Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 340 . mál.


Nd.

599. Frumvarp til laga



um leikskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


     Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn annast að ósk foreldra uppeldi barna fram að skólaskyldualdri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum. Leikskóli er samkvæmt lögum þessum fyrir börn frá hálfs árs aldri eða frá þeim tíma að fæðingarorlofi lýkur til sex ára aldurs.

II. KAFLI


Markmið.


2. gr.


     Tilgangur laganna er að veita börnum góða umönnun og örugg uppeldisskilyrði.
     Leikskólinn skal í samráði við foreldra eða aðra forráðamenn veita börnum á leikskólaaldri uppeldi og menntun.
     Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldisstarfi í leikskóla vera:
     að búa börnum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi,
     að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn fóstra,
     að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,
     að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna,
     að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
     að rækta tjáningar - og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

III. KAFLI


Hlutverk sveitarfélaga.


Stofnun og rekstur leikskóla.


3. gr.


     Til að stuðla að framkvæmd þess markmiðs sem getið er um í 1. mgr. 2. gr. skal stofna leikskóla. Stofnun leikskóla og rekstur er á ábyrgð sveitarfélaga en fagleg yfirstjórn málaflokksins samkvæmt lögum þessum er á hendi menntamálaráðuneytis.
     Sveitarfélag gerir árlega könnun á því hversu margir foreldrar óska eftir leikskólavistun. Á grundvelli þeirrar könnunar verði gerð áætlun um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi til a.m.k. tveggja ára í senn. Sveitarfélögum er samkvæmt lögum þessum skylt að hafa forustu um að tryggja börnum þann lögvarða lágmarksrétt til þjónustu sem lög þessi gera ráð fyrir. Til þess að setja á stofn leikskóla þarf starfsleyfi frá menntamálaráðuneytinu. Heimilt er að veita leikskóla starfsleyfi þótt börnin dvelji þar ekki daglega eða einungis hluta úr ári.

4. gr.


     Í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélag er öðrum aðilum heimilt að reka leikskóla. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi fengið starfsleyfi og meðmæli sveitarfélags og reki leikskólann samkvæmt lögum þessum.

5. gr.


     Bygging og rekstur leikskóla skal vera í umsjón sveitarstjórna og skulu þær sjá um framkvæmd þessara laga hver í sínu sveitarfélagi. Skólanefnd eða sérstök leikskólanefnd fer með stjórn leikskóla, nema þar sem sveitarstjórn felur félagsmálanefnd að fara með málið.
     Sé skólanefnd eða sérstakri leikskólanefnd falin stjórn leikskóla skal starfsfólk leikskóla kjósa einn fulltrúa til setu í nefndinni og skal hann hafa málfrelsi og tillögurétt. Enn fremur kjósa samtök foreldra einn fulltrúa til setu í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.


     Menntamálaráðuneytið skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði leikskóla: heildarrými, aðstöðu til einstaklingsþjálfunar, leikrými barna, búnað, vinnuaðstöðu starfsfólks, svo og útileiksvæði.
     Í reglugerðinni skulu einnig vera viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið leikskóla.
     Enn fremur skal kveða á um það í reglugerð hverjir skulu vera umsagnaraðilar um hönnun og byggingu leikskóla.

IV. KAFLI


Yfirstjórn.


7. gr.


     Menntamálaráðuneytið fer með mál þau er lög þessi taka til. Það veitir leyfi til leikskólareksturs. Það hefur með höndum eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum sem lög þessi og reglugerð mæla fyrir um. Það mótar uppeldisstefnu leikskóla, sér um útgáfu uppeldisáætlunar, sbr. 13. gr., sinnir þróunar - og rannsóknarstarfi og er stjórnendum leikskóla til ráðuneytis um starfsemina.

8. gr.


     Landinu skal skipt í leikskólaumdæmi. Leikskólaumdæmi skulu vera þau sömu og fræðsluumdæmi samkvæmt grunnskólalögum. Tengja skal starfsemi fræðsluskrifstofa grunnskóla og störf umdæmisfóstra leikskóla, þar með talin starfsemi kennslugagnamiðstöðva fyrir bæði skólastigin.
     Leikskólinn skal stuðla að því í samráði við grunnskóla að eðlileg tengsl skapist á milli þessara skólastiga. Menntamálaráðuneytið setur með reglugerð nánari ákvæði um samstarf leikskóla og grunnskóla.

9. gr.


     Í hverju leikskólaumdæmi skal starfa umdæmisfóstra. Umdæmisfóstra leikskóla skal í samvinnu við rekstraraðila og hlutaðeigandi nefndir sinna ráðgjöf og faglegu eftirliti með uppeldi og menntun í þeim leikskólum umdæmisins þar sem ekki eru aðrir leikskólafulltrúar eða umsjónarfóstrur á vegum sveitarfélaga. Umdæmisfóstra stuðlar að samstarfi leikskóla umdæmisins og samvinnu leikskóla og grunnskóla.
     Umdæmisfóstra er starfsmaður ríkisins. Við ráðningu í starf umdæmisfóstru skal taka tillit til starfsreynslu í leikskóla og framhaldsmenntunar. Umsjónarfóstra getur verið starfsmaður fræðsluskrifstofu. Nánar skal kveðið á um störf umdæmisfóstra í erindisbréfi. Ráðning umdæmisfóstra er ákveðin í fjárlögum hverju sinni.

V. KAFLI


Starfsfólk og foreldrar.


10. gr.


     Við hvern leikskóla skal vera leikskólastjóri. Leikskólastjóri og starfslið er annast fóstrustörf skal hafa fóstrumenntun, svo og þeir sem annast faglega umsjón og eftirlit með leikskólum á vegum rekstraraðila.
     Leikskólastjóri stjórnar starfi leikskólans í umboði rekstraraðila eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim. Í samráði við rekstraraðila ber leikskólastjóri ásamt starfsfólki ábyrgð á að móta heildarstefnu í uppeldis - og menntamálum leikskólans og að áætlanir þar um séu gerðar í samræmi við 13. gr.
     Ársskýrsla um starfsemi leikskóla skal send sveitarstjórn og umdæmisfóstru viðkomandi umdæmis. Sveitarstjórn skal setja starfsfólki erindisbréf í samræmi við lög þessi og reglugerð er sett verði samkvæmt þeim.



11. gr.


     Leikskólastjóri skal halda reglulega fundi með starfsfólki um stjórn heimilisins og velferð hvers einstaks barns.

12. gr.


     Skylt er rekstraraðila leikskóla að skipuleggja tengsl milli foreldra barnanna og leikskólans í því skyni að efla samstarf þessara aðila um velferð barnsins.

VI. KAFLI


Uppeldisáætlun.


13. gr.


     Menntamálaráðuneytið setur leikskólum uppeldisáætlun þar sem m.a. skal kveðið á um uppeldis - og menntunarhlutverk leikskólans og meginstefnu varðandi starfshætti.
     Í uppeldisáætlun verði gildi leiksins sem uppeldis - og kennslutækis leiðandi hugtak.
     Menntamálaráðuneytið hefur uppeldisáætlun leikskóla stöðugt til endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þegar þörf er talin á.

VII. KAFLI


Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar.


14. gr.


     Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika, þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á henni innan leikskólans, undir handleiðslu fóstra, þroskaþjálfa og annarra sérfræðinga. Þjálfunin getur verið einstaklingsbundin og í hópi innan almennrar leikskóladeildar eða á sérhæfðum deildum.
     Markmið þjálfunarinnar er m.a. að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess. Ákvörðun um þjálfun og tilhögun hennar skal tekin í samráði við foreldra barnsins og ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu leikskólans, að undangenginni greiningu og mati sálfræðiþjónustunnar eða annarra lögboðinna greiningaraðila.
     Stefnt skal að því að barnið sæki leikskóla í sínu skólahverfi. Þó skal gefinn kostur á að leita annarra úrræða sem henta barninu betur með tilliti til þjónustu. Fatlað barn, sem sækir skóla utan síns skólahverfis, á rétt á flutningsþjónustu sem greiðist af ríkinu, sbr. lög nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

15. gr.


     Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum á leikskólaaldri.
     Heimilt er þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald almennra leikskóladeilda vegna veru fatlaðra barna, svo og sérhæfðra deilda.

VIII. KAFLI


Leikskólarannsóknir og þróunarstarf.


16. gr.


     Menntamálaráðuneytið stuðlar að þróunar - , tilrauna - og rannsóknarstarfi innan leikskólanna. Í því skyni skal árlega varið fé í þróunarsjóð samkvæmt ákvörðun Alþingis með fjárlögum. Menntamálaráðuneytið afgreiðir umsóknir og ákveður skiptingu fjárins.

17. gr.


    Til þess að sinna tímabundnum rannsóknar - og þróunarverkefnum á vegum menntamálaráðuneytisins má ráða sérstaka starfsmenn.

18. gr.


     Í rannsókna - , þróunar - og tilraunaskyni er ráðuneytinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða.

IX. KAFLI


Ráðgjafarþjónusta.


19. gr.


     Allir leikskólar eiga rétt á sérhæfðri ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu og skal hún að jafnaði skipulögð í tengslum við ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu fræðsluumdæmisins, sbr. lög um grunnskóla.
     Menntamálaráðuneytið gerir í samráði við umdæmisfóstrur heildaráætlun um framkvæmd þessarar þjónustu.

20. gr.


     Hlutverk ráðgjafar - og sálfræðiþjónustunnar er:
     að annast sérfræðilega ráðgjöf og fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla og foreldra leikskólabarna um uppeldi og umönnun barnanna,
     að annast frumgreiningu og/eða vísa í sérhæfðari greiningaraðila ef þess gerist þörf að mati ráðgjafarþjónustunnar; enn fremur að hafa umsjón og eftirlit með aðstoð og þjálfun barnanna,
     að annast ýmis rannsóknastörf og athuganir í sambandi við ráðgjafarþjónustuna.

21. gr.


     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og starfssvið ráðgjafar - og sálfræðiþjónustunnar.

X. KAFLI


Heilsuvernd og hollustuhættir.


22. gr.


     Um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á leikskólum fer eftir lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

23. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 112/1976 að öðru leyti en því er lýtur að skóladagheimilum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


     Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir, gefin út af menntamálaráðuneytinu 1985, tekur með lögum þessum gildi sem fyrsta uppeldisáætlun leikskóla.


II.


     Stefnt skal að því að sveitarfélög nái markmiðum 3. gr. innan 10 ára.

III.


     Heimilt er menntamálaráðuneytinu að fela fræðsluskrifstofum að annast þau svæðisbundnu stjórnunarverkefni sem gert er ráð fyrir í IV. kafla laganna þar til skipulag það sem þar er gert ráð fyrir er að fullu komið til framkvæmda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Menntamálaráðherra, Svavar Gestsson, skipaði 25. janúar 1989 nefnd til að endurskoða lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, í þeim tilgangi að skapa ramma um nýtt skólastig, forskólastig, fyrir börn undir skólaskyldualdri. Nefndinni var einnig falið að gera áætlun um uppbyggingu og rekstur dagheimila og leikskóla næstu 10 ár og um æskilegt fyrirkomulag á stofn - og rekstrarkostnaði.
     Í nefndina voru skipaðir: Ásmundur Stefánsson hagfræðingur, Bergur Felixson framkvæmdastjóri, Gerður G. Óskarsdóttir, ráðunautur menntamálaráðherra, Guðrún Alda Harðardóttir fóstra, Gunnhildur Gísladóttir efnafræðingur, Hallgrímur Guðmundsson bæjarstjóri, Sigríður L. Baldursdóttir eðlisfræðingur, Kristín Á. Ólafsdóttir borgarfulltrúi, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, formaður Fóstrufélags Íslands, Svandís Skúladóttir deildarstjóri og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Sóknar. Ólafur Guðmundsson deildarstjóri var starfsmaður nefndarinnar.
     Nefndin samdi tvö frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um leikskóla og frumvarp til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla.
     Allir nefndarmenn tóku þátt í gerð frumvarpanna en Ásmundur Stefánsson tók þó ekki þátt í samningu frumvarps til laga um leikskóla vegna anna við kjarasamninga fyrr á árinu. Bergur Felixson skilaði séráliti.
     Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu um leikskóla í meðförum málsins í ríkisstjórn. Frumvarp um leikskóla eins og nefndin skilaði því fylgir með merkt fskj. III.
     Frumvarpið sem nefndin samdi um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla fylgir hér með merkt fskj. I. Umsagnir um frumvarpið sem menntamálaráðuneytinu hafa borist fylgja hér með sem fskj. IV.

Skýringar við frumvarp til laga um leikskóla

.
1. Uppeldisstefna.
    
Frumvarpið byggir á uppeldisstefnu sem menntamálaráðuneytið markaði 1985 varðandi börn undir skólaskyldualdri þegar ráðuneytið gaf út Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir. Áætlunin byggir á viðurkenndu markvissu uppeldisstarfi þar sem leikur og sköpun í máli, myndum, tónum og hreyfingu skipar öndvegi og þar sem mið er tekið af þroska og þörfum hvers barns og aðstæðum á heimili þess.

2. Leikskólaheitið.
    
Nefndin sem samdi leikskólafrumvarpið leitaði til Valborgar Sigurðardóttur, fyrrverandi skólastjóra Fósturskóla Íslands, sem sérfræðings um uppeldi og þroska barna á forskólaaldri. Í greinargerð Valborgar til nefndarinnar segir hún m.a. um gildi leiksins og leikskólaheitið:
Gildi leiksins fyrir þroska barnsins á þessum ungu árum er löngu viðurkennt og staðfest á fræðilegum grundvelli. Leikurinn er lífstjáning barnsins hið eðlilega tjáningarform þess. Leikurinn er ekki aðeins gleðigjafi, hann er þeim nám og starf. Við þurfum að líta á leiki barna sem mikilvægar náms - og þroskaleiðir og nýta þá sem slíka.
     Oft er þó sagt að börn á dagheimilum og leikskólum læri ekki neitt, „þau bara leiki sér“. En í bernsku er það að leika sér sama og að læra og leita sér þekkingar og reynslu.
     Uppeldisstofnanir/skólar þessir skulu bera nafnið leikskólar í samræmi við meginkjarna þess uppeldisstarfs sem þar fer fram.
     Leikskólaheitið skírskotar þannig til þess uppeldisstarfs og inntaks þess. Skiptir hér ekki máli hversu margar stundir á dag börnin dvelja þar. Höfuðatriðið er að þar fari fram leikskólastarfsemi í þess orðs bestu merkingu: markvisst uppeldisstarf byggt á leik og hvers konar sköpun eins og fyrr segir.
     Leikskólaheitið lýsir uppeldisstarfinu og minnir á að það sé skóli þar sem lítil börn læra og þroskast gegnum leik. Minna má á hér að latnesk/gríska orðið „schola“ þýðir í eiginlegri eða upprunalegri merkingu „tómstundir sem notaðar eru til náms“. Í orðinu leikskóli felst því heilbrigður metnaður og holl áminning.“
     Nefndin var sammála um að þetta skólastig skuli kallast leikskólastig og dagvistarheimili verði nefnd leikskólar, burtséð frá lengd dvalartíma barnanna þar.

3. Uppeldisáætlun er starfsrammi.
    
Rétt þykir að gera hér grein fyrir þeirri uppeldisáætlun sem vísað er til í lagafrumvarpi þessu. Í bréfi sem Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, sendi öllum dagvistarheimilum á landinu í maí 1985 er gerð grein fyrir uppeldisáætlun sem þá var nýkomin út. Í bréfi Ragnhildar segir m.a.:
     „Í uppeldisáætlun þessari eru sett fram markmið sem nefndin telur að stefna beri að í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum og síðan er fjallað um helstu uppeldissvið, grundvallarviðhorf og meginleiðir í uppeldi ungra barna.
     Uppeldisáætlunin felur ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á því starfi sem nú fer fram á dagvistarheimilum í landinu. Miklu fremur er uppeldisáætluninni ætlað það hlutverk að hlúa að því besta í því starfi sem fyrir er, auðga það og styrkja.
     Uppeldisáætlunin byggir á „hefðbundnum“ vestrænum grundvallarhugmyndum um uppeldi ungra barna, en styðst jafnframt við nýja þekkingu og reynslu á sviði uppeldisfræði og þróunarsálarfræði. Markmið uppeldisstarfsins mótast fyrst og fremst af lýðræðislegu lífsviðhorfi og kristilegu siðgæði. Aðaláhersla er lögð á að örva alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams - , tilfinninga - , vitsmuna - , félags - , fagur - og siðgæðisþroska efla jákvæða sjálfsmynd þeirra og búa þeim vel skipulagt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði sem jafnframt eru hlýleg og lærdómsrík.
     Menntamálaráðuneytið væntir þess að uppeldisáætlun þessi geti orðið forstöðumönnum og fóstrum haldgóður leiðarvísir í uppeldisstarfi í samvinnu við starfsfólk og foreldra. Skoða ber uppeldisáætlunina sem nokkurs konar umgjörð um uppeldisstarfið og sveigjanlegan starfsramma.
     Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin í huga geta forstöðumenn og fóstrur sérhvers dagvistarheimilis gert sínar eigin áætlanir og mótað uppeldisstarfið í samræmi við þroska og þarfir barnanna og þær aðstæður sem fyrir hendi eru.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Leikskólar eru skv. 1. gr. uppeldisstaðir fyrir yngstu börnin. Þeir eiga að þjóna börnum frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur, það er nú 6 mánuðir, þar til þau verða 6 ára og grunnskólaganga hefst.
     Þær stofnanir eða heimili, sem ekki starfa samkvæmt lögum þessum, geta ekki borið heitið leikskóli.

Um 2. gr.


     Í greininni er lögð áhersla á samráð og samstarf foreldra og leikskóla um uppeldi og menntun barna. Hér er lögð til grundvallar sú meginforsenda fyrir tilvist leikskóla að þeir tryggi börnum umönnun og örugg uppeldisskilyrði og séu fjölskyldum til stuðnings og sjálfsögð viðbót við uppeldi og menntun sem veitt er á einkaheimilum barnanna.
     Menntunarhugtakið er túlkað vítt og gengið út frá þeim skilningi að það nái m.a. til uppeldis, umönnunar, þjálfunar og kennslu, sem fyrst og fremst fer fram í leik og starfi, svo sem hæfir best börnum á leikskólaaldri.
     Meginmarkmið leikskólans eru byggð á „Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir“ sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu árið 1985. Leikskólar eiga að stuðla að og örva alhliða þroska barna. Ákveðin og nægjanlega skýr markmið, svo og fullnægjandi aðbúnaður á leikskólum ættu að tryggja að uppeldisstarfið sé fjölbreytt og traust.

Um 3. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er stofnun og rekstur leikskóla á ábyrgð sveitarfélaga en menntamálaráðuneytið fer með faglega yfirstjórn málaflokksins.
     Með gerð tveggja ára áætlunar á grundvelli árlegrar könnunar er sveitarfélögum ætlað að ná því markmiði að eftirspurn eftir leikskóladvöl verði fullnægt.
     Eins og í núgildandi lögum um dagvistarheimili þarf samþykki menntamálaráðuneytisins til þess að setja á stofn leikskóla (dagvistarheimili). Samþykki er gefið í formi starfsleyfis. Starfsleyfið á að tryggja að börn njóti viðhlítandi aðbúnaðar í öllum leikskólum.
     Ráðuneytinu er samkvæmt frumvarpinu heimilað að veita starfsleyfi þótt leikskólinn geti ekki boðið börnum daglega skóladvöl allt árið. Reikna má með að leikskólar í dreifbýli þyrftu helst á þessari heimild að halda.
     Í upphaflegum drögum að frumvarpi hljóðaði þessi grein svo: „Sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum þess að reka eða eiga aðild að rekstri leikskóla fyrir börn á leikskólaaldri. Óski foreldrar eða aðrir forráðamenn eftir leikskóladvöl fyrir barn sitt skal hún veitt í 4 9 stundir daglega eftir því sem best hentar barni og fjölskylduaðstæðum þess.“
     Við meðferð málsins í ríkisstjórn var sú breyting gerð sem nú kemur fram í 3. gr. frumvarpsins.
     Menntamálaráðuneytið er aftur á móti sammála orðalagi 3. gr. eins og hún kom frá leikskólanefndinni því hún tryggir börnum lögvarinn rétt til umönnunar og öruggari uppeldisskilyrða en kostur er ella. Núverandi dagvistarkerfi getur aðeins þjónað 46% barna á aldrinum 1 / 2 árs til 6 ára, annaðhvort á leikskóla eða dagheimili. Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir því að sveitarfélög fengju 10 ára aðlögunartíma til þess að fjölga leikskólum og starfsfólki með viðhlítandi menntun og uppfylltu þar með skyldur til þess að fullnægja eftirspurn. Greinin átti að taka gildi að fullu eftir 10 ára aðlögunartímabil.
     Núverandi skipting dagvistarstofnana í leikskóla og dagheimili er afnumin í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir, en sú skipting hefur byggst á mismunandi lengd daglegrar dvalar barnanna. Samheitið fyrir þessar mennta - og uppeldisstofnanir verður leikskóli sem gefur til kynna menntunarleið yngstu barnanna, þ.e. leikinn. Aðgreining í leikskóla og dagheimili er villandi og gefur í skyn að markmið þessara stofnana séu ólík. Með því að afnema skiptinguna er lögð áhersla á að hlutverk leikskóla (dagvistarstofnana) er það sama hvort sem barn dvelur þar 4 eða 9 stundir daglega, þ.e. að búa börnum örugg leikskilyrði undir leiðsögn sérmenntaðs starfsfólks.
     Lengd daglegrar dvalar barns á að fara eftir aðstæðum hjá fjölskyldu þess og skulu hagsmunir barnsins lagðir til grundvallar. Vinni foreldrar t.d. utan heimilis allan daginn á að tryggja að barnið geti verið á einum og sama staðnum þann tíma, en þurfi ekki að þeytast á milli margra staða daglega.

Um 4. gr.


     Eins og í núgildandi lögum um dagvistarstofnanir er öðrum aðilum en sveitarfélögum heimilt að stofnsetja og reka leikskóla (dagvistarheimili) liggi samþykki menntamálaráðuneytis og viðkomandi sveitarfélags fyrir.

Um 5. gr.


     Með 5. gr. er gert ráð fyrir því að sveitastjórnir ákveði hvort þær fela félagsmálanefnd, leikskólanefnd eða skólanefnd grunnskóla sem fyrir eru að sinna málefnum leikskólans í umboði sínu.
     Sé skólanefnd eða sérstakri leikskólanefnd falin stjórn leikskóla skal starfsfólk leikskóla kjósa einn fulltrúa til setu í nefndinni og skal hann hafa málfrelsi og tillögurétt. Enn fremur kjósa samtök foreldra einn fulltrúa til setu í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt. Fulltrúar starfsmanna leikskóla og foreldrar leikskólabarna kjósa þó ekki fulltrúa í félagsmálanefnd.

Um 6. gr.


     Greinin kveður á um þau atriði varðandi húsnæði, búnað, fjölda barna og starfsfólks sem setja skal í reglugerð til þess að tryggja viðhlítandi aðbúnað í öllum leikskólum.
     Í greininni er getið sérstaklega um aðstöðu til einstaklingsþjálfunar er nýtast má fötluðum börnum og þeim sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Slík aðstaða þarf að vera rúmgóð og með góðu geymslurými þar sem jafnframt getur verið boðið upp á fjölbreyttari möguleika í leik og starfi leikskólabarna almennt.


Um 7. gr.


     Í 1. mgr. 3. gr. felst að menntamálaráðuneytið fer með faglega umsjá málaflokksins og veitir leyfi til leikskólarekstrar samkvæmt þessari grein. Enn fremur er hér lagt til að ríkið marki heildarstefnu í uppeldismálum leikskólans og hafi yfirsýn yfir innra starf leikskólanna í landinu til að tryggja sem jöfnust uppeldis - og menntunarskilyrði leikskólabarna, burtséð frá búsetu þeirra og heildaraðstæðum. Með eftirlitshlutverki menntamálaráðuneytisins ætti að safnast á einar hendur sú vitneskja um málefni leikskólans sem nauðsynleg er til að móta heildstæða uppeldisstefnu leikskólans og tryggja markvisst þróunar - og rannsóknarstarf svo að ráðuneytið sé tilbúið til þess að vera stjórnendum leikskólanna til ráðuneytis um starfsemina eins og segir í greininni.

Um 8. gr.


     Hér er gert ráð fyrir því að landinu verði skipt í sérstök leikskólaumdæmi samkvæmt skiptingu í fræðsluumdæmi eins og ákveðið er í grunnskólalögum hverju sinni. Enda er ráð fyrir því gert í greininni að tengja starfsemi fræðsluskrifstofa grunnskóla og störf umdæmisfóstra leikskóla eins og kostur er til að mynda sem mesta samfellu í uppeldi og menntun barna allt frá upphafi leikskólastigs til loka skólagöngu. Með þessum samtengingaráætlunum má enn fremur ætla að verulegir fjármunir sparist nái þær fram að ganga. Áhersla er lögð á tengsl og samskipti leikskóla og grunnskóla og ráð fyrir því gert að ráðuneytið setji sérstaka reglugerð um samskipti þessara skólastiga.

Um 9. gr.


     Í þessari grein er gert ráð fyrir að í hverju umdæmi sé starfandi umdæmisfóstra á vegum menntamálaráðuneytisins sem sinni umsjónar - , ráðgjafar - og eftirlitsstarfi er lýtur að uppeldi og menntun leikskólabarna.
     Grein þessi gerir því ráð fyrir að þjónusta ráðuneytisins verði færð út á landsbyggðina.
     Þessi tilhögun er ekki síst mikilvæg fyrir minni sveitarfélög sem ekki hafa í þjónustu sinni umsjónarfóstrur og/eða leikskólafulltrúa.
     Leikskólum, sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum, hefur fjölgað ár frá ári og er að finna víða um land. Til að ráðuneytið geti sinnt hlutverki sínu gagnvart börnum í þessum leikskólum er nauðsynlegt að flytja þjónustu ráðuneytisins út í umdæmin.
     Eðlilegt er að ráðið verði í stöður umdæmisfóstra í áföngum. Þannig verði þessu ákvæði í greininni fullnægt á nokkrum árum.


Um 10. gr.


     Leikskólastjóri gegnir veigamiklu forustuhlutverki í uppeldisstarfi leikskólans jafnframt því sem hann hefur á hendi margþætt stjórnunarstarf.
     Greinin tekur einnig til menntunar þeirra er sinna fóstrustörfum og ráðgjafarstörfum á vegum rekstraraðila.
     Til að sveitarstjórnir og menntamálaráðuneytið hafi yfirsýn yfir starfsemi leikskólanna í landinu er lagt til að leikskólastjóri ásamt starfsfólki sínu geri ársskýrslu um starfsemi leikskólans og sendi viðkomandi sveitarstjórn og umdæmisfóstru.

Um 11. gr.


     Hér er um að ræða sömu ákvæði og í 18. gr. laga nr. 112/1976 og þarfnast því ekki skýringar.

Um 12. gr.


     Eitt af markmiðum leikskólans, sbr. 2. gr. í frumvarpi þessu, er „að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla aðhliða þroska barnanna í samræmi við þarfir þeirra . . .
     Grein þessi kveður nánar á um þá skyldu leikskóla að sinna þessu mikilvæga samstarfi við foreldra.


Um 13. gr.


     Grein þessi fjallar um gerð nokkurs konar námskrár leikskóla sem myndi eins konar umgjörð um starfið eða sveigjanlegan starfsramma.
     Allt frá 1985 hafa leikskólar haft „Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir“ sem leiðarvísi í sínu leikskólastarfi.
     Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin að leiðarljósi getur sérhver leikskóli gert sínar eigin áætlanir í samræmi við þær þarfir og aðstæður sem fyrir hendi eru.


Um 14. gr.


     Hér er lagt til að leikskólinn verði vettvangur þjálfunar og meðferðar fatlaðra barna og þeirra barna sem þurfa einhvers konar aðstoð og þjálfun vegna tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika. Þetta er í anda laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, en þar segir að dagvistarstofnanir séu einnig stofnanir fyrir fatlaða og að uppbyggingu þeirra og starfsemi skuli vera þannig háttað að þjónusta þeirra nýtist fötluðum til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Þetta er einnig í samræmi við 2. gr. þessa frumvarps en þar segir m.a. að leikskólinn skuli kappkosta að efla alhliða þroska barnanna. Það er ljóst að til þess að fullnægja þessu markmiði hvað þennan sérstaka hóp barna varðar þurfa þau meiri og sérhæfðari þjónustu en önnur börn og mikilvægt er að sú þjónusta sé veitt innan leikskólans. Sem dæmi má nefna þroskaþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talkennslu sem fram fer í samræmi við niðurstöður greiningar á eðli fötlunar og í beinu framhaldi af greiningu.
     Þjálfunin skal fara fram inni á almennum leikskóladeildum eða á sérhæfðum deildum og framkvæmd ýmist með einu barni í einu eða í misstórum hópum barna í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir þeirra og möguleika. Jafnframt skal auðvelda fötluðum börnum þátttöku í almennu leikskólastarfi, svo sem kostur er, m.a. með því að skipuleggja almennt leikskólastarf einnig á þeirra forsendum. Þetta er þeim mun mikilvægara þar sem í leikskóla gefst tækifæri til að leggja grundvöll að eðlilegum samskiptum fatlaðra og ófatlaðra í framtíðinni.
     Sérhæfðar deildir eru hugsaðar fyrir börn sem fötlunar sinnar vegna geta tímabundið eða varanlega illa nýtt sér starf á almennri leikskóladeild. Starfsemi þessara deilda skal falla sem eðlilegast að heildarstarfi leikskólans. Aðgangur barna af sérhæfðu deildinni að öðrum deildum leikskólans þarf að vera greiður, svo og aðgangur að sameiginlegri leikaðstöðu barnanna. Lagt er til að foreldrar og ráðgjafar - og sálfræðiþjónustan taki með hliðsjón af greiningu sameiginlega ákvörðun um hvaða tegund þjálfunar barnið skuli fá og hvers konar leikskóli verði fyrir valinu, þ.e. almenn leikskóladeild eða sérhæfð deild.

Um 15. gr.


     Lagt er til að leikskólar verði þannig byggðir og skipulagðir að þeir geti sinnt fötluðum börnum á leikskólaaldri. Hér er m.a. átt við að almennt leikskólastarf taki mið af mismunandi færni barnanna og að það sé þannig skipulagt að fatlaða barnið samlagist hópnum sem best en einangrist ekki. Auk þess þarf að vera til staðar fagþekking, sbr. 14. gr. þessa frumvarps, aðstaða til einstaklingsþjálfunar og aðgengi fyrir fatlaða um lóð og útileiksvæði.
     Menntamálaráðuneytinu er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sveitarfélag hefur þegar á að skipa leikskólum sem fullnægja þessu ákvæði og þörfinni er fullnægt.

Um 16. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir stofnun sérstaks þróunarsjóðs til að standa straum af þeim kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af þróunar - , tilrauna - og rannsóknastarfi innan leikskólanna, sbr. Þróunarsjóð grunnskóla. Fé er veitt í sjóðinn af fjárlögum hverju sinni, en menntamálaráðuneytið afgreiðir umsóknir og ákveður skiptingu fjárins.

Um 17. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 18. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 19. gr.


     Ekki verður um það deilt að öflug ráðgjafar - og sálfræðiþjónusta er nauðsynleg til að styrkja það faglega starf sem lögin gera ráð fyrir að fari fram í leikskólum. Einnig er það augljóst hagkvæmnisatriði að þessi þjónusta sé skipulögð í tengslum við þá ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu sem fyrir er innan grunnskólans. Þó er rétt að benda á sérstöðu Reykjavíkurborgar sem hefur skipulagt sérstaka þjónustu eingöngu fyrir dagvistarstofnanir. Vegna umfangs þeirrar þjónustu má ætla að það fyrirkomulag sem þróast hefur henti áfram.
     Ekki er í frumvarpinu rætt um menntunarkröfur sem gerðar skulu til þeirra sem sinna ráðgjafarstarfi innan leikskólans né heldur hvaða menntun forstöðumaður leikskóladeildar ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu hafi til að bera. Varðandi þessi atriði vísast til þess fyrirkomulags sem gildir um ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu grunnskólans, en þó með sérþarfir leikskólans í huga. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið setji sérstaka reglugerð, sbr. 21. gr., um framkvæmd og starfssvið ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu og verða þessi atriði væntanlega skilgreind á þeim vettvangi.

Um 20. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 21. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 22. gr.


    Með vísan til síðari málsgreinar greinarinnar skal á það bent að Manneldisráð hefur látið útbúa matseðla fyrir dagvistarstofnanir þar sem gefnar eru ábendingar um hollan morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu fyrir forskólabörn. Verða þeir tilbúnir til notkunar innan skamms. Rétt er að benda á að ekki er nauðsynlegt út frá næringarfræðilegu sjónarmiði að börnin borði heita máltíð í hádeginu, köld máltíð getur verið jafn holl. Hins vegar er æskilegt að börn borði a.m.k. eina heita máltíð á dag. Fái þau hana ekki heima er mikilvægt að hún standi þeim til boða á leikskólanum.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 23. gr.


     Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi eldri lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, en sá hluti þeirra er tekur til skóladagheimila heldur áfram gildi sínu.

Um ákvæði til bráðabirgða

.

I.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

II.


     Sjá athugasemdir við 3. gr.

III.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.


Frumvarp til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla.


1. gr.


     Ríkissjóður greiðir sveitarfélögum styrk til leikskóla fyrir 6 mánaða til 6 ára börn. Styrkurinn miðast við daglegan vistunartíma og greiðist með fastri krónutölu á hverja stund miðað við fjóra til átta tíma á dag. Sé daglegur vistunartími fjórar stundir greiðist x kr. á mánuði. Sé vistunartími lengri greiðist hlutfallslega hærri fjárhæð allt að 2 x kr. vegna átta stunda eða fleiri á dag.
     Fjárhæðir skulu endurskoðaðar á þriggja mánaða fresti miðað við hækkun framfærsluvísitölu frá 1. október 1989, í fyrsta sinn . . .

2. gr.


     Greiðsla skv. 1. gr. skal háð því að leikskólinn uppfylli þær kröfur sem menntamálaráðuneytið gerir til útbúnaðar og reksturs leikskóla.
     Greiðsla skv. 1. gr. skal einnig háð því að viðkomandi sveitarfélag verji á árinu að minnsta kosti sömu fjárhæð að raunvirði og árið 1988 til dagvistunar forskólabarna. Í þeim útreikningi skulu lögð saman framlög sveitarfélagsins til reksturs og byggingar dagvistarheimila.

3. gr.


     Ríkisframlag til dagvistarþjónustu vegna forskólabarna skal að lágmarki nema x m. kr. samanlagt á ári. Geri sveitarfélögin ekki tilkall til allrar þeirrar fjárhæðar samkvæmt reglum 1. og 2. gr. þessara laga skulu eftirstöðvar eftir því sem óskir berast um ganga til greiðslu stofnkostnaðar við leikskóla samkvæmt forgangsröð sem menntamálaráðuneyti ákveður. Greiðslur stofnkostnaðar má hefja um mitt ár miðað við greiðsluáætlun um rekstrarframlag ársins. Nýtist fjárhæðin ekki öll á árinu skulu eftirstöðvar flytjast til ráðstöfunar á næsta ári.


4. gr.


     Þau sveitarfélög, sem veita fullnægjandi þjónustu þannig að ekki sé þörf á að auka hana að mati menntamálaráðuneytisins, skulu njóta óskertra framlaga skv. 1. gr. þótt þau verji lægri fjárhæð til dagvistarmála árlega en árið 1988.

5. gr.


     Lög þessi taki gildi . . .


     Frumvarp þetta er samið af nefnd sem menntamálaráðherra Svavar Gestsson skipaði 25. janúar 1989 til að endurskoða lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn.
     Í nefndina voru skipaðir: Ásmundur Stefánsson hagfræðingur, Bergur Felixson framkvæmdastjóri, Gerður G. Óskarsdóttir, ráðunautur menntamálaráðherra, Guðrún Alda Harðardóttir fóstra, Gunnhildur Gísladóttir efnafræðingur, Hallgrímur Guðmundsson bæjarstjóri, Sigríður L. Baldursdóttir eðlisfræðingur, Kristín Á. Ólafsdóttir borgarfulltrúi, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, formaður Fóstrufélags Íslands, Svandís Skúladóttir deildarstjóri og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Sóknar. Ólafur Guðmundsson deildarstjóri var starfsmaður nefndarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Hér er lýst megintilgangi laganna. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi til leikskóla sveitarfélaganna ákveðna fasta krónutölu á hvert barn og vistunarstund, allt að 8 stundum á dag.
     Gert er ráð fyrir að framlag þetta taki breytingum miðað við breytingar á framfærsluvísitölu og sé endurskoðað á þriggja mánaða fresti.

Um 2. gr.


     Hér er fjallað um skilyrði þess að sveitarfélag fái styrk skv. 1. gr. Leikskóli þarf að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til útbúnaðar og reksturs leikskóla af hálfu stjórnvalda.
     Í 2. mgr. er það skilyrði sett að greiðsla hins opinbera sé háð því að viðkomandi sveitarfélag verji til dagvistunar forskólabarna á árinu að minnsta kosti sömu fjárhæð að raunvirði og árið 1988. Hér er tekið mið af kostnaði sveitarfélagsins af dagvistarmálum á árinu 1988 bæði rekstrarkostnaði og stofnkostnaði.

Um 3. gr.


     Þessi grein fjallar um það hversu hárri fjárhæð ríkið skuli verja árlega til dagvistarþjónustu forskólabarna og með hvaða hætti skuli ráðstafa því fé sem sveitarfélögin gera ekki tilkall til.

Um 4. gr.


     Greinin kveður á um það að ríkisframlag skuli einnig greiða þeim sveitarfélögum sem þegar hafa fullnægjandi dagvistarþjónustu.

Um 5. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.


Athugasemdir með frumvarpi til laga um ríkisframlag


til sveitarfélaga vegna leikskóla.



     Fjármögnun dagvistunar forskólabarna ríkisframlag til dagvistunar barna.
    Sveitarfélögin standa í dag nánast ein að rekstri dagvistarheimila fyrir forskólabörn. Þjónustan hefur verið aukin töluvert á undanförnum árum, en allt of hægt til að mæta vaxandi þörf. Aukið fjármagn til uppbyggingar og rekstrar er nauðsynlegt ef takast á á stuttum tíma að tryggja fullnægjandi dagvistarþjónustu fyrir forskólabörn. Hér er gerð tillaga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna reksturs leikskóla fyrir börn frá 6 mánaða aldri eða frá því að fæðingarorlofi lýkur til 6 ára aldurs.
     Tillaga er gerð um að ríkisframlag sé greitt sem föst krónutala á barn og vistunarstund, allt að 8 stundum á dag. Miðað er við að krónutalan sé reiknuð út frá heildarkostnaði við fjárfestingu og rekstur og nægi til þess að ríkið axli alla aukningu á hlut hins opinbera vegna aukinnar þjónustu. Sveitarfélögin bæru þannig sama heildarkostnað og nú. Miðað er við óbreyttar greiðslur foreldra (aðstandenda) barnanna frá því sem nú er, þ.e. óbreytta hlutdeild þeirra í kostnaði.
     Tillaga er jafnframt gerð um það að ríkisframlagið sé skilyrt af því að sveitarfélagið dragi ekki úr framlögum sínum til dagvistarmála. Þannig losnar fé til framkvæmda sem ríkisframlaginu nemur. Þannig vinnst hvort tveggja í senn, hröð uppbygging samhliða því sem rekstur verður á traustum grunni. Tillaga er gerð um framlag hins opinbera til sveitarfélaga sem geri sveitarfélögum kleift að fullnægja eftirspurn á dagvistarrými án þess að leggja í viðbótarkostnað við málaflokkinn frá því sem nú er.
     Hér á eftir er reynt að meta hver þörfin verður fyrir dagvistarþjónustu að áratug liðnum og hve hátt ríkisframlagið þarf að vera til þess að ná settu marki þó að tillagan geri ekki ráð fyrir 10 ára átaki í uppbyggingu dagvistarheimila eins og hún er fram sett.
     Kostnaður er eingöngu metinn samkvæmt upplýsingum um kostnað við dagvistun hjá Reykjavíkurborg. Kostnaðarhlutföll vegna mismunandi vistunartíma á dag og mismunandi aldurs ættu hins vegar að vera svipuð um allt land.
     Nefndin hefur ekki sett kostnaðartölur inn í texta frumvarpsins, en bendir á meðfylgjandi valkosti í tillögunni eftir því hve hátt ríkisframlagið er ákveðið. Það er ákvörðun ráðherra hvaða tölur hann setur í lagatexta.

Fjöldi forskólabarna árið 2000.


    
Til að meta þörfina fyrir dagvistun á næstu árum verður að áætla fjölda barna nokkur ár fram í tímann. Ef stefnt er að því að ná settu þjónustumarki á áratug er eðlilegt að miða við árið 2000. Byggðastofnun hefur áætlað að árið 2000 verði 0 til 6 ára börn samtals 25.907 eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:

Tafla 1.


Áætlun Byggðastofnunar um fjölda barna árið

2000.














Þörf fyrir vistun forskólabarna.


    
Mjög erfitt er að áætla þörf fyrir dagvistun. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar haustið 1989 kemur fram að 90% foreldra 4 til 5 ára barna í Reykjavík óska opinberrar dagvistunar, 75,3% leikskóla og 13,6% dagheimila. Því miður fylgja ekki í skýrslunni tölur um aðra aldurshópa eða aðra landshluta. Þó má gera ráð fyrir því að hlutfallið sé lægra fyrir yngri börnin og þá sérstaklega fyrir börn undir tveggja ára aldri. Einnig má vænta þess að árið 2000 verði fæðingarorlof lengra en nú er. Hlutfallið er væntanlega einnig lægra utan höfuðborgarsvæðisins.
     Álykta mætti að leitað yrði eftir dagvistun fyrir 80% 2 til 6 ára barna og 40% 1 / 2 árs til 2 ára barna.
    
Enn erfiðara er að áætla hvernig skipting yrði á stundafjölda dag hvern. Það getur tæplega verið um annað að ræða en slá fram tölum. Það er gert í eftirfarandi töflu og er fjöldi í hverjum hópi síðan umreiknaður til heilsdagsvistunar samkvæmt stöðlum Reykjavíkurborgar til þess að fá viðmiðun fyrir mat á húsnæðisþörf. Þær dagvistir, sem fyrir eru, umreiknast á sama hátt til heilsdagsvista til að fá fram hver aukning yrði.
     Börn á aldrinum 2 til 6 ára verða samkvæmt áætlun Byggðastofnunar 17.274 árið 2000. Ef 80% þeirra óska dagvistunar yrði um að ræða 13.820 börn á þeim aldri í dagvistun, sem svarar til 10.350 heilsdagsrýma. Til að ná þeim fjölda þarf að bæta við 4.235 nýjum heilsdagsrýmum miðað við þær forsendur sem stuðst er við. Samkvæmt upplýsingum úr menntamálaráðuneyti eru 6.535 heilsdagsrými til í landinu, þar af um 420 rými fyrir börn yngri en tveggja ára. Því eru til 6.115 heilsdagsrými fyrir 2 til 6 ára börn í dag.

Tafla 2.

Fjöldi 2 til 6 ára barna í dagvistun árið 2000


m.v. að 80% barna séu í leikskóla.


Í töflunni er reynt að áætla mislangan vistunartíma barna.


















    Börn á aldrinum 1 / 2 árs til 2 ára verða samkvæmt áætlun Byggðastofnunar 6.469 árið 2000. Ef 40% þeirra óska eftir dagvistun yrði um að ræða 2.588 börn í dagvistun. Við mat á vistunarþörf er gert ráð fyrir lengri vistun á dag fyrir yngri aldurshópinn en börn 2 til 6 ára, sbr. töflu 3. Þetta svarar til 2.200 heilsdagsvista ef notuð eru svipuð hlutföll í umreikningi til mats á húsnæðisþörf og notuð eru fyrir 2 til 6 ára börn.
     Dagvistir fyrir þennan aldursflokk eru sárafáar (420 heilsdagsrými) og því er um mikla viðbót við núverandi þjónustu að ræða.

Tafla 3.


Fjöldi 1 / 2 árs til 2 ára barna í dagvistun árið 2000 m.v. að 40% barnanna séu í leikskóla.













Kostnaður við rekstur dagvistarþjónustu.


    
Í töflum 4 og 5 er áætlaður kostnaður við rekstur dagvistarheimila hjá Reykjavíkurborg eftir lengd vistunar. Jafnframt því er skráð framlag foreldra samkvæmt gildandi gjaldskrá Reykjavíkurborgar og sýnt hvert framlag ríkisins yrði miðað við ársgreiðslu sem næmi 12.500 kr. á daglega vistunarstund. Þar sem stutt vistun er hlutfallslega ódýrari en löng vistun leiðir fast framlag á hverja stund til þess að ríkisframlagið vegur hlutfallslega þyngra þegar um stutta vistun er að ræða. Hlutur sveitarfélagsins er það sem eftir stendur þegar foreldrar og ríki hafa greitt sinn hluta rekstrarkostnaðarins. Hlutur sveitarfélagsins lækkar frá því sem nú er sem nemur framlagi ríkisins.

Tafla 4.


Árskostnaður við rekstur dagvistunar forskólabarna í Reykjavík, áætlun 1989.















    Rétt er að taka fram að í ofangreindum tölum um kostnað vegna 2 til 6 ára barna er stuðst við tölur um meðalkostnað við vistun allra forskólabarna í Reykjavík. Börn undir tveggja ára aldri í dagvistun í dag eru hins vegar það fá að það gefur óverulega skekkju að nota tölurnar um 2 til 6 ára börn.
     Það má samkvæmt gögnum Reykjavíkurborgar reikna með því að kostnaður við vistun 1 / 2 árs til 2 ára barna sé um 30% hærri en kostnaður við vistun 2 til 6 ára barna.

Stofnkostnaður húsnæðis.


    Áætlað er að dagvistarheimili fyrir 60 heilsdagsrými kosti 46 50 m.kr. í Reykjavík. Hér er reiknað með 48 m.kr.
     Til þess að þjóna 13.820 börnum 2 til 6 ára sem nota sem svarar 10.350 heilsdagsrýmum þyrfti 173 dagvistarheimili. Þá er reiknað með að þau nýttust öll til fulls.
     2.588 börn, 1 / 2 árs til 2 ára, sem nota sem svarar 2.200 heilsdagsrýmum þyrftu á sama hátt 37 dagvistarheimili.
     Samanlagt þarf því 210 dagvistarheimili. Í dag eru dagvistarheimilin talin 109 umreiknuð til 60 barna heilsdagsheimila. Það þýðir að bæta þyrfti við 210 109 = 101 nýju heimili. Kostnaður við hvert þeirra er áætlaður 48 m.kr. og heildarkostnaður því 4.848 m.kr. Þar af eru um 70 heimili eða tæplega 3,4 milljarðar króna vegna 2 til 6 ára barna og um 30 heimili eða 1,4 milljarðar króna vegna hálfs árs til tveggja ára barna. Til þess að koma upp þeim heimilum sem þörf er á miðað við gefnar forsendur þarf að fjárfesta tæplega 500 m.kr. á ári næstu 10 árin í nýju dagvistarhúsnæði.

Árlegur kostnaður vegna húsnæðis.


    
Nýbyggingarverð 210 dagvistarheimila yrði 10,1 milljarður króna.
     Ef reiknað er með 10% raunvöxtum á hálfa fjárhæðina, þ.e. meðalfjárhæð á endingartíma heimilisins og 50 ára afskriftatíma, þ.e. að 2% afskrifist á ári, verður fjármagnskostnaður og afskriftir samanlagt 7% eða rúmlega 700 m.kr. á ári. Þar af væru tæplega 600 m.kr. vegna 173 dagheimila 2 til 6 ára barna og rúmlega 100 m.kr. vegna 37 dagheimila 1 / 2 árs til 2 ára barna.

Tafla 5.


Heildarkostnaður árið 2000.


Kostnaður við vistun 2 til 6 ára barna m.v. gefnar forsendur (80%).




























     Gert er ráð fyrir því að börn einstæðra foreldra séu einn þriðji hluti barna í fullri dagvistun og börn fólks í sambúð tveir þriðju. Fjármagnskostnaði er skipt þannig að ríkið beri sama hlutfall hans og af heildarkostnaði hvers hóps um sig.
     Ríkisframlag vegna fjármagnskostnaðar og afskrifta þyrfti að vera sem svarar 18% álagi á framlagið vegna 2 til 6 ára barna og 10% álagi á framlag vegna 1 / 2 árs til 2 ára barna.
     Auðvitað mætti til einföldunar fella rekstur vegna allra forskólabarna undir eitt, en þá reynist hlutur ríkisins af rekstrarkostnaði vera 30%. Til að bera það hlutfall heildarfjármagns - og afskriftakostnaðar þarf 17% álag á ríkisframlagið. Framlag á hverja stund umreiknað með þeim hætti yrði 14.600 kr.
     Til þess að gefa hugmynd um það hve miklu skiptir hvernig börnin skiptast eftir stundafjölda á dag er rétt að nefna að miðað við að 80% 2 til 6 ára barna njóti dagvistar og skiptingin sé 4 stundir 30%, 5 stundir 20%, 6 stundir 20% og 8 stundir 30% yrði heildarkostnaður við rekstur 2.993 m.kr. í stað 3.251 m.kr. eins og er í töflunni sem miðaðist við skiptinguna 30%, 15%, 15% og 40%.
     Miðað við að 85% 2 til 6 ára barna njóti dagvistar og skiptingin sé: 30%, 20%, 20%, 30% yrði heildarrekstrarkostnaður 3.181 m.kr.

Kostnaður sveitarfélaganna.


    
Dagvistunarþjónustan í dag er talin svara til 6.535 heilsdagsrýma. Það skortir hins vegar upplýsingar til að meta nákvæmlega hver heildarútgjöld sveitarfélaganna eru til þessa málaflokks. Hér er gert ráð fyrir því að heildarútgjöld sveitarfélaganna séu í dag um 1.800 m.kr.
     Í töflunni hér að framan kemur fram að hlutur sveitarfélaganna yrði miðað við þá þjónustu sem þar er gert ráð fyrir árið 2000 rúmlega 2.150 m.kr. Útgjöld sveitarfélaganna hefðu þá vaxið um 350 m.kr. frá því sem nú er.

Verður ríkið að axla útgjaldaaukningu sveitarfélagsins?


    
Það er pólitískt mat hvort raunhæft sé að ætla sveitarfélögunum að auka útgjöld sín til þessa málaflokks. Ef talið er óhjákvæmilegt að ríkið axli alla aukningu á hlut hins opinbera er nauðsynlegt að hækka ríkisframlagið um 350 m.kr. miðað við forsendurnar hér að framan. Það samsvarar tæplega 24% hækkun framlagsins að fjármagnskostnaði meðtöldum eða 44% álagi á framlag á hverja stund án fjármagnskostnaðar og afskrifta.
     Ef taflan að framan er umreiknuð þannig að ríkisframlagið taki tillit bæði til fjármagnskostnaðar, afskrifta og kostnaðarauka sveitarfélaganna vegna aukinnar þjónustu hækkar framlag ríkisins í 1.831 m.kr. eða 37% heildarkostnaðar.
     Rétt er að benda á að þar sem fjármagnskostnaður og afskriftir eru taldar sér í heildarkostnaði, þó gert sé ráð fyrir hlut ríkisins í framlagi til rekstrar, verður hlutur sveitarfélaganna neikvæður hjá 2 til 6 ára börnum í 4 og 5 stunda vistun. Sveitarfélögin fá þannig framlag til fjármagnskostnaðar og afskrifta. Dagvistun þeirra barna væri þó ekki arðbær rekstur fyrir sveitarfélögin því sá kostnaður yrði langt umfram ríkisframlagið. Þannig er líklegt að vegna 4.146 barna í 4 tíma vistun sé árlegur kostnaður vegna fjármagns og afskrifta um 120 m.kr. en af því greiddi ríkið 46 m.kr. samkvæmt töflunni.

Tafla 6.


Kostnaður við vistun 2 til 6 ára barna m.v. að ríkið taki á sig


allan viðbótarkostnað (80%).

















Skýring á mínustölum er m.a. sú að í þessum tölum er ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar eða afskrifta.

Kostnaður við vistun 1 / 2 árs til 2 ára barna m.v. gefnar forsendur (40%).




















Uppbygging.


    
Ef ríkisframlag er tekið upp og skilyrt því að sveitarfélögin dragi ekki úr framlögum sínum til dagvistarmála yrði uppbygging mjög hröð.
     Miðað við núverandi þjónustu má reikna með að ríkisframlagið yrði rúmlega 700 m.kr. fyrsta árið og það fé gengi óhjákvæmilega til bygginga eða húsakaupa þar sem heildarframlag sveitarfélaganna héldist óbreytt. Fyrir það fé yrðu byggðir 15 leikskólar fyrir 60 heilsdagsvistir eða samanlagt vistrými fyrir 900 börn.
     Ef ríkisframlagið yrði strax sett í væntanlega heildartölu, þ.e. 1.831 m.kr. tæki uppbyggingin örfá ár. Það yrði skortur á lóðum og fólki en ekki fjárskortur sem mundi hamla uppbyggingunni við þær aðstæður því fjárfestingarþörf var metin 4,7 milljarðar króna.

Takmörkun á framlagi ríkisins.


    
Ef ekki er pólitískur vilji til þess að leggja þessum málaflokki 1.831 m.kr. á fjárlögum er auðvitað hugsanlegt að sett yrði lægra mark um þjónustustig.
     Hér að framan er reiknað með að tæplega 70% 1 / 2 árs til 6 ára barna njóti dagvistarþjónustu.

Tafla 7.


Kostnaður m.v. mismunandi hlutfall 1 / 2 árs til 6 ára barna í leikskóla.












     Á sama hátt er hugsanlegt að takmarka greiðslur til ákveðinna aldurshópa. Þannig lækkar framlag ríkisins um 327 m.kr. ef ekki er greitt vegna 1 / 2 árs til 2 ára barna og verður 1.504 m.kr.
     Hækkun á gjöldum foreldranna hefði einnig þau áhrif að framlag ríkisins gæti orðið minna án þess að hlutur sveitarfélaganna ykist.



Fylgiskjal II.


Tillaga frá forskólanefnd um átak í menntun fóstra.


    Nefndin leggur til stórfellda aukningu á leikskólarými hér á landi á næstu 10 árum. Talið er að í landinu þurfi að vera um 12.550 leikskólarými um næstu aldamót. Miðað við tillögur nefndarinnar um hlutfall barna á fóstru þurfa þá að vera um 1.500 fóstrur í starfi og 740 fóstruliðar.
     Ljóst er að til þess að ná þessum markmiðum þarf að stórauka þann fjölda einstaklinga sem lýkur fóstrunámi. Nú útskrifast um 40 70 fóstrur á ári frá Fósturskóla Íslands. Um 34% starfsmanna á dagvistunarstofnunum í landinu eru með fóstrumenntun. Á næstu 10 árum þyrftu því að útskrifast um 140 fóstrur á ári til þess að fullnægja þörfinni.
     Nefndin leggur því til að á næstu 10 árum verði gert sérstakt átak til þess að fjölga fullmenntuðum fóstrum.
     Það verði gert með eftirfarandi hætti:
     Auk hefðbundins náms fóstra verði komið á dreifðri og sveigjanlegri fóstrumenntun á vegum Fósturskóla Íslands (eða Kennaraháskóla Íslands, flytjist fóstrumenntunin þangað á þessu tímabili), sbr. þá dreifðu og sveigjanlegu kennaramenntun sem nú er í undirbúningi á vegum KHÍ, uppeldis - og kennslufræðinám í HÍ, stærðfræðinám fyrir framhaldsskólakennara við HÍ o.fl.

Skipulag.


    
Námið verði sambærilegt að innihaldi við hefðbundið fóstrunám á hverjum tíma. Námið verði skipulagt í námskeið/áfanga (kúrsa).
     Námið verði í formi staðbundinnar kennslu og fjarkennslu. Einnig verði möguleiki á námssamningum:
    a. Staðbundin kennsla fari fram í eina eða fleiri vikur í einu utan Reykjavíkur (þar sem flestir þátttakendur eru, getur verið á einum eða fleiri stöðum í einu) og í Reykjavík ef henta þykir.
    b. Fjarkennsla fari fram í formi símasambands, bréfaskipta, tölvutengsla og e.t.v. með hljóð - og myndböndum.
    c. Námssamningur: nemendur geti lokið ákveðnum verkefnum samkvæmt samningi við skólann. Um getur verið að ræða minni eða stærri verkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt eða í samvinnu við annan nemanda.

Inntökuskilyrði.


     Námið verði bæði opið þeim sem eru starfandi á dagvistarstofnunum og öðrum sem áhuga hafa á að afla sér fóstrumenntunar. Gert verði ráð fyrir sveigjanlegum inntökuskilyrðum og verði umsóknir metnar fyrir hvern einstakling. Um verði að ræða mat skólans. Metið verði fyrra nám og reynsla af starfi á dagvistarstofnunum. Metið verði eftir umsóknum nemenda og persónulegum viðtölum við þá.
     Gert verði átak í því að „leita að“ fólki í þetta nám á þeim stöðum þar sem skortur er á fóstrum.

Námslengd.


    Námslengd verður mismunandi eftir einstaklingum. Sumir nemendur þurfa e.t.v. að stunda aðfaranám í einhverjum framhaldsskóla, t.d. í erlendum tungumálum, aðrir þurfa aðeins að taka hluta námsins, t.d. fólk sem lokið hefur hluta af kennaranámi eða námi í uppeldisfræðum.
     Nú tekur fóstrunám þrjú ár. Nefndin gerir ekki tillögur um lengd þessa náms. Mjög líklegt er að það þurfi í mörgum tilfellum að taka lengri tíma en þrjú ár, einkum hjá þeim sem byrja þurfa á aðfaranámi.

Leyfi frá störfum/námslán/styrkir.


    
Nefndin leggur áherslu á að starfsmenn dagvistarstofnana sem taka vilja þátt í þessu námi fái leyfi á launum, a.m.k. á þeim tíma sem staðbundið nám fer fram og einnig er mikilvægt að dagleg vinnuskylda verði eitthvað styttri en hjá fólki í fullu starfi (án skerðingar á launum). Þetta atriði þarf að athuga við sveitarfélög.
     Í þessu sambandi þarf einnig að athuga möguleika námslánakerfisins og starfsmenntunarsjóða.

Fyrstu skref.


    
Nefndin leggur til að svo fljótt sem unnt er verði ráðinn aðili til að undirbúa nám með þessu formi. Í því starfi verði haft náið samstarf við KHÍ. Þar hafa menn t.d. viðað að sér upplýsingum frá öðrum löndum um nám með þessum hætti og um næstu áramót má búast við að mótaður hafi verið rammi að dreifðri og sveigjanlegri kennaramenntun á vegum skólans.



Fylgiskjal III.


Frumvarp til laga um leikskóla eins og það kom frá forskólanefndinni.



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


     Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Með leikskóla er átt við skóla sem annast uppeldi barna fram að skólaskyldualdri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum. Leikskóli er samkvæmt lögum þessum fyrir börn frá hálfs árs aldri eða frá þeim tíma að fæðingarorlofi lýkur til sex ára aldurs.

II. KAFLI


Markmið.


2. gr.


     Leikskólinn skal í samráði við foreldra veita börnum á leikskólaaldri uppeldi og menntun.
     Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldisstarfi í leikskóla vera:
     að búa börnunum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi,
     að gefa börnunum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn fóstra,
     að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barnanna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,
     að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barnanna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna,
     að efla kristilegt siðgæði barnanna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
     að rækta tjáningar - og sköpunarmátt barnanna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.


III. KAFLI


Hlutverk sveitarfélaga.


Stofnun og rekstur leikskóla.


3. gr.


     Sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum þessum að reka eða eiga aðild að rekstri leikskóla fyrir börn á leikskólaaldri. Óski foreldrar eða aðrir forráðamenn eftir leikskóladvöl fyrir barn sitt skal hún veitt í 4 9 stundir daglega eftir því sem best hentar barni og fjölskylduaðstæðum þess.
     Til þess að setja á stofn leikskóla þarf starfsleyfi frá menntamálaráðuneytinu. Heimilt er að veita leikskóla starfsleyfi þótt börnin dvelji þar ekki daglega eða einungis hluta úr ári.

4. gr.


     Í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélag er öðrum aðilum heimilt að reka leikskóla. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi fengið starfsleyfi og meðmæli sveitarfélags og reki leikskólann samkvæmt lögum þessum.

5. gr.


     Bygging og rekstur leikskóla skal vera í umsjón sveitarstjórna og skulu þær sjá um framkvæmd þessara laga hver í sínu sveitarfélagi.
     Í sveitarfélögum skal sérstök leikskólanefnd eða skólanefnd grunnskóla fara með málefni leikskóla eftir því sem lög þessi og reglugerðir kveða á um. Kjósi sveitarfélag að fela öðrum nefndum eða ráðum málefni leikskóla getur menntamálaráðuneytið heimilað þá skipan tímabundið.
     Viðkomandi nefnd skal gera áætlun um uppbyggingu leikskóla í sínu sveitarfélagi/skólahverfi til þriggja ára í senn.
     Starfsfólk leikskóla í viðkomandi leikskóla - eða skólahverfi skal kjósa einn fulltrúa úr sínum hópi til setu í nefndinni og skal hann hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum. Enn fremur kjósa samtök foreldra einn fulltrúa til setu í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.


     Menntamálaráðuneytið skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði leikskóla: heildarrými, aðstöðu til einstaklingsþjálfunar, leikrými barna, búnað, vinnuaðstöðu starfsfólks, svo og útileiksvæði.
     Í reglugerðinni skulu einnig vera viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið leikskóla.
     Enn fremur skal kveða á um það í reglugerð hverjir skulu vera umsagnaraðilar um hönnun og byggingu leikskóla.

IV. KAFLI


Yfirstjórn.


7. gr.


     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til. Það veitir leyfi til leikskólareksturs. Það hefur með höndum eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum sem lög þessi og reglugerð mæla fyrir um. Það mótar uppeldisstefnu leikskóla, sér um útgáfu uppeldisáætlunar, sbr. 13. gr., sinnir þróunar - og rannsóknarstarfi og er stjórnendum leikskóla til ráðuneytis um starfsemina.

8. gr.


     Landinu skal skipt í leikskólaumdæmi. Leikskólaumdæmi skulu vera þau sömu og fræðsluumdæmi samkvæmt grunnskólalögum.
     Tengja skal starfsemi fræðsluskrifstofa grunnskóla og störf umdæmisfóstra leikskóla, þar með talin starfsemi kennslugagnamiðstöðva fyrir bæði skólastigin.
     Leikskólinn skal stuðla að því í samráði við grunnskóla að eðlileg tengsl skapist á milli þessara skólastiga.
     Menntamálaráðuneytið setur með reglugerð nánari ákvæði um samstarf leikskóla og grunnskóla.

9. gr.


     Í hverju leikskólaumdæmi skal starfa umdæmisfóstra. Umdæmisfóstra leikskóla skal í samvinnu við rekstraraðila og hlutaðeigandi nefndir sinna ráðgjöf og faglegu eftirliti með uppeldi og menntun í þeim leikskólum umdæmisins þar sem ekki eru aðrir leikskólafulltrúar eða umsjónarfóstrur á vegum sveitarfélaga. Umdæmisfóstra stuðlar að samstarfi leikskóla umdæmisins og samvinnu leikskóla og grunnskóla.
     Umdæmisfóstra er starfsmaður ríkisins. Við ráðningu í starf umdæmisfóstru skal taka tillit til starfsreynslu í leikskóla og framhaldsmenntunar.
     Nánar skal kveðið á um störf umdæmisfóstra í erindisbréfi. Ráðning umdæmisfóstra er ákveðin í fjárlögum hverju sinni.

V. KAFLI


Starfsfólk og foreldrar.


10. gr.


     Við hvern leikskóla skal vera leikskólastjóri. Leikskólastjóri og starfslið er annast fóstrustörf skal hafa fóstrumenntun, svo og þeir sem annast faglega umsjón og eftirlit með leikskólum á vegum rekstraraðila. Leikskólastjóri stjórnar starfi leikskólans í umboði rekstraraðila eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim. Í samráði við rekstraraðila ber leikskólastjóri ásamt starfsfólki ábyrgð á að móta heildarstefnu í uppeldis - og menntamálum leikskólans og að áætlanir þar um séu gerðar í samræmi við 13. gr.
     Ársskýrsla um starfsemi leikskólans skal send sveitarstjórn og umdæmisfóstru viðkomandi umdæmis.
     Sveitarstjórn skal setja starfsfólki erindisbréf í samræmi við lög þessi og reglugerð er sett verði samkvæmt þeim.

11. gr.


     Leikskólastjóri skal halda reglulega fundi með starfsfólki um stjórn heimilisins og velferð hvers einstaks barns.

12. gr.


     Skylt er rekstraraðila leikskóla að skipuleggja tengsl milli foreldra barnanna og leikskólans í því skyni að efla samstarf þessara aðila um velferð barnsins.

VI. KAFLI


Uppeldisáætlun.


13. gr.


     Menntamálaráðuneytið setur leikskólum uppeldisáætlun þar sem m.a. skal kveðið á um uppeldis - og menntunarhlutverk leikskólans og meginstefnu varðandi starfshætti.
     Í uppeldisáætlun verði gildi leiksins sem uppeldis - og kennslutækis leiðandi hugtak.
     Menntamálaráðuneytið hefur uppeldisáætlun leikskóla stöðugt til endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þegar þörf er talin á.

VII. KAFLI


Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar.


14. gr.


     Börn á leikskólaaldri sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á henni innan leikskólans, undir handleiðslu fóstra, þroskaþjálfa og annarra sérfræðinga. Þjálfunin getur verið einstaklingsbundin og í hópi innan almennrar leikskóladeildar eða á sérhæfðum deildum.
     Markmið þjálfunarinnar er m.a. að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess. Ákvörðun um þjálfun og tilhögun hennar skal tekin í samráði við foreldra barnsins og ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu leikskólans, að undangenginni greiningu og mati sálfræðiþjónustunnar eða annarra lögboðinna greiningaraðila.
     Stefnt skal að því að barnið sæki leikskóla í sínu skólahverfi. Þó skal gefinn kostur á að leita annarra úrræða sem henta barninu betur með tilliti til þjónustu. Fatlað barn, sem sækir skóla utan síns skólahverfis, á rétt á flutningsþjónustu sem greiðist af ríkinu, sbr. lög nr. 41 1983, um málefni fatlaðra.

15. gr.


     Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum á leikskólaaldri.
     Heimilt er þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Í reglugerð skal kveðið nánar á um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald almennra leikskóladeilda vegna veru fatlaðra barna, svo og sérhæfðra deilda.

VIII. KAFLI


Leikskólarannsóknir og þróunarstarf.


16. gr.


     Menntamálaráðuneytið stuðlar að þróunar - , tilrauna - og rannsóknarstarfi innan leikskólanna. Í því skyni skal árlega varið fé í þróunarsjóð samkvæmt ákvörðun Alþingis með fjárlögum. Menntamálaráðuneytið afgreiðir umsóknir og ákveður skiptingu fjárins.

17. gr.


     Til þess að sinna tímabundnum rannsóknar - og þróunarverkefnum á vegum menntamálaráðuneytisins má ráða sérstaka starfsmenn.

18. gr.


     Í rannsókna - , þróunar - og tilraunaskyni er ráðuneytinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða.

IX. KAFLI


Ráðgjafarþjónusta.


19. gr.


     Allir leikskólar eiga rétt á sérhæfðri ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu og skal hún að jafnaði skipulögð í tengslum við ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu fræðsluumdæmisins, sbr. lög um grunnskóla.
     Menntamálaráðuneytið gerir í samráði við umdæmisfóstrur heildaráætlun um framkvæmd þessarar þjónustu.

20. gr.


     Hlutverk ráðgjafar - og sálfræðiþjónustunnar er:
     að annast sérfræðilega ráðgjöf og fræðslu starfsfólks leikskóla og foreldra leikskólabarna um uppeldi og umönnun barnanna,
     að annast frumgreiningu og/eða vísa í sérhæfðari greiningaraðila ef þess gerist þörf að mati ráðgjafarþjónustunnar; enn fremur að hafa umsjón og eftirlit með aðstoð og þjálfun barnanna,
     að annast ýmis rannsóknastörf og athuganir í sambandi við ráðgjafarþjónustuna.

21. gr.


     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og starfssvið ráðgjafar - og sálfræðiþjónustunnar.

X. KAFLI


Heilsuvernd og hollustuhættir.


22. gr.


     Um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á leikskólum fer eftir lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

23. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 112/1976 að öðru leyti en því er lýtur að skóladagheimilum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir , gefin út af menntamálaráðuneytinu 1985, tekur með lögum þessum gildi sem fyrsta uppeldisáætlun leikskóla.


II.


    Markmiði 3. gr. þessara laga skulu sveitarfélög ná innan 10 ára frá setningu laganna. Heimilt er að skilgreina áfanga nánar í reglugerð með hliðsjón af stærð sveitarfélaga og þjónustustigi.

III.


    Heimilt er menntamálaráðuneytinu að fela fræðsluskrifstofum að annast þau svæðisbundnu stjórnunarverkefni sem gert er ráð fyrir í IV. kafla laganna þar til skipulag það, sem þar er gert ráð fyrir, er að fullu komið til framkvæmda.

Greinargerð.


    Menntamálaráðherra, Svavar Gestsson, skipaði 25. janúar 1989 nefnd til að endurskoða lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, í þeim tilgangi að skapa ramma um nýtt skólastig, forskólastig, fyrir börn á aldrinum hálfs árs til sex ára. Nefndinni var einnig falið að gera áætlun um uppbyggingu og rekstur dagvistarheimila næstu 10 ár og um æskilegt fyrirkomulag á stofn - og rekstrarkostnaði. Skóladagheimili eru utan verksviðs nefndarinnar.
     Í nefndina voru skipaðir: Ásmundur Stefánsson hagfræðingur, Bergur Felixson framkvæmdastjóri, Gerður Óskarsdóttir, ráðunautur menntamálaráðherra, Guðrún Alda Harðardóttir fóstra, Gunnhildur Gísladóttir efnafræðingur, Hallgrímur Guðmundsson bæjarstjóri, Sigríður L. Baldursdóttir eðlisfræðingur, Kristín Á. Ólafsdóttir borgarfulltrúi, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, formaður Fóstrufélags Íslands, Svandís Skúladóttir deildarstjóri og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Sóknar. Ólafur Guðmundsson deildarstjóri var starfsmaður nefndarinnar.
     Nefndin hefur samið tvö frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um leikskóla og frumvarp til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla.
     Allir nefndarmenn tóku þátt í gerð fyrirliggjandi frumvarpa en Ásmundur Stefánsson tók þó ekki þátt í samningu frumvarps til laga um leikskóla vegna anna við kjarasamninga fyrr á árinu. Bergur Felixson skilaði séráliti sem fylgir hér með á fylgiskjali I.

Athugasemdir við frumvarp til laga um leikskóla.


1. Uppeldisstefna.
    
Frumvarpið byggir á uppeldisstefnu sem menntamálaráðuneytið markaði 1985 varðandi börn undir skólaskyldualdri þegar ráðuneytið gaf út Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir. Áætlunin byggir á viðurkenndu markvissu uppeldisstarfi þar sem leikur og sköpun í máli, myndum, tónum og hreyfingu skipar öndvegi og þar sem mið er tekið af þroska og þörfum hvers barns og aðstæðum á heimili þess.

2. Leikskólaheitið.
    
Nefndin leitaði til Valborgar Sigurðardóttur, fyrrverandi skólastjóra Fósturskóla Íslands, sem sérfræðings um uppeldi og þroska barna á forskólaaldri. Í greinargerð Valborgar til nefndarinnar segir hún m.a. um gildi leiksins og leikskólaheitið:
     Gildi leiksins fyrir þroska barnsins á þessum ungu árum er löngu viðurkennt og staðfest á fræðilegum grundvelli. Leikurinn er lífstjáning barnsins hið eðlilega tjáningarform þess. Leikurinn er ekki aðeins gleðigjafi, hann er þeim nám og starf. Við þurfum að líta á leiki barna sem mikilvægar náms - og þroskaleiðir og nýta þá sem slíka.
     Oft er þó sagt að börn á dagheimilum og leikskólum læri ekki neitt, „þau bara leiki sér“. En í bernsku er það að leika sér sama og að læra og leita sér þekkingar og reynslu.
     Uppeldisstofnanir/skólar þessir skulu bera nafnið leikskólar í samræmi við meginkjarna þess uppeldisstarfs sem þar fer fram.
     Leikskólaheitið skírskotar þannig til þess uppeldisstarfs og inntaks þess. Skiptir hér ekki máli hversu margar stundir á dag börnin dvelja þar. Höfuðatriðið er að þar fari fram leikskólastarfsemi í þess orðs bestu merkingu: markvisst uppeldisstarf byggt á leik og hvers konar sköpun eins og fyrr segir.
     Leikskólaheitið lýsir uppeldisstarfinu og minnir á að það sé skóli þar sem lítil börn læra og þroskast gegnum leik. Minna má á hér að latnesk/gríska orðið „schola“ þýðir í eiginlegri eða upprunalegri merkingu „tómstundir sem notaðar eru til náms“. Í orðinu leikskóli felst því heilbrigður metnaður og holl áminning.“
     Nefndin er sammála um að þetta nýja skólastig skuli kallast leikskólastig og dagvistarheimili verði nefnd leikskólar, burtséð frá lengd dvalartíma barnanna þar.

3. Hlutverk sveitarfélaga.
    
Í skipunarbréfi nefndarinnar er tekið fram að nefndin skuli ganga út frá því markmiði „að öll börn öðlist rétt á góðri dagvistun með uppeldi og menntun við hæfi þar til grunnskóli hefst“.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögum sé gert skylt innan tíu ára að byggja og reka leikskóla fyrir þau börn sem óskað er eftir leikskólavist fyrir. Engu barni er skylt að sækja leikskóla. Minni sveitarfélög sem ekki koma til með að reka leikskóla vegna þess hve fá börn búa þar skulu, þar sem því verður við komið, eiga aðild að rekstri leikskóla. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í sveitarfélögum fari sérstök leikskólanefnd eða skólanefnd grunnskóla með málefni leikskóla. Þó getur menntamálaráðuneytið heimilað sveitarstjórnum að fela öðrum nefndum eða ráðum að fara með málefni leikskólans tímabundið.

4. Hlutverk ríkisins.
    
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið fari með yfirstjórn leikskóla eins og verið hefur. Það skal móta uppeldisstefnu, sinna þróunar - og rannsóknarstarfi, stuðla að samfellu í starfsháttum leikskóla og grunnskóla, annast leyfisveitingar og sjá um að fullnægt sé ákvæðum laga og setja leikskólanum uppeldisáætlun.

5. Uppeldisáætlun er starfsrammi.
    
Rétt þykir að gera hér grein fyrir þeirri uppeldisáætlun sem vísað er til í lagafrumvarpi þessu. Í bréfi sem Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, sendi öllum dagvistarheimilum á landinu í maí 1985 er gerð grein fyrir uppeldisáætlun sem þá var nýkomin út. Í bréfi Ragnhildar segir m.a.:
     „Í uppeldisáætlun þessari eru sett fram markmið sem nefndin telur að stefna beri að í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum, og síðan er fjallað um helstu uppeldissvið, grundvallarviðhorf og meginleiðir í uppeldi ungra barna.
     Uppeldisáætlunin felur ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á því starfi sem nú fer fram á dagvistarheimilum í landinu. Miklu fremur er uppeldisáætluninni ætlað það hlutverk að hlúa að því besta í því starfi sem fyrir er, auðga það og styrkja.
     Uppeldisáætlunin byggir á „hefðbundnum“ vestrænum grundvallarhugmyndum um uppeldi ungra barna, en styðst jafnframt við nýja þekkingu og reynslu á sviði uppeldisfræði og þróunarsálarfræði. Markmið uppeldisstarfsins mótast fyrst og fremst af lýðræðislegu lífsviðhorfi og kristilegu siðgæði. Aðaláhersla er lögð á að örva alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams - , tilfinninga - , vitsmuna - , félags - , fagur - og siðgæðisþroska, efla jákvæða sjálfsmynd þeirra og búa þeim vel skipulagt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði sem jafnframt eru hlýleg og lærdómsrík.
     Menntamálaráðuneytið væntir þess að uppeldisáætlun þessi geti orðið forstöðumönnum og fóstrum haldgóður leiðarvísir í uppeldisstarfi í samvinnu við starfsfólk og foreldra. Skoða ber uppeldisáætlunina sem nokkurs konar umgjörð um uppeldisstarfið og sveigjanlegan starfsramma.
    Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin í huga geta forstöðumenn og fóstrur sérhvers dagvistarheimilis gert sínar eigin áætlanir og mótað uppeldisstarfið í samræmi við þroska og þarfir barnanna og þær aðstæður sem fyrir hendi eru.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Leikskólar eru skv. 1. gr. uppeldisstaðir fyrir yngstu börnin. Þeir eiga að þjóna börnum frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur, en það verður sex mánuðir frá næstu áramótum, þar til þau verða 6 ára og grunnskólaganga hefst.
     Þær stofnanir eða heimili sem ekki starfa samkvæmt lögum þessum geta ekki borið heitið leikskóli.

Um 2. gr.


     Í greininni er lögð áhersla á samráð og samstarf foreldra og leikskóla um uppeldi og menntun barna. Hér er lögð til grundvallar sú meginforsenda fyrir tilvist leikskóla að þeir eigi að vera fjölskyldum til stuðnings og sjálfsögð viðbót við uppeldi og menntun sem veitt er á einkaheimilum barnanna.
     Menntunarhugtakið er túlkað vítt og gengið út frá þeim skilningi að það nái m.a. til uppeldis, umönnunar, þjálfunar og kennslu, sem fyrst og fremst fer fram í leik og starfi, svo sem hæfir best börnum á leikskólaaldri.
     Meginmarkmið leikskólans eru byggð á Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir, sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu árið 1985. Leikskólar eiga að stuðla að og örva alhliða þroska barna. Ákveðin og nægjanlega skýr markmið svo og fullnægjandi aðbúnaður á leikskólum ættu að tryggja að uppeldisstarfið sé fjölbreytt og traust.

Um 3. gr.


     Með ákvæðum þessarar greinar er sveitarfélögum gert skylt að veita öllum börnum á leikskólaaldri leikskólavist óski foreldrar eða aðrir forráðamenn barns eftir því. Hins vegar er börnum ekki skylt að vera á leikskóla.
     Núverandi dagvistarkerfi getur aðeins þjónað 46% barna á aldrinum 1 / 2 árs til 6 ára, annaðhvort á leikskóla eða dagheimili og því er aðlögunartími nauðsynlegur þar til sveitarfélögin geta farið að því ákvæði þessarar greinar sem skyldar þau til þess að fullnægja eftirspurn. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir 10 ára aðlögunartíma til þess að fjölga leikskólum og starfsfólki með viðhlítandi menntun. Að tímabilinu loknu tekur þessi grein að fullu gildi, sjá einnig bráðabirgðagrein nr. II.
     Í þessari grein kemur fram að núverandi skipting dagvistarstofnana í leikskóla og dagheimili er afnumin, en sú skipting hefur byggst á mismunandi lengd daglegrar dvalar barnanna. Samheitið fyrir þessar mennta - og uppeldisstofnanir verður leikskóli sem gefur til kynna menntunarleið yngstu barnanna, þ.e. leikinn. Aðgreining í leikskóla og dagheimili er villandi og gefur í skyn að markmið þessara stofnana séu ólík. Með því að afnema skiptinguna er lögð áhersla á að hlutverk leikskóla (dagvistarstofnana) er það sama hvort sem barn dvelur þar 4 eða 9 stundir daglega, þ.e. að búa börnum örugg leikskilyrði undir leiðsögn sérmenntaðs starfsfólks.
     Lengd daglegrar dvalar barns á að fara eftir aðstæðum hjá fjölskyldu þess og skulu hagsmunir barnsins lagðir til grundvallar. Vinni foreldrar t.d. utan heimilis allan daginn á að tryggja að barnið geti verið á einum og sama staðnum þann tíma, en þurfi ekki að þeytast á milli margra staða daglega.
     Eins og í núgildandi lögum um dagvistarheimili þarf samþykki menntamálaráðuneytisins til þess að setja á stofn leikskóla (dagvistarheimili). Samþykki þetta er gefið í formi starfsleyfis. Starfsleyfið á að tryggja að börn njóti viðhlítandi aðbúnaðar á öllum leikskólum.
     Ráðuneytinu er samkvæmt frumvarpinu heimilað að veita starfsleyfi þótt leikskólinn geti ekki boðið börnum daglega skóladvöl allt árið. Reikna má með að leikskólar í dreifbýli þyrftu helst á þessari heimild að halda.

Um 4. gr.


     Eins og í núgildandi lögum um dagvistarstofnanir er öðrum aðilum en sveitarfélögum heimilt að stofnsetja og reka leikskóla (dagvistarheimili) liggi samþykki menntamálaráðuneytisins og viðkomandi sveitarfélags fyrir.

Um 5. gr.


     Núverandi stjórnun sveitarfélaga á málefnum dagvistarheimila er með misjöfnu móti. Í Reykjavík fer t.d. stjórn Dagvistar barna með málaflokkinn en áður var hann vistaður hjá félagsmálaráði. Félagsmálaráð margra sveitarfélaga eru fagnefndir dagvistarheimilanna. Það fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt af ýmsum starfsmönnum heimilanna sem bent hafa á að þannig væri stjórnin of veik og þyrfti oft að víkja fyrir öðrum verkefnum ráðanna. Gagnrýnin hefur einnig falist í því að áhersla á dagvistarheimili sem félagslegt úrræði væri óæskileg og tefði fyrir viðhorfum og þróun í þá veru að hér sé um mennta - og uppeldisstofnanir að ræða engu síður en grunnskólann.
     Með 5. gr. er gert ráð fyrir því að sérstakar leikskólanefndir eða þær skólanefndir grunnskóla sem fyrir eru sinni málefnum leikskólans í umboði sveitarstjórna. Fulltrúar starfsmanna leikskóla og foreldra leikskólabarna sitji sem áheyrnarfulltrúar í nefndunum. Kosturinn við að hafa eina og sömu nefndina yfir leikskólum og grunnskólum er sá að tengsl og samfella milli þessara tveggja skólastiga verða betur tryggð. Greinin gerir ráð fyrir því að þær sveitarstjórnir, sem kjósa að halda óbreyttu fyrirkomulagi enn um sinn, t.d. að félagsmálaráð fari með málefni leikskólans, geti fengið til þess heimild. Með gerð þriggja ára áætlana um uppbyggingu er skólanefndum ætlað að fylgja eftir því markmiði frumvarpsins að eftirspurn eftir leikskóladvöl verði fullnægt árið 2000.

Um 6. gr.


    Greinin kveður á um þau atriði varðandi húsnæði, búnað, fjölda barna og starfsfólks sem setja skal í reglugerð til þess að tryggja viðhlítandi aðbúnað í öllum leikskólum. Í greininni er getið sérstaklega um aðstöðu til einstaklingsþjálfunar er nýtast má fötluðum börnum og þeim sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Slík aðstaða þarf að vera rúmgóð og með góðu geymslurými þar sem jafnframt getur verið boðið upp á fjölbreyttari möguleika í leik og starfi leikskólabarna almennt.

Um 7. gr.


     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn leikskólamálefna og veitir leyfi til leikskólarekstrar samkvæmt þessari grein. Enn fremur er hér lagt til að ríkið marki heildarstefnu í uppeldismálum leikskólans og hafi yfirsýn yfir innra starf leikskólanna í landinu til að tryggja sem jöfnust uppeldis - og menntunarskilyrði leikskólabarna, burtséð frá búsetu þeirra og heildaraðstæðum. Með eftirlitshlutverki menntamálaráðuneytisins ætti að safnast á sömu hendur sú vitneskja um málefni leikskólans sem nauðsynleg er til að móta heildstæða uppeldisstefnu leikskólans og tryggja markvisst þróunar - og rannsóknarstarf svo að ráðuneytið sé í stakk búið að vera stjórnendum leikskólanna til ráðuneytis um starfsemina eins og segir í greininni.

Um 8. gr.


     Hér er gert ráð fyrir því að landinu verði skipt í sérstök leikskólaumdæmi samkvæmt skiptingu í fræðsluumdæmi eins og ákveðið er í grunnskólalögum hverju sinni. Enda er ráð fyrir því gert í greininni að tengja starfsemi fræðsluskrifstofa grunnskóla og störf umdæmisfóstra leikskóla eins og kostur er til að mynda sem mesta samfellu í uppeldi og menntun barna allt frá upphafi leikskólastigs til loka skólagöngu. Með þessum samtengingaráætlunum má enn fremur ætla að verulegir fjármunir sparist nái þær fram að ganga.
     Áhersla er lögð á tengsl og samskipti leikskóla og grunnskóla og ráð fyrir því gert að ráðuneytið setji sérstaka reglugerð um samskipti þessara skólastiga.

Um 9. gr.


     Í þessari grein er gert ráð fyrir að í hverju umdæmi sé starfandi umdæmisfóstra á vegum menntamálaráðuneytisins, sem sinni umsjónar - , ráðgjafar - og eftirlitsstarfi er lýtur að uppeldi og menntun leikskólabarna.
     Grein þessi gerir því ráð fyrir að þjónusta ráðuneytisins verði færð út á landsbyggðina. Þessi tilhögun er ekki síst mikilvæg fyrir minni sveitarfélög sem ekki hafa í þjónustu sinni umsjónarfóstrur og/eða leikskólafulltrúa.
     Leikskólum sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum hefur fjölgað ár frá ári og er að finna víða um land. Til að ráðuneytið geti sinnt hlutverki sínu gagnvart börnum í þessum leikskólum er nauðsynlegt að flytja þjónustu ráðuneytisins út í umdæmin. Eðlilegt er að ráðið verði í stöður umdæmisfóstra í áföngum. Þannig verði þessu ákvæði í greininni fullnægt á nokkrum árum.


Um 10. gr.


     Leikskólastjóri gegnir veigamiklu forustuhlutverki í uppeldisstarfi leikskólans jafnframt því sem hann hefur á hendi margþætt stjórnunarstarf. Greinin tekur einnig til menntunar þeirra er sinna fóstrustörfum og ráðgjafarstörfum á vegum rekstraraðila.
     Til að sveitarstjórnir og menntamálaráðuneytið hafi yfirsýn yfir starfsemi leikskólanna í landinu er lagt til að leikskólastjóri ásamt starfsfólki sínu geri ársskýrslu um starfsemi leikskólans og sendi viðkomandi sveitarstjórn og umdæmisfóstru.

Um 11. gr.


     Hér er um að ræða sömu ákvæði og í lögum nr. 112/1976, 18. gr., og þarfnast því ekki skýringar.

Um 12. gr.


     Eitt af markmiðum leikskólans, sbr. 2. gr. í frumvarpi þessu, er „að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla aðhliða þroska barnanna í samræmi við þarfir þeirra . . . “ Grein þessi kveður nánar á um þá skyldu leikskóla að sinna þessu mikilvæga samstarfi við foreldra.


Um 13. gr.


     Grein þessi fjallar um gerð nokkurs konar námskrár leikskóla sem myndi eins konar umgjörð um starfið eða sveigjanlegan starfsramma.
     Allt frá 1985 hafa leikskólar haft Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili markmið og leiðir sem leiðarvísi í sínu leikskólastarfi.
     Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin að leiðarljósi getur sérhver leikskóli gert sínar eigin áætlanir í samræmi við þær þarfir og aðstæður sem fyrir hendi eru.


Um 14. gr.


     Hér er lagt til að leikskólinn verði vettvangur þjálfunar og meðferðar fatlaðra barna og þeirra barna sem þurfa einhvers konar aðstoð og þjálfun vegna tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika. Þetta er í anda laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, en þar segir að dagvistarstofnanir séu einnig stofnanir fyrir fatlaða og að uppbyggingu þeirra og starfsemi skuli vera þannig háttað að þjónusta þeirra nýtist fötluðum til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Þetta er einnig í samræmi við 2. gr. þessa frumvarps en þar segir meðal annars að leikskólinn skuli kappkosta að efla alhliða þroska barnanna. Það er ljóst að til þess að fullnægja þessu markmiði hvað þennan sérstaka hóp barna varðar þurfa þau meiri og sérhæfðari þjónustu en önnur börn og mikilvægt er að sú þjónusta sé veitt innan leikskólans. Sem dæmi má nefna þroskaþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talkennslu sem fram fer í samræmi við niðurstöður greiningar á eðli fötlunar og í beinu framhaldi af greiningu.
     Þjálfunin skal fara fram inni á almennum leikskóladeildum eða á sérhæfðum deildum og framkvæmd ýmist með einu barni í einu eða í misstórum hópum barna í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir þeirra og möguleika. Jafnframt skal auðvelda fötluðum börnum þátttöku í almennu leikskólastarfi, svo sem kostur er, m.a. með því að skipuleggja almennt leikskólastarf einnig á þeirra forsendum. Þetta er þeim mun mikilvægara þar sem í leikskóla gefst tækifæri til að leggja grundvöll að eðlilegum samskiptum fatlaðra og ófatlaðra í framtíðinni.
     Sérhæfðar deildir eru hugsaðar fyrir börn sem fötlunar sinnar vegna geta tímabundið eða varanlega illa nýtt sér starf á almennri leikskóladeild. Starfsemi þessara deilda skal falla sem eðlilegast að heildarstarfi leikskólans. Aðgangur barna af sérhæfðu deildinni að öðrum deildum leikskólans þarf að vera greiður svo og aðgangur að sameiginlegri leikaðstöðu barnanna.
     Lagt er til að foreldrar og ráðgjafar - og sálfræðiþjónustan taki með hliðsjón af greiningu sameiginlega ákvörðun um hvaða tegund þjálfunar barnið skuli fá og hvers konar leikskóli verði fyrir valinu, þ.e. almenn leikskóladeild eða sérhæfð deild.

Um 15. gr.


     Lagt er til að leikskólar verði þannig byggðir og skipulagðir að þeir geti sinnt fötluðum börnum á leikskólaaldri. Hér er m.a. átt við að almennt leikskólastarf taki mið af mismunandi færni barnanna og að það sé þannig skipulagt að fatlaða barnið samlagist hópnum sem best en einangrist ekki. Auk þess þarf að vera til staðar fagþekking, sbr. 14. gr. þessa frumvarps, aðstaða til einstaklingsþjálfunar og aðgengi fyrir fatlaða um lóð og útileiksvæði.
     Menntamálaráðuneytinu er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sveitarfélag hefur þegar á að skipa leikskólum sem fullnægja þessu ákvæði og þörfinni er fullnægt.


Um 16. gr.


     Í greininni er gert ráð fyrir stofnun sérstaks þróunarsjóðs til að standa straum af þeim kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af þróunar - , tilrauna - og rannsóknastarfi innan leikskólanna, sbr. Þróunarsjóð grunnskóla. Fé er veitt í sjóðinn af fjárlögum hverju sinni, en menntamálaráðuneytið afgreiðir umsóknir og ákveður skiptingu fjárins.

Um 17. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 18. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 19. gr.


     Ekki verður um það deilt að öflug ráðgjafar - og sálfræðiþjónusta er nauðsynleg til að styrkja það faglega starf sem lögin gera ráð fyrir að fari fram í leikskólum. Einnig er það augljóst hagkvæmnisatriði að þessi þjónusta sé skipulögð í tengslum við þá ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu sem fyrir er innan grunnskólans. Þó er rétt að benda á sérstöðu Reykjavíkurborgar sem hefur skipulagt sérstaka þjónustu eingöngu fyrir dagvistarstofnanir. Vegna umfangs þeirrar þjónustu má ætla að það fyrirkomulag sem þróast hefur henti áfram.
     Ekki er í frumvarpinu rætt um menntunarkröfur sem gerðar skulu til þeirra sem sinna ráðgjafarstarfi innan leikskólans né heldur hvaða menntun forstöðumaður leikskóladeildar ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu hafi til að bera. Varðandi þessi atriði vísast til þess fyrirkomulags sem gildir um ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu grunnskólans, en þó með sérþarfir leikskólans í huga. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið setji sérstaka reglugerð (21. gr.) um framkvæmd og starfssvið ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu og verða þessi atriði væntanlega skilgreind á þeim vettvangi.

Um 20. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 21. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 22. gr.


     Með vísan til síðari málsgreinar greinarinnar skal á það bent að manneldisráð hefur látið útbúa matseðla fyrir dagvistarstofnanir, þar sem gefnar eru ábendingar um hollan morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu fyrir forskólabörn. Verða þeir tilbúnir til notkunar innan skamms. Rétt er að benda á að ekki er nauðsynlegt út frá næringarfræðilegu sjónarmiði að börnin borði heita máltíð í hádeginu, köld máltíð getur verið jafn holl. Hins vegar er æskilegt að börn borði a.m.k. eina heita máltíð á dag. Fái þau hana ekki heima er mikilvægt að hún standi þeim til boða á leikskólanum.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 23. gr.


     Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi eldri lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, en sá hluti þeirra er tekur til skóladagheimila heldur áfram gildi sínu.

Um ákvæði til bráðabirgða.


I.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

II.


     Sjá athugasemdir við 3. gr.

III.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.



REPRÓ.