Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 1 . mál.


411. Nefndarálit



um frv. til l. um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Utanríkismálanefnd Alþingis hefur fjallað um könnunarviðræður og formlegar samningaviðræður EFTA og EB um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis á alls 82 fundum en þar af hafa 54 verið á þessu kjörtímabili. Hefur nefndin fengið á sinn fund fjölmarga aðila sem eru sérfróðir um einstaka samningssvið sem fjallað var um í viðræðunum og vísast í því sambandi, og að öðru leyti varðandi meðferð málsins í nefndinni, til nefndarálits meiri hluta utanríkismálanefndar.
    Umfjöllun um EES-samninginn og mál honum tengd hefur verið bæði umfangsmikil og einstaklega fróðleg og telur undirrituð það mikil forréttindi að hafa átt þess kost að koma þar nærri. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum á fundum utanríkismálanefndar, bæði starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta sem og öðrum sem voru til kallaðir til að aðstoða nefndina og veita henni upplýsingar.

SAMNINGAFERLIÐ



Aðdragandi og undirbúningur.
    Með afgreiðslu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið lýkur vinnu við þann áfanga í samrunaþróun Evrópu sem staðið hefur því sem næst óslitið frá því í desember 1988 þegar leiðtogafundur Evrópubandalagsríkja á Rhodos lýsti yfir vilja til nánara samstarfs við EFTA-ríkin. Þessar hugmyndir voru svo nánar útfærðar í janúar 1989 af Jacques Delors, forseta framkvæmdastjórnar EB, í ræðu sem hann hélt á þingi EB í Strassborg. Taldi hann að um tvær leiðir væri að ræða, annars vegar að þróa áfram hefðbundna samskiptahætti, þ.e. í formi tvíhliða samninga, og hins vegar að ganga til mun víðtækara samstarfs en áður, m.a. með sameiginlegum ákvörðunum á ýmsum sviðum og sameiginlegum stofnunum.
    Á leiðtogafundi EFTA, sem haldinn var í Ósló 14.–15. mars 1989, var síðari leiðin valin og í yfirlýsingu fundarins, sem Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, stóð að fyrir Íslands hönd, segir m.a.: „Við lýsum ánægju okkar með framlag Evrópubandalagsins til meiri samræmingar með því að koma á einum innri markaði árið 1992.“ Og síðar: „Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður leiði til fyllsta mögulega samkomulags um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, með það að markmiði að koma á einu samræmdu evrópsku efnahagssvæði. Við erum því reiðubúin til að kanna ýmsa möguleika og leiðir til að styrkja formleg tengsl milli EFTA-ríkjanna og EB. Við útilokum ekki neinn valkost í framtíðarviðræðum okkar við EB.“
    Lítil sem engin umræða fór fram á Alþingi til undirbúnings Óslóarfundinum og var engin afstaða tekin til þess hvaða leið væri heppilegust í samskiptum Íslands og EB. Þessi skortur á samráði við þingið var gerður að umtalsefni í umræðu utan dagskrár 9. mars sem fór fram að frumkvæði Kristínar Einarsdóttur, fulltrúa Kvennalistans í utanríkismálanefnd.
    Í kjölfar yfirlýsingar Óslóarfundarins, nánar tiltekið í apríl 1989, var stofnuð stjórnarnefnd háttsettra embættismanna til að kanna möguleika á samkomulagi milli EFTA og EB um óhindruð vöruviðskipti, fjármagnsflutninga, þjónustuviðskipti og atvinnu- og búseturétt. Þessum viðræðum lauk 20. október sama ár með því að nefndin skilaði sameiginlegum niðurstöðum og er m.a. greint frá þeim í skýrslu utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, til Alþingis í nóvember 1989. Niðurstöður stjórnarnefndar EFTA og EB eru birtar í fskj. I.
    Talsverðar umræður urðu um þessar könnunarviðræður á Alþingi og lögðu þingmenn Kvennalista og Sjálfstæðisflokks, sem þá voru í stjórnarandstöðu, á það áherslu að Alþingi tæki formlega afstöðu í málinu áður en lengra yrði haldið í samningaviðræðum. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að fara ekki þá leið að leita eftir umboði Alþingis heldur fékk utanríkisráðherra 29. nóvember 1989 umboð ríkisstjórnarinnar til að „taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram“.
    Á þessum tíma stóðu einnig deilur um það á Alþingi hvort og þá hvernig Íslendingar ættu að taka upp tvíhliða viðræður við EB um sérhagsmunamál sín, þ.e. um tollalækkanir á sjávarafurðum á markaði EB umfram það sem kveðið er á um í bókun 6 í fríverslunarsamningnum við EB frá 1972. Til að taka af öll tvímæli lögðu nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Kvennalista fram tillögu til þingsályktunar um „að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að undirbúa nú þegar í samráði við utanríkismálanefnd beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972“. Texti þingsályktunartillögunnar er birtur í fskj. II.
    Á grundvelli fyrrnefndra könnunarviðræðna í stjórnarnefnd EB og EFTA var ákveðið á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna og EB í Brussel 19. desember 1989 að koma hið fyrsta á formlegum samningaviðræðum um víðtæka samvinnu milli þessara aðila. Fyrsti fundur aðalsamninganefndar EB og EFTA var svo haldinn 20. júní 1990 en áður hafði ráðherraráð Evrópubandalagsins samþykkt samningsumboð framkvæmdastjórnarinnar.
    Á þessum tíma lá fyrir að markmið EFTA-ríkjanna með samningaviðræðunum var að tryggja aðild þeirra að innri markaði EB þegar hann yrði að veruleika 1. janúar 1993. Grundvöllur viðræðnanna var allt frá upphafi þær samþykktir EB sem vörðuðu hið svonefnda fjórfrelsi og mörkuðu rammann um hinn innri markað. Markmið samningaviðræðnanna eru birt í fskj. III.

Samningaviðræður.
    Á fyrstu mánuðum samningaviðræðnanna mótuðust allir helstu efnisþættir samningsins og lágu þeir fyrir á sameiginlegum fundi ráðherra EFTA-ríkjanna, Evrópubandalagsríkja og fulltrúa í framkvæmdastjórn EB í Brussel 19. desember 1990.
    Eftir stóðu þó ýmis veigamikil ágreiningsmál, eða eins og segir í skýrslu utanríkisráðherra frá október 1990: „Fjöldamörg vafaatriði hafa verið skýrð og ýmsir upphaflegir fyrirvarar EFTA hafa verið dregnir til baka í ljósi þeirra viðræðna. Eftir standa allt að einu sjávarútvegsmálin, eins og vikið var að áðan, og veigamiklir og umfangsmiklir fyrirvarar EFTA-ríkjanna, eins eða fleiri, við ýmsa þætti EB-samþykktanna. Einnig standa eftir stærstu atriðin á sviði stofnanalegra mála, þ.e. þátttaka EFTA í nefndum sem annast daglegan rekstur ýmissa efnisþátta EB-samþykktanna, ákvarðanamótun og ákvarðanataka um breytingar á og viðbætur við samning eftir að hann hefur tekið gildi, samkeppnisreglur, almennt eftirlit með því að samningi sé framfylgt og úrskurðaraðili eða dómstóll.“
    Í skýrslu utanríkisráðherra segir jafnframt að pólitískur vilji virðist vera fyrir hendi hjá öllum samningsaðilum til að koma á víðtækum samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í umræðum á Alþingi um skýrsluna 29. október sagði utanríkisráðherra að eftir stæðu þrjú meginmál sem finna þyrfti pólitíska lausn á. „Að því er EFTA varðar er það spurningin um fækkun undanþágna. Að því er Evrópubandalagið varðar eru það tillögur af hálfu Evrópubandalagsins um stjórnun Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi er það staða sjávarútvegs í þessum samningum. Þetta eru þau þrjú mál sem báðir aðilar hafa skilgreint sem höfuðvandamálin sem þurfi að leysa áður en við getum slegið því föstu að leiðin sé greið til loka.“
    Næsta árið var tekist á um þessi mál á fundum samninganefnda EFTA-ríkjanna og EB en í október 1991 töldu samningamenn sig komna að niðurstöðu varðandi helstu deilumálin. Sú niðurstaða hélt þó ekki nema skamma hríð því dómstóll Evrópubandalagsins í Lúxemborg sendi frá sér álitsgerð í desember þar sem hann mótmælti hvernig dómsvaldinu væri fyrir komið í samningnum og taldi það stríða gegn sjálfstæði EB-dómstólsins. Á þessu fékkst lausn í febrúar 1992 og var samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið svo undirritaður af utanríkisráðherrum aðildarríkjanna í Óportó í maí 1992. Fjögurra ára samfelldum samningaviðræðum og skæklatogi við EB var þar með lokið.

Fyrirvarar.
    Ríkisstjórnin og samningamenn Íslendinga lögðu upp í viðræðurnar um samstarf EB og EFTA með kröfuna um fríverslun með fisk sem sína meginkröfu. Að auki gerðu þeir margháttaða fyrirvara, svo sem varðandi frelsi á sviði fjármagnsflutninga og á sviði þjónustu og fólksflutninga. Í umræðum á Alþingi í nóvember 1989 kom m.a. fram í ræðum ráðherra að þessir fyrirvarar næðu til peningakerfisins, verðbréfamarkaða, fjárfestinga í sjávarútvegi og orkulindum, vátrygginga, röskunar á vinnumarkaði o.fl.
    En hvernig var kröfunni og fyrirvörunum til skila haldið? Segja má að það hafi legið fyrir allt frá upphafi að EB-ríkin mundu ekki fallast á fríverslun með fisk og eins og fram kemur hér að ofan og sagt er frá í skýrslu utanríkisráðherra frá því í október 1990 töldu EFTA-ríkin nauðsynlegt að fækka fyrirvörunum ef samningar ættu að nást. Eftir það virðast fyrirvararnir í aðalatriðum hafa verið tveir hvað Ísland varðar. Annars vegar að takmarka fjárfestingar erlendra aðila, tengdar náttúruauðlindum, og hins vegar að koma inn varnaglaákvæði varðandi frjálsan atvinnurétt. Í samningnum sjálfum er þessum fyrirvörum haldið til haga með þeim hætti að Íslendingar munu eftir sem áður viðhalda hömlum á fjárfestingum erlendra aðila í fiskveiðum og fiskvinnslu. Þeir fá aðlögun að skammtímahreyfingum fjármagns til 1. janúar 1995 og að beinum fjárfestingum erlendra aðila innan lands til 1. janúar 1996. Þá er í samningnum öryggisákvæði sem ríkisstjórn Íslands hefur lýst yfir að hún muni beita ef framkvæmd samningsins leiðir til alvarlegrar röskunar á vinnumarkaði eða fasteignamarkaði.
    Krafan um fríverslun með fisk breyttist í kröfu um frjálsan markaðsaðgang með fisk en hin almenna niðurstaða varð að tollar á sjávarafurðum lækka um 70% og á lækkunin að koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Auk þess falla algerlega niður tollar á ákveðnum sjávarafurðum, svo sem ferskum flökum frá næstu áramótum. Jafnframt voru lögð drög að tvíhliða samningi milli EB og Íslands um gagnkvæm skipti á fiskveiðiheimildum.
    Af þessu má ljóst vera að Íslendingar hafa gefið mikið eftir í samningaviðræðunum og sannarlega ekki fengið „allt fyrir ekki neitt“. Eftir stendur að meta hvort jafnvægi sé milli fórna og ávinnings, hvort samningsniðurstaðan sé viðunandi og í þágu íslenskra hagsmuna í bráð og lengd.

Afstaða Kvennalistans.
    Eins og áður hefur komið fram mótaðist þegar á undirbúningsstigi viðræðnanna sú stefna í Kvennalistanum að það þjónaði betur hagsmunum Íslendinga að ganga til tvíhliða viðræðna við EB en gerast aðilar að innri markaði bandalagsins. Þessi stefna kom betur fram síðar í áliti Kristínar Einarsdóttur, fulltrúa Kvennalistans í svonefndri Evrópustefnunefnd Alþingis, í áfangaskýrslu nefndarinnar til Alþingis, en þar segir m.a.: „Þar eð ljóst er að hagsmunir Íslands verða ekki tryggðir með samfloti við önnur EFTA-ríki er farsælla fyrir okkur að ganga til samninga við EB á okkar eigin forsendum.“ Álit Kristínar Einarsdóttur er birt í fskj. IV.
    Gagnrýni Kvennalistans á aðildina að innri markaði EB byggðist ekki síst á því að til grundvallar innri markaði EB liggja hugmyndir um aukna neyslu, eyðslu og þar af leiðandi veltu og hagvöxt sem eru í hrópandi mótsögn við gildismat Kvennalistans og þá áherslu sem hann leggur á varðveislu auðlinda og umhverfis. Þá hefur Kvennalistinn ætíð varað við því að framsal á valdi til stofnana EES gæti dregið úr möguleikum kvenna til að hafa áhrif á og móta samfélag sitt. Þessi skoðun var m.a. sett fram í stefnuskrá Kvennalistans fyrir Alþingiskosningarnar 1991 og samþykkt landsfundar Kvennalistans árið 1991. Vísast í þessu sambandi til fskj. V og VI.
    Hinu hefur aldrei verið neitað af hálfu Kvennalistans að ákveðin aðlögun að EB er nauðsynleg þó að ekki væri vegna annars en þess að um 67% af vöruútflutningi okkar fer á þann markað. Þá fer ekki hjá því að svo öflugt bandalag sem EB er hafi mótandi áhrif á viðskipti og stjórnmál í sínum heimshluta. En eins og komið hefur fram hér á undan var Kvennalistinn þeirrar skoðunar að tvíhliða samningaviðræður milli Íslands og EB um endurbætur á fríverslunarsamningnum frá 1972 þjónuðu betur íslenskum hagsmunum en samflot með öðrum EFTA-ríkjum um myndun Evrópsks efnahagssvæðis.
    Það er engu að síður staðreynd að bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa fylgt þeirri stefnu að semja á grundvelli hins svonefnda fjórfrelsis um aðild að innri markaði EB og samninganiðurstaða er fengin. Það sem nú liggur fyrir er að vega og meta gallana og kostina sem í samningnum felast auk áhættunnar og möguleikanna sem bæði geta fylgt aðild að EES sem og því að standa algerlega utan við samrunaferlið í Evrópu. Hér á eftir verður leitast við að leggja slíkt mat á málið.


SAMNINGANIÐURSTAÐA



Vöruviðskipti og samkeppnisreglur (8.–27. gr. og 53.–65. gr.).
    Vegna EFTA-samningsins og fríverslunarsamningsins við EB frá 1972 hefur verið meira frjálsræði á sviði vöruviðskipta en annarra viðskipta milli Íslands og aðildarríkja EES. Engu að síður verða töluverðar breytingar á þessu sviði sem m.a. felast í mun ákveðnari reglum um samkeppni, eftirlit, staðla, viðurkenningu, prófanir og gæði vöru. Þessar reglur verða sameiginlegar á öllu svæðinu og þar af leiðandi draga þær úr hvers kyns viðskiptahindrunum og einfalda inn- og útflutning á vörum. Þetta gæti orðið til að auka verslun innan lands og lækka vöruverð til neytenda. Hertar samkeppnisreglur, aukið eftirlit og auknar kröfur um vörumerkingar koma líka neytendum til góða þó að segja megi að slíku væri hægt að koma á óháð EES-samningnum.
    Samningurinn tryggir hindrunarlausan aðgang íslenskrar iðnframleiðslu að sameiginlegum markaði EB og EFTA, en ýmis rök eru fyrir því að án hans hefði hún átt undir högg að sækja. Þannig er það viðurkennd staðreynd að markmiðið með innri markaði EB var m.a. að auka viðskipti milli þeirra landa sem eiga aðild að honum á kostnað þeirra sem utan hans standa.
    Hinum sameiginlegu reglum um vöruviðskipti fylgja þó ekki bara kostir heldur líka ákveðnir gallar. Þannig má nefna að ríkisstyrkir til atvinnuvega og fyrirtækja, sem hafa áhrif á samkeppnisstöðu þeirra, eru formlega séð bannaðir. Frá þessu eru að vísu ýmsar undanþágur en þær þarf að samþykkja í eftirlitsstofnun EFTA. Þetta gæti haft einhver áhrif á byggðastyrki og óbeina styrki sem sveitarfélög veita einstökum atvinnufyrirtækjum. Þá er ljóst að fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðja ríkisins, sem hefur einkarétt á framleiðslu og dreifingu áburðar, fá ekki staðist gagnvart EES-reglum. Opna verður fyrir frjálsan innflutning á áburði sem gæti kippt rekstrargrundvellinum undan Áburðarverksmiðjunni en þar starfa nú um 130 manns.
    Á matvælasviðinu er EB með mjög umfangsmikla löggjöf sem Íslendingar verða að taka upp sem hluta af EES-reglum. Mun hún vera frekar til bóta fyrir neytendur ef á heildina er litið en þó virðist sem EB leyfi meiri notkun aukefna í matvælum en EFTA-ríkin. Íslendingar gætu að vísu gert strangari kröfur til eigin framleiðslu og framleiðslu ríkja utan EES en yrðu eftir sem áður að heimila innflutning á vörum með þeim aukefnum sem EB viðurkennir.
    Íslendingar flytja inn talsvert mikið af vörum frá Bandaríkjunum og geta í lögum eða reglugerðum gert undanþágur fyrir þessar vörur þó að þær standist ekki kröfur EB ef þær fara ekki lengra en til Íslands. Það gæti þó verið flókið mál og skapað óánægju hjá fyrirtækjum innan EES.
    Ákvæði samningsins um almenn útboð á markaði EES á opinberum framkvæmdum og innkaupum sem fara yfir tiltekna lágmarksupphæð vefjast ekki fyrir íslenskum verktökum ef marka má ummæli þeirra. Vísa þeir í því sambandi til þeirrar fjarlægðarverndar sem íslenskur markaður nýtur, en hinu virðast þeir stundum gleyma að fjarlægðin er líka hindrun fyrir okkur Íslendinga. Fjarlægðin gerir okkur erfiðara um vik að nýta þá möguleika sem felast í þeim stóra markaði sem EES óneitanlega er.

Landbúnaður og sjávarútvegur.
    Undir vöruviðskiptin heyra tvær bókanir sem varða annars vegar viðskipti með landbúnaðarvörur, bókun 3, og hins vegar viðskipti með sjávarafurðir, bókun 9.
    Í bókun 3 er að finna upptalningu á þeim landbúnaðarvörum sem samningurinn tekur til, almenn ákvæði um verðjöfnun vegna mismikils kostnaðar einstakra landa við þau landbúnaðarhráefni sem notuð eru við vöruframleiðsluna og þær undanþágur sem einstaka EFTA-ríki fá frá ákvæðum bókunarinnar, bæði hvað varðar vörutegundir og álagningu verðjöfnunargjalds. Bókuninni eiga að fylgja sjö svonefndir viðbætar þar sem einstök ákvæði hennar eru nánar útfærð, svo sem hvaða hráefni falla undir verðjöfnun og hvaða hráefnisverð er miðað við í verðjöfnun. Enn hefur ekki verið gengið frá þessum viðbætum af samningamönnum EB og EFTA og ljóst er að talsverður ágreiningur er um útfærslu bókunarinnar. Bókun 3 mun því ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí 1993.
    Niðurstaðan getur haft talsverða þýðingu fyrir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sem framleiða vörur úr landbúnaðarhráefni. Skipist mál á versta veg getur hún versnað til muna og þar með staða íslensks landbúnaðar. Telja samtök bænda að allt að 10% mjólkurmarkaðarins kynnu að tapast sem og hluti markaðarins fyrir tilbúna rétti, svo sem pitsur. Það er því mjög mikilvægt að samningamenn Íslands haldi fast á málum og íslensk stjórnvöld beiti þeim meðölum sem þeim eru tiltæk náist ekki viðunandi samningsniðurstaða.
    Í bókun 9 er tiltekið með hvaða hætti EB skuli lækka innflutningstolla á tilteknum sjávarafurðum. Jafnframt er staðfest að ef lægri tollar gilda fyrir tilteknar vörur á grundvelli tvíhliða samninga milli EB og einstakra EFTA-ríkja gildi þeir sem grunntollar. Bókun 6 með fríverslunarsamningi EB og Íslands frá 1972 stendur því óhögguð ef Íslendingar vilja síðar meir segja upp EES-samningnum sem og líka fríverslunarsamningurinn sjálfur, sbr. 120. gr. í EES-samningnum.
    Sú tollalækkun, sem fékkst með bókun 9, er tvímælalaust mjög mikilvæg og reikna má með að þegar hún er komin að fullu til framkvæmda nemi hún um 1,5–1,8 milljörðum kr. miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Það orkar hins vegar mjög tvímælis að reikna alla tollalækkunina íslenskum útflytjendum til tekna þar sem kostnaður vegna tolla skiptist með ýmsum hætti milli seljenda og kaupenda. Það er alls ekki sjálfgefið að tollalækkunin muni leiða til þess að íslenskir útflytjendur fái hærra verð fyrir framleiðslu sína. Hún gæti fullt eins orðið neytendum í Evrópu til hagsbóta.
    Þá er ástæða til að hafa í huga að ekki fékkst fram tollalækkun fyrir ýmsar mikilvægar sjávarafurðir, svo sem ediksverkaða síld og niðurlagða. Má á það benda að gangi Svíar og Finnar í EB versnar staðan enn frekar þar sem þessar þjóðir hafa keypt talsvert mikið af síld af Íslendingum en engir tollar hafa verið á þeim útflutningi samkvæmt EFTA-samningi.
    Þrátt fyrir þetta er bókun 9 mjög mikilvæg fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Mikilvægið felst ekki síst í auknum möguleikum til að flytja verðmætari vöru en áður á markaði EB og koma henni beint og milliliðalaust til neytenda. Þar vegur þyngst að 18% tollur á ferskum flökum fellur niður. Í þessu sambandi er hins vegar ástæða til að óttast íslenskan gullgrafaramóral og að allir ætli að rjúka til og verða ríkir á slíkum útflutningi. Það er sem hægast hægt að klúðra góðum tækifærum sem gefast með ónógum undirbúningi og vanþekkingu.
    Bókun 9 nær til allra EFTA-ríkjanna og bætir þar með stöðu norskra sjávarútvegsfyrirtækja á markaði EB ekki síður en íslenskra. Þetta gæti haft einhver áhrif á samkeppnisstöðu íslensku fyrirtækjanna gagnvart þeim norsku. Þannig fellur nú niður tollur á frystum flökum sem hingað til hefur lagst á norskan fisk við útflutning til EB en ekki íslenskan. Hitt er ljóst að hafni Íslendingar samningnum nú, þegar fyrir liggur að norska þingið hefur samþykkt hann, hlýtur samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna að versna enn frekar.
    Óaðskiljanlegur hluti EES-samningsins er tvíhliða rammasamningur milli Íslands og EB um fiskveiðimál og skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Slík samningsgerð hefur verið á döfinni allt frá því bókun 6 með fríverslunarsamningi EB og Íslands frá 1972 tók gildi. Samningar hafa þó alltaf strandað á óbilgjörnum kröfum EB um fiskveiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu.
    Þau gagnkvæmu skipti á veiðiheimildum, sem staðfest voru í Óportó í maí sl., hafa í för með sér að skipum frá EB verður heimilt að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Í því felst vissulega fórn af hálfu Íslendinga en á hitt ber að líta að um gagnkvæmar veiðiheimildir er að ræða á takmörkuðum afla. Í þessu sambandi skiptir þó verulegu máli að gagnkvæmnin sé annað og meira en orðin tóm, að það jafnvægi milli réttinda og skyldna, sem svo oft var ítrekað í samningaviðræðunum, nái til beggja aðila. Því miður virðist niðurstaðan vera sú að heimildir EB í formi 3 þús. karfaígildistonna standi þó svo að Íslendingum takist ekki á vertíðinni á undan að ná í þau 30 þús. tonn af loðnu sem komu í þeirra hlut. Þá hafa íslensk stjórnvöld gengist undir það að semja um breytingar á mörkum þeirra svæða sem EB má veiða innan nái skip þeirra ekki sínum hlut af karfanum. Engar sambærilegar kvaðir, t.d. í formi annarra fisktegunda en loðnu, hvíla á EB. Þannig felst gagnkvæmnin í fiskveiðisamningnum ekki í jafngildum afla upp úr sjó. Þetta styrkir rök þeirra sem segja að Íslendingar fái í sinn hlut „pappírsfisk“ en EB raunverulegan fisk en þessi skoðun kemur m.a. fram í grein í Félagstíðindum SFR sem Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, skrifar. Kafli úr þessari grein er birtur í fskj. VII.


Fjármagns- og þjónustuviðskipti (36.–52. gr.).
    Með samningum um frjálst flæði fjármagns og þjónustu verða umtalsverðar breytingar á ýmsum sviðum íslensks samfélags, svo sem í bankamálum, tryggingarmálum, fjarskiptum, fjölmiðlun, samgöngumálum og síðast en ekki síst varðandi heimildir erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi og Íslendinga erlendis.
    Margar þessara breytinga eru í sjálfu sér óháðar samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og má í því sambandi nefna fjölmiðlun og fjarskipti. Þannig liggur það í eðli tímanna að mikið sjónvarpsefni mun flæða milli landa í gegnum gervihnetti eða kapalkerfi og erfitt verður að verjast því nema með jákvæðum hætti, þ.e. með því að efla innlenda kvikmynda- og dagskrárgerð og styðja við bakið á íslenskri menningarstarfsemi. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að skattleggja bókaútgáfu í landinu vekja þó engar sérstakar vonir um að á því sé nægilegur skilningur.
    Almennt er talið að þær leikreglur, sem EB hefur sett upp í fjarskiptum, muni gilda um alla Evrópu hvort sem ríki eru aðilar að EB eða ekki. Þetta breytir hins vegar ekki því að íslenskum stjórnvöldum er eftir sem áður heimilt að viðhalda óbreyttu rekstrarformi á RÚV og innheimta afnotagjöld með sama hætti og nú tíðkast. Vilji menn breyta þessu er það sjálfstæð pólitísk ákvörðun og óháð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Samkvæmt mati yfirmanna Pósts og síma hefur aðild að EES ekki heldur áhrif á einkarétt ríkisins til að starfrækja grunnfjarskiptakerfi landsins og talsímaþjónustu. Öðru máli gegni um ýmsa aðra fjarskipta- og virðisaukaþjónustu og er talið líklegt að opnað verði fyrir samkeppni í þeim greinum. Þá segja þeir að Pósti og síma hafi tekist að halda innanlandsgjöldum í lágmarki, m.a. á kostnað millilandasímtala, en vegna aukinnar samkeppni á alþjóðamarkaði óttast þeir um áframhaldandi möguleika til slíks. Í umsögn sinni leggja þeir áherslu á að Pósti og síma verði gert kleift að keppa við væntanlega samkeppnisaðila á jafnréttisgrundvelli en stofnunin verði „ekki skattlögð með þeim hætti sem nú er gert“.
    Samningurinn opnar þann möguleika að erlendar bankastofnanir, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög hasli sér völl á íslenskum markaði, ýmist með því að koma hér upp útibúum eða með því að kaupa sig inn í íslenska banka og fyrirtæki. Á ákveðnum sviðum náðist þó fram aðlögun til 1. janúar 1995. Hefur því verið haldið fram að þetta gæti leitt til aukinnar samkeppni og þar af leiðandi lægri vaxta og lægri iðgjalda.
    Þessum breytingum á íslenskum fjármagns- og þjónustumarkaði fylgja vissulega ákveðnar hættur en þó kannski ekki þær sem mest hefur verið gert úr, þ.e. að erlendir aðilar eignist að stórum hluta íslensk fyrirtæki. Það er mun ríkari ástæða til að óttast fjárstreymi út úr landinu en inn í það. Þannig er t.d. hugsanlegt að erlendir bankar og verðbréfafyrirtæki reyni að fleyta rjómann ofan af og laða til sín stærstu viðskiptavinina, svo sem lífeyrissjóðina, en láti þjónustu við almenna viðskiptavini og smærri fjármagnseigendur sitja á hakanum. Við þessu þurfa íslenskir aðilar m.a. að bregðast með aukinni hagræðingu, sérhæfingu og samvinnu.
    Eins og fyrr er sagt nær frelsi útlendinga til fjárfestinga á Íslandi ekki til fyrirtækja á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Þetta á að tryggja að erlendir aðilar geti ekki náð yfirráðum yfir auðlindum hafsins eftir þeim leiðum. Bannið við fjárfestingu í fiskvinnslunni nær hins vegar einvörðungu til frumvinnslunnar, þ.e. að verja fiskinn skemmdum, en ekki til fullvinnslu hans í neytendaumbúðir. Í álitsgerð um EES-samninginn og fasteignir á Íslandi, sem Ólafur W. Stefánsson o.fl. sömdu að tilhlutan dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra, segir m.a. um þetta atriði: „Ýmis álitamál geta komið upp við skýringu á þessari undanþágu. Það er EFTA-dómstóllinn sem á lokaorð um það hversu langt þessi ákvæði ná.“ (Bls. 111.)
    Sams konar fjárfestingarfyrirvari náðist því miður ekki fram varðandi virkjun vatnsorku og jarðhita og má draga í efa að íslensk stjórnvöld hafi haldið nógu fast á þeim málum í samningaviðræðunum. Slíkur fyrirvari hefði óneitanlega skapað ákveðið öryggisnet hvort sem stjórnvöld hefðu síðar kosið að nýta hann til fulls eða ekki. Samningarnir breyta þó ekki því að Íslendingar geta eftir sem áður bundið virkjanaréttinn við opinbera aðila en verði orkufyrirtækin einkavædd öðlast allir einstaklingar og fyrirtæki á Evrópsku efnahagssvæði sama rétt til að eignast hlutdeild í þeim. Með réttinum til að fjárfesta í landi öðlast erlendir aðilar sama möguleika og Íslendingar til að eignast vatns- og jarðhitaréttindi. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði gefur því sérstakt tilefni til þess að tekið sé á því löngu tímabæra máli að gera þessar mikilvægu auðlindir okkar að þjóðareign rétt eins og fiskinn í sjónum. Frumvörp í þá veru hafa verið boðuð en ekki enn litið dagsins ljós og er því ástæða til gjalda varhug við stöðunni í þessum málum.

Fjárfesting í landi.
    Eins og málum er háttað í EB í dag fylgir frelsinu til fjármagnsflutninga ekki sjálfkrafa réttur til að fjárfesta í fasteignum og landi hvar sem er á svæðinu. Sá réttur fylgir aftur á móti óhjákvæmilega atvinnu- og búseturétti einstaklinga og stofnsetningarrétti fyrirtækja. Þetta þýðir með öðrum orðum að vilji erlendir aðilar kaupa jarðnæði hér á landi, t.d. til að setja upp ferðaþjónustu eða hefja landbúnað, er þeim það heimilt á sömu forsendum og Íslendingum eftir 1. janúar 1996 en Íslendingar fengu aðlögun til þess tíma vegna fjárfestinga í fasteignum.
    Eignarrétti útlendinga á jarðnæði fylgir þá sami réttur til hagnýtingar og ráðstöfunar á hlunnindum, svo sem veiðiréttindum, vatnsréttindum og jarðhita, og innlendir aðilar njóta, eins og áður hefur komið fram. Rétt til kaupa á sumarbústað eða landi til frístundaiðkunar verður hægt að binda við tiltekna búsetu á Íslandi og má í því sambandi vísa til þeirra reglna sem gilda í Danmörku og m.a. er getið um á bls. 13 og 47 í álitsgerð Ólafs W. Stefánssonar o.fl.
    Ljóst er að réttur erlendra aðila til jarðakaupa hér á landi veldur mörgum Íslendingum miklum áhyggjum. Þær áhyggjur sitja djúpt í þjóðarsálinni sem eðlilegt er, enda hefur land alltaf verið ein af mikilvægustu auðlindum jarðar og eignarhald á landi verið rótgróið tákn um sjálfstæði einstaklinga og þjóða.
    Mánuðum saman hafa íslensk stjórnvöld talað um að hægt sé að setja skorður við eignaraðild útlendinga með sérstökum ákvæðum í jarða- og ábúðarlögum. Mikilvægt er að menn átti sig á þeim möguleikum áður en EES-samningurinn verður staðfestur en jafnframt er ástæða til að vara við því að svo langt verði gengið í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir eignaraðild útlendinga að það skerði verulega rétt Íslendinga sjálfra í eigin landi og þrengi alla möguleika til að eiga eðlileg viðskipti með fasteignir og jarðnæði. Það frumvarp til jarðalaga, sem nú liggur fyrir Alþingi, virðist ganga um of í þá átt.
    Þó að rétturinn til kaupa á fasteign eða landi sé ekki ótakmarkaður samkvæmt EES-samningnum er engu að síður rétt að benda á að réttarreglur EB eru í sífelldri þróun og viðleitnin gengur frekar í þá átt að rýmka heimildir en þrengja. Í Maastricht-samningnum er gengið enn lengra en áður í þá átt að aflétta öllum hömlum af frjálsum fjármagnsflutningum en í því sambandi verður líka að hafa í huga að samningurinn byggir á þeirri hugmynd að ríkisborgarar einstakra landa verði jafnframt „borgarar Evrópu“. Það er síðari tíma mál sem taka verður afstöðu til ef tilskipanir um aukið frjálsræði í fjármagnsflutningum koma til kasta sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Atvinnu- og búseturéttur (28.–35. gr.).
    Með EES-samningnum öðlast launafólk í aðildarríkjunum rétt til atvinnu hvar sem er á svæðinu og órjúfanlega tengdur honum er rétturinn til búsetu. Þetta mun hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á íslenskum vinnumarkaði sem hefur hingað til verið mjög erfiður innkomu fyrir alla aðra en Norðurlandabúa. Þessi opnun er þó án efa meiri í orði en á borði, enda sýnir reynsla aðildarríkja EB að lítil brögð eru að því að fólk flytji sig milli landa í atvinnuleit vegna fjölskyldutengsla og skuldbindinga í sínu heimalandi.
    Engu að síður verða íslensk stjórnvöld að búa sig undir það að hér setjist að fleiri erlendar fjölskyldur en hingað til og þeim verður að veita nauðsynlegan stuðning til að aðlagast íslensku samfélagi. Reynslan af þeim takmarkaða stuðningi sem útlendingar hér á landi njóta, t.d. börn og heimavinnandi eiginkonur erlendra manna, gefur ekki tilefni til bjartsýni hvað þetta varðar. Þetta er hins vegar sjálfstætt pólitískt úrlausnarefni og í sjálfu sér óháð EES-samningnum.
    Samningurinn, og þær tilskipanir sem honum tengjast og varða atvinnu- og búseturétt, felur í raun í sér réttarbót fyrir það launafólk sem flytur sig á milli landa. Þannig eiga áunnin félagsleg réttindi, svo sem réttur til atvinnuleysisbóta, lífeyrisgreiðslna, almannatrygginga og fæðingarorlofs, ekki að falla niður við flutninga þó að hinu sé ekki að leyna að talsverð skriffinnska gæti orðið því samfara að sækja sinn rétt. Þá eiga útlendingar hér á landi og Íslendingar erlendis rétt á nákvæmlega sömu þjónustu af hálfu samfélagsins og ríkisborgarar viðkomandi lands.
    Tvær hliðar eru hins vegar á þessum peningi og hin snýr að kaupi og kjörum og stöðu stéttarfélaga. Sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar nýir hópar bætast á vinnumarkað, sbr. konur á síðustu öld, eða aðrar breytingar verða á vinnumarkaði að það hafi áhrif á launakjör til lækkunar. Tilskipanir EES eiga að veita vörn gegn því að taxtakaup sé undirboðið, en vandinn, sem við er að etja á Íslandi, er hins vegar sérstakur að því leyti að launataxtar segja harla lítið um greidd laun og ná fyrst og fremst til kvenna og opinberra starfsmanna. Í ákveðnum greinum er það því í raun undirboð að taka laun samkvæmt töxtum. Frumvörp um vinnumarkaðsmál, sem félagsmálanefnd hefur afgreitt frá sér, eiga að veita nokkra vörn gegn þessu verði þau að lögum. Þess ber þó að geta að nefndir til að gæta launajafnréttis hafa hingað til reynst konum haldlitlar og er tæpast ástæða til að ætla að þær reynist útlendingum betur. Það sem ræður væntanlega úrslitum í þessu máli er styrkur og vilji verkalýðshreyfingarinnar til að knýja fram launataxta sem taka mið af greiddum launum.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið virðist ekki breyta þeim forgangsrétti til vinnu sem kjarasamningar tryggja félagsmönnum á félagssvæði tiltekinna verkalýðsfélaga. Hins vegar má segja að slíkur staðbundinn forgangur gangi gegn anda samningsins vegna þess að hann getur strangt til tekið verið veruleg hindrun í vegi útlendinga sem hingað koma til að leita sér að vinnu. Það má líka almennt draga í efa að hann fái staðist í nútímasamfélagi. Hitt skiptir mun meira máli fyrir stöðu verkalýðshreyfingarinnar að tryggja almennan forgang félaga í stéttarfélögum til vinnu, þ.e. tryggja félagsbundinn forgang þó að staðbundinn forgangur hverfi. Í því sambandi er mikilvægt að ekki verði hróflað við þeim skilningi á félagafrelsi sem ríkjandi hefur verið hér á landi um langt árabil. Í því getur falist mikilvæg vörn fyrir íslenskt launafólk á þeim breytingatímum sem nú eru fram undan og er því nauðsynlegt að koma í veg fyrir pólitískar tilraunir til að veikja hana.
    Á þetta er lögð áhersla hér þar sem kveðið er á um rétt fólks til þess að standa utan stéttarfélaga í hinni félagslegu áætlun EB. Það er hins vegar vert að hafa í huga að samkvæmt Maastricht-samkomulaginu er Bretland ekki bundið af þeirri áætlun, hvorki til góðs né ills, og því ríkir ekki einsleitni innan EB í þessum málum og þar af leiðandi er tæplega ástæða til að gera hana að heilögum bókstaf innan EES. Engu að síður er ástæða til að hafa í huga að almennt gegnir hin félagslega áætlun því þýðingarmikla hlutverki að koma ákveðnum böndum á þann óhefta markaðsbúskap sem fylgir innri markaði EB.
    Það gildir á sviði atvinnu- og búseturéttar eins og á fleiri sviðum að EB-rétturinn er í stöðugri þróun og á vettvangi EB fara nú fram umræður um nýja tilskipun um vinnu handan landamæra sem gæti haft í för með sér undirboð á launakjörum. ASÍ leggur mikla áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti neitunarvaldi komi tilskipunin, í sinni upprunalegu mynd, til kasta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Undir það sjónarmið er tekið.
    Mjög margir hafa látið í ljós áhyggjur vegna þeirrar opnunar á íslenskum vinnumarkaði sem fylgir EES-samningnum og óttast mikið aðstreymi fólks í atvinnuleit til landsins. Ekki er hægt að afskrifa þann ótta sem algerlega ástæðulausan en það er skoðun framsögumanns að í þessu máli, eins og varðandi fjármagnið, sé meiri ástæða til að hafa áhyggjur af útstreymi en innstreymi. Ef ekki er búið betur en gert hefur verið að félagsþjónustu, menntun, rannsóknum og nýsköpun í atvinnulífi er fyllilega raunhæft að óttast atgervisflótta úr landi. Viðbrögðin við því mega þó ekki vera þau að loka að sér heldur þarf gagngera uppstokkun á ýmsum sviðum íslensks samfélags.

Mál utan ramma fjórfrelsisins (66.–88. gr.).
    Utan ramma fjórfrelsisins falla málaflokkar eins og umhverfismál, menntamál, félagsmál, vinnuvernd, neytendamál og rannsóknir og þróun. Um þennan þátt EES-samningsins hefur einna minnst verið fjallað í utanríkismálanefnd enda er hann ekki mjög umdeildur. Því miður er íslenskur réttur í umhverfismálum, vinnuvernd og neytendamálum svo vanþróaður að talsverður ávinningur er af þeim tilskipunum EB sem teknar verða upp innan EES. Þessum umbótum gætu Íslendingar auðvitað sem best komið í kring upp á eigin spýtur óháð samningnum. Hitt er jafnvíst að samningurinn knýr okkur til aðgerða sem ella hefðu kannski dregist á langinn.
    Ef EES verður að veruleika þarf að setja mun ítarlegri lög og reglur á sviði neytendaverndar en nú tíðkast hér á landi, m.a. um hættulegar vörur, villandi auglýsingar, neytendalán og verðmerkingar. Í umhverfismálum verða Íslendingar að setja ítarlegri reglur en nú gilda, t.d. varðandi hreinsun skolps, verndun neysluvatns og varnir gegn loftmengun og annarri mengun. Þetta mun án efa hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir einhver sveitarfélög en á hinn bóginn er löngu tímabært að ganga þannig frá skolp-, sorp- og neysluvatnsmálum í landinu að viðunandi sé. Verði kostnaðurinn sem því er samhliða einhverjum sveitarfélögum ofviða verður ríkisvaldið einfaldlega að koma inn í myndina.
    Löggjöf hér á landi um heilbrigði og hollustuhætti á vinnustöðum er einnig af mjög skornum skammti. Um þann þátt samningsins segir í greinargerð frá miðstjórn ASÍ frá því í júní sl.: „EES-samningurinn skyldar aðilana til samvinnu um að bæta vinnuumhverfið. ASÍ telur slíkt mjög mikilvægt. Að þessu leyti er um nýjungar að ræða í alþjóðlegu samhengi. Það verður að nýta þessa samvinnumöguleika vel þannig að reglur og staðlar um vinnuumhverfi batni í Evrópu.“ Og síðar: „ASÍ telur mikilvægt að Íslendingar geta haldið uppi strangari reglum um vinnuumhverfi en gerist innan EB og bannað innflutning á vörum sem innihalda hættuleg efni, t.d. asbest.“
    Reglurnar um vinnuumhverfi eru með öðrum orðum lágmarksreglur, en það eru ákveðin teikn á lofti um að eftir 1995 verði reynt að samræma þær sem mest þannig að lágmarksreglur verði í raun hámarksreglur. Um þetta segir ASÍ: „Við álítum það mikilvægt að íslensk yfirvöld hafa tryggt sér rétt til þess að halda uppi og vinna að strangari kröfum eftir 1995 ef við teljum samvinnuna við önnur Evrópuríki ekki fullnægjandi.“
    Í tengslum við þetta er ástæða til að hafa í huga að það getur verið opið fyrir túlkun hvort reglur teljast til vinnuverndar eða tæknilegra viðskiptahindrana. Það sama á við í umhverfismálum og það kemur m.a. fram í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn undirritaðrar um þetta efni á fundi utanríkismálanefndar. Í bréfinu segir að það sé „nokkur fjöldi EB-reglna sem telja má til umhverfismála en eru í samningnum flokkaðar undir tæknilegar viðskiptahindranir. Meginreglan er sú að EFTA-ríkjunum leyfist ekki að viðhafa strangari kröfur varðandi framkvæmd þessara reglna enda mundi það geta haft áhrif á hið svonefnda fjórþætta frelsi. Þessum reglum er ætlað að samræma kröfur á samningssvæðinu og því gætu mismunandi kröfur verið túlkaðar sem viðskiptahindrun.“ Á lista yfir tilskipanir, sem snerta umhverfismál en falla undir reglur um frjálsa vöruflutninga, er m.a. að finna tilskipanir sem varða loftmengun, efni sem eyða ósonlaginu, varning sem inniheldur eiturefni eða hættuleg efni o.fl. Listinn er birtur í fskj. VIII.
    Í inngangi að EES-samningnum er lögð áhersla á það að samningsaðilar hafi einsett sér „að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða“. Þetta eru vissulega fögur orð en það verður að segjast eins og er að þess verður ekki vart að þau endurspeglist í einstökum greinum samningsins þar sem þeim er vikið til hliðar vegna þeirra viðskiptahagsmuna sem eru hreyfiafl samningsins. Engu að síður er full ástæða til að halda á lofti þeirri kröfu að samningsaðilar og stofnanir þeirra túlki samninginn með tilliti til þessara inngangsorða. Þau eru auðvitað í lög sett eins og annað í meginmáli samningsins.
    Menntamál eru almennt ekki á samningssviði EB, heldur eru þau mál hvers þjóðríkis fyrir sig. Bandalagið gengst engu að síður fyrir ýmsum samstarfsverkefnum á sviði menntamála og heldur uppi öflugu rannsókna- og þróunarstarfi. Íslendingar eru þegar aðilar að tveimur mikilvægum áætlunum sem byggja á nemendaskiptum, annars vegar COMETT-áætluninni um samvinnu háskóla, framhaldsskóla og atvinnulífs á sviði tækniþjálfunar og hins vegar ERASMUS-áætluninni um nemenda- og kennaraskipti. Það sem fyrst og fremst breytist með EES-samningnum er að Ísland, sem og önnur EFTA-ríki, mun geta haft áhrif á mótun samstarfsins og alla ákvarðanatöku en þarf ekki lengur að kaupa sig inn í einstök verkefni með sérstökum samningum við EB.
    Enginn vafi er á því að Íslendingar hafa hingað til fengið meira út úr aðildinni að áætlunum EB en þeir hafa lagt til þeirra. Kemur það líklega heim og saman við reynslu Íslendinga af öðrum alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Engu að síður kostar það bæði fé og vinnu að taka þátt í slíkum verkefnum og það lýsir ótrúlegri skammsýni íslenskra stjórnvalda að búa svo illa að menntakerfinu að það sé tæpast í stakk búið til að sinna því aukna alþjóðastarfi sem fylgir EES-samningnum. Þannig segir í greinargerð frá Háskóla Íslands dags. 8. september 1992: „[Dregið hefur verið] úr aðstoð við stúdenta og kennara sem eiga í samskiptum við erlenda skóla og tæpt er að okkur takist að sinna þeim skyldum sem við höfum tekið á okkur með samstarfssamningum við aðra háskóla. Svo gæti farið að skila þyrfti aftur styrkfé frá Evrópubandalagi þar sem mannafla skortir til að sinna umsóknum.“
    Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fylgir full aðild EFTA-ríkjanna að rammaáætlun EB á sviði rannsókna og þróunarverkefna. Íslendingar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki nýta sér þennan rétt fyrr en 1. janúar 1994 vegna ónógs undirbúnings. Þessi þáttur EES-samningsins gæti reynst Íslendingum mjög mikilvægur ef vel er á málum haldið. Eins og fram kemur í nýlegri skýrslu frá OECD hafa íslensk stjórnvöld haldið þróunarstarfi á sviði vísinda og tækni í fjársvelti og hjá stjórnendum fyrirtækja virðist lítill skilningur vera á mikilvægi fjárfestingar í slíku starfi. Á þetta án efa stóran þátt í þeim samdrætti sem orðið hefur í iðnaðarframleiðslu í landinu.
    Það sem mun ráða örlögum þjóða og fyrirtækja í framtíðinni er hvort þau hafa yfir að ráða öflugri tækni og vel menntuðu fólki. Ef Íslendingar ætla ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum verður að gera gangskör í því að efla hvers kyns rannsóknar- og þróunarstarfsemi á sviði verk- og hugvísinda. Aðildin að rammaáætlun EB gæti verið okkur lyftistöng á þeim sviðum ef íslensk stjórnvöld skynja sinn vitjunartíma og leggja það til hennar sem þarf.


STOFNANIR EES OG STJÓRNARSKRÁIN (89.–114. GR.)



Álitsgerðir lögfræðinga.
    Hinn svokallaði stofnanaþáttur EES-samningsins hlýtur að vega mjög þungt í allri umfjöllun um samninginn. Með stofnunum EES er samstarfi EFTA-ríkjanna og EB markaður formlegur rammi og af honum ræðst hvar og hvernig ákvarðanir eru teknar, eftirliti hagað og deilumál leyst. Slíkt er ævinlega vandmeðfarið vegna þess að um leið og þjóðríkin bindast samtökum um umfangsmikið samstarf skerða þau að vissu marki sjálfstæði sitt og svigrúm til athafna. Hjá þessu verður tæpast komist en það hefur engu að síður verið stefna íslenskra stjórnvalda fram að þessu að standa vörð um fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar og framselja ekki ríkisvald í alþjóðlegum samningum. Það er hins vegar ástæða til að draga í efa að við þetta hafi verið staðið þegar herstöðvarsamningurinn var gerður við Bandaríkjamenn árið 1952 og þeim fengin yfirráð yfir vörnum landsins og afmörkuðum landsvæðum á Íslandi.
    Þegar stofnanaþáttur EES-samningsins er skoðaður vaknar óneitanlega sú spurning hvort í honum felist eitthvert framsal á löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi eða dómsvaldi. Slíkt framsal kann að vera nauðsynlegt eða réttlætanlegt til að uppfylla markmið samningsins, en ef svo er verður að tryggja að það gangi ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Utanríkismálanefnd hefur farið mjög vel í gegnum þennan þátt málsins og fengið upp í hendurnar fimm lögfræðilegar álitsgerðir sem orðið hafa til hver með sínum hætti.
    Í fyrsta lagi skipaði utanríkisráðherra 14. apríl sl. fjóra nafntogaða lögfræðinga í nefnd sem, eins og segir í erindisbréfi nefndarinnar, er ætlað „að leggja mat á það hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt fylgisamningum, brjóti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög“. Með þessari nefndarskipan gekk ráðherra gegn þeirri hugmynd stjórnarandstöðunnar, sem þegar var komin fram í þingsályktunartillögu frá Hjörleifi Guttormssyni o.fl., að óvilhallir aðilar yrðu fengnir til að tilnefna fulltrúa í slíka nefnd.
    Lögfræðingarnir í nefnd utanríkisráðherra voru þeir Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G. Schram lagaprófessor, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. Fram hefur komið að a.m.k. tveir þeirra voru íslenskum stjórnvöldum til ráðuneytis meðan á samningagerðinni stóð og við frágang staðfestingarfrumvarpsins. Þetta hlýtur óneitanlega að veikja álitsgerð nefndarinnar þar sem lögfræðingarnir eru með vissum hætti að leggja mat á eigin verk.
    Í öðru lagi gekkst þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrir því að fá Guðmund Alfreðsson, doktor í þjóðarétti, á fund nefndarinnar í sumar sem leið og í kjölfar þess skilaði hann utanríkismálanefnd skriflegri álitsgerð 16. ágúst sl.
    Í þriðja lagi fékk nefndin álitsgerð frá Davíð Þór Björgvinssyni dósent sem byggist á erindi sem hann flutti á fundi á vegum Lögfræðingafélagsins og Ríkisútvarpsins 20. júní sl.
    Í fjórða lagi sendi Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í stjórnlagafræði, utanríkismálanefnd að eigin frumkvæði skriflega álitsgerð um stjórnarskrána og EES-samninginn 22. júlí sl.
    Í fimmta lagi sendi utanríkisráðherra nefndinni greinargerð frá Hannesi Hafstein, aðalsamningamanni Íslands, frá í september sl.
    Niðurstaða nefndar utanríkisráðherra er í stuttu máli sú að EES-samningurinn og fylgisamningar hans um eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn, sem og sú lagasetning sem af þessum samningum leiðir, brjóti ekki í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Davíð Þór Björgvinsson og Hannes Hafstein eru sömu skoðunar. Guðmundur Alfreðsson lýsti því aftur á móti strax í júní sem sinni skoðun að samningurinn stæðist ekki gagnvart stjórnarskránni og þessi skoðun er ítrekuð í álitsgerð hans. Í sinni álitsgerð lýsti Björn Þ. Guðmundsson því að hann teldi vafa leika á að framsal samkvæmt samningnum á framkvæmdar- og dómsvaldi stæðist gagnvart 2. gr. stjórnarskrárinnar. Á fundi með utanríkismálanefnd 6. nóvember sl. sagðist hann svo ekki lengur vera í vafa. Hann gæti nú fullyrt að stjórnarskráin heimilaði ekki það valdaframsal sem í samningnum fælist. Hún heimilaði almennt ekki framsal á ríkisvaldi sem gæti bundið íslenska borgara og fyrirtæki.

Löggjafarvald.
    Lögfræðingarnir nálgast stjórnarskrána á nokkuð mismunandi hátt og greinir m.a. á um hvernig túlka beri fullveldishugtakið í stjórnarskránni. Guðmundur Alfreðsson telur að í samningnum felist efnislegt framsal á löggjafarvaldi frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins og fjölþjóðlegra stofnana. Björn Þ. Guðmundsson hefur lýst svipaðri skoðun. Þessa skoðun byggja þeir á því að Alþingi geti aðeins samþykkt eða synjað EES-reglum þegar þær koma til kasta þess en ekki breytt þeim. Þá sé réttur þingmanna til frumkvæðis að nýjum lögum á samningssviði EES skertur. Guðmundur segir engu að síður í sinni álitsgerð að það sé „matsatriði og [geti] horft til beggja átta, hvort þetta fyrirkomulag brýtur í bága við stjórnarskrána“. (Bls. 5.)
    Lögfræðinganefnd utanríkisráðherra leggur aftur á móti áherslu á að þarna sé um hefðbundinn þjóðréttarsamning að ræða og þar af leiðandi fari setning nýrra EES-reglna ekki eftir reglum landsréttar hvers ríkis. Og í nefndarálitinu segir að þarna eigi „því ekki við stjórnarskrárákvæði um frumkvæðisrétt ríkisstjórnar eða þingmanna að lagafrumvörpum eða rétt til flutnings breytingartillagna. Um breytingar á ákvæðum samningsins fer formlega á sama hátt og um breytingar á öðrum þjóðréttarsamningum sem Ísland er aðili að.“ (Bls. 12.)
    Samkvæmt samningnum á samráð um nýjar eða breyttar EES-reglur fyrst og fremst að fara fram á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar milli framkvæmdastjórnar EB annars vegar og fulltrúa framkvæmdarvaldsins í aðildarríkjum EFTA hins vegar. Komist þessir aðilar að sameiginlegri niðurstöðu á Alþingi ekki nema tveggja kosta völ — samþykki eða synjun. Það er því mjög mikilvægt að Alþingi sé inni í samráðsferlinu allt frá upphafi og fái nákvæmlega sömu upplýsingar og ráðuneytin um hugmyndir sem uppi eru um breytta löggjöf á samningssviðinu. Þá er mikilvægt að ráðherrar og aðrir fulltrúar framkvæmdarvaldsins hafi fullt samráð við Alþingi þegar samið er um slíkar breytingar í sameiginlegu EES-nefndinni. Aðrar EFTA-þjóðir, svo sem Finnar og Austurríkismenn, ætla — að danskri fyrirmynd — að koma sér upp sérstakri þingnefnd til að fylgjast með framkvæmd EES-samningsins og er brýnt að Alþingi taki á þessum málum verði samningurinn að veruleika.
    Í bókun 35 með samningnum er kveðið á um að ef komi til „árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga [skuldbindi] EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum“. Samkvæmt orðanna hljóðan felur þetta í sér að EFTA-ríkin gangast inn á að binda í lög að þjóðréttarreglur EES-samningsins geti milliliðalaust vikið landslögum til hliðar. Sú skuldbinding, sem í þessu felst, hefur vafist fyrir þingmönnum annars staðar á Norðurlöndum enda er hún orðuð með mjög afgerandi hætti í staðfestingarfrumvörpum Svía og Norðmanna. Vísast í því sambandi til fskj. IX og X. Í íslenska frumvarpinu hefur hún aftur á móti fengið yfirbragð lögskýringarreglu og því hlýtur sú spurning að vakna hvort íslensk stjórnvöld séu með þeim hætti að sniðganga þjóðréttarskuldbindingu sem í raun þurfi stjórnarskrárbreytingu til að uppfylla.

Framkvæmdarvald og dómsvald.
    Það sem lögfræðingana greinir þó einna helst á um er hvort eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum sé fengið í hendur framkvæmdarvald og dómsvald sem með réttu ætti að vera í höndum íslenskra yfirvalda. Rökstuðningur nefndar utanríkisráðherra er ekki alveg afdráttarlaus hvað þetta varðar og þannig segir m.a. í álitsgerð hennar: „Við teljum að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli. Verður að telja að stjórnarskráin heimili framsal stjórnvalds sem er takmarkað með þessum hætti og varðar milliríkjaviðskipti.“ (Bls. 24 — leturbreyting undirritaðrar.) Þá fallast lögfræðingarnir á að færa megi rök gegn ýmsu í þeirra álitsgerð en segja jafnframt: „[Við] teljum þó að niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli að tilefni sé til að draga þá ályktun að samningarnir í heild leiði til þess að breyta þurfi stjórnarskránni, ef þeir taka gildi.“ (Bls. 29.) Um framkvæmd samkeppnisreglnanna segja þeir: „Einnig er hugsanlegt að í samkeppnismálum komi til meiri afskipta en hér er reiknað með. Við teljum ólíklegt að forsendur okkar að þessu leyti reynist rangar. Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé til að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til að gera þær.“ (Bls. 29.)
    Um þennan þátt segir Guðmundur Alfreðsson m.a.: „Eftirlitsstofnun EFTA yrði sjálfstæð stofnun og eftirlitsmennirnir, þar með talinn íslenski eftirlitsmaðurinn, mættu ekki taka við fyrirmælum frá ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Þarna yrði sem sagt um yfirþjóðlegan framkvæmdarvaldsaðila að ræða sem á að geta tekið ákvarðanir sem mundu verða bindandi á Íslandi og koma beint til fullnustu innan lands án þess að íslensk stjórnvöld eða dómstólar gætu sagt nokkuð um efnishliðina.“ (Bls. 9.) Og síðar segir hann: „Það er mín niðurstaða um framkvæmdarvaldsþátt EES-samningsins að yfirþjóðlegt framsal af þessu tagi fái ekki staðist skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar sem felur tilteknum íslenskum aðilum þetta vald.“ (Bls. 11.)
    Í niðurstöðum sínum segir Björn Þ. Guðmundsson m.a.: „Ef litið er á stjórnarskrárviljann einan, þ.e. það sem vakti fyrir Íslendingum þegar þeir settu sér stjórnarskrá, þykir mér alveg ljóst að hann teldi valdframsalið samkvæmt EES-samningnum óheimilt.“ (Bls. 15.) Um framsal á framkvæmdarvaldi segir hann: „Framsal framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnsýslurétti til utanaðkomandi aðila, þegar lögbær aðili er til í landinu á því sviði, er mjög sjaldgæft hér innan lands. Óþekkt er að slíkt framsal eigi sér stað til útlanda.“ (Bls. 16.) Og um framsal á dómsvaldi: „Bæði ég og fjórmenninganefndin hafa komist að þeirri niðurstöðu að með EES-samningnum sé dómsvald framselt að hluta til dómstóla EFTA og EB. Þegar af þeirri ástæðu hefði verið nauðsynlegt að víkja nánar að inntaki 60. gr. stjórnarskrárinnar vegna hinna bindandi réttaráhrifa ákvarðana þessara dómstóla.“
    Í málflutningi sínum hefur Björn Þ. Guðmundsson lagt áherslu á skyldleika íslensku, dönsku og norsku stjórnarskránna og bent á að vegna aukinna alþjóðatengsla hafi bæði Danir og Norðmenn bætt ákvæðum inn í sínar stjórnarskrár á sjöunda áratugnum sem heimili afmarkað framsal á fullveldi með samþykki aukins meiri hluta á þjóðþingunum. Um er að ræða 20. gr. dönsku stjórnarskrárinnar og 93. gr. þeirrar norsku. Björn bendir á að þessi breyting hafi ekki verið gerð á íslensku stjórnarskránni og meðan umræðan í Noregi og Danmörku snúist um það hversu mikið framsal á ríkisvaldi sé heimilt hljóti hún hér á landi að snúast um það hvort framsal sé yfirleitt heimilt. Það er hans skoðun að íslenska stjórnarskráin heimili það ekki.
    Í greinargerðinni með norska frumvarpinu til staðfestingar á EES-samningnum er sérstaklega fjallað um stjórnarskrárþátt málsins. Þar eru tekin af öll tvímæli um að meðhöndla verði samninginn á norska Stórþinginu í samræmi við 93. gr. stjórnarskrárinnar. Í greinargerðinni kemur fram að það sem ráði úrslitum séu ákvæði EES-samningsins um framkvæmd samkeppnisreglnanna og EFTA-samningurinn um eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn. Þessa skoðun er víða að finna í greinargerðinni en í fskj. XI er látið nægja að tilfæra tvö dæmi.
    Þau rök hafa heyrst í umræðunni um EES-samninginn að þegar einstök ríki, fyrirtæki og einstaklingar nýti sér rétt sem ávinnist fyrir tilstilli milliríkjasamninga sé ekki óeðlilegt að þeir gangist um leið undir einhvers konar milliríkjalög og dómstóla. Þessir aðilar séu að fá nýjan rétt og eigi þar af leiðandi að taka á sig nýjar skyldur. Þá séu slík lög og dómstólar mjög mikilvæg tæki til að hafa eftirlit með og koma lögum yfir fjölþjóðafyrirtæki sem hafi veruleg áhrif á öll viðskipti og tilheyri í raun engu einu þjóðríki öðru fremur. Undir þetta sjónarmið er hægt að taka en um leið er ástæða til að vara við því sjónarmiði að tilgangurinn helgi meðalið. Þeir sem fara með tiltekið þjóðfélagsvald, í þessu tilviki íslensk stjórnvöld, geta ekki leyft sér að taka afdrifaríkar ákvarðanir vitandi vits um að vafi leikur á því að þær standist gagnvart lögunum. Slíkum vafa verður að eyða sé þess nokkur kostur.
    Í ljósi þeirrar umræðu um stjórnarskrárþátt EES-samningsins, sem hér hefur verið rakin, telur undirrituð það orka verulega tvímælis, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að ákvæði EES-samningsins um eftirlit og dómstól standist gagnvart íslensku stjórnarskránni. Ríkisstjórnin og Alþingi hafa það á valdi sínu að eyða þeim vafa.


NIÐURSTÖÐUR



Staða Íslands í Evrópu.
    Eins og fram hefur komið hér á undan var það á sínum tíma skoðun Kvennalistans að leið tvíhliða viðræðna við EB hentaði íslenskum hagsmunum betur en leið Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi afstaða hefur ekki breyst eftir að niðurstaða fékkst í samningaviðræðurnar og tækifæri gafst til að vega og meta þá kosti og galla EES-samningsins sem hér hafa m.a. verið gerðir að umfjöllunarefni. Ítrekaði Kvennalistinn andstöðu sína við samninginn á landsfundi á Laugarvatni 30. október til 1. nóvember sl. og er ályktun fundarins birt í fskj. XII.
    Það sem vegur þyngst í gagnrýni kvennalistakvenna þegar EB og EES er annars vegar er sú hugmyndafræði neyslu og sóunar sem innri markaðurinn byggist á, skortur á lýðræði og samþjöppun valds í stofnunum þessara bandalaga og síðast en ekki síst það karlveldi sem þar ræður ríkjum. Kvennalistakonur greinir hins vegar á um hvernig við þessu eigi að bregðast.
    Sóunarhugmyndafræði, skortur á lýðræði og karlveldi einskorðast ekki við EB og EES, heldur er þarna um alþjóðleg fyrirbæri að ræða sem virða engin landamæri. Baráttan gegn þeim er því ekki bundin við þjóðríkin og það þarf öflugt alþjóðlegt samstarf til að vinda ofan af hugmyndum hins vestræna hagkerfis um endalausan vöxt og tryggja gæði mannlífs og náttúru til frambúðar.
    Afstaða til aðildarinnar að EES mótast auðvitað af fjölmörgum þáttum og vegna þess mikla valds sem endurspeglast í EB er mjög eðlilegt að einstaklingar og hópar, sem hafa lítil völd í samfélaginu, svo sem konur og láglaunafólk, óttist hvers kyns tengsl við bandalagið. Hið svokallaða fjórfrelsi nýtist þessu fólki heldur ekki með beinum hætti þar sem það ræður hvorki yfir fjármagni né fyrirtækjum. Þar við bætist svo að konur eru almennt ekki mikið á faraldsfæti á vinnumarkaði vegna stöðu sinnar í fjölskyldunni og þar af leiðandi hefur afnám landamæra á vinnumarkaði ekki sömu þýðingu fyrir þær og karla. Hins vegar er mjög hæpið að staða og kjör kvenna, láglaunafólks og síðast en ekki síst íslensku þjóðarinnar séu betur tryggð ef Ísland stendur algerlega utan við samrunaþróunina í Evrópu. Staðan er einfaldlega sú að samhliða tæknibyltingu og breyttum framleiðsluháttum hafa átt sér stað gagngerar breytingar á skipulagi efnahags- og markaðsmála í heiminum. Þessari þróun verður ekki snúið við og hún lætur engan ósnortinn. En það er hægt að hafa áhrif á hana og reyna að beina henni inn á brautir sem eru manneskjunni vinsamlegri.
    Á undanförnum öldum hefur þjóðarhugtakið tekið ýmsum breytingum. Hugmyndin um þjóðina, í þeirri landfræðilegu merkingu sem við leggjum í hugtakið í dag, sem uppsprettu valds og þjóðríkið sem allt að því náttúrulegt og eilíft fyrirbæri er ekki ýkja gömul. Þetta er í raun 19. aldar hugmynd sem endurspeglar þær hræringar sem þá áttu sér stað í Evrópu. Á þeim tíma var þjóðríkið víðast hvar hagkvæmt og eðlilegt skipulag. Það myndaði einn markað sem var sjálfum sér nógur um flesta hluti. Þjóðríkið sem fullvalda ríki gat haft yfirsýn og eftirlit með athöfnum manna innan sinna landamæra, sett um þær lög og fellt dóma. Í Evrópu hafði það líka því mikilvæga hlutverki að gegna að tryggja öryggi og velferð þegnanna. Er óhætt að fullyrða að þjóðríki, sem byggir á lýðræði og þar sem valdsvið stofnana er skýrt og vel afmarkað, hefur reynst öðrum stjórnkerfum betur og þar af leiðandi er full ástæða fyrir þjóðir að fara varlega í að takmarka fullveldi sitt.
    Það er engu að síður staðreynd að þær breytingar, sem orðið hafa á markaðskerfinu á þessari öld, hafa haft veruleg áhrif á þetta stjórnkerfi og ekkert ríki er lengur sjálfstætt á sama hátt og í upphafi aldarinnar. Sífellt meiri samskipti eiga sér stað þvert á öll landamæri og til að koma í veg fyrir að einstök ríki og fjölþjóðafyrirtæki deili og drottni í krafti yfirburðarstöðu hafa menn reynt að koma lögum yfir þessi samskipti. Eigi það að vera hægt verður varla hjá því komist að einstök ríki setji fullveldi sínu vissar skorður.
    Samrunaþróunin í Evrópu verður líka með eða án okkar. Við verðum hins vegar að svara því hvort við viljum og treystum okkur til að standa utan við hana. Ýmsir hafa haldið því fram að óvissan, sem fylgir EES, sé svo mikil að það sé ekki hægt að verja stuðning við samninginn. En hvaða vissa fylgir því að taka ekki þátt í EES? Í raun má segja að með því sé tekin meiri áhætta því þá erum við Íslendingar að vissu leyti ein á báti og verðum að þróa tengsl okkar við EB og aðildarríki þess upp á eigin spýtur. Staðan í heiminum er einfaldlega sú um þessar mundir að það gefst engin vissa fyrir neinu. Þjóð eins og Íslendingar, sem á jafnmikið undir milliríkjaviðskiptum og raun ber vitni, getur ekki ein og sér búið sér til skjól fyrir þeim vindum sem blása í alþjóðaviðskiptum né heldur viðhaft aðrar leikreglur en þar gilda.
    Það fer ekki hjá því að Íslendingar verða að aðlaga sig þeim reglum sem munu gilda á Evrópsku efnahagssvæði hvort sem þeir gerast þátttakendur í því eða ekki. 75% af vöruútflutningi okkar fara til ríkja EES og við þurfum að tryggja stöðu okkar á þeim markaði um leið og við leitum að nýjum. Með aðildinni að EES erum við að lýsa því yfir að hér á landi ríki sama viðskiptaumhverfi og annars staðar í Evrópu sem auðveldar einstaklingum og fyrirtækjum í öðrum ríkjum að eiga viðskipti við okkur.
    Eftir stendur sú staðreynd að valdið á samningssviði EES, þ.e. í öllu sem varðar fjórfrelsið, verður fjarlægara okkur en áður var. Við höfum ekki sömu tök og áður á því að sníða ný lög að okkar sérþörfum og hagsmunum. Vandamálið, sem við Íslendingar, ef við gerumst aðilar að EES, verðum að glíma við, rétt eins og aðrar þjóðir, er þá að reyna að draga úr reglugerðarveldi EB/EES á sviðum sem best eru komin í höndum þjóðríkja eða sveitarstjórna. Í þeirri baráttu getum við átt samleið með því fólki í Evrópu sem í sumar sem leið tók sér fimmta frelsið, þ.e. frelsið til að hafa áhrif á þróun EB.
    Á næstu missirum og árum ræðst hvernig innbyrðis tengslum Evrópuríkja verður háttað og þegar um þau mál verður samið verður samningaborðið EB og EES. Það skiptir verulegu máli að við sitjum við það borð ef við viljum tryggja stöðu okkar í Evrópu. Að því leytinu til snýst EES ekki aðeins um viðskipti heldur líka pólitík, enda verður þetta tvennt aldrei alveg aðskilið.
    Öll EFTA-ríkin nema Ísland hafa sótt um aðild að EB eða hyggjast gera það. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ef EB þróast ekki í átt til lýðræðislegra og lausbeislaðra bandalags fæst aðild að því tæpast samþykkt annars staðar á Norðurlöndum, að Danmörku meðtalinni. Þá verður tengslum þessara ríkja við EB ráðið á vettvangi EFTA og EES. Það skiptir máli að við séum aðilar að því samráði. Ef EB þróast aftur á móti þannig að almenningur í þessum ríkjum telji það viðunandi eigum við tveggja kosta völ. Um er að ræða tvíhliða samning um fjórfrelsið, að frátöldum stofnanaþætti samningsins um EES, eða að leggja inn umsókn um aðild og sjá hverju hún mundi skila. Í þessu sambandi verðum við að hafa í huga að EB er síbreytileg skepna og því erfitt að taka afstöðu til þess í eitt skipti fyrir öll nema maður sé í grundvallaratriðum á móti viðskiptabandalögum eða hvers konar framsali á fullveldi.
    Ýmsir telja sig sjá teikn á lofti um að EB sé deyjandi bandalag og það taki því ekki að tengjast einhverju sem sé dauðanum merkt. En hvernig mun EB deyja og dettur einhverjum í hug að þegar og ef það deyr verði allt eins og áður var? Og ef við Íslendingar tengdumst því ekki á nokkurn máta mundi okkar litli heimur standa kyrr meðan allt hitt fyrir utan væri í mikilli sveiflu? Meðan EB lifir mun það hafa áhrif á þróun mála hér eins og annars staðar í Evrópu, en ef það deyr mun dauði þess þá hafa áhrif hér sem annars staðar?

Lokaorð.
    Flestir munu sammála um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti milliríkjasamningur sem Íslendingar hafa gert. Hann mun hafa áhrif á flest svið íslensks samfélags og snerta daglegt líf alls almennings, enda fylgja honum talsverðar breytingar á íslenskri löggjöf. Þessi áhrif einskorðast þó ekki við aðild Íslands að EES, heldur mundi þeirra einnig gæta verulega þó að Ísland kysi að standa utan þess. Það er því mikilvægt að lesa ekki meira út úr samningnum en í honum felst og skilja á milli almennra þróunareinkenna og beinna afleiðinga af samningnum.
    Þetta hefur ekki síst þýðingu vegna þeirrar tilhneigingar, sem nú gætir bæði hér á landi og víðar í Evrópu, til að draga úr skattlagningu fyrirtækja á kostnað velferðarþjónustunnar. Það er ástæðulaust að gefa stjórnvöldum tækifæri til að þvo hendur sínar af vondum stjórnarathöfnum sem eru á þeirra eigin ábyrgð.
    Þó að áhrifin af samningnum séu vissulega víðtæk er það engu að síður skoðun undirritaðrar að mönnum hætti bæði til að gera of mikið úr kostum hans og göllum. Í honum felst hvorki það hjálpræði í efnahags- og atvinnumálum sem margir stjórnmálamenn virðast hafa beðið eftir árum saman, né heldur hefur hann í för með sér endalok sjálfstæðs og fullvalda ríkis á Íslandi. Hann er einfaldlega liður í þróun og það ræðst hér innan lands hvort okkur Íslendingum tekst að nýta hana samfélagi okkar til hagsbóta eða hvort við látum ógæfu okkar verða allt að vopni.
    Það er skoðun undirritaðrar að miðað við þá stöðu, sem nú er uppi í samskiptum þjóða á sviði efnahags- og stjórnmála, sé eðlilegt að Ísland reyni að tryggja hagsmuni sína með samningi um aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Það er svo aftur sjálfstætt álitaefni hvort náðst hafi besta mögulega samningsniðurstaða fyrir Íslendinga og hvort nógu vel hafi verið staðið að undirbúningi aðildarinnar að Evrópsku efnahagssvæði. Undirbúningurinn hefur mjög mikið að segja um hvernig til tekst í upphafi og það er ástæða til að óttast að bæði fyrirtæki og einstaklingar ætli sér að höndla gull og græna skóga á nýjum og stórum markaði í Evrópu. Vegna vanþekkingar hrasi þeir um gallana og nái ekki að nýta sér kostina.
    Umræða í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn hefði án efa skilað miklum fróðleik til þjóðarinnar og gert hana betur í stakk búna til að takast á við þá ögrun sem í samningnum felst. Hins vegar skorti stjórnarmeirihlutann á þingi því miður þá lýðræðisvitund sem þarf til að treysta þjóðinni til að velja sér framtíð.
    Þótt frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið sé nú afgreitt frá utanríkismálanefnd er enn margt óljóst. Enn er vafi á því að frumvarpið standist gagnvart stjórnarskrá og ekki er komið endanlegt lagaform á ýmsar tilskipanir EB sem munu hafa veruleg áhrif hér á landi. Við þessar aðstæður hljóta ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna að bera alla pólitíska ábyrgð á málinu. Treystir undirrituð sér ekki til að leggja til við þingið að það samþykki frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið þó að hún sé efnislega sammála aðildinni á þeim forsendum sem hér hafa verið reifaðar. Aðrar þingkonur Kvennalistans telja aftur á móti að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópska efnahagssvæðisins og munu því greiða atkvæði gegn samningnum. Þær munu gera grein fyrir afstöðu sinni í umræðum um málið.

Alþingi, 4. des. 1992.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.






Fylgiskjal I.

Úr skýrslu utanríkisráðherra um könnunarviðræður


EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið.



    Um samhljóða fylgiskjal vísast til þskj. 167, kafla III, bls. 970–972 í A-deild Alþt. 1989–90.




Fylgiskjal II.

Tillaga til þingsályktunar um samningaviðræður við


Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972.


Flm.: Eyjólfur Konráð Jónsson, Kristín Einarsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir.



    Um samhljóða fylgiskjal vísast til þskj. 233 bls. 1262 í A-deild Alþt. 1989–90.




Fylgiskjal III.

Úr skýrslu utanríkisráðherra um samningaviðræður


um Evrópska efnahagssvæðið.



    Um samhljóða fylgiskjal vísast til þskj. 39, kafla D (Markmið samningaviðræðna), bls. 726–727 í A-deild Alþt. 1990–91.




Fylgiskjal IV.

Úr skýrslu nefndar um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu.



    Um samhljóða fylgiskjal vísast til þskj. 1148, Álit Kristínar Einarsdóttur, bls. 4886–4890 í A-deild Alþt. 1989–90.




Fylgiskjal V.

Alþjóðaviðskipti og Evrópubandalagið.


(Úr stefnuskrá Samtaka um kvennalista árið 1991.)



    Íslendingar eiga meira undir utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir. Frjáls vöruviðskipti eru þjóðinni hagkvæm og mikilvægt að geta stundað tollfrjálsa verslun með útflutningsafurðir.
    Stór hluti gjaldeyristeknanna er fyrir sjávarafurðir. Sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar veldur því að afar óskynsamlegt er að binda þjóðina einum markaði eða efnahagssvæðum sem þrengt gætu svigrúm hennar í utanríkisviðskiptum. Þvert á móti þjónar það hagsmunum okkar að vera óháð út á við og leita sem bestra samskipta með beinum samningum við einstök ríki og markaðsheildir. Þannig styrkjum við stöðu okkar út á við og treystum efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Við höfum góða vöru að bjóða og ef rétt verður á málum haldið höfum við sterka samningsstöðu.
    Samskipti Íslands við Evrópubandalagið hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Þau eru þjóðinni mikilvæg og því þurfa Íslendingar að ná hagstæðum viðskiptasamningum við bandalagið. EB flytur iðnaðarvörur tollfrjálst til Íslands og það er eðlileg krafa að bandalagið veiti okkur tollfrjálsan aðgang að mörkuðum sínum með fiskafurðir. En þó viðskiptahagsmunir vegi þungt þá er hitt ekki síður mikilvægt að efla samskipti á öðrum sviðum, þar á meðal í rannsóknum, umhverfismálum og menningar- og menntamálum.
    Lönd innan Evrópubandalagsins gangast undir yfirþjóðlega stjórn sem er æðri þeirra landslögum. Með aðild að Evrópubandalaginu yrðu efnahagsleg og pólitísk áhrif Íslendinga hverfandi og möguleikar almennings til áhrifa á samfélag sitt yrðu takmarkaðir. Því þjónar aðild að Evrópubandalaginu ekki hagsmunum Íslendinga.
    Í Evrópu eru konur í meiri hluta þeirra sem gagnrýna Evrópubandalagið. Þær segja hagsmuni fjármagnsins ráða för en mannlegum þörfum vikið til hliðar. Evrópubandalagið í núverandi mynd er miðstýrt og ólýðræðislegt. Þar ráða embættismenn og stórfyrirtæki mestu en kjörnir fulltrúar og þjóðþing landanna eru áhrifalítil. Í miðstýrðum stjórnkerfum vegur hlutur kvenna enn minna en annars staðar og er mjög fátítt að konur gegni valdamiklum embættum innan EB. Á sama tíma og ríki Austur-Evrópu eru að hverfa frá miðstýringu og stórveldapólitík er verið að byggja upp nýjan miðstýringarrisa í Evrópu í þágu stórfyrirtækjanna.
    Aðildarríki Evrópubandalagsins hafa sameiginlega fiskveiðistefnu sem hvílir á þeim grunni að fiskimið þessara ríkja séu sameiginleg og aðgangur að þeim sé öllum heimill. Stjórn fiskveiðanna er því ekki lengur í höndum einstakra ríkja. Íslendingar eiga ásamt öðrum EFTA-ríkjum í samningaviðræðum við Evrópubandalagið um svonefnt Evrópskt efnahagssvæði (EES). Það sem um er að ræða er nokkurs konar aukaaðild að Evrópubandalaginu sem felur í sér aukið frelsi í viðskiptum án þess að mikilvægustu hagsmunir þjóðarinnar séu tryggðir en þeir eru yfirráð yfir auðlindum okkar. Farsælla væri að leita beinna tvíhliða samninga við Evrópubandalagið.
    Við leggjum áherslu á gott samstarf við aðrar þjóðir um leið og við viljum tryggja efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Aðeins þannig getum við nýtt þá miklu möguleika sem land okkar býr yfir.




Fylgiskjal VI.


Ályktun á landsfundi Kvennalistans 1991.


    Landsfundur Kvennalistans, haldinn á Seltjarnarnesi 15.–17. nóvember 1991, samþykkir eftirfarandi ályktun:
    Nú er komið að lokaþætti samninga EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði (EES). Samningamenn hafa komist að niðurstöðu en þjóðþing landanna, þar á meðal Alþingi, eiga alveg eftir að fjalla um málið, samþykkja samninginn eða hafna honum.
    Áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur á Alþingi þarf að liggja fyrir hvaða breytingar þarf að gera á gildandi lögum til að fullnægja ákvæðum samningsins ef hann verður samþykktur. Einnig er nauðsynlegt að þjóðin fái tækifæri til að láta álit sitt í ljós í almennri atkvæðagreiðslu í kjölfar víðtækrar fræðslu á því hvað það hefur í för með sér að Ísland gerist aðili að EES.
    Aðild að EES felur í sér að allir þegnar Vestur-Evrópu fá óskoraðan rétt til jafns við okkur til atvinnu og að setja hér á fót og kaupa fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífs, nema hvað reyna á að halda fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða utan við seilingu þeirra.
    Auðlindir landsmanna, aðrar en þær sem er að finna í hafinu, eru á þessu veisluborði fjármagnsins. Þetta á m.a. við um landið sjálft og hlunnindi þess og jafnvel orkulindirnar gætu áður en langt um líður fallið undir fjórfrelsið svonefnda.
    Íslendingar þyrftu að gera lög og reglur sem varða innri markað Evrópubandalagsins að sínum, jafnframt því sem þróun löggjafar á þessu sviði færi úr höndum Íslendinga þar sem EFTA-ríkin verða nauðug viljug að taka við nýmælum frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.
    Eitt það alvarlegasta við ráðgerðan samning er það mikla afsal sjálfsákvörðunarréttar sem í honum felst. Verði hann samþykktur færum við dómsvald á mikilvægum sviðum til fjölþjóðlegs dómstóls, framkvæmdarvaldið á samningssviðinu fer til yfirþjóðlegs aðila og með yfirtöku á nær tveimur þriðju hlutum af lögum og reglum EB væri þrengt með afdrifaríkum hætti að sjálfu löggjafarvaldinu.
    Með því að gerast aðilar að EES vaxa stórum líkurnar á að Ísland gerist aðili að sjálfu Evrópubandalaginu áður en langt um líður. Miklar líkur eru á að flestar EFTA-þjóðir gangi í EB fyrir aldamót. Nú er reynt að hræða almenning til fylgis við aðild að EES með fullyrðingum um að þjóðin einangrist ella. Sömu rök munu fyrr en seinna verða höfð uppi til að rökstyðja aðild Íslands að EB eftir því sem þeim EFTA-ríkjum fjölgar sem sækja um aðild að bandalaginu.
    Íslendingar hafa mikla möguleika sem sjálfstæð og fullvalda þjóð ef rétt er á málum haldið. Við eigum verðmætar auðlindir í hafinu umhverfis landið. Við höfum ekki verið í neinum vandræðum hingað til að selja fiskinn okkar og það er ekkert sem bendir til annars en að eftirspurn vaxi í framtíðinni. Evrópumarkaðurinn verður okkur mikilvægur áfram og við þurfum ekki að gerast aðilar að EES eða EB til að geta selt fisk inn á markaði EB.
    Í þessu máli megum við ekki hugsa í árum eða láta hugmyndir um skammtímaávinninga ráða niðurstöðu. Við eigum að setja okkur í spor þeirra Íslendinga sem unnu að því á síðustu öld að endurheimta sjálfsstjórn í landinu eftir aldalanga áþján. Í máli sem varða grundvallaratriði í stöðu þjóðanna um langa framtíð má ekki rasa um ráð fram. Það hefur því miður verið gert en ekki er um seinan að spyrna við fótum og reyna að ná áttum.




Fylgiskjal VII.


Jakob Jakobsson:

Fiskveiðiheimildir.


(Úr Félagstíðindum SFR, 5. tbl., 34. árg., maí 1992.

)

    Aðalatriði þessa máls er e.t.v. það að á svæðum milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen er aðeins einn veiðanlegur loðnustofn. Þessi loðna kemur venjulega að suður- og vesturströnd Íslands og hrygnir þar í mars eða byrjun apríl. Eftir hrygninguna klekjast seiðin út og berast með straumi vestur og norður fyrir land og eru að langmestu leyti innan íslenskrar lögsögu fyrsta ár sitt. Á öðru ári dreifist loðnan yfir stærra svæði og er nokkur hluti hennar þá oft innan grænlenskrar lögsögu. Á þriðja aldursári fer loðnan að verða kynþroska og veiðanleg. Þá kemur stundum fyrir, eins og t.d. á níunda áratugnum, að nokkur hluti þessa aldursflokks gekk alla leið norður undir Jan Mayen um hásumarið en sneri til Íslands aftur þegar leið á haustið og hélt svo austur með Norðurlandi og suður fyrir land þriggja ára gömul þar sem hún hrygnir og drepst að lokinni hrygningu. Um 30% hvers árgangs verður þó ekki kynþroska fyrr en fjögurra ára og dvelur því ári lengur á uppeldisstöðvunum milli Íslands og Grænlands en hér hefur verið lýst að framan. Aðalatriði þess sem ég er að reyna að koma hér til skila er sú staðreynd að veiðiheimildir þær sem Grænlendingar selja Evrópubandalaginu eru engin viðbót við þá loðnu sem er á Íslands-, Grænlands- og Jan Mayen-svæðinu. Þetta er hluti af því sem við viljum kalla íslenska loðnustofninn.
    Athugum nú hvernig veiðarnar hafa gengið á undanförum vertíðum. Á meðfylgjandi töflu sést að veiðar Íslendinga eru alltaf langmestar og oftast á bilinu 1 / 2 –1 milljón tonna á ári. Næstar koma veiðar Norðmanna sem hafa verið allt upp í 240 þús. tonna vertíðina 1985–1986. Þá hafa Færeyingar veitt allt upp í 97 þús. tonn fyrir tveimur árum en oftast hafa þeir veitt 20–60 þús. tonn á ári. Þá koma veiðar annarra þjóða, þ.e. Evrópubandalagsins. Á töflunni sést að vertíðina 1980–1981 veiddu þeir 17 þús. tonn, 1981–1982 21 þús. tonn og á tímabilinu 1984–1987 veiddu þeir 5–16 þús. tonn á ári. Undanfarnar fimm vertíðir hafa þeir ekkert veitt, þ.e. Evrópubandalagið hefur ekki nýtt sér þær veiðiheimildir sem það hefur keypt af Grænlendingum. Þetta er engin tilviljun vegna þess að fullorðin, veiðanleg loðna finnst sjaldan nema blönduð smáloðnu í grænlenskri lögsögu. Sá litli afli sem skip Evrópubandalagsins náðu fyrr á árum fékkst raunar á umdeildu svæði milli Austur-Grænlands og Jan Mayen. Til þess að geta nýtt sér veiðiheimildir Grænlendinga nokkrar undanfarnar vertíðir hefði Evrópubandalagið þurft að fá heimild til að veiða þann kvóta í íslenskri lögsögu.

Skipting loðnuaflans á vertíðunum frá


1976 er sumarveiðar hófust (þús. tonn).



Vertíð

Ísland

Noregur

Færeyjar

Aðrir

Samtals



1976–77      664
*24
688
1977–78      728
*36
764
1978–79      1019
154 22
1195
1979–80      834
124 22
980
1980–81      523
119 24 17
683
1981–82      498
91 16 21
626
1982–83     

1983–84      573
573
1984–85      774
104 10 9
897
1985–86      987
243 66 16
1312
1986–87      1053
210 65 5
1333
1987–88      912
139 65
1116
1988–89      920
68 49
1037
1989–90      666
115 97
808
1990–91      286
22 6
314
1991–92      635
47
682

* Við suðurströndina á vetrarvertíð.

    Athugum nú hvaða áhrif það hefur á veiðar Íslendinga að Evrópubandalagið hefur ekki nýtt sér þær veiðiheimildir sem það hefur keypt af Grænlendingum. Endanlegur kvóti Íslendinga er venjulega byggður á mælingum á loðnustofninum sem fram fara í janúar- eða febrúarmánuði eftir að loðnan er gengin austur fyrir land. Ef einhver þjóð nýtir ekki sínar veiðiheimildir fyrr á vertíðinni gefur það auga leið að Hafrannsóknastofnun mælir loðnustofninn því stærri sem óveiddum veiðiheimildum nemur. Þessi viðbót rennur beint inn í endanlegan kvóta Íslendinga, enda segir í þeim samningi sem gilt hefur sl. þrjú ár milli Íslands, Noregs og Grænlands að Íslendingar skuli leitast við að notfæra sér þær veiðiheimildir sem ekki hafa verið nýttar fyrr á veiðitímanum. Það er af þessum sökum að 30.000 tonnin, sem Evrópubandalagið kaupir af Grænlendingum og hefur ekki nýtt sér en ætlar nú að framselja Íslendingum, eru engin viðbót við okkar veiðiheimildir miðað við það sem skeð hefur á undanförnum fimm vertíðum. Það skal þó fúslega tekið fram að veiðiheimildir við Grænland gætu hugsanlega verið til bóta ef útbreiðsla og göngur loðnunnar breyttust frá því sem verið hefur undanfarin 10–15 ár.




Fylgiskjal VIII.



Úr skýrslu Eiðs Guðnasonar umhverfisráðherra um


lagasetningu vegna samnings um Evrópska


efnahagssvæðið og áhrif hans á umhverfismál.



    Um samhljóða fylgiskjal vísast til þskj. 1023, kafla G, bls. 5992–5993 í A-deild Alþt. 1991–92.




Fylgiskjal IX.

Úr þýðingu á norsku stjórnarfrumvarpi um


framkvæmd á meginhluta samnings um Evrópska


efnahagssvæðið (EES) í norskum rétti.



2. gr.


    Ákvæði í lögum, sem þjóna þeim tilgangi að fullnægja skuldbindingum Noregs samkvæmt samningnum, skulu við ágreining ganga fyrir öðrum ákvæðum sem segja fyrir um sömu atriði. Samsvarandi gildir ef reglugerðir, sem þjóna þeim tilgangi að fullnægja skuldbindingum Noregs samkvæmt samningnum, ganga í berhögg við aðrar reglugerðir eða stangast á við síðari lög.

3. gr.


    1. og 2. gr. eru ekki því til fyrirstöðu að öðrum lögum og reglugerðum verði beitt að því leyti sem sérstakar bráðabirgðareglur eða aðrar sérlausnir í samningnum að öðru leyti gefa tilefni til þess.

4. gr.


    Ákvarðanir um fjárskuldbindingar eins og getið er í 110. gr. samningsins, sem stofnanir Evrópubandalagsins beina til fyrirtækja í Noregi, skulu ekki vera aðfararhæfar í Noregi.

5. gr.


    Án hindrunar vegna lögboðinnar þagnarskyldu geta norsk stjórnvöld veitt eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum þær upplýsingar sem eftirlitsstofnunin og dómstóllinn geta krafist samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið og samningi EFTA-ríkjanna um að koma á fót eftirlitsstofnun og dómstól.

6. gr.


    Lög þessi ná ekki til Svalbarða.

7. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Noreg varðar.




Fylgiskjal X.

Úr þýðingu á sænsku stjórnarfrumvarpi


um Evrópska efnahagssvæðið.



5. gr.


    Fyrirmælum í lögum þessum eða í öðrum lögum, sem gefin eru út til þess að standa við skuldbindingar Svíþjóðar samkvæmt EES-samningnum, skal beita hvað svo sem að öðru leyti er kveðið á um í lögum. Samsvarandi gildir um ákvæði í öðrum réttarreglum en lögum.




Fylgiskjal XI.


Þýddir kaflar úr greinargerð með norska stjórnarfrumvarpinu


til staðfestingar á EES-samningnum.



Úr kafla 8.10.1.
    Niðurstaða þessarar umfjöllunar er sú að Stórþingið verður að veita heimild til staðfestingar á EES-samningnum og EFTA-samningnum um eftirlitsstofnunina og dómstólinn samkvæmt málsmeðferð 93. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. með 3 / 4 hlutum greiddra atkvæða í atkvæðagreiðslu sem að minnsta kosti 2 / 3 hlutar þingmanna taka þátt í. Ástæðan fyrir því er skipulagið við framkvæmd samkeppnisreglnanna í EES-samningnum og í EFTA-samningnum um eftirlitsstofnunina og dómstólinn. Að öðru leyti eru ekki í EES-samningnum eða áðurnefndum EFTA-samningi atriði sem gera það nauðsynlegt að beita 93. gr. Það er fyrst og fremst EFTA-samningurinn um eftirlitsstofnunina og dómstóllinn sem veldur því að beita þarf 93. gr., sjá sérstaklega 19. gr., og bókun 4 í þeim samningi. Gagnvart sjálfum EES-samningnum kemur 93. gr. aðeins inn í sambandi við þær reglur sem gera ráð fyrir að eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn hafi vald til þess að taka ákvarðanir sem taka beint gildi í Noregi. Hér er sérstaklega vísað til 110. gr. EES-samningsins og til bókunar 21 í samningnum.
Úr kafla 8.10.7.3.3.
    Umsögn lagadeildar dómsmálaráðuneytisins í þskj. 3 (1961–62), sem er ítrekuð í kafla 8.10.7.3.2, hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera allmikilvæg rök fyrir því að álíta nauðsynlegt að beita 93. gr. stjórnarskrárinnar þegar Stórþingið á að veita heimild til að gera EES-samninginn og EFTA-samninginn um eftirlitsstofnunina og dómstólinn. Umsögn lagadeildarinnar átti, eins og kemur fram í áðurnefndum kafla, þátt í að mynda grundvöllinn að mati Stórþingsins á því hvort þörf væri á nýrri 93. gr. í stjórnarskránni.
    Skilyrðislaust afgerandi í sjálfu sér getur þetta samt ekki verið. En ríkisstjórnin getur ekki séð það öðruvísi, einnig eins og staðan er í dag, en að lagadeildin bendi á mikilvægt atriði í sambandi við 93. gr. stjórnarskrárinnar þegar tekið er fram að framkvæmdaskipulagið vegna samkeppnisreglnanna í EB feli í sér einhliða afsal á valdi af hálfu norskra ríkisstofnana til handa alþjóðastofnun en ekki gagnkvæmt skipulag lögsagnar milli hliðstæðra ríkja.
    Það getur ekki ráðið úrslitum sem gagnrök í þessu sambandi að þeir málaflokkar, sem héðan af á að fjalla um á alþjóðavettvangi, eru að litlu leyti fallnir til umfjöllunar hjá þjóðinni og hefur í framkvæmd e.t.v. í litlum mæli verið fjallað um þá af verðlags- og samkeppnisstofnunum þjóðarinnar. Tilgangurinn með 93. gr. stjórnarskrárinnar hlýtur einmitt að vera sá að opna fyrir alþjóðasamstarf á þeim sviðum sem hinu hefðbundna þjóðarríki er ekki gerlegt að meðhöndla á áhrifaríkan hátt.




Fylgiskjal XII.

Ályktun landsfundar Kvennalistans 1992 um afstöðuna til EES.


    Innan Kvennalistans hefur frá upphafi verið sívakandi umræða um stöðu Íslands í heimi þjóðanna. Við kvennalistakonur hljótum að spyrja hvaða þróun verði líklegust til að bæta stöðu kvenna, hvernig lýðræði verði best tryggt, hvaða leiðir eigi að feta og hvers konar samfélagsþróun muni stuðla að jafnvægi manns og náttúru. Það er ljóst að þessum spurningum og öðrum svara konur innan Kvennalistans á fleiri en einn veg þótt endanlegt markmið sé hið sama, að bæta stöðu kvenna.
    Á síðustu missirum hafa margar spurningar vaknað um samstarf við þjóðir Evrópu og þá ekki síst sú spurning hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið á tímum mikilla breytinga. Umræður hafa leitt í ljós að innan Kvennalistans ríkir ekki einhugur um það með hvaða hætti staða Íslands verði best tryggð miðað við þá kosti sem nú eru uppi. Í stefnuskrá Kvennalistans er ítrekuð nauðsyn þess fyrir kvenfrelsisafl að hlusta eftir mismunandi röddum kvenna og taka mið af fjölbreytileika þeirra í allri stefnumörkun. Landsfundur Kvennalistans viðurkennir að skoðanir varðandi afstöðu samtakanna til EES og EB eru skiptar. Landsfundur Kvennalistans telur þau skoðanaskipti sem orðið hafa ekki gefa tilefni til að breyta yfirlýstri stefnu varðandi aðildina að EES og EB.
    Kvennalistakonur tóku þá afstöðu fyrir síðustu kosningar að þær vildu móta framtíð Íslendinga utan hins Evrópska efnahagssvæðis og Evrópubandalagsins. Landsfundur Kvennalistans 1992 áréttar þá yfirlýstu stefnu samtakanna. Landsfundurinn minnir á að ákvarðanir hans eru stefnumarkandi fyrir starfsemi hans innan þings sem utan en leggur áherslu á að samtökin gera ekki þá kröfu til Kvennalistakvenna að þær greiði atkvæði gegn eigin sannfæringu.
    Kvennalistinn telur eðlilegt og skylt að leggja samninginn um EES í dóm þjóðarinnar til synjunar eða samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samningurinn um EES er eitt stærsta utanríkismál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum og það er réttur þjóðarinnar að velja sér framíð og örlög. Landsfundur Kvennalistans 1992 skorar á alþingismenn að samþykkja framkomna þingsályktunartillögu um að bera aðildina að EES undir þjóðaratkvæði. Þá leggur landsfundurinn áherslu á að Alþingi eyði öllum vafa um að samningurinn standist gagnvart íslensku stjórnarskránni.