Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. –
1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 285 . mál.


362. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
3.1.    Til þess að stuðla sem best að framkvæmd mengunarvarna setur ráðherra mengunarvarnareglugerð eða reglugerðir að höfðu samráði við önnur ráðuneyti sem fara með einstaka málaflokka er snerta umhverfismál og í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og gilda þær fyrir allt landið, lofthelgi og landhelgi.
3.2.    Í mengunarvarnareglugerð skulu vera almenn ákvæði um:
               1.    Starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun þar sem m.a. skulu vera ákvæði um staðarval, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum og um rekstur og viðhald mengunarvarnaútbúnaðar.
               2.    Endurskoðun starfsleyfa vegna verulegra breytinga á atvinnurekstri eða vegna tækniþróunar.
               3.    Áhættumat fyrir nýjan og starfandi atvinnurekstur þar sem hætta er á stórslysum vegna aðferða og efna sem notuð eru við starfsemina og endurskoðun áhættumats, svo og upplýsingar sem ábyrgðaraðilum atvinnurekstrar er skylt að láta í té beri slys að höndum.
               4.    Eftirlit, skráningu og tilkynningarskyldu.
               5.    Úttekt á hugsanlegri mengunarhættu.
               6.    Meðferð vatns og sjávar í iðnaði þar sem m.a. skulu fram koma viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna.
               7.    Úrgangsefni, svo sem eyðingu sorps og annars úrgangs.
               8.    Frárennsli og skolp þar sem m.a. skulu koma fram reglur um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk.
               9.    Varnir gegn vatnsmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk og/eða gæðamarkmið fyrir vatn.
              10.    Varnir gegn loftmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði.
              11.    Hávaða og titring þar sem fram koma viðmiðunarreglur fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfi.
              12.    Varmamengun þar sem fram skulu koma reglur um takmörkun slíks.
              13.    Önnur sambærileg atriði.
                        Enn fremur skal setja ákvæði um:
              14.    Undanþáguheimildir og hvaða takmörkun þær skuli háðar, jafnframt viðurlög og málsmeðferð.
              15.    Valdsvið, skyldur og starfstilhögun heilbrigðisnefnda, heilbrigðisfulltrúa og Hollustuverndar ríkisins, svo og dagsektir.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið til þess að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í frumvarpinu eru tvær greinar. Í 1. gr. er lagt til að 1. og 2. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit verði breytt þannig að þær falli að efnisinnihaldi þeirra tilskipana sem EES-samningurinn inniheldur og varða mengunarmál og varnir gegn mengun. Eins og 3. gr. er nú upp byggð er orðalag greinarinnar í nokkrum tilfellum of takmarkað fyrir þá nýju þætti sem setja þarf í mengunarvarnareglugerð vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Í 2. gr. frumvarpsins er gildistökuákvæði.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju og hafa örfáar breytingar verið gerðar á því. Í fyrsta lagi er orðalagi 6. tölul. 2. mgr. breytt lítillega og í öðru lagi er nýjum tölulið, 9. tölul., bætt við sömu málsgrein.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Breyting sú sem lögð er til að gerð verði á 3. gr. er í samræmi við ítarlegri og fjölbreyttari mengunarvarnalöggjöf sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við 1. mgr. 3. gr. er lagt til að bætt verði við tilvísun til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, einkum í þeim tilgangi að styrkja grundvöll mengunarvarnareglugerðar með tilliti til þeirra tilskipana sem eru í XX. viðauka EES-samningsins og fjalla um umhverfismál.
    Lagt er til að nýjum tölulið verði bætt við 2. mgr. 3. gr. um endurskoðun starfsleyfa. Í nokkrum tilskipunum, sem eru í XX. viðauka EES-samningsins og fjalla um mengunarvarnir, eru ákvæði þess efnis að endurskoða skuli starfsleyfi fyrirtækja ef verulegar breytingar verða á starfsemi þeirra eða breytingar verða vegna tækniþróunar. Dæmi um þetta má finna í tilskipunum nr. 82/176/EBE, 83/513/EBE, 84/156/EBE, 84/491/EBE og 86/280/EBE.
     Einnig er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 2. mgr. 3. gr. um áhættumat vegna tilskipunar nr. 82/501/EBE, sbr. 87/216/EBE og 88/610/EBE. Tilskipunin fjallar um hættu á stórslysum í tengslum við tiltekna iðnaðarstarfsemi. Tilskipuninni fylgja viðaukar þar sem skilgreindar eru aðferðir og talin upp efni sem notuð eru við starfsemina og marka viðaukarnir gildissvið tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er enn fremur kveðið á um að rekstraraðilar iðnaðarstarfsemi, sem reglurnar gilda um, verði að gefa ítarlegar upplýsingar um starfsemina og skilgreina hættu á meiri háttar óhöppum með tilliti til framleiðsluaðferða, notkunar hættulegra efna og geymslu þeirra ásamt lýsingu á aðstæðum öllum. Ef slys ber að höndum er þeim sem ábyrgð bera á iðnaðarstarfsemi skylt að veita upplýsingar m.a. um aðstæður við slysið, tiltæk gögn svo að hægt sé að meta áhrif þess á menn og umhverfi, neyðarráðstafanir sem gripið er til og ráðstafanir sem eru fyrirhugaðar til þess að draga úr áhrifum slyssins til lengri eða skemmri tíma.
    Jafnframt er lagt til að hugtök verði samræmd með þeim hætti að í 7. tölul., sem verður 10. tölul., verði notað hugtakið viðmiðunarmörk í stað viðmiðunarreglna og enn fremur er bætt við 4. tölul., sem verður 6. tölul., ákvæðum um viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna í vatn.
     Loks er lagt til að bætt verði við 6. tölul., sem verður 8. tölul. sem fjallar um frárennsli og skolp, reglum um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk. Er breyting þessi vegna tilskipunar nr. 91/271/EBE um hreinsun skolps frá þéttbýli.
     Að lokum er lagt til að nýr töluliður, 9. tölul., bætist við varðandi viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir vatn. Er breyting þessi m.a. lögð til vegna tilskipunar nr. 76/464/EBE.
    Að öðru leyti er 3. gr. óbreytt nema hvað númer einstakra töluliða breytast í samræmi við framangreindar breytingar.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988.


    Í 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er tilgreint hvaða almenn ákvæði skuli setja í mengunarvarnareglugerð. Með frumvarpinu er fyrirhugað að breyta þessari grein laganna á þann veg að skylt verði að setja víðtækari ákvæði í reglugerðina sem rúmi tilskipanir EB um umhverfismál í XX. viðauka samningsins um EES. Gildandi reglugerð tekur ekki til allra sömu efnisatriða og gerir ekki jafn strangar kröfur og eru í viðkomandi tilskipunum EB. Verði frumvarpið að lögum munu breytingarnar, sem fyrirhugaðar eru í þessum efnum, þó ekki koma til framkvæmda fyrr en umhverfisráðherra setur nýja mengunarvarnareglugerð.
     Áhrifin af ákvæðum tilskipananna eru margþætt og ná til flestra aðila þjóðfélagsins, ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og almennings. Ef segja ætti fyrir um endanlegan nettókostnað við reglurnar með nokkurri vissu þyrfti að fara fram kostnaðar- og ábatagreining sem tæki til helstu afleiðinganna fyrir alla þessa aðila. Engin slík athugun hefur verið gerð hérlendis og raunar ekki heldur á vegum EB svo vitað sé, enda töluverðum vandkvæðum bundið að meta afleiðingarnar. Sem dæmi má taka bönn og viðmiðunarmörk um losun efna í vatn. Afar erfitt er að áætla áhrif slíkra reglna á heilsufar almennings og enn erfiðara að meta ábatann af auknu heilbrigði.
     Kostnaður fyrirtækja og annarra aðila, sem gert verður að hlíta reglunum, er mjög óviss þar sem hann myndast með óbeinum hætti innan fyrirtækjanna og er ekki sýnilegur í mynd tiltekinna rekstrargjalda eða gjalda fyrir umhverfisspjöll. Á þessu stigi eru ekki tök á að fjalla um kostnað einkaaðila vegna ónógra upplýsinga. Meira er vitað um kostnað opinberra aðila við að uppfylla og framfylgja reglunum, en þar veldur framkvæmdin þó miklu. Auka verður eftirlit og mælingar til þess að framfylgja reglunum, en sá kostnaður virðist að stórum hluta lenda á sveitarfélögunum. Ekki er talið að leggja þurfi í mikinn kostnað til að starfsemi ríkisstofnana uppfylli hert ákvæði um mengunarvarnir, en sveitarfélög munu á hinn bóginn þurfa að leggja í fjárfrekar framkvæmdir í fráveitukerfum til þess að standast kröfur um hreinsun skolps.
    Að beiðni fjármálaráðuneytisins hefur Hollustuvernd ríkisins gert frumáætlun um útgjöld opinberra aðila vegna þeirra breytinga á mengunarvarnareglugerðinni sem frumvarpið hefði í för með sér. Hér að neðan er farið yfir þær tilskipanir EB sem um er að ræða og kostnaðinn sem áætlað er að þær hafi í för með sér fyrir opinbera aðila.
     Bent skal á að við setningu núverandi mengunarvarnareglugerðar og í langtímaáætlunum sveitarfélaga hefur verið tekið mið af stöðlum og kröfum EB. Af þeim sökum getur verið erfitt að greina á milli kostnaðar sem stafar af núverandi reglum og fyrirætlunum og viðbótarkostnaðar sem er bein afleiðing af nýjum ákvæðum vegna samningsins um EES.
     Í viðauka XX við samninginn um EES eru 32 tilskipanir frá EB um umhverfismál. Verði frumvarpið að lögum er fyrirhugað að setja ný ákvæði í mengunarvarnareglugerð til samræmis við 25 þessara tilskipana en hinar 7 verða lögteknar í öðrum lögum og reglugerðum.

Vatnsmengun.
74/464/EBE    Um mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna sem losuð eru í vatn í bandalaginu.
80/68/EBE     Um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna.
82/176/EBE    Um viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri frá rafgreiningu alkalí-klóríða.
83/513/EBE    Um viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun á kadmíum.
84/156/EBE    Um viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri frá annarri starfsemi en rafgreiningu alkalí-klóríða.
84/491/EBE    Um viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun á hexaklórsýklóhexani.
86/280/EBE    Um viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun hættulegra efna sem upp eru talin í lista I í viðauka við tilskipun 76/464/EBE.

     Í ofangreindum 7 tilskipunum eru sett viðmiðunarmörk og gæðamarkmið varðandi vatnsmengun af völdum spilliefna, eins og hættulegra málma, eitraðra og þrávirkra efna. Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefðu umsjón og eftirlit með framkvæmd ákvæða sem sett yrðu í mengunarvarnareglugerð í samræmi við tilskipanirnar. Í kjölfar breyttra ákvæða þyrfti að gera sérstaka athugun á hættu á vatnsmengun og grunnvatnsmengun og taka saman skrá um fyrirtækin sem losa viðkomandi efni í fráveituvatn eða grunnvatn. Einnig þyrfti að leita leiða til að draga úr notkun efnanna og gera kröfur um úrbætur til fyrirtækjanna. Fyrirtækjum yrði gert að bera kostnað af gerð starfsleyfa og sérstökum aðgerðum. Að mati Hollustuverndar ríkisins mun stofnunin þurfa að auka við 1–1 1 / 2 starfi ásamt aðstöðu til þess að annast þessa vinnu.

91/271/EBE Um hreinsun skolps frá þéttbýli.
    
Í tilskipuninni eru settar reglur um söfnun, meðferð og losun á skolpi frá þéttbýli og tilteknum iðnaði. Í fyrsta lagi ber að koma á safnræsum og fráveitukerfum og skal verkinu lokið árið 2000 á svæðum þar sem losað er meira en 15.000 PE en árið 2005 á svæðum þar sem losað er á milli 2.000 og 15.000 PE. Í öðru lagi skal komið á skolphreinsun. Skal verkinu lokið árið 2000 í fráveitum þar sem losað er meira en 15.000 PE í strandsjó og þar sem losað er á milli 2.000 og 10.000 PE í árósa og ferskvatn, en árið 2005 í fráveitum þar sem losað er á milli 10.000 og 15.000 PE í sjó. Í fráveitum, þar sem losað er minna en 10.000 PE í sjó og minna en 2.000 PE í árósa eða ferskvatn, ber að koma á viðeigandi hreinsun í síðasta lagi á árinu 2005.
     Tilskipun EB felur í sér auknar kröfur miðað við gildandi mengunarvarnareglugerð. Í fyrsta lagi eru ekki gerðar sambærilegar kröfur um hreinsun skolps í gildandi reglugerð. Í öðru lagi yrðu gerðar sérstakar kröfur um hreinsun skolps frá fiskvinnslu, en ekki hafa verið settar fram samræmdar kröfur fyrir slíkan atvinnurekstur hér á landi til þessa. Í þriðja lagi yrði skylt að ljúka úrbótum í fráveitumálum fyrir tilteknar dagsetningar.
     Ríkissjóður mundi væntanlega ekki bera neinn framkvæmdakostnað vegna fráveitukerfa, heldur félli hann allur til hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Á þessu stigi liggur ekki fyrir áætlun um hvaða úrbóta yrði þörf í öllum sveitarfélögum á landinu, né heldur hver heildarkostnaður við framkvæmdir yrði, en þó er ljóst að kostnaður sveitarfélaga við fráveitukerfi mun skipta milljörðum króna á komandi árum. Í gildandi mengunarvarnareglugerð eru ákvæði um skolplagnir á strandsvæðum sem fá sveitarfélög á landinu uppfylla. Stærsti hluti kostnaðarins við að lagfæra skolplagnir stafar því af ákvæðum í gildandi reglugerð. Viðbótarkostnaðurinn, sem ákvæði tilskipana EB hefðu í för með sér, felst að mestu í hreinsibúnaði sem koma þyrfti fyrir í fráveitukerfunum. Einnig er líklegt að breyttar reglur í þessum efnum leiði til þess að mörg sveitarfélög þurfi að fara fyrr og hraðar í fjárfestingar vegna fráveitumála en ella hefði verið.
     Þéttbýlisstaðir með yfir 10.000 íbúa, þ.e. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Akureyrarbær, þyrftu væntanlega að hafa lokið úrbótum á árinu 2000 þar sem losun á þessum svæðum er yfir 15.000 PE. Kostnaður vegna úrbóta í Reykjavík er áætlaður 4,5 milljarðar króna eða um 52 þús. kr. á hvern íbúa. Í Hafnarfirði er heildarkostnaður áætlaður um 230 m.kr. Kópavogur, Garðabær og Seltjarnarnes munu tengjast inn á fráveitukerfi Reykjavíkur og er kostnaður við þær tengingar áætlaður um 570 m.kr. Áætlað er að kostnaður Akureyrarbæjar verði um 750 m.kr. eða um 53 þús. kr. á íbúa. Heildarkostnaður þessara sveitarfélaga, þar sem um 154 þús. manns búa, er því talinn verða rúmlega 6 milljarðar króna fram að aldamótum eða nærri 40 þús. kr. á hvern íbúa. Fyrirhugaðar framkvæmdir þessara sveitarfélaga og þær úrbætur, sem þegar eru hafnar, taka mið af gildandi mengunarvarnareglugerð, en til viðbótar þeim kröfum verður settur upp hreinsibúnaður sem áætla má að kosti um 1.000 m.kr. fyrir Reykjavík, um 100 m.kr. fyrir Hafnarfjörð og um 120 m.kr. fyrir Akureyri. Má líta á kostnaðinn við hreinsibúnaðinn, alls 1.220 m.kr., sem þann hluta fjárfestingarinnar sem skylt yrði að efna til samkvæmt ákvæðum tilskipunar EB.
     Þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni eru um 60 talsins með um 95 þús. íbúa. Í engu þessara sveitarfélaga er íbúafjöldinn yfir 10 þús., en margir þeirra mundu engu að síður falla undir ákvæði EB-tilskipunarinnar vegna mikils lífræns úrgangs frá fiskvinnslu. Talsverð óvissa ríkir um viðbótarkostnað þessara sveitarfélaga, en líklega yrði fiskvinnslan látin bera sinn hlut í þeim kostnaði. Gera má ráð fyrir að fiskvinnslan endurheimti sinn kostnað að nokkru leyti með bættri nýtingu hráefna. Ekki hefur verið gerð athugun á losun einstakra staða né kannað hvaða úrbætur þarf að framkvæma. Þá er margt óljóst um framkvæmd breyttra ákvæða, t.d. hvort fráveitumál sveitarfélaga og fiskvinnslu verða leyst sameiginlega eða sitt í hvoru lagi. Hjá Hollustuvernd ríkisins hefur þó farið fram lauslegt mat á viðbótarkostnaði sveitarfélaganna miðað við eftirfarandi forsendur:
—    Endurbætur á lögnum í fráveitukerfum verði að fara fram vegna ákvæða í gildandi reglugerð hvort sem reglur EB verði lögfestar eða ekki.
—    Hertar kröfur í mengunarvarnareglugerð feli einkum í sér að koma verði á eins þreps hreinsun á skolpi í sveitarfélögum þar sem losað er yfir 10.000 PE í sjó eða 2.000 til 10.000 PE í ármynni.
—    Eins þreps hreinsun verði framkvæmd ýmist með botnfallsþró eða síubúnaði. Búnaðurinn kosti í báðum tilvikum 15 m.kr. fyrir staði þar sem íbúafjöldi er á bilinu 200 til 2.000, en á fjölmennari stöðum kosti búnaðurinn 8.400 kr. á hvern íbúa.
    Skolplosun einstakra sveitarfélaga er áætluð miðað við íbúafjölda og landaðan afla. Sú áætlun bendir til að tólf sveitarfélaganna mundu falla undir ákvæðið um losun yfir 15.000 PE-mörkum í sjó og sex þeirra mundu falla undir ákvæðið um 2.000 til 10.000 PE-losun í ferskvatn. Talið er að úrbætur á þessum stöðum gætu kostað um 390 m.kr. og yrði þeim að vera lokið í lok ársins 2000. Væntanlega mundu sex staðir falla undir ákvæðið um losun á bilinu 10.000 til 15.000 PE á strandsvæðum. Kostnaður þeirra er áætlaður 90 m.kr. og þyrfti framkvæmdum að vera lokið á árinu 2005. Hugsanlega yrðu ákvæði EB-tilskipunarinnar um hreinsibúnað einnig látin gilda um ellefu þéttbýlisstaði þar sem íbúafjöldi er um eða yfir 1.000 og losun undir 10.000 PE-mörkunum. Kostnaður þessara staða er áætlaður 180 m.kr. Þannig áætlaður verður heildarkostnaður landsbyggðar vegna hreinsibúnaðar um 660 m.kr.
     Að samanlögðu má þá gera ráð fyrir að ný ákvæði í mengunarvarnareglugerð, sem sett væru til samræmis við tilskipun EB, mundu gera sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni skylt að endurbæta fráveitukerfi sín fyrir allt að 1,9 milljarða króna fram til ársins 2005 umfram þær kröfur sem gerðar eru í gildandi reglugerð. Hér hefur einungis verið tekið tillit til stofnkostnaðarins. Gera má ráð fyrir að rekstrar- og viðhaldskostnaður fráveitukerfanna verði talsverður, en fullnægjandi áætlanir um þann þátt liggja ekki fyrir á þessu stigi. Í þessu sambandi skal bent á að þegar er fyrirhugað að ráðast í stóran hluta framkvæmdanna hvort sem ákvæði mengunarvarnareglugerðar verða hert eða ekki og á það einkum við höfuðborgarsvæðið.

Loftmengun.
80/779/EBE    Um viðmiðunarmörk og leiðbeiningarmörk fyrir loftgæði varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk.
82/884/EBE    Um viðmiðunarmörk fyrir blý í andrúmslofti.
84/360/EBE    Um baráttu gegn loftmengun frá iðjuverum.
85/203/EBE    Um loftgæðastaðla fyrir köfnunarefnisdíoxíð.
87/217/EBE    Um að koma í veg fyrir og draga úr asbestmengun í umhverfinu.
88/609/EBE    Um takmörkun á útblæstri tiltekinna mengunarefna frá stórum brennsluverum í andrúmsloftið.
89/369/EBE    Um varnir gegn loftmengun frá nýjum sorpbrennslustöðvum sveitarfélaga.
89/429/EBE    Um varnir gegn loftmengun frá starfandi sorpbrennslustöðvum sveitarfélaga.

     Til þess að uppfylla ákvæði ofangreindra tilskipana þyrfti í fyrsta lagi að setja ákvæði í mengunarvarnareglugerð um mælingar og útreikninga á loftgæðum hér á landi. Gera þyrfti átak í loftgæðamælingum og setja upp þrjár nýjar mælistöðvar. Talið er að árlegur kostnaður við mælistöðvarnar geti numið allt að 5 m.kr.
     Í annan stað yrðu sett strangari skilyrði um starfsleyfi og mengunarbúnað iðjuvera og sorpbrennslustöðva til að takmarka mengunarefni í útblásturslofti. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna aukinna krafna um starfsleyfi, eftirlit og endurskoðun svari til eins stöðugildis hjá Hollustuvernd ríkisins.
     Á næstu árum þurfa sveitarfélög að leggja í mikinn stofnkostnað vegna endurbóta á sorpbrennslu en það átak er gert til að standast kröfur gildandi mengunarvarnareglugerðar. Sá kostnaður er talinn hér að neðan með öðrum kostnaði við sorpförgun.

Efnamengun, áhætta í iðnaði, líftækni.
76/403/EBE    Um förgun pólýklór-bífenýls (PCB) og pólýklór-terfenýls (PCT).
82/501/EBE    Um hættu á stórslysum í tengslum við tiltekna iðnaðarstarfsemi.

     Fyrri tilskipunin setur bann við hvers konar eftirlitslausri förgun PCB. Vitað er hvar stærstan hluta efnisins er að finna hér á landi og bera eigendur þess kostnaðinn af því að koma því úr landi til eyðingar. Í síðari tilskipuninni eru ákvæði um að í tiltekinni iðnaðarstarfsemi sé skylt að láta fara fram ítarlegt áhættumat sem feli í sér skilgreiningu á hættu á stórslysum, upplýsingum um öryggisráðstafanir, framleiðsluaðferðir, notkun og geymslu efna, þjálfun og aðbúnað starfsfólks og um neyðaráætlanir. Viðkomandi starfsemi yrði að bera allan kostnað af áhættumati og öryggisráðstöfunum. Talið er að aukin vinna Hollustuverndar ríkisins vegna þessara ákvæða nemi um fjórðungi úr starfi.

Úrgangur.
75/439/EBE    Um förgun olíuúrgangs.
75/442/EBE    Um úrgang.
78/176/EBE    Um úrgang frá títandíoxíðiðnaði.
78/319/EBE    Um eitraðan og hættulegan úrgang.
82/883/EBE    Um aðferðir við eftirlit og gæslu svæða þar sem úrgangur frá títandíoxíðiðnaði er settur.
84/631/EBE    Um umsjón og eftirlit með flutningi hættulegs úrgangs milli landa innan bandalagsins.
86/278/EBE    Um verndun umhverfisins, einkum jarðvegs, þegar seyra frá skolphreinsistöðvum er notuð í landbúnaði.

     Fyrsta tilskipunin í þessum flokki, nr. 75/439/EBE um förgun olíuúrgangs, mun hafa í för með sér aukna eftirlitsskyldu fyrir Hollustuvernd ríkisins og Siglingamálastofnun ríkisins en þó einkum fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna. Kostnaður opinberra aðila mun einkum felast í skipulagi og stjórnun eftirlitsins sem greiðist síðan ásamt förguninni af þeirri starfsemi þar sem olíuúrgangur verður til.
     Önnur tilskipunin setur ákvæði um söfnun, flutning og förgun á almennum úrgangi og sorpi. Á undanförnum árum hefur farið fram mikil vinna á vegum opinberra aðila varðandi stefnumótun í þessum málaflokki. Umfangsmiklar úrbætur eru ýmist í undirbúningi eða þegar hafnar. Sorpförgun er á hendi sveitarfélaganna og bera þau allan kostnaðinn. Áætlað er að heildarkostnaður allra sveitarfélaga á landinu vegna þessara úrbóta verði um 2 milljarðar króna fram til ársins 1995 og að hann skiptist u.þ.b. til helminga milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Fyrirhuguðum endurbótum í sorpförgun er að mestu ætlað að uppfylla skilyrði gildandi mengunarvarnareglugerðar og er ekki talið að tilskipanir EB geri strangari kröfur í þessum efnum eða leiði til aukins kostnaðar.
     Aðrar tilskipanir EB í þessum flokki eiga ýmist ekki við hér á landi eða hafa ekki í för með sér hert ákvæði miðað við gildandi mengunarvarnareglugerð.