga á þessu sviði. Aðgerðir einkaleyfastofnananna hafa m.a. beinst að því að auka þekkingu starfsmanna sinna, að bæta gagnasöfn og að hagnýta upplýsingatækni sem opnar aðgang að stórum gagnabönkum. Ýmis ríki hafa með sér formlegt eða óformlegt samstarf um tiltekna þætti varðandi meðferð einkaleyfamála. Dæmi um hið fyrrnefnda, þ.e. samningsbundið eða formlegt milliríkjasamstarf, er Evrópusáttmálinn um einkaleyfi frá 1973, sjá nánar fskj. II. Hið nána samstarf, sem Norðurlönd hafa lengi haft með sér um einkaleyfamál, er hins vegar dæmi um óformlegt samstarf á þessu sviði. Sem dæmi um aukið alþjóðasamstarf má nefna samstarfssáttmálann um einkaleyfi, PCT, sem gerður var 1970 og 40 ríki eiga nú (1. jan. 1990) aðild að. Nánar er fjallað um sáttmálann síðar í þessum athugasemdum og í fskj. II.
    Í alþjóðlegu tilliti er, eins og fyrr er getið, litið á einkaleyfi sem leið til að flytja þekkingu milli landa. Á árinu 1988 voru lagðar inn 1,4 milljónir einkaleyfisumsókna í heiminum og veitt einkaleyfi það ár voru um 400 þúsund. Hafa ber í huga að fjöldi uppfinninga verður ekki lesinn út úr þessum tölum því að í flestum tilvikum er sótt um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu í mörgum löndum. Með þessum hætti m.a. berast upplýsingar um nýjustu tækni frá einu landi til annars. Upplýsingatækni, svo sem varsla upplýsinga í tölvubönkum og möguleikar á samskiptum með aðstoð tölva, auðveldar mönnum til muna aðgang að upplýsingum varðandi einkaleyfi miðað við það sem áður var.

Um þróun einkaleyfaverndar hér á landi.


    Fyrir daga núgildandi einkaleyfalaga veitti konungur einkarétt fyrir uppfinningum í iðnaði skv. 13. gr. stjórnarskrár er þá var í gildi. Veiting einkaréttar fór fram með útgáfu leyfisbréfa að fenginni umsögn dönsku einkaleyfanefndarinnar. Nefndin lagði mat á það hvort uppfinning gæti talist það mikil nýjung að hún ætti skilið einkaleyfisvernd.
    Núgildandi lög um einkaleyfi voru sett 1923 og hafa ekki verið endurskoðuð í heild síðan. Minni háttar breytingar voru gerðar með lögum nr. 15 2. apríl 1946, lögum nr. 75 13. maí 1982 og lögum nr. 36 15. maí 1984.
    Frá gildistöku laganna til áramóta 1989–90 höfðu verið lagðar hér inn alls 3533 umsóknir. Þar af eru um 750 umsóknir, eða rúmlega fimmti hluti, frá íslenskum uppfinningamönnum. Af framangreindum umsóknum leiddu 1.410 umsóknir til einkaleyfis. Af þeim hafa aðeins 58 einkaleyfi (eða um 4% af heild) verið veitt íslenskum aðilum. Um áramótin 1989–90 voru hér í gildi um 300 einkaleyfi. Fyrsta einkaleyfi hér á landi skv. einkaleyfalögum var veitt 1. apríl 1925 og átti það franskur aðili. Einkaleyfi til íslensks manns var fyrst gefið út árið 1930.
    Síðustu 10 ár hafa að meðaltali verið gefin hér út 34 einkaleyfi á ári. Árið 1989 sker sig þó úr, en þá voru veitt hér 80 einkaleyfi. Frá ársbyrjun 1980 til ársloka 1989 voru umsóknir frá íslenskum aðilum 223 talsins eða um þriðjungur af heild. Á sama tímabili hafa veitt einkaleyfi til íslenskra aðila ekki náð því að vera eitt að meðaltali á ári, verið um 2% af heild.
    Til ársloka 1983 birtust allar tilkynningar um einkaleyfamálefni í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum. Í ársbyrjun 1984 hóf iðnaðarráðuneytið útgáfu sérstaks blaðs, Vörumerkja og einkaleyfatíðinda, fyrir birtingar varðandi einkaleyfi og vörumerki. Blaðið kemur að jafnaði út mánaðarlega. Þá er árlega gefið út sérrit um skráð vörumerki og einkaleyfi næstliðins árs og kemur ritið í stað birtinga í Stjórnartíðindum um sama efni.
    Mynsturvernd er þekkt í flestum nálægum löndum. Verndin tekur eingöngu til útlits eða forms hlutar en ekki tæknilegra eiginleika líkt og einkaleyfisvernd. Svo sem kunnugt er hafa ekki enn verið sett hér lög um mynsturvernd. Drög að frv. um þetta efni liggja fyrir, sbr. áðurnefnda skýrslu iðnaðarráðuneytis til Alþingis. Þar sem verið er að móta nýja löggjöf um vernd á iðnhönnun („industrial design“) í ríkjum Evrópubandalagsins og fyrir liggur að önnur ríki á Norðurlöndum muni fylgja í kjölfarið hefur iðnaðarráðuneytið ákveðið að leggja þetta frv. ekki fram. Ráðuneytið mun hins vegar taka þátt í samstarfi ríkja á Norðurlöndum um mótun endurbættrar löggjafar á þessu sviði og leggja áherslu á að því starfi verði hraðað svo sem kostur er.
    Smáeinkaleyfi er verndarform sem lítið hefur verið kynnt hér á landi. Hér er um að ræða eins konar millistig milli mynsturverndar og einkaleyfa. Verndin er frábrugðin mynsturvernd að því leyti að hún tekur til tæknilegra þátta en ekki eingöngu útlits. Í samanburði við einkaleyfisvernd eru á hinn bóginn gerðar mun minni kröfur til frumleikastigs, þ.e. hve uppfinningin er frábrugðin þekktri tækni. Rannsókn er því takmarkaðri og um leið ekki eins kostnaðarsöm og við einkaleyfisumsóknir. Ýmis ríki, svo sem Vestur-Þýskaland og Japan, hafa lengi haft lög um smáeinkaleyfi. Í Finnlandi hefur verið undirbúið lagafrumvarp um smáeinkaleyfi, en það hefur ekki enn verið lagt fram. Í Danmörku og Svíþjóð er um þessar mundir verið að kanna hvort þörf sé fyrir setningu laga af þessu tagi.

Stjórnsýsla – stofnun sjálfstæðrar skráningarskrifstofu.


    Nefnd sú, er vann að undirbúningi þessa frumvarps, lagði til að sett yrði á laggirnar sjálfstæð skráningarskrifstofa til að sjá um skráningu þeirra eignarréttinda á sviði iðnaðar sem hér er löggjöf um. Svo sem fram kemur í skýrslu iðnaðarráðherra til Alþingis, í apríl 1988, um störf nefndarinnar er þar gert ráð fyrir að samið verði frumvarp um stofnun sjálfstæðrar skráningarskrifstofu. Nú er gert ráð fyrir að settar verði reglur um Einkaleyfastofu með auglýsingu ráðherra, sbr. ákvæði 7. gr. laga nr. 73 28. maí 196ð, um Stjórnarráð Íslands.

Alþjóðasamstarf.


    Með lögum nr. 102 28. desember 1961 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta Parísarsáttmálann fyrir Íslands hönd. Sáttmálinn öðlaðist lagagildi hér á landi 5. mars 1962, en þá fullgilti Ísland Lundúnagerð sáttmálans. Hinn 28. september 1984 gerðist Ísland svo aðili að seinni hluta Stokkhólmsgerðar sáttmálans (stjórnunarhluta). Af því leiðir að efnissvið Lundúnagerðar sáttmálans gildir enn hér. Ísland gerðist aðili að Alþjóðahugverkastofnuninni 13. september 1986 og hefur þau réttindi og skyldur sem aðildinni fylgja. Að því er stefnt að Ísland gerist sem fyrst aðili að fyrri hluta Stokkhólmsgerðar sáttmálans (efnishluta).
    Einkaleyfayfirvöld hér hafa til þessa leitast við að uppfylla lágmarksskyldur við Alþjóðahugverkastofnunina, svo sem varðandi árlega skýrslugjöf um starfsemina, en ekki séð sér fært að taka að neinu ráði þátt í störfum stofnunarinnar, m.a. vegna kostnaðar og takmarkaðs mannafla. Eftir leiðum norræna samstarfsins hafa íslensk stjórnvöld hins vegar haft óbein áhrif á störf ýmissa starfsnefnda WlPO. Aðild að samstarfssáttmálanum um einkaleyfi, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, mun kalla á mun virkari tengsl við WIPO en verið hafa. Stofnunin hefur m.a. verið íslenskum stjórnvöldum innan handar með upplýsingar um hugsanlegan ávinning af aðild að samstarfssáttmálanum, PCT.
    Það leiddi af ríkjasambandi okkar við Dani fyrr á tíð að samstarf við einkaleyfayfirvöld í Danmörku hefur jafnan verið allnáið. Danska einkaleyfaskrifstofan hefur þannig frá öndverðu annast efnislega rannsókn á þeim einkaleyfisumsóknum íslenskra aðila sem ekki hafa jafnframt verið lagðar inn í öðrum ríkjum. Frá 1981 hefur iðnaðarráðuneytið tekið þátt í því samstarfi um einkaleyfamál sem Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa lengi haft með sér. Þessi lönd ákváðu á sínum tíma (1963) að samræma einkaleyfalöggjöf sína og tilheyrandi reglugerðir og reglur er varða framkvæmdina.
    Fyrir einkaleyfayfirvöld hér á landi hefur norræna samstarfið afar mikið gildi. Samstarf einkaleyfastofnananna tekur ekki síst til þátta er varða samræmingu á lögum og reglugerðum á þessu sviði, en einnig skiptast þær á upplýsingum um hvaðeina sem varðar meðferð einkaleyfamála og starfsemi stofnananna. Á vegum einkaleyfayfirvalda á Norðurlöndum er um þessar mundir verið að undirbúa fræðslu- og kynningarátak um einkaleyfi almennt og starfsemi einkaleyfastofnananna. Þá er þess að geta að einkaleyfastofnanirnar hjá frændþjóðunum hafa veitt íslenskum stjórnvöldum mjög gagnlegar upplýsingar í sambandi við undirbúning þessa frumvarps.

Þörfin fyrir ný einkaleyfalög – aðstaða íslenskra umsækjenda.


    Fjallað er m.a. um þessi atriði í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá apríl 1988, fskj. 1. Hér verður vikið að nokkrum almennum atriðum til viðbótar.
    Ef borið er annars vegar saman hlutfall einkaleyfisumsókna sem íslenskir aðilar leggja inn hér og einkaleyfa sem þeir öðlast og hins vegar hliðstætt hlutfall annars staðar á Norðurlöndum kemur eftirfarandi í ljós: Á fimm ára tímabili, 1984–1988, leiddi þrítugasta hver umsókn, sem íslenskir aðilar lögðu inn hér, til einkaleyfis. Á sama tímabili leiddi tæplega fjórða hver umsókn, sem lögð var inn í Noregi af þarlendum aðilum, til einkaleyfis. Hliðstæð hlutföll í Danmörku eru að um fimmta hver umsókn danskra uppfinningamanna leiði til einkaleyfis og í Svíþjóð nálega önnur hver.
    Þótt framangreindur samanburður sé grófur gefur hann nokkra vísbendingu og vekur ýmsar spurningar um stöðu einkaleyfamála hérlendis. Eftirtalin atriði gætu skýrt framangreindan mun að nokkru:
    Hér eru árlega lagðar inn allmargar einkaleyfisumsóknir sem aldrei ná því að komast á rannsóknarstig. Ástæðan er einkum sú að þær ná ekki að uppfylla lágmarksskilyrði um form og frágang. Þegar svo er ástatt fellur viðkomandi umsókn úr gildi.
    Einkaleyfisvernd hefur alla tíð verið eina form iðnverndar (að vörumerkjavernd frátalinni) hér á landi. Svo hagar til að meginþorri uppfinninga íslenskra aðila er ávöxtur af heilabrotum og hugkvæmni einstaklinga sem oft hafa ekki aðra rannsóknaraðstöðu en bílskúrinn eða vinnustað til sjós eða lands. Sem vænta má taka uppfinningar þessara aðila oft fremur til minni háttar endurbóta á tækjum og búnaði, fremur en um sé að ræða margbrotnar vélasamstæður, nýjar framleiðsluaðferðir, ný efni eða efnasamsetningar. Áður er getið um mynsturvernd og smáeinkaleyfi. Bæði þessi verndarform gætu átt betur við ýmsar af þeim uppfinningum sem verða til við framangreindar aðstæður hér á landi. Væri völ á öðru eða báðum þessum verndarformum mundi a.m.k. fækka hér þeim einkaleyfisumsóknum sem ekki ná að uppfylla skilyrði til einkaleyfisverndar.
    Gjöld, sem einkaleyfayfirvöld hér taka fyrir meðhöndlun einkaleyfisumsókna, eru hin lægstu á Norðurlöndum. Gjald. sem greitt er við móttöku einkaleyfisumsóknar hér á landi, er nú (gjaldskrá frá desember 1989) 7.000 kr. og gjald vegna rannsóknar á einkaleyfishæfi umsóknar erlendis kr. 12.500 kr. Síðarnefnda gjaldið greiða umsækjendur ekki ef þeir hafa sótt um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu í landi sem veitir einkaleyfi að undangenginni rannsókn. Umsækjandi afhendir þá íslenskum einkaleyfayfirvöldum niðurstöður af slíkri rannsókn eða afrit af erlendu einkaleyfi og óskar eftir því að íslenskt einkaleyfi verði gefið út á grundvelli þess. Kostnaður við rannsókn á íslenskri einkaleyfisumsókn í Danmörku er, eftir því hve umsóknin er viðamikil, á bilinu 30–40 þús. kr. Gjöld fyrir einkaleyfisumsókn í Danmörku eru hin hæstu á Norðurlöndum, um 3.200 Dkr., og er þá rannsóknarkostnaður innifalinn.
    Með tilliti til þess sjálfsagða markmiðs að einkaleyfi efli íslenska iðnþróun verður að telja það áhyggjuefni hve lítið er hér lagt inn af umsóknum frá íslenskum aðilum sem fást við rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Hér er nánar tiltekið átt við uppfinningar sem standa undir því nafni að geta talist afrakstur af markvissum og vísindalegum vinnuaðferðum. Lausleg athugun sýnir að á árabilinu 1970–1988 hafi innan við 10 umsóknir borist frá slíkum aðilum.
    Almennt verður að gera ráð fyrir miklum kostnaði við að koma uppfinningum á framleiðsluhæft stig (tilraunastarfsemi og smíði frumeintaks). Sama máli gegnir um kostnað við markaðsathuganir. Þannig getur þróunarkostnaður við uppfinningu, sem í fljótu bragði virðist einföld í sniðum, oft skipt milljónum. Uppfinningamenn kvarta iðulega yfir því að lánastofnanir og/eða þróunarsjóðir taki dauflega beiðnum þeirra um fyrirgreiðslu í formi lána eða styrkja. Á það verður ekki lagður dómur hér. En framangreind atriði skýra e.t.v. að nokkru hve margir íslenskir aðilar gefast upp við að fjármagna þróun eigin hugmynda og þá um leið hvers vegna einkaleyfisumsóknir þessara sömu aðila dagar uppi.

Samanburður á fjölda einkaleyfisumsókna


og veittra einkaleyfa á Norðurlöndum 1984–1988.1




Allar umsóknir Umsóknir innlendra aðila Veitt einkaleyfi til innlendra aðila Öll veitt einkaleyfi
Ísland 1984 98 28 0 37
85 92 21 2 21
86 121 29 0 59
87 119 28 2 44
88 126 16 0 25
Noregur 1984 5293 961 230 1931
85 6734 938 229 2165
86 6872 934 208 1818
87 8310 907 254 2145
88 9459 928 277 2447
Danmörk 1984 6278 966 212 1089
85 8293 917 200 1054
86 8907 1036 186 958
87 8760 1090 212 1129
88 11214 1331 344 2815
Finnland 1984 5183 1775 647 2204
85 7017 1746 563 2161
86 7521 1780 555 2175
87 8374 1893 726 2672
88 9543 2038 776 2690
Svíþjóð 1984 6674 3969 1693 11670
85 307482 ) 5179 2260 13520
86 32641 4555 1923 14949
87 34657 4458 2014 13806
88 39230 4399 2424 15367

1) Heimild: WIPO – Industrial Property Statistic.
2) Fjölgun umsókna frá 1984–1985 er vegna aðildar Svíþjóðar að Evrópusáttmálanum um einkaleyfi (EPC).

Rýmkun ákvæða varðandi einkaleyfishæfar uppfinningar.


    Meðal veigameiri breytinga, sem af frumvarpinu leiðir ef að lögum verður, er rýmkun ákvæða varðandi það hvað teljist einkaleyfishæfar uppfinningar. Þannig er gert ráð fyrir að hægt verði að veita hér einkaleyfi fyrir lyfjum. Einnig er skýrt kveðið á um að hér megi veita einkaleyfi fyrir efnum og efnasamböndum, en um það hefur ríkt nokkur óvissa. Þá er það einnig nýlunda að veita megi einkaleyfi fyrir aðferðum á sviði örverufræði og afurðum slíkra aðferða, svo sem örverum. Í þessum efnum er fylgt fordæmi gildandi laga annars staðar á Norðurlöndum. Þar voru undantekningarákvæði varðandi einkaleyfi á efnum, efnasamböndum og lyfjum numin úr gildi um og eftir 1967 í tengslum við heildarendurskoðun laganna. Bráðabirgðaákvæði um frestun á gildistöku voru þó lengi vel í gildi, en þau hafa nú verið felld úr gildi í flestum landanna.
    Samkvæmt núgildandi einkaleyfalögum hér á landi má enginn öðlast einkaleyfi fyrir „nýfundnum læknislyfjum, neyzluefnum eða nautnar“. Á hinn bóginn heimila lögin að veitt sé einkaleyfi fyrir „sérstakri aðferð við tilreiðslu slíkra hluta“. Með neysluefnum er átt við matvæli og efni sem almennt teljast til næringarefna. Í samræmi við þetta lagaákvæði hafa verið veitt hér allmörg einkaleyfi á aðferðum við framleiðslu efna, þar á meðal lyfja og ýmiss konar næringarefna (matvæla, vítamína og þess háttar). Sem að líkum lætur eru einkaleyfi þessi nær undantekningarlaust í eigu erlendra aðila. Hérlendir lyfjaframleiðendur hafa, vegna ákvæðis gildandi laga, getað framleitt hér ýmis lyf sem vernduð eru með einkaleyfi erlendis. Hafi aðferð við framleiðslu viðkomandi lyfs verið vernduð með einkaleyfi hér eða erlendis hefur einungis þurft að nota aðra framleiðsluaðferð.
    Fyrrnefnd breyting á lögum frændþjóða okkar í þá átt að fella niður undantekningarákvæði eldri einkaleyfalaga var liður í samræmingu norrænna laga. Í þessu efni sem mörgum öðrum var stuðst við nefndarálitið frá 1963 (Nordisk patentlovgivning) sem getið er í upphafi þessara athugasemda.
    Telja verður að munurinn á því að veita einkaleyfi fyrir aðferð við framleiðslu efnis og á efninu sem slíku sé oft næsta lítill. Í mörgum ríkjum var raunar lengi vel andstaða gegn því að telja efni og efnablöndur einkaleyfishæfar afurðir. Þetta átti einkum við um læknislyf og næringarefni. Færð voru fram ýmis rök þessu til stuðnings, svo sem að einkaleyfi til framleiðslu efna mundi koma í veg fyrir framþróun á viðkomandi sviði. Stórþjóðir og stærri fyrirtæki mundu í krafti fjármagns og þekkingar fá yfirburðaaðstöðu og ryðja keppinautum til hliðar. Þá var því einnig haldið fram að lyf yrðu dýrari ef veitt yrðu einkaleyfi fyrir framleiðslu þeirra. Enn fremur var skírskotað til ýmissa siðferðilegra og þjóðfélagslegra sjónarmiða. Það var talin óhæfa að veita einkarétt á læknislyfjum af þeirri ástæðu að þau gegndu því hlutverki að forða mönnum frá sjúkdómum og dauða. Loks var það nefnt að veiting einkaleyfa fyrir efnum og efnablöndum gæti leitt af sér ógeðfellda auglýsingastarfsemi. Þess má geta að í flestum löndum hefur verið sett ströng löggjöf um lyfjaauglýsingar. Hér á landi gilda í þeim efnum ákvæði VII. kafla laga nr. 49/1978.
    Reynsla síðari ára hefur sýnt að framangreindar röksemdir gegn veitingu einkaleyfa fyrir efnum og efnablöndum eru byggðar á veikum grunni. Einkaleyfisvernd á efnum verður þvert á móti að tefjast veigamikil forsenda fyrir eðlilegri þróun iðnaðar. Þannig er þróun lyfja byggð á mjög kostnaðarsömum rannsóknum og slíkar rannsóknir eru nauðsynlegur undanfari þess að lyf verði markaðssett. Telja verður að einkaréttur samkvæmt einkaleyfalöggjöf geti verkað hvetjandi á þessu sviði sem öðrum, verði m.a. til þess að fleiri nytsamleg efni verði fundin upp og sett á markað. Þannig er talið að ýmis fyrirtæki, t.d. í matvælaiðnaði, haldi að sér höndum við þróunarstarf og framleiðslu ýmissa efna vegna óhallkvæmrar einkaleyfalöggjafar. Forráðamenn fyrirtækjanna standa frammi fyrir því að víða eru framleiddar eftirlíkingar af vörum þeirra. Fyrirtæki, sem stunda eftirlíkingar, geta t.d. boðið lyf á mun lægra verði og þannig ráðið markaðinum að verulegu leyti vegna þess að þau þurfa hvorki að leggja í kostnað við þróun lyfjanna né heldur að greiða eðlileg leyfisgjöld.
    Telja verður óeðlilegt að einkaleyfislöggjöf verndi eftirlíkingaiðnað þótt með óbeinum hætti sé. Sá eftirlíkingaiðnaður, sem á sér stað víða um lönd, felur í sér vissa þjóðfélagslega sóun. Fyrirtæki verja bæði vinnu og fjármagni til að finna upp „öðruvísi aðferð“ við framleiðslu viðkomandi efnis, eingöngu til að fara í kringum einkaleyfisréttinn. Með því að veita einkaleyfi fyrir efnum er með vissum hætti spornað við sóun af þessu tagi og þeim kostnaði sem leggst á neytendur vegna hennar. Vegna harðrar og stöðugt vaxandi samkeppni í lyfjaiðnaði svo og löggjafar ýmissa þjóða gegn ólögmætum viðskiptaháttum (hringamyndun) er talið mjög ólíklegt að einkaleyfi fyrir lyfjum leiði til hærra verðs í krafti einokunar.
    Iðnfyrirtæki hér á landi þurfa að eiga kost á að færa sér í nyt erlenda rannsóknarstarfsemi og uppfinningar. Eðlilegt er að þau geri það með því að afla sér framleiðsluleyfa (nytjaleyfa) hjá réttum aðilum. Með greiðslu fyrir slík leyfi mundu hérlendir aðilar taka eðlilegan þátt í kostnaði við rannsóknir sem liggja að baki þróun viðkomandi efnis. Hér á landi er þegar fyrir hendi vísir að rannsóknar- og þróunarstarfsemi á sviði efna- og lyfjaframleiðslu. Það fyrirkomulag, sem hér hefur verið í gildi, með stoð í einkaleyfalögum, þ.e. að veita ekki einkaleyfi fyrir efnum og lyfjum, er síst fallið til að örva þessa starfsemi.

Aðild að samstarfsáttmálanum, PCT.


    Gert er ráð fyrir að Ísland gerist aðili að samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty, skammstafað PCT) sem gerður var í Washington 1970. Með ákvæðum í III. kafla frumvarpsins er kominn lagagrundvöllur til að hægt sé að framfylgja sáttmálanum hér á landi.
    Meginmarkmið sáttmálans er að koma í veg fyrir tvíverknað við rannsóknir á einkaleyfisumsóknum sem lagðar eru inn samtímis í mörgum ríkjum. Í þessu skyni hefur verið farin sú leið að fela nokkrum öflugum einkaleyfastofnunum í heiminum að annast rannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfi uppfinninga sem sótt er um einkaleyfi fyrir samkvæmt ákvæðum sáttmálans. Þessar stofnanir þurfa skv. sáttmálanum að hljóta sérstaka viðurkenningu til að geta talist „alþjóðlegar rannsóknarstofnanir“. Sænska einkaleyfastofnunin annast rannsókn alþjóðlegra umsókna fyrir önnur ríki á Norðurlöndum og gert er ráð fyrir að hún taki einnig að sér rannsókn á íslenskum alþjóðaumsóknum.
    Þótt rannsókn á umsóknum sé að vissu leyti „miðstýrð“ taka einkaleyfayfirvöld í hverju landi endanlega ákvörðun um veitingu einkaleyfis. Aðildarríkin eru einnig frjáls að því að ákveða umfang einkaleyfisverndar í sínu landi. Af því leiðir að ekki þarf að gera efnislegar breytingar á gildissviði löggjafar í hverju ríki til innbyrðis samræmis.
    Fyrir einkaleyfisumsækjanda er einn helsti kostur við aðild að sáttmálanum sá að innlagning umsóknar í einu aðildarlandi getur, ef umsækjandi svo óskar, tekið gildi samtímis í þeim löndum sem hann hefur áhuga á að fá einkaleyfisvernd í. Þá veitir sáttmálinn möguleika á bráðabirgðaskýrslu um einkaleyfishæfi uppfinningar. Alþjóðlega umsóknakerfið, sem sáttmálinn fjallar um, getur haft í för með sér lægri útgjöld fyrir umsækjanda. Þar skiptir þó verulegu máli í hve mörgum löndum umsókn er ætlað að taka gildi. Hins vegar losnar umsækjandi undir öllum kringumstæðum við umstang sem fylgir því að leggja inn sjálfstæða umsókn í hverju landi.
    Aðild að sáttmálanum leggur umsækjendum og einkaleyfayfirvöldum auknar skyldur á herðar í ýmsum efnum. Má þar nefna strangari kröfur um frágang og form umsókna en almennt gilda. Einnig eru í sáttmálanum skýr og ófrávíkjanleg ákvæði um fresti af ýmsu tagi. Ákvæði sáttmálans eru í mörgum efnum flókin í framkvæmd. Því verður að gera ráð fyrir að framkvæmd hans hér á landi miðist við nokkurn aðlögunartíma. Samkvæmt ákvæðum í sáttmálanum tekur hann gildi þremur mánuðum eftir að undirritun hefur farið fram. Það er þannig ekki á valdi aðildarríkja að ákveða aðlögunartíma eftir að undirritun hefur farið fram. Því þarf að miða undirritun við það hvenær einkaleyfayfirvöld hér eru undir það búin að framfylgja sáttmálanum. Nánar er fjallað um samstarfssáttmálann í fskj. II.

Kostnaðaráhrif af frumvarpinu.


    Það er mat iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis, sbr. umsögn á fskj. V, að frumvarp þetta hafi ekki í för með sér beinan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Iðnaðarráðuneytið hefur á síðustu árum ákvarðað gjöld fyrir vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (einkaleyfi, vörumerki o.fl.) með hliðsjón af því markmiði að gjöldin stæðu að verulegu eða helst öllu leyti undir kostnaði við þessa þjónustu. Telja má að þessu markmiði hafi verið náð.
    Með þeim umfangsmiklu breytingum á meðferð einkaleyfamála, sem af frumvarpi þessu leiðir, er ljóst að kostnaður við umsýslu einkaleyfa mun aukast nokkuð. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið taki á sig þennan kostnaðarauka heldur verða notendur einkaleyfakerfisins að bera hann. Gjöld fyrir einkaleyfi munu því þurfa að hækka eitthvað að raungildi frá því sem nú er. Hinn samfélagslegi kostnaður mun fyrst og fremst miðast við að skapa skilyrði til þess að umræddar breytingar komist í framkvæmd þannig að iðnaðurinn, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir eigi hér völ á hliðstæðri vernd iðnréttinda og gerist annars staðar á Norðurlöndum og í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Líta verður raunsætt á þá staðreynd að grunnkostnaður við rekstur lítillar einkaleyfastofnunar verður ætíð hlutfallslega hár miðað við fjölda umsókna. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að allar einkaleyfisumsóknir fái sambærilega meðhöndlun hér á landi og gerist í ríkjum með sams konar löggjöf. Í því felst að einkaleyfayfirvöld hér verða að geta haldið í þjónustu sinni sérmenntuðu starfsfólki þrátt fyrir að hér séu lagðar inn tiltölulega fáar umsóknir. Laun og annar rekstrarkostnaður við umsýslu einkaleyfa mun því eðlilega deilast á færri umsóknir en gerist hjá einkaleyfastofnunum fjölmennari þjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um þau grundvallaratriði sem segja til um hvað verði verndað með einkaleyfi og hver geti fengið einkaleyfi.

    Um 1. mgr.
    Hugtakið uppfinning er ekki skilgreint í lagafrumvarpi þessu. Það hefur þó öðlast fasta merkingu í framkvæmd. Í núgildandi lögum er orðið uppgötvun notað í stað uppfinningar. Í norrænum einkaleyfarétti er gerður greinarmunur á orðunum uppgötvun og uppfinning. Þar er uppfinning skilgreind sem nýsmíð með tæknilegu ívafi sem byggð er á mannlegri hugsun. Slík nýsmíð getur verið einkaleyfishæf. Orðið uppgötvun er aftur á móti notað um þau tilvik þegar menn komast að raun um einhver áður óþekkt náttúrufyrirbæri eða náttúrulögmál. Uppgötvanir skv. þessari skilgreiningu eru ekki einkaleyfishæfar því allir eiga jafnan rétt á að njóta þess sem fyrirfinnst í náttúrunni. Til samræmis við norrænan rétt þykir rétt að styðjast við sömu skilgreiningar í frumvarpi þessu og nota orðið uppfinning í stað uppgötvunar.
    Til þess að hægt sé að veita uppfinningu einkaleyfisvernd þarf hún að vera tæknilega framkvæmanleg. T því felst að hægt sé að endurtaka hana þannig að sama niðurstaða fáist. annars er ekki um uppfinningu að ræða. Það er ekki skilyrði að uppfinningamaðurinn „skilji“ uppfinningu sína, svo framarlega sem hægt er að lýsa henni og endurtaka hana. Uppfinning þarf að vera að einhverju leyti tæknilegs eðlis. Með því er átt við að uppfinningin sé tæknileg lausn á vandamáli sem leyst er með tilstuðlan náttúruafla, þ.e. með löglegri nýtingu á efni og orku úr náttúrunni. Mælikvarðinn er jafnframt sá að ekki má eingöngu vera um hugarfóstur að ræða sem ekki er unnt að nýta.
    Skilyrði núgildandi laga um að uppfinningar verði að hafa eitthvert verulegt gildi, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 1. gr., er sleppt í lagafrumvarpi þessu, enda ávallt matsatriði hvað telst hafa verulegt gildi. Ljóst er þó að skilyrðið um að hægt þurfi að vera að hagnýta uppfinninguna í atvinnulífi felur í sér að gagnslausar uppfinningar verða ekki taldar einkaleyfishæfar. Í núgildandi lögum, sbr. 1. mgr. 1. gr., er þess krafist að hægt sé að hagnýta uppfinningar í iðnaði. Í tíð eldri norrænna laga, sem núgildandi lög okkar eru sniðin eftir, var túlkun þessa ákvæðis mjög þröng, sérstaklega í Danmörku. Talið var að uppfinningar þyrftu að vera á sviði hefðbundins iðnaðar. Þannig töldust uppfinningar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs ekki einkaleyfishæfar. Með samræmingu norrænna einkaleyfalaga á sjötta áratugnum var ákveðið að samræma stefnu þjóðanna í þessum efnum og túlka þetta skilyrði á þann hátt að það næði til hvers konar atvinnustarfsemi. Það er í samræmi við orðalag og túlkun 3. tölul. 1. gr. Parísarsáttmálans um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, sbr. lög nr. 102/1962. Þessari túlkun hefur verið fylgt í framkvæmd hér á landi. Við samningu þessa frumvarps var ákveðið að víkja frá orðalagi norrænu einkaleyfalaganna þar sem enn er notað orðið „industrielt“ hvað þetta atriði varðar. Það er gert til þess að taka af allan vafa um að einkaleyfisumsókn um uppfinningu, tæknilegs eðlis, verði ekki hafnað vegna notkunarsviðs ef unnt er að hagnýta hana í atvinnuskyni og öðrum skilyrðum um einkaleyfishæfi er fullnægt.
    Uppfinningamaður, eða sá sem hefur öðlast rétt hans, á rétt á að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu sinni. Rétturinn byggist þó á því að önnur skilyrði varðandi veitingu einkaleyfis séu uppfyllt. Þetta er sama regla og í núgildandi lögum, sbr. 1. mgr. 3. gr. Einstaklingur eða hópur nafngreindra einstaklinga, sem unnið hafa að uppfinningu í sameiningu, geta talist uppfinningamenn. Fyrirtæki eða samtök geta ekki talist uppfinningamenn en uppfinningamaður getur framselt rétt sinn til slíkra aðila. Ef annar en uppfinningamaður sækir um einkaleyfi þarf að nafngreina uppfinningamann í umsókninni og jafnframt þarf umsækjandi að sanna rétt sinn til uppfinningarinnar, sbr. 4. mgr. 8. gr. frv. Réttur til einkaleyfis tilheyrir þeim sem fyrstur sækir um. Þetta gildir ef fleiri en einn sækja um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningunni án innbyrðis tengsla, sbr. nánar 2. mgr. 2. gr. frv. Ef ágreiningur verður um hver sé uppfinningamaður verður að leysa úr honum eftir almennum reglum, jafnvel að leita til dómstóla ef nauðsyn krefur, sbr. nánar 17. gr., 18. gr., 4. mgr. 52. gr. og 53. gr. frv.
    Aðilaskipti geta orðið að réttindum uppfinningamanns við framsal, erfðir, skipti bús eða fullnustuaðgerðir skuldheimtumanna eins og öðrum eignarréttindum. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinum sérreglum um aðilaskipti og gilda því um þau almennar reglur. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga mega skuldheimtumenn ekki leita fullnægingar í rétti til að öðlast einkaleyfi, þ.e. eftir að uppfinning liggur fyrir og áður en sótt er um einkaleyfi. Ekki þótti ástæða til að halda þessari sérreglu varðandi fullnusturétt í frumvarpi þessu.
    Margir uppfinningamenn eru starfsmenn í þjónustu annarra og oft eru menn ráðnir gagngert til fyrirtækja til að vinna að uppfinningum. Ef ekki er samið sérstaklega um hver eigi réttinn til uppfinningar sem til verður á starfstíma getur leikið vafi á hver eigi réttinn til hennar. Hjá öðrum Norðurlandaþjóðum hafa verið sett sérlög um réttarstöðu í þessum málum þar sem slík ákvæði þykja ekki falla innan ramma almennra einkaleyfalaga. Í frumvarpi þessu er fordæmi frændþjóða okkar fylgt og ekki kveðið á um réttarstöðu varðandi eignarrétt að uppfinningum sem verða til hjá starfsmönnum í þjónustu annarra.
    Um inntak einkaréttarins, sem einkaleyfið veitir, er nánar fjallað í 3. gr. frumvarpsins. Hér má þó benda á að einkarétturinn er í framkvæmd neikvæður, þ.e. að eigandi einkaleyfis getur bannað öðrum að nota uppfinningu sína en einkaleyfið veitir honum ekki sjálfkrafa rétt til að nýta uppfinninguna. Nýting uppfinningarinnar getur verið bönnuð með lögum eða óheimil vegna einkaleyfis annarra.

    Um 2. mgr.
    Hér er uppfinningarhugtakið nánar afmarkað. Slíka afmörkun er ekki að finna í núgildandi lögum. Í framkvæmd hafa þó þau tilvik, sem hér eru nefnd, ekki verið talin til uppfinninga. Ákvæðið mun því ekki hafa í för með sér breytingar hvað það varðar. Eins og orðalag 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. frv. ber með sér er upptalningin ekki tæmandi og önnur tilvik geta því fallið utan uppfinningarhugtaksins. Jafnframt er þess að gæta að í tilvikum, sem hér um ræðir, geta falist einkaleyfishæfir þættir. Þetta er undirstrikað með orðalaginu „sem eingöngu varða“.
    1. tölul. 2. mgr. Eins og áður er vikið að felur uppgötvun í sér að áður óþekkt náttúrufyrirbæri eru leidd í ljós. Slíkt telst ekki uppfinning þar sem ekki er um neina nýsköpun að ræða. Vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir eru ekki heldur uppfinningar þar sem þær miða ekki að lausn tiltekinna tæknilegra vandamála. Það er auðvitað mögulegt að beita vísindakenningum eða stærðfræðiaðferðum við lausn tiltekinna tæknilegra atriða. Lausn byggð á slíkum kenningum eða aðferðum gæti verið uppfinning í skilningi einkaleyfalaga.
    2. tölul. 2. mgr. Listræn verk eru almennt ekki gædd tæknilegum eiginleikum og geta því ekki talist uppfinning. Ekki skiptir máli í því sambandi hvort verkin njóta verndar höfundalaga eða ekki. Ef verkið felur hins vegar í sér tæknilega eiginleika geta þeir út af fyrir sig talist uppfinning og verið einkaleyfishæfir. Ekkert er því til fyrirstöðu að hægt sé að fá einkaleyfi fyrir nýjum aðferðum eða áhöldum, sem notuð eru til listsköpunar eða listiðkana, að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    3. tölul. 2. mgr. Þessi tilvik teljast ekki uppfinningar þar sem þau eru eingöngu byggð á skipulagningu og framsetningu ákveðinnar hugarstarfsemi án nýtingar efnis eða orku úr náttúrunni. Þrátt fyrir skilyrðislausa hljóðan þessa töluliðar er ljóst að mörg tölvuforrit geta talist uppfinning í skilningi einkaleyfalaga. Ákvæðið tekur eingöngu til forrita sem einungis eru framsetning á hugarstarfsemi og því án tæknilegra eiginleika. Skýr dæmi um það eru almenn notendaforrit, svo sem ritvinnslu- og bókhaldsforrit. Sama máli gegnir um forritunarmál. Stýriforrit, sem eru hluti af ákveðnu framleiðsluferli, fela hins vegar í sér tæknilega eiginleika og geta því verið einkaleyfishæf að öðrum skilyrðum uppfylltum. Oft getur verið erfitt að ákvarða hvaða forrit geta talist uppfinningar og því einkaleyfishæf. Við framkvæmd þessa ákvæðis hér á landi verður að líta til evrópskrar og sér í lagi norrænnar framkvæmdar.
    4. tölul. 2. mgr. Hér er um að ræða aðferðir við að koma upplýsingum á framfæri, svo sem töflum og gröfum ýmiss konar. Slíkt getur að sjálfsögðu ekki talist uppfinning. Öðru máli gegnir um tæki til að koma upplýsingum á framfæri, eins og t.d. útvarp eða símrita. Slík tæki geta verið einkaleyfishæf ef þau uppfylla önnur skilyrði einkaleyfalaga.

    Um 3. mgr.
    Læknisaðferðir þær, sem hér eru taldar upp, teljast ekki uppfinningar í skilningi frumvarpsins. Það er í samræmi við fyrri framkvæmd þótt ekki sé sérstaklega tekið fram í núgildandi lögum. Óeðlilegt er að láta einkaleyfi hindra lækna í að nota sérfræðiþekkingu sína til að lækna menn og dýr. Aðferðirnar eiga það sameiginlegt að þeim er aðeins hægt að beita á líkama manna eða dýra. Í norrænum rétti, sem og hérlendis, hefur ekki viðgengist að veita einkaleyfi fyrir aðgerðum sem aðeins eru gerðar á mannslíkamanum. Frumvarpið felur ekki í sér breytingu að þessu leyti. Undantekningar hafa þó verið gerðar varðandi ýmiss konar fegrunaraðgerðir, svo sem liðun og litun hárs. Aðgreining á milli læknis- og fegrunaraðgerða getur þó stundum verið erfið. Aðgerðir á líkömum dýra, sem falla utan þessa ákvæðis, geta talist einkaleyfishæfar uppfinningar, sbr. það sem segir síðar um 2. tölul. 4. mgr. þessarar greinar.
    Eins og tekið er fram í 2. málsl. þessarar málsgreinar hindrar ákvæðið ekki að veitt sé einkaleyfi fyrir áhöldum og efnum til nota við þessar aðferðir. Ekki er tekið upp ákvæði núgildandi laga sem bannar útgáfu einkaleyfa fyrir nýfundnum læknislyfjum, neysluefnum eða nautnar, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 1. gr. Einnig er skýrt tekið fram í þessum málslið að hægt sé að veita einkaleyfi fyrir efnum og efnablöndum. Hér er því boðuð töluverð breyting frá núgildandi lögum og framkvæmd. Er það í samræmi við norrænu einkaleyfalögin og réttarþróun annarra iðnríkja. Fyrrgreind breyting er þó ekki eins róttæk og virðist við fyrstu sýn þar sem í tíð núgildandi laga hafa verið veitt einkaleyfi fyrir aðferðum við framleiðslu lyfja og annarra efna og efnablandna. Slík einkaleyfi veita einkaleyfishafa allmikla vernd vegna ákvæða 1. tölul. 5. gr. núgildandi laga, en þar er kveðið á um óbeina efnisvernd. Þrátt fyrir það er ljóst að hér er lögð til mikil breyting á gildandi rétti varðandi einkaleyfishæfi lyfja sem gæti haft úrslitaáhrif á stöðu íslensks lyfjaiðnaðar. Rétt þykir því að setja bráðabirgðaákvæði, sem seinkar gildistöku þess að einkaleyfi verði veitt fyrir lyfjum, til að gera innlendum lyfjaiðnaði kleift að laga sig að breyttum aðstæðum, sbr. 2. mgr. 75. gr. frv. Slík bráðabirgðaákvæði hafa verið í lögum annars staðar á Norðurlöndum. Í Svíþjóð var þeim aflétt 1978, í Danmörku 1983, í Noregi falla þau úr gildi 1. janúar 1992 og í Finnlandi 1995.

    Um 4. mgr.
    Hér er fjallað um hluti sem geta talist uppfinningar í skilningi einkaleyfaréttar en ekki þykir rétt að veita einkaleyfi fyrir.
    1. tölul. 4. mgr. Þetta ákvæði er sambærilegt við það sem er að finna í 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. núgildandi einkaleyfalaga. Þó er sá munur á að skilyrðið um að uppfinning megi ekki brjóta í bága við lög hefur verið fellt úr. Það er í samræmi við ákvæði 4. gr. Parísarsáttmálans sem sett var inn við endurskoðun hans 1958. Þar segir að ekki megi hafna eða ógilda einkaleyfi fyrir það eitt að sala eða notkun uppfinningarinnar sé bönnuð með lögum. Sjaldan hefur reynt á ákvæðið hérlendis eða á samsvarandi ákvæði erlendis. Það er auðvitað grundvallaratriði að yfirvöld veiti ekki einkaleyfi fyrir uppfinningum sem brjóta í bága við siðgæði eða allsherjarreglu þjóðarinnar og því þörf á að hafa ákvæði um það. Hverjar slíkar uppfinningar eru fer síðan eftir siðferðismati þjóðfélagsins á hverjum tíma.
    2. tölul. 4. mgr. Bannið við veitingu einkaleyfa skv. þessum tölulið nær eingöngu til plöntu- eða dýraafbrigða sem slíkra. Því er möguleiki á að fá einkaleyfi fyrir plöntu eða fræi sem hefur fengið sérstaka efnismeðferð í þeim tilgangi að búa plöntuna eða fræið ákveðnum eiginleikum sem ekki er að finna í einstaklingum í náttúrunni, t.d. gera plöntuna eða fræið ónæmt fyrir sjúkdómum. Eftir slíka meðhöndlun telst plantan eða fræið ekki lengur plöntuafbrigði í hefðbundnum skilningi. Það er þó vert að taka fram að það eru eingöngu hin meðhöndluðu eintök sem njóta verndar.
    Aðferðir við framleiðslu dýra eða plantna, sem eru aðallega líffræðilegar, eru ekki einkaleyfishæfar. Hér er átt við aðferðir þar sem náttúran á stærstan hlut að máli, en tækni er ekki beitt. Líffræðilegar aðferðir við framleiðslu annarra afurða en dýra eða plantna geta verið einkaleyfishæfar að öðrum skilyrðum uppfylltum. Jafnframt geta aðferðir við framleiðslu dýra og plantna, sem ekki eru líffræðilegar að meginhluta, verið einkaleyfishæfar. Hér undir geta fallið líffræðilegar aðferðir þar sem tækni er beitt til að ná fram ákveðnum eiginleikum. Þetta á þó eingöngu við einstök dýr eða plöntur en ekki dýra- eða plöntuafbrigði sem slík.
    Undir aðferðir á sviði örverufræði falla bæði þau tilvik þegar notast er við örverur í sjálfu ferlinu og einnig framleiðsla eða einangrun örvera, t.d. með erfðafræðilegum aðferðum. Ágreiningur hefur verið um hvort örverur sem slíkar teljist afurðir aðferða á sviði örverufræði og því einkaleyfishæfar eða hvort þær teljist til dýra- eða plöntutegunda. Í Noregi ríkir síðari skilningurinn og því ekki hægt að fá einkaleyfi fyrir örverunum sem slíkum, andstætt því sem gildir í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Þar eru örverur taldar falla utan hugtaksins plöntu- og dýraafbrigði og því hægt að fá einkaleyfi fyrir þeim ef öðrum skilyrðum einkaleyfaréttarins er fullnægt. Hér er lagt til að fylgt verði sænskri, danskri og finnskri framkvæmd. Sérreglur um meðferð örvera, sem einkaleyfisumsókn er byggð á, eru í 6. og 7. mgr. 8. gr. frv.

Um 2. gr.


    Hér er fjallað um kröfuna um nýnæmi og frumleikastig uppfinninga, svo og um forgangsréttarreglu einkaleyfisumsókna. Í núgildandi lögum er kveðið á um þessi atriði í 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr.

    Um 1. mgr.
    Uppfinning verður að vera ný með tilliti til þess sem þekkt er fyrir umsóknardag. Hvað telst þekkt í þessu sambandi er nánar tilgreint í 2. mgr. Miðað er við hlutlægt mat einkaleyfayfirvalda, en vitneskja uppfinningamanns um hvort uppfinningin hafi verið til eða þekkt skiptir ekki máli. Krafan um nýnæmi uppfinninga er gerð í þágu almannahagsmuna og ekki talið rétt að veita einkaleyfi fyrir neinu því sem þegar er orðið þekkt og því almennur aðgangur að.
    Krafan um að uppfinning verði að vera frábrugðin því sem áður er þekkt felst í raun í hugtakinu uppfinning og er því ekki nefnd berum orðum í núgildandi lögum. Til þess að um uppfinningu sé að ræða verður hún að fela í sér einhverja tækniþróun sem ekki er augljós miðað við þekkta tækni. Uppfinning verður því að byggjast á einhverju lágmarkshugviti. Við mat á því hvort frumleikastig uppfinningar sé nægilegt er það sjónarmið haft til viðmiðunar að uppfinning verði að liggja utan þeirra marka sem fagmanni á viðkomandi sviði hefði hugkvæmst með því einu að byggja á því sem þegar er þekkt.
    Umsóknardagur skilur á milli þess sem telst þekkt eða ekki þekkt þegar metið er hvort skilyrðum um nýnæmi og frumleikastig uppfinningar er fullnægt. Umsóknardagur skv. frv. þessu telst vera sá dagur þegar umsókn er lögð inn til einkaleyfayfirvalda, sbr. nánari umfjöllun við 8. og 14. gr. frv. Miðað er við heilan dag þannig að fræðilega getur komið upp sú staða að tvö einkaleyfi yrðu gefin út fyrir sömu uppfinningunni ef tveir óskyldir aðilar legðu samdægurs inn fullgildar umsóknir fyrir sömu uppfinningu. Umsóknardagur er stundum nefndur forgangsréttardagur þar sem sá sem fyrstur sækir um einkaleyfi fyrir ákveðinni uppfinningu hefur forgang til að fá einkaleyfi fyrir henni. Skiptir ekki máli hvenær uppfinningin var gerð. Reglan er annars vegar byggð á þeirri grundvallarhugsun einkaleyfaréttarins að vernd skuli veita þeim sem fyrstur sé tilbúinn að opinbera uppfinningu sína og hins vegar á því að auðveldara sé að sannreyna hvenær réttur skapast ef miðað er við umsóknardag. Forgangsréttarreglan er ekki nefnd berum orðum í frumvarpi þessu, andstætt því sem nú er, sbr. 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga. Í 6. gr. frv. er nánar fjallað um forgangsrétt innlendra og erlendra umsókna.

    Um 2. og 3. mgr.
    Hér er nánar tilgreint hvað telja skuli þekkt þegar lagt er mat á nýnæmi og frumleikastig uppfinninga. Í samræmi við norræn einkaleyfalög er lagt til að tekið verði upp ótakmarkað nýnæmi, þannig að allt sem almennur aðgangur er að teljist þekkt í skilningi einkaleyfalaganna, sbr. orðalagið „eða á annan hátt“. Öll opinberun – í ræðu eða riti, með mynd eða við notkun uppfinningarinnar eða á annan hátt – getur valdið því að uppfinning telst þekkt. Engin takmörk eru heldur sett í frumvarpinu varðandi hvenær eða hvar í heiminum almennur aðgangur er eða hefur verið að viðkomandi upplýsingum. Í núgildandi lögum er hins vegar mun þrengri afmörkun á hvað telst þekkt, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr.
    Almennur aðgangur telst vera að uppfinningu ef stór eða ótilgreindur hópur manna hefur tækifæri til að komast yfir þær upplýsingar sem nægja fagmanni til að hagnýta hana. Hér skiptir ekki máli hvort óviðkomandi aðilar hafa í raun fengið upplýsingarnar eða hvort þær hafa leitt til hagnýtingar af hálfu sérfróðs manns eða annarra, heldur að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi. Undantekning er þó varðandi þá sem kynnast uppfinningunni vegna tengsla við uppfinningamann, svo sem þegar um er að ræða aðstoðarmenn, samstarfsfólk eða væntanlega kaupendur. Hér skiptir þó máli hversu mikil aðgát er höfð eða að hve miklu leyti reynt er að koma í veg fyrir að óviðkomandi eigi aðgang að uppfinningunni.
    Aðalregla ákvæðisins er að einungis það sem almennur aðgangur er að fyrir umsóknardag teljist þekkt í skilningi einkaleyfalaga. Í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. frv. er að finna undantekningu frá þeirri reglu. Þar segir að efni eldri óbirtra umsókna, sem lagðar hafa verið inn hér á landi, skuli teljast þekkt við mat á nýnæmi uppfinninga skv. yngri umsóknum, svo framarlega sem þær fyrrgreindu verði birtar í samræmi við 22. gr. frumvarpsins. Þetta er mikil breyting frá því sem nú gildir, þar sem tekið er fram að jafnvel birtar umsóknir skuli ekki teljast þekkt efni við mat á nýnæmi uppfinninga, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr.
    Ofangreind regla er byggð á forgangsrétti þess sem fyrr sækir um. Eins og segir í ákvæðinu þarf seinni umsókn að uppfylla skilyrði um nýnæmi miðað við fyrri óbirta umsókn, en ekki skilyrði um frumleikastig. Framkvæmd reglunnar yrði sú að leggja þyrfti seinni umsóknina til hliðar þar til ákvörðun er tekin um birtingu hinnar fyrri. Ef hin fyrri verður birt er hægt að meðhöndla seinni umsókn á eðlilegan hátt varðandi mat á nýnæmi hennar. Ef hins vegar verður ekki af birtingu hinnar fyrri hefur hún engin áhrif á mat á einkaleyfishæfi hinnar seinni. Telja verður þetta eðlilega framkvæmd miðað við forgangsréttarregluna. Ef almannahagsmunir eru hafðir í huga mæla engin sérstök rök með því að sá sem kemur seinna með umsókn um svipaða eða sömu uppfinningu og annar hefur þegar sótt um, en ekki hefur verið birt, njóti betri réttar en sá sem sækir um eftir að fyrri umsókn hefur verið birt. Undantekning varðandi skilyrðið um frumleikastig uppfinninga, sem síðar er sótt um, er aðallega gerð með þær umsóknir í huga sem koma frá sama aðila og varða nánari útfærslu á fyrri umsókn.
    Í 3. mgr. 2. gr. er áréttað að undir vissum kringumstæðum, sem eru nánar tilgreindar í 28. og 38. gr. frv., geti ofangreind undantekningarregla gilt varðandi alþjóðaumsóknir.

    Um 4. mgr.
    Hér er sett sérregla varðandi nýnæmisskilyrði þekktra efna og efnasambanda sem nota á við lækningaaðferðir. Aðalreglan er sú að hægt er að fá einkaleyfi fyrir nýrri notkun þekktra efna og efnasambanda ef almenn skilyrði um einkaleyfishæfi eru uppfyllt. Ákvæðið virðist þó segja skv. orðanna hljóðan að slíkt sé ekki hægt varðandi efni og efnasambönd sem nota á við lækningaaðferðir nema um sé að ræða fyrstu notkun á þessu sviði. Sú túlkun var ríkjandi annars staðar á Norðurlöndum fyrst eftir að samsvarandi ákvæði var sett þar. Hins vegar hefur á seinni árum gætt efasemda um að sú framkvæmd sé rétt. Nú er því möguleiki talinn vera á að veita einkaleyfi fyrir þekktum efnum og efnasamböndum til nota í lækningaskyni þrátt fyrir að önnur læknisáhrif viðkomandi efna séu kunn. Ef á þetta atriði reynir hér á landi verður að líta til norrænnar framkvæmdar.

    Um 5. mgr.
    Hér koma fram undantekningar frá aðalreglu einkaleyfaréttarins um að nýnæmi uppfinninga skuli miðast við umsóknardag.
    1. tölul. 5. mgr. Hér er talið að hagsmunir umsækjanda eða þess sem sækir rétt sinn til hans vegi þyngra en tillitið til almannahagsmuna eða réttarvissunnar þegar ljóst er að brotið hefur verið á rétti þeirra. Því er heimilað að birting, sem er augljós misbeiting gagnvart rétthafa, skuli ekki skaða nýnæmi uppfinningar, svo framarlega sem sótt sé um einkaleyfi fyrir henni innan sex mánaða frá því að uppfinningin varð aðgengileg almenningi með þessum hætti. Skilyrðið um að augljós misbeiting hafi átt sér stað felur í sér að ekki er nóg að birting hafi átt sér stað án samþykkis rétthafa. Einnig er ljóst að rétthafi má ekki á neinn hátt vera meðsekur í að uppfinningin varð almenningi aðgengileg, t.d. með kæruleysi. Að lokum verður að liggja fyrir að birtingin eigi rót sína að rekja til ótilhlýðilegs athæfis gagnvart umsækjanda eða þess sem sækir rétt sinn til hans. Þessari undantekningareglu eru þó sett ákveðin tímatakmörk þar sem umsókn þarf að berast innan sex mánaða frá því að uppfinningin varð almenningi kunn með þessum hætti. Þetta setur rétthafa nokkuð þröngar skorður en er rökstutt með tilliti til almannahagsmuna.
    2. tölul. 5. mgr. Þetta er samsvarandi regla og er í 1. mgr. 24. gr. núgildandi laga. Hér er þó nánar kveðið á um að undantekning taki aðeins til viðurkenndra alþjóðlegra sýninga skv. sáttmála um alþjóðlegar sýningar sem gerður var í París 20. nóvember 1928. Talin var þörf á að hafa þessa tilgreiningu því orðalag núgildandi laga var villandi varðandi umfang þessarar undantekningarreglu. Ljóst er að vegna þeirra þröngu takmarka, sem alþjóðasýningum eru sett í ofangreindum sáttmála, kemur örsjaldan til með að reyna á þetta ákvæði. Umsóknir um uppfinningar, sem hafa verið sýndar á slíkum alþjóðasýningum, þurfa að berast innan sex mánaða frá því að þær voru sýndar þar.

Um 3. gr.


    Hér er nánar kveðið á um inntak einkaréttarins sem einkaleyfi veitir, en í núgildandi lögum er um það efni fjallað í 1. mgr. 5. gr. Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er nákvæmlega tíundað hvaða athafnir teljist brot á einkarétti einkaleyfishafa. Er þar um tæmandi talningu að ræða. Upptalningin tekur til fleiri athafna en í núgildandi lögum og felur því í sér rýmkun á einkarétti einkaleyfishafa. Í 2. mgr. eru ákvæði um óbein brot á einkarétti skv. einkaleyfi. Slík ákvæði eru ekki í núgildandi lögum. Í 3. mgr. er tiltekið hvaða athafnir teljast ekki brot á einkarétti einkaleyfishafa. Engin ákvæði um það efni eru í núgildandi lögum. Frumvarpið er því mun ítarlegra varðandi inntak einkaréttarins en ákvæði núgildandi laga um sama efni.

    Um 1. mgr.
    Einkaleyfishafi hefur einkarétt til að hagnýta uppfinningu sína í atvinnuskyni hér á landi. Enginn annar má hagnýta uppfinninguna í þeim tilgangi nema með leyfi einkaleyfishafa. Ef uppfinningamaður hefur framselt uppfinningu sína er einnig honum óheimilt að hagnýta hana í atvinnuskyni nema með leyfi einkaleyfishafa. Einkaréttur einkaleyfishafa leiðir þó ekki sjálfkrafa til að hann geti nýtt sér uppfinninguna því nýting hennar getur verið óheimil af ýmsum ástæðum, t.d. vegna annarra einkaleyfa eða þess að hún sé bönnuð með lögum eða stjórnvaldsákvörðunum. Einnig verður að hafa í huga að einkarétturinn tekur eingöngu til íslenskrar lögsögu. Eigandi íslensks einkaleyfis getur hvorki bannað öðrum að hagnýta uppfinninguna né hagnýtt hana sjálfur á grundvelli íslenska einkaleyfisins annars staðar en á Íslandi. Þetta er oft nefnt forráðasvæðisreglan.
    Í 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar er tilgreint hvað teljist beint brot á einkarétti skv. einkaleyfi fyrir tækjum, afurðum eða aðferð. Upptalningin er mun ítarlegri en ákvæði núgildandi laga. Framleiðsla tekur til allra framleiðslustiga að frátöldu því sem telst hreinn undirbúningur. Það er nýtt ákvæði að ekki megi bjóða uppfinninguna til sölu, leigu eða annarra nota. Einnig að notkun í atvinnuskyni sé óheimil. Markaðssetning felur í sér alla ráðstöfun uppfinningarinnar eða afurða hennar gegn þóknun. Innflutningur er einnig óheimill og er það engin breyting frá núgildandi lögum. Það er nýtt að óheimilt sé að hafa í fórum sínum einkaleyfisverndaða uppfinningu í þeim tilgangi að hagnýta hana í heimildarleysi. Ákvæði 1. og 2. tölul. fela í sér tæmandi talningu og því teljast athafnir, sem ekki falla undir upptalninguna, ekki brot á einkaréttinum. Miðað er við að allar ofangreindar athafnir séu í tengslum við atvinnustarfsemi, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 3. gr. frv. þar sem segir að einkarétturinn taki ekki til athafna sem ekki tengjast atvinnustarfsemi.
    Í 3. tölul. málsgreinarinnar er kveðið á um óbeina afurðavernd. Þetta ákvæði er mjög mikilvægt fyrir eigendur aðferðaeinkaleyfa. Án slíks ákvæðis væri t.d. hægt að flytja inn afurðir sem væru löglega framleiddar með aðferðinni erlendis, sbr. það sem áður segir um gildissvið íslenskra einkaleyfa. Það mundi að sjálfsögðu rýra mjög gildi aðferðaeinkaleyfa. Þetta ákvæði veitir því eigendum aðferðaeinkaleyfa allsterka vernd. Á móti kemur þó að einkaleyfishafi verður að sanna að afurðin hafi orðið til fyrir tilstilli hinnar einkaleyfisvernduðu aðferðar. Í því felst m.a. að afurðin verður að hafa öðlast megineiginleika sína við notkun viðkomandi aðferðar og þessa eiginleika má hún ekki hafa misst á síðari stigum vinnslunnar. Ákvæðið tekur ekki til afurða sem framleiddar eru með notkun einkaleyfisverndaðs hlutar eins og t.d. vélaútbúnaðar. Að öðru leyti gildir það sama um athafnir, sem eru nefndar í 3. tölul. og að ofan greinir í umfjöllun um 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar.

    Um 2. mgr.
    Hér er fjallað um óbeint brot á einkarétti einkaleyfishafa. Brot skv. þessu ákvæði felst ekki í því að sá brotlegi nýti sér hina einkaleyfisvernduðu uppfinningu á einhvern þann hátt sem brýtur í bága við 1. mgr. þessarar greinar, heldur að hann afli eða bjóðist til að afla öðrum tilfanga til að gera slíkt og að tilföngin varði verulegan þátt uppfinningarinnar. Ef tilföngin eru almenn verslunarvara er því aðeins um brot að ræða að sá sem afhendir þau eða býðst til að afhenda þau hvetji til óheimillar hagnýtingar uppfinningarinnar.
    Sá sem býður tilföngin þarf að vita að þau henti og séu ætluð til að hagnýta uppfinninguna án heimildar eða slíkt sé ljóst af aðstæðum. Hér er því að vissu leyti um hlutdeildarbrot að ræða. Brotið felst í því að gera öðrum kleift að hagnýta uppfinninguna með því að útvega þeim efni eða tæki í því skyni. Í núgildandi lögum er ekki að finna ákvæði um hlutdeildarbrot. Hlutdeildarbrot í einkaleyfisrétti hafa því lotið almennum reglum skaðabóta- og refsiréttar. Þar er meginreglan sú að til þess að um hlutdeildarbrot geti verið að ræða þurfi beint brot að liggja fyrir. Samkvæmt þessu ákvæði skiptir hins vegar ekki máli hvort tilföngin verði í raun notuð á óheimilan hátt eða ekki. Það að útvega eða bjóða tilföng til hagnýtingar uppfinningunni til aðila, sem ekki hefur heimild til að nýta hana, án leyfis einkaleyfishafa, er sjálfstætt brot. Hér er því um að ræða víkkun á einkarétti einkaleyfishafa, miðað við núgildandi lög.
    Einnig er ljóst að um óbeint brot getur verið að ræða þó svo að hagnýting uppfinningarinnar með viðkomandi tilföngum sé ekki brot á einkarétti einkaleyfishafa. Kveðið er á um þetta í 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. frv. Samkvæmt þeim málslið er óheimilt nema með leyfi einkaleyfishafa að afhenda eða bjóða tilföng til þeirra sem hagnýta sér uppfinninguna með þeim hætti sem tilgreint er í 1., 3. og 4. tölul. 3. mgr. 3. gr. frv. Slíkt gefur tilefni til refsi- og/eða skaðabótaábyrgðar þó svo að sá sem hagnýtir uppfinninguna teljist ekki brotlegur.

    Um 3. mgr.
    Hér eru tilgreindar þær athafnir sem einkarétturinn tekur ekki til.
    Í 1. tölul. er tekið fram að einkarétturinn taki ekki til athafna sem ekki tengjast atvinnustarfsemi. Þetta er einnig ríkjandi skilningur núgildandi laga, þótt ekki sé það sagt berum orðum. Notkun uppfinningar t.d. við kennslu eða í vísindafyrirlestri telst ekki brot á einkaréttinum, nema viðkomandi uppfinning sé einmitt til þeirra nota. Noti einstaklingur uppfinningu í eigin þágu telst slíkt ekki heldur brot á einkarétti einkaleyfishafa. Svo dæmi sé tekið getur einstaklingur skv. þessu búið til tæki sem er verndað með einkaleyfi, svo framarlega sem notkun þess er eingöngu til eigin þarfa. Hann gæti jafnvel selt smíðina svo lengi sem salan er tilfallandi og getur ekki kallast atvinnustarfsemi. Matið er ekki byggt á því hvort um ábata er að ræða eða ekki. Til dæmis er ljóst að starfsemi í tengslum við líknarmál eða ríkisrekstur getur ekki verið grundvöllur til undanþágu.
    Í 2. tölul. er mikilvæg regla sem er viðurkennd hér á landi þótt hana sé ekki að finna í núgildandi lögum, en það er neyslureglan. Hún er byggð á því að þegar einkaleyfishafi hefur samþykkt markaðssetningu hinnar vernduðu uppfinningar getur hann ekki hindrað áframhaldandi notkun og sölu hennar eða afurða hennar. Þetta þýðir ekki að samkeppnisaðilar eða aðrir geti án heimildar byrjað að framleiða eða flytja inn og selja viðkomandi uppfinningu eða afurðir hennar. Inntak reglunnar er að einkaleyfishafi hefur undir þessum kringumstæðum ekki lengur rétt yfir hinu markaðssetta eintaki. Áframhaldandi notkun eða sala á eintakinu, hvort sem er í atvinnuskyni eða ekki, verður ekki talin brot á einkarétti einkaleyfishafa. Þessi regla á eingöngu við um markaðssetningu hér á landi, sbr. það sem að framan segir um forráðasvæðisregluna. Þó að uppfinningin hafi verið löglega markaðssett erlendis, jafnvel af sama aðila og hefur einkaleyfi fyrir henni hér á landi, má enginn annar en íslenski einkaleyfishafinn eða einhver með hans samþykki flytja inn afurðir sem einkaleyfið nær yfir.
    3. tölul. kveður á um að einkarétturinn taki ekki til athafna sem tengdar eru tilraunum með efni uppfinningarinnar. Tilraunin verður að varða efni uppfinningarinnar sjálfrar. Hins vegar skiptir ekki máli hvort tilraunin er gerð í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi.
    4. tölul. fjallar um tilreiðslu lyfja í lyfjabúð skv. lyfseðli. Þessi undantekning mun ekki hafa gildi fyrr en farið verður að veita einkaleyfi fyrir lyfjum hér á landi, þ.e. þegar bráðabirgðaákvæði 2. mgr. 75. gr. frumvarpsins rennur úr gildi. Þessi regla er sett til þess að lyfsalar geti áfram tilreitt lyf eftir lyfseðlum lækna án þess að brjóta á einkarétti einkaleyfishafa. Vert er þó að leggja áherslu á að eingöngu er átt við tilreiðslu lyfja eftir lyfseðli fyrir tilgreinda einstaklinga í einstökum tilfellum. Ekki er lyfsala heimilt að tilreiða lyf til að eiga á „lager“ eða tilreiða stóra skammta fyrir sjúkrahús án heimildar einkaleyfishafa.

Um 4. gr.


    Hér er fjallað um svonefndan fornotkunarrétt aðila sem hagnýta uppfinninguna þegar annar aðili sækir um einkaleyfi. Í núgildandi lögum er um þetta tilvik fjallað í 1. mgr. 6. gr. Í frumvarpinu felast ekki stórvægilegar breytingar varðandi þetta atriði en inntak reglunnar er nánar afmarkað. Hér er um undantekningareglu að ræða. Tilvik, sem hér um ræðir, geta ekki verið mörg því að oftast mundi umrædd hagnýting hafa áhrif á nýnæmi uppfinningar og útilokaði því að hægt væri að veita einkaleyfi fyrir henni.
    Fornotkunarréttinum er ætlað að tryggja hagsmuni þeirra sem hagnýta sér viðkomandi uppfinningu þegar umsókn um hana er lögð inn af öðrum. Oftast væri um að ræða aðila sem hafa sjálfir fundið upp það sama og annar sækir um einkaleyfi fyrir. Það er þó ekki skilyrði. Upplýsingar um efni uppfinningarinnar hafa getað borist notanda frá þriðja aðila. Það er skilyrði að hagnýtingin sé ekki augljós misbeiting gagnvart umsækjanda eða þeim sem hann sækir rétt sinn til. Varðandi það, hvað sé augljós misbeiting í þessu tilliti, vísast til umfjöllunar um 5. mgr. 2. gr. frv. Misbeiting gagnvart þriðja aðila kemur hins vegar ekki sjálfkrafa í veg fyrir fornotkunarrétt.
    Hagnýting sú, sem hér um ræðir, tekur til allra athafna sem falla undir 3. gr. frv. Hagnýtingin þarf að vera í atvinnuskyni. Jafnframt verður hagnýtingin að eiga sér stað hér á landi. Eðli hagnýtingar skv. fornotkunarrétti má ekki breytast frá þeim tíma sem fornotkunarréttur skapast. Það þýðir að ef fyrri hagnýting hefur falist í sölu er notanda ekki heimilt á grundvelli fornotkunarréttar að framleiða viðkomandi vöru eða flytja hana inn. Einnig er það skilyrði fyrir stofnun réttarins að hagnýting eigi sér stað á því tímamarki þegar einkaleyfisumsókn er lögð inn. Umsóknin getur verið íslensk eða erlend ef sú síðarnefnda er grundvöllur forgangsréttar skv. 6. gr. frv.
    Sama fornotkunarrétt og með sömu skilyrðum öðlast sá sem hefur gert verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni. Það felur í sér að viðkomandi hafi gert tæknilegar og fjárhagslegar ráðstafanir til að hefja hagnýtingu hennar.
    Aðilaskipti geta orðið að fornotkunarrétti, en þó aðeins í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri sem hann á uppruna sinn í. Annað þætti ganga of nærri einkarétti einkaleyfishafa. Jafnframt ber að athuga að skv. þessari grein hefur rétthafi aðeins heimild til áframhaldandi hagnýtingar. Hann getur t.d. ekki bannað öðrum að hagnýta sér uppfinninguna.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um undantekningar frá einkarétti einkaleyfishafa vegna alþjóðasamgangna. Í núgildandi lögum er fjallað um þetta atriði í 2. mgr. 5. gr. Lítið hefur reynt á ákvæðið en nauðsynlegt þykir þó að hafa samsvarandi ákvæði í frumvarpi þessu, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga, sbr. 5. gr. b Parísarsáttmálans og 27. gr. alþjóðaloftflutningasamningsins sem gerður var í Chicago 7. des. 1944. Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 4. apríl 1945, sbr. auglýsingu utanríkisráðuneytisins nr. 94 dags. 10. nóv. 1945.
    Hagnýting sú, sem um ræðir í 1. mgr., verður að vera tengd notkun erlends samgöngutækis. Fljótandi olíuborpallar eða frystiskip teljast ekki samgöngutæki í þessu samhengi, a.m.k. ekki að því er varðar hlutverk þeirra sem vinnustöðva á hafi úti. Beiting ákvæðisins er ekki byggð á gagnkvæmni, heldur tekur það til allra erlendra samgöngutækja hvort sem heimaríki þeirra veitir íslenskum samgöngutækjum sama rétt eða ekki. Einnig er ljóst að ákvæði þessarar málsgreinar tekur til allra uppfinninga hvort sem þær varða afurð eða aðferð. Undantekningarregla núgildandi laga tekur hins vegar eingöngu til einkaleyfisverndaðra hluta.
    Efni 2. mgr. á rót sína að rekja til 27. gr. alþjóðaloftflutningasamningsins. Um er að ræða heimildarákvæði sem byggja skal á gagnkvæmni. Í reglugerð yrði kveðið á um hvernig heimildarákvæðið skuli nýtt. Ekki þykir ástæða til að taka upp efni b-liðar 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga þar sem nægileg rök þóttu ekki styðja slíka sérreglu, auk þess sem slík regla þekkist ekki í einkaleyfalögum annarra þjóða.

Um 6. gr.


    Ákvæði greinarinnar fjallar um forgangsrétt þess umsækjanda sem fyrstur sækir um einkaleyfi vegna tiltekinnar uppfinningar. Efni ákvæðisins er sótt til einnar mikilvægustu reglu Parísarsáttmálans, sbr. 4. gr. og 4. gr. a, um alþjóðasamvinnu. Í núgildandi lögum er fjallað um forgangsrétt í 2. mgr. 24. gr. Tilgangur forgangsréttarreglunnar er að gera umsækjendum kleift að sækja um einkaleyfi í fleiri en einu landi án þess að þurfa að sækja um samtímis í þeim öllum. Slíkt er mjög erfitt í framkvæmd. Umsækjanda er einnig oft nauðsyn á að fá niðurstöðu nýnæmisrannsóknar áður en hann tekur ákvörðun um að sækja um einkaleyfi í fleiri löndum. Það væri ekki mögulegt án forgangsréttarreglu Parísarsáttmálans. Ef hennar nyti ekki við yrði birting umsóknar í einu landi nýnæmishindrun í næsta landi vegna kröfunnar um alþjóðlegt nýnæmi uppfinninga.
    Reglan felur það í sér að umsækjandi, sem er frá einhverju aðildarlandi Parísarsáttmálans, fær forgangsrétt í 12 mánuði frá umsóknardegi fyrstu umsóknar sinnar í einhverju aðildarríki sáttmálans til þess að sækja um einkaleyfi fyrir uppfinningu sinni í öðrum aðildarlöndum hans. Þennan frest er ekki hægt að framlengja, sbr. 3. mgr. 72. gr. frv. Þótt ekki segi berum orðum í frumvarpinu að miðað sé við fyrstu umsókn vegna viðkomandi uppfinningar er átt við hana í samræmi við eðli máls og 4. gr. C 2 Parísarsáttmálans.
    Forgangsréttur getur einnig skapast á grundvelli erlendra umsókna um uppfinningaskírteini eða smáeinkaleyfi. Uppfinningaskírteini er verndarform sem er aðallega notað í sósíalískum ríkjum. Þau veita ríkisvaldinu einkarétt til að hagnýta viðkomandi uppfinningu gegn endurgjaldi til uppfinningamanns. Smáeinkaleyfi er hins vegar, eins og nafnið bendir til, verndarform þar sem gerðar eru minni kröfur til einkaleyfishæfis uppfinninga jafnframt því sem þau veita mun skemmri vernd. Smáeinkaleyfi þekkjast í mismunandi formi í Vestur- Þýskalandi, Japan og Ítalíu. Hvorugt ofangreindra verndarforma er að finna hérlendis.
    Samkvæmt Parísarsáttmálanum og núgildandi lögum er aðeins unnt að fá forgangsrétt á grundvelli umsóknar sem áður hefur verið lögð inn erlendis. Í frumvarpi þessu er hins vegar skýrt tekið fram að forgangsrétt sé hægt að byggja á íslenskri umsókn. Hér er um að ræða rýmkun á forgangsréttinum sem rekja má til ákvæða alþjóðasamstarfssáttmálans (PCT) og Evrópusáttmálans um einkaleyfi (EPC). Í þeim sáttmálum er gert ráð fyrir að alþjóðaumsókn eða umsókn um Evrópueinkaleyfi geti notið forgangsréttar á grundvelli umsóknar frá aðildarlandi sem jafnframt er æskt einkaleyfis í samkvæmt fyrrnefndum umsóknum. Slík regla getur leitt til þess að tvö einkaleyfi væru gefin út fyrir sömu uppfinningu í því landi. Þrátt fyrir þetta hafa norrænu þjóðirnar fallist á þessa skipan. Talið er að sjaldan mundi reyna á þetta, m.a. vegna þess að einkaleyfishafi þyrfti þá að sjálfsögðu að borga tvöföld gjöld. Af sömu ástæðu var ekki talið að möguleikinn á að lengja verndartíma umsóknar með þessu móti væri haldbær mótrök. Meginrökin voru að setja ekki innlenda umsækjendur í verri stöðu en þá sem sækja um einkaleyfi á grundvelli PCT eða EPC og því var afráðið að lögfesta regluna í norrænum lögum. Lagt er til að slíkt hið sama verði gert hér á landi.
    Til þess að forgangsréttur taki gildi verður umsækjandi að leggja fram kröfu þar að lútandi. Í reglugerð yrði nánar kveðið á um hvenær og hvernig sú krafa skuli fram sett, sbr. 2. mgr. þessarar frumvarpsgreinar. Ef slík krafa kemur fram verður litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð fram samtímis hinni fyrri varðandi atriði sem falla undir 1., 2. og 4. mgr. 2. gr., svo og 4. gr. frv. Nýnæmi uppfinningar skaðast því ekki af birtingu hennar, notkun eða af öðrum ástæðum á þessu tímabili. Fornotkunarréttur skv. 4. gr. frv. getur heldur ekki skapast. Forgangsrétturinn gildir þó aðeins varðandi fyrrnefnd atriði. Því getur t.d. myndast réttur til nauðungarleyfis skv. 48. gr. frv. vegna notkunar annarra á forgangstímanum. Einnig hefur forgangsrétturinn engin áhrif á hvort veita eða hafna skuli einkaleyfisumsókn. Slíkt er metið sjálfstætt í hverju ríki fyrir sig. Þannig getur umsókn um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu verið hafnað í einu ríki en veitt í öðru vegna mismunandi einkaleyfalaga í viðkomandi ríkjum, þrátt fyrir forgangsréttartengsl milli umsóknanna. Þessi sjálfstæðisregla einkaleyfa er byggð á 4. gr. a Parísarsáttmálans.
    Síðasti málsliður 1. mgr. 6. gr. heimilar að sami forgangsréttur geti verið veittur á grundvelli umsókna frá ríki sem ekki er aðili að Parísarsáttmálanum. Skilyrði þess eru að gagnkvæmi sé að þessu leyti milli ríkjanna og að viðkomandi ríki hafi löggjöf sem er í aðalatriðum í samræmi við ákvæði sáttmálans. Til þess að gagnkvæmi teljist vera fyrir hendir þarf sérstakan samning þaðan að lútandi.

Um II. kafla.


Um 7. gr.


    Í 8. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, er kveðið á um að málefni, er varða réttindi á sviði iðnaðar, falli undir iðnaðarráðuneytið. Á vegum ráðuneytisins hefur frá árinu 1988 verið starfrækt einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofa sem sér um framkvæmd einkaleyfalaga.
    Núgildandi einkaleyfalög eru byggð á því meginsjónarmiði að allar umsóknir um einkaleyfi séu rannsakaðar með tilliti til einkaleyfishæfis uppfinninga. Sama á við um frumvarp þetta. Fullnaðarrannsókn einkaleyfisumsókna fer ekki fram hér á landi þar sem of fáar umsóknir berast til að standa undir þeim fjölda sérhæfðra starfsmanna sem þyrfti til þess. Hingað til hefur framkvæmdin verið sú að einkaleyfi hafa annaðhvort verið veitt á grundvelli erlendra einkaleyfa sem hafa verið rannsökuð af einkaleyfayfirvöldum viðkomandi landa eða umsóknir hafa verið sendar til dönsku einkaleyfastofnunarinnar til rannsóknar. Við það er miðað að gerður verði samningur við þá stofnun um áframhaldandi aðstoð á þessu sviði. Í reglugerð yrðu sett nánari ákvæði um þetta atriði.
    Nú er einkaleyfaskrifstofan eini móttökuaðili íslenskra einkaleyfisumsókna. Ef Ísland gerist aðili að samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty eða PCT) verður hægt að sækja um einkaleyfi hér á grundvelli alþjóðaumsóknar sem hægt er að leggja inn í öllum aðildarlöndum PCT. Af því leiðir að umsóknir um íslensk einkaleyfi verða einnig lagðar inn erlendis. PCT tekur þó eingöngu til umsókna en ekki veitingar einkaleyfa. Einkaleyfaskrifstofan hér mun fjalla um umsóknina eftir að hún berst til Íslands og taka ákvörðun um höfnun eða veitingu einkaleyfis skv. henni. Síðasti málsliður 1. mgr. 7. gr. varðandi skilgreiningu á hugtakinu „einkaleyfayfirvöld“ er settur vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að PCT.
    Áfrýjunarnefnd í einkaleyfa- og vörumerkjamálum hefur verið starfandi síðan 1984. Nánari reglur um starfshætti nefndarinnar verða settar í reglugerð.

Um 8. gr.


    Einkaleyfi er eingöngu veitt á grundvelli umsóknar, eins og fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. frv. Í þessari grein er nánar kveðið á um hvernig umsókn um einkaleyfi skuli úr garði gerð. Greinin er hliðstæð 10. og 11. gr. núgildandi laga. Nýmæli eru þó nokkur. Sérákvæði eru um lýsingu örvera sem uppfinningar byggjast á, sbr. 6. og 7. mgr. Einnig er nýmæli að ágrip af lýsingu og einkaleyfiskröfum skuli vera hluti af umsókn, sbr. 3. mgr. Í 5. mgr. er kveðið á um árgjald af umsóknum. Slíks gjalds er ekki krafist skv. núgildandi lögum. Nánari reglur um gerð einkaleyfisumsókna verða settar í reglugerð, sbr. 1. mgr. 69. gr. frv.

    Um 1. mgr.
    Hér kemur fram að þegar sótt er um einkaleyfi skuli leggja inn skriflega umsókn til einkaleyfayfirvalda. Engin önnur ákvæði eru í lögunum um hvaða lágmarkskröfur eru gerðar til þess að umsókn um einkaleyfi teljist hafa verið lögð inn. Ákvörðun um hver sé umsóknardagur er mikilvæg vegna þeirra réttaráhrifa sem við hann eru tengd, sbr. umfjöllun um 1. mgr. 2. gr. frv. Umsókn getur verið svo ábótavant að upprunalegur umsóknardagur getur ekki haldist. Umsækjandi á þá kost á að færa hann til, sbr. 14. gr. frv.
    Umsókn þarf að innihalda lýsingu á uppfinningunni, einkaleyfiskröfur og ágrip þessara þátta. Einnig þarf að tilgreina uppfinningamann. Í reglugerð yrðu sett nánari ákvæði um formsatriði varðandi frágang umsókna, sbr. 1. mgr. 69. gr. frv. Ítarleg ákvæði yrðu einnig sett um umsóknareyðublöð svo og frágang og fjölda fylgigagna.
    Umsækjanda skal gefinn kostur á að bæta úr þeim göllum sem á umsókninni kunna að vera, sbr. 15. gr. frv. Geri hann það ekki innan þess frests sem einkaleyfayfirvöld ákveða verður umsóknin afskrifuð, sbr. 2. mgr. 15. gr. frv. Þrátt fyrir þennan möguleika til lagfæringar getur umsókn, sem er vanbúin á umsóknardegi, auðveldlega eyðilagt eða rýrt möguleika umsækjanda á að fá einkaleyfi. Þetta er ljóst af 13. gr. frv. Þar kemur fram að umsókn má ekki breyta þannig að hún taki til einhvers sem ekki kom fram á umsóknardegi hennar.
    Í seinni hluta 1. mgr. er nefnt það tilvik þegar umsókn um einkaleyfi á Íslandi er lögð inn hjá einkaleyfayfirvöldum í erlendu ríki eða alþjóðastofnun. Um slíkt verður því aðeins að ræða að Ísland gerist aðili að PCT. Þetta ákvæði öðlast því ekki gildi fyrr en Ísland hefur gerst aðili að þeim alþjóðasáttmála.

    Um 2. mgr.
    Hér eru nánari ákvæði um helstu efnisþætti umsókna, en þeir eru: lýsing uppfinningar ásamt teikningum, ef þörf krefur, og einkaleyfiskröfur. Gögn, þar sem þessi atriði koma fram teljast grunngögn umsóknar. Fyrst er tekið fram að einkaleyfisumsókn skuli hafa að geyma lýsingu á uppfinningunni. Hún skal vera svo skýr að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna. Með fagmanni er átt við einstakling sem hefur til að bera staðgóða þekkingu eða sérmenntun á viðkomandi sviði. Krafa um lýsingu á uppfinningu er byggð á svonefndu opinberunarsjónarmiði sem er eitt af grundvallaratriðum einkaleyfaréttarins: Ríkið veitir aðila einkarétt til að hagnýta uppfinninguna í ákveðinn tíma gegn því að henni sé lýst svo skilmerkilega að hún stuðli að tækniframförum. Nánari reglur um hvernig lýsing skuli úr garði gerð verða settar í reglugerð. Um réttaráhrif lýsingar er fjallað í 39. gr. frv.
    Teikninga er því aðeins krafist að þeirra sé þörf til að skýra lýsinguna. Þeirra er þó yfirleitt þörf nema þegar sótt er um einkaleyfi fyrir efnasambandi. Þá nægir að setja fram efnafræðiformúlu þess. Nánari reglur um teikningar og frágang þeirra verða í reglugerð.
    Einkaleyfiskröfur eru þungamiðja einkaleyfisumsókna. Í þeim kemur fram fyrir hverju er beiðst einkaleyfis. Þörf er á greinargóðri skilgreiningu þess sem krafist er einkaleyfis fyrir því umfang verndar ræðst af einkaleyfiskröfunum, sbr. 39. gr. frv. Samræmi verður að vera á milli einkaleyfiskrafna og lýsingar á uppfinningu því hana getur þurft að nota til að skýra einkaleyfiskröfur, sbr. 39. gr. frv. i.f. Einkaleyfiskröfur geta verið ein eða fleiri í sömu umsókn. Þó verða þær að varða sömu uppfinningu, sbr. 10. gr. frv. Í reglugerð verða nákvæmar reglur um efni og framsetningu einkaleyfiskrafna.
    Ekki er kveðið á um það sérstaklega í frumvarpinu að umsókn um íslenskt einkaleyfi skuli vera á íslensku. Það verður þó að teljast grundvallaratriði til að upplýsingar, sem felast í birtum umsóknum, komi sem flestum að notum er vinna að tækniþróun hér á landi. Í þessu efni er því gert ráð fyrir að framkvæmd verði í samræmi við norrænar reglur. Af því leiðir að a.m.k. lýsing, einkaleyfiskröfur og ágrip, sbr. 3. mgr. hér á eftir, skulu vera á íslensku. Nánari reglur um innlagningu skjala á öðrum tungumálum og fresti til að leggja inn þýðingar, þegar þeirra er þörf, verða settar í reglugerð.
    Í athugasemdum við 6. og 7. mgr. þessarar greinar er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til lýsingar á örverum sem uppfinningar eru byggðar á og hvorki eru almenningi aðgengilegar né unnt að lýsa skriflega.

    Um 3. mgr.
    Krafan um að ágrip skuli vera hluti af umsókn á rót sína að rekja til reglna PCT og Evrópusáttmálans um einkaleyfi (European Patent Convention eða EPC). Ágripið á að auðvelda notendum einkaleyfakerfisins að glöggva sig á efni umsókna eða einkaleyfa með skjótum hætti. Einnig gerir ágripið mönnum kleift að átta sig á hvort þeir þurfi að kynna sér frekar efni umsóknar eða einkaleyfis. Í ágripi á að koma fram hvaða tæknilegt vandamál uppfinningin á að leysa og hvernig það er gert. Ágripið er eingöngu til upplýsingar og hefur enga þýðingu við mat á einkaleyfishæfi uppfinningar eða umfangi verndar, sbr. seinni málslið ákvæðisins. Þetta kemur einnig fram í því að einkaleyfayfirvöld geta breytt ágripinu án samráðs við umsækjanda, sbr. 1. mgr. 15. gr. frv. Nánari reglur um ágrip verða í reglugerð.

    Um 4. mgr.
    Réttur uppfinningamanns til að vera nefndur í einkaleyfi er tryggður í 4. gr. b. Parísarsáttmálans. Í einkaleyfalögum annarra ríkja á Norðurlöndum er hins vegar gengið lengra; þar er skylda að nefna uppfinningamann í umsókn. Lagt er til að sami háttur verði tekinn upp hérlendis, þ.e. að nafn uppfinningamanns komi fram í umsókn um einkaleyfi. Þar að auki þarf umsækjandi að sanna rétt sinn til uppfinningarinnar ef hann er ekki sjálfur uppfinningamaður. Slík sönnun yrði yfirleitt í formi skriflegrar framsalsyfirlýsingar, en stundum er þörf á dómsniðurstöðu, sbr. 17. gr. frv.
    Einfalt er að tilgreina uppfinningamann þegar um einn einstakling er að ræða. Erfiðara er um vik þegar hópur manna stendur að uppfinningu, sérstaklega þegar um er að ræða þróunarverkefni innan fyrirtækis. Slík þróunarverkefni geta staðið yfir í mörg ár og margir kunna að leggja þar hönd á plóg. Ekki liggur þá ávallt beint við hver teljast skuli uppfinningamaður. En af ákvæði þessarar greinar er ljóst að tilgreina þarf einn eða fleiri einstaklinga. Það útilokar að lögpersóna geti talist uppfinningamaður. Því þurfa fyrirtæki, sem sækja um einkaleyfi, að tilgreina ákveðna menn innan fyrirtækisins sem uppfinningamenn. Eins og vikið er að í athugasemdum við 1. gr. er í frumvarpi þessu ekki tekin afstaða til eignarréttar að uppfinningum sem gerðar eru af mönnum er starfa í þjónustu annarra.

    Um 5. mgr.
    Hér er kveðið á um að umsækjandi skuli greiða umsóknargjald. Einnig er gert ráð fyrir að greidd séu árgjöld af einkaleyfisumsóknum þótt ekki hafi verið tekin afstaða til veitingar einkaleyfisins. Það er breyting frá gildandi rétti. Umsóknargjaldi og árgjöldum vegna umsókna og veittra einkaleyfa er ásamt öðrum gjöldum ætlað að standa undir kostnaði við rekstur einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofu.
    Greiðsla umsóknargjalds er skilyrði fyrir því að umsóknin verði tekin gild. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði sett ákvæði þess efnis að umsækjandi geti fengið ákveðinn frest á greiðslu umsóknargjalds greiði hann það ekki við innlagningu umsóknar. Sá frestur yrði tiltölulega skammur, t.d. tveir mánuðir. Hafi umsækjandi ekki greitt umsóknargjaldið innan tilskilins frests telst umsóknin hafa verið dregin til baka.
    Árgjöld ber að greiða af umsókn þar til hún hefur fengið endanlega afgreiðslu. Í því felst m.a. að greiða ber árgjöld meðan umsókn er til meðferðar hjá áfrýjunarnefnd og/eða dómstólum. Ákvæði um það, frá hvaða tíma greiða skuli árgjöld, er í 41. gr. frv. og kveðið er á um fresti til greiðslu árgjalda í 42. gr. frv. Rök fyrir greiðslu árgjalda af umsóknum eru m.a. að með því megi sporna við því að verið sé að viðhalda umsóknum sem augljóst er að ekki muni ná fram að ganga eða umsækjandi hefur misst áhuga á.

    Um 6. mgr.
    Hér er að finna sérreglur um það hvenær telja skuli að uppfinningum, sem varða aðferðir á sviði örverufræði eða afurðir slíkra aðferða, sé nægilega vel lýst. Aðalreglan er sú að rækt af viðkomandi örverustofni skuli lögð inn til varðveislu þannig að hver sá, sem hefur heimild til, geti fengið afhent sýni af henni. Slík varðveisla er þó ekki nauðsynleg ef örveran er aðgengileg almenningi. Til þess að svo teljist vera þarf að vera hægt að útvega örveruna án verulegs umstangs og útgjalda. Eingöngu örverur, sem auðvelt er að skilgreina og hægt er að útvega með auðveldum hætti hjá rannsóknastofu, teljast uppfylla það skilyrði. Það að örveran finnist í náttúrunni leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hún teljist aðgengileg almenningi.
    Hugsanlegt er að örvera, sem var aðgengileg almenningi á umsóknardegi, hætti að vera það. Ef það gerist áður en einkaleyfi er veitt og rækt af örverustofninum hefur ekki verið lögð inn til varðveislu né henni nægilega lýst í umsókn er ekki hægt að veita einkaleyfið. Hafi einkaleyfi hins vegar þegar verið veitt getur fyrrnefnt tilvik leitt til þess að einkaleyfið verði ógilt, sbr. 52. gr. frv. Einkaleyfishafi getur þó yfirleitt komið í veg fyrir þetta þar sem hann hefur oftast í fórum sínum rækt af örverustofninum og getur þannig séð til þess að hún sé aðgengileg almenningi.
    Varðveisla er heldur ekki nauðsynleg ef mögulegt er að lýsa örverunni í umsókn þannig að fagmaður geti á grundvelli lýsingarinnar útfært uppfinninguna. Þetta ákvæði var sett í norræn lög í kringum 1985 en áður var ekki talið unnt að lýsa örverum. Með hliðsjón af hinni öru þróun á sviði örverufræða er ekki rétt að útiloka þann möguleika. Því er samsvarandi ákvæði sett í þetta frumvarp. Rétt er þó að benda á að erfitt getur verið fyrir umsækjanda að átta sig á hvenær skrifleg lýsing sé nægileg. Í vafatilvikum er öruggara að leggja einnig inn rækt af örverustofninum til varðveislu, ella er hætta á að umsókn verði hafnað eða einkaleyfi dæmt ógilt vegna ófullnægjandi lýsingar.
    Í ákvæðinu er tekið fram að í síðasta lagi á umsóknardegi umsóknar sé hægt að leggja inn rækt af örverustofninum til varðveislu. Einnig er lögð á það áhersla að ræktin skuli þaðan í frá vera stöðugt varðveitt. Ef slík varðveisla á að teljast hluti af lýsingu á uppfinningunni verður hún að vera til staðar a.m.k. þar til verndartími einkaleyfis er útrunninn, sbr. 40. gr. frv. Ef brestur verður á því getur það leitt til þess að ekki sé unnt að veita einkaleyfi eða veitt einkaleyfi verði fellt úr gildi.
    Stöðug varðveisla ræktar af örverustofni, sem uppfinning er byggð á, er ekki eingöngu hagsmunamál einkaleyfishafa. Einkaleyfislýsingar sem almennt aðgengilegar tækniupplýsingar gegna vart hlutverki sínu ef varðveislu ræktar er ekki viðhaldið, helst fram yfir verndartíma hlutaðeigandi einkaleyfis. Í frumvarpi þessu eru ekki settar fastar reglur um þetta efni. Slíkar reglur eru í Búdapestsáttmálanum frá 1977 sem fjallar um alþjóðlega viðurkenningu á varðveislu örvera vegna einkaleyfisumsókna. Ísland er ekki aðili að sáttmálanum gagnstætt því sem við á um aðrar norrænar þjóðir. Þrátt fyrir það eru ákvæði þessa frumvarps í samræmi við sáttmálann og það auðveldar hugsanlega aðild að honum seinna meir.
    Varðveislu örveruræktarinnar skal haldið við þannig að þeir sem til þess hafa rétt geti fengið sýni af henni hér á landi. Ljóst er að það er aðeins á færi sérhæfðra stofnana að varðveita slíka rækt. Í reglugerð verður kveðið á um hvar varðveisla er heimil. Varðveislu á slíkum sérstofnunum fylgir mikill kostnaður og leggst hann á umsækjanda. Aðalmarkmið fyrrgreinds Búdapestsáttmála er að koma á alþjóðareglum til að létta umsækjendum róðurinn. Í því skyni felur samningurinn í sér að aðeins sé þörf á varðveislu einnar ræktar af örverustofni á einni alþjóðlega viðurkenndri stofnun fyrir öll aðildarlönd sáttmálans.
    Eins og áður segir er Ísland ekki aðili að sáttmálanum. Það er þó hugsanlegt að varðveisla ræktar í alþjóðlega viðurkenndri stofnun erlendis yrði metin gild sem grundvöllur fyrir lýsingu í íslenskri einkaleyfisumsókn. Þetta væri þó háð því skilyrði að viðkomandi stofnun gæti útvegað þeim, sem til þess hefðu rétt, sýni hér á landi. Um rétt til að fá slíkt sýni er fjallað í ákvæðum 22. gr. frv.

    Um 7. mgr.
    Varðveitt örverurækt getur orðið óvirk. Ef það gerist áður en verndartími einkaleyfis er útrunninn eða áður en einkaleyfi er veitt getur það valdið umsækjanda eða einkaleyfishafa réttarmissi. Í ákvæði þessu er því rétthafa heimilað að skipta um örverurækt ef þannig stendur á. Ákvæðið á uppruna sinn í Búdapestsáttmálanum. Nánar verður fjallað um framkvæmd og fresti til slíkra skipta í reglugerð.
    Réttaráhrif framangreindra skipta eru þau að horft yrði fram hjá því að örveruræktin hafi orðið óvirk um tíma og að uppfinningunni hafi ekki verið nægilega vel lýst á því tímabili. Nýja varðveislan kemur í stað hinnar fyrri og telst hefjast sama dag og hin fyrri var lögð inn. Því er ekki hægt að hafna umsókn eða ógilda einkaleyfi vegna ónógrar lýsingar sem rekja má til tímabundinnar óvirkni ef slík skipti fara fram eftir settum reglum.
    Ef varðveitt örverurækt hefur í millitíðinni orðið aðgengileg almenningi og telst vera það þegar varðveislan verður óvirk þarf ekki nýja varðveislu. Forsendur þess eru þó að örveran hafi verið skilmerkilega skilgreind í umsóknargögnum.

Um 9. gr.


    Þetta ákvæði er byggt á 5. mgr. 5. gr. PCT. Þar er heimilað að í landslögum einstakra aðildarríkja megi kveða á um að umsækjendur um einkaleyfi í viðkomandi landi geti beðið um að fram fari nýnæmisrannsókn á umsókn þeirra hjá alþjóðlegri nýnæmisrannsóknastofnun. Ávinningur sá, er umsækjandi getur haft af slíkri alþjóðlegri nýnæmisrannsókn, er að hún gefur honum betri undirstöðu til að meta hvort hann eigi að leggja inn alþjóðaumsókn á grundvelli PCT. Einnig getur slík rannsókn haft í för með sér lækkun á nýnæmisrannsóknagjöldum vegna slíkrar alþjóðaumsóknar.
    Ísland er ekki aðili að PCT. En þar sem aðild að þessum alþjóðasáttmála er fyrirhuguð og líta má á frumvarpið sem lið í þeim undirbúningi þykir rétt að hafa þetta ákvæði í frumvarpinu og tryggja á þann hátt samræmi við einkaleyfalög annarra Norðurlandaþjóða. Ákvæðið mun þó ekki hafa gildi fyrr en Ísland gerist aðili að PCT. Einnig er vert að árétta að ofangreind nýnæmisrannsókn mun ekki sjálfkrafa koma í stað venjulegrar nýnæmisrannsóknar á íslenskum einkaleyfisumsóknum. Kveðið verður á um það atriði í reglugerð.

Um 10. gr.


    Greinin skýrir sig að mestu leyti sjálf. Hér er sett skilyrði um skyldleika uppfinninga í sömu umsókn. Sambærilegt ákvæði er í 3. mgr. 11. gr. núgildandi laga og er hér aðeins um orðalagsbreytingu að ræða. Meginrök fyrir þessu ákvæði eru stjórnunarlegs eðlis. Það mundi torvelda mjög meðhöndlun og rannsókn umsókna ef leyft væri að sækja um einkaleyfi fyrir óskyldum uppfinningum í sömu umsókn. Einnig yrði erfitt að flokka umsóknir og einkaleyfi sem aftur gerði almenningi erfiðara um vik að kynna sér efni þeirra. Fjárhagsleg rök liggja einnig að baki ákvæðinu. Ekki þykir heldur rétt að umsækjandi geti fyrir eitt og sama gjald fengið umfjöllun um og síðar vernd á mörgum ólíkum uppfinningum. Að síðustu má nefna erfiðleika sem kynnu að koma upp við túlkun á umfangi einkaleyfis sem veitt væri fyrir óskyldum uppfinningum.
    Í greininni er ekki skilgreint hvenær uppfinningar séu nægilega skyldar til þess að geta falist í sömu umsókn. Ljóst er að í mörgum tilvikum eru náin tæknileg tengsl milli uppfinninga og því sjálfsagt og eðlilegt að sótt sé um einkaleyfi fyrir þeim sameiginlega. Slíkur skyldleiki telst ekki vera fyrir hendi ef hægt er að hagnýta aðra uppfinninguna án þess að koma inn á svið hinnar. Í reglugerð verður gerð nánari grein fyrir skilyrðum sem uppfinningar þurfa að uppfylla til að teljast nægilega skyldar í þessu samhengi.
    Ef sótt er um einkaleyfi á óskyldum uppfinningum í einni og sömu umsókn ber umsækjanda að skipta umsókninni í tvær eða fleiri umsóknir. Nánar er kveðið á um slíka skiptingu umsókna í 11. gr. frv.

Um 11. gr.


    Greinin fjallar um þau tilvik þegar einkaleyfisumsókn er skipt í tvær eða fleiri sjálfstæðar umsóknir. Hún er í eðlilegu framhaldi af 10. gr. frv. sem kveður á um að ekki megi í sömu umsókn sækja um einkaleyfi á óskyldum uppfinningum. Hér er gefinn kostur á að hluta í sundur umsókn sem þannig er ástatt um. Greinin tekur þó ekki eingöngu til slíkra tilvika, heldur á hún einnig við ef umsækjandi æskir af öðrum ástæðum að skipta umsókn í tvær eða fleiri sjálfstæðar umsóknir. Sambærilegt ákvæði er ekki í núgildandi lögum.
    Í norrænum rétti er talað um hlutun umsóknar ef efni nýrrar umsóknar er að finna í grunngögnum frumumsóknar. Ef efni nýrrar umsóknar hefur hins vegar orðið til vegna viðbóta við grunngögn frumumsóknar er talað um sundurgreiningu umsókna. Þessi aðgreining skiptir máli varðandi fresti til að setja fram beiðni um að skipta umsókn. Nánar verður gerð grein fyrir þessu í reglugerð.
    Skilyrði þess, að hlutun eða sundurgreining umsóknar sé heimil, er að eldri umsókn hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu. Með því er átt við veitingu, afturköllun eða höfnun einkaleyfis. Það telst einnig endanleg afgreiðsla ef umsókn hefur verið afskrifuð, sbr. 15. gr. frv. Umsókn telst þó ekki endanlega afgreidd fyrr en kæru- eða endurupptökufrestur er liðinn. Annað skilyrði fyrir hlutun eða sundurgreiningu umsóknar er beiðni umsækjanda. Slík beiðni getur falist í nýrri umsókn þar sem vísað er til hinnar eldri. Einkaleyfayfirvöld geta ekki skipt umsókn af sjálfsdáðum. Um önnur skilyrði fyrir hlutun eða sundurgreiningu umsókna verður fjallað í reglugerð.
    Réttaráhrif af hlutun eða sundurgreiningu umsókna eru þau að nýjar umsóknir, sem til verða við slíkar aðgerðir, teljast hafa verið lagðar inn sama dag og gögn sem fela í sér uppfinninguna. Hafi þau verið lögð inn strax við innlagningu frumumsóknar fær nýja umsóknin sama umsóknardag og frumumsóknin, annars þann dag sem viðkomandi gögn teljast hafa verið lögð inn. Þessi afturvirku réttaráhrif eru verulegt frávik frá meginreglunni um að raunverulegur umsóknardagur sé upphafsdagur réttarverndar.

Um 12. gr.


    Í greininni er kveðið á um skyldu umsækjanda, sem ekki er heimilisfastur hér á landi, til að hafa umboðsmann búsettan hérlendis. Slík skylda er ekki fyrir hendi skv. núgildandi lögum, sbr. 12. gr. þeirra. Eigi að síður hefur það almennt tíðkast að aðilar búsettir erlendis hafi umboðsmenn hér á landi vegna einkaleyfisumsókna sinna. Ef þessu ákvæði er ekki framfylgt verður umsókn afskrifuð eða hafnað, sbr. 15. og 16. gr. frv. Greinin tekur eingöngu til umsókna, en í 66. gr. er ákvæði um umboðsmenn vegna veittra einkaleyfa.
    Það þekkist í lögum ýmissa erlendra ríkja að sett séu skilyrði um menntun og sérþekkingu umboðsmanna. Slík skilyrði er ekki að finna í lögum norrænna þjóða utan að krafist er að viðkomandi hafi búsetu í landinu. Í frumvarpi þessu er því fordæmi fylgt. Umboðsmaður getur verið hvort heldur sem er einstaklingur eða lögpersóna.
    Krafan um umboðsmann er byggð á hagkvæmnisjónarmiðum. Það getur verið erfiðleikum bundið fyrir einkaleyfayfirvöld að eiga samskipti við umsækjendur, sem búsettir eru erlendis, vegna tungumálaerfiðleika og vanþekkingar þeirra á íslenskum réttarreglum. Frágangur einkaleyfisumsókna og umsjón með þeim gagnvart einkaleyfayfirvöldum krefst mikillar sérþekkingar. Því er algengt að umsækjendur, búsettir hérlendis og erlendis, leiti til sérfróðra umboðsmanna til að hafa umsjón með umsóknum sínum. Í greininni er ekki tilgreint hverjir hafi rétt til að hafa umboðsmann. Til þessa hefur umsækjendum, sem búsettir eru hérlendis, einnig verið heimilt að fela umboðsmanni að koma fram fyrir sína hönd gagnvart einkaleyfayfirvöldum. Frumvarpi þessu er ekki ætlað að breyta því.
    Það er búseta en ekki þjóðerni sem skiptir máli varðandi skyldu til að hafa umboðsmann. Ekki er nánar skilgreint í frumvarpinu hvað átt er við með heimilisfesti. Því verður að styðjast við almenn sjónarmið úr alþjóðarétti og réttarfari. Heimilisfesti telst vera sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu að undanskildum skammvinnum fjarvistum vegna leyfa eða veikinda.
    Samkvæmt greininni má ekki takmarka umboðið. Umboðsmaður hefur því heimild til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart einkaleyfayfirvöldum um öll þau málefni sem upp koma varðandi einkaleyfisumsóknina. Hann getur þó orðið bótaskyldur gagnvart umbjóðanda sínum ef hann tekur ákvarðanir sem fara út fyrir samkomulag þeirra í milli. Nánari reglur um umboð og frágang þeirra verða settar í reglugerð.

Um 13. gr.


    Í núgildandi lögum eru ekki samsvarandi ákvæði og hér um ræðir.
    Það er meginregla einkaleyfaréttarins að ekki megi breyta umsókn sem hefur verið lögð inn hjá einkaleyfayfirvöldum. Rök fyrir þeirri reglu eru að ýmis réttaráhrif eru bundin umsóknardegi. Nægir að nefna að mat á nýnæmi uppfinningar miðast við umsóknardag; einnig forgangsréttur til verndar, sbr. 6. gr. frv., og upphaf verndartímabils einkaleyfis reiknast frá þeim tíma, sbr. 40. gr. frv. Oft er þó þörf minni háttar breytinga, eftir að umsókn hefur verið lögð inn, til að uppfylla kröfur um frágang umsókna, sbr. 15. gr. frv. Því er hér heimilað að gera breytingar á umsókn svo framarlega sem breytingin felur ekki í sér viðbót við efni umsóknar, þ.e. að ekki sé sótt um víðtækari vernd en kom fram í grunngögnum upphaflegrar umsóknar. Leiðréttingar, umorðun, nánari skýringar og takmarkanir á umsóknum eru því heimilar. Einnig er ávallt heimilt að draga umsókn til baka og leggja inn nýja. Nýja umsóknin er þá meðhöndluð sjálfstætt og greiða þarf umsóknargjöld að nýju. Þetta er þó því aðeins raunhæft að fyrri umsóknin hafi ekki orðið almenningi aðgengileg í samræmi við 22. gr. frv. því annars eyðileggur fyrri umsóknin nýnæmi þeirrar seinni.
    Ef þörf er víðtækari breytinga en heimilar eru skv. þessari grein getur slíkt verið mögulegt skv. 14. gr. frv. gegn því að umsóknardegi verði breytt.

Um 14. gr.


    Í greininni er fjallað um tilfærslu á upphaflegum umsóknardegi. Hliðstætt ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Aðalregla einkaleyfaréttarins er sú að ekki megi breyta efni umsóknar þannig að hún taki til einhvers sem ekki kemur fram í upphaflegri umsókn, sbr. umfjöllun um 13. gr. frv. Stundum er umsókn þó svo ófullkomin að þörf er slíkra breytinga. Ef ekki væri heimilt að færa til upphaflegan umsóknardag þyrfti umsækjandi í slíkum tilfellum að leggja inn nýja umsókn, en það væri ósanngjarnt í mörgum tilvikum. Hér er því sett sú regla að ef umsækjandi gerir meiri háttar breytingar innan sex mánaða frá því að upphafleg umsókn var lögð inn geti hann beðið um að umsóknin teljist hafa borist einkaleyfayfirvöldum þegar breytingarnar bárust.
    Ekki er afmarkað í greininni við hvaða breytingar er átt. Ákvæðið á þó einkum við ef um mjög víðtækar breytingar er að ræða, t.d. ef lýsingu á uppfinningu hefur alveg vantað eða henni verið mjög ábótavant. Það þurfa þó að vera ljós tengsl milli upphaflegrar umsóknar og þeirrar breyttu. Breytingarnar verða að vera innan þeirra marka að þær geti með sanngirni talist breytingar í sjálfu sér en ekki ný umsókn. Annars verður umsækjandi að leggja inn nýja umsókn.
    Breytingar verða að hafa borist einkaleyfayfirvöldum innan sex mánaða frá upphaflegum umsóknardegi. Þessi frestur er settur af hagkvæmnisástæðum til að koma í veg fyrir að einkaleyfayfirvöld leggi of mikla vinnu í umsókn sem síðar kynni að verða gjörbreytt. Einnig er með þessum fresti komið í veg fyrir að umsækjendur misnoti þennan möguleika til að lengja verndartímabil umsóknar.
    Umsækjandi verður að leggja inn beiðni um tilfærslu á umsóknardegi. Einkaleyfayfirvöld geta því ekki fært umsóknardag til af sjálfsdáðum. Þrátt fyrir að breytingar á umsókninni verði að hafa borist innan sex mánaða frá upphaflegum umsóknardegi hefur umsækjandi tveggja ára frest til að setja fram beiðni um tilfærslu umsóknardags. Slík beiðni verður þó að hafa borist áður en einkaleyfayfirvöld birta umsóknina, sbr. 2. mgr. 19. gr. frv. Ekki má biðja um tilfærslu umsóknardags oftar er einu sinni og beiðnina er ekki hægt að afturkalla. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að umsókn sé breytt oftar en einu sinni innan sex mánaða frestsins og getur beiðnin þá náð til allra þeirra breytinga.
    Réttaráhrif slíkrar tilfærslu á umsóknardegi eru þau að umsókn telst lögð inn á þeim degi sem breytingarnar bárust. Þetta þýðir að forgangsréttur og verndartími einkaleyfis reiknast frá þeim degi. Einnig eru nýnæmishindranir og önnur atriði, er varða einkaleyfishæfi umsóknar, könnuð til þessa dags. Fyrri umsóknardagur verður því ógildur að öllu leyti nema því að umsóknin heldur sama umsóknarnúmeri. En með beiðni um tilfærslu á umsóknardegi í stað þess að leggja inn nýja umsókn sparar umsækjandi sér að greiða umsóknargjald að nýju.

Um 15. gr.


    Hér er fjallað um hvernig skuli fara með umsókn sem ekki uppfyllir skilyrði laga og reglugerða um efni og frágang. Reglurnar um hvernig fara skuli með ófullkomnar umsóknir eru mun ítarlegri en þær sem eru í 1. mgr. 13. gr. núgildandi laga. Allt, sem getur verið áfátt við umsókn, fellur hér undir, bæði form- og efnisgallar. Hér er því ekki greint á milli form- og efnisrannsóknar umsókna eins og þekkist í einkaleyfalögum sumra þjóða. Það leiðir þó af eðli máls að yfirleitt er byrjað að athuga hvort formskilyrði séu uppfyllt áður en umsóknin er athuguð efnislega.
    Ef einkaleyfayfirvöld sjá eitthvað athugavert við umsókn skal umsækjanda tilkynnt það. Ekki eru settar reglur um hvernig sú tilkynning skuli úr garði gerð, en yfirleitt yrði hún skrifleg. Umsækjanda skal gefinn ákveðinn frestur til að tala sínu máli eða bæta umsóknina. Honum skal jafnframt tilkynnt að sýni hann ekki einhver viðbrögð við tilmælum einkaleyfayfirvalda verði umsóknin afskrifuð, sbr. 2. mgr. Litið er svo á að ef umsækjandi hirðir ekki um að svara athugasemdum einkaleyfayfirvalda hafi hann í reynd afturkallað umsókn sína. Það er ekki skilyrði að umsækjandi verði við öllum tilmælum einkaleyfayfirvalda til þess að meðferð umsóknar verði haldið áfram. Nægilegt er að hann sýni áhuga á að viðhalda umsókninni. Ef umsækjandi bætir ekki úr því sem áfátt er við umsóknina getur það leitt til þess að henni verði hafnað, sbr. 16. gr. frv.
    Umsækjandi getur fengið umsókn sína endurupptekna enda þótt hún hafi verið afskrifuð ef hann tjáir sig um athugasemdir einkaleyfayfirvalda eða bætir umsóknina innan fjögurra mánaða frá því að hinn tiltekni frestur rann út. Jafnframt þarf hann að greiða endurupptökugjald. Mögulegt er að sama umsókn verði afskrifuð og endurupptekin mörgum sinnum ef svo ber undir. Ákvörðun um að hafna endurupptöku umsóknar má kæra til áfrýjunarnefndar, sbr. 2. mgr. 24. gr. frv. Umsókn, sem er afskrifuð vegna vangoldinna árgjalda, verður ekki endurupptekin, sbr. 4. mgr.
    Það er meginregla að einkaleyfayfirvöld geta ekki af sjálfsdáðum breytt neinu í umsókn. Í 2. málsl. 1. mgr. er þó gerð undantekning varðandi ágrip umsóknar. Tilgangur með ágripi er að gefa í sem stystu máli tæknilegar upplýsingar um uppfinninguna. Þær upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar almenningi eins snemma og hægt er. Því getur verið nauðsynlegt að breyta ágripi án samráðs við umsækjanda til að tryggja að það liggi fyrir í endanlegri mynd áður en umsókn verður aðgengileg almenningi í samræmi við 22. gr. frv. Þar sem ágrip hefur enga þýðingu við túlkun á umfangi verndar veldur breyting á því ekki réttarspjöllum.

Um 16. gr.


    Ekki er samsvarandi ákvæði í núgildandi lögum. Í greininni kemur fram að heimilt sé að hafna umsókn telji einkaleyfayfirvöld enn eitthvað standa í vegi fyrir að veita einkaleyfi, þrátt fyrir að umsækjandi hafi haft tækifæri til að tala sínu máli eða bæta umsóknina í samræmi við 15. gr. frv. Höfnun umsóknar er endanleg ákvörðun og skal rökstudd skriflega. Hún getur bæði byggst á form- og efnisgöllum. Það er skilyrði að umsækjandi hafi haft tækifæri til að tjá sig um þau atriði sem höfnunin er byggð á. Ef umsókn er hafnað skv. þessari grein má skjóta þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar skv. 24. og 25. gr. frv.
    Þetta ákvæði er sett til að stuðla að skjótari meðferð einkaleyfisumsókna. Á þennan hátt er komið í veg fyrir að ófullkomnar umsóknir liggi lengi hjá einkaleyfayfirvöldum án þess að endanleg ákvörðun sé tekin. Einkaleyfayfirvöld geta þó veitt umsækjanda enn á ný tækifæri til að bæta umsóknina eða tala sínu máli, sbr. niðurlag ákvæðisins. Við mat á því, hvort hafna eigi umsókninni eða gefa umsækjanda enn möguleika á að bæta hana, verður að miða við það, hverjar líkur séu á að hægt sé að bæta úr því sem áfátt er. Ef um formgalla er að ræða og umsækjandi hefur haft tækifæri til að lagfæra þá skv. 15. gr. frv. verður þessum möguleika aðeins beitt í undantekningartilvikum.

Um 17. gr.


    Um það, hver sé rétthafi uppfinningar, er fjallað í 1. mgr. 1. gr. frv. Í þessari grein er á hinn bóginn fjallað um það hvernig með skuli fara ef einhver staðhæfir við einkaleyfayfirvöld að hann en ekki umsækjandi eigi rétt til uppfinningar sem sótt er um einkaleyfi fyrir. Slíka staðhæfingu getur hver sem er sett fram á hvaða málstigi umsóknar sem er. Viðkomandi er því ekki bundinn af andmælafresti skv. 2. mgr. 21. gr. frv.
    Telji einkaleyfayfirvöld að sá sem hlut á að máli hafi fært nægilegar sönnur á mál sitt getur sá hinn sami krafist þess að umsóknin verði færð á hans nafn, sbr. 18. gr. frv. Á sama hátt geta einkaleyfayfirvöld hafnað slíkri staðhæfingu ef þau álíta að ekki sé fótur fyrir henni. Ef einkaleyfayfirvöld telja hins vegar vafa leika á í þessum efnum geta þau beint þeim tilmælum til viðkomandi að hann höfði mál til staðfestingar kröfu sinni innan tiltekins frests. Ef hann verður ekki við þeim tilmælum geta yfirvöld litið fram hjá staðhæfingu hans.
    Í 2. mgr. er heimild fyrir einkaleyfayfirvöld til að fresta meðferð umsóknar ef mál varðandi rétt til uppfinningar hefur verið höfðað fyrir dómstólum. Á það við hvort heldur einkaleyfayfirvöld hafa mælst til þess við aðila í samræmi við 1. mgr. eða aðili hefur höfðað mál af sjálfsdáðum. Öll slík mál skal höfða fyrir bæjarþingi Reykjavíkur, sbr. 64. gr. frv. Málshöfðun skal beint gegn umsækjanda en ekki einkaleyfayfirvöldum.

Um 18. gr.


    Í frumvarpsgreininni er fjallað um svokallaða yfirfærslu umsóknar á nafn þess sem sýnir einkaleyfayfirvöldum fram á að hann en ekki umsækjandi eigi réttinn til uppfinningar. Samsvarandi ákvæði er ekki í núgildandi lögum.
    Einkaleyfisumsókn verður ekki skráð á nafn annars manns nema sá hinn sami sanni rétt sinn. Ef sönnunargögn eru ótvíræð getur sönnunarfærsla farið fram milliliðalaust fyrir einkaleyfayfirvöldum, annars verður að leggja fyrir þau endurrit dóms sem gengið hefur samkvæmt 17. gr. frv. Slíka sönnun má setja fram á hvaða málstigi umsóknar sem er. Auk sönnunar verður viðkomandi að leggja fram kröfu um yfirfærslu umsóknar. Ef einhver hefur sannað rétt sinn til uppfinningar en krefst þess ekki að fá umsóknina skráða á sitt nafn skal umsókninni hafnað.
    Umsókn, sem skráð er á nafn annars manns vegna betri réttar hans, heldur upphaflegum umsóknardegi. Forgangsréttur glatast því ekki og réttur til handa þriðja manni getur ekki stofnast í millitíðinni. Umsóknargjald þarf að greiða að nýju vegna þeirrar auknu vinnu sem slík yfirfærsla hefur í för með sér, auk þess sem ósanngjarnt þykir að sá sem fær umsóknina skráða á sitt nafn með þessum hætti hagnist á greiðslu upphaflegs umsækjanda.
    Til að koma í veg fyrir réttartap þess aðila, sem setur fram kröfu um yfirfærslu umsóknar, er í 2. mgr. kveðið á um að ekki megi afskrifa, hafna eða samþykkja umsókn fyrr en tekin hefur verið endanleg afstaða til slíkrar kröfu. Hægt er að áfrýja úrskurði um yfirfærslu umsóknar hvort sem orðið er við beiðni um yfirfærslu eða henni hafnað, sbr. 2. mgr. 24. gr. frv. Hafi einkaleyfi þegar verið veitt þegar sett er fram krafa skv. þessari grein, eiga við ákvæði 53. gr. frv.

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um það hvenær umsókn skal samþykkt til framlagningar og möguleika umsækjanda til að breyta einkaleyfiskröfum eftir það. Með framlagningu umsóknar er verið að gefa almenningi kost á að skoða hana og bera fram andmæli gegn veitingu einkaleyfis á grundvelli hennar, sbr. 21. gr. frv. Samkvæmt 13. gr. núgildandi laga er umsókn birt eftir að formskilyrði hafa verið athuguð. Niðurstaða efnisrannsóknar liggur þá yfirleitt ekki fyrir. Umsókn getur því tekið miklum breytingum frá því hún er birt og þar til einkaleyfi er veitt. Þessar kringumstæður eru andstæðar almannahagsmunum þar sem þær gera almenningi erfitt fyrir að átta sig á hvert verður endanlegt verndarsvið hugsanlegs einkaleyfis. Hér er því lagt til að umsókn verði ekki samþykkt til framlagningar fyrr en efnisrannsókn hefur farið fram.
    Áður en umsókn er samþykkt til framlagningar verður að hafa farið fram rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningarinnar. Það að umsókn sé samþykkt til framlagningar gefur því til kynna að á grundvelli þeirrar rannsóknar telji einkaleyfayfirvöld að uppfinningin sé einkaleyfishæf. Framlagning er hins vegar ekki bindandi yfirlýsing um að einkaleyfi verði gefið út. Þvert á móti ber einkaleyfayfirvöldum eftir sem áður skylda til að athuga allar þær hindranir sem þau fá vitneskju um og kunna að vera á því að koma í veg fyrir að einkaleyfi verði veitt. Vitneskja um slíkar hindranir berst þó yfirleitt í formi andmæla en kemur sjaldnast fram vegna frekari rannsóknar af hálfu einkaleyfayfirvalda. Ákvörðun einkaleyfayfirvalda um að leggja umsókn ekki fram telst endanleg og má því áfrýja henni skv. 24. gr. frv., en samþykki til framlagningar er ekki hægt að áfrýja.
    Í 2. mgr. kemur fram að ekki megi breyta einkaleyfiskröfum þannig að umfang verndar verði víðtækara eftir að umsókn hefur verið samþykkt til framlagningar. Þessi tímamörk eru valin til að koma í veg fyrir að rannsaka þurfi umsókn á ný áður en til framlagningar kemur sem getur verið nokkru síðar, sbr. 20. gr. frv. Rökin fyrir því að takmarka möguleika á breytingum eftir að umsókn hefur verið samþykkt til framlagningar eru þau að umsóknin þarf að vera í endanlegum búningi þegar almenningi er gefinn kostur á að kynna sér hana og meta hvort andmæla sé þörf. Sömu rök eiga við um bann við að setja fram kröfu skv. 14. gr. um tilfærslu á umsóknardegi. Öðru máli gegnir hins vegar um breytingar sem leiða til takmörkunar á umfangi verndar. Slíkar breytingar eru heimilar þrátt fyrir það að umsókn hafi verið samþykkt til framlagningar.

Um 20. gr.


    Hér er kveðið á um gjald sem umsækjandi þarf að greiða fyrir framlagningu umsóknar. Framlagningargjaldi er ætlað að standa undir prentunar- og auglýsingakostnaði vegna framlagningar umsóknarinnar, sbr. 21. gr. frv. Sá kostnaður verður breytilegur eftir umfangi umsóknar eins og nánar verður gerð grein fyrir í reglugerð. Ef framlagningargjald er ekki greitt innan þess frests sem greinin kveður á um verður umsóknin afskrifuð og þar af leiðandi ekki lögð fram. Þessi háttur er hafður á til að tryggja greiðslu gjaldsins. Umsækjandi hefur þó möguleika á að fá umsóknina tekna til meðferðar að nýju ef hann greiðir framlagningargjaldið auk endurupptökugjalds innan fjögurra mánaða frá því að frestur rann út. Ef beiðni umsækjanda um endurupptöku er hafnað má skjóta þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar, sbr. 2. mgr. 24. gr. frv.
    Í 2. mgr. er heimild til að fella niður framlagningargjald fyrir umsóknir umsækjenda sem eiga í verulegum erfiðleikum með að greiða gjaldið. Í 25. gr. núgildandi laga er heimild til að fella niður kostnað við rannsókn umsókna fyrir efnalitla umsækjendur. Hér er hins vegar lagt til að aðstoð við efnalitla uppfinningamenn komi ekki til álita fyrr en umsókn hefur verið rannsökuð. Eðlilegra þykir að styrkja einungis þær umsóknir sem virðast hafa raunhæfa möguleika á að leiða til einkaleyfis. Slíkt er ekki hægt að meta fyrr en rannsókn hefur farið fram og búið er að samþykkja umsókn til framlagningar.
    Beiðni um niðurfellingu framlagningargjalds yrði því aðeins tekin fyrir að uppfinningamaður sækti um einkaleyfi sjálfur og í eigin nafni. Heimildinni yrði aðeins beitt þegar efnalitlir umsækjendur eiga í hlut. Ekki kemur fram í frumvarpinu hvernig meta eigi efnahag umsækjanda sem ber upp slíka beiðni, en eðlilegast væri að leggja til grundvallar upplýsingar á síðasta skattframtali viðkomandi. Það skal tekið fram að örsjaldan hefur reynt á samsvarandi ákvæði hjá frændþjóðum okkar. Ef beiðni um eftirgjöf á framlagningargjaldi er hafnað hefur umsækjandi enn tveggja mánaða frest til að greiða gjaldið. Ákvörðun einkaleyfayfirvalda um að hafna slíkri beiðni verður ekki áfrýjað.

Um 21. gr.


    Hér er fjallað um framkvæmd á framlagningu umsóknar og kveðið á um frest til að andmæla veitingu einkaleyfis samkvæmt henni. Framlagningin skal eiga sér stað eins fljótt og hægt er eftir að framlagningargjald hefur verið greitt. Möguleiki er þó að fá henni frestað ef umsóknin er ekki orðin almenningi aðgengileg í samræmi við 2. mgr. 22. gr. frv. Líta má á framlagningu og andmælafrest sem „tæki“ til viðbótarkönnunar á einkaleyfishæfi umsóknar. Þess vegna er mikilvægt að framlagning umsóknar sé auglýst. Auglýsing um framlagningu hefur áhrif á réttarvernd umsóknar, sbr. 1. mgr. 60. gr. frv.
    Í 2. mgr. kemur fram að andmæli skulu vera skrifleg. Andmælafrestur er þrír mánuðir frá birtingu auglýsingar um framlagningu. Að öðru leyti eru ekki sett ákvæði um hvernig andmæli skuli úr garði gerð. Af þeim sökum er hægt að taka órökstudd andmæli til athugunar. Þetta er með vilja gert til að binda ekki hendur einkaleyfayfirvalda og er um leið hvatning til andmæla. Öll andmæli, sem byggjast á því að ekki megi veita einkaleyfi skv. viðkomandi umsókn, yrðu tekin til athugunar hvort sem þau varða efnis- eða formskilyrði umsóknar. Hver sem er getur sett fram andmæli sér að kostnaðarlausu. Andmælandi þarf ekki að hafa umboðsmann, jafnvel þótt hann sé búsettur erlendis. Andmæli, sem berast eftir lok andmælafrests, skulu tekin til efnislegrar athugunar. Meðhöndlun slíkra andmæla er ekki formbundin og sá sem leggur andmæli fram of seint fær ekki réttarstöðu andmælanda. Viðkomandi getur því t.d. ekki áfrýjað ákvörðun einkaleyfayfirvalda um að veita einkaleyfi þrátt fyrir andmælin. sbr. 1. mgr. 24. gr. frv. Nánari reglur um meðferð andmæla og fresti í andmælamálum verða settar í reglugerð.
    Í 3. mgr. kemur fram að almenningur á rétt á að fá prentuð eintök af lýsingu. einkaleyfiskröfum og ágripi framlagðra umsókna. Í þeim skulu m.a. koma fram upplýsingar um nafn og heimilisfang umsækjanda og uppfinningamanns. Gjald verður tekið fyrir afhendingu slíkra endurrita.

Um 22. gr.


    Greinin kemur í stað síðari málsliðar 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga og kveður á um hvaða umsóknargögn skuli vera aðgengileg almenningi og frá hvaða tíma. Það skiptir máli varðandi refsi- og bótaábyrgð vegna brota á einkaleyfarétti, sbr. 60. gr. frv. Meginreglan, sem kemur fram í 1. mgr., er sú að frá framlagningardegi skuli öll umsóknargögn vera aðgengileg almenningi. Þar er átt við að auk lýsingar, kröfugerðar og teikninga skuli gögn varðandi rannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfi, bréfaskriftir einkaleyfayfirvalda við aðila, breytingar á umsókninni, umboð, framsal og öll önnur þau gögn. sem skipta máli og einkaleyfayfirvöld hafa undir höndum, vera aðgengileg. Undanskilin eru þó innanhússvinnuplögg, svo sem uppköst og minnispunktar þess sem fer með málið.
    Umsókn er lögð fram eftir að hún hefur verið rannsökuð. sbr. 19.–21. gr. frv. Slík rannsókn getur tekið langan tíma. Það getur skapað réttaróvissu ef almenningur á ekki kost á að kynna sér efni umsóknar fyrr en að löngum tíma liðnum. Því er lagt til í 2. mgr. að 18 mánuðum eftir umsóknardag eða þann dag, sem forgangsréttar er krafist frá, verði umsóknargögnin öllum aðgengileg.
    Undantekning frá því, að umsókn verði aðgengileg eftir 18 mánuði, er þó gerð í 2. málsl. 2. mgr. Ef endanleg ákvörðun hefur verið tekin áður um að ekki verði veitt einkaleyfi á grundvelli umsóknarinnar – umsókn t.d. hafnað eða hún afskrifuð – þá verður hún ekki gerð almenningi aðgengileg. Rök fyrir þessari undantekningu eru þau, að ef ljóst er að ekki verði veitt einkaleyfi á grundvelli umsóknar hefur almenningur ekki sömu hagsmuni af því að kynna sér efni hennar. Hins vegar getur umsækjandi haft hag af því að umsóknin sé ekki gerð almenningi aðgengileg undir slíkum kringumstæðum. Hann getur þróað uppfinningu sína áfram og sótt aftur um einkaleyfi fyrir endurbættri gerð hennar án þess að fyrri umsóknin verði talin nýnæmishindrandi. Þessi undantekning varðandi aðgengileika umsókna á ekki við ef umsækjandi hefur krafist endurupptöku umsóknar sem hefur verið afskrifuð, áfrýjað ákvörðun um höfnun eða krafist endurveitingar réttinda skv. 72. eða 73. gr. frv.
    Ef umsóknargögn hafa verið gerð aðgengileg almenningi verða þau það áfram þótt umsókninni sé síðar hafnað eða hún afskrifuð. Umsækjandi getur einnig farið fram á að umsóknargögn verði gerð aðgengileg fyrr en skylt er, sbr. 3. mgr. Hann getur haft hag af því vegna þeirra réttaráhrifa sem slíkt hefur í för með sér, sbr. 60. gr. frv. og 2. mgr. 2. gr.
    Í 5. mgr. segir að einkaleyfayfirvöld geti ákveðið, að beiðni umsækjanda, að skjal eða hluti úr skjali verði ekki aðgengilegt almenningi. Þetta er þó háð því skilyrði að í skjalinu komi fram viðskiptaleyndarmál sem ekki varðar uppfinningu þá sem sótt er um einkaleyfi á og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem geri það óæskilegt að skjalið verði gert aðgengilegt. Hér undir geta fallið allar upplýsingar um starfsemi umsækjanda sem telja má mikilvægt að haldið sé leyndum. Ef slík beiðni kemur fram verða einkaleyfayfirvöld að vega og meta framangreinda hagsmuni umsækjanda með tilliti til hagsmuna almennings af því að geta kynnt sér öll umsóknargögn. Viðkomandi skjal verður ekki gert aðgengilegt fyrr en endanleg ákvörðun hefur verið tekin um að slíkt skuli gert þrátt fyrir beiðnina.
    Í 6. mgr. er fjallað um á hvern hátt varðveitt rækt af örverustofni skuli vera aðgengileg almenningi. Aðalreglan er sú að hver sem er geti fengið afhent sýni af ræktinni eftir að umsóknargögn verða almenningi aðgengileg. Sýni verður aftur á móti ekki afhent neinum þeim sem skv. reglugerð eða lagaákvæðum er óheimilt að meðhöndla varðveittar örverur. Ákvæðið er sett til að taka af allan vafa um að einkaleyfalögin veita ekki aðila sjálfstæðan rétt til að krefjast sýnis ef slíkt er bannað í sérreglum annars staðar. Í síðasta málslið er enn fremur kveðið á um að ekki megi afhenda sýni neinum þeim sem vegna skaðlegra eiginleika örverunnar er ekki talinn hæfur til að meðhöndla sýnið án verulegrar hættu. Aðili, sem ekki hefði rétt til að fá sýni vegna ofangreindra ákvæða, yrði að fá aðila, sem uppfyllir skilyrði laganna, til að kanna örveruna fyrir sig.
    Í 7. mgr. kemur fram að umsækjandi getur óskað þess að þar til umsókn verður lögð fram eða þar til endanlega hefur verið úrskurðað um hana, án þess að hún verði lögð fram, megi aðeins afhenda sýni sérfræðingum. Þessi undantekning frá aðalreglunni um aðgengileika umsókna, eftir að 18 mánuðir eru liðnir frá umsóknar- eða forgangsréttardegi, helgast af því að með því að fá sýni af örveruræktinni fær samkeppnisaðili oft uppfinninguna sjálfa í hendur. Mjög auðvelt er því fyrir viðkomandi að hagnýta uppfinninguna, ólíkt því sem við á um uppfinningar sem einungis er lýst skriflega í umsókn. Því er talið rétt að heimila takmörkun á möguleikum almennings á að fá sýni þar til nær dregur útgáfu hugsanlegs einkaleyfis. Sá sem vill fá að rannsaka sýni verður því að snúa sér til sérfræðings sem iðnaðarráðherra hefur samþykkt að uppfylli skilyrði til að geta tekið á móti sýni, sbr. 2. málsl. 7. mgr., og biðja hann um að kanna sýnið fyrir sig. Til að þessari sérreglu verði beitt við umsóknir verður að leggja inn beiðni um það innan frests sem ákveðinn er í reglugerð.
    Í 8. mgr. er kveðið á um að allir, sem æskja þess að fá sýni af varðveittri örverurækt, þurfi að leggja fram skriflega beiðni um það til einkaleyfayfirvalda. Í slíkri beiðni á jafnframt að koma fram yfirlýsing um að viðkomandi fallist á að fylgja þeim reglum um meðhöndlun sýnisins sem iðnaðarráðherra setur. Þessi yfirlýsing á að tryggja enn betur að sýnið verði ekki misnotað. Ef aðeins er heimilt að afhenda sýni sérfræðingum verður fyrrgreind yfirlýsing að koma frá þeim sem fenginn er til að rannsaka sýnið. Þetta á við þó að beiðnin um sýni sé sett fram af öðrum aðila.

Um 23. gr.


    Hér er fjallað um hvernig fara skuli með umsókn eftir að hún hefur verið lögð fram og andmælafrestur er liðinn. Í núgildandi lögum skortir reglur um þetta að öðru leyti en því að í síðari hluta 14. gr. er kveðið á um að umsækjandi eigi rétt á að tjá sig um fram komin andmæli.
    Ef andmæli hafa borist gegn veitingu einkaleyfis er ljóst að endurskoða þarf umsóknina með tilliti til þeirra, sbr. umfjöllun um 21. gr. frv. Hins vegar er svo fyrir mælt í 1. mgr. 23. gr. að einkaleyfayfirvöld skuli athuga umsókn aftur eftir að andmælafrestur er liðinn þótt andmæli hafi ekki borist. Af þessu er ljóst að einkaleyfayfirvöld hafa heimild til að kanna af sjálfsdáðum ný gögn sem þeim verður kunnugt um, hvenær sem er fram að veitingu einkaleyfis. Það liggur þó í hlutarins eðli að hafi ekki borist andmæli og aðstæður hafa að öðru leyti ekki breyst frá því að umsókn var lögð fram eru miklar líkur til að einkaleyfi verði veitt á grundvelli hennar.
    Athugun sú, sem fer fram eftir að andmælafrestur er liðinn, lýtur, eftir því sem við á, sömu reglum um málsmeðferð og fyrri athugun, sbr. 2. málsl. 1. mgr. Ef umsækjandi svarar ekki skriflegum athugasemdum einkaleyfayfirvalda vegna andmæla eða annarra ástæðna verður umsóknin afskrifuð, sbr. 15. gr. frv. Ef einkaleyfayfirvöld senda einungis afrit af andmælum til umsækjanda, sbr. 2. mgr., án athugasemda eða beiðni um svar verður umsóknin hins vegar ekki afskrifuð, þó svo að umsækjandi svari ekki, heldur verður málið tekið til efnislegrar meðferðar og úrskurðað með hliðsjón af fram komnum gögnum. Ekki má hafna umsókn á þessu stigi málsins vegna andmæla eða annarra nýframkominna hindrana nema umsækjandi hafi haft tækifæri til að tjá sig um viðkomandi atriði, sbr. 16. gr. frv. Nánari reglur um meðferð andmæla verða settar í reglugerð.

Um 24. gr.


    Í greininni er fjallað um málskot til áfrýjunarnefndar. Málskotsréttur skv. 16. gr. núgildandi laga, sbr. og 1. gr. laga nr. 36/1984, er mjög takmarkaður. Einungis umsækjanda er heimilt að áfrýja ákvörðun um höfnun. Öðrum ákvörðunum einkaleyfayfirvalda verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar. Hér er lagt til að málskotsréttur verði rýmkaður þannig að áfrýja megi fleiri ákvörðunum einkaleyfayfirvalda og einnig að andmælanda verði heimilt að áfrýja ákvörðun um að veita einkaleyfi þrátt fyrir rétt fram komin andmæli.
    Meginreglan er sú að einungis má skjóta endanlegum ákvörðunum varðandi umsókn til áfrýjunarnefndar, sbr. 1. mgr. Endanlegar ákvarðanir eru höfnun eða afskrifun umsóknar eða veiting einkaleyfis skv. umsókn. Engu máli skiptir hvort höfnun eða afskrifun umsóknar er vegna form- eða efnisgalla. Öðrum ákvörðunum einkaleyfayfirvalda má því aðeins skjóta til áfrýjunarnefndar að þær séu nefndar í 2. og 3. mgr. 24. gr. eða 67. gr. frv. Á grundvelli almennra stjórnsýslureglna má þó kæra óeðlilega málsmeðferð, en ekki einstakar ákvarðanir, einkaleyfayfirvalda til æðra stjórnvalds.
    Það er umsækjandi sem hefur málskotsrétt skv. 1. mgr. Andmælandi hefur einnig málskotsrétt ef einkaleyfi er veitt þrátt fyrir rétt fram komin andmæli. Andmæli teljast rétt fram komin ef þau uppfylla skilyrði 2. mgr. 21. gr. frv. Sérregla er í síðasta málslið 1. mgr. sem kveður á um að séu sérstakar ástæður fyrir hendi sé áfrýjunarnefndinni heimilt að taka málskot til umfjöllunar þótt andmælandi hafi dregið málskot sitt til baka. Heimildin yrði helst notuð þegar andmæli, sem áfrýjað er út af, varða einkaleyfishæfi uppfinningar almennt en síður ef deilan snýst um eignarrétt að henni.
    Málskotsréttur í 3. mgr. vegna höfnunar á beiðni skv. 8. mgr. 22. gr. er í samræmi við norsku einkaleyfalögin. Eðlilegt virðist að veita málskotsrétt ef slíkri beiðni er hafnað þar sem um mikilsverða hagsmuni getur verið að ræða.

Um 25. gr.


    Í greininni er nánar fjallað um málskot til áfrýjunarnefndar og einnig um málskot til dómstóla.
    Umsækjanda eða andmælanda er gefinn tveggja mánaða frestur, frá því að einkaleyfayfirvöld tilkynntu um ákvörðun sína, til að áfrýja ákvörðun einkaleyfayfirvalda til áfrýjunarnefndar, sbr. 24. gr. Greiða skal gjald fyrir áfrýjun innan sama frests. Ef áfrýjunin eða greiðslan berst ekki innan áðurnefnds frests ber að vísa áfrýjuninni frá. Nánari reglur um formkröfur áfrýjunar verða settar í reglugerð.
    Þótt áfrýjandi hafi sjálfræði um hvaða ákvörðunum hann áfrýjar getur takmörkun af hans hálfu í því efni ekki komið í veg fyrir að áfrýjunarnefndin taki einkaleyfisumsóknina og málsmeðferðina alla til endurmats. Ekkert er því til fyrirstöðu að ný gögn séu lögð fram. Áfrýjunarnefndin endurskoðar ekki ákvörðun einkaleyfaskrifstofunnar eingöngu á grundvelli þeirra gagna sem skrifstofan hefur byggt niðurstöðu sína á, heldur tekur hún nýja ákvörðun í málinu í heild sinni.
    Þó svo að ekki sé unnt að bera ákvarðanir áfrýjunarnefndar undir æðra stjórnvald, sbr. 2. mgr., þá hefur það ekki áhrif á rétt til að skjóta ákvörðunum áfrýjunarnefndar til dómstóla. Af 3. mgr. er þó ljóst að ekki má skjóta þeim ákvörðunum einkaleyfayfirvalda, sem áfrýja má til áfrýjunarnefndar, til dómstóla fyrr en ákvörðun áfrýjunarnefndar liggur fyrir. Þetta á þó ekki við ákvörðun um að veita einkaleyfi, sbr. 52. og 53. gr. frv.
    Ef höfðað er mál fyrir dómstólum vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar ber að gera það innan tveggja mánaða frá því að viðkomandi fékk upplýsingar um úrskurð áfrýjunarnefndar, sbr. 3. mgr. Ákvörðunum einkaleyfayfirvalda, sem ekki verður áfrýjað til áfrýjunarnefndar, verður heldur ekki skotið til dómstóla. Ólögmætum stjórnsýsluathöfnum má að sjálfsögðu skjóta til dómstóla. Málsókn fyrir dómstólum vegna ákvörðunar, sem áfrýjunarnefnd hefur úrskurðað um, skal beint gegn áfrýjunarnefndinni. Andmælandi og aðrir, sem hafa nægilegra hagsmuna að gæta, geta með meðalgöngu gerst aðilar að málinu í samræmi við almennar reglur um meðalgöngu.

Um 26. gr.


    Hér er fjallað um veitingu einkaleyfis og hvernig skuli að því staðið. Greinin fjallar um sama efni og 17. gr. núgildandi laga.
    Einkaleyfi telst veitt þegar umsókn hefur verið endanlega samþykkt, sbr. 1. mgr. Endanlegt samþykki telst ekki liggja fyrir fyrr en áfrýjunarfrestur skv. 1. mgr. 25. gr. er útrunninn. Útgáfudagur einkaleyfis er sá dagur þegar einkaleyfi er veitt, en ekki sá dagur sem auglýsing um veitinguna er birt, sbr. 2. málsl. 1. mgr. Frá útgáfudegi hefjast að fullu réttaráhrif einkaleyfis, þar með talin refsi- og skaðabótaákvæði IX. kafla frv. Einnig hefur útgáfudagur þýðingu varðandi ýmsa fresti, sbr. 1. mgr. 45. gr., 4. mgr. 52. gr. og 1. mgr. 53. gr. frv. Útgáfudagur hefur hins vegar engin áhrif á gildistíma einkaleyfis þar sem hann reiknast frá umsóknardegi, sbr. 40. gr. frv.
    Réttaráhrif einkaleyfis eru ekki bundin við einkaleyfisskjalið sem slíkt. Gildi einkaleyfis er óháð því hvort hægt sé að sýna skjalið. Jafnframt er hægt að framselja einkaleyfið án þess að einkaleyfisskjalið sé afhent. Skjalið sjálft inniheldur engar upplýsingar sem ekki koma fram í gögnum sem hafa verið lögð fram varðandi einkaleyfið, sbr. 3. mgr. 21. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.
    Ef ekki hafa orðið breytingar á lýsingu uppfinningar eða einkaleyfiskröfum frá því að umsókn var lögð fram, sbr. 21. gr. frv., verða ekki gefin út ný eintök af þessum skjölum við útgáfu einkaleyfis. Þótt prenta þurfi nýja lýsingu eða einkaleyfiskröfur vegna breytinga verður ekki krafist sérstaks gjalds fyrir útgáfu einkaleyfis.

Um 27. gr.


    Greinin fjallar um skráningu veittra einkaleyfa í einkaleyfaskrá. Slík skrá er þegar haldin, sbr. 18. gr. núgildandi laga. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um hvaða upplýsingar skuli færðar í skrána, heldur er gert ráð fyrir að nánari reglur þar að lútandi yrðu settar í reglugerð, sbr. 1. mgr. 69. gr. Þó er í nokkrum ákvæðum frumvarpsins nefnt að upplýsingar skuli skráðar í einkaleyfaskrá samkvæmt ósk aðila. Sem dæmi má nefna upplýsingar um framsal og um veitt nytjaleyfi og niðurfellingu þess, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. frv. Hið sama gildir um veitingu nauðungarleyfis og réttindi skv. 2. mgr. 53. gr. og 3. mgr. 44. gr. frv.
    Viss réttaráhrif eru tengd skráningu upplýsinga í einkaleyfaskrá. Til dæmis má ætíð beina málsókn vegna einkaleyfis að þeim sem er skráður einkaleyfishafi í einkaleyfaskrá, sbr. 4. mgr. 44. gr. frv. Einnig hefur skráður leyfishafi ákveðin réttindi, sbr. 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 63. gr. frv. Að öðru leyti er einkaleyfaskráin án réttaráhrifa og færsla í hana er aðallega af skipulagsástæðum. Gildi einkaleyfis er ekki bundið við að allar upplýsingar um það séu skráðar í einkaleyfaskrána.
    Af ákvæðum 3. gr. gildandi einkaleyfalaga leiðir að einkaleyfi er unnt að veðsetja. Sama gildir samkvæmt frumvarpi þessu. Um slíka veðsetningu gilda reglur um sjálfsvörsluveð í lausafé. Tryggingarráðstöfunin felst í þinglýsingu og yrði veðsetningin færð í lausafjárbók á blað réttsala, sbr. 4. tölul. 1. mgr. og 4. mgr. 8. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Skráning í einkaleyfaskrá á veði í einkaleyfi veitir veðinu ekki réttarvernd, heldur móttaka veðbréfs til þinglýsingar hjá þinglýsingardómara. Af þeim sökum er ólíklegt að allir veðhafar hlutist til um skráningu í einkaleyfaskrá. Þannig getur skapast misræmi milli einkaleyfaskrár og þinglýsingarbókar og þykir því rétt að miða hér við að skráningin skuli eingöngu eiga sér stað í þinglýsingarbók en ekki jafnframt í einkaleyfaskrá.
    Um flokkunarkerfi það, sem notað yrði í einkaleyfaskránni ef frumvarp þetta verður að lögum, yrðu sett nánari ákvæði í reglugerð.

Um III. kafla.


    Eins og fram kemur í almennum hluta greinargerðarinnar er stefnt að því að samhliða gildistöku nýrra einkaleyfalaga verði samstarfssáttmálinn um einkaleyfi, sem undirritaður var í Washington 19. júní 1970 (Patent Cooperation Treaty eða PCT), fullgiltur. Með ákvæðum 28.–38. gr. frv. er kominn lagagrundvöllur að því að hægt sé að framfylgja ákvæðum sáttmálans hér á landi. Það er forsenda að aðild Íslands að sáttmálanum og fullgildingu hans.

Um 28. gr.


    Í 1. mgr. er vísað í samstarfssáttmálann um einkaleyfi sem gerður var í Washington 19. júní 1970 (PCT) varðandi skilgreiningu á því hvað sé alþjóðleg umsókn. Í honum segir að alþjóðleg umsókn sé umsókn sem lögð sé inn í samræmi við sáttmálann, sbr. PCT, gr. 2(vii).
    Í 2. mgr. er fjallað um hvar hægt sé að leggja inn alþjóðlegar umsóknir. Viðtökuyfirvöld geta verið einkaleyfayfirvöld aðildarlanda sáttmálans eða þær alþjóðastofnanir sem hafa heimild til að veita slíkum umsóknum viðtöku, sbr. PCT, gr. 2 og reglu 19. Eingöngu ríkisborgarar eða aðilar, sem búsettir eru í aðildarlandi sáttmálans eða reka þar fyrirtæki, mega leggja inn alþjóðlega umsókn, sbr. PCT, gr. 9. Aðilar, sem rétt hafa til að leggja inn alþjóðlega umsókn, geta valið um hvort þeir leggja umsókn inn í því landi sem þeir eru búsettir í eða þar sem þeir njóta ríkisborgararéttar ef bæði ríkin eru aðilar að PCT, sbr. PCT, reglu 19. Á sama hátt getur alþjóðleg einkaleyfisumsókn eingöngu náð til aðildarríkja PCT, sbr. PCT, gr. 4.
    Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir, sem tækju til Íslands, yrðu flestar lagðar inn erlendis. Ekki er þörf sérstakra lagaákvæða um það hér á landi. Hins vegar verður íslenskum ríkisborgurum eða aðilum, sem eru búsettir hér eða reka fyrirtæki hérlendis, að vera kleift að leggja inn alþjóðlegar umsóknir hér á landi í samræmi við PCT, reglu 19. Því er kveðið á um það í 2. málsl. 2. mgr. að hægt sé að leggja inn alþjóðlega umsókn hjá einkaleyfayfirvöldum hér á landi. Það verður þó ekki mögulegt fyrr en samstarfssáttmálinn hefur verið fullgiltur. Einnig þarf að koma til sérstakt samkomulag um framkvæmd hans hér á landi við WlPO sem hefur yfirumsjón með sáttmálanum og framkvæmd hans.
    Nánari ákvæði verða sett í reglugerð um hlutverk einkaleyfayfirvalda sem móttökuaðila alþjóðlegra einkaleyfisumsókna í samræmi við ákvæði PCT-sáttmálans og PCT-reglugerðar. Alþjóðleg einkaleyfisumsókn fær eftirfarandi meðferð hjá einkaleyfayfirvöldum (viðtökuyfirvöldum):
     1)      Umsókn ásamt greiðslu tilskilins umsóknargjalds er móttekin. Umsóknargjald er þrenns konar: alþjóðlegt umsóknargjald, sbr. PCT, reglu 15, gjald fyrir nýnæmisrannsókn, sbr. PCT, reglu 16, og að lokum gjald fyrir móttöku og meðferð umsóknarinnar af hálfu einkaleyfayfirvalda hér á landi, sbr. PCT, reglu 14. Síðastgreinda gjaldið geta einkaleyfayfirvöld hér á landi ákveðið sjálf. Alþjóðlega umsóknargjaldið rennur til WIPO sem einnig ákveður upphæð þess, en rannsóknargjaldið er ákveðið af og rennur til þeirrar stofnunar sem rannsakar nýnæmi viðkomandi umsóknar.
     2)      Alþjóðleg umsókn er yfirfarin með tilliti til þess hvort hún fullnægi skilyrðum samstarfssáttmálans um form og efni, sbr. PCT, gr. 11(1) og 14(1)(a).
     3)      Fullnægi umsóknin ekki skilyrðum sáttmálans um gjöld, form og efni ber yfirvöldum að beina þeim tilmælum til umsækjanda, að hann bæti úr því innan tilskilins frests. sbr. PCT, gr. 11(2)(a), 14(1)(b) og reglu 20(6).
4)     Ef umsóknin fullnægir skilyrðum sáttmálans, e.t.v. eftir að hún hefur verið lagfærð, fær hún alþjóðlegan umsóknardag, sbr. PCT, gr. 11(1). 11(2)(b) og reglu 20(3)–(5). Skilyrði, sem umsókn þarf að uppfylla til að fá úthlutað alþjóðlegum umsóknardegi, eru í PCT, gr. 11(1): í fyrsta lagi að umsækjandi hafi heimild til þess að leggja inn alþjóðlega umsókn hjá viðkomandi móttökuyfirvaldi; í öðru lagi að umsóknin sé á því tungumáli sem krafist er; í þriðja lagi að umsóknin hafi a.m.k. að geyma eftirfarandi:
                  a)      tilvísun til þess að um alþjóðlega einkaleyfisumsókn sé að ræða,
                  b)      a.m.k. eitt aðildarríki samstarfssáttmálans sé tilgreint í umsókninni,
                  c)      nafn umsækjanda,
                  d)      eitthvað sem lítur út fyrir að vera lýsing uppfinningar,
                  e)      eitthvað sem lítur út fyrir að vera einkaleyfiskrafa.
     5)      Eftir að alþjóðaumsókn hefur verið úthlutað alþjóðlegum umsóknardegi er eintak af henni ásamt tilheyrandi gögnum sent til þess aðila sem sér um nýnæmisrannsókn og annað til WIPO. Frekari málsmeðferð fer fram hjá báðum þessum aðilum í samræmi við PCT, gr. 12 og reglur 22–25.
    Ákvæði 28. gr. eiga við um allar alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir, jafnvel þótt þær taki ekki til Íslands. Hins vegar eiga ákvæði 29.–38. gr. aðeins við um þær alþjóðlegu einkaleyfisumsóknir sem taka til Íslands, þó svo að þær séu lagðar inn hjá einkaleyfayfirvöldum í einhverju öðru landi.

Um 29. gr.


    Hér eru ákvæði um réttaráhrif alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar hér á landi. Í greininni, sem byggð er á PCT, gr. 11, kemur fram að alþjóðleg einkaleyfisumsókn, sem fengið hefur ákveðinn alþjóðlegan umsóknardag, hafi frá þeim degi sömu réttaráhrif og innlend einkaleyfisumsókn. Þessi regla er þó ekki án undantekninga. Þau réttaráhrif umsóknar, sem mestu máli skipta, eru nýnæmisáhrif hennar gagnvart síðar innlögðum umsóknum, sbr. 2. gr. frv. og bráðabirgðavernd sú sem umsóknum er veitt skv. 60. gr. frv. Sérreglu um nýnæmisáhrif alþjóðlegra umsókna er að finna í 2. málsl. greinarinnar. Hún felst í því að óbirt alþjóðleg umsókn telst ekki nýnæmishindrandi á sama hátt og óbirt innlend umsókn, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. frv., nema hún hafi verið yfirfærð í samræmi við 31. gr. frv. Bráðabirgðavernd skv. 60. gr. hefst eftir að umsókn er orðin almenningi aðgengileg. Alþjóðleg umsókn telst ekki aðgengileg almenningi fyrr en hún hefur verið þýdd á íslensku, sbr. 3. mgr. 33. gr. frv., og nýtur því ekki bráðabirgðaverndar fyrr en það hefur verið gert, sbr. 4. mgr. 33. gr. frv.

Um 30. gr.


    Greinin er byggð á 24. gr. samstarfssáttmálans. Hún fjallar um það hvenær alþjóðleg umsókn telst hafa verið dregin til baka að því er Ísland varðar. Ákvæðið tekur til afturköllunar á alþjóðlegri umsókn á tímabilinu frá því að hún var lögð inn hjá viðtökuyfirvöldum og þar til yfirvöld í löndum tilgreindum í umsókninni hafa tekið við henni. Eftir það eiga ákvæði 33.–38. gr. frv. við.
    Ef alþjóðleg einkaleyfisumsókn telst afturkölluð vegna tilvika sem nefnd eru í (i) og (ii) lið 1. mgr. 24. gr. PCT, þá falla niður þau réttaráhrif, sem 29. gr. frv. veitir henni, á sama hátt og réttaráhrif innlendrar einkaleyfisumsóknar sem telst afturkölluð. Ekki þótti rétt að tilgreina í lagatextanum sjálfum öll þau tilvik sem leiða til þess að alþjóðleg umsókn teljist afturkölluð, heldur látið nægja að vísa í 24. gr. PCT. Tilfelli, sem þar eru nefnd, eru í fyrsta lagi þegar umsækjandi dregur alþjóðlega umsókn sína til baka í heild eða eingöngu tilgreiningu sína á Íslandi. Í öðru lagi eru þau tilvik þegar umsókn er talin hafa verið dregin til baka vegna ákvæða samstarfssáttmálans. Þar getur verið um að ræða:
     1)      að umsókn hafi ekki borist innan tilskilins frests til WIPO, sbr. gr. 12(3);
     2)      að umsækjandi hafi ekki orðið við tilmælum viðtökuyfirvalda um að lagfæra umsóknina, sbr. gr. 14(1)(b);
     3)      að umsóknin hafi einhvern tíma verið ófullkomin í veigamiklum atriðum, sbr. gr. 14(4);
     4)      að umsækjandi vanræki að greiða tilskilin gjöld á réttum tíma, sbr. gr. 14(3)(a).
     5)      Einnig telst tilgreining á Íslandi afturkölluð ef umsækjandi hefur ekki greitt tilgreiningargjald að fullu, sbr. gr. 14(3)(b).

Um 31. gr.


    Greinin fjallar um hvenær og hvernig yfirfæra skuli alþjóðlega umsókn til þess að hægt sé að öðlast íslenskt einkaleyfi á grundvelli hennar. Ákvæðin eru byggð á PCT, gr. 22, 24(1)(iii) og gr. 39. Ef skilyrðum greinarinnar er fullnægt öðlast umsóknin gildi hér á landi frá alþjóðlegum umsóknardegi að telja í samræmi við ákvæði 29. gr. frv.
    Ef yfirfæra á umsókn til Íslands þarf skv. 1. mgr. að greiða tilskilin gjöld til einkaleyfayfirvalda og afhenda íslenska þýðingu af umsókninni eða afrit af henni ef hún hefur verið lögð inn á íslensku innan 20 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi umsóknar, sbr. PCT, gr. 22(l ). Nánari ákvæði um hvaða hluta alþjóðlegrar umsóknar þarf að þýða verða sett í reglugerð. Þýðing eða afrit umsóknar þarf að vera í samræmi við upphaflega umsókn ásamt áorðnum breytingum, en heimilt er að breyta alþjóðlegri umsókn að ákveðnu marki, sbr. PCT, gr. 19(1) og 34(2).
    Í 2. mgr. er sett sérregla um lengri frest til að uppfylla skilyrði 1. mgr. Þessi sérregla á við ef umsækjandi æskir þess að alþjóðleg forathugun verði gerð á einkaleyfishæfi alþjóðlegrar umsóknar áður en hún er yfirfærð til tilgreindra landa. Um slíka forathugun er fjallað í II. kafla PCT (gr. 31–42). Allar alþjóðlegar umsóknir skulu rannsakaðar að því er varðar formskilyrði og nýnæmi áður en þær eru yfirfærðar til tilgreindra landa. Alþjóðleg forathugun verður hins vegar ekki gerð nema að beiðni umsækjanda. Slíka beiðni er þó því aðeins hægt að setja fram að heimaland umsækjanda hafi fullgilt II. kafla PCT um alþjóðlega forathugun, en heimilt er að gera fyrirvara um fullgildingu hans, sbr. PCT, gr. 64(l)(a). Einnig gildir slík forathugun eingöngu fyrir aðildarlönd sem hafa fullgilt kaflann. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir að settur verði fyrirvari af Íslands hálfu varðandi fullgildingu kaflans um alþjóðlega forathugun eins og nánar er rætt um í almennum athugasemdum við frumvarpið. Aðilar búsettir á Íslandi geta því sett fram beiðni um alþjóðlega forathugun þegar samstarfssáttmálinn tekur gildi hér á landi enda hefur forathugunin þá gildi hér. Ef umsækjandi hefur beiðst alþjóðlegrar forathugunar og lýsir því yfir innan 19 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi að hann hyggist nota niðurstöðurnar við umsókn um einkaleyfi á Íslandi, þá lengist frestur sá sem hann hefur til yfirfærslu umsóknar til Íslands um 10 mánuði. Þessi regla er byggð á PCT, gr. 39.
    Í 3. mgr. er kveðið á um viðbótarfrest til að leggja fram þýðingu eða afrit af alþjóðlegri umsókn. Skilyrði fyrir því, að hægt sé að nýta þennan viðbótarfrest, er að tilskilin gjöld vegna yfirfærslu umsóknarinnar hafi verið greidd innan þess frests sem settur er í 1. og 2. mgr. Jafnframt þarf að greiða viðbótargjald fyrir lok viðbótarfrestsins. Rökin fyrir þessari sérreglu eru þau að umsækjandi eða umboðsmaður hans þarf oft lengri tíma til að skila inn þýðingu á alþjóðaumsókn. Nauðsynlegt er að þýðingin sé mjög nákvæm. Þýðing umsóknar tekur óhjákvæmilega sinn tíma því yfirleitt er efni umsókna mjög tæknilegt. Af samræmingarástæðum er sami viðbótarfrestur veittur til að skila inn afriti af alþjóðlegri umsókn sem upphaflega var lögð inn á íslensku. Viðbótarfrestur er ekki veittur nema umsækjandi hafi greitt tilskilin gjöld vegna yfirfærslu innan almenna frestsins. Með því er leitast við að tryggja hagsmuni almennings af því að fá sem fyrst upplýsingu um hvort alþjóðleg umsókn verði yfirfærð eða ekki.
    Í 4. mgr. er tilgreint hvaða afleiðingar það hefur ef ofangreindir frestir vegna yfirfærslu umsóknar eru ekki virtir. Umsóknin telst þá afturkölluð að því er varðar Ísland. Íslensk einkaleyfayfirvöld skulu þá afskrifa umsóknina án þess að gera umsækjanda viðvart. Reglan er byggð á PCT, gr. 24(1)(iii) og 39(2). Ákvæði 72. og 73. gr. frv. um endurveitingu réttinda geta komið til vegna réttindamissis skv. þessari grein ef þar tilgreind skilyrði eru uppfyllt.

Um 32. gr.


    Ákvæði greinarinnar taka til þess þegar umsækjandi dregur sjálfur til baka beiðni um alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi alþjóðlegrar umsóknar eða dregur til baka yfirlýsingu um að hann ætli að nota niðurstöður hennar við umsókn um einkaleyfi á Íslandi. Greinin er byggð á PCT, gr. 37(4).
    Meginreglan varðandi réttaráhrif slíkrar afturköllunar er að umsóknin í heild telst afturkölluð að því er Ísland varðar. Þó er undantekning gerð frá því ef afturköllunin á sér stað innan þess frests sem umsækjandi hefur til að yfirfæra umsóknina, sbr. 1. mgr. 31. gr. frv. Þá hefur umsækjandi möguleika á að koma í veg fyrir að umsóknin teljist afturkölluð með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að yfirfæra hana innan yfirfærslufrestsins skv. 1. mgr. 31. gr. frv., sbr. 3. mgr. sömu grein.

Um 33. gr.


    Hér eru ákvæði um meðferð á alþjóðlegum umsóknum sem hafa verið yfirfærðar í samræmi við 31. gr. frv. Rétt þykir að meðferð þeirra sé, að svo miklu leyti sem hægt er, hin sama og meðferð á innlendum umsóknum. Því er sett sú meginregla í 1. málsl. 1. mgr. að við meðferð alþjóðlegra umsókna skuli farið eftir ákvæðum II. kafla frv. Þörf er þó á ýmsum sérreglum um meðferð alþjóðlegra umsókna. Þær sérreglur eru settar í þessari grein svo og 34.–37. gr. frv.
    Fyrsta sérreglan er sett í 2. málsl. 1. mgr. Þar er kveðið á um að ekki megi taka alþjóðlega umsókn til meðferðar fyrr en liðnir eru frestir skv. 1. eða 2. mgr. 31. gr. nema til komi beiðni umsækjanda. Þetta ákvæði er byggt á PCT, gr. 23 og 40.
    2. mgr. fjallar um undantekningu frá skilyrðum 12. gr. frv. um umboðsmann. Ekki má krefjast þess að umsækjendur búsettir erlendis, sem sækja um einkaleyfi hér á landi í alþjóðlegri umsókn, tilnefni umboðsmann fyrr en einkaleyfisyfirvöld hér á landi geta tekið umsóknina til meðferðar. Þessi regla er byggð á PCT, gr. 27(7).
    Allar alþjóðlegar umsóknir eru birtar af WIPO þegar liðnir eru 18 mánuðir frá forgangsréttardegi, sbr. PCT, gr. 21. Innlendar umsóknir verða almenningi aðgengilegar innan sama tíma, sbr. 22. gr. frv. Í 3. mgr. er hins vegar kveðið á um að alþjóðlegar umsóknir teljist ekki almenningi aðgengilegar fyrr en umsækjandi hefur lagt inn þýðingu af umsókninni eða afrit af henni. Ekki þarf að leggja fram þýðingu eða afrit af alþjóðlegri umsókn fyrr en 20 eða 30 mánuðir eru liðnir frá forgangsréttardegi, sbr. 1. og 2. mgr. 31. gr. frv. Því getur alþjóðleg umsókn orðið seinna aðgengileg almenningi en innlend umsókn. Í þessari málsgrein er fylgt fordæmi norskra einkaleyfalaga og tekið fram að öll ákvæði 22. gr. komi til framkvæmda þegar þýðing eða afrit af alþjóðlegri umsókn hefur verið lagt inn. Í dönskum og sænskum lögum er hins vegar eingöngu minnst á 2. og 3. mgr. 22. gr. Skýrara þykir að taka fram að öll ákvæði 22. gr. frv. falli hér undir, enda liggur í eðli máls að þau geri það hvort sem það er tilgreint í lagatextanum eða ekki.
    Ýmis réttaráhrif eru tengd því að umsókn verði aðgengileg almenningi. 4. mgr. kveður á um að við framkvæmd ákvæða 48. gr. frv. um nauðungarleyfi til handa þeim sem hagnýtti uppfinningu þegar umsókn um hana er gerð almenningi aðgengileg, ákvæða 56. gr. frv. um upplýsingaskyldu um einkaleyfi og ákvæða 60. gr. frv. um bráðabirgðavernd umsókna, sem gerðar hafa verið almenningi aðgengilegar, skuli litið svo á að alþjóðleg umsókn hafi orðið almenningi aðgengileg þegar skilyrði 3. mgr. eru uppfyllt.
    5. mgr. er byggð á PCT, gr. 27(l). Þar segir að í lögum einstakra aðildarlanda megi ekki setja strangari reglur um innihald og form alþjóðlegra umsókna en eru í PCT. Aðildarlönd verða því að taka alþjóðlega umsókn fullgilda ef hún uppfyllir skilyrði PCT-sáttmálans hvað varðar form og innihald, jafnvel þó lög þess lands hafi að geyma strangari skilyrði um form og innihald innlendra einkaleyfisumsókna. Hins vegar geta einkaleyfayfirvöld tekið alþjóðlega umsókn gilda þótt hún uppfylli ekki skilyrði PCT-sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði einkaleyfalaga viðkomandi lands, nema umsækjandi krefjist þess að skilyrði PCT-sáttmálans verði látin ganga fyrir, sbr. PCT, gr. 27(4). Vert er að taka fram að þetta ákvæði tekur ekki til efnislegra skilyrða fyrir veitingu einkaleyfis. Hvert einstakt aðildarland leggur að öðru leyti mat á hvort viðkomandi uppfinning uppfylli skilyrði um nýnæmi og einkaleyfishæfi.

Um 34. gr.


    Í greininni er tekið fram að alþjóðleg einkaleyfisumsókn verði ekki samþykkt til framlagningar eða henni hafnað fyrr en að ákveðnum fresti liðnum. Með þessu er umsækjanda tryggður sá réttur sem honum ber samkvæmt PCT-sáttmálanum til að gera breytingar á umsókninni innan ákveðins frests áður en tekin er endanleg ákvörðun um hana, sbr. PCT, gr. 28 og 40. Lengd þessa frests er tilgreind í PCT-reglugerðinni, sbr. reglu 52 og 78. Í samræmi við það er hér lagt til að þessi frestur verði einnig ákveðinn í reglugerð þar sem hægara er þá að breyta honum ef PCT-reglugerðinni yrði breytt.

Um 35. gr.


    Í greininni er kveðið á um hvenær alþjóðlega einkaleyfisumsókn megi í fyrsta lagi leggja fram eða gera opinbera í prentuðu máli. Ákvæðið er byggt á PCT, gr. 30(4). Um það hvenær alþjóðleg umsókn verði aðgengileg almenningi er fjallað í 3. mgr. 33. gr. frv. Ákvæði þessarar greinar hindra ekki að alþjóðleg umsókn verði almenningi aðgengileg skv. reglum 3. mgr. 33. gr. frv. ef það hefur ekki í för með sér að umsóknin verði gerð opinber í prentuðu máli.

Um 36. gr.


    Hér eru settar reglur um meðferð alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar sem hefur verið yfirfærð til Íslands og hluti umsóknar hefur ekki verið rannsakaður með tilliti til nýnæmis eða einkaleyfishæfis. 37. gr. frv. er viðbót við 36. gr. frv. og eru þær báðar byggðar á PCT, gr. 17 (3) og 34 (3).
    Það er skilyrði samkvæmt PCT-sáttmálanum, sem og frumvarpi þessu, sbr. 10. gr. að umsókn megi ekki varða tvær eða fleiri óskyldar uppfinningar. Ef því skilyrði er ekki fullnægt í alþjóðlegri umsókn ber umsækjanda að greiða viðbótargjald fyrir rannsókn á þeim hluta hennar sem ekki telst „aðaluppfinningin“. Gjaldið greiðist til þeirrar stofnunar sem gerir alþjóðanýnæmisrannsókn eða forathugun á einkaleyfishæfi uppfinningarinnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að þrátt fyrir að umsækjandi hafi ekki greitt viðbótargjald innan tilskilins frests eigi hann möguleika á að yfirfæra til Íslands þann hluta umsóknarinnar sem ekki hefur verið rannsakaður. Einkaleyfayfirvöldum hér ber í slíkum tilvikum að athuga hvort kröfum um sjálfstæði uppfinningar sé fullnægt. Komist þau að sömu niðurstöðu og alþjóðlega rannsóknastofnunin, þ.e. að umsókn taki til tveggja eða fleiri óskyldra uppfinninga, skal líta svo á að sá hluti umsóknar, sem ekki hefur verið rannsakaður, sé afturkallaður nema umsækjandi greiði viðbótargjald innan tveggja mánaða frá því að einkaleyfayfirvöld tilkynna honum um þessa niðurstöðu sína. Komist einkaleyfayfirvöld hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu, þ.e. að skilyrði um skyldleika uppfinninga sé uppfyllt, skal taka umsóknina í heild til frekari meðferðar.
    Forsenda tillögu að þessu ákvæði og 37. gr. frv. er að ákvæði íslenskra einkaleyfalaga og reglugerða séu sambærileg eða hagstæðari um mat á skyldleika uppfinninga í þessu samhengi. Í 2. mgr. eru ákvæði um áfrýjun úrskurða einkaleyfayfirvalda í þessum efnum. Um slíka áfrýjun gilda reglur 1.–3. mgr. 25. gr. frv. Í 3. mgr. er síðan kveðið á um hvenær frestur til greiðslu viðbótargjalds skv. 2. málsl. 1. mgr. hefst ef úrskurður einkaleyfayfirvalda er staðfestur.

Um 37. gr.


    Telji rannsóknayfirvöld sem sjá um alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi uppfinninga að alþjóðleg umsókn taki til tveggja eða fleiri óskyldra uppfinninga ber þeim samkvæmt PCT, gr. 34(3)(a), að beina þeim tilmælum til umsækjanda að hann takmarki kröfurnar eða greiði tilskilið viðbótargjald. Um síðari kostinn er fjallað í 36. gr. frv. Takmarki umsækjandi hins vegar kröfurnar skal litið svo á við yfirfærslu umsóknar að aðrir hlutar hennar hafi verið afturkallaðir að því er varðar Ísland nema umsækjandi greiði tilskilið gjald. Ef umsækjandi greiðir þetta gjald til einkaleyfayfirvalda getur hann einnig yfirfært þann hluta umsóknarinnar sem hann takmarkaði gagnvart alþjóðlegum rannsóknayfirvöldum.

Um 38. gr.


    Hér er fjallað um viss tilvik þar sem íslenskum einkaleyfayfirvöldum ber skylda til að úrskurða um ákvarðanir móttökuyfirvalda eða alþjóðaskrifstofu WIPO. Greinin er byggð á ákvæðum PCT, gr. 25 og reglu 51. Umsækjandi hefur skv. PCT, gr. 25, rétt til að bera úrskurð viðtökuyfirvalda um að veita umsókn ekki alþjóðlegan umsóknardag eða telja umsókn í heild eða tilgreiningu einstaks lands afturkallaða undir einkaleyfayfirvöld í tilgreindu landi. Þetta er áréttað í 1. mgr. greinarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða skilyrði umsækjandi þurfi að uppfylla til að einkaleyfayfirvöld framkvæmi það endurmat sem hér um ræðir. Hann þarf að bera upp beiðni um endurmat við alþjóðaskrifstofu WIPO innan ákveðins frests. Að fenginni slíkri beiðni skal alþjóðaskrifstofan senda einkaleyfayfirvöldum öll skjöl í málinu, sbr. PCT, gr. 25(2). Umsækjandi skal jafnframt innan sama frests leggja fram þýðingu á umsókninni til einkaleyfayfirvalda og greiða tilskilið umsóknargjald. Samkvæmt núgildandi PCT, reglu 51, er fresturinn tveir mánuðir frá því að umsækjanda var send tilkynning um viðkomandi úrskurð. Með því að lögbinda ekki frestinn heldur kveða á um hann í reglugerð, eins og hér er lagt til, yrði auðveldara að breyta honum síðar meir til samræmis við hugsanlegar breytingar á PCT-reglum um þetta efni.
    Í 3. mgr. er því lýst hvernig umsókn skuli meðhöndluð ef einkaleyfayfirvöld hnekkja úrskurði viðtökuyfirvalda eða alþjóðaskrifstofunnar. Tilkynna skal alþjóðaskrifstofunni niðurstöðu einkaleyfayfirvalda, sbr. PCT, reglu 51(4). Meðferð umsóknarinnar fer síðan eftir ákvæðum II. kafla frv. Ef umsókninni hefur ekki verið ákvarðaður alþjóðlegur umsóknardagur skal telja að hún hafi verið lögð inn þann dag sem einkaleyfayfirvöld telja að hefði átt að vera alþjóðlegur umsóknardagur. Á sama hátt og aðrar alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir yrði umsókn, sem hér fellur undir, samþykkt varðandi form og innihald ef hún telst uppfylla skilyrði PCT-sáttmálans að þessu leyti.
    4. mgr. kveður á um að umsóknir, sem fá meðferð skv. 3. mgr., verði að öllu leyti nýnæmishindrandi á sama hátt og innlendar umsóknir ef þær verða almenningi aðgengilegar skv. 22. gr. frv. Ef þetta væri ekki sérstaklega tekið fram, þá leiddi af ákvæðum 29. gr. frv. að alþjóðlegar umsóknir, sem ekki hefði verið unnt að yfirfæra skv. 31. gr. frv. vegna úrskurðar móttökuyfirvalda eða alþjóðaskrifstofunnar, yrðu ekki nýnæmishindrandi fyrr en þær hefðu verið lagðar fram. Óbirtar umsóknir teldust þannig ekki nýnæmishindrandi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. frv. Þetta þykir ósanngjarnt ef einkaleyfayfirvöld telja upphaflegan úrskurð hafa verið rangan.

Um IV. kafla.


Um 39. gr.


    Í greininni er ákvæði um þýðingu einkaleyfiskrafna við ákvörðun á umfangi einkaleyfisverndar. Samsvarandi ákvæði er ekki í núgildandi einkaleyfalögum, en framkvæmd hefur þrátt fyrir það verið í samræmi við ákvæðið.
    Umfang einkaleyfisverndar má einnig nefna verndarsvið einkaleyfis. Það er það svið sem hægt er að beita einkaréttinum á, þ.e. einkaleyfishafi getur komið í veg fyrir að aðrir hagnýti í atvinnuskyni tæki, aðferð eða afurð sem fellur innan verndarsviðs einkaleyfis, sbr. 3. gr. frv. Það getur hins vegar oft verið vandasamt að ákveða hvað fellur innan og hvað utan verndarsviðs einkaleyfis. Matið er auðvelt ef um nákvæmlega eins hluti er að ræða. Örugg og skynsamleg réttarvernd einkaleyfa verður hins vegar að tryggja að annað og meira en nákvæmlega sams konar hlutir sé verndað. Varði uppfinning t.d. vélbúnað verða tæknileg verkan, áhrif eða notkun að skera úr um hvort svipaður vélbúnaður telst brot á einkaleyfarétti eða ekki, en ekki það hvort búnaðurinn líkist eða sé nákvæmlega eins í útliti og hinn verndaði vélbúnaður. Annars væri of auðvelt fyrir samkeppnisaðila að gera smávægilegar breytingar á útliti eða aðferð og þannig hagnýta sér uppfinningar annarra. Samtímis þarf þó að hafa í huga að of umfangsmikil vernd getur heft um of starfsemi samkeppnisaðila.
    Greininni er ætlað að vera til leiðbeiningar við mat á því hvað sé verndað með einkaleyfi. Samkvæmt henni er það hlutverk einkaleyfiskrafna að afmarka svo ljóst sem verða má hvað sé verndað. Vernd getur ekki náð til neins þess sem ekki verður leitt af einkaleyfiskröfum. Við túlkun á því hvað felst í einkaleyfiskröfum má leita til lýsingar. Með þessu er lögð áhersla á það að enda þótt einkaleyfiskröfur eigi að fela í sér tæmandi upptalningu á öllum aðalatriðum uppfinningar geti þær aldrei staðið einar sér; þær verði ævinlega að lesa í samhengi við lýsingu á uppfinningunni. Teikningar, sem fylgja umsókn, teljast til lýsingar í þessu samhengi.
    Framkvæmd samsvarandi ákvæðis hjá öðrum norrænum þjóðum er sú að byggt er á heildarmati á kröfum og öðrum einkaleyfisgögnum. Það felur í sér að við túlkun á því, hvað kröfurnar fela í sér, er farið nákvæmlega yfir öll önnur gögn einkaleyfis, þ.e. lýsingu og teikningar. Við mat á verndarsviði einkaleyfa hér á landi verður væntanlega höfð hliðsjón af norrænni framkvæmd.

Um 40. gr.


    Hér er fjallað um gildistíma einkaleyfa og greiðslu árgjalda til að viðhalda gildi þeirra. Um er að ræða töluverðar breytingar frá núgildandi lögum og reglum. Lagt er til að gildistími einkaleyfa verði lengdur úr 15 árum í 20 ár. Á móti kemur að upphaf gildistíma skv. frumvarpinu er umsóknardagur en skv. 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga hefst gildistíminn þann dag sem einkaleyfi er veitt. Breytingin hefur í för með sér að gildistími einkaleyfa lengist ef málsmeðferð umsókna er styttri en fimm ár. Hins vegar styttist gildistíminn í þeim tilvikum sem málsmeðferð dregst lengur en fimm ár. Slíkt ætti eingöngu að gerast í undantekningartilvikum ef frumvarp þetta verður að lögum. Einnig er lagt til að árgjald af einkaleyfi verði greitt á hverju ári en skv. núgildandi reglugerð um afgreiðslu einkaleyfa nr. 59/1966, sbr. 8. gr., skulu gjöld af einkaleyfum greidd fyrir fram fyrir fimm ár í senn.
    Upphaf gildistímans er frá umsóknardegi umsóknar hér á landi. Umsóknir, sem eru lagðar inn með forgangsrétti í samræmi við 6. gr. frv., hafa því lengri verndartíma sem forgangsréttartímanum nemur. Ef umsóknardagur hefur verið færður til skv. 14. gr. frv. reiknast gildistíminn frá þeim degi. Ef árgjald er ekki greitt fyrir hvert gjaldár fellur einkaleyfið úr gildi. Gjaldár er skilgreint í 5. mgr. 8. gr. frv. Þessi breyting gefur einkaleyfishöfum tilefni til að taka reglulega til athugunar hvort rétt sé að viðhalda einkaleyfi. Þannig er spornað við því að óvirkum einkaleyfum sé haldið í gildi að ástæðulausu. Ekki er hægt að framlengja gildistíma einkaleyfis.
    Um árgjald af umsóknum er fjallað í 5. mgr. 8. gr. frv. Ef árgjald vegna umsóknar er ekki greitt verður umsókn afskrifuð, sbr. 15. gr. frv. Árgjöld fyrir umsóknir gjaldfalla ekki fyrr en í upphafi þriðja gjaldárs, sbr. 1. mgr. 41. gr. frv. Því getur komið fyrir að einkaleyfi verði veitt áður en árgjöld fyrir umsóknina gjaldfalla. Í 3. málsl. er því, að norskri fyrirmynd, lagt til að í þeim tilfellum gjaldfalli viðkomandi árgjöld um leið og fyrsta árgjald af veittu einkaleyfi.

V. kafli.


Um 41. gr.


    Hér er að finna öll ákvæði frumvarpsins um gjalddaga árgjalda. Samsvarandi ákvæði eru ekki í núgildandi lögum.
    Meginreglan um gjalddaga árgjalda kemur fram í 1. málsl. 1. mgr. Þar segir að árgjald falli í gjalddaga síðasta dag fyrsta almanaksmánaðar í gjaldári. Gjaldár er skilgreint í 5. mgr. 8. gr. frv. Það verður því eingöngu um að ræða 12 gjalddaga á ári, þ.e. síðasta dag hvers mánaðar, fyrir árgjöld allra umsókna og veittra einkaleyfa. Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér mikið hagræði fyrir alla aðila. Í 2. málsl. 1. mgr. er að finna fyrstu undantekninguna frá meginreglunni. Þar er lagt til að árgjald fyrir fyrstu tvö árin gjaldfalli ekki fyrr en um leið og árgjald fyrir þriðja gjaldár. Umsækjandi hefur því tvö ár til að taka afstöðu til hvort ástæða sé til að viðhalda umsókninni. Þá ættu yfirleitt að liggja fyrir fyrstu niðurstöður rannsóknar á umsókninni. Ekki er unnt að greiða árgjald fyrr en þremur mánuðum áður en það gjaldfellur, sbr. 3. málsl. 1. mgr. Upphæð árgjalds fer eftir gjaldskrá á gjalddaga en ekki á greiðsludegi.
    Í 4. málsl. 1. mgr. er sérregla að norskri fyrirmynd um gjalddaga árgjalda vegna umsóknar sem hefur verið hafnað en umsækjandi skotið þeim úrskurði til dómstóla. Ef árgjöld eru ekki greidd af umsókn verður hún afskrifuð, sbr. 5. mgr. 8. gr. og 15. gr. frv. Þetta gildir þótt einkaleyfisyfirvöld hafi hafnað umsókninni og umsækjandi áfrýjað þeim úrskurði til áfrýjunarnefndar. Ef áfrýjunarnefnd staðfestir úrskurð einkaleyfayfirvalda hefur umsækjandi möguleika á að bera þá niðurstöðu undir dómstóla, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 64. gr. frv. Það þykir ósanngjarnt að greiðsla árgjalda verði skilyrði fyrir því að hægt sé að sækja málið fyrir dómstólum. Því er lagt til að ef dómstólar hnekkja úrskurði áfrýjunarnefndar um að hafna umsókninni skuli árgjöld, vegna gjaldára sem hefjast frá því að áfrýjunarnefndin kvað upp sinn úrskurð til þess dags sem dómurinn öðlast réttargildi, ekki gjaldfalla fyrr en tveimur mánuðum eftir síðastnefnda daginn. Ef dómstólar staðfesta hins vegar úrskurð áfrýjunarnefndar þarf umsækjandi ekki að greiða nein árgjöld fyrir það tímabil.
    Umsókn, sem verður til við sundurgreiningu eða hlutun, telst, að vissum skilyrðum uppfylltum, hafa verið lögð inn mun fyrr en beiðnin um hlutun eða sundurgreiningu frá upphaflegri umsókn, sbr. 11. gr. frv. Hér getur jafnvel munað nokkrum árum og því varðað töluverða upphæð. Því er, til hagræðis fyrir umsækjanda, lagt til í 1. málsl. 2. mgr. að árgjöld fyrir gjaldár sem hefjast áður en beiðni um sundurgreiningu eða hlutun er lögð inn eða innan tveggja mánaða frá þeim degi, gjaldfalli ekki fyrr en tveimur mánuðum eftir þann dag. Þessi tveggja mánaða frestur reiknast frá þeim degi sem beiðnin var lögð inn og verður ekki framlengdur til síðasta dags viðkomandi mánaðar eins og meginreglan er skv. 1. málsl. 1. mgr. Gjalddagar seinni árgjalda verða síðan framvegis í samræmi við meginregluna.
    Þá er í 2. málsl. 2. mgr. sérregla um gjalddaga árgjalda af alþjóðlegum umsóknum. Hugsanlegt er að alþjóðleg umsókn verði ekki yfirfærð til Íslands fyrr en rúmlega tveimur árum eftir alþjóðlegan umsóknardag, t.d. í því tilviki að fram fari alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi hennar, sbr. 2. mgr. 31. gr. frv. Þá telst ekki sanngjarnt að umsækjandi greiði árgjöld af umsókninni fyrr en hún hefur verið yfirfærð í samræmi við reglur III. kafla frv. Því er lagt til að árgjöld fyrir alþjóðlegar umsóknir gjaldfalli ekki fyrr en tveimur mánuðum eftir að viðkomandi umsókn hefur verið yfirfærð í samræmi við 31. gr. frv. eða tekin til meðferðar skv. 38. gr. frv. Tveggja mánaða fresturinn reiknast frá þeim degi og verður ekki framlengdur til síðasta dags almanaksmánaðar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    3. mgr. er í samræmi við ákvæði Parísarsáttmálans, gr. 5 a. Umræddur sex mánaða frestur á jafnt við um árgjöld af einkaleyfum og árgjöld af umsóknum.

Um 42. gr.


    Í greininni er lagt til að hægt sé að veita efnalitlum umsækjendum eða einkaleyfishöfum gjaldfrest á greiðslu árgjalda skv. 41. gr. Greinin tekur bæði til árgjalda af umsóknum og einkaleyfum. Veita má greiðslufrest til þriggja ára. Hægt er að fá frestinn framlengdan en þó aldrei lengur en í þrjú ár frá veitingu einkaleyfis. Skilyrði þess að greiðslufrestur verði veittur er: Í fyrsta lagi að uppfinningamaður sjálfur sé umsækjandi eða einkaleyfishafi. Í öðru lagi að það teljist verulegum erfiðleikum bundið fyrir viðkomandi að greiða árgjöld. Við mat á greiðsluerfiðleikum yrðu líklega lagðar til grundvallar upplýsingar á síðasta skattframtali viðkomandi, sbr. umfjöllun við 20. gr. frv. Í þriðja lagi þarf beiðni um greiðslufrest að berast í síðasta lagi þann dag sem árgjöldin falla í fyrsta sinn í gjalddaga eða, ef um framlengingu á greiðslufresti er að ræða, þann dag sem upphaflegur frestur rennur út. Bent skal á það að ef umsókn er hafnað á meðan umsækjandi hefur greiðslufrest er ekki hægt að skylda hann til að greiða árgjöldin. Hægt er að áfrýja úrskurði einkaleyfayfirvalda um að hafna beiðni um greiðslufrest, sbr. 67. gr. frv.

Um VI. kafla.


    Einkaleyfishafi getur haft fjárhagslegan ávinning af einkaleyfi sínu á ýmsan hátt. Hann getur sjálfur hagnýtt uppfinninguna og komið í veg fyrir samkeppni með einkaleyfinu. Hann getur selt öðrum einkaleyfið. Einnig getur hann leyft öðrum að nota uppfinninguna gegn ákveðnu gjaldi, þ.e. veitt öðrum nytjaleyfi.
    Í frumvarpi þessu eru ekki neinar reglur um hvernig staðið skuli að framsali einkaleyfis. Um það gilda því almennar reglur fjármunaréttarins eftir því sem við getur átt hverju sinni. Ekki eru heldur neinar reglur um hvernig staðið skuli að nytjaleyfissamningum utan þess sem mælt er fyrir um í 43. og 44. gr. frv. Ástæðan er sú að oft er um svo ólík tilvik að ræða að gera verður nytjaleyfissamning með hliðsjón af hagsmunum aðila hverju sinni. Því þykir ekki fært að setja reglur þar að lútandi í einkaleyfalög sem tryggðu réttarstöðu aðila betur. Um réttarsamband einkaleyfishafa og nytjaleyfishafa verður því að fara eftir samningum þeirra á milli, sbr. þó ákvæði 43. gr. frv.
    Í þessum kafla frumvarpsins eru hins vegar nákvæmar reglur um hvernig nauðungarleyfi verða veitt. Andstætt því sem við á um nytjaleyfi eru nauðungarleyfi heimild öðrum til handa til að hagnýta einkaleyfi án samþykkis einkaleyfishafa. Nauðungarleyfi verða ekki veitt nema samkvæmt lagaheimild og þau eru því í eðli sínu lögfest takmörkun á einkarétti einkaleyfishafa. Um nauðungarleyfi er fjallað í 45.–50. gr. frv.

Um 43. gr.


    Fallið var frá því að setja efnisreglur um nytjaleyfissamninga í frumvarp þetta. Hér er þó gerð undantekning. Flestir nytjaleyfissamningar eru byggðir á sérstöku trúnaðarsambandi aðila og oft er gert ráð fyrir að einkaleyfishafi geti fylgst með hvort nytjaleyfishafi noti leyfið á umsaminn hátt. Því er hér lagt til að nytjaleyfishafi, ef ekki er um annað samið, hafi ekki rétt til að framselja rétt sinn til annarra. Af ákvæðinu leiðir einnig að nytjaleyfishafi getur ekki veitt öðrum „undirleyfi“ að því marki sem slíkt felur í sér framsal leyfisins að hluta. Einnig kemur ákvæðið í veg fyrir að aðilaskipti geti orðið að nytjaleyfi með öðrum hætti en framsali. Þannig verður t.d. ekki gert fjárnám í nytjaleyfi og það yrði ekki meðal verðmæta sem dregin yrðu undir skipti við gjaldþrot leyfishafa.

Um 44. gr.


    Í greininni er fjallað um hvaða upplýsingar megi skrá í einkaleyfaskrá og hver áhrif slík skráning hefur. Í núgildandi lögum er á þessu atriði tekið í 3. mgr. 18. gr. en ekki jafnítarlega og hér er lagt til.
    Aðilaskipti geta orðið við framsal, erfðir, skipti bús eða fullnustuaðgerðir skuldheimtumanna. Öll aðilaskipti að einkaleyfi má skrá í einkaleyfaskrá. Sömuleiðis má skrá öll nytjaleyfi sem veitt eru. Það er ekki skylda að skrá þessi atriði í einkaleyfaskrá og skráningu fylgja engin efnisleg réttaráhrif. Hvor aðili réttarsambandsins sem er getur farið fram á skráningu. Í reglugerð yrði nánar kveðið á um hvernig beiðni um skráningu í einkaleyfaskrá skuli úr garði gerð.
    Samþykki nytjaleyfishafa telst yfirleitt nægileg sönnun fyrir að nytjaleyfi sé fallið niður þannig að það verði afmáð úr einkaleyfaskrá, sbr. 2. mgr. Liggi samþykki ekki fyrir verður að færa sönnur fyrir því með öðrum hætti, t.d. með dómsniðurstöðu.
    Í 4. mgr. 4. gr. er lagt til að ávallt megi beina málssókn, t.d. vegna kröfu um nauðungarleyfi, sbr. 50. gr. frv., eða til ógildingar á einkaleyfi, sbr. 61. og 63. gr. frv., að þeim sem er skráður einkaleyfishafi í einkaleyfaskrá. Skráður einkaleyfishafi getur því ekki andmælt slíkri málshöfðun með vísun til þess að hann hafi framselt einkaleyfið öðrum. Hins vegar verður ekki gagnályktað frá þessari reglu. Aðili, sem sætir málssókn af hendi skráðs einkaleyfishafa vegna ætlaðs brots á einkaleyfarétti, getur borið fram þau mótmæli að skráður einkaleyfishafi sé ekki réttur sóknaraðili vegna þess að hann hafi t.d. framselt einkaleyfi sitt. Réttur sóknaraðili í slíkum málum er sá sem er raunverulegur einkaleyfishafi hvort sem hann er skráður í einkaleyfaskrá eða ekki.

Um 45.–48. gr.


    Í þessum greinum er að finna tillögur um í hvaða tilvikum eigi að vera hægt að veita nauðungarleyfi. Þær eru sniðnar að norrænum reglum um sama efni. Um er að ræða fleiri tilvik en heimil eru skv. 8. gr. núgildandi laga. Hér er lagt til að hægt sé að veita nauðungarleyfi í eftirfarandi tilvikum:
     1)      Ef uppfinning hefur ekki verið notuð á eðlilegan hátt, sbr. 45. gr.
     2)      Ef ekki er unnt að nota einkaleyfi án þess að fara inn á svið annars einkaleyfis, sbr. 1. mgr. 46. gr.
     3)      Ef nauðungarleyfi hefur verið veitt skv. 1. mgr. 46. gr., sbr. 2. mgr. 46. gr.
     4)      Ef um ríka almannahagsmuni er að ræða, sbr. 47. gr.
     5)      Ef um fornotkunarrétt er að ræða. sbr. 48. gr.
    Hér á landi hefur aldrei reynt á núgildandi ákvæði. Einnig hefur mjög sjaldan reynt á ákvæði um nauðungarleyfi hjá frændþjóðum okkar. Þrátt fyrir það eru reglur um nauðungarleyfi mjög þýðingarmiklar sem varnagli við misnotkun á einkarétti þeim sem einkaleyfi veitir.

Um 45. gr.


    Frá upphafi einkaleyfaréttarins hefur notkun einkaleyfisverndaðrar uppfinningar verið skilyrði til að viðhalda einkarétti. Rök fyrir því eru aðallega þau að einkaleyfi eru veitt til þess örva tækniframfarir og iðnþróun. Til að ná þessum markmiðum var talið nauðsynlegt að skylda einkaleyfishafa til að nota uppfinningu sína í viðkomandi landi. Einkaleyfi féllu þannig úr gildi væru þau ekki notuð. Með auknum alþjóðasamskiptum hafa viðhorf breyst og notkun einkaleyfa í hverju landi vegur ekki eins þungt á metum og áður, a.m.k. ekki hjá iðnríkjum. Þrátt fyrir það þykir enn ástæða til að hafa reglur til að koma í veg fyrir að menn öðlist einkaleyfi eingöngu til að útiloka aðra frá að nota uppfinningu. Flest iðnríki hafa því reglur um að einkaleyfi skuli notuð innan landamæra viðkomandi ríkis, en í stað þess að einkaleyfi. sem ekki er notað, falli úr gildi eru sett ákvæði um að hægt sé að veita nauðungarleyfi.
    Í samræmi við þessi sjónarmið er í 1. mgr. lagt til að hægt sé að veita nauðungarleyfi ef einkaleyfð uppfinning hefur ekki verið notuð með eðlilegum hætti hér á landi innan ákveðins tíma. Með notkun uppfinningar í þessu samhengi er átt við framleiðslu þess sem verndað er eða notkun verndaðrar aðferðar í framleiðslu. Skilyrðið um notkun er því ekki uppfyllt með því að flytja inn vörur erlendis frá. Hér á því ekki við sama skilgreining og á orðinu „hagnýting“ einkaleyfis, sbr. t.d. 3. gr. frv. Ekki er nánar kveðið á um það í frumvarpi þessu hvað telst vera eðlileg notkun uppfinningar. Hér skal þó tekið fram að það telst eðlileg notkun ef uppfinning er notuð á grundvelli nytjaleyfis. Að öðru leyti verða dómstólar að skera úr um hvað teljist eðlileg notkun, sbr. 50. gr. frv.
    Nauðungarleyfi verður veitt þeim sem ætlar að nota uppfinningu hér á landi. Á sama hátt og að ofan greinir merkir notkun hér framleiðslu. Nauðungarleyfi verður því ekki veitt ef ætlunin er eingöngu að flytja viðkomandi vöru inn og selja hana síðan.
    Ef gildar ástæður eru fyrir því að einkaleyfi hafi ekki verið notað verður nauðungarleyfi ekki veitt, sbr. niðurlag 1. mgr. Ekki er nánar skilgreint hvað gildar ástæður séu í þessu samhengi. Ætla má að slíkar ástæður teljist vera fyrir hendi ef t.d. notkun uppfinningar er bönnuð með lögum eða ekki er hægt að útvega nauðsynleg hráefni. Hins vegar er ólíklegt að það yrði talin gild ástæða að einkaleyfishafi telji framleiðslu ekki arðbæra. Þetta mat á þó alfarið undir dómstóla, sbr. 50. gr. frv.
    Ákvæði 2. mgr. var upprunalega sett í norræn lög vegna fyrirhugaðs samstarfs um norrænar einkaleyfisumsóknir sem ekki varð af. Hins vegar getur það haft þýðingu í framtíðinni í tengslum við samstarf tiltekinna ríkjaheilda eða markaðssvæða.

Um 46. gr.


    Hér er lagt til að hægt sé að veita nauðungarleyfi ef ekki er unnt að hagnýta einkaleyfisverndaða uppfinningu án þess að fara inn á svið annars einkaleyfis. Samsvarandi ákvæði er í 3. mgr. 8. gr. núgildandi laga. Frumvarpið felur hins vegar í sér rýmkun skilyrða fyrir veitingu nauðungarleyfa í slíkum tilvikum.
    Frumskilyrði fyrir því að bera upp beiðni um að nauðungarleyfi skv. 1. mgr. verði veitt er að ekki sé hægt að hagnýta uppfinningu þá sem beiðnin byggist á án þess að brjóta á einkarétti annars einkaleyfishafa. Sá sem sækir um að fá nauðungarleyfið verður sjálfur að hafa fengið einkaleyfi hér á landi fyrir uppfinningu þeirri sem beiðnin byggist á. Þannig liggur fyrir sönnun að um sjálfstæða uppfinningu sé að ræða gagnvart þeirri sem sótt er um að fá nauðungarleyfi til að hagnýta. Einnig gefur einkaleyfið vissa tryggingu fyrir því að sá sem sækir um nauðungarleyfið er rétthafi þeirrar uppfinningar sem beiðnin byggist á.
    Nauðungarleyfi skv. 1. mgr. verður ekki veitt nema það teljist sanngjarnt vegna mikilvægis uppfinningarinnar sem beiðnin byggist á eða af öðrum sérstökum ástæðum. Líklegt er að uppfinning, sem felur í sér verulega tæknilega framför frá þeirri sem sótt er um að fá að hagnýta með nauðungarleyfi, teljist mikilvæg í þessu samhengi. Þjóðhagslegt mikilvægi uppfinningar, sem beiðni byggist á, skiptir einnig máli; því mikilvægari sem hún er þeim mun líklegra er að nauðungarleyfi til hagnýtingar á hinni verði veitt. Þetta á t.d. við uppfinningar sem varða neysluefni og lyf. Ef um samkeppni er að ræða milli viðkomandi einkaleyfishafa þarf sterkari rök fyrir því að nauðungarleyfi verði veitt. Aðrar sérstakar ástæður, sem mælt gætu með veitingu nauðungarleyfis, geta verið þær að uppfinning, sem beiðni um nauðungarleyfi byggist á, sé á allt öðru sviði en sú sem beiðandi vill fá að hagnýta og því verði ekki um að ræða samkeppni á milli aðila.
    Í 2. mgr. er fjallað um rétt einkaleyfishafa sem þarf að sæta því að nauðungarleyfi skv. 1. mgr. verði gefið út til hagnýtingar á einkaleyfisverndaðri uppfinningu hans. Hann á þá gagnkvæman rétt til að fá nauðungarleyfi fyrir hagnýtingu á hinni uppfinningunni, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Slíkar sérstakar ástæður gætu t.d. verið að svo mikið ósamræmi væri á mikilvægi uppfinninganna að ósanngjarnt þætti að veita nauðungarleyfi á gagnkvæmnisgrundvelli. Nauðungarleyfi, sem yrði veitt skv. 2. mgr., telst alveg sjálfstætt eftir veitingu. Gildistími þess væri t.d. ekki háður gildistíma upphaflegs nauðungarleyfis skv. 1. mgr.
    Verði nauðungarleyfi veitt skv. 1. eða 2. mgr. heimilar það þó eingöngu hagnýtingu að því marki sem nauðsynlegt er til að hagnýta uppfinningu þá sem beiðnin byggist á. Nauðungarleyfið veitir því ekki sjálfstæðan rétt til að hagnýta viðkomandi einkaleyfða uppfinningu að öðru leyti.

Um 47. gr.


    Hér er lagt til að heimilað verði að veita nauðungarleyfi ef það telst nauðsynlegt vegna ríkra almannahagsmuna. Ekki er samsvarandi heimild í núgildandi lögum. Hins vegar er almenn eignarnámsheimild fyrir hið opinbera í 1. mgr. 8. gr. núgildandi laga, sbr. nú 70. gr. frv. og athugasemdir við hana.
    Þessi heimild til nauðungarleyfis ber þó svip af eignarnámi og því þarf að beita henni af mikilli gát. Af sömu ástæðu þarf að tryggja að fullt endurgjald komi fyrir slík nauðungarleyfi, annars gæti verið hætta á að þau yrðu misnotuð þegar í raun ætti að beita eignarnámi. Nauðungarleyfi skv. þessu ákvæði yrði aðeins veitt ef það teldist nauðsynlegt vegna ríkra almannahagsmuna. Hér er átt við opinbera hagsmuni, t.d. öryggi ríkisins, nauðsynlegt framboð á lyfjum og neysluefnum, orkuframboð og samgöngur. Til að tryggja nauðsynlegt framboð væri í undantekningartilvikum hægt að veita nauðungarleyfi til innflutnings. Einkahagsmunir aðila, þó miklir væru, koma ekki til álita sem grundvöllur fyrir nauðungarleyfi skv. þessari grein.

Um 48. gr.


    Þessi grein er byggð á sömu rökum og 4. gr. frv. um fornotkunarrétt. Hér er hins vegar tekið mið af hagnýtingu sem hefst eftir að annar hefur lagt inn umsókn um einkaleyfi en áður en sú umsókn verður almenningi aðgengileg. Í slíkum tilvikum kemur forgangsréttur umsækjanda í veg fyrir að sá sem hagnýtir uppfinninguna á þeim tíma öðlist rétt til áframhaldandi hagnýtingar. Hér er þó lagt til að mæli mjög sérstakar ástæður með því megi veita þeim aðila, sem hefur hagnýtt uppfinningu á umræddu tímabili eða hefur gert verulegar ráðstafanir til slíks, nauðungarleyfi til áframhaldandi hagnýtingar.
    Þær ástæður, sem kæmu helst til greina, eru ef lagt hefur verið í mikinn kostnað vegna framleiðslu eða annarrar hagnýtingar viðkomandi uppfinningar. Það getur verið þjóðhagslega mjög óhagkvæmt ef öll sú vinna og fjármagn fer til spillis með því að viðkomandi væri bönnuð áframhaldandi hagnýting. Sú áframhaldandi hagnýting, sem heimiluð yrði með nauðungarleyfi, yrði að vera innan sömu marka og fyrri hagnýting. Viðkomandi gæti t.d. ekki aukið umsvif sín seinna meir á grundvelli nauðungarleyfisins. Þetta þurfa dómstólar, sbr. 50. gr. frv., að hafa í huga við mat á umfangi nauðungarleyfis skv. þessari heimild.
    Hafa ber í huga að efni greinarinnar er þröngt undantekningarákvæði sem beita skal með varúð. Mjög ströng skilyrði eru sett um grandleysi þess aðila sem byggir beiðni um nauðungarleyfi á fornotkun eftir að umsókn er lögð inn. Ákvæðið er mun þrengra en ákvæði 4. gr. frv. auk þess sem sá aðili, sem fær nauðungarleyfi skv. þessu ákvæði, þarf að sjálfsögðu að greiða einkaleyfishafa hæfilegt endurgjald fyrir leyfið.
    Hægt er að höfða mál um rétt til nauðungarleyfis skv. þessari grein um leið og umsókn verður almenningi aðgengileg. Dómur getur hins vegar ekki gengið fyrr en einkaleyfið hefur verið veitt. Í 2. mgr. er að finna undantekningu frá þeirri aðalreglu að nauðungarleyfi verði ekki afturvirkt. Ef nauðungarleyfi er veitt skv. þessari grein frv. getur það náð til tímans áður en einkaleyfið var veitt. Ef þessi heimild væri ekki fyrir hendi gæti einkaleyfishafi farið í mál við leyfishafa vegna hagnýtingar hans áður en nauðungarleyfi hefði verið veitt.

Um 49. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um almenn skilyrði sem hver sá sem óskar eftir að fá útgefið nauðungarleyfi sér til handa skv. 45.–48. gr. frv. þarf að uppfylla. Leyfisbeiðandi þarf að vera tæknilega og fjárhagslega í stakk búinn til að hagnýta uppfinninguna í eigin atvinnurekstri. Hann þarf einnig að geta tryggt sömu gæði í framleiðslu og einkaleyfishafi svo ekki sé hætta á að viðskiptavild einkaleyfishafa skerðist vegna framboðs á lélegum vörum framleiddum skv. nauðungarleyfi. Það er hins vegar ekki skilyrði að sá sem beiðist nauðungarleyfis hafi áður reynt að fá nytjaleyfi hjá einkaleyfishafa.
    Í 2. mgr. er tekið fram að nauðungarleyfi komi ekki í veg fyrir hagnýtingu einkaleyfishafa á uppfinningu sinni eða að hann geti veitt öðrum nytjaleyfi til hagnýtingar á henni. Þetta ákvæði er byggt á Parísarsáttmálanum, 5. gr. A 4, eins og henni var breytt 1958 með Lissabongerð sáttmálans. Ísland hefur ekki fullgilt þá gerð sáttmálans en áformað er að það verði gert. Því þykir eðlilegt, einnig með hliðsjón af samræmingu við önnur norræn einkaleyfalög, að sama ákvæði verði í lögum hér á landi. Þessi regla á við öll nauðungarleyfi án tillits til þess af hvaða tilefni þau eru veitt. Í 2. málsl. 2. mgr. er samsvarandi ákvæði og í 2. mgr. 4. gr. frv. um að aðilaskipti séu ekki heimil að nauðungarleyfinu einu sér. Ef einhver, sem öðlast rétt til nauðungarleyfis, t.d. vegna arfs eða framsals, uppfyllir ekki almenn skilyrði 1. mgr., þá getur einkaleyfishafi höfðað mál til niðurfellingar þess skv. 2. málsl. 50. gr. frv.

Um 50. gr.


    Hér er lagt til að ákvörðun um veitingu nauðungarleyfis og afmörkun á skilmálum um hagnýtingu uppfinninga skv. nauðungarleyfum skuli heyra undir bæjarþing Reykjavíkur. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. núgildandi laga heyrir þessi ákvörðun undir iðnaðarráðuneytið með málskotsrétti til dómstóla. Nauðungarleyfi eru takmörkun á einkarétti einkaleyfishafa. Í frumvarpi þessu er lagt til að heimildir til að beita þessari takmörkun verði rýmkaðar. Með hliðsjón af því þykir rétt að leggja ákvörðunarvaldið í hendur dómstóla til að tryggja sem best hagsmuni einkaleyfishafa. Einnig þykir rétt að tilgreina einn sérstakan dómstól til að fjalla um þessi mál til að stuðla að því að sérþekking á þessu sviði byggist upp hjá viðkomandi dómstól. Niðurstöðum bæjarþings Reykjavíkur í málum sem varða nauðungarleyfi verður áfrýjað til Hæstaréttar.
    Nauðsynlegt er að afmarka skýrt og ótvírætt umfang hagnýtingarréttar skv. nauðungarleyfi. Meginsjónarmiðið er að hagnýtingarrétturinn má ekki vera rýmri en aðstæður þær sem heimila veitingu nauðungarleyfis, sbr. 45.–48. gr. frv., gefa tilefni til. Einnig þarf að afmarka hvaða not uppfinningar séu heimil og í hvaða mæli. Þannig má t.d. nauðungarleyfi. sem veitt er vegna þess að uppfinning hefur ekki verið notuð hér á landi á eðlilegan hátt, sbr. 45. gr. frv., ekki ná til innflutnings, sbr. athugasemdir við þá grein. Á sama hátt nær hagnýting uppfinningar skv. nauðungarleyfi, sem veitt er á grundvelli 1. mgr. 46. gr. frv., eingöngu til hagnýtingar sem nauðsynleg er til hagnýtingar hinnar uppfinningarinnar. Heimilt er að takmarka gildistíma nauðungarleyfis. Sé það ekki gert gildir nauðungarleyfið til loka gildistíma viðkomandi einkaleyfis. Á sama hátt og á við um einkaleyfi hafa nauðungarleyfi, sem veitt eru hér á landi, eingöngu gildi hérlendis.
    Ávallt ber að ákveða endurgjald til einkaleyfishafa við útgáfu nauðungarleyfis. Endurgjald getur verið leyst af hendi með einni greiðslu, en tíðast er að það sé ákvarðað sem gjald í ákveðnu hlutfalli við framleiðslu eða sölu. Meginreglan er sú að endurgjald skuli að fullu bæta einkaleyfishafa allt fjárhagslegt tjón sem hagnýting annars á grundvelli nauðungarleyfis veldur honum. Í vissum tilvikum getur sú regla sætt takmörkunum. Sem dæmi má nefna að ef einkaleyfishafi hefur misnotað einkarétt sinn með því að halda uppi óeðlilega háu vöruverði á nauðsynjavöru, þá getur verið tilefni til að veita nauðungarleyfi á grundvelli 47. gr. frv. Í því tilviki væri óeðlilegt að veita fullar bætur þar sem það gerði að engu möguleika nauðungarleyfishafa til að framleiða ódýrari vörur. Einnig getur verið erfitt að ákvarða nákvæmlega hvað séu fullar bætur. Umfang tjóns vegna hagnýtingar annarra á grundvelli nauðungarleyfis hlýtur jafnan að vera mikilli óvissu háð og ákvörðun endurgjaldsins byggist því á mati hverju sinni. Við það mat verður að taka tillit til allra þeirra ástæðna sem leiða til útgáfu leyfisins. Önnur atriði, sem huga þarf að við veitingu nauðungarleyfis, eru t.d. hvernig eftirliti með gæðum framleiðslu og tryggingu fyrir greiðslum skuli hagað.
    Ákvæði 2. málsl. um endurskoðun nauðungarleyfis verður einungis beitt í undantekningartilvikum. Aðstæður verða að hafa breyst verulega og valda því að eldri skilyrði séu orðin ósanngjörn. Annars gæti það skert um of möguleika nauðungarleyfishafa á að hagnýta nauðungarleyfið.

Um VII. kafla.


Um 51. gr.


    Hér er fjallað um afleiðingar þess ef árgjald fyrir veitt einkaleyfi er ekki greitt. Í 15. gr. frv. er hins vegar kveðið á um afleiðingar þess að árgjald fyrir umsóknir er ekki greitt. Samkvæmt 25. gr. núgildandi laga skal skipað fyrir um greiðslu einkaleyfisgjalda í reglugerð. Í 8. gr. rg. nr. 59/1966 um umsóknir og afgreiðslu einkaleyfa er kveðið á um að ef gjald er ekki greitt innan ákveðins frests, þá falli einkaleyfið úr gildi. Lagt er til að sama regla gildi skv. frumvarpi þessu. Hins vegar þykir tryggara að kveða á um slíkt réttartap í lagatexta fremur en í reglugerð. Í 72. og 74. gr. frv. er fjallað um endurveitingu réttinda sem glatast hafa vegna þess að frestir hafa ekki verið virtir.

Um 52. gr.


    Hér er kveðið á um hvenær hægt sé að ógilda einkaleyfi. Í núgildandi lögum er fjallað um ógildingu einkaleyfa í 1. mgr. 20. gr. Í frumvarpi þessu er lagt til að hægt verði að ógilda einkaleyfi af fleiri ástæðum en þar eru tilgreindar. Jafnframt eru settar fram skýrari reglur um hverjir hafi málshöfðunarrétt. Greinin er byggð á samsvarandi ákvæði í lögum annarra Norðurlandaþjóða sem aftur á móti eru byggð á ákvæðum Evrópueinkaleyfasáttmálans (EPC) og ákvæðum fyrirhugaðs sáttmála Efnahagsbandalagsins um einkaleyfi (CPC).
    Einkaleyfi verður aðeins ógilt með dómi, sbr. 1. málsl. 1. mgr., og eingöngu á grundvelli þeirra ástæðna sem taldar eru upp í greininni. Hins vegar eru engin tímamörk á því hvenær höfða megi ógildingarmál nema í því tilviki sem um er fjallað í 4. mgr. Áhrif ógildingar eru þau að einkaleyfið fellur niður annaðhvort að hluta eða öllu leyti. Ef krafist er ógildingar á hluta af einkaleyfi og fallist er á þá kröfu, þá verða annaðhvort einstakar einkaleyfiskröfur afmáðar eða þær umorðaðar. Varlega verður þó að fara í að umorða kröfur þar sem ný framsetning á kröfum má að sjálfsögðu ekki fela í sér víðtækari vernd en fyrri kröfur.
    Ekki er kveðið á um það í frumvarpi þessu frá hvaða tíma einkaleyfið telst fallið niður, þ.e. hvort einkaleyfið teljist aldrei hafa verið veitt (ex tunc) eða hvort það falli niður frá uppsögu dóms (ex nunc). Af 2. málsl. 61. gr. frv. er þó ljóst að refsi- eða skaðabótaákvæðum 57.–60. gr. frv. verður ekki beitt vegna brota á rétti þeim sem einkaleyfi veitir hafi það verið dæmt ógilt. Að því leyti jafngilda réttaráhrif ógildingar því að einkaleyfið hafi aldrei verið veitt. Dómstólar verða að öðru leyti að meta hvaða áhrif ógilding hefur á fyrra réttarsamband aðila hverju sinni með hliðsjón af aðstæðum, t.d. hvort það teljist sanngjarnt að nytjaleyfishafi fái endurgreidd nytjaleyfisgjöld sín eða ekki.
    Ógildingarástæður eru tæmandi taldar í 1.–4. tölul. 1. mgr. Það er í almannaþágu að hægt sé að ógilda einkaleyfi sem ekki uppfylla skilyrði einkaleyfalaga. Hins vegar er einnig á það að líta að ógilding einkaleyfis getur haft mjög víðtækar fjárhagslegar afleiðingar fyrir einkaleyfishafa. Í trausti þess að einkaleyfi sé í fullu gildi er algengt að einkaleyfishafi leggi í mikinn kostnað við undirbúning og framleiðslu á grundvelli einkaleyfisins. Af þessum ástæðum er lagt til að ekki verði heimilt að ógilda einkaleyfi vegna annarra atriða en tiltekin eru í þessari grein.
    Fyrsta ógildingarástæðan, sbr. 1. tölul., tekur til þess ef skilyrði 1. og. 2. gr. frv. um einkaleyfishæfi uppfinningar eru ekki uppfyllt eða ef einkaleyfi er veitt öðrum en þeim sem rétt hefur til þess. Dómstólum er heimilt að endurskoða ákvarðanir einkaleyfayfirvalda að öllu leyti í þessum efnum. Mjög mikilvægt er að dómstólar hafi slíka endurskoðunarheimild. Rannsókn á uppfinningu hér á landi er að mestu byggð á niðurstöðum rannsóknar erlendis. Ljóst er að erlendir rannsóknaraðilar hafa takmarkaða möguleika á að fylgjast með tækniþróun hér á landi. Þeim mun meiri hætta er á að veitt verði hér einkaleyfi fyrir einhverju sem var orðið þekkt hér á landi áður en viðkomandi umsókn var lögð inn. Þessi endurskoðunarheimild er því afar nauðsynleg hérlendis, einkum að því er varðar nýnæmi uppfinninga.
    Önnur ógildingarástæðan, sbr. 2. tölul., varðar það tilvik þegar lýsing á uppfinningu er ekki nægilega skýr til þess að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. og 6. mgr. 8. gr. frv. Ákvæðið nær bæði til þess að lýsing hafi ekki verið nógu skýr þegar einkaleyfið var veitt og einnig til þess að lýsingin verði talin ófullnægjandi eftir að það var veitt. Slíkt getur átt sér stað þegar varðveitt örverurækt verður óvirk.
    Þriðja ógildingarástæðan, sbr. 3. tölul., tekur til þess ef einkaleyfi varðar eitthvað sem ekki kom fram í umsókn á umsóknardegi. Reglan, sem lögð er til grundvallar, er í samræmi við ákvæði í 13. gr. frv. Ef einkaleyfi verður veitt fyrir einhverju sem ekki kom fram í umsókn á umsóknardegi, þrátt fyrir ákvæði 13. gr., þá má ógilda einkaleyfið að þeim hluta.
    Fjórða ógildingarástæðan, sbr. 4. tölul., er sú ef einkaleyfi hefur verið gefið út þrátt fyrir að verndarsvið þess hafi verið rýmkað eftir að umsókn var samþykkt til framlagningar skv. 21. gr. frv. Í 19. gr. frv. er lagt bann við breytingum á umsókn eftir að hún er samþykkt til framlagningar þannig að umfang einkaleyfisverndar verði víðtækara. Þannig á að vera komið í veg fyrir að umsækjandi geti komið með einhverjar slíkar breytingar eftir að umsóknin er lögð fram. Hins vegar er möguleiki á því að slík rýmkun á verndarsviði einkaleyfis verði vegna mistaka einkaleyfayfirvalda, áfrýjunarnefndar eða dómstóla við umorðun krafna, t.d. í andmælamáli eða dómsmáli þar sem einkaleyfi er ógilt að hluta.
    Samkvæmt 2. mgr. verður einkaleyfi ekki dæmt ógilt í heild sinni þó að í ljós komi að einkaleyfishafi eigi eingöngu rétt til einkaleyfisins að hluta. Slíkt getur gerst ef margir hafa unnið að uppfinningu og einkaleyfishafi hefur ekki fengið samþykki þeirra allra til að sækja um einkaleyfi. Ef ljóst er hver hefur unnið að hvaða hluta og hægt er að afmá einstakar kröfur viðvíkjandi þeim hluta, þá má ógilda einkaleyfið að þeim hluta. Yfirleitt eru aðstæður þó þær að ekki er hægt að sundurgreina uppfinningu í sjálfstæða hluta sem einstakir uppfinningamenn eiga tilkall til. Í þeim tilvikum þyrfti að ógilda einkaleyfi í heild sinni á sama hátt og á við um umsókn sem afskrifuð er í heild sinni ef í ljós kemur að samþykki allra uppfinningamanna liggur ekki fyrir. Þetta þykja þó of ströng viðurlög þegar einkaleyfi hefur verið veitt í ljósi þess að einkaleyfishafi á þó alltént rétt á einkaleyfinu að hluta. Meðuppfinningamenn verða því í slíkum tilvikum að sætta sig við að geta eingöngu krafist þess að þeim verði ákvarðaður réttur til einkaleyfisins að hluta, sbr. 53. gr. frv.
    Hver sem er getur höfðað mál til ógildingar skv. þessari grein, sbr. 3. mgr., nema mál sé höfðað vegna þess að annar hefur öðlast einkaleyfi en sá sem skv. 1. gr. frv. á rétt til þess. Í því tilfelli getur eingöngu sá sem telur sig eiga rétt til einkaleyfisins höfðað mál, sbr. 4. mgr. Þessi undantekning frá því að allir geti höfðað mál til ógildingar einkaleyfi er rökstudd með því að almenningi ætti að standa á sama hver á einkaleyfið ef það er að öðru leyti gilt. Málshöfðun í ógildingarmálum skal beina að einkaleyfishafa, ekki einkaleyfayfirvöldum, sbr. 4. mgr. 44. gr. frv. Þeim skal þó tilkynnt um málshöfðunina, sbr. 63. gr. frv.
    Í 4. mgr. er að finna sérreglur um þá ógildingarástæðu að annar hafi öðlast einkaleyfi en sá sem rétt á til þess skv. 1. gr. frv. Fyrri sérreglan er að sá einn getur höfðað mál sem telur sig eiga rétt til einkaleyfisins, sbr. umfjöllun að framan. Önnur sérreglan er að sett eru tvenns konar tímamörk fyrir því hvenær höfða megi slík ógildingarmál. Þessi tímamörk eiga líka við ef þess er krafist að í stað ógildingar á einkaleyfi verði rétturinn til einkaleyfisins yfirfærður til þess sem telur sig eiga hann, sbr. 53. gr. frv. Í fyrsta lagi hefur sá sem telur sig eiga rétt til einkaleyfisins aðeins eins árs frest til að höfða slíkt ógildingarmál eftir að hann fær vitneskju um að einkaleyfið hafi verið veitt og önnur þau atvik sem málssóknin er reist á. Með „öðrum atvikum“ er hér átt við þær aðstæður sem lagðar eru til grundvallar rétti viðkomandi aðila. Þessi regla er réttlætt með því að tómlæti þess, sem telur sig eiga rétt til einkaleyfis, að hefjast ekki handa við málshöfðun innan eins árs, frá því að hann fékk ofangreinda vitneskju, geti valdið fjártjóni sem telja megi bæði ósanngjarnt og þjóðhagslega óhagkvæmt.
    Í öðru lagi gilda sérstök tímamörk ef einkaleyfishafi var í góðri trú um rétt sinn. Þá verður ógildingarmál undir engum kringumstæðum höfðað eftir að þrjú ár eru liðin frá útgáfu einkaleyfisins. Annað væri ósanngjarnt gagnvart einkaleyfishafa sem í góðri trú fær veitt einkaleyfi eða í góðri trú kaupir eða öðlast rétt til einkaleyfis á annan hátt og hefur lagt í fjárfestingar til framleiðslu á grundvelli þess. Hér kemur einnig til að sá sem telur sig eiga rétt til einkaleyfis hefur líka sýnt af sér ákveðið tómlæti með því t.d. að sækja ekki sjálfur um einkaleyfi. Ef einkaleyfishafi er hins vegar ekki í góðri trú, þá gildir þessi regla ekki.
    Þó svo að ofangreindir málshöfðunarfrestir geti leitt til þess að sá sem á rétt til einkaleyfis geti ekki ógilt einkaleyfi eða fengið yfirfærðan rétt sinn til þess, sbr. 53. gr. frv., þá hefur hann yfirleitt rétt til að hagnýta viðkomandi uppfinningu, annaðhvort á grundvelli fornotkunarréttar skv. 4. gr. frv. eða með því að fá nauðungarleyfi skv. 48. gr. frv.

Um 53. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að sá sem á rétt til einkaleyfis, sem veitt hefur verið öðrum, geti með dómi fengið réttinn til einkaleyfisins yfirfærðan til sín. Samsvarandi regla er ekki í núgildandi lögum. Nauðsynlegt þykir að hafa þetta ákvæði til að tryggja hagsmuni rétthafa. Ef einhver hefur fengið veitt einkaleyfi sem annar á rétt til, þá hindra nýnæmisreglur í 2. gr. frv. að sá síðarnefndi geti fengið einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu þrátt fyrir að hann hafi fengið fyrra einkaleyfið ógilt. Þó svo að rétthafi geti hagnýtt uppfinningu eftir að einkaleyfi hefur verið ógilt, þá hefur hann ekki sömu möguleika á fjárhagslegum ávinningi eins og einkaréttur skv. einkaleyfi getur stuðlað að. Hins vegar eru af sömu ástæðum og raktar eru í athugasemdum við 4. mgr. 52. gr. frv. höfð sömu tímamörk fyrir rétthafa að ná þessum rétti sínum, sbr. 2. málsl. 1. mgr.
    Réttur til einkaleyfis getur verið yfirfærður í heild eða að hluta, þó svo að það sé ekki tekið sérstaklega fram í greininni. Ekki er hægt að skipta veittu einkaleyfi í tvö eða fleiri sjálfstæð einkaleyfi. Því leiðir yfirfærsla á rétti til einkaleyfis að hluta til þess að viðkomandi aðilar verða sameigendur að einkaleyfinu. Slík sameign getur verið með tvennum hætti: Ef hægt er að sundurgreina einkaleyfið í sjálfstæða þætti fær hvor aðili fyrir sig einkarétt á þeim hluta einkaleyfisins sem honum ber. Ef slík sundurgreining er hins vegar ekki möguleg verður einkaleyfið í óskiptri sameign þeirra. Hvort sem um er að ræða skipta eða óskipta sameign á einkaleyfi verður í dómsúrskurði að ákveða eignarhlutdeild hvors aðila um sig þannig að hægt sé að ákveða hvernig skipta skuli t.d. greiðslu árgjalda. Ekki eru í frumvarpinu neinar reglur um hvernig fara skuli með sameign á einkaleyfi. Um það gilda því almennar reglur um sameign eftir því sem við á.
    Ekki er kveðið á um hvaða réttaráhrif yfirfærsla á rétti til einkaleyfis hefur. Eftir að yfirfærslan hefur átt sér stað er aðstaðan nokkuð skýr. Sá sem fær réttinn til einkaleyfisins yfirfærðan öðlast þar með allan þann rétt sem einkaleyfinu fylgir. Um rétt þess sem áður var einkaleyfishafi eða skráður nytjaleyfishafi er kveðið á í 2. mgr. Hins vegar er óvíst hvernig fer með réttarsambönd sem til hefur verið stofnað áður en yfirfærslan átti sér stað. Almennt verður að líta svo á að þau séu ógild. Hins vegar er ekki hægt að byggja eingöngu á ógildissjónarmiðum því að einkaleyfið sjálft var gilt þótt rangur aðili hafi verið einkaleyfishafi. Því verður að meta kröfur um endurgreiðslu eða skaðabætur vegna yfirfærslu réttar til einkaleyfis með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.
    Ef sá sem þarf að sæta því, að annar fái réttinn til einkaleyfis, var í góðri trú um rétt sinn til einkaleyfisins, þá hefur hann heimild til að hagnýta viðkomandi uppfinningu áfram á sama hátt og um fornotkunarrétt skv. 4. gr. frv. væri að ræða. Sömu takmörk um umfang og eðli hagnýtingar gilda og skv. 4. gr., sbr. athugasemdir við þá grein. Greiða þarf endurgjald fyrir hagnýtinguna eins og um nauðungarleyfi skv. 48. gr. frv. væri að ræða. Endurgjald og aðrir skilmálar skulu vera sanngjarnir miðað við allar aðstæður. Sama rétt hefur nytjaleyfishafi sem var í góðri trú. Aðilaskipti geta ekki orðið að þessum hagnýtingarrétti nema í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem hagnýtingin fór fram eða átti að fara fram.

Um 54. gr.


    Hér er einkaleyfishafa veitt heimild til að falla frá einkaleyfi sínu. Slík heimild er ekki í núgildandi lögum. Einkaleyfishafi getur látið einkaleyfi sitt falla úr gildi með því að greiða ekki árgjöld, sbr. 51. gr. frv. En honum getur líka verið nauðsyn á því að láta einkaleyfi sitt falla niður með yfirlýsingu, t.d. til að koma í veg fyrir málaferli um gildi þess.
    Með einkaleyfishafa er átt við þann sem skráður er sem slíkur í einkaleyfaskrá, sbr. 44. gr. frv. Yfirlýsing hans verður að vera skrifleg en aðrar formkröfur eru ekki gerðar. Eins og aðrar einhliða viljayfirlýsingar verður hún að vera skýr og ótvíræð. Séu fleiri en einn skráðir einkaleyfishafar leiðir það af almennum reglum um sameign að þeir verða allir að samþykkja slíka yfirlýsingu. Ekki er gert ráð fyrir því að skráðir nytjaleyfishafar þurfi að samþykkja yfirlýsingu um niðurfellingu á einkaleyfi. Slíkt þykir hefta um of umráðarétt einkaleyfishafa yfir einkaleyfi sínu. Gangi slík yfirlýsing á rétt nytjaleyfishafa getur hann átt skaðabótakröfu á einkaleyfishafa. Skráður einkaleyfishafi getur veitt öðrum sérstakt umboð til að gefa yfirlýsingu um niðurfall einkaleyfis. Almennt umboð, t.d. skv. 66. gr., er ekki nægjanlegt.
    Hægt er að falla frá einkaleyfi í heild eða að hluta þó slíkt sé ekki tekið fram. Einkaleyfi telst ekki niður fallið fyrr en einkaleyfayfirvöld hafa gefið út tilkynningu þar að lútandi, sbr. 55. gr. frv. Fram að útgáfu tilkynningar getur skráður einkaleyfishafi afturkallað yfirlýsingu sína. Niðurfelling einkaleyfis er endanleg og ekki er hægt að endurvekja það á sama hátt og ef einkaleyfi fellur úr gildi vegna vangoldinna árgjalda, sbr. 2. mgr. 72. gr. frv. Niðurfelling einkaleyfis hefur eingöngu áhrif fram í tímann, þ.e. frá þeim tíma sem hún tekur gildi.
    Sé skráður einkaleyfishafi ekki réttur einkaleyfishafi getur raunverulegur rétthafi misst rétt sinn því ekki er hægt að veita niðurföllnu einkaleyfi gildi á ný. Hann verður því að láta sér nægja að fara í skaðabótamál við þann sem var skráður einkaleyfishafi, nema hann geti komið að andmælum áður en einkaleyfayfirvöld gefa út tilkynningu um að einkaleyfið sé. niður fallið. Í framhaldi af slíkum andmælum gæti rétthafi frestað niðurfellingu einkaleyfisins með því að höfða dómsmál til að fá réttinn til einkaleyfisins yfirfærðan til sín, sbr. 2. mgr. Frestun niðurfellingar skv. 2. mgr. tekur eftir orðanna hljóðan aðeins til dómsmála um yfirfærslu réttar til einkaleyfis skv. 53. gr. frv. Telja verður þó heimilt að fresta niðurfellingu einkaleyfis ef höfðað hefur verið dómsmál til staðfestingar á rétti til einkaleyfis þrátt fyrir að sá réttur hafi orðið til eftir að einkaleyfi var veitt, t.d. vegna framsals.
    Í norskum og sænskum einkaleyfalögum er í ákvæði samsvarandi 53. gr. frv. sérstaklega tekið fram að hafi verið gerð aðför í einkaleyfi fresti það niðurfellingu einkaleyfis þar til aðfarargerðinni hefur verið aflétt. Hér er hins vegar lagt til að fylgt verði fordæmi í dönskum einkaleyfalögum og aðför í einkaleyfi ekki látin valda frestun á niðurfellingu einkaleyfis. Telja má að hagsmunir aðfararhafa séu nægilega tryggðir með refsiákvæði í almennum hegningarlögum gegn þeim sem með spjöllum á eignum sínum kemur í veg fyrir að lánardrottnar hans geti fengið greiðslu af þeim, sbr. 258. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 2. mgr. 45. gr. laga nr. 19/1887, um aðför.

Um 55. gr.


    Hér er kveðið á um að einkaleyfayfirvöld skuli tilkynna þegar einkaleyfi er niður fallið. hvort sem það er vegna ákvæða 51., 52. eða 54. gr. frv. Einnig skulu þau tilkynna um yfirfærslu réttar til einkaleyfis skv. 53. gr. frv.

Um VIII. kafla.


Um 56. gr.


    Hvorki í núgildandi lögum né í frumvarpi þessu eru ákvæði sem skylda einkaleyfishafa til að upplýsa með einhverjum hætti að framleiðsla hans njóti einkaleyfisverndar. Það er andstætt ákvæði 5. gr. D Parísarsáttmálans að binda réttarvernd slíkri upplýsingaskyldu. Ákvæðið hindrar þó ekki að takmarka megi refsi- eða bótaábyrgð vegna brota ef einkaleyfishafi hefur ekki sinnt upplýsingaskyldu. Slíkt ákvæði er þó ekki í frumvarpi þessu né núgildandi lögum. Þótt ekki sé skylt að upplýsa að um einkaleyfisvernd sé að ræða er algengt að einkaleyfishafi eða umsækjandi geri það annaðhvort í auglýsingaskyni eða til að hindra að brotið sé á rétti hans. Ekki eru í frumvarpinu nein viðurlög ef um er að ræða rangar eða villandi upplýsingar í þessu sambandi. Slíkt fellur fremur undir löggjöf um óréttmæta viðskiptahætti, sbr. V. kafla laga nr. 56/1978. Hins vegar þykir rétt að hafa í einkaleyfalögum ákvæði sem stuðla að því að almenningur geti sannreynt hvort staðhæfingar um einkaleyfisvernd séu réttar. Hér er því lagt til að einkaleyfishafa eða umsækjanda sé skylt að veita upplýsingar um einkaleyfi sitt eða umsókn ef hann ber annað hvort fyrir sig.
    Í 1. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar umsækjandi lýsir því yfir við ákveðinn hóp einstaklinga eða einstakling að hann hafi sótt um einkaleyfi fyrir tiltekinni uppfinningu. Hann gæti haft hag af því að benda ákveðnum aðilum á umsókn sína til þess að koma í veg fyrir að þeir brjóti á rétti hans eða til þess að koma í veg fyrir að þeir ávinni sér rétt til hagnýtingar, t.d. á grundvelli nauðungarleyfis skv. 48. gr. frv. Þeir sem slík yfirlýsing væri beint gegn hafa hins vegar hagsmuni af því að geta kynnt sér hvort hún hafi við rök að styðjast og hvert sé umfang einkaleyfisverndar ef umsóknin leiði til einkaleyfis. Samkvæmt 2. mgr. er umsækjanda almennt skylt að upplýsa um númer umsóknar. Enn fremur er í 1. mgr. tiltekið að þrátt fyrir að umsókn sé ekki orðin almenningi aðgengileg skv. 22. gr. frv., þá hafi sá sem yfirlýsingu er sérstaklega beint að rétt til að krefjast þess að fá aðgang að umsóknargögnum. Einnig á viðkomandi rétt á að fá afhent sýni af örverurækt, ef slíkt sýni hefur verið lagt inn til varðveislu í samræmi við ákvæði 6. mgr. 8. gr. frv. Heimildin er þó háð þeim takmörkunum sem um getur í 2. og 3. málsl. 6. mgr. 22. gr. frv. ásamt 7. og 8. mgr. sömu greinar. Skyldan til að heimila aðgang að umsókn í umræddum tilvikum hvílir á umsækjanda. Ákvæðið heimilar ekki einkaleyfayfirvöldum að veita slíkan aðgang.
    Í 2. mgr. er mun þrengra ákvæði um upplýsingaskyldu. Það á við ef einkaleyfishafi eða umsækjandi hefur almennt látið að því liggja, að sótt hafi verið um einkaleyfi ellegar að einkaleyfi hafi verið veitt án þess að viðkomandi yfirlýsingu sé beint að ákveðnum einstaklingi eða hópi einstaklinga. Í 1. málsl. 2. mgr. er fjallað um það tilvik þegar númer umsóknar eða einkaleyfis hefur ekki komið fram í slíkri almennri yfirlýsingu. Þeim sem yfirlýsinguna gaf er skylt að veita upplýsingar um það atriði án ástæðulausrar tafar sé þess krafist. Þetta auðveldar aðilum, sem hagsmuna eiga að gæta, að afla sér upplýsinga um tilvist og efni umsóknar eða einkaleyfis. Hins vegar er hér ekki heimild til að krefjast þess að fá aðgang að umsóknum sem ekki eru orðnar almenningi aðgengilegar. Í 2. málsl. 2. mgr. er enn fremur tekið fram að sé eingöngu gefið í skyn að sótt hafi verið um einkaleyfi eða að það hafi verið veitt, þá beri hlutaðeigandi skylda til að veita upplýsingar um það án ástæðulausrar tafar ef þess er krafist.
    Ef einkaleyfishafi eða umsækjandi sinnir ekki upplýsingaskyldu sinni skv. þessu ákvæði eiga við refsiákvæði 62. gr. frv.

Um IX. kafla.


    Í þessum kafla er kveðið á um afleiðingar brota á einkaleyfisrétti. Einnig er hér afmarkað frá hvaða tíma einkaleyfisvernd hefst, sbr. 60. gr. frv. Auk þess eru hér reglur um málsmeðferð fyrir dómstólum. Í 3. gr. frv. er skilgreint hvað felst í einkarétti samkvæmt einkaleyfi. Í 39. gr. frv. er fjallað um hvernig umfang verndar er afmarkað. Hagnýting, sem er óheimil skv. 3. gr. frv., er brot í hlutlægri merkingu. Það þýðir að um brot er að ræða, hvort sem sá sem það fremur vissi að athöfn hans væri brot á einkarétti samkvæmt einkaleyfi eða ekki. Huglæg afstaða þess sem brot fremur skiptir hins vegar máli við beitingu viðurlaga. Ekki er hægt að beita refsiábyrgð skv. 57. gr. frv. nema um ásetningsbrot sé að ræða. Skaðabætur þarf að greiða bæði vegna ásetningsbrota og einnig brota sem framin eru af gáleysi, sbr. 58. gr. frv., og jafnvel vegna brota sem framin eru í góðri trú, sbr. 2. mgr. þeirrar greinar.
    Um refsi- og skaðabótaábyrgð er fjallað í 21. og 22. gr. núgildandi laga. Með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, er stefnt að því að samræma ákvæði um þessi efni samsvarandi ákvæðum í einkaleyfalögum frændþjóða okkar. Í þeim tilvikum, sem ákvæði norrænna laga eru ekki samhljóða, hefur fordæmi danskra laga verið fylgt. Vert er að taka fram að sjaldan hefur reynt á refsiákvæði núgildandi einkaleyfalaga. Hið sama er að segja um refsiákvæði í einkaleyfalögum frændþjóða okkar. Þegar þær samræmdu einkaleyfalög sín á sjötta áratugnum var rætt um hvort afnema ætti refsiábyrgð. Það var ekki gert með þeim rökum að ásetningsbrot græfu undan réttarkerfi samfélagsins og því væri rétt að hafa refsiábyrgð samhliða skaðabótaábyrgð.
    Skaðabætur og lögbann eru áhrifaríkustu aðgerðir sem einkaleyfishafi getur gripið til þegar brotið er á einkaleyfisrétti hans. Einkaleyfishafi getur einnig höfðað almennt bæjarþingsmál gegn þeim sem hann telur brjóta á rétti sínum og krafist þess að honum verði með dómi bannað það atferli sem einkaleyfishafi telur brot á rétti sínum. Lögbann er þó mun fljótvirkari aðgerð og leiðir til sömu niðurstöðu. Í frumvarpi þessu er ekki fjallað um rétt manna til að fara fram á lögbann vegna brota á einkaleyfisrétti. Lögbanni er þó ótvírætt hægt að beita í samræmi við almennar reglur um lögbann, sbr. III. kafla laga nr. 18/1949, um kyrrsetningu og lögbann. Það er hins vegar umdeilt í norrænum rétti hvort eingöngu sé hægt að krefjast lögbanns á grundvelli einkaleyfis eða hvort umsókn um einkaleyfi, a.m.k. eftir að hún hefur verið lögð fram, sbr. 60. gr. frv., geti verið nægilegur grundvöllur fyrir slíkri beiðni.

Um 57. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um hvaða refsingum megi beita ef skertur er einkaréttur sá sem einkaleyfi veitir. Meginrefsingin fyrir einkaleyfisskerðingu er fésekt. Til viðbótar má beita varðhaldi ef sök er mikil, t.d. ef um síendurtekin brot er að ræða þrátt fyrir viðvaranir. Skilyrði refsiábyrgðar er ásetningur hins brotlega. Það þýðir að til þess að refsingu verði beitt verður sá sem brotið framdi að hafa vitað um einkaleyfið og að það tilheyrði öðrum; jafnframt þarf hann að hafa vitað að aðgerðir hans væru brot á einkaleyfisvernd og að hann hefði ekki samþykki einkaleyfishafa fyrir þeim. Það er dómstóla að meta hvort sá brotlegi geti talist hafa vitað að aðgerðir hans væru brot á einkaleyfisrétti, en ekki þess sem brotið fremur. Ekki er sérstaklega tiltekið hvort tilraun og/eða hlutdeild varði refsingu. Við það er miðað að um það gildi almennar reglur refsiréttarins.
    Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um að heimilt sé að sekta félög og fyrirtæki sem skerða einkaleyfisrétt. Hér er fylgt danskri fyrirmynd. Eðlilegt þykir að félög eða fyrirtæki sæti refsiábyrgð, t.d. ef framleiðsla viðkomandi lögaðila byggist á því að uppfinning, sem nýtur einkaleyfisverndar, er hagnýtt án heimildar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sá sem misgert var við eigi sókn sakar. Þetta er í samræmi við núgildandi lög, sbr. 1. mgr. 22. gr. Sá sem misgert er við er í flestum tilfellum einkaleyfishafi en getur einnig verið nytjaleyfishafi, sbr. 1. mgr. 63. gr. frv. Ekki er í frumvarpi þessu sérákvæði um fyrningu sakar eins og í 2. mgr. 22. gr. núgildandi laga. Við það er miðað að sök fyrnist samkvæmt almennum reglum refsiréttarins. Um málsmeðferð fer að öðru leyti að hætti almennra einkamála.

Um 58. gr.


    Hér er kveðið á um skaðabótaskyldu vegna brota á einkaleyfisrétti. Í 22. gr. núgildandi laga er ákvæði um að hver sá, sem brýtur á einkaleyfisrétti, sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum skaðabótareglum. Hér eru hins vegar mun nákvæmari reglur um skaðabótaskyldu í einkaleyfisrétti, þar á meðal leiðbeinandi reglur um hvernig reikna skuli skaðabætur. Ákvæðið tekur til skaðabótaskyldu vegna brots á einkarétti samkvæmt veittu einkaleyfi. Um skaðabótaskyldu vegna brots á rétti skv. umsókn er fjallað í 60. gr. frv.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að skaðabótaskylda stofnist bæði vegna brota sem framin eru af ásetningi og af gáleysi. Um hvað telst ásetningur gilda sömu sjónarmið og varðandi refsiábyrgð, sbr. umfjöllun við 57. gr. frv.
    Gáleysi telst liggja fyrir ef sá sem brot fremur hefði átt að vita að athafnir hans fælu í sér brot á einkaleyfisvernd. Hér er því lögð rannsóknarskylda á menn áður en þeir hefja framkvæmdir sem brotið gætu í bága við einkarétt annarra. Meginreglan er sú að eftir að tilkynning hefur verið birt um framlagningu umsóknar, sbr. 21. gr. frv., eða útgáfu einkaleyfis, sbr. 26. gr. frv., getur enginn firrt sig skaðabótaábyrgð með því að halda því fram að hann hafi ekki vitað um einkaleyfið eða umsóknina. Sömu reglu er að finna í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Þessi rannsóknarskylda hvílir ótvírætt á þeim sem framleiða eða flytja inn vörur. Hins vegar eru ekki eins strangar kröfur gerðar um rannsóknaskyldu annarra, t.d. aðstoðarmanna eða kaupmanna sem gætu orðið fyrir því að selja vöru sem framleidd hefur verið í trássi við einkaleyfisvernd. Slíkir aðilar geta borið fyrir sig að þeir hafi gert það í góðri trú nema rétthafi hafi gefið þeim viðvörun um að hann teldi að um brot á einkaleyfisrétti væri að ræða. Ef framangreindar tilkynningar um framlagningu umsóknar eða útgáfu einkaleyfis hafa ekki verið birtar, t.d. vegna mistaka, þarf einkaleyfishafi hins vegar að sanna að viðkomandi aðili hafi vitað um umsóknina eða einkaleyfið. Við mat á gáleysi skiptir ekki máli hvort sá sem brotið fremur telur athafnir sínar hafa fallið utan verndarsviðs einkaleyfisins nema einkaleyfiskröfur séu svo óskýrar að erfitt sé að meta hvert verndarsviðið er. Í þeim tilvikum geta dómstólar látið einkaleyfishafa bera hallann af því.
    Við ákvörðun skaðabóta skiptir ekki máli hvort brot er framið af ásetningi eða af gáleysi. Meginreglan er sú að bæta skuli allt fjárhagslegt tjón sem verður vegna einkaleyfisbrots. Vandamálið í einkaleyfarétti er hins vegar að mjög erfitt getur verið að ákveða hve mikið tjón er. Hér er því sett fram sú regla til viðmiðunar að ávallt skuli greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu uppfinningarinnar og að auki skaðabætur fyrir annað tjón sem hlýst af brotinu. Reglan um „hæfilegt endurgjald“ á að tryggja þeim sem fyrir tjóninu verður ákveðnar lágmarksbætur. Hvað sé hæfilegt endurgjald verða dómstólar að meta með hliðsjón af öllum málsatvikum hverju sinni. Með öðru tjóni er eingöngu átt við fjártjón. Ekki er ákvæði í frumvarpinu um bætur fyrir annað tjón en fjárhagslegt. Ef tjónþolar eru fleiri en einn, t.d. ef um er að ræða fleiri en einn nytjaleyfishafa, þá skal skipta skaðabótunum milli aðila í samræmi við innbyrðis réttarsamband þeirra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ef sanngjarnt þyki megi skylda þann sem framdi einkaleyfisbrot í góðri trú til að greiða skaðabætur. Skaðabætur skulu ákveðnar í samræmi við 1. mgr. að því marki sem sanngjarnt þykir. Það er dómstóla að meta hvað telst sanngjarnt í slíkum tilvikum. Hér er á ferðinni undantekningarregla sem sjaldan yrði beitt, m.a. vegna þess að oftast teldist gáleysi liggja fyrir þegar um einkaleyfisbrot væri að ræða. Ef sá sem brotið fremur er í góðri trú er sjaldnast ástæða til að dæma hann í skaðabætur nema t.d. hagnýting hafi verið óvenjuumfangsmikil eða um mikinn ágóða hafi verið að ræða. Skaðabætur mega þó ekki vera of íþyngjandi fyrir dómþola og þær geta aldrei orðið hærri en sem nemur tjóni einkaleyfishafa. Þetta ákvæði hefur þýðingu við mat á skaðabótum vegna brota á einkaleyfisrétti samkvæmt umsókn sem ekki hefur verið fram lögð, sbr. 2. mgr. 60. gr.
    Ekki er að finna í frumvarpi þessu sérreglu um fyrningu bótakröfu eins og í 3. mgr. 22. gr. núgildandi laga. Um fyrningu bótakröfu vegna brots á einkaleyfi gildir því 10 ára fyrningarfrestur, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Almennar reglur skaðabótaréttarins gilda um eigin sök og aðgerðaleysi tjónþola.

Um 59. gr.


    Í greininni eru ákvæði um úrræði sem dómstólar geta kveðið á um eftir kröfu rétthafa til að koma í veg fyrir endurtekna skerðingu á einkaleyfisrétti. Í 21. gr. núgildandi laga er heimild fyrir einkaleyfishafa til að krefjast afhendingar muna sem ólöglega hafa verið aðfluttir, tilbúnir eða boðnir til kaups. Hér er hins vegar lagt til að úrræðum til að koma í veg fyrir brot á einkaleyfisrétti verði fjölgað, auk þess sem gefið er aukið svigrúm til að ákveða hvað teljist sanngjarnt í hverju tilviki fyrir sig.
    Til þess að úrræðum greinarinnar verði beitt verður einkaleyfisréttur að hafa verið skertur, sbr. 1. mgr. Hins vegar skiptir huglæg afstaða þess sem skerti einkaleyfisréttinn ekki máli, brot þarf ekki að hafa verið framið af ásetningi eða gáleysi. Ef hætta er á að brot verði endurtekið getur dómstóll að kröfu rétthafa mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir það. Dómstólar geta fyrirskipað allar þær ráðstafanir sem til þess eru fallnar að koma í veg fyrir brot. Í 2. málsl. 1. mgr. eru nefnd þau úrræði sem helst koma til greina. Það er rétthafa að setja fram kröfu um tiltekið úrræði í þessu sambandi. Hafi hann sett fram kröfu um að hlutur verði eyðilagður verða dómstólar að taka afstöðu til þess hvort sanngjarnt sé að verða við þeirri kröfu. Hins vegar hefur dómstóll ekki heimild til að ákveða að í stað eyðileggingar komi einhver önnur ráðstöfun.
    Úrræðum verður bæði beitt til að koma í veg fyrir misnotkun afurða sem framleiddar hafa verið samkvæmt einkaleyfðri uppfinningu og einnig til að koma í veg fyrir að tæki, útbúnaður eða annað verði misnotað á þann hátt að það hefði skerðingu einkaleyfisréttar í för með sér. Það er ekki skilyrði að öll hagnýting viðkomandi tækis eða útbúnaðar hafi í för með sér einkaleyfisbrot. Ef einnig er hægt að nota hlutinn á löglegan hátt, þá er ólíklegt að fallist verði á kröfu um að hann verði eyðilagður. Eðlilegri krafa væri að hlut eða útbúnaði yrði breytt eða hann varðveittur þar til einkaleyfið rynni út.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að ekki sé hægt að beita ofangreindum úrræðum gegn þeim sem í góðri trú hefur eignast eða öðlast umráðarétt yfir viðkomandi afurð. tæki eða útbúnaði. Það er einnig skilyrði að viðkomandi aðili hafi ekki sjálfur framið einkaleyfabrot.
    Í 2. mgr. er að finna þrönga undantekningarreglu. Ef mjög sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur dómstóll, ef þess er krafist, heimilað að umráð þeirra hluta, sem um er rætt í 1. mgr., verði áfram hjá þeim sem braut á einkaleyfisrétti. Þessari heimild yrði því aðeins beitt að frá samfélagslegu sjónarmiði teljist það óverjandi að eyðileggja viðkomandi hlut og að afhending hans til einkaleyfishafa væri ekki möguleg, t.d. vegna þess að hann hefði ekki efni á að greiða nauðsynlegt endurgjald. Eingöngu væri um að ræða heimild til umráða yfir viðkomandi hlut en ekki til að hagnýta þá uppfinningu sem nýtur einkaleyfisverndar. Fyrir slík umráð verður að greiða sanngjarnt endurgjald og aðrir skilmálar verða að vera sanngjarnir. Það er dómstóla að kveða á um hvað teljist sanngjarnt í þessu tilviki.

Um 60. gr.


    Hér er fjallað um frá hvaða tíma hægt er að beita úrræðum IX. kafla vegna brota á einkaleyfisrétti. Áður en sótt er um einkaleyfi er ekki um að ræða neina vernd samkvæmt einkaleyfarétti. Sömuleiðis fellur vernd niður um leið og einkaleyfi fellur úr gildi, þó svo að málssókn vegna brota á gildistíma þess sé enn heimil. Full refsi- og bótaábyrgð er fyrir hendi eftir að einkaleyfi hefur verið veitt, sbr. 57.–59. gr. frv., og þar til það fellur úr gildi. Í greininni er því fjallað um afleiðingar af óheimilli hagnýtingu uppfinningar sem á sér stað eftir að sótt hefur verið um einkaleyfi á henni en áður en einkaleyfi hefur verið veitt. Samsvarandi ákvæði er í 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Hér er hins vegar að finna skýrari reglur um frá hvaða tíma og hvers konar ábyrgð verði við komið á ofangreindu tímabili.
    Meginreglan er sú að eftir að umsóknargögn eru orðin almenningi aðgengileg skv. 22. gr. frv. verður ákvæðum frumvarpsins um einkaleyfisskerðingu beitt eftir því sem við á að undanskildum ákvæðum um refsiábyrgð, sbr. 1. mgr. Þetta á við svo framarlega sem umsóknin leiðir til einkaleyfis. Málssókn vegna brota á einkarétti samkvæmt umsókn verður því ekki til lykta leidd fyrr en einkaleyfi er út gefið eða umsókn endanlega hafnað. Af þeim sökum er vart raunhæft að tala um að úrræðum 59. gr. frv. verði beitt vegna brota á þessu tímabili. Af meginreglunni er ljóst að umsóknir, sem ekki hafa verið gerðar almenningi aðgengilegar, njóta engrar verndar samkvæmt einkaleyfalögum.
    Skaðabótaábyrgð vegna brota á einkarétti samkvæmt umsókn er mismunandi eftir því á hvaða tímabili hin óheimila hagnýting uppfinningarinnar átti sér stað. Eftir að framlagning umsóknar hefur verið auglýst er skaðabótaábyrgðin sú sama og vegna brots á rétti skv. veittu einkaleyfi. Þetta er stutt með þeim rökum að eftir að umsókn hefur verið fram lögð og það auglýst hafa allir tækifæri til að kynna sér efni hennar á sama hátt og gildir um veitt einkaleyfi. Einkaleyfiskröfum má ekki breyta eftir að umsókn hefur verið fram lögð þannig að umfang verndar verði víðfeðmara, sbr. 2. mgr. 19. gr. frv. Í flestum tilfellum verða því framlagðar umsóknir gefnar út sem einkaleyfi í óbreyttu formi. Því telst rétt að veita umsóknum, sem hafa verið fram lagðar, sömu vernd og um einkaleyfi væri að ræða, að því tilskildu að einkaleyfi verði veitt. Ef einkaleyfiskröfur hafa verið þrengdar á tímabilinu milli þess sem framlagning umsóknar er auglýst og þar til einkaleyfi er veitt, t.d. vegna andmæla, þá miðast umfang verndar á því tímabili við þá þrengingu.
    Eftir að umsókn hefur verið gerð aðgengileg almenningi skv. 22. gr. frv. og áður en auglýsing hefur birst um framlagningu hennar gilda hins vegar ýmsar sérreglur um skaðabótaábyrgð. Rétt þykir að veita umsókn vernd ef brotið er á rétti skv. henni á þessu tímabili ef einkaleyfi er að lokum veitt fyrir henni. Þó er hér að ýmsu að hyggja. Í fyrsta lagi geta einkaleyfiskröfur breyst töluvert frá því umsókn er gerð aðgengileg almenningi og þar til einkaleyfi er veitt. Því er sett sú sérregla í 2. málsl. 1. mgr. að þar til framlagning umsóknar er auglýst skuli einkaleyfisvernd aðeins ná til þess sem leiða má bæði af einkaleyfiskröfum eins og þær voru þegar hún varð almenningi aðgengileg og af einkaleyfiskröfum í einkaleyfinu. Þetta hefur það í för með sér að ef einkaleyfiskröfum er breytt á þessu tímamarki þannig að umfang verndar víkki, þá gildir sú víkkun aðeins frá þeim tíma er auglýsing um framlagningu umsóknarinnar var birt. Einkaleyfisvernd á þessu tímabili getur ekki heldur náð til neins þess sem ekki kemur fram í einkaleyfiskröfum í veittu einkaleyfi. Í öðru lagi er erfitt fyrir almenning að kynna sér efni umsóknar sem ekki hefur verið lögð fram. Því er sett sú regla í 2. mgr. að sé brot á einkarétti samkvæmt umsókn framið áður en framlagning hennar er auglýst, þá verði aðeins dæmdar skaðabætur í samræmi við ákvæði 2. mgr. 58. gr. frv. Bætur verða því aðeins dæmdar að sanngjarnt teljist. Upphæð bóta skal einnig miðast við það sem telst sanngjarnt. Tilvísunin til 2. mgr. 58. gr. tekur aðeins til umfangs bóta en ekki til huglægrar afstöðu þess sem brotið fremur.
    Í einkaleyfalögum annarra norrænna þjóða er að finna sérreglu um fyrningu bótakröfu skv. 1. mgr. þessarar greinar. Rök fyrir þeirri sérreglu eru þau að í þessum löndum er fyrningarfrestur fyrir bótakröfur í einkaleyfarétti fimm ár. Lengri tími getur liðið frá því að umsókn varð aðgengileg þar til einkaleyfi er veitt, t.d. ef andmæli berast. Bótakrafa skv. 1. mgr. þessarar greinar gæti því fyrnst samkvæmt almennu reglunni áður en hægt væri að taka afstöðu til hennar ef þessarar sérreglu nyti ekki við. Hér á landi er fyrningarfrestur bótakrafna vegna brota á einkaleyfisrétti hins vegar tíu ár, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Því þykir ekki ástæða til að taka upp samsvarandi sérreglu um fyrningu.

Um 61. gr.


    Í greininni er fjallað um það með hvaða hætti sé unnt að fá einkaleyfi lýst ógilt í dómsmáli sem höfðað er vegna skerðingar á því. Í 2. mgr. 22. gr. núgildandi laga er kveðið á um að sé því haldið fram í máli, að einkaleyfi sé niður fallið eða ógilt, beri að leggja dóm á það svo framarlega sem það varði sekt eða sýknu stefnda. Slíkur dómur hefur þó aðeins gildi milli aðilanna sjálfra og veldur því ekki að einkaleyfi verði afmáð úr einkaleyfaskrá. Hér er hins vegar lagt til að sé einkaleyfi lýst ógilt vegna kröfu sem borin er upp í máli vegna einkaleyfisskerðingar, þá hafi það sömu áhrif og venjulegur ógildingardómur, sbr. 52. gr. frv. Af því leiðir að ákvæðum 57.–60. gr. frv. um refsi- og bótaábyrgð og úrræði til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot verður ekki beitt. Sömuleiðis leiðir slíkur dómur til þess að einkaleyfi verði afmáð úr einkaleyfaskrá og að tilkynning um það skuli gefin út, sbr. 55. gr. frv.
    Til þess að einkaleyfi verði lýst ógilt undir þessum kringumstæðum er sett það skilyrði að fram komi krafa um það, ekki er nægilegt að gildi einkaleyfisins sé almennt mótmælt. Kröfunni verður að vera beint gegn einkaleyfishafa, sjá 4. mgr. 44. gr. frv. Ef einkaleyfishafi er ekki aðili að málinu verður að stefna honum skv. ákvæðum 4. mgr. 63. gr. Ákvæðinu verður einnig beitt vegna kröfu um ógildingu einkaleyfis að hluta og með lögjöfnun ef því er haldið fram að einkaleyfi sé niður fallið vegna ákvæða 40. eða 51. gr. frv.

Um 62. gr.


    Aðili, sem er skyldur til skv. 56. gr. frv. að gefa ákveðnar upplýsingar eða veita aðgang að umsókn sinni um einkaleyfi áður en hún verður aðgengileg, skal sæta refsiábyrgð ef hann vanrækir þær skyldur sínar eða gefur rangar upplýsingar í tengslum við fyrirspurn á grundvelli ákvæðisins. Samkvæmt greininni verður bæði refsað fyrir ásetning og gáleysi.

Um 63. gr.


    Tilgangur þessa ákvæðis er að tryggja að þeir sem hagsmuna eiga að gæta varðandi einkaleyfi hafi tækifæri til að gæta réttar síns ef mál er höfðað út af því. Því er skylt að senda einkaleyfayfirvöldum tilkynningu um málshöfðun út af einkaleyfi til þess að upplýsingar um slíkt séu aðgengilegar í einkaleyfaskrá. Einkaleyfishafi er í flestum tilvikum málsaðili í málum sem höfðuð eru vegna einkaleyfis hans. Ef svo er ekki er skylt að tilkynna honum málshöfðunina. Nægilegt er að senda umboðsmanni hans, sbr. 66. gr. frv., tilkynningu þar að lútandi. Nytjaleyfishafar hafa yfirleitt mikilla hagsmuna að gæta í málum sem varða gildi eða rétt til einkaleyfis. Því ber að tilkynna þeim um málshöfðanir sem varða þau atriði. Ef skilyrðum greinarinnar um tilkynningar er ekki framfylgt verður málinu vísað frá dómi. sbr. 2. mgr.
    Nauðsynlegt er að hafa ákvæði 4. mgr. um heimild stefnda til að stefna einkaleyfishafa inn í mál til að beina að honum kröfu um ógildingu einkaleyfis því að samkvæmt IV. kafla laga nr. 85/193b hefur eingöngu sækjandi heimild til að stefna nýjum aðila inn í mál.

Um 64. gr.


    Öll mál, sem varða einkaleyfi, skulu rekin fyrir bæjarþingi Reykjavíkur, sbr. 50. gr. frv. Með því er stuðlað að eflingu sérþekkingar á þessu sviði hjá einum tilteknum dómstóli. Um málsmeðferð fer almennt eftir lögum nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, nema þegar annað leiðir af ákvæðum frumvarpsins.


Um 65. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um X. kafla.


Um 66. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu einkaleyfishafa, sem búsettur er erlendis, til að hafa umboðsmann búsettan hérlendis. Samkvæmt núgildandi lögum er ekki skylda að hafa umboðsmann. Í 12. gr. frv. er kveðið á um skyldu umsækjanda að einkaleyfi til að hafa umboðsmann. Um það hverjir geti verið umboðsmenn, hverjir teljist hafa heimilisfesti hér á landi og um rétt til að hafa umboðsmann vísast til athugasemda með þeirri grein.
    Skylda til að hafa umboðsmann skv. þessari grein er mun takmarkaðri en til umboðs skv. 12. gr. frv. Samkvæmt því ákvæði skal umboðsmanni vera heimilt að koma fram fyrir hönd umsækjanda í öllu því sem við kemur umsókn. Hér er hins vegar í 1. mgr. aðeins mælt fyrir um það að umboðsmaður skuli geta tekið á móti stefnu og öðrum tilkynningum sem varða einkaleyfið. Réttaráhrif þess eru þau sömu og ef einkaleyfishafi hefði sjálfur móttekið stefnuna eða viðkomandi tilkynningu. Ákvæðið kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að einkaleyfishafi geti gefið út víðtækara umboð.
    Megintilgangurinn með því að skylda einkaleyfishafa til að hafa umboðsmann eftir að einkaleyfi er veitt er að tryggja að hægt sé að birta stefnur og aðrar tilkynningar, sem varða einkaleyfi hans, fyrir einhverjum hér á landi. Því þykir ekki ástæða til að hafa eins ströng viðurlög við því, ef þessu ákvæði er ekki framfylgt og gildir um 12. gr. frv. Umsókn verður hafnað eða hún afskrifuð ef ákvæði 12. gr. er ekki framfylgt. Einkaleyfi verður hins vegar ekki fellt úr gildi þó einkaleyfishafi, sem búsettur er erlendis, hafi ekki umboðsmann, heldur er í 2. mgr. kveðið á um hvernig birta skuli stefnur og senda aðrar tilkynningar þegar þannig stendur á. Stefna verður birt í Lögbirtingablaði, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 85/1936. Jafnframt skal senda hana í ábyrgðarbréfi til skráðs einkaleyfishafa, sbr. 4. mgr. 44. gr. frv. Aðrar tilkynningar, sem varða einkaleyfið, skulu á sama hátt sendar skráðum einkaleyfishafa.

Um 67. gr.


    Í greininni er fjallað um hvernig áfrýja skuli ákvörðunum einkaleyfayfirvalda um einkaleyfi svo og ákvörðunum um endurveitingu réttinda skv. 72. og 73. gr. frv. Í 24. og 25. gr. frv. er kveðið á um hvernig áfrýja skuli ákvörðunum einkaleyfayfirvalda um umsóknir.
    Hér er lagt til, í samræmi við samsvarandi ákvæði í sænskum einkaleyfalögum, að öllum endanlegum ákvörðunum um einkaleyfi verði hægt að áfrýja. Einnig er lagt til að hægt verði að áfrýja ákvörðun um gjaldfrest á greiðslu árgjalda, sbr. 42. gr. frv., og ákvörðun um endurveitingu réttinda skv. 72. og 73. gr. frv. Eðlilegt verður að telja að hægt sé að áfrýja öllum endanlegum ákvörðunum einkaleyfayfirvalda um einkaleyfi á sama hátt og gildir um endanlegar ákvarðanir varðandi umsóknir. Auk einkaleyfishafa og umsækjanda gæti nytjaleyfishafi haft hagsmuna að gæta í þessu sambandi vegna t.d. ákvörðunar um að afmá nytjaleyfi úr einkaleyfaskrá, sbr. 2. mgr. 44. gr. frv., eða aðili sem telur sig eiga réttindi í einkaleyfi sem verður endurreist á grundvelli 72. gr. frv.

Um 68. gr.


    Við það er miðað að gjöld skuli ákveðin þannig að þau standi undir starfsemi einkaleyfaskrifstofunnar og þeirri þjónustu sem hún veitir.

Um 69. gr.


    Hér er kveðið á um heimild iðnaðarráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara með reglugerð. Reglugerðir annarra norrænna þjóða um einkaleyfi eru samræmdar á sama hátt og einkaleyfalögin. Við samningu reglugerðar hér yrði því tekið mið af því að svo miklu leyti sem aðstæður okkar leyfa.
    Í 1. mgr. er að finna almenna heimild til að setja reglugerð. Þar yrði m.a. kveðið á um að einkaleyfaskrifstofan skuli halda dagbók yfir innkomnar umsóknir. Í slíkri dagbók kæmu fram ýmsar upplýsingar um umsóknina, svo sem númer hennar og heiti uppfinningar. Þar kæmi hins vegar ekkert fram um efni umsóknarinnar. Því þykir eðlilegt að þessi dagbók sé öllum aðgengileg. Í dönsku einkaleyfalögunum er ákvæði sem heimilar setningu reglugerðar um hvaða dagar skuli ekki teljast afgreiðsludagar einkaleyfaskrifstofunnar. Var það m.a. hugsað til að kveða á um hvernig með skyldi fara þegar umsækjandi gæti ekki af óviðráðanlegum aðstæðum lagt inn umsókn sína eða einhver gögn henni lútandi, t.d. vegna verkfalla, stríðs eða náttúruhamfara. Í frumvarpi þessu eru slík ákvæði í 72. og 73. gr. og því ekki þörf á sérstakri reglugerð um það.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er ákvæði sem heimilar að gert verði samkomulag um að einkaleyfayfirvöld hér megi veita erlendu yfirvaldi upplýsingar um umsóknir um einkaleyfi hér á landi áður en þær eru orðnar almenningi aðgengilegar. Þetta ákvæði á rætur sínar að rekja til samstarfs frændþjóða okkar í einkaleyfamálum og er aðallega hugsað sem heimild til samkomulags við aðrar erlendar einkaleyfastofnanir. Hins vegar útilokar það ekki að öðrum erlendum stofnunum, t.d. dómstólum, yrðu veittar slíkar upplýsingar ef samkomulag yrði gert um það.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er heimildarákvæði varðandi samstarf um rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningar við erlend einkaleyfayfirvöld eða alþjóðlega stofnun. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði vegna íslenskra aðstæðna. Algengt er að íslenskir aðilar sæki eingöngu um einkaleyfi hér á landi. Einnig getur komið fyrir að erlendir aðilar sæki eingöngu um einkaleyfi hér.
    Hingað til hafa slíkar umsóknir verið sendar í rannsókn hjá einkaleyfastofnuninni í Danmörku. Við það er miðað að gerður verði samningur við þá stofnun um áframhaldandi aðstoð á þessu sviði. Slíkur samningur útilokar að sjálfsögðu ekki að gerð verði sjálfstæð rannsókn á einkaleyfishæfi umsókna, sem hér eru lagðar inn, með tilliti til íslenskra aðstæðna. Einnig útilokar samningurinn við dönsku einkaleyfastofnunina ekki að mat á einkaleyfishæfi umsókna verði byggt á rannsókn annarra erlendra einkaleyfastofnana eða alþjóðastofnana, sbr. ákvæði 3. mgr. þessarar greinar.
    Í 1. málsl. 3. mgr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að án sérstakra samninga um það sé hægt að nýta niðurstöður rannsóknar frá erlendri einkaleyfastofnun við mat á einkaleyfishæfi umsóknar. Ef umsækjandi hefur lagt inn sambærilega umsókn erlendis, annaðhvort á undan eða á eftir íslensku umsókninni, má krefja hann um niðurstöður rannsóknar þar á einkaleyfishæfi umsóknarinnar ásamt afriti af bréfaskriftum milli hans og erlenda einkaleyfayfirvaldsins. Þetta ákvæði er sett til að koma í veg fyrir tvíverknað vegna rannsóknar á umsókn um sömu uppfinninguna. Þessi tilhögun er raunar ekki ný af nálinni því sambærilegur háttur hefur verið hafður hér á í gildistíð núgildandi laga. Við það er miðað að settar verði með reglugerð nánari reglur um framkvæmdina, t.d. hvaða erlendar stofnanir verði viðurkenndar í þessu sambandi, hvaða fresti beri að veita og hvaða viðurlögum það varði að verða ekki við beiðni um upplýsingar skv. þessu ákvæði.
    Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. er sett vegna ákvæða 42. gr. PCT-sáttmálans. Þar er lagt bann við því að einkaleyfayfirvöld í landi, sem tilgreint er í alþjóðlegri umsókn, megi krefjast þess að fá rannsóknaniðurstöður vegna sömu alþjóðaumsókna frá öðru tilgreindu landi ef skýrsla um alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi hennar hefur verið send einkaleyfayfirvöldum í fyrrnefnda landinu.

Um 70. gr.


    Í greininni er að finna heimild til að taka eignarnámi rétt til að hagnýta uppfinningu ef þess er þörf vegna neyðarástands í landinu. Samsvarandi ákvæði er í norskum og sænskum einkaleyfalögum.
    Í 8. gr. núgildandi laga er almenn eignarnámsheimild vegna einkaleyfðrar uppfinningar til handa því opinbera. Hér er hins vegar um að ræða bæði þrengri og rýmri heimild til eignarnáms. Heimildin er þrengri að því leyti að henni verður aðeins beitt vegna neyðarástands sem skapast vegna stríðs eða náttúruhamfara. Í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að veita nauðungarleyfi í fleiri tilvikum en skv. núgildandi lögum, m.a. vegna ríkra almannahagsmuna. Því er minni þörf en áður fyrir jafnvíðtæka heimild til eignarnáms og er í núgildandi lögum. Heimildin er rýmri að því leyti að hún nær til uppfinninga almennt en ekki eingöngu til einkaleyfðra uppfinninga og einnig að því leyti að ráðherra getur ákveðið að annar aðili en ríkið fái hagnýtingarréttinn.
    Yfirtaka hagnýtingarréttar skv. þessari grein getur bæði verið ótakmörkuð, þ.e. útilokað alla aðra frá nýtingu uppfinningar, eða eingöngu tekið til nytjaleyfisréttar. Bætur yrðu ákveðnar í samræmi við það. Ef ekki næst samkomulag um endurgjald yrði það ákveðið af matsnefnd eignarnámsbóta skv. ákvæðum laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

Um 71. gr.


    Meginverkefni einkaleyfaskrifstofunnar verður jafnan stjórnsýsla í tengslum við veitingu einkaleyfa. Hins vegar er eðlilegt að heimild sé til að skrifstofan geti veitt upplýsingaþjónustu og aðra þjónustu varðandi efni sem tengjast starfssviði hennar og geta komið innlendum iðnaði og tækniþróun að gagni. Nánari reglur um slíka þjónustu, eðli og umfang hennar, svo og gjaldtöku yrðu settar í reglugerð um almennt skipulag og starfshætti skrifstofunnar.

Um 72. gr.


    Í greininni er fjallað um endurveitingu réttinda sem glatast hafa vegna þess að fresta hefur ekki verið gætt. Samsvarandi ákvæði, sbr. og 73. og 74. gr. frv., eru ekki í núgildandi lögum. Í 1. mgr. er fjallað um endurveitingu réttinda á umsóknarstigi. Endurveitingu verður eingöngu beitt þegar umsækjandi á í hlut. Ákvæðið getur ekki átt við andmælanda. Helgast það af því að til þess að ákvæðinu verði beitt verður réttartap að hafa orðið vegna þess að frestir hafa ekki verið virtir. Umsækjandi telst hafa orðið fyrir réttartapi í þessu samhengi ef hann t.d glatar málskotsrétti sínum eða umsókn hans er hafnað eða hún er afskrifuð án möguleika á endurupptöku. Ef andmælandi hefur hins vegar einhverra hluta vegna ekki gætt andmælafrests skv. 2. mgr. 21. gr. frv., þá hefur hann enn þann möguleika að höfða ógildingarmál, sbr. 52. gr. frv., eða mál til yfirfærslu réttar, sbr. 53. gr. frv. Því hefur hann ekki liðið réttartap.
    Þess er krafist að sá sem fer fram á endurveitingu réttinda verði að hafa gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að virða þau tímamörk sem vörðuðu missi réttinda. Hvort viðkomandi teljist hafa uppfyllt það skilyrði verða einkaleyfayfirvöld að meta hverju sinni. Rétt er að beita ströngu mati því þetta er undantekningarákvæði. Ef því væri beitt of frjálslega mundi það leiða til réttaróvissu. Hindranir þær, sem um ræðir, þurfa að vera þess eðlis að umsækjandi hafi ekki getað séð þær fyrir eða að hann hafi með engu móti getað virt frestinn. Flestir umsækjendur hafa umboðsmenn sem sjá um umsóknina fyrir þeirra hönd gagnvart einkaleyfayfirvöldum. Því þykir rétt að láta ákvæðið einnig ná til þeirra. Ef umboðsmaður hefur gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að virða viðkomandi frest, en ekki tekist það, þá má endurveita réttindi sem þannig tapast. Hafi umboðsmaður hins vegar ekki sýnt nægilega aðgát, þá getur umsækjandi ekki haldið því fram að hann sjálfur hafi sýnt nægilega aðgát og eigi því rétt á endurveitingu.
    Ákvæðið tekur ekki eingöngu til endurveitingar réttinda vegna réttartaps sem hefur orðið vegna þess að samskipti milli umsækjanda eða umboðsmanns hans og einkaleyfayfirvalda voru hindruð á þann hátt sem greinin tekur til. Það á einnig við ef hindrun hefur komið í veg fyrir samskipti milli umsækjanda og umboðsmanns hans og umboðsmaður hefur ekki af þeirri ástæðu getað virt viðkomandi frest. Ef öll skilyrði ákvæðisins eru fyrir hendi verða réttindi einnig endurveitt vegna síðarnefnda tilviksins.
    Í 2. mgr. er fjallað um endurveitingu réttinda sem glatast hafa vegna þess að árgjöld af umsókn eða einkaleyfi hafa ekki verið greidd á réttum tíma. Skilyrði endurveitingar réttinda í slíkum tilvikum eru hin sömu, nema að því leyti að beiðni um endurveitingu og greiðsla vangoldinna árgjalda þarf í síðasta lagi að hafa borist sex mánuðum eftir að frestur skv. 3. mgr. 41. gr. og 3. mgr. 42. gr. frv. rann út. Rök fyrir því að hafa styttri frest hér eru þau að skv. fyrrgreindum ákvæðum hefur umsækjandi eða einkaleyfishafi sex mánaða frest frá gjalddaga til greiðslu árgjalda að viðbættri tilskilinni hækkun. Því þykir óeðlilegt að veita til viðbótar þeim fresti eins árs frest eins og gert er í 1. mgr.
    Forgangsréttarfrestur skv. 1. mgr. 6. gr. frv. er byggður á Parísarsáttmálanum. Ef hægt væri að framlengja þann frest um eitt ár skv. ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar gæti umsækjandi lagt inn umsókn hér á landi allt að tveimur árum eftir að hann lagði hana inn í fyrsta sinn í einhverju öðru aðildarlandi sáttmálans með sömu réttaráhrifum og hann hefði lagt hana inn hér á landi. Slíkt þykir skapa of mikla réttaróvissu fyrir almenning og því er lagt til í 3. mgr. að ekki verði hægt að endurveita réttindi sem tapast vegna þess að frestur skv. 1. mgr. 6. gr. frv. er ekki virtur.
    Þá er í 3. mgr. lagt til að ákvæði 1. mgr. skuli eingöngu gilda um réttartap vegna frests gagnvart einkaleyfayfirvöldum og áfrýjunarnefnd, en ekki um frest til málshöfðunar fyrir dómstólum, sbr. 25. gr. frv. Það fer eftir almennum réttarfarsreglum hvort mál verði höfðað eftir að liðinn er frestur til málshöfðunar.
    Það leiðir af eðli máls að ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt ef þeir frestir, sem þar eru nefndir, eru ekki virtir. Ákvörðunum einkaleyfayfirvalda um endurveitingu réttinda skv. þessari grein verður skotið til áfrýjunarnefndar, sbr. 67. gr. frv.

Um 73. gr.


    Greinin á við um alþjóðlegar umsóknir. Í henni er fjallað um endurveitingu réttinda sem tapast hafa vegna tiltekinna hindrana. Ákvæðin eru sett til að uppfylla skilyrði 48. gr. PCT- sáttmálans.
    1. mgr. er um það tilvik þegar gögn eða gjöld, sem berast skulu til einkaleyfayfirvalda vegna alþjóðlegra umsókna, eru send með pósti og þau berast ekki innan þeirra fresta sem settir eru í 31. og 38. gr. frv. Þá skal endurveita réttindi sem þannig tapast ef nánar tilgreindar aðstæður eru fyrir hendi. Það er annars vegar ef póstsamgöngur hafa legið niðri af óviðráðanlegum ástæðum (force majeure) og sending er send einkaleyfayfirvöldum ekki seinna en fimm dögum frá því að póstsamgöngur hófust að nýju eða hins vegar að sending hafi ekki borist þrátt fyrir að hún hafi verið send í ábyrgðarpósti fimm dögum fyrir lok frestsins. Síðarnefnda tilvikið á þó aðeins við ef ábyrgðarsendingin er send í flugpósti, hafi slíkt verið mögulegt, eða ef sendandi hefur haft ástæðu til að ætla að sendingin kæmist til skila í síðasta lagi tveimur dögum frá sendingardegi þrátt fyrir að flugpóstur væri ekki notaður.
    Í flestum tilvikum er endurveiting réttinda skv. 72. gr. frv. nægileg. Hins vegar er hugsanlegt að upp komi tilvik þar sem beita má ákvæðum 73. gr. um endurveitingu en ekki ákvæðum 72. gr. Þetta gæti t.d. átt við ef umsækjandi hefur ekki uppfyllt skilyrði 72. gr., þ.e. að hann hafi ekki gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að koma sendingunni til einkaleyfayfirvalda á réttum tíma. 73. gr. á eingöngu við um fresti vegna alþjóðlegra umsókna og aðeins vegna sendinga sem fara milli umsækjanda (eða umboðsmanns hans) og einkaleyfayfirvalda. Umsækjandi verður að koma viðkomandi gögnum eða gjaldi til einkaleyfayfirvalda innan tveggja mánaða frá því hann vissi eða mátti vita að fresturinn var liðinn, þó í síðasta lagi einu ári eftir að frestur leið. Hann verður jafnframt að leggja inn beiðni um endurveitingu innan sama tíma, sbr. 2. mgr. Ekki er krafist sérstaks gjalds fyrir endurveitingu réttinda skv. þessari grein þar sem það væri andstætt PCT-sáttmálanum.

Um 74. gr.


    Hér er kveðið á um að auglýsa skuli þegar réttindi eru endurveitt á grundvelli 72. eða 73. gr. frv. Einnig er hér ákvæði um hagnýtingarrétt þess sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu eftir að réttindi skv. umsókn eða einkaleyfi falla niður en áður en auglýst er um endurveitingu þeirra.
    Ef umsókn, sem hefur verið gerð almenningi aðgengileg, er afskrifuð eða henni hafnað þá nýtur uppfinning sú, sem hún fjallar um, ekki lengur verndar skv. einkaleyfalögum. Sama á við þegar einkaleyfi fellur úr gildi. Öllum er því frjálst að hagnýta sér viðkomandi uppfinningu. Því er þörf að auglýsa það sérstaklega, sbr. 1. mgr., ef réttindi eru endurveitt skv. 72. og 73. gr. frv. þar sem það felur í sér að viðkomandi uppfinning öðlast aftur vernd skv. lögunum og hagnýting í atvinnuskyni verður óheimil án samþykkis eiganda hennar. Um það, hvar sú auglýsing skal birt, yrði fjallað í reglugerð, sbr. 69. gr. frv.
    Í 2. mgr. er með sérstöku ákvæði tekið tillit til hagsmuna þess sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu eftir að umsókn hefur verið afskrifuð eða henni hafnað ellegar eftir að einkaleyfi féll úr gildi. Ef slík hagnýting hefst – eða verulegur undirbúningur fyrir slíka hagnýtingu er hafinn – áður en tilkynning um endurveitingu er birt, þá er viðkomandi heimilt að halda hagnýtingu áfram á sama hátt og áður. Þetta er sams konar ákvæði og er í 4. gr. frv. um fornotkunarrétt, að því undanskildu að hér er þess krafist að hlutaðeigandi sé í góðri trú, til að áframhaldandi hagnýting sé heimil. Samkvæmt 4. gr. er þess aðeins krafist að hagnýtingin sé ekki augljós misbeiting. Varðandi skýringu við ákvæði 2. og 3. mgr. er að öðru leyti vísað til athugasemda við 4. gr. frv.

Um XI. kafla.


Um 75. gr.


    Verði frumvarp þetta að lögum er lagt til að lögin öðlist gildi sex mánuðum eftir staðfestingu. Þannig fá einkaleyfayfirvöld tíma til að undirbúa gildistökuna með setningu reglugerða og samningum við erlendar rannsóknastofnanir. Einnig eru hér sérákvæði um gildistöku einstakra þátta frumvarpsins.
    Samkvæmt núgildandi lögum má ekki veita einkaleyfi fyrir „læknislyfjum, neyzluefnum eða nautnar“. Í 2. mgr. er lagt til að ekki verði hægt að veita einkaleyfi fyrir læknislyfjum fyrr en fimm árum eftir gildistöku. Þannig fær íslenskur lyfjaiðnaður vissan tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum. Hins vegar er rétt að taka tillit til þess að sambærileg bráðabirgðaákvæði hjá frændþjóðum okkar, að Noregi frátöldum, eru ýmist fallin úr gildi eða munu gera það á næstu árum, sbr. umfjöllun við 3. mgr. 1. gr. frv. Með það í huga er hér lagt til að veittur verði fimm ára aðlögunartími. Ekki þykir hins vegar ástæða til að hafa sambærilegt undantekningarákvæði vegna uppfinninga á sviði neysluefna eða nautnar. Undir læknislyf falla öll lyf sem notuð eru til lækninga hvort sem það er fyrir menn eða dýr. Önnur lyf, t.d. fegrunarlyf eða lyf til að auka kjöt- eða mjólkurframleiðslu dýra, eru einkaleyfishæf að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
    Það liggur í hlutarins eðli að ákvæði III. kafla laganna eru óvirk þar til Ísland hefur gerst aðili að samstarfssáttmálanum. Rétt þykir að miða gildistöku kaflans við birtingu auglýsingar um að Ísland hafi gerst aðili að honum. Með III. kafla laganna er kominn grundvöllur að því að hægt sé að framfylgja ákvæðum sáttmálans hér á landi. Það er forsenda fyrir aðild Íslands að sáttmálanum. Hins vegar er ekki þörf á að sáttmálinn sjálfur öðlist lagagildi. Framkvæmdastjóra Alþjóðahugverkastofnunarinnar mun afhent aðildarskjal Íslands í samræmi við 62. gr. sáttmálans. Sáttmálinn öðlast síðan gildi hér á landi þremur mánuðum eftir að aðildarskjal hefur verið lagt fram, sbr. 63. gr. sáttmálans.
    Forsenda þess, að hægt sé að beita þeim ákvæðum sem rætt er um í 4. mgr. er að samkomulag verði gert við stofnanir sem varðveitt geta slíka rækt. Einnig þarf að setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd slíkrar varðveislu. Óvíst er að það takist áður en lögin öðlast almennt gildi. Því er lagt til að ákvæði frumvarpsins um varðveislu ræktar af örverustofni taki því aðeins gildi að gefin verði út sérstök reglugerð um það efni.

Um 76. gr.


    Hér er fjallað um að hve miklu leyti lögin skuli gilda um einkaleyfi sem veitt hafa verið eða veitt verða í samræmi við eldri lög. Þær breytingar, sem frumvarpið hefur í för með sér, eru flestar þess eðlis að ekki er ástæða til að láta þær ekki gilda um eldri réttindi. Meginreglan er því sú að nýju lögin skuli einnig gilda um þau. Enn fremur er hagkvæmara að sem flest einkaleyfi lúti sömu réttarreglum. Þetta getur þó í vissum tilvikum leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Því eru hér tilgreind nokkur undantekningarákvæði.
    Frumvarpið hefur í för með sér að skilyrði fyrir einkaleyfishæfi uppfinninga breytast. Einnig verður í fleiri tilvikum hægt að ógilda einkaleyfi. Það þykir óeðlilegt að hægt sé að ógilda réttindi sem veitt voru á grundvelli eldri laga og ekki var hægt að ógilda skv. þeim. Því er í 1. tölul. lagt til að slík einkaleyfi verði aðeins ógilt í samræmi við ákvæði eldri laga.
    Lagt er til að gildistíma einkaleyfa verði breytt þannig að þau geti gilt í 20 ár frá umsóknardegi. Núgildandi lög kveða hins vegar á um að einkaleyfi geti gilt í 15 ár frá útgáfudegi. Breytingin hefur í för með sér að gildistími einkaleyfa lengist ef málsmeðferð umsókna er styttri en fimm ár. Hins vegar styttist gildistíminn í þeim tilvikum sem málsmeðferð dregst lengur en fimm ár. Rétt þykir að láta hinn nýja gildistíma einnig eiga við eldri réttindi, með vissum takmörkunum þó. Í vissum tilvikum er ósanngjarnt að gildistíminn lengist, t.d. vegna nytjaleyfishafa eða þeirra sem gert hafa ráðstafanir til að hagnýta einkaleyfi eftir að það fellur úr gildi. Því er í 2. tölul. lagt til að gildistími einkaleyfa, sem veitt eru 10 árum fyrir gildistöku laganna, verði í samræmi við ákvæði eldri laga. Þetta tekur til þeirra einkaleyfa sem eiga eftir eldri lögum að falla úr gildi innan fimm ára frá gildistöku þessara laga. Þau sem eiga eftir lengri gildistíma falla undir ákvæði nýju laganna. Þannig gefst þeim sem hafa af því hag að einkaleyfi falli úr gildi tími til að bregðast við breyttum aðstæðum. Einnig telst ósanngjarnt að breytingin verði til þess að gildistími einkaleyfa, sem gefin eru út á grundvelli eldri laga, styttist með nýjum lögum. Því er hér tillaga um ákvæði 2. málsl. 2. tölul.
    Með viðbótareinkaleyfi, sem eru í gildi eða verða veitt, sbr. 78. gr. frv., skal farið eftir ákvæðum núgildandi laga.

Um 77. gr.


    Ákvæði frumvarpsins um fornotkunarrétt er þrengra en ákvæði núgildandi laga. Hafi fornotkunarréttur stofnast skv. eldri lögum áður en þessi lög tóku gildi er lagt til að hann haldist þrátt fyrir gildistöku þessara laga.

Um 78. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 79. gr.


    Þessi breyting er til hagsbóta fyrir eigendur umsókna sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku laga þessara. Framkvæmd skv. 13. gr. núgildandi laga er þannig að umsókn er auglýst sex mánuðum eftir að hún berst einkaleyfayfirvöldum og er hún þar með almenningi aðgengileg. Í gildistökuákvæði 79. gr. þessa frumvarps er hins vegar lagt til að ef umsóknir, sem lagðar hafa verið inn á gildistíma eldri laga, hafa ekki verið auglýstar þá fari um aðgengileika þeirra, framlagningu og andmælafrest eftir nýjum lögum. Það hefur í för með sér að viðkomandi umsókn verður ekki aðgengileg almenningi fyrr en 18 mánuðum eftir að hún er lögð inn og ekki er unnt að andmæla henni fyrr en hún hefur verið lögð fram skv. 21. gr. þessa frumvarps. Þá hefur verið tekin afstaða til þess af hálfu einkaleyfayfirvalda hvort umsóknin geti leitt til einkaleyfis. Mun eðlilegra er að þá sé almenningi gefinn kostur á að koma andmælum sínum að.

Um 80. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að hægt sé að veita einkaleyfi fyrir uppfinningum sem ekki teljast einkaleyfishæfar skv. núgildandi lögum. Því er möguleiki á að umsókn, sem lögð er inn fyrir gildistöku laga þessara, verði breytt þannig eftir gildistöku þeirra að hún nái til einhvers sem áður var óeinkaleyfishæft. Það gæti t.d. átt við umsókn um aðferð við framleiðslu ákveðins nautnaefnis sem er breytt þannig eftir gildistöku þessara laga, á grundvelli 13. gr. frv., að umsóknin nái einnig til efnisins sjálfs. Því er í 1. mgr. lagt til að þeim sem við gildistöku laganna hagnýtir uppfinningu, sem ekki var áður hægt að veita einkaleyfi fyrir en það er hægt eftir gildistöku þeirra, sé heimilt að halda þeirri hagnýtingu áfram á sama hátt og gildir um fornotkunarrétt skv. 4. gr. frv.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að einkaréttur sá sem einkaleyfi veitir verði rýmkaður frá því sem er skv. 5. gr. núgildandi laga. Því er í 2. mgr. lagt til að hagnýting, sem hófst fyrir gildistöku laganna og heimil var skv. eldri lögum, verði áfram heimil þeim sem hóf hana á sama hátt og um fornotkunarrétt væri að ræða.

Um 81. gr.


    Frumvarpið hefur í för með sér að fleiri ástæður geta valdið því að uppfinning teljist þekkt og þar með óeinkaleyfishæf. Það verður að teljast óréttlátt að beita ákvæði þessara laga um nýnæmishindrun gagnvart umsókn um uppfinningu sem hefur orðið kunnug almenningi á þann hátt, sem ekki telst nýnæmishindrandi skv. eldri lögum, fyrir gildistöku þessara laga. Því er hér lagt til að ef svo háttar til verði nýnæmi viðkomandi uppfinningar metið á grundvelli eldri laga ef umsókn um einkaleyfi fyrir henni er lögð inn ekki seinna en sex mánuðum eftir gildistöku þessara laga. Þetta á bæði við um mat á nýnæmi uppfinningar á umsóknarstigi og einnig vegna mats á nýnæmi hennar vegna hugsanlegs ógildingarmáls.

Um 82. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Skýrsla iðnaðarráðherra til Alþingis um endurskoðun


löggjafar um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.


(Lögð fyrir Alþingi á 110. löggjafarþingi 1987–88.)




INNGANGUR
    Svo sem fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra var að því stefnt að leggja fram frumvarp til nýrra laga um einkaleyfi á þessu þingi.
    Eftir athugun á máli þessu í ráðuneytinu sl. haust skipaði iðnaðarráðherra 18. nóvember 1987 þrjá sérfróða menn til að vinna að endurskoðun á lögum um einkaleyfi. Eftir viðræður sérfræðinganna við helstu hagsmunaaðila og athugun á réttarþróun meðal annarra þjóða varð ljóst að verk þetta er viðameira en svo að hægt sé að ljúka endurskoðuninni á þessu þingi. Þess í stað var ákveðið að vinna að víðtækari heildarendurskoðun löggjafar á þessu sviði og er stefnt að því að henni verði lokið í október 1988.
    Rétt þykir að gefa Alþingi nú sérstaka skýrslu varðandi endurskoðun löggjafar um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og gera grein fyrir þeirri meginstefnu sem unnið er eftir við endurskoðunina.

I.


    Með erindisbréfi dags. 18. nóvember 1987 fól iðnaðarráðherra þeim Gunnari Erni Harðarsyni tæknifræðingi, Jóni L. Arnalds borgardómara og Þorgeiri Örlygssyni, settum prófessor, að vinna að úttekt vegna endurskoðunar á lögum um einkaleyfi. Var þess óskað að þeir ynnu að úttekt, upplýsingasöfnun og fyrstu tillögugerð, er gæti orðið leiðbeinandi við samningu frumvarps að nýjum einkaleyfalögum.
    Samkvæmt erindisbréfinu var verkefnið einkum fólgið í greiningu og yfirlitskönnun á stöðu einkaleyfamála hérlendis. Markmiðið var að leiða í ljós hverra meginbreytinga væri þörf á núgildandi einkaleyfalögum út frá því grundvallarsjónarmiði að þau þjónuðu sem best þróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Í tengslum við þessa vinnu var einnig óskað eftir ábendingum varðandi vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar að öðru leyti.
    Í erindisbréfinu var lögð á það áhersla að fram færu viðræður við hagsmunaaðila í iðnaði og skyldum starfsgreinum, aðila í stjórnkerfinu og stofnanir og ráðgjafarfyrirtæki á sviði einkaleyfamála.
    Enn fremur var þess óskað að varpað yrði ljósi á helstu þætti í þróun einkaleyfamála á alþjóðavettvangi.

II.


    Starfshópurinn hófst þegar handa við undirbúning og skipulagningu verksins. Haldnir voru fundir með eftirtöldum hagsmunaaðilum:

     1.      Félagi umboðsmanna einkaleyfa og vörumerkja,
     2.      Félagi íslenskra iðnrekenda,
     3.      Landssambandi íslenskra iðnaðarmanna.
     4.      Félagi hugvitsmanna,
     5.      Rannsóknaráði ríkisins,
     6.      fulltrúum frá Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins,
     7.      sóttir voru tveir fundir á vegum SVESI, Samtaka um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
    Þá hélt starfshópurinn fundi með aðilum í stjórnkerfinu og ýmsum sérfræðingum í hugverkarétti.
    Auk þessa hélt starfshópurinn reglulega fundi og fór yfir fyrirliggjandi gögn og stöðu mála.
    Starfshópurinn skilaði frumskýrslu til iðnaðarráðherra þann 29. janúar sl. Í skýrslunni voru settar fram tillögur um endurskoðun gildandi löggjafar á þessu réttarsviði og hvernig skyldi staðið að þeirri endurskoðun. Í skýrslu starfshópsins komu m.a. fram þau atriði sem hagsmunaaðilar töldu brýna þörf á að yrðu endurskoðuð.

III.


    Í framhaldi af viðræðum við hagsmunaaðila og á grundvelli eigin mats á stöðu gildandi einkaleyfalöggjafar gerði starfshópurinn eftirfarandi að tillögu sinni:
     1.      Samið yrði nýtt frumvarp til einkaleyfalaga. Frumvarpið hefði í meginatriðum að leiðarljósi þá stefnu við einkaleyfisvernd, sem mörkuð var í Danmörku við endurskoðun einkaleyfalöggjafar þar. Lögð yrði sérstök áhersla á að rýmka svið laganna og afmarka skýrar gildissvið þeirra frá því sem nú er.
     2.      Jafnhliða samningu nýs einkaleyfafrumvarps yrði hafinn undirbúningur að því að Íslendingar gerðust aðilar að hinum svokallaða PCT-samningi og yrði þá tekin afstaða til þess, hvort ákvæði þess samnings yrðu leidd í íslensk lög í nýjum einkaleyfalögum eða hvort það yrði gert með sérstökum lögum.
     3.      Lögum nr. 102/1061, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, verði breytt þannig að Stokkhólmsgerð hennar hafi lagagildi hér á landi.
     4.      Fyrirliggjandi frumvarp um mynsturvernd verði endurskoðað, m.a. með hliðsjón af þróun víðtækari verndar á þessu sviði annars staðar á Norðurlöndum og víðar og lagt fram þannig.
     5.      Samið verði sérstakt frumvarp um stofnun sjálfstæðrar skrifstofu, er annist einkaleyfa-, vörumerkja- og mynsturskráningar.
     6.      Samið verði frumvarp um hugverkalega réttarstöðu þeirra manna, er vinna að uppfinningum í þjónustu annarra.

IV.


     1.      Um þörfina fyrir endurskoðun gildandi laga um einkaleyfi.
    Gildandi lög um einkaleyfi á Íslandi (lög nr. 12/1923) eru 65 ára gömul. Frá gildistöku laganna hefur þróun í einkaleyfisrétti á alþjóðavettvangi verið hröð og hefur lögunum ekki verið breytt til samræmis við þá þróun. Vegna alþjóðlegs eðlis einkaleyfisverndar er brýn nauðsyn fyrir Íslendinga að fylgja slíkri alþjóðlegri þróun eftir.
    Annmarkar á gildandi löggjöf eru m.a. eftirtaldir:
     a.      Svið einkaleyfisverndar er um margt óljóst markað í 1. gr. gildandi laga og of þröngt miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað erlendis. Þannig má nefna, að óljóst er samkvæmt gildandi lögum hvort unnt er að fá einkaleyfisvernd á aðferðum á sviði örverulíffræði og afurðum slíkra aðferða. Þá má og nefna að réttur manna er takmarkaður til þess að öðlast einkaleyfi á uppfinningum á læknislyfjum og næringar- og neysluefnum, en erlendis er farið að veita einkaleyfi á slíkum uppfinningum í sívaxandi mæli.
     b.      Ákvæði gildandi laga um svokallað nýnæmi uppfinninga er óljóst og í ósamræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar. Nýnæmi varðar birtingu, nýtingu eða sýningu uppfinningar. Er þörf á skýrari ákvæðum um það efni í lögum.
     c.      Tími einkaleyfisverndar hér á landi er 15 ár frá dagsetningu leyfisbréfs en almennt 20 ár frá umsóknardegi víðast hvar erlendis. Hér þarf samræming að koma til.
     d.      Samkvæmt ákvæðum 13. gr. gildandi laga fer auglýsing umsóknar fram innan 6 mánaða frá því að hún er innlögð. Þegar umsóknin hefur verið auglýst hafa allir aðgang að umsókninni og þeim lýsingum á uppfinningu sem hún hefur að geyma. Eftir slíka auglýsingu telst uppfinningin hafa verið birt opinberlega. Víðast hvar erlendis er þessi frestur 18 mánuðir. Gildandi regla hérlendis getur því skert möguleika umsækjenda á því að sækja um einkaleyfi erlendis. Þarfnast það breytinga.
     e.      Frestur til andmæla skv. 14. gr. er stuttur og ekki í samræmi við það sem þekkist annars staðar í heiminum.
     f.      Reglur gildandi laga um meðferð einkaleyfisumsókna eru mjög af skornum skammti og ófullkomnar.
     g.      Kröfum um gerð og frágang umsókna er áfátt og er þörf úrbóta á því sviði.
     h.      Ákvæði um viðbótareinkaleyfi eru úrelt og hafa víða erlendis verið felld brott. Ákvæði um undanþágur varðandi uppfinningar, sem sýndar hafa verið á alþjóðlegum sýningum, þarfnast endurskoðunar.

     2.      Aðild Íslands að einkaleyfasamstarfssamningnum (PCT).
    Samningur þessi, sem undirritaður var í Washington D.C. árið 1970, var gerður að tilhlutan WIPO (World Intellectual Property Organization). Undirbúningur að gerð samningsins hófst upp úr 1960.
    Meginmarkmið samningsins er að koma í veg fyrir tvíverknað við rannsóknir einkaleyfisumsókna þegar sótt er um vernd í mörgum ríkjum samtímis. Aðilar að samningnum eru flest stórveldin, flest ríki Vestur-Evrópu og Norðurlöndin að Íslandi undanskildu. Með samningnum var sett á laggirnar samband aðildarríkjanna til alþjóðlegrar samvinnu á sviði einkaleyfisverndar.
    Rannsókn á einkaleyfishæfni og nýnæmi er miðstýrt skv. samningnum, en þó er tekin endanleg afstaða til veitingar einkaleyfis í hverju landi fyrir sig. Innlagning umsóknar í einu landi, sem er aðili að PCT (Patent Cooperation Treaty), hefur þau réttaráhrif að litið er svo á að umsóknin sé einnig lögð inn í þeim PCT-löndum þar sem verndar er jafnframt óskað.
    Samningurinn gerir ráð fyrir alþjóðlegri einkaleyfisumsókn þegar óskað er verndar í mörgum löndum samtímis. Gerðar eru skýrar og ítarlegar formkröfur til umsóknar. Rannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfni fer fram hjá alþjóðlegri stofnun sem viðurkennd er sérstaklega til þess samkvæmt PCT-samningum. Er ætlunin að þær stofnanir, sem eru stærstar og búa yfir bestri þekkingu og getu, framkvæmi slíkar rannsóknir fyrir aðildarríkin. Sænska einkaleyfastofnunin og sú breska hafa t.d. verið viðurkenndar til slíkra rannsókna.
    Þegar umsækjandi hefur fengið umsögn um bæði nýnæmið og hæfnina getur hann tekið afstöðu til þess hvort hann afturkallar umsóknina, endurbætir hana eða leggur hana inn til umsóknar í einstökum löndum.
    Eins og áður sagði eru einstök lönd ekki bundin við niðurstöður rannsókna hjá viðkomandi rannsóknastofnun. Tilgangurinn með þessari miðstýringu er að létta álagi af skráningarskrifstofu í hverju landi. Samningsríkin eru frjáls að því að ákveða umfang einkaleyfisverndar hvert í sínu landi og því þarf ekki að gera efnislegar breytingar á gildissviði löggjafar í hverju ríki til innbyrðis samræmis.
    PCT-samningurinn hefur auk þess að geyma ákvæði sem stuðla að tækniframförum í þróunarlöndunum og auðvelda þeim aðgang að nútímatækni.
    Kostir aðildar að PCT-samningnum eru fyrst og fremst þeir að málsmeðferð umsókna verður stöðluð og umsækjandinn getur, áður en hann sækir um í einstökum löndum, aflað sér upplýsinga um nýnæmi og hæfni umsóknarinnar. Hann getur þannig myndað sér rökstudda skoðun um hvort æskilegt sé fyrir hann að halda áfram. Með þessum samningi ávinnst og það að vinna við umsóknir verður léttari fyrir yfirvöld.
    Um það er deilt hvort aðild að PCT-samningnum hafi í för með sér lægri útgjöld fyrir umsækjendur þegar sótt er um í mörgum löndum samtímis. Líkur eru á því að ef litið er til lengri tíma þá muni PCT-fyrirkomulagið hafa sparnað í för með sér fyrir umsækjendur. Þá er og ljóst að PCT-fyrirkomulagið hefur í för með sér frestun útgjalda fyrir umsækjendur og léttir þeim róðurinn í upphafi.

     3.      Staðfesting Stokkhólmsgerðar Parísarsamþykktarinnar.
    Parísarsamþykktin svokallaða um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar er upprunalega frá árinu 1883 en hefur margsinnis verið endurskoðuð, m.a. í London 2. júní 1934, í Lissabon 31. október 1958 og í Stokkhólmi 14. júlí 1967. Um 100 ríki eru aðilar að samþykktinni.
    Markmið Parísarsamþykktarinnar er að tryggja að eigandi eignarréttinda á sviði iðnaðar í sérhverju aðildarríki geti sem best náð réttarvernd í hinum aðildarríkjunum. Öll Norðurlöndin nema Ísland hafa fullgilt Stokkhólmstexta samþykktarinnar í heild sinni.
    Með lögum nr. 102 28. desember 1961 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta samþykktina fyrir Íslands hönd. Það var gert og fékk hún lagagildi hér á landi frá 5. mars 1962. Ísland fullgilti þá Lundúnatextann frá 1934.
    Hinn 28. september 1984 gerðist Ísland aðili að Stokkhólmstexta samþykktarinnar, þó með þeim fyrirvara að fyrstu tólf greinar textans voru undanskildar. Hvað efnissvið þeirra greina varðar gildir Lundúnatextinn því áfram.
    Aðildarríki Parísarsamþykktarinnar hafa stofnað með sér samband til verndar eignarréttindum á sviði iðnaðar, svo sem það er nánar skilgreint í samþykktinni. Hún byggir á fjórum grunnreglum: Í fyrsta lagi að sambandsríkin séu skyld til að veita borgurum annarra sambandsríkja sömu lögvernd og þau veita eigin borgurum. Í öðru lagi á reglunni um lágmarksvernd sem felur í sér ákvæði um þá lágmarksvernd sem löggjöf sambandsríkis verður að uppfylla gagnvart borgurum annarra sambandsríkja. Þessi regla hefur leitt til lagasamræmingar, t.d. á Norðurlöndum. Í þriðja lagi er um að ræða regluna um forgangsrétt samkvæmt samþykktinni. Sú regla felur í sér að sé fyrst lögð inn umsókn um veitingu ákveðins einkaleyfis í einu sambandsríki og síðar innan ákveðins frests (eins árs) í einu eða fleiri hinna sambandsríkjanna, þá skuli líta svo á að síðari umsóknirnar hafi verið lagðar inn samtímis þeirri fyrstu. Í fjórða lagi er um að ræða regluna um sjálfstæða réttarvernd hvers ríkis. Hún felur það í sér að réttarvernd einkaleyfis gildi sjálfstætt í hverju ríki fyrir sig. Ef skilyrði fyrir vernd er ekki uppfyllt í einu sambandsríki kemur það ekki eitt sér í veg fyrir að vernd eða réttur geti komist á eða verið til staðar í öðru sambandsríki.
    Ísland hefur þegar staðfest 13.–30. gr. Stokkhólmsgerðarinnar. Þessar greinar hafa að geyma skipulagsákvæði, einkum stofnsetningu WIPO en efnishluta Stokkhólmsgerðarinnar (1.–12. gr.) hefur Ísland enn ekki staðfest.
    Efnishluti Stokkhólmsgerðarinnar hefur að geyma ýmsar breytingar til bóta bæði hvað varðar einkaleyfi og ekki hvað síst vörumerki og er æskilegt að Ísland staðfesti einnig efnishlutann og fylgi þannig alþjóðlegri þróun á þessu sviði.

     4.      Framlagning frumvarps til laga um mynstur.
    Svokölluð vörumerkjalaganefnd, sem skipuð var 1961, skilaði frumvarpi til laga um mynsturvernd til iðnaðarráðuneytisins árið 1975. Frumvarpið var aldrei lagt fram. Það var endurskoðað fyrri hluta árs 1986 og var ætlunin að leggja það fram þá um haustið. Af því varð þó ekki. Í viðræðum starfshópsins við hagsmunaaðila kom það glöggt í ljós að ýmsir þeir sem hér á landi starfa að framleiðslu og iðnhönnun, töldu það vera mjög til bóta ef hér á landi væri í gildi löggjöf um mynsturvernd. Gerði starfshópurinn það að tillögu sinni að fyrirliggjandi frumvarp í iðnaðarráðuneytinu um mynsturvernd verði lagt fram samhliða nýju einkaleyfafrumvarpi. Verður að telja að sú vernd sem höfundalögin veita mynstrum sé ófullnægjandi fyrir iðnaðarmynstur. Þá er bað og eðlilegastur skilningur á ákvæðum Lundúnatexta Parísarsamþykktarinnar, sem Íslendingar eru aðilar að, að okkur er skylt að hafa hér á landi löggjöf um mynsturvernd. Það er á hinn bóginn ótvírætt að hér á landi ber að hafa mynsturlöggjöf ef við gerumst aðilar að efnisákvæðum Stokkhólmsgerðar Parísarsamþykktarinnar.
    Samkvæmt 1. gr. áðurnefnds frumvarps um mynsturvernd merkir mynstur, í skilningi frumvarpsins, fyrirmynd að útliti vöru eða fyrirmynd að skreytingu hennar. Með skráningu samkvæmt frumvarpinu getur hver sá sem gert hefur mynstur fengið einkarétt til þess að nýta sér mynstrið í atvinnuskyni. Samkvæmt þessu felur mynsturréttur í sér vernd gegn því að aðrir en mynstureigandinn nýti sér mynstrið í atvinnuskyni við framleiðslu, innflutning, útboð, sölu eða leigu á vörum sem ekki eru að verulegu leyti frábrugðnar mynstrinu.
    Að frátöldum skrautmynstrum er hægt að fá skráð sem mynstur fyrirmynd að útliti á öllu því sem venjulegt er að kalla vöru í hefðbundnum skilningi þess orðs. Má hér sem dæmi nefna fyrirmynd að útliti á borðum og stólum, kaffikönnum, lömpum o.s.frv. Það er einvörðungu útlit vörunnar sem notið getur verndar samkvæmt mynsturlögum. Þá er og rétt að taka fram að mynsturskráning veitir ekki vernd á tæknilegum þáttum eða eiginleikum vöru. Vernd slíkra eiginleika færi eftir einkaleyfalöggjöf ef um tæknilegar nýjungar væri að ræða.
    Segja má að mynsturvernd hafi tvenns konar tilgang. Í fyrsta lagi veitir hún þeim hugvitsmanni sem hannað hefur nýtt form, nýjan búnað eða skreytingu vöru vernd gegn því að aðrir nýti sér það hugverk hans í atvinnuskyni. Í öðru lagi leiðir það af vernd mynsturlaga að sá framleiðandi sem lagt hefur í kostnað við að hanna vöru með tilteknu útliti, skreytingu eða formi, mundi í skjóli laganna öðlast tryggingu fyrir því að aðrir framleiðendur komi ekki á markaðinn með vörur sem hafa sama form eða sömu skreytingu.
    Mynstur njóta að vísu verndar samkvæmt gildandi höfundarlögum en hún er takmörkuð. Verndin takmarkast við það að kröfum um listrænt gildi sé fullnægt. Það getur ávallt verið matsatriði hvenær kröfum um listrænt gildi er fullnægt og má því segja að í raun sé sú vernd sem höfundarlögin veita mynstrum harla ófullkomin. Er því fyllsta ástæða til þess að stíga skrefið til fulls og veita mynstrum réttarvernd án tillits til þess hvort það fullnægir kröfum um listrænt gildi eða ekki. Iðnaðarráðuneytið hefur því ákveðið að endurskoðað frumvarp um mynsturvernd verð lagt fram um leið og frumvarp til nýrra laga um einkaleyfi.

     5.      Stofnun skráningarskrifstofu.
    Framangreindar tillögur um gagngera endurskoðun einkaleyfalaganna, um aðild okkar að hinum svokallaða PCT-samningi og um mynsturvernd fela í sér svo róttækar breytingar á gildandi fyrirkomulagi þessara mála að óhjákvæmilegt hlýtur að teljast að sett verði á laggirnar sjálfstæð skráningarskrifstofa, er annist skráningar þessar. Við ríkjandi aðstæður verður að telja að iðnaðarráðuneytið sé ekki í stakk búið að taka að sér þetta verkefni. Má einnig segja að það sé eðlilegra að svo umfangsmikil afgreiðslustörf fari fram á sérstakri skrifstofu en ekki í ráðuneytinu sjálfu.
    Ætla verður að tekjur af einkaleyfa-, vörumerkja- og mynsturskráningum mundu að verulegu ef ekki öllu leyti geta staðið undir rekstrarkostnaði slíkrar skrifstofu. Löggjöfin gerir ráð fyrir því að gjöld þessi séu til þess að standa undir þjónustu ríkisins á þessu sviði en séu ekki sérstök skattheimta. Má því segja að þeir sem hagsmuna eiga að gæta eigi kröfu til þess að fá þjónustu í samræmi við gjöldin.
    Rétt er að benda á það hér til samanburðar að víðast hvar erlendis er fyrirkomulag skráningar á þá lund að sérstakar skráningarskrifstofur annast skráningarstarfsemina.

     6.      Frumvarp um hugverkalega réttarstöðu þeirra manna er starfa í þjónustu annarra að uppfinningum.
    Í viðræðum starfshópsins við hagsmunaaðila, einkum fulltrúa frá ríkisstofnunum sem starfa að rannsóknarverkefnum, kom fram að hér eru á ferðinni mörg óleyst vandamál sem brýnt er að leysa. Vandamálin eru helst fólgin í því að ágreiningur kemur upp á milli rannsóknarstofnana og fyrirtækja annars vegar og starfsmanna þeirra hins vegar um eignarréttinn að einkaleyfum á þeim uppfinningum sem verða til í rannsóknarstarfsemi stofnananna.
    Einstakar stofnanir og fyrirtæki hafa reynt að leysa þetta vandamál með samningum við starfsfólk sitt en neiti starfsfólk að skrifa undir slíka samninga er vandinn óleystur. Því er þörf á lagasetningu er setji almennar reglur um hugverkalega réttarstöðu starfsfólks. Líklegt er að setning slíkrar löggjafar geti verkað hvetjandi fyrir starfsfólk, sérstaklega ef því er tryggð í lögum hlutdeild í tekjum af þeim uppfinningum sem það hefur átt þátt í að skapa.

V.


    Iðnaðarráðuneytið hefur lagt á það áherslu við starfshópinn að hann ljúki við að semja frumvarp til nýrra einkaleyfislaga fyrir 1. október nk. Þá verði einnig lokið samningu frumvarps um aðild okkar að PCT-samningnum og um stofnun sjálfstæðrar skráningarskrifstofu. Er ætlunin að leggja þessi frumvörp ásamt frumvarpi til mynsturlaga fram í þingbyrjun næsta haust. Telur starfshópurinn sig þurfa tíma fram til haustsins að ljúka þessu verki.
    Þá hefur iðnaðarráðuneytið lagt á það áherslu við starfshópinn að strax og lokið er við að semja þau frumvörp sem að framan getur verði samið frumvarp um hugverkalega réttarstöðu starfsmanna sem vinna að uppfinningum í þágu annarra. Jafnframt skal samið frumvarp um gildistöku efnishluta Stokkhólmsgerðar Parísarsamþykktarinnar.


Fylgiskjal II.


Um upphaf einkaleyfaverndar og alþjóðasamstarf.



1.0. Sögulegt yfirlit.


    Uppfinningar eru undirstaða tækniframfara í hverju landi. Frá örófi alda hefur uppfinningamönnum verið umbunað á ýmsan hátt til að hvetja þá til frekari dáða. Einvaldar fyrri tíma veittu einstökum uppfinningamönnum ýmis sérréttindi, sem m.a. fólust í einkarétti til að hagnýta uppfinninguna í ákveðinn tíma. Þessi sérréttindi, sem byggðust á handahófskenndu og pólitísku ákvörðunarvaldi einvaldanna, eru forverar einkaleyfa í nútímaskilningi. Fyrstu einkaleyfalögin, sem kváðu á um almennar reglur um veitingu einkaleyfa, voru sett í Feneyjum 1474. Þau veittu uppfinningamönnum 10 ára einkarétt á að hagnýta nýjar og gagnlegar uppfinningar. Jafnframt var það skilyrði að uppfinningin yrði hagnýtt innan ákveðins tíma. Þessi lög höfðu því flesta megindrætti nútímalöggjafar um einkaleyfi. Aðrar þjóðir fylgdu þó ekki í kjölfarið og næstu einkaleyfalög voru ekki sett fyrr en 1623 í Englandi. Þau lög afnámu reyndar áður útgefin „einokunarleyfi“ og lögðu bann við útgáfu nýrra. Þó var sú mikilvæga undantekning þar á að hægt var að veita einkaleyfi til 14 ára fyrir uppfinningum sem fólu í sér nýja framleiðsluhætti áður óþekkta í Englandi og töldust til almenningsheillar. Næsta mikilvæga skref í þróun einkaleyfalöggjafar var setning einkaleyfalaga í Bandaríkjum Norður-Ameríku 1790 og í Frakklandi 1791. Þessi lög áttu rót sína að rekja til þeirra pólitísku byltinga sem höfðu átt sér stað í þessum löndum og byggðust á þeirri kenningu að einstaklingar hefðu eðlislægan eignarrétt á hugverkum sínum.
    Iðnbyltingin, sem hófst á 18. öld, var helsti hvatinn að nútíma einkaleyfalöggjöf. Það er þó ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar að flest iðnríki heims eru komin með einkaleyfalöggjöf í nútímaskilningi. Þróun á alþjóðavettvangi, þ.e. undirritun og gildistaka Parísarsáttmálans árið 1883 um alþjóðavernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, hafði þar mikil áhrif. Löggjöf einstakra landa þróaðist þó á mismunandi hátt og var byggð á ólíkum hugmyndafræðilegum grunni. Ýmis rök fyrir veitingu einkaleyfa hafa séð dagsins ljós í tímans rás. Þó að ekki þurfi að rökstyðja eða réttlæta veitingu einkaleyfa nú eru þau rök og sjónarmið, sem jafnan hafa verið notuð til að réttlæta einkaréttinn, enn áhugaverð því að þau skýra margar meginreglur einkaleyfaréttarins. Af þeim rökum, sem hafa haft mest gildi, má fyrst nefna umbunarsjónarmiðið, þ.e. að uppfinningamaðurinn eigi rétt á umbun fyrir framlag sitt til tækniframfara. Skylt því er hvatningarsjónarmiðið, þ.e. að líta má á einkaréttinn til að hagnýta uppfinninguna og þar með möguleika á fjárhagslegum ábata einkaleyfishafa sem umbun og hvatningu til frekari uppfinninga. Eignarréttarsjónarmiðið byggist á náttúrurétti. Uppfinningamaðurinn á eðlislægan eignarrétt á hugverki sínu. Að lokum er það opinberunarsjónarmiðið. Hér er viðmiðunin sú að sá sem sækir um einkaleyfi er tilbúinn að birta almenningi lýsingu á uppfinningu sinni í stað þess að hagnýta hana með leynd. Birtingin er forsenda þess að aðrir geti kynnt sér uppfinninguna og þannig verður hún grundvöllur áframhaldandi tækniþróunar. Þess vegna á sá sem sækir um einkaleyfi rétt á þeirri umbun sem felst í einkaréttinum.
    Öll ofangreind rök mæla með einkarétti einkaleyfishafa. Hins vegar eru líka sterk rök byggð á almannahagsmunum sem mæla gegn einkaréttinum. Þjóðfélaginu er nauðsyn að tækniframfarir komi öllum þegnum þess til góða. Enn fremur er nauðsynlegt að einkarétturinn hindri ekki áframhaldandi þróun tækni og vísinda. Þessi sjónarmið hafa leitt til þess að einkarétturinn hefur ávallt verið takmarkaður. Mikilvægasta takmörkunin er gildistími einkaleyfa sem er yfirleitt 15–20 ár. Auk þess eru í einkaleyfalögum flestra ríkja ákvæði um að uppfinningin skuli hagnýtt innan ákveðins tíma. Sé það ekki gert má veita svokallað nauðungarleyfi, þ.e. öðrum er leyfð hagnýting uppfinningar án samþykkis einkaleyfishafa.
    Áhersla á almannahagsmunum annars vegar og einkarétti einkaleyfishafa hins vegar hefur verið mismunandi frá landi til lands. Þannig veita þjóðir með miðstýrt efnahagskerfi mjög sjaldan einkaleyfi og einkaleyfishafar þar hafa mjög takmarkaða möguleika til að nýta einkaleyfi sín. Uppfinningamenn í þessum löndum eiga hins vegar kost á að fá útgefið svokallað „uppfinningaskírteini“ sem veitir ríkinu einkarétt á hagnýtingu uppfinningar gegn endurgjaldi til skírteinishafa.
    Tvær meginstefnur ríkja um framkvæmd varðandi veitingu einkaleyfa. Annars vegar er „rannsóknakerfið“, sem byggist á því að einkaleyfisbeiðnin er rannsökuð með tilliti til einkaleyfishæfi uppfinningarinnar áður en einkaleyfi er veitt, og hins vegar „skráningakerfið“, þar sem einkaleyfi eru veitt á grundvelli skráningar án forrannsóknar. Grundvallarmunur þessara tveggja aðferða er að einkaleyfayfirvöld í löndum, sem aðhyllast rannsóknakerfið, úrskurða um hvort uppfinning uppfylli kröfur um einkaleyfishæfi og umsækjandi þarf að setja fram nákvæmar kröfur í umsókn sem afmarka andlag og umfang einkaréttarins. Einkaleyfayfirvöld í löndum, sem aðhyllast skráningakerfið, hafa ekki úrskurðarvald um einkaleyfishæfi uppfinninga, heldur hafa dómstólar einir lögsögu um gildi og umfang veittra einkaleyfa. Báðar aðferðir gera ráð fyrir opinberri birtingu umsókna og/eða veittra einkaleyfa. Rannsóknakerfið hefur löngum verið talið tryggja hagsmuni einkaleyfishafa betur þar sem gildi veittra einkaleyfa er tryggara eftir forrannsókn umsókna. Þar á móti kemur að skráningakerfið er mun einfaldara í sniðum og þar af leiðandi mun fljótlegra og ódýrara í framkvæmd.
    Öll iðnríki heims byggja á annarri hvorri framangreindra aðferða í mismunandi útfærslum. Bandaríkjamenn urðu fyrstir til að taka upp rannsóknakerfið og þeir hafa kannað nýnæmi og einkaleyfishæfi umsókna frá 1836. Bretar tóku upp takmarkaða rannsókn umsókna 1883 sem síðan hefur verið aukin stig af stigi. Það var þó ekki fyrr en með núgildandi einkaleyfalögum sem voru sett 1977 að fullkomin rannsókn umsókna var tekin upp í Bretlandi. Þjóðverjar, Japanir og norrænu þjóðirnar byggja einkaleyfaframkvæmd sína á nákvæmri rannsókn umsókna. Frakkar og Belgar eru meðal þeirra þjóða sem enn aðhyllast skráningakerfið. Frakkar hafa þó nýlega breytt sínum lögum og m.a. var nýnæmisrannsókn tekin upp, sem er skref í átt að rannsóknakerfi.
    Þrátt fyrir að rannsóknakerfið tryggi betur gildi útgefinna einkaleyfa og þar með hagsmuni iðnaðarins, þá er aðferðin ekki gallalaus. Helsti annmarkinn er hversu tímafrek rannsókn umsókna er. Með auknum tækniframförum hefur fjöldi umsókna margfaldast undanfarin ár og einkaleyfaskrifstofur átt æ erfiðara með að anna þeirri fjölgun. Það getur því tekið mörg ár að fá einkaleyfi útgefið. Því tóku nokkur lönd, þar á meðal Holland, Vestur-Þýskaland og Japan, upp svokallað „biðrannsóknakerfi“ á sjötta áratugnum. Það kerfi er byggt á því að efnisrannsókn er frestað. Upphaflega er umsókn aðeins rannsökuð með tilliti til formgalla. Efnisrannsókn fer síðan aðeins fram að beiðni umsækjanda eða þriðja aðila og gegn greiðslu rannsóknargjalds. Ef beiðni um efnisrannsókn er ekki borin upp innan ákveðins tíma, oftast 5–7 ára, fellur umsóknin úr gildi. Til að halda umsókninni í gildi í millitíðinni þarf að borga árgjald, svipað og fyrir útgefin einkaleyfi. Þar sem stór hluti einkaleyfisverndaðra uppfinninga reynist ekki hagnýtar er þeim ekki haldið í gildi nema í nokkur ár. Því hlýst vinnusparnaður af þessu fyrirkomulagi. Hins vegar eru á því sömu annmarkar og á skráningakerfinu, þ.e. áður en efnisrannsókn fer fram er óvíst um gildi og umfang á vernd uppfinningarinnar.

2.0. Alþjóðasamstarf um vernd einkaleyfa.


    Mikil samræming hefur orðið á framkvæmd og efnisrétti einkaleyfalaga ríkja fyrir tilstilli alþjóðasamvinnu. Fyrsti árangur þeirrar samvinnu var undirritun Parísarsáttmálans 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Var hann nánast eini alþjóðasáttmálinn á sviði einkaleyfa fram yfir seinni heimsstyrjöld. Þá kom mikill fjörkippur í alþjóðasamstarf á þessu sviði sem öðrum, sérstaklega í Vestur-Evrópu.

2.1. Parísarsáttmálinn frá 1883.


    Auknar samgöngur og alþjóðaviðskipti í kjölfar iðnbyltingarinnar sköpuðu þörf á alþjóðlegri vernd einkaleyfa. Þörf á alþjóðlegum reglum var sérstaklega brýn þar sem einkaleyfi voru yfirleitt ekki veitt nema til ríkisborgara viðkomandi landa. Flestar þjóðir heimiluðu „innflutning“ uppfinninga, þ.e. einkaleyfi var veitt þeim sem fyrstur kynnti uppfinninguna í viðkomandi landi óháð því hvort hún væri í raun eign annars og vernduð sem slík í öðru landi. Uppfinningar sem og önnur hugverk er auðvelt að flytja milli landa og vegna skorts á alþjóðasamvinnu gátu einkaleyfishafar ekki hindrað „milliríkjastuld“ á uppfinningum. Nokkrar þjóðir bundust því um það samtökum á seinni hluta nítjándu aldar að finna lausn á þessum vanda. Árangur þeirrar samvinnu var undirritun Parísarsáttmálans um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar 20. mars 1883. Aðildarríki voru upphaflega aðeins 11, en voru orðin 100 1. janúar 1990.
    Sáttmálinn tekur til allra eignarréttinda á sviði iðnaðar. Hann byggist á nokkrum grundvallarreglum sem eru sameiginlegar fyrir öll þau eignarréttindi sem hann tekur til. Fyrsta grundvallarreglan er að aðildarríki eru skyld til að veita borgurum og fólki, sem búsett er í aðildarríkjum, sömu lögvernd og þau veita eigin borgurum. Því er ekki lengur hægt að neita aðila um einkaleyfi eingöngu vegna þess að hann sé útlendingur, nema viðkomandi komi frá landi sem ekki er aðili að sáttmálanum. Önnur grundvallarreglan miðar að því að auðvelda mönnum að sækja um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu í mörgum löndum. Flest iðnríki byggja nú orðið á ótakmörkuðu nýnæmi. Ótakmarkað nýnæmi felur í sér að allt sem talið er þekkt á innlagningardegi umsóknar er tekið til greina við mat á nýnæmi uppfinningarinnar. Skiptir þá ekki máli í því sambandi í hvaða formi birting hefur átt sér stað né hvar í heiminum eða hvenær. Það er því vandkvæðum bundið að sækja um einkaleyfi í mörgum löndum því að til að uppfylla skilyrði um nýnæmi þyrftu umsóknir að vera lagðar inn samdægurs í öllum þeim löndum sem verndar er óskað í. Parísarsáttmálinn kveður því á um forgangsrétt til umsókna. Samkvæmt honum á sá sem leggur inn umsókn í einu aðildarlandi forgangsrétt á því að leggja inn umsóknir varðandi sömu uppfinningu í öðrum aðildarríkjum innan tólf mánaða frá fyrstu umsókn. Seinni umsóknir, sem umsækjandi leggur inn í öðrum ríkjum innan árs, teljast hafa sama innlagningardag og fyrsta umsóknin. Þriðja grundvallarreglan er um sjálfstæði réttarverndar hvers ríkis. Ef umsókn um einkaleyfi er hafnað í einu aðildarríki kemur það eitt sér ekki í veg fyrir að einkaleyfi verði veitt í öðru aðildarríki. Sama á við um allar aðrar ákvarðanir um einkaleyfi, svo sem veitingu eða ógildingu. Að lokum byggist sáttmálinn á reglum um ákveðna lágmarksvernd sem hvert aðildarríki verður að veita ríkisborgurum annarra ríkja. Þessi regla var sett til að stuðla að samræmingu og aukinni vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Ef aðildarríki samræmir ekki löggjöf sína ákvæðum sáttmálans um lágmarksvernd getur það leitt til þess að erlendir ríkisborgarar eigi betri rétt í því ríki en eigin þegnar þess.
    Helstu ákvæði sáttmálans um lágmarksvernd uppfinninga eru eftirfarandi: Uppfinningamaður á rétt á að vera tilgreindur sem slíkur í einkaleyfi. Þetta ákvæði er til að tryggja siðferðilegan rétt uppfinningamanns til uppfinningar sinnar. Þar sem flest einkaleyfi eru nú orðið veitt til annarra en uppfinningamannsins sjálfs, ýmist vegna þess að atvinnurekandi hans á betri rétt til einkaleyfisins skv. lögum eða samningi eða vegna framsals, þá er þetta mikilvægt ákvæði. Í öðru lagi má ekki neita að veita einkaleyfi fyrir uppfinningu eða ógilda einkaleyfi vegna þess að bannað sé að selja þær afurðir sem af hagnýtingu uppfinningarinnar leiðir eða vegna annarra takmarkana á hagnýtingu hennar. Mikilvægasta og umdeildasta ákvæðið um einkaleyfi varðar hagnýtingu þess. Frá upphafi hafa lög um einkaleyfi lagt ríka áherslu á hagnýtingu uppfinninga, enda einn megintilgangur verndar að auka tæknivæðingu þjóða. Þegar til Parísarsáttmálans var stofnað var í flestum löndum hægt að ógilda einkaleyfi væri það ekki hagnýtt innan ákveðins tíma. Ljóst er að erfitt og óhagkvæmt getur verið að nýta uppfinningu í öllum þeim löndum þar sem hún nýtur einkaleyfisverndar. Því var snemma reynt að milda viðurlög við því að vernduð uppfinning væri ekki hagnýtt. Á móti kemur hins vegar það sjónarmið að vernduð uppfinning kemur ekki landsmönnum að gagni nema hún sé hagnýtt í viðkomandi landi. Á það helst við þau ríki sem skammt eru komin í tækniþróun. Hafa ákvæði um hagnýtingu uppfinninga því frá upphafi verið eitt helsta bitbein aðildarríkja Parísarsáttmálans. Núgildandi reglur sáttmálans kveða á um að aðildarríki megi heimila útgáfu nauðungarleyfa til handa þriðja aðila til að hagnýta einkaleyfi til að sporna við misbeitingu einkaréttarins. Tilvik, sem m.a. telst misbeiting, er ef hagnýting einkaleyfis hefur ekki hafist innan ákveðins tíma og einkaleyfishafi hefur ekki gildar ástæður fyrir þeim drætti. Ógilding einkaleyfis vegna þess að einkaleyfi hefur ekki verið hagnýtt er óheimil nema nauðungarleyfi hafi ekki borið árangur.
    Parísarsáttmálinn hefur verið endurskoðaður sex sinnum frá því að hann tók gildi. Hver endurskoðun þýðir í raun að nýr sáttmáli er gerður og þurfa aðildarlöndin að fullgilda hina endurskoðuðu gerð hans. Þar til fullgilding hefur átt sér stað eru ríkin bundin af eldri gerð sáttmálans. Aðildarríkin eru því bundin af mismunandi gerðum sáttmálans þó að flest hafi fullgilt síðustu endurskoðun sem var gerð í Stokkhólmi 1967. Ný aðildarlönd geta þó ekki valið milli eldri gerða sáttmálans heldur þurfa þau að fullgilda síðustu endurskoðun hans. Ísland gerðist aðildarríki Parísarsáttmálans 1961 og fullgilti þá Lundúnagerð hans frá 1934. Formreglur Stokkhólmsgerðar sáttmálans voru fullgiltar á Íslandi 1984, sbr. auglýsingu nr. 17 frá 1984, en efnisreglurnar undanskildar og því gildir efnisréttur Lundúnagerðarinnar enn hér á landi.

2.2. Alþjóðahugverkastofnunin.


    Alþjóðahugverkastofnunin (World Intellectual Property Organization eða WlPO) var stofnuð með sérstökum sáttmála í Stokkhólmi 1967. WIPO tók við stjórn og rekstri Parísarsáttmálans um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Áður hafði umsjá sáttmálans verið á höndum alþjóðaskrifstofu (BIRPI) sem heyrði formlega undir svissnesku ríkisstjórnina. Tilgangur með stofnun Alþjóðahugverkastofnunarinnar var að samræma og efla alþjóðasamvinnu á öllum sviðum hugverkaréttar. Stofnunin hefur því umsjón með helstu alþjóðasamningum um eignarréttindi á sviði iðnaðar og á sviði höfundaréttar. Hún vinnur að samræmingu löggjafar aðildarríkja sinna varðandi hugverkarétt, sér um alþjóðaskrásetningar, veitir ráðgjöf og safnar og miðlar upplýsingum. Frá 1974 hefur Alþjóðahugverkastofnunin verið ein af sérfræðistofnunum Sameinuðu þjóðanna. Höfuðstöðvar WIPO eru í Genf. Aðildarlönd sáttmálans um Alþjóðahugverkastofnunina voru orðin 1261. janúar 1990. Ísland gerðist aðili að Alþjóðahugverkastofnuninni 13. júní 1986, sbr. auglýsingu nr. 11/1986 í C-deild Stjórnartíðinda.

2.3. Samstarfssáttmálinn um einkaleyfi (PCT).


    Ein af meginreglum einkaleyfaréttarins er forráðasvæðisreglan. Hún felur í sér að vernd uppfinninga skv. einkaleyfi nær eingöngu til þess lands sem veitir einkaleyfið. Ef óskað er verndar á sömu uppfinningu í fleiri löndum þarf því að sækja um einkaleyfi í hverju landi fyrir sig, og hefur það í för með sér margfalda vinnu umsækjanda og skráningayfirvalda. Því var snemma byrjað að ræða möguleikann á „alþjóðaeinkaleyfi“, þ.e. einkaleyfi sem gildir í mörgum löndum. Það var eitt af upphaflegum markmiðum upphafsmanna Parísarsáttmálans frá 1883. Því markmiði hefur enn ekki verið náð og þykir ólíklegt að svo verði í náinni framtíð. Hins vegar hefur meiri árangur náðst við að samræma og koma á alþjóðlegri miðstýringu umsókna og rannsókna á þeim.
    Á sjötta áratugnum fjölgaði umsóknum um einkaleyfi mikið og þau lönd, sem aðhylltust rannsóknakerfið, voru að kikna undir vinnuálagi. Fjölgunin stafaði aðallega af örri tækniþróun sem leiddi til aukins umfangs nýnæmisrannsókna. Jafnframt leiddu aukin alþjóðaviðskipti til þess að æ algengara varð að sótt væri um einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu í mörgum löndum. Afleiðingin varð margföldun og sífelld endurtekning á sömu vinnu hjá einkaleyfayfirvöldum. Því var það að frumkvæði Bandaríkjanna og með stuðningi annarra helstu iðnríkja heims að umræða hófst innan BIRPI (og síðan WIPO) um möguleika á alþjóðasamningi um alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir og rannsókn á þeim. Árangur þeirrar umræðu var undirritun samstarfssáttmálans um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty eða PCT) í Washington 1970.
    Samstarfssáttmálinn er opinn öllum aðildarríkjum Parísarsáttmálans og WIPO hefur umsjón með honum. Aðildarlönd hans voru 43 talsins 1. janúar 1990, þar á meðal öll helstu iðnríki heims svo og Norðurlandaþjóðirnar fjórar, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Ríkisborgarar eða aðilar búsettir í aðildarríkjum sáttmálans geta samkvæmt honum lagt inn alþjóðlega einkaleyfisumsókn og hefur hún gildi fyrir öll þau aðildarríki sem umsækjandi tilgreinir í umsókninni. Alþjóðlegar umsóknir skulu lagðar inn hjá einkaleyfayfirvöldum í heimalandi umsækjanda. Auk þess geta Einkaleyfastofnun Evrópu, sbr. kafla 2.5.3., og WIPO tekið á móti alþjóðlegum umsóknum. Sáttmálinn tiltekur nákvæmlega hvaða formskilyrði alþjóðleg umsókn þarf að uppfylla. Uppfylli umsóknin þau hefur hún sömu réttaráhrif í tilgreindum löndum og venjuleg einkaleyfisumsókn lögð inn í landinu og ekki er heimilt að hafna henni vegna formgalla. Einkaleyfayfirvöld, sem taka á móti alþjóðlegri umsókn, athuga hvort hún uppfylli formskilyrði. Geri hún það er umsóknin send áfram til nýnæmisrannsóknar. Nýnæmisrannsókn fer fram hjá nokkrum stærri einkaleyfastofnunum aðildarríkja samstarfssáttmálans, svo og hjá Einkaleyfastofnun Evrópu. Hvert aðildarríki verður fyrir fram að ákveða hvaða stofnun það vilji nota í þessu sambandi. Sænska einkaleyfastofnunin er alþjóðleg leitarstöð undir samstarfssáttmálanum og sér hún um nýnæmisrannsókn fyrir norrænu þjóðirnar ásamt Einkaleyfastofnun Evrópu. Eftir að nýnæmisrannsókn hefur farið fram er gefin út nýnæmisskýrsla. Skal það gert innan 16 mánaða frá því að alþjóðaumsókn var lögð inn eða frá forgangsréttardegi umsóknar ef sá frestur rennur út fyrr. Á grundvelli nýnæmisskýrslunnar getur umsækjandi ákveðið hvort hann vilji afturkalla umsóknina eða framfylgja henni. Afturkalli umsækjandi ekki umsóknina birtir WIPO hana innan 18 mánaða frá innlagningar- eða forgangsréttardegi. Jafnframt sendir WIPO öllum þeim löndum, sem tilgreind eru í umsókninni og ekki hafa verið afturkölluð, afrit af umsókninni og nýnæmisskýrslunni. Umsækjandi verður síðan að greiða venjuleg umsóknargjöld og leggja fram þýðingu á umsókninni í hverju því landi, sem hann óskar verndar í, innan 20 mánaða frá innlagningar- eða forgangsréttardegi hennar. Eftir það verður meðferð alþjóðlegrar umsóknar hin sama og venjulegra umsókna. Einkaleyfayfirvöldum einstakra aðildarríkja er frjálst að framkvæma eigin nýnæmisrannsókn til viðbótar hinni alþjóðlegu ef þurfa þykir, en eins og áður segir mega þau ekki hafna umsókninni vegna formgalla.
    Auk alþjóðlegrar nýnæmisrannsóknar gefur samstarfssáttmálinn líka kost á bráðabirgðaskýrslu um einkaleyfishæfi uppfinningar í alþjóðaumsókninni. Ef umsækjandi ákveður að notfæra sér þann möguleika er frestur til að greiða umsóknargjald og leggja fram þýðingar hjá einkaleyfayfirvöldum einstakra landa framlengdur um 10 mánuði til viðbótar við áðurgreinda 20 mánuði. Umsækjandi hefur því enn lengri tíma til að ákveða hvort hann vilji framfylgja alþjóðaumsókninni. Þar að auki gefur bráðabirgðaskýrslan umsækjanda upplýsingar um möguleika hennar til að ná vernd. Þar sem skilyrði um einkaleyfishæfi eru mismunandi frá einu aðildarríki til annars, þá er rík áhersla lögð á að rannsóknin sé aðeins til bráðabirgða og að hún sé ekki bindandi fyrir einkaleyfayfirvöld aðildarríkja. Þrátt fyrir það höfðu margar þjóðir áhyggjur af því að of mikið mark yrði tekið á bráðabirgðaskýrslunni og einkaleyfishæfi uppfinninga yrði alfarið dæmt á grundvelli hennar. Því var ákveðið að heimila aðildarríkjum að setja fyrirvara um ákvæði samstarfssáttmálans varðandi bráðabirgðarannsókn á einkaleyfishæfi uppfinninga. Nokkur lönd notfærðu sér þessa undanþágu, þar á meðal Bandaríkin, Danmörk og Noregur. Þessi ótti hefur þó reynst ástæðulaus og Bandaríkin afléttu undanþágunni 1987, Danmörk 1988 og til stendur að gera slíkt hið sama í Noregi á næstunni.
    Samstarfssáttmálinn hefur ótvíræða kosti og vinnusparnað í för með sér bæði fyrir umsækjendur og einkaleyfayfirvöld. Hann hefur þó verið gagnrýndur fyrir að vera of þunglamalegur í framkvæmd. Sú gagnrýni átti e.t.v. rétt á sér í upphafi, en frá því að sáttmálinn tók gildi hefur hann verið endurskoðaður tvisvar með það í huga að einfalda málsmeðferð og haft er vakandi auga á hvað megi betur fara í framtíðinni. Jafnframt hefur því verið haldið fram að engan fjárhagslegan sparnað leiði af sáttmálanum fyrir umsækjendur. Því er til að svara að fjárhagslegur sparnaður umsækjenda er óbeinn að því leyti að þeir hafa lengri tíma til að íhuga hvort uppfinning sé fjárhagslega hagkvæm áður en alþjóðaumsókn er framfylgt. Jafnframt geta umsækjendur sparað sér útgjöld í einstökum löndum ef ljóst er af alþjóðarannsókn umsóknarinnar að ólíklegt sé að uppfinningin hljóti vernd í einhverju tilgreindu landi. Umsækjandinn getur afturkallað umsóknina í viðkomandi landi og þannig sparað sér umsóknargjald í því landi. Ísland er enn ekki aðili að samstarfssáttmálanum, en aðild er til umræðu hjá stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Fyrirliggjandi frumvarp um einkaleyfi gerir ráð fyrir að aðild verði samþykkt.

2.4. Aðrir alþjóðasáttmálar varðandi einkaleyfi sem WIPO hefur umsjón með.


    2.4.1. Búdapestsáttmálinn frá 1977 um alþjóðaviðurkenningu á geymslu örvera vegna umsókna um einkaleyfi fjallar um vandamál sem rísa við lýsingu á uppfinningum sem byggjast á örverum. Þegar sótt er um einkaleyfi er eitt helsta skilyrðið fyrir veitingu þess að uppfinningu sé svo skilmerkilega lýst að fagmaður geti framkvæmt hana. Erfitt er að lýsa uppfinningum, sem byggjast á örverum, eingöngu með orðum. Því er yfirleitt gripið til þess ráðs að afhenda rækt af viðkomandi örverustofni til varðveislu þar sem almenningur getur átt aðgang að henni. Þannig telst skilyrði einkaleyfalaganna um lýsingu uppfyllt. Hins vegar þurfa mjög sérstakar aðstæður að vera til staðar til að unnt sé að geyma og halda örverum á lífi. Flestar einkaleyfastofnanir eru vanbúnar í þessu efni. Örverurnar eru því yfirleitt geymdar á sérstofnunum sem viðurkenndar eru í því skyni. Mikill kostnaður og umstang er samfara geymslu og varðveislu slíkra örvera. sérstaklega fyrir umsækjanda sem vill fá einkaleyfi í mörgum löndum. Til að létta umsækjanda róðurinn kveður Búdapestsáttmálinn á um að aðildarríki hans viðurkenni að varðveisla ræktar af viðkomandi örverustofni í einni alþjóðlega viðurkenndri stofnun sé nægileg til að uppfylla skilyrði um lýsingu í umsókn. Skiptir þá ekki máli hvort sú vörslustofnun er innan eða utan viðkomandi lands. Gildir þá varðveislan í öllum aðildarríkjum sáttmálans fyrir umsókn um einkaleyfi sem byggð er á varðveittu örverunni. Þetta sparar umsækjanda bæði umstang og fjárútlát. Jafnframt eru í sáttmálanum nákvæm ákvæði um hverjir geti fengið afhent sýni af varðveittri rækt og hvenær. Einnig er þar kveðið á um rétt til að endurnýja varðveislueintakið ef það upphaflega getur ekki lengur gegnt hlutverki sínu. Aðildarríki sáttmálans voru 24 1. janúar 1990, þar á meðal eru flest helstu iðnríki heims og Norðurlandaþjóðirnar utan Íslands. Einnig hefur Einkaleyfastofnun Evrópu viðurkennt gildi sáttmálans og ofangreind varðveisla nægir því líka vegna umsóknar um Evrópueinkaleyfi. Ákvæði fyrirliggjandi frumvarps um einkaleyfi eru í samræmi við ákvæði Búdapestsáttmálans.
    2.4.2. Strassborgarsamkomulagið frá 1971 (International Patent Classification eða IPC) er grundvöllur alþjóðaflokkunarkerfis einkaleyfa. Samkvæmt þessu flokkunarkerfi er uppfinningum skipað í átta meginflokka og tæplega sextíu þúsund undirflokka. Alþjóðaflokkunarkerfi einkaleyfa er mjög mikilvægt, sérstaklega vegna nýnæmisrannsókna uppfinninga. Þann 1. janúar 1990 voru aðeins 27 ríki formlegir aðilar að samkomulaginu. Þrátt fyrir það nota rúmlega 70 ríki flokkunarkerfið, þar á meðal Ísland, að því er varðar veitt einkaleyfi.
    2.4.3. Auk umsjónar með ofangreindum sáttmálum og samþykktum á sviði einkaleyfa er WIPO að undirbúa sáttmála sem miðar að alþjóðasamræmingu ýmissa efnisatriða einkaleyfalaga. Ef samkomulag næðist um slíkan sáttmála hefði hann í för með sér mikla hagræðingu fyrir alþjóðaviðskipti.

2.5. Vestur-evrópsk samvinna um einkaleyfi.


    Eftir síðari heimsstyrjöldina hófst aftur umræða í Vestur-Evrópu um þörf á samræmingu laga og framkvæmdar varðandi eignarréttindi á sviði iðnaðar. Fyrsta skrefið varðandi einkaleyfi var samvinna Benelux-landanna og Frakklands um opnun Alþjóðaeinkaleyfastofnunarinnar í Haag 1947. Sú stofnun sá m.a. um nýnæmisrannsókn aðildarlanda sinna sem aðhylltust skráningakerfið. Stofnunin var lögð niður 1977 og Einkaleyfastofnun Evrópu í München tók við verkefnum hennar.
    2.5.1. Evrópuráð var stofnað 1949. Strax á fyrsta ári þess hófst umræða um einkaleyfi og samræmingu þeirra meðal aðildarlanda ráðsins. Fyrst var rætt um að koma á fót sameiginlegri einkaleyfaskrifstofu fyrir Evrópu sem veitti evrópsk einkaleyfi. Fljótlega var hætt við þá hugmynd þar sem of mikill munur var á einkaleyfalöggjöf og framkvæmd við veitingu einkaleyfa í aðildarlöndunum. Umræðan leiddi þó til undirritunar þriggja sáttmála um einkaleyfi. Sá fyrsti var undirritaður 1953 og varðaði formsatriði við umsóknir um einkaleyfi, m.a. kvað samningurinn á um almennar reglur varðandi innlagningardag umsókna. Hins vegar er hann nú orðinn úreltur þar sem alþjóðasamræming formsatriða hefur fyrir löngu farið fram úr því sem krafist er í honum. Ísland er eitt af fimm aðildarríkjum hans. Ef fyrirliggjandi frumvarp til einkaleyfalaga verður að lögum þarf Ísland að segja upp aðild sinni. Næsti sáttmáli var undirritaður 1954 og fjallaði um alþjóðaflokkun einkaleyfa. Hann hefur verið leystur af hólmi af Strassborgarsamkomulaginu frá 1971 sem er undir umsjón WIPO. Þriðji sáttmálinn er mikilvægastur af þessum þremur. Hann fjallar um samhæfingu efnisatriða einkaleyfalaga og var undirritaður 1963, en ekki fullgiltur fyrr en 1980. Sáttmálinn er yfirleitt nefndur Strassborgarsáttmálinn. Þrátt fyrir að sáttmálinn hefur ekki verið fullgiltur fyrr en seint og síðar meir, hefur hann þó verið grundvöllur flestra meginbreytinga og samræmingar evrópskra einkaleyfalaga. Sáttmálinn hefur verið fyrirmynd við endurskoðun einkaleyfalaga einstakra ríkja, m.a. var tekið mið af honum við samræmingu norrænu einkaleyfalaganna. Einnig byggja Evrópusáttmálinn (EPC) og alþjóðasamstarfssáttmálinn um einkaleyfi báðir í aðalatriðum á Strassborgarsáttmálanum að því er varðar kröfur um einkaleyfishæfi uppfinninga.
    2.5.2. Næstu skref í vestur-evrópskri samvinnu um einkaleyfi voru undirritun Evrópusáttmálans um einkaleyfi 1973 (European Patent Convention eða EPC) og síðan gildistaka hans í október 1977. Sáttmálinn er opinn öllum Evrópuríkjum og í janúar 1990 voru aðildarlönd hans 14. Af norrænum þjóðum hafa Svíþjóð og Danmörk fullgilt sáttmálann. Megintilgangur sáttmálans er að koma á samræmdri rannsókn og veitingu einkaleyfa fyrir aðildarlönd. Í þeim tilgangi var Einkaleyfastofnun Evrópu opnuð í München sama ár og sáttmálinn gekk í gildi. Stofnunin sér um útgáfu einkaleyfa fyrir aðildarlönd sáttmálans, án þess þó að venjuleg einkaleyfi, veitt af einkaleyfayfirvöldum einstakra ríkja, séu afnumin. Gildi einkaleyfanna er það sama hvort sem það er veitt af Einkaleyfastofnun Evrópu eða einkaleyfayfirvöldum einstakra landa. Mismunurinn er þó sá að á grundvelli einnar umsóknar, sem lögð er inn hjá Einkaleyfastofnun Evrópu, er hægt að fá útgefið einkaleyfi fyrir eins mörg aðildarlönd sáttmálans og umsækjandi æskir. Einkaleyfayfirvöld einstakra ríkja geta hins vegar ekki gefið út einkaleyfi nema fyrir þau ríki sem viðkomandi yfirvöld eru í forsvari fyrir. Umsækjendur, sem vilja fá útgefið einkaleyfi fyrir sömu uppfinningunni í fleiru en einu aðildarlandi Evrópusáttmálans, geta því sparað sér vinnu og útgjöld með því að leggja inn umsókn hjá Einkaleyfastofnun Evrópu. Sparnaðurinn verður þó ekki verulegur nema sótt sé um einkaleyfi í fleiri en þremur aðildarlöndum sáttmálans.
    Þó að aðild að sáttmálanum sé bundin við Evrópu getur hver sem er sótt um einkaleyfi hjá stofnuninni, óháð þjóðerni eða búsetu. Hefur það átt sinn þátt í velgengni sáttmálans. Umsóknafjöldi hefur farið fram úr björtustu áætlunum og 1987 bárust rúmlega 45.000 umsóknir frá fleiri en 50 löndum. Miðað við að sjö aðildarlönd eru að meðaltali tilgreind í Evrópuumsóknum, þá samsvarar þetta um 300.000 umsóknum til einstakra ríkja. Þessi velgengni Einkaleyfastofnunar Evrópu hefur líka í för með sér að álag minnkar á einkaleyfayfirvöld einstakra ríkja þar sem umsóknum til þeirra fækkar í hlutfalli við fjölgun umsókna til Einkaleyfastofnunar Evrópu. Sem dæmi má taka sænsku einkaleyfaskrifstofuna. Umsóknir, sem henni bárust, voru um 15.000 árið 1977 en voru aðeins um 6.000 árið 1985. Sama ár var Svíþjóð tilgreind í 20.000 umsóknum til Einkaleyfastofnunar Evrópu. Fækkun umsókna hjá einkaleyfayfirvöldum einstakra aðildarríkja hefur auðvitað í för með sér breyttar áherslur varðandi starfsemi þeirra. Fyrst í stað hafa þau einbeitt sér að því að stytta umfjöllunartíma umsókna. Á árinu 1988 stefndi Svíþjóð að því að einkaleyfaskrifstofan næði því takmarki að taka endanlega ákvörðun um allar umsóknir innan þriggja ára frá innlagningardegi. Jafnframt stefna einkaleyfayfirvöld aðildarríkjanna að því að sveigja starfsemi sína meira í þá átt að vera jafnframt upplýsingamiðstöðvar fyrir iðnaðinn að því er varðar uppfinningar og tækninýjungar.
    Evrópusáttmálinn hefur að geyma ítarleg ákvæði um form og efni umsókna. Hann byggir að mestu á ákvæðum Evrópuráðssáttmálans frá 1963 um nýnæmi og einkaleyfishæfi umsókna. Flest aðildarríki sáttmálans, auk annarra Evrópuþjóða, hafa tekið ákvæði hans meira eða minna orðrétt upp í sín einkaleyfalög. Umsókn samkvæmt sáttmálanum er lögð inn annaðhvort hjá Einkaleyfaskrifstofu Evrópu eða hjá einkaleyfayfirvöldum einstakra aðildarríkja sem síðan framsenda umsóknina til Einkaleyfastofnunar Evrópu. Eftir að formsatriði hafa verið athuguð fer nýnæmisrannsókn fram. Birting umsóknar fer fram innan 18 mánaða frá innlagningar- eða forgangsréttardegi. Nýnæmisskýrslan er birt samtímis ef hún liggur fyrir, annars seinna. Frekari rannsókn umsóknar fer ekki fram nema að beiðni umsækjanda og gegn greiðslu rannsóknargjalds. Frestur til að bera upp slíka beiðni er sex mánuðir frá birtingu nýnæmisrannsóknar. Komi slík beiðni fram er umsóknin rannsökuð með tilliti til einkaleyfishæfis. Á grundvelli þeirrar rannsóknar er ákveðið að hafna eða veita einkaleyfi. Ákvörðun um að veita einkaleyfi er birt í opinberu tímariti skrifstofunnar. Eftir birtingu hefur hver sem er rétt til að bera upp andmæli við veitingu einkaleyfisins. Ástæður til andmæla eru tæmandi taldar í sáttmálanum, en þær eru: Í fyrsta lagi, að uppfinningin uppfylli ekki skilyrði sáttmálans um einkaleyfishæfi, í öðru lagi, að andlag verndar skv. veittu einkaleyfi sé víðara en skv. kröfum í umsókn, og í þriðja lagi, að uppfinningunni sé ekki nægjanlega lýst. Eftir að einkaleyfi hefur verið veitt og það ekki ógilt vegna framkominna andmæla hefur það sama gildi í hverju því aðildarríki sem veitingin nær til og önnur einkaleyfi veitt í sama ríki. Þó eru nokkrar undantekningar frá því. Í fyrsta lagi verður tímalengd verndar að vera 20 ár frá innlagningu umsóknar hvort sem viðkomandi aðildarríki veitir vernd í svo langan tíma eða ekki. Í öðru lagi vernda afurðaeinkaleyfi, sem veitt eru af Einkaleyfastofnun Evrópu, líka þær afurðir sem af aðferðinni leiðir. Í þriðja lagi eru ógildingarástæður Evrópueinkaleyfa tæmandi taldar í sáttmálanum. Ógildingarástæðurnar eru hinar sömu og vegna andmæla, auk þess sem ógilda má einkaleyfi ef það hefur verið veitt til rangs aðila eða ef umfang verndar hefur verið víkkað frá útgáfu einkaleyfisins.
    Einkaleyfastofnun Evrópu er alþjóðleg leitarstöð fyrir alþjóðlegar umsóknir samkvæmt samstarfssáttmálanum. Öll aðildarlönd Evrópusáttmálans og Norðurlöndin geta tilgreint hana sem leitarstöð. Heimilt að fella niður nýnæmisrannsókn ef alþjóðaskýrsla um nýnæmisrannsókn fylgir umsókn til Einkaleyfastofnunar Evrópu. Er það m.a. gert ef alþjóðaskýrslan kemur frá sænsku einkaleyfaskrifstofunni. Getur það sparað umsækjanda töluverða fjárhæð.
    2.5.3. Fljótlega eftir stofnun Efnahagsbandalagsins (EBE) 1957 var farið að ræða þörfina á samræmingu eignarréttinda á sviði iðnaðar innan EBE. Það var þó ekki fyrr en 1975 að Efnahagsbandalagssáttmálinn um einkaleyfi (Community Patent Convention) var undirritaður í Lúxemborg. Meginmarkmið sáttmálans er að koma á samræmdu einkaleyfi sem gildi fyrir öll EBE-löndin. Samstarfssáttmálinn (PCT) og Evrópusáttmálinn (EPC) stefna hins vegar aðeins að miðstýringu rannsóknar og/eða veitingar einkaleyfa til aðildarlanda sinna. Sterk tengsl eru á milli EBE-sáttmálans og Evrópusáttmálans þar sem ætlunin er að EBE-einkaleyfi verði í umsjá Einkaleyfastofnunar Evrópu frá móttöku umsóknar þar til einkaleyfið fellur úr gildi. Upphaflega var ætlunin að þessir tveir sáttmálar tækju gildi samtímis. Sú varð hins vegar ekki raunin og EBE-sáttmálinn er ekki enn genginn í gildi. Forsenda gildistöku var fullgilding sáttmálans í öllum aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins. Við undirritun sáttmálans voru þau níu. Af þeim hafa Danmörk og Írland ekki enn fullgilt sáttmálann. Síðan hafa þrjú ríki bæst í hóp EBE-landa og það einfaldar ekki gildistöku hans. Sá frestur, sem var settur til gildistöku EBE-sáttmálans, rann út 1985. Þá var haldin ráðstefna til að framlengja þann frest og til að endurskoða sáttmálann í því skyni einfalda gildistöku hans. Þar var ákveðið að nægilegt væri að aukinn meiri hluti EBE-landa fullgilti sáttmálann til þess að hann gæti tekið gildi. Þrátt fyrir þá breytingu hefur lokaskrefið ekki enn verið stigið. Önnur ráðstefna var haldin í Lúxemborg 1989 til að tryggja gildistöku sáttmálans fyrir 1992 þegar endanleg samtenging verslunar- og viðskiptamarkaða EBE-landanna á að ganga í gildi.
    EBE-einkaleyfum er ætlað að gilda samhliða venjulegum einkaleyfum einstakra EBE- landa og sáttmálinn hefur ekki nein áhrif á rétt aðildarríkja til að veita einkaleyfi. EBE-einkaleyfi verður einungis veitt af Einkaleyfastofnun Evrópu. Uppfinning, sem er grundvöllur umsóknar um EBE-einkaleyfi, þarf að uppfylla sömu kröfur um einkaleyfishæfi og aðrar uppfinningar sem Einkaleyfastofnun Evrópu fjallar um. Sáttmálinn kveður á um að tilgreining eins EBE-lands í Evrópuumsókn jafngildi tilgreiningu allra EBE-landanna. Þetta ákvæði var mjög umdeilt og því var sett bráðabirgðaákvæði þess efnis að fyrrgreinda ákvæðið gilti ekki fyrr en með samhljóða ákvörðun EBE-ráðsins. Sáttmálinn inniheldur nákvæm ákvæði um gildi og umfang verndar EBE-einkaleyfa. Hafa þau ákvæði að mestu verið tekin upp í einkaleyfalög aðildarríkja EBE svo og annarra Evrópuríkja, þar á meðal í samræmdu norrænu einkaleyfalögin.
    Ein mikilvægasta regla EBE-sáttmálans um inntak einkaréttarins er neyslureglan (exhaustion of rights). Gangi sáttmálinn í gildi gildir reglan fyrir öll EBE-löndin. Samkvæmt neyslureglunni er aðeins frumhagnýting einkaleyfishafa innan eins EBE-lands vernduð. Eftir að einkaleyfishafi hefur markaðssett verndaða vöru í einu aðildarríki EBE hefur hann afsalað sér frekari rétti til hennar skv. einkaleyfinu. Því getur hann t.d. ekki lengur hindrað inn- eða útflutning vörunnar frá einu EBE-landi til annars á grundvelli einkaleyfisins. Þessi neysluregla mundi gilda jafnt fyrir EBE-einkaleyfi og venjuleg einkaleyfi veitt af einkaleyfayfirvöldum einstakra aðildarríkja. Þrátt fyrir að sáttmálinn sé enn ekki genginn í gildi er þetta sú framkvæmd sem nú gildir innan EBE. Sú afstaða hefur þróast í meðförum EBE-dómstólsins að tilraunir einkaleyfishafa til að hindra inn- eða útflutning löglega framleiddra vara á milli aðildarríkja EBE í krafti einkaréttar skv. einkaleyfi séu ekki samræmanlegar ákvæðum Rómarsáttmálans um stofnun EBE um frjálsa vörutilfærslu á milli aðildarríkjanna. Hins vegar hefur dómstóllinn jafnframt skorið úr um það að þessi víðtæka neysluregla gildi aðeins á milli aðildarlanda EBE, en ekki milli EBE og ríkja sem það er í fríverslunarbandalagi við, t.d. allra EFTA-landanna.

3.0. Norrænn réttur.


    Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa lengi haft mjög nána samvinnu um einkaleyfalöggjöf. Einkaleyfalög þeirra eru nú samhljóða í öllum meginatriðum, jafnframt því sem náið samstarf er milli ríkjanna varðandi framkvæmd laganna.
    Norðurlandaþjóðirnar hafa löngum verið undir sterkum réttaráhrifum frá Þýskalandi. Fyrsta löggjöf Þjóðverja um einkaleyfi var sett 1877. Sú löggjöf, auk tilkomu Parísarsáttmálans um alþjóðlega vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar árið 1883, hafði þau áhrif að ný einkaleyfalög voru sett í Svíþjóð 1884. Noregi 1885, Danmörku 1894 og Finnlandi 1898. Þau lög voru byggð á rannsóknaraðferðinni. Núgildandi lög okkar eru að mestu sniðin eftir þessum lögum frændþjóða okkar.
    Hugmyndin um samnorrænt einkaleyfi skaut fyrst upp kollinum 1881 á norrænu lögfræðingamóti í Kaupmannahöfn. Henni var haldið lifandi um árabil, en það var þó ekki fyrr en mörgum áratugum seinna, þ.e. eftir seinni heimsstyrjöldina, að hafist var handa af alvöru um að reyna að koma henni í framkvæmd. Komið var á fót nefnd um málið 1949 með fulltrúum frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Nefndin skilaði áliti 1952 og á grundvelli þess lagði Norðurlandaráð til árið 1954 við ríkisstjórnir þessara landa, auk Íslands, að stefnt yrði hið fyrsta að því að koma á fót norrænu einkaleyfi. Finnar gerðust aðilar að þessu samstarfi sama ár, en Ísland tók ekki þátt í því. Samstarfið leiddi til frumvarpsdraga 1962–63 sem sett voru fram í mjög ítarlegri skýrslu: „Nordisk patentlovgivning“ NU 1963:6. Drögin urðu grundvöllur að samræmdum einkaleyfalögum í þessum fjórum löndum sem sett voru í desember 1967 og tóku gildi 1. janúar 1968.

3.1. Norrænu einkaleyfalögin frá 1967.


    Einn megintilgangur þessara laga var að leggja grundvöll að samstarfi um veitingu einkaleyfa. Þriðji kafli laganna fjallaði um samnorrænar umsóknir. Á grundvelli umsóknar um einkaleyfi í einu landanna var hægt að veita einkaleyfi í öllum fjórum löndunum. Einkaleyfi veitt á grundvelli samnorrænnar umsóknar var þó í engu frábrugðið venjulegum einkaleyfum og laut sömu reglum um gildi og vernd. Markmiðið með þessu samnorræna umsóknakerfi var að létta vinnuálag einkaleyfayfirvalda og jafnframt minnka umstang umsækjenda sem höfðu áhuga á að fá einkaleyfi fyrir sömu uppfinningunni í fleiri en einu af þessum löndum. Lögin komu á svo að segja algjörri efnislegri réttareiningu um einkaleyfi í þessum löndum. Þau voru samhljóða, ef frá eru talin einstök ákvæði sem vörðuðu málarekstur og viðurlög. Við samningu laganna var efni Evrópuráðssáttmálans um samhæfingu einstakra efnisatriða einkaleyfalöggjafar frá 1963 hafður til hliðsjónar, sérstaklega varðandi einkaleyfishæfi uppfinninga.
    Kaflinn um samnorrænar einkaleyfisumsóknir komst aldrei í framkvæmd. Lágu til þess tvær meginástæður. Í fyrsta lagi komu fram sterk mótmæli af hálfu iðnrekenda í Danmörku og Noregi. Þeir óttuðust að þessi breyting gæti leitt til óæskilegrar fjölgunar einkaleyfa sem hindraði athafnafrelsi iðnaðarins. Í öðru lagi var í sjónmáli að þróun á alþjóðavettvangi leiddi til svipaðs kerfis með víðtækari aðild og vildu norrænu þjóðirnar fylgjast með þeirri þróun. Þær höfðu verið virkir þátttakendur í undirbúningi að samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty) og Evrópusáttmálanum um einkaleyfi (European Patent Convention). Hinn fyrrnefndi var undirritaður í Washington 1970 og hinn síðarnefndi í München 1973. Fljótlega var farið að huga að aðild þeirra að þeim og af því tilefni var þörf lagabreytinga. Jafnframt gekk Danmörk í Efnahagsbandalagið 1973 og þurfti því að breyta einkaleyfalögum sínum til samræmis við fyrirhugaðan sáttmála Efnahagsbandalagsins um einkaleyfi (Community Patent Convention). Ákveðið var að halda fast við þá réttareiningu sem fyrir var varðandi einkaleyfi, þrátt fyrir mismunandi skuldbindingar á alþjóðavettvangi. Samræmdar lagabreytingar voru því lögfestar 1978 í þessum fjórum löndum. Lögunum frá 1978 var lítillega breytt á árunum 1983–1985. Var það annars vegar vegna breytingar á gjaldtöku vegna umsókna og hins vegar til samræmis við Búdapestsáttmálann frá 1977 um alþjóðaviðurkenningu á geymslu örvera vegna umsóknar um einkaleyfi.

3.2. Núgildandi samnorræn lög um einkaleyfi.


    Þrátt fyrir nýjan lagatexta og ýmsar efnisbreytingar með lögunum frá 1978 var uppbyggingu og fyrirkomulagi laganna frá 1967 að mestu haldið. Kaflinn um samnorrænar umsóknir var felldur úr lögunum. Í staðinn kom kafli um alþjóðlegar umsóknir samkvæmt samstarfssáttmálanum. Þegar til kom fullgiltu Svíar einir Norðurlandaþjóðanna Evrópusáttmálann og því hafa sænsku lögin sérkafla um aðild og áhrif evrópskra einkaleyfaumsókna. Danmörk fullgilti hann síðan 1989. Að öðru leyti er uppbygging laganna hin sama hjá þessum fjórum þjóðum. Efnislega eru þau líka að mestu leyti samhljóða nema hvað varðar ákvæði um málarekstur og viðurlög. Frávikið stafar af mismunandi réttarfarsreglum þessara landa.
    Lagabreytingarnar 1978 miðuðu að því að samræma norrænu lögin efnisákvæðum Evrópusáttmálans og samstarfssáttmálans auk fyrirhugaðs Efnahagsbandalagssáttmála. Ákvæði um efnislegan rétt eru að mestu leyti tekin orðrétt úr Evrópusáttmálanum til að koma í veg fyrir hugsanlegan möguleika á mismunandi túlkun samsvarandi ákvæða. Hins vegar er framkvæmd rannsóknar og veitingar einkaleyfa haldið í fyrra horfi. Þannig var ekki tekinn upp sá háttur að tvískipta rannsóknarferli umsókna í nýnæmisrannsókn annars vegar og rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinninga hins vegar eins og gert er í Evrópusáttmálanum og samstarfssáttmálanum. Ekki var heldur tekinn upp sá háttur, sem Evrópusáttmálinn byggist á, að taka andmæli fyrst til greina eftir veitingu einkaleyfis. Form- og efnisrannsókn fer því fram í einu lagi, bæði að því er varðar nýnæmi og einkaleyfishæfi uppfinningar. Ef umsókn stenst þá rannsókn eða ef umsækjandi bætir úr göllum, þá er umsókn lögð fram og almenningi gefinn kostur á að andmæla í þrjá mánuði eftir framlagningu. Að þeim tíma liðnum fer fram endanleg rannsókn þar sem tekið er tillit til framkominna andmæla. Síðan er tekin ákvörðun um veitingu einkaleyfis. Fyrirliggjandi frumvarp um einkaleyfi byggist að meginstefnu á norrænu lögunum eins og þau eru í nú.

3.3. Norðurlönd og samstarfssáttmálinn (PCT).


    Norrænu þjóðirnar fjórar hafa allar fullgilt samstarfssáttmálann um einkaleyfi. Ein meginástæða breytinganna á norrænu einkaleyfalögunum 1978 var fullgilding þessa sáttmála sem tók gildi um leið og lagabreytingarnar. Svíar og Finnar fullgiltu sáttmálann að öllu leyti, en Danir og Norðmenn settu fyrirvara varðandi alþjóðlega bráðabirgðarannsókn um einkaleyfishæfi. Ekki var því hægt að fá slíka rannsókn fyrir þau lönd. Ástæða þess var að forsvarsmenn iðnaðarins í Noregi og Danmörku óttuðust að bráðabirgðarannsóknin kæmi til með að hafa meiri áhrif en ætlað var, þ.e. að bráðabirgðaskýrslan fengi of mikið vægi við mat á einkaleyfishæfi alþjóðaumsókna. Reynslan hefur þó sýnt að þessi ótti var ástæðulaus og því afléttu Danir þessum fyrirvara á árinu 1988 og í Noregi stendur til að aflétta honum.
    Ákvæði um alþjóðaumsóknir á grundvelli samstarfssáttmálans er að finna í þriðja kafla norrænu einkaleyfalaganna. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um réttaráhrif alþjóðlegrar umsóknar sem tilgreinir eitthvert þessara landa. Í öðru lagi eru ákvæði um hvaða skilyrði slík umsókn þurfi að uppfylla til að hljóta samþykki í viðkomandi löndum. Að lokum eru ákvæði um hvernig umfjöllun og rannsókn slíkra umsókna skuli háttað. Þrátt fyrir að Danir og Norðmenn hafi í fyrstu sett fyrirvara um bráðabirgðarannsókn á einkaleyfishæfi uppfinninga í alþjóðaumsóknum var ákveðið að lögfesta reglur um áhrif slíkrar rannsóknar á sama hátt og í Finnlandi og Svíþjóð. Þetta var gert til þess að auðvelda gildistöku þessa hluta samstarfssáttmálans seinna meir.
    Umsækjendur, bæði innlendir og erlendir, hafa nýtt sér möguleikann á alþjóðaumsóknum í síauknum mæli. Nú má rekja um 20% allra erlendra umsókna á Norðurlöndum til alþjóðaumsókna og á milli 10 og 15% innlendra norrænna umsókna eru alþjóðaumsóknir. Norrænu þjóðirnar láta vel af samstarfssáttmálanum og telja að hann komi umsækjendum að miklu gagni. Hann hefur í för með sér vinnusparnað og hagræði fyrir einkaleyfayfirvöld. Það hve sáttmálanum hefur verið vel tekið af notendum einkaleyfakerfisins á Norðurlöndum má m.a. rekja til þess að sænska einkaleyfastofnunin er viðurkennd sem rannsóknastofnun fyrir alþjóðlegar umsóknir. Þetta auðveldar alla framkvæmd varðandi norrænar alþjóðaumsóknir, sérstaklega með tilliti til tungumála.


Fylgiskjal III.


IÐNAÐARRÁÐUNEYTIÐ     17. okt. 1990.
EINKALEYFA- OG VÖRUMERKJASKRÁ

Skrá yfir þá sem fengið hafa frumvarp til einkaleyfalaga til umsagnar.
    Alþýðusamband Íslands     Grensásvegi 16 a     108 Reykjavík
    Arkitektafélag Íslands     Freyjugötu 41     101 Reykjavík
    Bandalag háskólamanna     Lágmúla 7     108 Reykjavík
    Bandalag starfsmanna ríkis og bæja     Grettisgötu 89     105 Reykjavík
    Dómsmálaráðuneyti     Arnarhvoli     150 Reykjavík
    Félag íslenskra hugvitsmanna     Pósthólf 8921     128 Reykjavík
    Félag íslenskra iðnrekenda     Hallveigarstíg 1     101 Reykjavík
    Félag ráðgjafarverkfræðinga     Engjateigi 9     105 Reykjavík
    Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa     Laugavegi 18     101 Reykjavík
    Félagsmálaráðuneytið     Hafnarhúsinu v/Tryggvag.     101 Reykjavík
    Fjárlaga- og hagsýslustofnun     Arnarhvoli     150 Reykjavík
    Fjármálaráðuneyti     Arnarhvoli     150 Reykjavík
    Hagstofa Íslands     Skuggasundi 3     150 Reykjavík
    Háskóli Íslands     v/Suðurgötu     101 Reykjavík
    Heilbrigðisráðuneyti     Laugavegi 116     150 Reykjavík
    Húsnæðisstofnun ríkisins     Suðurlandsbraut 24     108 Reykjavík
    Iðnfræðsluráð     Sölvhólsgötu 4     150 Reykjavík
    Iðntæknistofnun Íslands     Keldnaholti     112 Reykjavík
    Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva     Sigtúni 3     105 Reykjavík
    Landssamband íslenskra útvegsmanna     Hafnarhúsinu v/Tryggvag.     101 Reykjavík
    Landssamband iðnaðarmanna     Hallveigarstíg 1     101 Reykjavík
    Landsvirkjun     Háaleitisbraut 68     103 Reykjavík
    Lyfjaeftirlit ríkisins     Eiðistorgi 15     107 Reykjavík
    Meistara- og verktakasamband byggingarmanna     Skipholti 70     105 Reykjavík
    Neytendasamtökin     Skúlagötu 26     101 Reykjavík
    Rannsóknaráð ríkisins     Laugavegi 13     101 Reykjavík
    Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins     Keldnaholti     112 Reykjavík
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins     Skúlagötu 4     101 Reykjavík
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins     Keldnaholti     112 Reykjavík
    Reykjavíkurborg     Austurstræti 16     101 Reykjavík
    Samtök fiskvinnslustöðva     Austurstræti 18     101 Reykjavík
    Samtök tæknimanna sveitarfélaganna     Hlégarði     270 Mosfellsbær
    Ríkismat sjávarafurða     Nóatúni 17     105 Reykjavík
    Siglingamálastofnun     Hringbraut 121     107 Reykjavík
    SVESI Samtök áhugamanna um vernd
    eignarréttinda á sviði iðnaðar     Höfðabakka 9     112 Reykjavík
    Tæknifræðingafélag Íslands     Lágmúla 7     108 Reykjavík
    Tækniskóli Íslands     Höfðabakka 9     112 Reykjavík
    Umhverfisráðuneyti     Sölvhóll     150 Reykjavík
    Utanríkisráðuneyti     Hverfisgötu 115     150 Reykjavík
    Verkfræðingafélag Íslands     Engjateigi 9     105 Reykjavík
    Verktakasamband Íslands     Hallveigarstíg 1     101 Reykjavík
    Verslunarráð Íslands Húsi verslunarinnar     Kringlunni 7     103 Reykjavík
    Vinnueftirlit ríkisins     Bíldshöfða 16     112 Reykjavík
    Vinnuveitendasamband Íslands     Garðastræti 41     101 Reykjavík
    Viðskiptaráðuneyti     Arnarhvoli     150 Reykjavík
    Utanríkisráðuneyti     Hverfisgötu 115     150 Reykjavík
    Útflutningsráð Íslands     Lágmúla 5     108 Reykjavík



Fylgiskjal IV, 1.


Umsögn Landssambands iðnaðarmanna um frumvarp til laga um einkaleyfi.


Send iðnaðarráðuneytinu 28. júní 1990.



    Landssamband iðnaðarmanna hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um einkaleyfi sem lagt var fram til kynningar á lokadögum þings sl. vor.
    Að mati Landssambands iðnaðarmanna er fyrir löngu orðið tímabært að núgildandi lög um einkaleyfi verði leyst af hólmi. Samtökin hafa bent á þetta opinberlega og má í því sambandi benda á ályktun sem samþykkt var á 42. iðnþingi Íslendinga sem haldið var árið 1987 þar sem hvatt var til þess að sem fyrst yrðu sett ný lög um einkaleyfi.
    Á heildina litið er frumvarpið stórt spor í framfaraátt, enda er hér í raun verið að færa löggjöfina til samræmis við það sem hún er á þessu sviði annars staðar á Norðurlöndum. Í frumvarpinu er tekið á þeim málum sem á hefur vantað til að núgildandi lög væru í samræmi við nútímakröfur. Má þar nefna að kveðið er skýrar á um umfang og mörk einkaleyfisréttar, en á það skortir mjög í núgildandi lögum. Þá er fjallað nánar um það hvenær uppfinning geti talist einkaleyfishæf, þannig að auðveldara ætti að vera fyrir menn að meta hvaða möguleika þeir hafa í þeim efnum, áður en lagt er út í kostnað við að sannreyna það. Þá hefur sú mikilvæga breyting verið gerð að einkaleyfi getur haldið gildi sínu í 20 ár frá innlagningardegi umsóknar, í stað þess að gilda í 15 ár frá útgáfudegi eins og er í núgildandi lögum. Í flestum tilfellum ætti þessi breyting að leiða til lengri gildistíma einkaleyfa.
    Landssamband iðnaðarmanna vill hins vegar í þessu sambandi benda á, að sú aðstaða, sem íslenskum uppfinningamönnum hefur verið sköpuð, er ekki upp á marga fiska. Þeir hafa í mjög takmörkuðum mæli átt kost á að fá aðstoð hins opinbera við að þróa og fullmóta uppfinningar sínar. Þetta aðstöðuleysi hefur einnig leitt til þess að þær uppfinningar, sem íslenskir aðilar gera, eru sjaldnast mjög stórbrotnar, miklu fremur viðbót eða útfærsla á vélum eða tækjum sem þegar eru í notkun. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu eru þær einkaleyfisumsóknir sem leiða til einkaleyfis mun færri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Er munurinn þarna mjög mikill. Þessar staðreyndir segja allt sem segja þarf um þá aðstöðu sem íslenskum uppfinningamönnum er sköpuð, og verður að ætla að stjórnvöldum sé því ljós nauðsyn þess að úr verði bætt hið allra fyrsta. Það er til lítils að samþykkja ný lög um einkaleyfi, ef þeir sem lögin eru einkum sett til hagsbóta fyrir búa við þær aðstæður sem lögin fá í engu umbreytt.
    Þrátt fyrir þessa síðustu ábendingu styður Landssamband iðnaðarmanna frumvarpið sem slíkt og hvetur til þess að það verði samþykkt.

Fylgiskjal IV, 2.

Umsögn Félags umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa


um frumvarp til laga um einkaleyfi.


Send iðnaðarráðuneytinu 14. ágúst 1990.



    Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa hefur fengið til athugunar og umsagnar frumvarp til laga um einkaleyfi. Út af því vill félagið taka fram eftirgreint:
1.0     Félagið fagnar því að frumvarp þetta skuli nú loks tilbúið til framlagningar á Alþingi. Hefur félagið reyndar fylgst vel með undirbúningi þessa máls og einstakir félagsmenn lagt þar hönd á plóginn. Er það eindregin von félagsins að frumvarp þetta nái fram að ganga sem allra fyrst.
    Jafnframt notar félagið tækifærið til að minna á mál sem ekki er síður brýnt, en það er framlagning frumvarps til laga um mynsturvernd sem fyrir liggur að stofni til frá árinu 1975, en endurskoðað var árið 1986. Svo sem margsinnis hefur komið fram, þá telur félagið af ýmsum ástæðum þá lagasetningu jafnvel enn meira framfaramál en nýja lagasetningu um einkaleyfi.
2.0     Félagið gerir ekki athugasemdir við efnisákvæði frumvarpsins sem hafa að geyma sambærilegan efnisrétt og nú gildir á Norðurlöndum.
3.0     Um XI. kafla, gildistökuákvæði, vildi félagið hreyfa eftirgreindum athugasemdum:
3.1     Sú ákvörðun, að greiða skuli árgjöld af umsóknum, sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku laganna, sbr. 2. mgr. 81. gr. frumvarpsins, mun ein sér tryggja, að umsækjendur viðhaldi ekki áfram umsóknum sem þeir hafa ekki trú á að leiði til einkaleyfis. Því munu þær eldri umsóknir, sem ekki hefur verið fylgt eftir af alvöru, fljótlega falla úr gildi. Tilkynna verður þó umsækjendum með nokkrum fyrirvara um þessa fjárhagslegu íþyngingu.
3.2     Í ljósi þessa er félagið mótfallið orðalagi 1. tölul. 78. gr. frumvarpsins, þar sem gert er ráð fyrir að um meðferð umsóknar, sem auglýst hefur verið í samræmi við gildandi lög, fari eftir ákvæðum þeirra laga, en aðrar umsóknir fari eftir nýrri lögum. Er það eindregin skoðun félagsins að miklum mun eðlilegra sé að miða hér við hvort umsókn hefur verið innlögð í tíð eldri eða yngri laga.
    Milli þessara tímamarka, þ.e. umsóknardags annars vegar og auglýsingardags hins vegar, liggja tiltölulega fáar umsóknir og nánast tilviljun ræður hvort þær umsóknir falla undir meðferð eldri eða yngri laga. Áður en umsækjandi leggur inn umsókn um einkaleyfi verður hann að vita hvaða meðferð umsóknin muni sæta og hvað hún muni nokkurn veginn kosta. Á hinn bóginn munu umsækjendur ekki vita að hverju þeir ganga, ef þeir leggja inn umsókn nokkru fyrir gildistöku nýrra laga og þessu ákvæði yrði ekki breytt í þá átt sem félagið leggur til. Yrði þá að vara umsækjendur við, þannig að þeir gætu sætt gildandi lögum eða hugsanlega nýjum lögum og þeir gætu því væntanlega lent í ótilteknum kostnaði. verði frumvarpið að lögum og ekki yrði búið að auglýsa umsókn á ótilgreindu tímamarki o.s.frv. Um eldri óauglýstar umsóknir er það að segja að hafa verður í huga þau áhrif á þessar umsóknir sem um getur í a-lið hér að framan, svo og grandleysi umsækjenda varðandi meðferð umsóknar, þýðingarkostnað o.s.frv., sem kæmi þeim í opna skjöldu.
    Félagið leggur því til að byrjað verði með hreint borð í þessu tilliti og að hreinar línur gildi um það, að hverju umsækjendur gangi er þeir leggi inn umsókn, svo og að ekki verði með stórfelldum hætti komið aftan að eldri umsækjendum sem eiga óauglýstar umsóknir. Annað leiddi til óþarfa óvissu, sem hæglega gæti skapað misskilning og leiðindi, án þess að nokkuð ynnist að öðru leyti. Svo sem áður gat ætti umsóknarárgjald að tryggja að ekki sé verið að viðhalda óþörfum og úreltum eldri umsóknum.
3.3     Ákvæði 1. mgr. 81. gr. frumvarpsins er nokkuð íþyngjandi fyrir einkaleyfishafa samkvæmt eldri lögum. Yrði að tilkynna þeim þessa breytingu með nokkrum fyrirvara.
3.4     Félagið telur eðlilegt að frumvarpið hafi að geyma ákvæði um að III. kafli frumvarpsins taki gildi með auglýsingu iðnaðarráðuneytisins þar um. Annars yrði gildistaka þessa kafla óljós.
3.5     Þá telur félagið að heppilegt hefði verið, að frumvarpið hefði að geyma ákvæði þar sem ríkisstjórninni væri heimilað að staðfesta einkaleyfasamstarfssamninginn (Patent Cooperation Treaty) sem undirritaður var í Washington 19. júní 1070 svo ekki þurfi síðar að leggja fram sérstakt frumvarp þess efnis.
3.6     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ekki verði hægt að fá einkaleyfi fyrir læknislyfjum fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laga þessara. Í umfjöllun um 75. gr. er þess getið að sambærileg bráðabirgðaákvæði hafi verið í gildi hjá frændþjóðum okkar sem eru nú ýmist fallin úr gildi eða muni gera það á næstu árum. Enn fremur er þess getið að rétt sé að veita íslenskum lyfjaiðnaði vissan tíma til aðlögunar breyttum aðstæðum.
    Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa vill leggja ríka áherslu á það að það er grundvöllur einkaleyfisréttarins að þeir aðilar, sem fundið hafa upp nýjungar þ.m.t. efni og efnasambönd, svo sem læknislyf njóti afraksturs nýsköpunar sinnar í formi tímabundins einkaréttar gegn því að þeir greiði kostnað af rekstri einkaleyfakerfisins, birti nýjung sína opinberlega í formi einkaleyfisumsóknar og játist undir þau ákvæði að uppfinningin verði öllum aðgengileg að liðnum einkaleyfistímanum. Ákvæði þau, sem eru í 1. gr. núgildandi laga og sem finna má í gildistökuákvæðum frumvarpsins um frestun á veitingu einkaleyfa fyrir læknislyf um fimm ár, eru í andstöðu við þessa grundvallarreglu einkaleyfaréttarins. Engar skýringar eru gefnar á hvers vegna rétt sé að veita íslenskum lyfjafyrirtækjum fimm ára aðlögunartíma eða hvers vegna menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fimm ára aðlögunartími sé eðlilegur. Félagið vill benda á að þróun læknislyfja kostar í mörgum tilfellum hundruð milljóna eða jafnvel milljarða og er því ljóst að það er mikilvægt fyrir þann, sem hefur lagt svo mikla fjármuni í nýsköpun að hann fái að njóta eðlilegrar og sanngjarnrar umbunar fyrir framlag sitt. Jafn óeðlilegt er að sá sem ekki hefur lagt neina fjármuni í annað en að útbúa eftirlíkingar fái að hirða ávöxt starfs frumherjanna.
    Rétt er enn fremur að benda á að þróun lyfja tekur ár ef ekki áratugi. Frá því að lyf eða lyfjaefni er fundið upp líða ár og jafnvel áratugur þar til lyfið er komið á almennan markað. Lyfjaframleiðendur sækja venjulega um einkaleyfi fyrir lyfjaefnum tiltölulega fljótlega eftir að lyfið hefur verið fundið upp. Lyfið kemur hins vegar ekki á markað fyrr en mörgum árum síðar. Þetta hefur m.a. það í för með sér að þó svo að við gildistöku frumvarpsins yrði heimilað að veita einkaleyfi fyrir læknislyfjum hefði það fyrst að fimm til tíu árum liðnum áhrif á möguleika íslenskra lyfjafyrirtækja á að koma á markað lyfjum sem aðrir hafa fundið upp. Þau lyf og efni, sem fundin hafa verið upp á síðustu árum og sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir erlendis, yrðu þrátt fyrir allt til afnota fyrir íslensk lyfjafyrirtæki.
4.0     Frumvarpið gerir ráð fyrir sjálfstæðri einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofu, sbr. 1. mgr. 7. gr. Æskileg væri ítarleg lögfesting á stöðu skrifstofunnar með sérstökum lögum. Alla vega verður að ganga út frá því að þeim ágreiningi, er varðar málsmeðferð og ekki verður skotið til áfrýjunarnefndar í einkaleyfamálum, sbr. 2. mgr. 7. gr., 25. og 67. gr. frumvarpsins, verði skotið til iðnaðarráðuneytis sem sjálfstæðs æðra stjórnvalds.
5.0     Félagið telur þó ástæðu til að gera athugasemdir við það hversu takmarkaðar skýringar eru við einstakar greinar frumvarpsins. Vegna stöðu einkaleyfisréttar á Íslandi er það skoðun félagsins að heppilegra væri að hafa skýringar mun ítarlegri, þar sem frumvarpið felur í sér mjög umfangsmiklar breytingar og margar nýjungar. Má m.a. nefna að í 1. gr. frumvarpsins er engar skýringar að finna á hugtakinu uppfinning þó þar sé um að ræða grundvöll einkaleyfisréttarins. Ýmislegt annað mætti tína til, svo sem að ekki er að finna neina umfjöllun um á hvern hátt skuli framkvæma mat á nýnæmi og einkaleyfishæfni og hvernig skuli staðið að málsmeðferð einkaleyfisumsókna. Af augljósum ástæðum getur slíkt mat né heldur málsmeðferð ekki farið fram á sama hátt hér á landi og t.d. annars staðar á Norðurlöndum.
5.1     Í III. kafla frumvarpsins þykir félaginu vanta ítarlegri umfjöllun um PCT-kerfið markmið þess, kosti og galla. Nánari skýringar vanti um fyrsta og annan hluta sáttmálans og muninn á aðild að hvorum hluta fyrir sig svo og kostnaðarumfjöllun, en ekkert kemur fram um raunverulegan kostnað hins opinbera og eða kostnað umsækjenda vegna þátttöku í þessu nýja kerfi. Enn fremur þykir félaginu vanta almenna umfjöllun um áhrif þess kostnaðarauka sem telja verður að frumvarpið leiði af sér, þ.e. áætlanir um tekjuöflun og áhrif kostnaðarauka á fjölda einkaleyfisumsókna. Er það mat félagsins að hingað til hafi bæði innlendum og erlendum aðilum þótt all kostnaðarsamt að leggja inn umsóknir um einkaleyfi á Íslandi. Kostnaður hér er tiltölulega mjög hár miðað við stærð markaðarins. Aukin gjaldtaka af hálfu hins opinbera, svo og auknar kröfur svo sem vegna þýðinga, sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir umsækjendur, gætu hæglega haft þau áhrif að umsóknum mundi verulega fækka.
5.2     Í 71. gr. frumvarpsins verður ekki betur séð en að um rýmra orðalag sé að ræða en í sambærilegum greinum löggjafar annarra Norðurlanda. Engar haldbærar skýringar er að finna um túlkun þessarar greinar í frumvarpinu en auðveldlega má túlka hana sem svo að einkaleyfisskrifstofan geti tekið að sér upplýsingaþjónustu svo og alla aðra þjónustu varðandi vernd uppfinninga, þ.m.t. ráðgjöf um einkaleyfi, frágang umsókna o.s.frv. Óskar félagið þess vegna eftir að bætt verði nánari skýringum við grein þessa.
5.3     Félagið telur æskilegt að skipurit yfir meðferðarferil einkaleyfisumsókna, sem hannað var af Gunnari Erni Harðarsyni tæknifræðingi, sé látið fylgja athugasemdum við lagafrumvarpið, en það hefur mikið upplýsingagildi.
6.0     Þótt ekki sé að finna í frumvarpinu ákvæði um þýðingar úr erlendum málum, heldur muni þau ákvæði að finna í væntanlegri reglugerð, þá leggur félagið eindregið til, að umþóttunartími verði gefinn um þýðingar. Til að byrja með verði aðeins skylt að þýða útdrátt. Hér er um róttæka ráðstöfun að ræða sem margir telja umdeilanlega og sem hefur í för með sér mikinn kostnaðarauka.
    Þar sem þýðingin mun fyrst og fremst gegna því hlutverki að gera Íslendingum kleift að kynna sér efni umsókna á eigin máli, er út frá því gengið, að þýðingar þurfi ekki að leggja fram fyrr en eftir að umsókn hefur verið samþykkt til framlagningar. Ástæða þess, að slíkt verklag er heppilegt, er einnig sú að efni umsókna berst umboðsmönnum venjulega örstuttu fyrir umsóknardag og í þann mund að forgangsréttur er að renna út og með þessu móti sparast þýðingar ef umsókn er hafnað fyrir þetta tímamark.
    Stjórn félagsins er reiðubúin til að ræða framangreind atriði við starfsmenn Einkaleyfa- og vörumerkjaskrár þegar þess er óskað. Er það eindregin von félagsins að fallist verði á framangreind sjónarmið.

Fylgiskjal IV, 3.


Athugasemdir Lyfjaeftirlits ríkisins við frumvarp til laga um einkaleyfi.


Sendar iðnaðarráðuneytinu 14. ágúst 1990.



    Lyfjaeftirlit ríkisins gerir ekki athugasemdir við ofannefnt frumvarp umfram eftirfarandi:
    3. mgr. 2. gr. – Það er mat Lyfjaeftirlitsins að fella beri þessa málsgrein niður, þar sem hún er innskot á þessum stað og hefur af þeim ástæðum ruglandi áhrif við lestur greinarinnar. Hún hefur engu við að bæta umfram það sem fram kemur í 29. og 38. gr. Í báðum þeim greinum er vísað í 2. gr. og þar með komin samtenging á milli þessara þriggja greina.
    5. mgr. 8. gr. – árgjöld af umsóknum: Lagt er til að umsækjendur um einkaleyfi greiði ákveðið gjald fyrir hvert það ár sem umsóknin er til meðferðar hjá einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofu, áfrýjunarnefnd og/eða dómstólum.
    Það er mat Lyfjaeftirlitsins að forðast beri gjöld af þessu tagi, þar sem þeim fylgir að gefinn er augljós og aðgengilegur höggstaður til gagnrýni á umfjöllunaraðila og málsmeðferð hans á umsóknum.
    Eðlilegra væri að greitt yrði eitt umsóknargjald einu sinni er miðast við ákveðinn meðhöndlunartíma, en gerðar kröfur um að umsóknirnar væru þannig frágengnar. að líklegt væri að fullnaðarmeðhöndlun geti að öllum jafnaði farið fram á umræddum meðhöndlunartíma.
    6. mgr. 22. gr. – afhending örverusýna: Það er mat Lyfjaeftirlitsins að ekki sé af greininni nægilega ljóst, hverjum megi afhenda varðveitt örverusýni og hverjum ekki. Hvaða reglugerðir og/eða lög fjalla um það? Hver metur það og á hvaða grunni, hvort einstaklingur sé hæfur til að meðhöndla skaðlegar örverur án verulegrar áhættu. Hversu mikil er „veruleg“ áhætta? Hver ber ábyrgð á skaða sem hlýst af örverum sem afhentar hafa verið af varðveittum örverusýnum vegna einkaleyfisveitinga?
    Vegna ófyrirsjáanlegra afleiðinga af meðferð og/eða meðhöndlun örvera er afar nauðsynlegt að ekki leiki vafi á ofannefndum atriðum.


Fylgiskjal IV, 4.


Athugasemdir Félags íslenskra iðnrekenda við frumvarp til laga um einkaleyfi.


Sendar iðnaðarráðuneytinu 15. október 1990.



    Við höfum engar almennar athugasemdir við frumvarpið, enda má segja að alþjóðalög séu hér á ferðinni. Hins vegar teljum við ríka ástæðu til að halda fast við ákvæði 75. gr. um frestun á gildistöku laganna hvað varðar einkaleyfi á læknislyfjum og jafnvel lengja þann frest, ef mögulegt er.
    Ljóst er að aðlögunartími annars staðar á Norðurlöndum hefur verið 5–10 ár. Þetta hefur verið ákveðið, þrátt fyrir að í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi sé öflugur lyfjaiðnaður sem hefur bolmagn til nýþróunar lyfja. Þessi iðnaður er vaxinn upp á löngum tíma og hefur náð að dafna í skjóli velvilja heilbrigðisyfirvalda í þessum löndum og að nokkru leyti í skjóli ófullkominnar einkaleyfalöggjafar á tiltölulega litlum mörkuðum. Íslenskur lyfjaiðnaður er ung grein sem hefur verið að skjóta rótum á síðustu árum. Þrátt fyrir að iðnaðurinn hafi náð nokkurri fótfestu á markaðnum er það allt að því óhugsandi að hann geti stundað nýþróun lyfja, þar eð kostnaður, sem því er samfara, er afar hár.
    Íslenskur lyfjaiðnaður getur því einungis framleitt svokölluð samheitalyf (generisk lyf), þ.e. lyf sem upphaflega hafa verið þróuð og markaðssett erlendis. Þróunarkostnaður á íslenskum samheitalyfjum er verulegur, jafnvel sambærilegur við nýþróun lyfja, ef tekið er mið af markaðsstærð. Lengi vel var tiltölulega lítil samkeppni á „generiska“ markaðnum erlendis frá, en það hefur gjörbreyst – núna eru nokkur stór erlend fyrirtæki farin að flytja fjölda mjög ódýrra lyfja hingað til lands; oft er um undirboð að ræða.
    Það sem íslenskir lyfjaframleiðendur hafa haft fram yfir þá erlendu er að þeir hafa getað verið fyrr á ferðinni með samheitalyfin, oft 5–7 árum áður en einkaleyfi erlendis fellur úr gildi. Þótt hægt hafi verið að fá einkaleyfi á aðferð til framleiðslu lyfjaefnis hafa fæst erlend lyfjafyrirtæki hirt um að sækja um einkaleyfi hér á landi. Ekki er ósennilegt að það breytist, þegar Ísland er orðið aðili að Parísarsáttmálanum. Þegar að því kemur, er hætt við að íslenskur lyfjaiðnaður muni eiga erfitt uppdráttar vegna samkeppni erlendis frá, hafi honum ekki fyrir þann tíma tekist að stækka markaðssvæði sitt, þ.e. hefja útflutning í verulegum mæli.
    Í ljósi ofangreindra atriða telur Félag íslenskra iðnrekenda eðlilegt og mjög mikilvægt fyrir íslenskan lyfjaiðnað að hann fái sanngjarnan aðlögunartíma, líkt og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa haft, þar sem markaðsöflun fyrir lyf erlendis er afar tímafrek og kostnaðarsöm.

Fylgiskjal IV, 5.


Umsögn Guðmundar G. Haraldssonar, raunvísindadeild Háskóla Íslands.


Send iðnaðarráðuneytinu 4. október 1990.



    Ég hef eftir bestu getu reynt að setja mig inn í frumvarpið í heild, lesið það í gegn og ígrundað. Umsögnin er þó engan veginn tæmandi og miðast við þau atriði sem tengjast minni takmörkuðu reynslu á þessum vettvangi svo og mínu sérsviði innan efnafræðinnar og háskólans.
    Ég vil byrja á því að fagna frumvarpinu og lýsa yfir mikilli ánægju minni með það. Loksins hillir undir lausn á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í þessum efnum hér á landi. Núgildandi lög um einkaleyfi á Íslandi eru næstum 70 ára gömul og hefur þeim ekki verið breytt til samræmis við þá öru þróun og stórstígu framfarir sem átt hafa sér stað í einkaleyfisrétti á alþjóðavettvangi. Ástand mála var því orðið mjög alvarlegt í þessum efnum og afar fráhrindandi því þeir menn sem íhugað hafa að sækja um einkaleyfi hafa þurft að setja sig bæði inn í úrelt lög okkar svo og lög nágrannalandanna. Enn fremur ber að fagna fyrirhugaðri aðild Íslands að alþjóðasamningi um einkaleyfisumsóknir, PCT (Patent Cooperation Treaty), sem gerir mönnum afar auðvelt fyrir í umsóknum á alþjóðlegum einkaleyfum, auk þess að koma í veg fyrir tvíverknað í rannsóknum á einkaleyfishæfi umsókna og spara þar með veruleg útgjöld. Engu að síður má ljóst vera að við erum og höldum áfram að vera mjög háðir erlendum aðilum hvað snertir umsagnir og rannsóknir á nýnæmis- og einkaleyfishæfi umsókna.
    Sérstakt fagnaðarefni fyrir okkur efnafræðinga eru þau ákvæði að til standi að opna möguleikana fyrir veitingu einkaleyfa á efnum og efnasamböndum, uppfinningum á sviði líftækni, lyfjum og næringarefnum. Hingað til hafa einkaleyfi á þessum vettvangi einskorðast við aðferðir og framleiðsluferli á afurðum, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að unnt verði að öðlast einkaleyfi á bæði afurðinni sem slíkri, hvort heldur hún er efnasamband, lyf eða næringarefni, svo og notkun hennar, þ.m.t. í læknisfræðilegum tilgangi. Ekki tel ég þó að nægilega vel komi fram í frumvarpinu hvað nákvæmlega felst í þessu.
    Taka má sem dæmi mínar eigin rannsóknir og segjum sem svo að ég hefði undir höndum afurð með háu innihaldi omega-3 fjölómettaðra fitusýra. Ef ég síðan hefði áhuga á að afla einkaleyfis á afurðinni munu þrír kostir koma til álita:
     1.      Aðferðafræðin við smíði afurðarinnar.
     2.      Afurðin sjálf, þ.e. efnið og samsetning þess.
     3.      Notkun afurðarinnar, t.d. sem fæðuauki, næringarefni eða jafnvel lyf. Í því tilviki mætti höfða til fyrirbyggjandi áhrifa sem vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
    Þykir mér vanta að gerð sé nákvæmari grein fyrir þessum atriðum í frumvarpinu.
    Ekki er í frumvarpinu kveðið á um reglur um starfsmenn á opinberum stofnunum og rétt þeirra til eigin uppfinninga. Rétt er að benda á mikilvægi þess fyrir stofnanir, þ.m.t. háskólann, og starfsmenn þeirra að reglur verði settar varðandi þetta atriði. Á Norðurlöndum hafa verið sett lög um rétt starfsmanna til uppfinninga og mætti hafa hliðsjón af þeim. Má í því sambandi benda á álitsgerð prófessors Gauks Jörundarsonar frá 7. nóvember 1984, þar sem m.a. kemur fram sá skilningur og túlkun að háskólamenn og annað vísindastarfslið háskólans haldi fullum rétti til uppfinninga sinna svo fremi að um frjálsa rannsókna- og vísindaiðkun viðkomandi starfsmanns sé að ræða.
    Að lokum má nefna gjaldtöku einkaleyfayfirvalda almennt. Um er að ræða talsvert flókið fyrirkomulag, fyrst umsóknargjald, þá framlagningargjald, rannsóknargjald og að lokum árgjald. Ég tel mjög brýnt að fyrirhugaðri einkaleyfisskrifstofu verði veitt strangt aðhald í gjaldtöku til að stemma stigu við því að umsækjendur séu beinlínis notaðir til að standa undir eða haldi uppi fyrirferðarmiklu kerfisbákni eins og svo oft vill brenna við. Að vísu kveður frumvarpið á um talsvert aðhald, en sýna verður fyllstu aðgát í þessum efnum.


Fylgiskjal V.


Kostnaðarumsögn um frumvarp til laga um einkaleyfi


frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun til iðnaðarráðuneytis.


(13. ágúst 1990.)



    Á fjárlögum er vörumerkja- og einkaleyfaskrifstofa iðnaðarráðuneytisins sérstakt viðfangsefni sem fellur undir fjárlagalið aðalskrifstofu ráðuneytisins og er hún þannig hluti af starfsemi Stjórnarráðsins. Iðnaðarráðuneytið hefur á síðustu árum ákvarðað gjöld fyrir einkaleyfi, vörumerki o.fl. með hliðsjón af því markmiði að gjöldin stæðu að verulegu eða helst öllu leyti undir þeim kostnaði sem hlýst af þjónustu vörumerkja- og einkaleyfaskrifstofunnar. Á árinu 1989 stóðu tekjur skrifstofunnar alfarið undir gjöldum og gert er ráð fyrir að svo verði einnig í ár.
    Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að kostnaður við umsýslu einkaleyfa muni aukast nokkuð. Notendur einkaleyfakerfisins munu hins vegar bera þann kostnaðarauka með hærri gjöldum. Það er mat fjármálaráðuneytisins, sem og þeirra sem að frumvarpi þessu unnu, að frumvarp þetta hafi ekki í för með sér beinan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.