Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 337, 115. löggjafarþing 189. mál: aukatekjur ríkissjóðs (heildarlög).
Lög nr. 88 31. desember 1991.

Lög um aukatekjur ríkissjóðs.


I. KAFLI
Dómsmálagjöld.

1. gr.

     Við meðferð einkamáls í héraði skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
  1. Fyrir útgáfu stefnu 1.000 kr.
  2. Fyrir þingfestingu 3.000 kr.
  3. Fyrir dómkvaðningu matsmanns 3.000 kr.
  4. Fyrir endurrit og ljósrit á hverja síðu 100 kr.

     Við meðferð einkamáls fyrir Hæstarétti skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
  1. Fyrir kæru 10.000 kr.
  2. Fyrir áfrýjunarleyfi 10.000 kr.
  3. Fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu 10.000 kr.
  4. Fyrir þingfestingu 3.000 kr.
  5. Útivistargjald 10.000 kr.

     Fyrir sjópróf og aðra sönnunarfærslu fyrir héraðsdómi án tengsla við rekstur máls fyrir hlutaðeigandi dómi skal greiða 5.000 kr. í ríkissjóð.
     Gjöld skv. 1. og 2. mgr. skal einnig greiða fyrir sakaukasök, gagnsök, meðalgöngusök og framhaldssök.
     Gjöld skv. 1.–3. mgr. greiðast ekki í eftirfarandi málum:
  1. Málum til heimtu vinnulauna.
  2. Barnsfaðernismálum.
  3. Málum til vefengingar á faðerni barns.
  4. Lögræðissviptingarmálum.
  5. Kjörskrármálum.
  6. Einkarefsimálum.
  7. Gjafsóknarmálum að því leyti sem gjald yrði lagt á gjafsóknarhafa.


2. gr.

     Í málum vegna aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu og nauðungarsölu skal greiða gjöld skv. 1. gr. fyrir héraðsdómi og Hæstarétti eftir því sem átt getur við.
     Fyrir meðferð aðfararbeiðni fyrir héraðsdómi, án þess að gerðarþoli verði kvaddur fyrir dóm, skal greiða 3.000 kr. í ríkissjóð. Gjald þetta skal greitt um leið og beiðni er afhent héraðsdómi, en ef gerðarþoli er síðan kvaddur fyrir dóm fellur gjaldið niður en fénu verður þá varið þess í stað til greiðslu gjalds fyrir þingfestingu máls.

3. gr.

     Í málum, sem eru rekin fyrir héraðsdómi og Hæstarétti eftir ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl. og laga um gjaldþrotaskipti, skal greiða gjöld skv. 1. gr. eftir því sem átt getur við.
     Þá skal greiða 3.000 kr. í ríkissjóð fyrir eftirfarandi málefni fyrir héraðsdómi:
  1. Fyrir kröfu um opinber skipti á dánarbúi.
  2. Fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða við slit óvígðrar sambúðar.
  3. Fyrir kröfu um opinber skipti til slita á félagi.
  4. Fyrir beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, þar á meðal um framlengingu hennar.
  5. Fyrir kröfu um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar.
  6. Fyrir beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
  7. Fyrir kröfu um niðurfellingu heimildar til að leita nauðasamnings.
  8. Fyrir kröfu um staðfestingu nauðasamnings.
  9. Fyrir kröfu um gjaldþrotaskipti.

     Gjald skv. 2. mgr. skal greitt um leið og beiðni eða krafa er afhent héraðsdómi. Komi til rekstrar máls til að leysa úr ágreiningi um beiðni eða kröfu fellur gjaldið niður en fénu verður þá varið þess í stað til greiðslu gjalds fyrir þingfestingu máls.
     Að því leyti sem héraðsdómari lætur birta kvaðningar vegna málefna skv. 2. mgr. með öðrum hætti en í pósti eða símskeyti skal sá sem beiðni eða krafa stafar frá bera kostnaðinn af því.
     Gjöld skv. 1. mgr. og 2. mgr. verða ekki greidd ef um mál er að ræða sem ákvæði 5. mgr. 1. gr. taka til.

II. KAFLI
Gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumanni.

4. gr.

     Þegar beiðni um fjárnám er afhent sýslumanni skal um leið greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem fjárnáms er krafist fyrir, að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þó aldrei minna en 3.000 kr. eða meira en 10.000 kr. Gjald skal reiknað í heilum hundruðum króna þannig að það sem er umfram fellur niður. Ef fjárnáms er krafist hjá fleiri en einum gerðarþola í sömu beiðni skal greiða þetta gjald vegna hvers þeirra.
     Þegar beiðni um kyrrsetningu eða löggeymslu er afhent sýslumanni skal um leið greiða gjald skv. 1. mgr. sem tekur mið af fjárhæðinni sem gerðar er krafist fyrir.
     Við lögbannsgerð eða aðfarargerð til fullnustu á öðru en skyldu til peningagreiðslu skal greiða 5.000 kr. í ríkissjóð um leið og beiðni um gerðina er afhent sýslumanni.
     Gjöld skv. 1.–3. mgr. eru ekki endurkræf þótt beiðni sé afturkölluð eða ekki verði af framkvæmd gerðar af öðrum sökum. Sérstakt gjald verður ekki tekið við endurupptöku gerðar.
     Gjöld skv. 1.–3. mgr. verða hvorki greidd vegna mála sem 5. mgr. 1. gr. tekur til né vegna fullnustu sektar eða kröfu um sakarkostnað í opinberu máli.

5. gr.

     Þegar beiðni um nauðungarsölu til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni skal um leið greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem er krafist fullnustu á, að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Þegar beiðni er um nauðungarsölu á fasteign eða eign sem verður ráðstafað eftir sömu reglum og fasteign skal þetta gjald aldrei vera minna en 9.000 kr. eða meira en 30.000 kr. Þegar beiðni er um nauðungarsölu á lausafé skal gjaldið aldrei vera minna en 3.000 kr. eða meira en 10.000 kr. Ákvæði 4. og 5. mgr. 4. gr. gilda um skyldu til greiðslu þessa gjalds.
     Þegar beiðni um nauðungarsölu í öðru skyni en til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni skal um leið greiða gjald í ríkissjóð. Ef beiðnin er um nauðungarsölu á fasteign eða annarri eign sem verður ráðstafað með sama hætti og fasteign er gjaldið 15.000 kr., en ef beiðnin varðar annars konar eign 5.000 kr.
     Þegar fasteign er seld á uppboði greiðist 1% söluverðs sem sölulaun í ríkissjóð. Það sama á við um aðrar eignir sem eru seldar eftir sömu reglum og gilda um nauðungarsölu fasteigna.
     Þegar aðrar eignir en getur í 3. mgr. eru seldar á uppboði greiðast 5% söluverðs sem sölulaun í ríkissjóð.
     Gjöld skv. 1.–4. mgr. skulu reiknuð í heilum hundruðum króna þannig að það sem er umfram fellur niður.

6. gr.

     Þegar einkaskiptum á dánarbúi er lokið skal greiða 5.000 kr. sem skiptagjald í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts. Skiptagjald greiðist þó ekki ef arfur rennur að öllu leyti til erfingja sem er undanþeginn skyldu til greiðslu erfðafjárskatts.

7. gr.

     Við framkvæmd aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu, nauðungarsölu og skipti dánarbúa fyrir sýslumanni verður ekki krafist frekari greiðslna en segir í 4.–6. gr. nema fyrir:
  1. Óhjákvæmilegan akstur sem sá sem krefst aðgerðar býður ekki fram með viðunandi hætti. Sé notað ökutæki starfsmanns sýslumanns reiknast aksturskostnaður eftir almennum reglum um afnot ríkisstarfsmanna á eigin ökutæki við rækslu starfa sinna.
  2. Útlagðan kostnað úr ríkissjóði vegna óhjákvæmilegrar ferðar og dvalar sýslumanns eða starfsmanns hans utan umdæmis hans.
  3. Þóknun eftir ákvörðun sýslumanns handa öðrum en starfsmönnum sínum sem eru kvaddir til að leysa af hendi nauðsynleg störf.
  4. Ljósritun, en fyrir hana skal greiða með sama hætti og segir í 1. gr.

     Greiðslur skv. 1. mgr. renna í ríkissjóð og verður þeirra krafist um leið og tilefni gefst til þeirra. Sýslumanni er heimilt að áskilja fyrirframgreiðslu þannig að frekari framkvæmd umbeðinnar aðgerðar falli niður ef hún verður ekki innt af hendi.

III. KAFLI
Gjöld fyrir þinglýsingar og lögbókandagerðir

8. gr.

     Fyrir þinglýsingu skjala skal greiða 1.000 kr.
     Eigi skal greiða gjald fyrir þinglýsingu úrskurða um sviptingu sjálfræðis eða fjárræðis né úrskurða um brottnám lögræðissviptingar.

9. gr.

     Fyrir afsagnargerðir, stefnubirtingar og aðrar slíkar gerðir er lögbókandi framkvæmir skal greiða 1.000 kr.
     Fyrir lögbókandavottorð á erfðaskrá og á samninga skal greiða 2.000 kr.
     Fyrir drátt í happdrætti skal greiða 3.000 kr.

IV. KAFLI
Gjöld fyrir veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda.

10. gr.

     Fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa og skírteina skal greiða sem hér segir:
  1. Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti 75.000 kr.
  2. Leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi 50.000 kr.
  3. Leyfi til að stunda almennar lækningar 5.000 kr.
  4. Leyfi til að stunda sérfræðilækningar 75.000 kr.
  5. Leyfi til að stunda almennar tannlækningar 50.000 kr.
  6. Leyfi til að stunda sérfræðitannlækningar 75.000 kr.
  7. Lyfsöluleyfi 75.000 kr.
  8. Leyfi til tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta, lyfjafræðinga,
    viðskiptafræðinga og hagfræðinga 25.000 kr.
  9. Löggilding endurskoðenda 75.000 kr.
  10. Löggilding manns um ævitíð (dómtúlkar, skjalaþýðendur,
    endurskoðendur o.fl.) 25.000 kr.
  11. Löggilding manns um óákveðinn tíma 5.000 kr.
  12. Meistarabréf 25.000 kr.
  13. Sveinsbréf 5.000 kr.
  14. Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna A 11.000 kr.
  15. Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna B 13.000 kr.
  16. Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna C 14.000 kr.
  17. Vélstjórnarskírteini 13.000 kr.
  18. Fyrir endurnýjun leyfa skv. 14.–17. tölul. 3.000 kr.
  19. Undanþáguleyfi til skipstjórnar- eða vélstjórnarstarfa 3.000 kr.
  20. Flugnema- og svifflugmannsskírteini 5.000 kr.
  21. Einkaflugmannsskírteini 6.000 kr.
  22. Atvinnuflugmannsskírteini III. fl. 15.000 kr.
  23. Atvinnuflugmannsskírteini II. fl. 20.000 kr.
  24. Atvinnuflugmannsskírteini I. fl. 25.000 kr.
  25. Flugvéltækna-, flugvélstjóra- og flugumferðarstjóraskírteini 25.000 kr.
  26. Skírteini til kvikmyndasýninga
    1. staðbundin skírteini 5.000 kr.
    2. sveinsskírteini 5.000 kr.
    3. meistaraskírteini 5.000 kr.
  27. Naglabyssuskírteini 5.000 kr.
  28. Skírteini fyrir suðumenn 5.000 kr.
  29. Önnur leyfi af svipuðum toga er valdsmenn eða Stjórnarráð gefa út nema
    gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum 5.000 kr.


V. KAFLI
Leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi.

11. gr.

     Fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa skal greiða sem hér segir:
  1. Heildsöluleyfi 70.000 kr.
  2. Umboðssöluleyfi 50.000 kr.
  3. Smásöluleyfi 50.000 kr.
  4. Lausaverslunarleyfi 50.000 kr.
  5. Endurnýjun verslunarleyfis 20.000 kr.
  6. Leyfisbréf fyrir verðbréfafyrirtæki 100.000 kr.
  7. Leyfi til verðbréfamiðlunar 50.000 kr.
  8. Bráðabirgðaleyfi til verðbréfamiðlunar 10.000 kr.
  9. Leyfi til fasteignasölu 100.000 kr.
  10. Leyfi starfrækslu uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla 50.000 kr.
  11. Endurnýjun leyfis skv. 10. tölul. 5.000 kr.
  12. Leyfi til starfrækslu rækju- og hörpudiskvinnslu 50.000 kr.
  13. Hótelleyfi, veitingahúsaleyfi, leyfi fyrir skemmtistað 50.000 kr.
  14. Leyfi fyrir gistiheimili, veitingastofuleyfi, greiðasöluleyfi 20.000 kr.
  15. Leyfi til að selja gistingu á einkaheimilum, gistiskálaleyfi,
    veisluþjónustuleyfi, veitingaverslunarleyfi 15.000 kr.
  16. Gjald fyrir endurnýjun leyfis skv. 13.–15. tölul. 3.000 kr.
  17. Leyfi til tækifærisveitinga 3.000 kr.
  18. Leyfi fyrir áfengisveitingastað
    1. til sex mánaða eða skemur 20.000 kr.
    2. til eins árs eða skemur 30.000 kr.
    3. til lengri tíma en árs og til og með tveggja ára 50.000 kr.
    4. til lengri tíma en tveggja ára 100.000 kr.
  19. Leyfi til áfengisveitinga (tækifærisveitinga) 5.000 kr.
  20. Leyfi til að framleiða áfenga drykki 100.000 kr.
  21. Almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastað
    1. til eins árs eða skemur 100.000 kr.
    2. til lengri tíma en eins árs 300.000 kr.
  22. Iðju- og iðnaðarleyfi 25.000 kr.
  23. Önnur leyfi af svipuðum toga er valdsmenn eða Stjórnarráð gefa út nema
    gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum 5.000 kr.


VI. KAFLI
Ýmis leyfi varðandi heimild til að selja, kaupa og fara meðhættuleg efni og tæki.

12. gr.

     Greiða skal gjald fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa sem hér segir:
  1. Eiturbeiðni (leyfi til kaupa á takmörkuðu magni) 3.000 kr.
  2. Leyfisskírteini til kaupa og notkunar á eiturefnum 5.000 kr.
  3. Endurnýjun leyfisskírteina skv. 2. tölul. 3.000 kr.
  4. Leyfi til að framleiða skotelda, skotvopn, skotfæri eða sprengiefni 25.000 kr.
  5. Leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri eða skotelda, hvort sem er í
    heildsölu eða smásölu, auk gjalds fyrir verslunarleyfi 15.000 kr.
  6. Endurnýjun leyfis skv. 5. tölul. 3.000 kr.
  7. Tímabundið leyfi til sölu skotelda í smásölu 3.000 kr.
  8. Leyfi til kaupa á sprengiefni 6.000 kr.
  9. Leyfi til þess að fara með sprengiefni og annast sprengingar 6.000 kr.
  10. Önnur sambærileg leyfi nema gjald sé ákveðið í sérstökum lögum
    eða reglugerðum 3.000 kr.


VII. KAFLI
Gjöld fyrir ýmsar skráningar.

13. gr.

     Fyrir eftirfarandi skráningar skal greiða gjald sem hér segir:
  1. Skráning hlutafélags og samvinnufélags 100.000 kr.
  2. Skráning erlendra félaga 50.000 kr.
  3. Skráning firma eins manns 40.000 kr.
  4. Skráning firma tveggja manna eða fleiri 50.000 kr.
  5. Aukatilkynningar og skráning breytinga 1.000 kr.
  6. Skráning loftfars til atvinnuflugs 60.000 kr.
  7. Skráning loftfars til einkaflugs 30.000 kr.
  8. Skráning breytinga á eldri skráningu loftfars (eigendaskipti,
    nafnbreyting o.fl.) 5.000 kr.
  9. Skráning kaupmála 4.000 kr.
  10. Lögskráning sjómanna 500 kr.
  11. Aðrar skráningar sem framkvæmdar eru af stjórnvöldum 4.000 kr.


VIII. KAFLI
Ýmis vottorð og leyfi.

14. gr.

  1. Fyrir vegabréf til útlanda (18–66 ára) 4.000 kr.
  2. Fyrir vegabréf til útlanda fyrir aðra 1.500 kr.
  3. Fyrir borgaralega hjónavígslu 4.000 kr.
  4. Lögskilnaðarleyfi 2.500 kr.
  5. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng 2.000 kr.
  6. Ættleiðingarleyfi 2.000 kr.
  7. Fyrir vottorð er einstakir menn æskja í þágu verslunar eða atvinnu 1.000 kr.
  8. Fyrir löggildingu leiðarbókar eða véladagbókar 1.000 kr.
  9. Fyrir sakavottorð gefin út samkvæmt beiðni einstakra manna 1.000 kr.
  10. Fyrir veðbókarvottorð 800 kr.
  11. Fyrir önnur embættisvottorð 1.000 kr.

IX. KAFLI
Ljósrit og endurrit.

15. gr.

     Fyrir endurrit eða ljósrit skal greiða 100 kr. fyrir hverja vélritaða síðu. Fyrir staðfestingu dómsgerða skal greiða 1.000 kr.
     Í ritlaunum skv. 1. mgr. er innifalið staðfestingargjald, nema af dómsgerðum og lögbókandastaðfestingum.

X. KAFLI
Um innheimtu gjaldanna, gildistöku o.fl.

16. gr.

     Gjöld samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð.
     Innheimtu gjalda samkvæmt lögum þessum annast sýslumenn, héraðsdómarar og hliðstæðir embættismenn, svo og fjármálaráðuneyti eða önnur ráðuneyti í umboði þess.
     Þegar innheimtumaður afgreiðir skjal sem gjaldið er tekið fyrir að gefa út eða rita á ber honum að rita hið greidda gjald á skjalið.

17. gr.

     Fjármálaráðuneytið ákveður hvort ríkissjóður eða innheimtuaðilar opinberra gjalda skuli greiða gjald samkvæmt lögum þessum af gerðum og skjölum er þessa aðila varða.

18. gr.

     Gjöld samkvæmt lögum þessum eru grunngjöld og er heimilt að hækka þau um hver áramót í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á árinu á vísitölu vöru og þjónustu, í fyrsta sinn 1. janúar 1993. Grunnvísitalan er 161,1 stig.
     Þegar gjald hefur verið reiknað út skv. 1. mgr. skal það hækkað eða eftir atvikum lækkað í næsta hundrað.
     Fjármálaráðherra skal með auglýsingu í Stjórnartíðindum tilkynna breytingar skv. 1. mgr.

19. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.

20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi þann 1. janúar 1992. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, og reglugerðir sem settar voru samkvæmt heimild í þeim lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði þessara laga, er varða sýslumenn, gilda um bæjarfógeta og borgarfógeta eftir því sem við á til 1. júlí 1992.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1991.