Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 83 . mál.


311. Nefndarálit



um frv. til l. um almannatryggingar.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um félagslega aðstoð, 84. mál, en þessum tveimur frumvörpum er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 67/1971, um almannatryggingar. Nefndin fékk á sinn fund við yfirferð frumvarpanna Dögg Pálsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá komu á fund nefndarinnar frá Öryrkjabandalagi Íslands Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir. Nefndin hefur einnig stuðst við umsagnir margra aðila um frumvörpin, m.a. frá 116. þingi, og aflað ýmissa gagna við umfjöllun um málið.
    Meiri hluti nefndarinnar fellst á að reglur um almannatryggingar annars vegar og félagslega aðstoð hins vegar verði aðgreindar og telur það óhjákvæmilegt í ljósi fyrirsjáanlegrar gildistöku EES-samningsins. Í kjölfar gildistökunnar verður skylt að flytja almannatryggingabætur á milli aðildarríkja EES-samningsins í samræmi við þann rétt sem menn hafa áunnið sér í löndunum. Markmið með framangreindri aðgreiningu er því að tryggja að í ákvæðum laga um almannatryggingar sé ekki kveðið á um bætur sem í raun eru félagslegs eðlis. Samkvæmt reglum EB á sviði almannatrygginga eru skilyrði þess að bætur teljist til félagslegrar aðstoðar en ekki almannatrygginga þríþætt, að einstaklingsbundið mat ráði því hvort viðkomandi fái bætur, að tekjustaða hafi áhrif á bótarétt og að fjármögnun bótanna sé aðskilin frá fjármögnun bóta almannatrygginga.
    Meiri hlutinn mælir með samþykki þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Jafnframt flytur minni hlutinn tillögur um breytingar á sérstöku þingskjali en styður þó þær breytingartillögur sem meiri hlutinn flytur.
    Efnisbreytingar við frumvarpið eru eftirfarandi:
    Lagt er til að frestur, sem kveðið er á um í 7. gr. til að skjóta ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um almannatryggingar eða laga um félagslega aðstoð, verði þrír mánuðir en ekki fjórir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Eðlilegt þykir að gæta hér samræmis við meginreglu 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem öðlast gildi 1. janúar 1994.
    Lagt er til að biðtími eftir örorkubótum á grundvelli 12. gr. verði styttur úr einu ári í sex mánuði hafi menn haft óskerta starfsorku þegar þeir tóku hér lögheimili. Er það í samræmi við breytingu sem lögð er til á 32. gr. Breytingartillögurnar eru byggðar á sanngirnissjónarmiðum.
    Lögð er til sú breyting á 16. gr. að sama regla gildi um bótaþega fæðingardagpeninga og gildir um þá sem njóta fæðingarstyrks á grundvelli 15. gr., þ.e. í báðum tilvikum sé gert að skilyrði að viðkomandi hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna sem bótarétturinn byggist á.
    Leiðrétt er röng lágmarksfjárhæð dánarbóta í 30. gr.
    Í a-lið er lagt til að orðalagi 32. gr. verði breytt lítillega og framsetning skýrð. Þá er lagt er til að biðtími verði styttur í sex mánuði en eins árs biðtími, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er talinn of langur. Nefna má hér t.d. tilvik þar sem Íslendingur, sem lengi hefur verið búsettur erlendis, ákveður að flytja á ný til landsins. Sex mánaða biðtími er hins vegar talinn nægilega langur til að girða fyrir hugsanlega misnotkun.
                  Í b-lið er tilvísun 4. mgr. 32. gr. breytt til samræmis við þá breytingu sem lögð er til við 1. mgr. 32. gr.
    Lagt er til að í 34. gr. sé einnig vísað til ákvæða sérlaga. Með því er vakin athygli á að í sérlögum geta verið ákvæði sem hér skipta máli. Í dag má benda á lög nr. 82/1989, um málefni aldraðra.
    Lagt er til að greiðsla sjúkradagpeninga skv. 38. gr. verði miðuð við 16 ára aldur en ekki 17 ár. Ekki verður séð hvaða rök mæla með 17 ára aldursmörkum.
    Hér er lögð til breyting á 40. gr. til samræmis við reglur EES-samningsins á sviði         almannatrygginga, en óbreytt mun greinin ekki standast ákvæði samningsins.
    Í a-lið er lögð til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða að í stað þess að bætur til öryrkja falli með öllu niður á grundvelli 2. tölul. ákvæðisins skerðist bæturnar eftir almennum skerðingarreglum. Ekki verður séð að nein rök styðji að aðrar reglur gildi í þessu tilviki en almennt gilda um skerðingu vegna tekna.
                  Með breytingunni, sem lögð er til í b-lið, mun koma skýrar fram að tilvísunin eigi einungis við um 5. tölul. en ekki aðra töluliði ákvæðis til bráðabirgða.
    Auk þeirra efnislegu breytinga, sem raktar hafa verið, er lagt til að bætt verði í frumvarpið greinafyrirsögnum þar sem kveðið er á um mismunandi bótaflokka. Með því er stuðlað að skýrari framsetningu í frumvarpinu og um leið greiðari aðgangi að efni þess.
    Loks leggur nefndin áherslu á að 6. mgr. 29. gr. frumvarpsins verði framkvæmd með afturvirkum hætti, en sú grein fjallar um greiðslu örorkubóta enda þótt orkutap sé metið undir 10% ef orsökina má rekja til mistaka við meðferð á sjúkrastofnunum. Með því er átt við að greiðslur geti komið til vegna atvika sem orðið hafa eftir gildistöku laga nr. 74/1989, um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Alþingi, 2. des. 1993.



Gunnlaugur Stefánsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.