Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 470 . mál.


724. Frumvarp til laga



um Þjóðarbókhlöðu.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



I. KAFLI


Stjórnsýsla.


1. gr.


    Þjóðarbókhlaða — Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn sameinuð — er sjálfstæð háskólastofnun með sérstaka stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.

2. gr.


    Menntamálaráðherra skipar fimm menn í stjórn bókasafnsins til fjögurra ára í senn svo sem hér segir: Tvo að tilnefningu háskólaráðs, einn að tilnefningu samstarfsnefndar Rannsóknaráðs og Vísindaráðs, einn að tilnefningu Bókavarðafélags Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Ráðherra skipar einn stjórnarmanna formann og annan varaformann.
    Stjórnin markar bókasafninu stefnu, hefur umsjón með gerð starfs- og fjárhagsáætlana safnsins og eftirlit með starfsemi þess.
    Forstöðumaður bókasafnsins, þjóðbókavörður, situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt, svo og einn fulltrúi starfsmanna bókasafnsins.
    Stjórnin heldur fundi eftir þörfum. Formanni stjórnar er skylt að boða til fundar ef þjóðbókavörður eða meiri hluti stjórnarmanna æskja þess.
    Menntamálaráðherra ákveður stjórnarmönnum þóknun.
    

3. gr.


    Forseti Íslands skipar þjóðbókavörð til sex ára í senn samkvæmt tillögu menntamálaráðherra sem aflar rökstuddrar umsagnar stjórnar bókasafnsins.
    Heimilt er að endurskipa þjóðbókavörð einu sinni án þess að staðan sé auglýst að fenginni umsögn stjórnar.
    Þjóðbókavörður annast daglegan rekstur og stjórn bókasafnsins og kemur fram fyrir hönd þess út á við. Þjóðbókavörður skal árlega semja tillögu að starfsáætlun og fjárhagsáætlun bókasafnsins og leggja fyrir stjórn þess.
    

4. gr.


    Menntamálaráðherra skipar aðstoðarþjóðbókavörð til sex ára í senn að fenginni rökstuddri umsögn stjórnar bókasafnsins.
    Heimilt er að endurskipa aðstoðarþjóðbókavörð einu sinni án þess að staðan sé auglýst að fenginni umsögn stjórnar. Þjóðbókavörður ræður aðra starfsmenn bókasafnsins.
    

5. gr.


    Í reglugerð skal kveðið á um deildaskiptingu bókasafnsins, svo og um safnráð, er sé samráðsvettvangur yfirmanna bókasafnsins og forstöðumanna deilda.
    

II. KAFLI


Hlutverk og markmið.


6. gr.


    Bókasafnið er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands.
    Safnið er rannsóknabókasafn sem skal halda uppi ávirkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs.
    

7. gr.


    Hlutverk bókasafnsins er m.a.:
     1.     Að viða að sér gögnum í prentuðu formi eða á öðrum miðlum, skrá þau og búa í hendur notendum.
     2.     Að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni.
     3.     Að varðveita handritasöfn þau sem stofnað hefur verið til, sbr. 2. mgr. 14. gr., vinna að frekari söfnun og rannsóknum íslenskra handrita og samsvarandi efnis á nýrri miðlum. Hið sama á við um hliðstætt erlent efni sem varðar Ísland.
     4.     Að tryggja sem best viðhald og varðveislu safnkostsins. Í því skyni skal m.a. starfrækja bókbandsstofu, viðgerðarstofu og myndastofu. Þá skal taka frá eitt eintak af öllu efni sem berst í skylduskilum, undanskilja það allri venjulegri notkun og geyma tryggilega.
     5.     Að starfrækja bókminjasafn.
     6.     Að gera skrár um íslenskar bækur, handrit og hljóðrit, svo og eftir atvikum margvíslegar efnisskrár.
     7.     Að halda uppi rannsóknum á sviði íslenskrar bókfræði og bóksögu og veita upplýsingar um íslenska bókaútgáfu.
     8.     Að starfrækja landsskrifstofu fyrir alþjóðabóknúmerakerfið (ISBN) og fyrir samsvarandi númerakerfi annarra safngagna, eftir því sem stjórn bókasafnsins ákveður.
     9.     Að gefa safngestum kost á vinnuaðstöðu og sem greiðustum aðgangi að safngögnum.
     10.     Að leiðbeina notendum bókasafnsins eftir föngum um heimildaöflun og halda uppi fjölþættri upplýsingaþjónustu, m.a. með því að tengjast alþjóðlegum tölvunetum og upplýsingalindum.
     11.     Að sinna þörfum kennslu og rannsóknastarfsemi í Háskóla Íslands.
     12.     Að stuðla að sínu leyti að sjálfstæði og frumkvæði háskólanema í námi.
     13.     Að veita bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu og rannsókna í landinu.
     14.     Að starfrækja samskrá bókasafna og láta bókasöfnum í té tölvu- og skráningarþjónustu eftir því sem stjórn bókasafnsins ákveður.
     15.     Að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga við þau sem víðtækast samstarf.
     16.     Að vera landsmiðstöð fyrir millisafnalán.
     17.     Að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði rannsóknabókasafna og upplýsingamála.
     18.     Að stuðla að fræðslu- og menningarstarfsemi, m.a. með því að standa að fyrirlestrahaldi, sýningum og listviðburðum.
    Kveðið skal nánar á um hlutverk bókasafnsins í reglugerð.
    

III. KAFLI


Fjárhagsmálefni o.fl.


8. gr.


    Kostnaður við rekstur bókasafnsins greiðist úr ríkissjóði. Þá skal hluti af fjárveitingu til Háskóla Íslands renna árlega til bókasafnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi milli bókasafnsins og Háskólans.
    Rekstur, endurnýjun og viðhald fasteigna, búnaðar og tækja, greiðist úr ríkissjóði og er sérstakur fjárlagaliður.
    

9. gr.


    Heimilt er að bjóða út vissa þætti í starfsemi bókasafnsins, svo sem veitingarekstur, ákveðin verkefni á vegum bókbandsstofu, viðgerðarstofu, myndastofu o.fl.
    Stjórn bókasafnsins er einnig heimilt að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu sem bókasafninu er að lögum falið að rækja.
    Enn fremur getur bókasafnið með samþykki menntamálaráðuneytis gert samkomulag við aðrar stofnanir um að litið sé á ritakost þeirra sem hluta af íslenskum þjóðbókakosti.
    

10. gr.


    Bókasafninu er heimilt að taka gjald fyrir ákveðna þætti þjónustunnar, svo sem millisafnalán, tölvuleitir, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun hvers konar og úttak tölvugagna. Gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skal háð samþykki stjórnar bókasafnsins.
    

11. gr.


    Heimilt er að grisja efniskost bókasafnsins og farga eða ráðstafa til annarra aðila því efni sem bókasafnið telur sig ekki lengur þurfa á að halda. Þjóðbókavörður setur reglur um slíka grisjun að fengnu samþykki stjórnar bókasafnsins.
    

12. gr.


    Menntamálaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Í reglugerð skal m.a. mælt fyrir um starfshætti bókasafnsins og starfssvið stjórnenda þess. Þá skal nánar kveðið á um form og efnistök umsagna sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Í reglugerð má ákveða viðurlög við brotum notenda á reglum bókasafnsins.
    

13. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Bókasafnið skal taka til starfa 1. desember 1994.
    Lög um Landsbókasafn Íslands, nr. 38/1969, falla úr gildi 1. desember 1994.
    Hinn 1. desember 1994 breytast eftirfarandi lagaákvæði:
     1.     1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, orðast svo: Í háskólaráði eiga sæti rektor, forsetar háskóladeilda, tveir fulltrúar kjörnir til tveggja ára í senn í skriflegri atkvæðagreiðslu á vegum Félags háskólakennara úr hópi þeirra félagsmanna sem ekki eru kjörgengir til starfa deildarforseta og fjórir fulltrúar stúdenta, kjörnir hlutfallskosningu í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn. Kjörinn skal einn fulltrúi Félags háskólakennara og tveir fulltrúar stúdenta árlega. Einnig eiga setu á fundum ráðsins háskólaritari, þjóðbókavörður og einn kjörinn fulltrúi starfsmanna í stjórnsýslu Háskólans.
     2.     Í 1. mgr. 36. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, falla niður orðin „svo sem háskólabókasafni“.
     3.     7. mgr. 36. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, fellur niður.
     4.     Í 2. mgr. 8. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, fellur niður orðið „Landsbókasafns“. Í þess stað kemur: Þjóðarbókhlöðu.
    Auk þess eru öll lagaákvæði sem fá ekki samrýmst lögum þessum úr gildi numin.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


14. gr.


    Öll störf í Landsbókasafni Íslands og Háskólabókasafni eru lögð niður frá 30. nóvember 1994.
    Allar bækur, handrit og önnur gögn Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns skulu verða eign Þjóðarbókhlöðu hinn 1. desember 1994.
    Ákvæði um Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn í lögum um skylduskil til safna, nr. 43/1977, skulu eiga við Þjóðarbókhlöðu frá og með 1. desember 1994.
    Stofnkostnaður Þjóðarbókhlöðu greiðist úr ríkissjóði.
    Strax eftir að lög þessi hafa tekið gildi skal stjórn bókasafnsins skipuð. Staða þjóðbókavarðar skal auglýst laus til umsóknar með fjögurra vikna fyrirvara svo fljótt sem því verður við komið.
    Þá skulu stöður annarra starfsmanna safnsins auglýstar lausar til umsóknar við fyrstu hentugleika.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarpi því sem hér liggur fyrir er ætlað að mynda lagagrundvöll fyrir hið nýja bókasafn sem stofnað er til með sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu.
    Aðalatriði frumvarpsins eru þessi:
     1.     Bókasafnið er sjálfstæð háskólastofnun sem ætlað er að vera í senn þjóðbókasafn og háskólabókasafn. Þetta er meginatriði sem aldrei má missa sjónar af. Hversu til tekst um þetta markmið ræðst ekki eingöngu af lagabókstaf heldur miklu frekar af markvissri framkvæmd.
     2.     Þjóðbókavörður er æðsti yfirmaður innan bókasafnsins en safnstjórn hefur eftirlit með starfsemi þess. Leitast er við að treysta tengsl við háskólann með því að í fimm manna stjórn sitji tveir stjórnarmenn samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Þá situr í stjórninni einn fulltrúi vísinda- og rannsóknarstarfseminnar í landinu og annar fulltrúi að tilnefningu Bókavarðafélags Íslands. Starfsmenn eiga áheyrnarfulltrúa í stjórn en auk þess er gert ráð fyrir svonefndu safnráði sem yrði samráðsvettvangur yfirmanna safnsins og forstöðumanna deilda þess.
     3.     Ítarleg ákvæði eru um hlutverk og markmið bókasafnsins en fyrst og fremst er stefnt að því að safnið geti orðið nútímalegt bókasafn í stöðugri þróun með fjölþættri upplýsingaþjónustu fyrir háskólann og samfélagið í heild. Í kaflanum um þetta efni er enn lögð áhersla á að hlutverk safnsins sé í meginatriðum tvíþætt en um leið að það sé ein samstæð heild.
     4.     Í ákvæðinu um fjármál safnsins er lögð áhersla á að rekstur safnsins sé ekki alfarið borinn uppi af beinum fjárframlögum úr ríkissjóði heldur leggi háskólinn sinn skerf til rekstrarins en með því móti er leitast við að treysta tengsl bókasafnsins við háskólann og undirstrika mikilvægi safnsins fyrir háskólasamfélagið. Rétt er að hafa í huga að 5.000 nemendur, um 500 fastir kennarar og sérfræðingar og um 1.000 stundakennarar verða þurftafrekustu viðskiptavinir safnsins. Þeir hafa vart tök á að fara fram á viðhlítandi þjónustu í safninu ef þeir greiða ekkert fyrir hana. Framlag háskólans yrði í samræmi við þá stefnu að sá sem óskar tiltekinnar þjónustu verður að hafa vitund um kostnað hennar. Því er farsælast að háskólinn beini hluta af fjárveitingu sinni til bókasafnsins og hún skoðist sem endurgjald fyrir ritakaup og þá þjónustu sem hann nýtur hjá safninu. Bein fjárveiting til reksturs Þjóðarbókhlöðu mun hins vegar standa undir öðrum ritakaupum og þjónustu safnsins við almenning. Þá skipta og nokkru máli ákvæði um heimild til töku þjónustugjalda fyrir ákveðna þætti þjónustunnar og ákvæði um heimild til að semja við utanaðkomandi aðila um að annast ýmsa þjónustu sem safninu er ætlað að rækja.
     5.     Um starfsmannamál er ákvæði til bráðabirgða. Um skýringar á því vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpinu en rétt er að benda á að sökum hinnar auknu og víðfeðmu starfsemi bókasafnsins samkvæmt þessu frumvarpi eru ekki líkur á að fækka megi starfsmönnum safnsins heldur hið gagnstæða.
    Sameining tveggja af meginsöfnum landsins, Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns, ætti að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri en ekki er síður mikilsvert að hinu nýja þjóðbókasafni er ætlað að verða framsækin nútímastofnun sem stuðla mun að framþróun og sókn í íslenskum mennta- og menningarmálum jafnframt því sem hún mun varðveita þann hluta menningararfsins sem fólginn er í rituðum heimildum.
    

II.


    Hinn 11. september 1956 skipaði Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra fimm manna nefnd til þess að athuga „hvort fjárhagslega og skipulagslega muni eigi hagkvæmt að sameina Háskólabókasafn og Landsbókasafn að einhverju eða öllu leyti, þannig að Háskólabókasafnið yrði framvegis handbókasafn fyrir Háskólann, en Landsbókasafn tæki við öðrum hlutverkum þess“. Formaður nefndarinnar var Þorkell Jóhannesson háskólarektor. Nefndarformaður lýsti þegar í upphafi „þeirri skoðun sinni, að hann teldi skipulagslega óheppilegt og fjárhagslega óhagstætt, að hér væri haldið uppi tveimur vísindalegum bókasöfnum, er hefðu, svo sem verið hefur til þessa, litla sem enga samvinnu sín á milli“ og enn fremur að ekki væri „unnt að leysa bókaþörf háskólans í heild sinni með sameiningu við Landsbókasafnið á viðunandi hátt og til frambúðar með öðru móti en því að reisa nýtt safnhús fyrir Landsbókasafnið í næsta nágrenni við háskólabygginguna. Að þessu bæri því að stefna og flýta þessu máli sem allra mest“ eins og segir í áliti nefndarinnar, dags. 11. janúar 1957.
    Í framhaldi af tillögum bókasafnsnefndarinnar var að forgöngu menntamálaráðherra samþykkt á Alþingi 29. maí 1957 svohljóðandi þingsályktunartillaga:
    „Alþingi ályktar:
     1.     Að sameina beri Háskólabókasafn Landsbókasafni eins fljótt og unnt er á næstu árum, þannig að Landsbókasafn verði aðalsafn, en í Háskólabókasafni sé sá þáttur starfseminnar, sem miðast við handbóka- og námsþarfir stúdenta og kennsluundirbúning og rannsóknir kennara,
     2.     að fela ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessa átt,
     3.     að nú þegar verði svo náið samstarf upp tekið milli Landsbókasafns og Háskólabókasafns sem við verður komið að áliti forráðamanna þeirra, og hliðsjón höfð af væntanlegri sameiningu safnanna.“
    Í júní 1966 skipaði menntamálaráðherra enn nefnd „til að athuga, hversu málum vísindalegra bókasafna verði skipað hér á landi til frambúðar þar á meðal um tengsl Háskólabókasafns og Landsbókasafns“. Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri var formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði áliti síðla sumars 1966 og mælti eindregið með því að þingsályktun um sameiningu safnanna frá 1957 yrði fram fylgt og bókasafnshús reist í næsta nágrenni við háskólann.
    Árið 1967 var stofnaður Byggingarsjóður safnhúss með litlu byrjunarframlagi. Sjóður þessi var síðar kallaður Byggingarsjóður Þjóðarbókhlöðu.
    Á 150 ára afmæli Landsbókasafns 28. ágúst 1968 skýrði Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra frá því að nýju bókasafnshúsi hefði verið ákveðinn staður á svæðinu við Birkimel nálægt Hringbraut en hinn 30. júlí 1971 samþykkti borgarráð allt að 20.000 fermetra lóð á umræddum stað.
    Á afmælinu var skýrt frá því að þjóðhátíðarnefnd sú er Alþingi skipaði 1966 til að gera tillögur um það á hvern hátt Íslendingar skyldu minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar 1974 hygðist leggja til að þjóðbókasafnsbygging yrði reist sem höfuðminnisvarði þeirra merku tímamóta.
    Í nýjum lögum um Landsbókasafn Íslands, sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1969 (lögum nr. 38/1969), voru sett svofelld ákvæði er lúta að samtengingu Háskólabókasafns og Landsbókasafns (8. gr.):
    „Háskóli Íslands varðveitir Háskólabókasafn í Landsbókasafni undir yfirstjórn landsbókavarðar, er ný þjóðbókhlaða skapar skilyrði til þess, jafnframt því sem stofnanir Háskólans hafa söfn í sinni vörzlu.
    Öflun erlendra rita og þjónusta í háskólaþarfir skal fara fram sameiginlega í samræmi við 2. tölulið 2. gr. auk 6., 7., 12. og 14. gr. Miðist starfsræksla þessi við handbóka- og námsþarfir stúdenta og kennsluundirbúning og rannsóknir innan Háskólans. Skal undirbúningur þessa fyrirkomulags þegar hafinn.“
    Ríkisstjórn Íslands flutti vorið 1970 svofellda tillögu til þingsályktunar:
    „Alþingi ályktar, að í tilefni af ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 skuli reist Þjóðarbókhlaða, er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.“
    Tillagan var samþykkt 30. apríl 1970.
    Hinn 15. júlí 1970 skipaði menntamálaráðherra byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðu og var Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður formaður nefndarinnar.
    Menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustungu hinn 28. janúar 1978. Forseti Íslands lagði hornstein að byggingunni 23. september 1981.
    Eftir lagningu hornsteins haustið 1981 var framkvæmdum haldið áfram en þær gengu mjög hægt vegna naumra fjárveitinga. Því var það að menntamálaráðherra gekkst á Alþingi 1986 fyrir samþykkt frumvarps til laga um þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu en samkvæmt því skyldi eignarskattsauka áranna 1987–1989 alfarið varið til framkvæmda við bókhlöðuna. Reyndin varð þó sú að einungis hluti fjárins gekk til þeirra.
    Árið 1989 voru á Alþingi sett lög um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga og í þeim gert ráð fyrir að bókhlaðan sæti fyrir fjárveitingum úr þeim sjóði er eignarskattsaukinn nú skyldi renna í. En þar fór á sömu leið og áður, bókhlaðan fékk ekki nema hluta fjárins. Meiri hlutinn gekk samkvæmt heimild í lánsfjárlögum 1990 og 1991 til annarra framkvæmda, einkum við Þjóðleikhús og á Bessastöðum.
    Á árinu 1992 urðu þau umskipti að eignarskattsaukinn var að mestu látinn ganga til Þjóðarbókhlöðu og allur árin 1993 og 1994. Þungur skriður hefur því haldist á framkvæmdum þessi ár og nú er gert ráð fyrir að þeim ljúki á yfirstandandi ári, 1994.
    Í skýrslu 30. mars 1992 frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins er annast hefur fjárreiður bókhlöðuframkvæmdanna er greint frá áföllnum kostnaði frá upphafi til ársloka 1991. Þar sést að til ársloka 1991 hafði á verðlagi hvers árs verið varið 503.330.000 kr. til byggingarinnar. Sú upphæð, framreiknuð til 1. apríl 1992 samkvæmt byggingarvísitölu 187,2, verður 1.079.214.000 kr. og er þess getið að vísitala hvers árs í framreikningi sé meðaltalsvísitala ársins.
    Samkvæmt ríkisreikningi 1992 var á því ári varið 185.072.000 kr. til Þjóðarbókhlöðu og á árinu 1993 samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds 373.600.000 kr. Eða samtals frá upphafi til ársloka 1993 1.637.886.000 kr., en að viðbættu 53 millj. kr. framlagi frá Háskóla Íslands árið 1990 vegna tölvuvæðingar, 1.690.886.000 kr.
    Inni í ofangreindum tölum er m.a. kostnaður við rekstur hússins allan þann tíma sem það hefur verið í byggingu. Áætlað er að kostnaður við að ljúka bókhlöðunni, innréttingum hennar og búnaði, svo og við flutning safnanna nemi um 650 millj. kr. á verðlagi ársins 1994.
    

III.


    Hér á undan var lýst í aðalatriðum þeirri stefnumörkun stjórnvalda að sameina bæri Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Undirbúningur nýbyggingarinnar hófst á vegum byggingarnefndar og forráðamanna safnanna um 1970 og fyrsta gerð forsagnar um hana var birt 1971.
    Það varð fljótlega ljóst að þeim markmiðum, sem að var stefnt með ákvörðuninni um sameiningu safnanna, yrði ekki náð nema þau yrðu sameinuð til fulls þannig að um eina stofnun yrði að ræða sem gegndi hinu tvíþætta hlutverki að vera í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands en núverandi stofnanir legðust með öllu niður. Með þessum hætti yrði um að ræða eitt heildstætt safn bæði í vitund og framkvæmd. Skipulagning starfseminnar skyldi og miðast við hagkvæmni, örugga umhirðu þjóðarverðmæta og þjónustuvilja.
    Byggingin var á sínum tíma hönnuð þannig að hún svaraði sem best ofangreindum markmiðum en væri jafnframt sveigjanleg að formi þannig að tiltölulega auðvelt væri að nýta hana við breytilegar aðstæður.
    Eins og kunnugt er stóð húsið árum saman óinnréttað og þegar til þess kom að ljúka innri hönnun og framkvæmdum höfðu forsendur að mörgu leyti breyst, einkum um allt það er lýtur að beitingu tækni við bókasafnsrekstur og upplýsingamiðlun. Segja má því að skrifa hafi þurft flestar forsagnir um bygginguna að nýju.
    

IV.


    Undirbúningur þessa lagafrumvarps hefur verið með þeim hætti að menntamálaráðuneytið skipaði 23. janúar 1993 samstarfsnefnd um nýtt þjóðbókasafn og eiga sæti í henni: Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður og Ögmundur Helgason deildarstjóri, samkvæmt tillögu Landsbókasafns, Þórir Ragnarsson aðstoðarháskólabókavörður og Þorsteinn I. Sigfússon prófessor, tilnefndir af Háskólabókasafni, Stefán Stefánsson deildarstjóri og Egill Skúli Ingibergsson verkfræðingur, formaður, en ritari nefndarinnar hefur verið Einar Sigurðsson háskólabókavörður. Eitt af verkefnum nefndarinnar hefur verið „að skila áliti um einstaka efnisþætti vegna undirbúnings laga og reglugerðar um hið nýja þjóðbókasafn, eftir því sem ráðuneytið kann að mælast til við nefndina“. Í framhaldi af því fól ráðuneytið nefndinni að fjalla um skilgreiningu á hlutverki og markmiði hins nýja safns og að segja fyrir um efnisatriði varðandi stjórnkerfi og fjárhagsmálefni safnsins.
    Þeir Knútur Hallsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri og Páll Hreinsson lögfræðingur hafa síðan unnið að því að færa hugmyndir nefndarinnar í frumvarpsform og ganga frá öðrum þáttum frumvarpsins. Fáeinar breytingar á frumvarpsdrögunum voru gerðar í menntamálaráðuneytinu.
    Höfundar frumvarpsins hafa dregið að og kynnt sér gögn um áþekkan safnrekstur erlendis. Þess eru vissulega nokkur dæmi að háskóla- eða þjóðbókasöfn gegni að einhverju eða öllu leyti tvíþættu hlutverki líkt og hér er ráðgert. Hins vegar eru vart finnanleg tilvik þar sem aðstæður eru sambærilegar eða sameiningu þjóðbókasafns og háskólabókasafns hefur borið að með líkum hætti og hér. Höfundum frumvarpsins hefur því vissulega verið nokkur vandi á höndum.
    Þessu frumvarpi er að stórum hluta ætlað að vera rammalöggjöf svo að hendur væntanlegra stjórnenda og starfsmanna verði ekki rígbundnar með lögum meðan stofnunin þróast og nokkur reynsla fæst af starfsemi hennar. Á hinn bóginn hefur verið leitast við að ganga eins tryggilega og unnt er á þessu stigi frá ýmsum grundvallaratriðum eins og stjórnkerfi og fjármögnun auk ítarlegra ákvæða um hlutverk og markmið hins nýja safns.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla


    Í þessum kafla er fjallað um stöðu Þjóðarbókhlöðu í stjórnsýslukerfinu svo og innri stjórnsýslu bókasafnsins.
    

Um 1. gr.


    Í 1. gr. frv. er mælt fyrir um stöðu Þjóðarbókhlöðu í stjórnsýslukerfinu en þar kemur fram að bókasafnið heyri stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra. Í ákvæðinu kemur einnig fram að um sé að ræða sjálfstæða háskólastofnun með sérstaka stjórn. Þýðing þess að lögum felst m.a. í því að ákvarðanir stjórnar bókasafnsins verða ekki bornar undir menntamálaráðherra með stjórnsýslukæru. Þá getur ráðherra ekki gefið stofnuninni bindandi fyrirmæli um úrlausn mála nema hafa til þess lagaheimild. Þar sem hér er um að ræða menningarstofnun sem gegnir vörslu- og þjónustuhlutverki en tekur sjaldnast ákvarðanir um réttindi og skyldur manna þykir eðlilegast að stjórnarfarsleg staða bókasafnsins sé með þessum hætti.
    Í ákvæðinu kemur fram að bókasafnið teljist háskólastofnun. Með þessu er lögð áhersla á náin starfstengsl bókasafnsins við Háskóla Íslands en annað meginhlutverk safnsins er að vera háskólabókasafn, sbr. 6. gr. frv., og endurspeglast það í markmiðum safnsins, sbr. t.d. 10.–12. tölul. 7. gr. frv. Þá tilnefnir háskólaráð tvo menn í stjórn safnsins, sbr. 2. gr. frv.
    

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frv. er fjallað um skipan stjórnar bókasafnsins svo og meginstarfsskyldur stjórnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það að fjórir stjórnarmenn verði skipaðir af ráðherra að fenginni tilnefningu en ráðherra skipi einn mann án tilnefningar.
    Varðandi samstarfsnefnd Rannsóknaráðs og Vísindaráðs skal það tekið fram að samið hefur verið frumvarp um Vísinda- og tækniráð Íslands er koma skal í stað fyrrnefndra ráða, og mun það annast tilnefninguna í stjórn bókasafnsins verði frumvarpið að lögum.
    Í 2. mgr. kemur fram að ráðherra skipi einn stjórnarmanna formann og annan varaformann. Í því felst að ráðherra hefur þá að öllu leyti frjálst val um það hverja af stjórnarmönnum hann skipar formann og varaformann.
    Í 3. mgr. er kveðið á um meginstarfsskyldur stjórnar, þ.e. að móta stefnu og starfsemi bókasafnsins innan ramma laganna og hafa eftirlit með starfsemi þess.
    Í 4. og 5. mgr. er fjallað um það hverjir geti haft frumkvæði að boðun fundar stjórnar, svo og hverjir hafi rétt til að sitja fundi stjórnar. Að öðru leyti fer um fundarboðun og málsmeðferð stjórnar samkvæmt. meginreglum VIII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frv. er fjallað um skipun þjóðbókavarðar svo og starfsskyldur hans.
    Gert er ráð fyrir því að þjóðbókavörður sé skipaður til sex ára í senn. Að þeim tíma liðnum er heimilt að endurskipa þjóðbókavörð einu sinni án auglýsingar að fenginni umsögn bókasafnsins. Um frekari endurskipun verður einungis að ræða að undangenginni auglýsingu.
    Stjórn bókasafnsins er ætlað að láta í té rökstudda umsögn áður en ráðherra gerir tillögu um skipun þjóðbókavarðar. Í 1. mgr. 12. gr. frv. er gert ráð fyrir að ráðherra mæli nánar fyrir um form og efnistök umsagna stjórnar bókasafnsins svo að þær megi koma að sem bestum notum við undirbúning ákvörðunar.
    Í 3. mgr. er síðan fjallað um meginstarfsskyldur þjóðbókavarðar.
    

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frv. er fjallað um ráðningu annarra starfsmanna safnsins, þar á meðal aðstoðarþjóðbókavarðar. Gert er ráð fyrir því, að í reglugerð verði kveðið á um starfssvið aðstoðarþjóðbókavarðar, sbr. 12. gr. frv. Gert er ráð fyrir því að sams konar reglur gildi við skipun aðstoðarþjóðbókavarðar og þjóðbókavarðar ef frá er talið að það er menntamálaráðherra sem skipar hann.
    

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frv. er mælt svo fyrir að deildaskipting safnsins skuli ákveðin í reglugerð. Í II. kafla eru ítarleg ákvæði um markmið og hlutverk safnsins. Þar sem fyrirsjáanlegt er að starfshættir muni breytast mikið á næstu áratugum, m.a. vegna tæknilegra framfara, þykir nauðsynlegt að hafa svigrúm til þess að ákveða deildaskiptingu og starfshætti bókasafnsins í reglugerð svo að hægt verði að aðlagast breyttum aðstæðum án þess að grípa þurfi til lagabreytinga.
    Í 5. gr. frv. kemur einnig fram að í reglugerð skuli kveðið á um safnráð er skipað verði yfirmönnum bókasafnsins og forstöðumönnum deilda þess. Ætlunin er að safnráð verði samráðsvettvangur þeirra sem gegna fyrrnefndum stjórnunarstöðum.
    

Um II. kafla


    Í II. kafla frv. er fjallað um hlutverk og markmið safnsins. Í 6. gr. kemur fram höfuðhlutverk bókasafnsins en í 7. gr. er það tíundað nánar.
    

Um 6. gr.


    Í 6. gr. kemur fram að bókasafnið sé í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Við nánari afmörkun á hlutverki safnsins ber því m.a. að líta til þeirra starfa sem þjóðbókasöfnum og háskólabókasöfnum eru almennt falin.
    Það sem m.a. einkennir þjóðfélög Vesturlanda er mikill vöxtur upplýsinga, hröð þróun upplýsingatækni og hvers kyns fjarskipta, síflóknara samfélagskerfi og vaxandi mikilvægi vísindalegrar þekkingar. Það er því mikilsvert að marka hinu nýja safni þá stöðu og skapa því þá ímynd sem samræmist margþættu hlutverki þess og víðtækum skyldum í upplýsingasamfélagi komandi aldar. Bókasöfn munu í vaxandi mæli tengjast upplýsingalindum utan eigin veggja, svo sem öðrum bókasöfnum, upplýsingastofnunum og gagnasöfnum. Þau verða þannig í og með hlekkur milli hins almenna notanda og þeirra efnismiklu og flóknu upplýsingakerfa sem í boði eru. Jafnframt því sem þjóðbókasafninu er þannig ætlað framsækið og metnaðarfullt þjónustuhlutverk ber því að varðveita af kostgæfni drjúgan hluta menningararfs þjóðarinnar og vernda hann fyrir eyðandi áhrifum umhverfisins. Ákvæði frumvarpsins um hlutverk safnsins svo og þær skýringar, sem hér fara á eftir við 7. gr. frv., ber að skoða í ljósi þessara skyldna.
    

Um 7. gr.


    Um 1. tölul.. Tekið er tillit til þess að bókasöfn afla nú ekki einungis prentaðra rita, heldur einnig margvíslegra gagna á nýrri miðlum. Nefna má í þessu sambandi hljóðrit, örfilmur, myndrit, geisladiska og efni í tölvutæku formi af ýmsu tagi.
    Gagnanna er aflað með kaupum, skylduskilum, viðtöku gjafa og ritaskiptum.
    Aðilar, sem Háskólabókasafn hefur verið í ritaskiptum við, eru um 500 og skiptaaðilar Landsbókasafns eru á annað hundrað. Ritaskiptasendingar til og frá söfnunum nema þúsundum á ári. Þarna er að verulegu leyti um að ræða efni sem ekki er á almennum markaði og erfitt væri að afla eftir þeirri leið. Sumpart eru ritaskipti líka hagsmunamál fyrir þjóðir sem hafa ekki gjaldeyrisráð til að kaupa mikið af bókum. Eðlilegt er því að safnið haldi uppi þessari starfsemi í þeim mæli sem því er hagfellt eða það telur nauðsynlegt.
    Landsbókasafn, og í nokkrum mæli Háskólabókasafn, hafa verið viðtökuaðilar að erlendu stjórnarprenti eða efni frá fjölþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að. Sem þjóðbókasafn mun safnið rækja þennan þátt í nokkrum mæli en gæta þess þó að ekki komi til óþarfa tvíverknaðar fái aðrar stofnanir sent sama efni. Einnig ber safninu að fylgjast með því hvað af þessu efni er fáanlegt sem örgögn eða á geisladiskum svo að rými sé ekki sóað að óþörfu.
    Um 2. tölul. Gildandi lög um skylduskil til safna eru nr. 43 frá 16. maí 1977 og þarfnast endurskoðunar, m.a. vegna nýrra miðla og breyttrar tækni við fjölföldun gagna og miðlun upplýsinga. Í lögunum er ákvæði um afhendingu á hljómplötum og annars konar tón- og talupptökum sem gefnar eru út. Hins vegar eru þar ekki ákvæði um afhendingu á neins konar efni frá ljósvakamiðlum, hvorki tón- eða talupptökum né efni á myndmiðlum. Við endurskoðun laga um skylduskil mundi væntanlega kveðið á um verkaskiptingu milli stofnana um öflun og varðveislu hins margvíslega efnis á þessu sviði.
    Sem þjóðbókasafn hefur bókasafnið ríkar skyldur um söfnun á öllu prentuðu máli íslensku eða því sem íslensk málefni varðar á hvaða tungu sem er. Sé ekki kostur frumrita skulu fengnar af þeim filmur eða annars konar afrit eftir því sem auðið er.
    Um 3. tölul. Það gerist nú æ algengara að höfundar semji rit sín beint á tölvu og munu ritverk því að vissu marki verða afhent handritadeild í véllæsu formi.
    Varðandi verkaskiptingu um viðtöku gagna reynir helst á samráð við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, svo og Þjóðskjalasafn Íslands og önnur skjalasöfn. Í því efni verður fremur að treysta á samvinnu aðila en ætla sér að draga í lögum nákvæmar markalínur, sbr. þó það sem segir í 5. gr. laga um Þjóðskjalasafn frá 1985 og skýringum við hana, svo og í reglugerð um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi frá 1978, 2. gr. b.
    Um 4. tölul. Stefnt er að því að fela sérfróðum starfsmanni varðveislustjórn í safninu. Einungis hinn vandaðri hluti bókbands færi fram í safninu sjálfu, annað væri boðið út. Auk hefðbundinna viðgerða yrði stuðlað að hlífð rita með því að færa þau yfir á aðra miðla með ljósmyndun, skönnun eða öðrum tæknilegum aðferðum.
    Um 5. tölul. Um er að ræða rit, íslensk og erlend sem eru mjög verðmæt eða hafa sérstakt minjagildi, svo sem vegna aldurs, ferils, afbrigða, áritunar eða markverðs bókbands. Illa fer á því að geyma slík rit með öðru efni og þeim þarf að hlífa við óþarfri og ógætilegri notkun.
    Um 6. tölul. Í tölvukerfinu Gegni er byggt upp allsherjar gagnasafn. Lögð er höfuðáhersla á að skráningarfærslur hins íslenska efnis komist inn í Gegni strax við útkomu þess. Hluti þess efnis sem Gegnir hýsir er skráningarfærslur greina í íslenskum tímaritum og blöðum, svo og greina um íslensk efni eða eftir íslenska menn í erlendum tímaritum. Einnig getur verið um að ræða hvers kyns efnisskrár án tillits til lands eða tungumáls. Auk þess sem beinlínuaðgangur er að gagnasafninu eru eftir atvikum dregnir út ákveðnir hlutar þess til prentunar svo sem Íslensk bókaskrá. Færslur munu einnig verða dregnar út úr Gegni til miðlunar á öðru formi, m.a. sem tölvutæk gögn.
    Um 7. tölul. Landsbókasafn hefur um áratuga skeið gefið út bókfræðilegar eða bóksögulegar ritgerðir í Árbók sinni. Enn fremur greinar þar sem stuðst er við handritakost safnsins. Einsýnt er að sambærilegu útgáfustarfi verði haldið áfram.
    Fjölmargir í þjóðfélaginu þurfa einnig á upplýsingum að halda um íslenska bókaútgáfu, bæði tölfræðilegum og af öðru tagi, svo sem opinberir aðilar, bókaútgefendur, aðilar prentiðnaðarins og fjölmiðlar.
    Um 8. tölul. Alþjóðlega bóknúmerakerfið (ISBN) hefur höfuðstöðvar í Berlín en Landsbókasafn tókst á hendur árið 1990 að starfrækja svæðisskrifstofu fyrir Ísland. Starfsmaður þessa verkefnis kynnir bóknúmerakerfið og úthlutar tölum til útgefenda. Hann fylgist með því að númerin séu rétt notuð og þau skili sér inn í gagnasafn bókasafnsins og í útgefnar skrár. Hann heldur skrá yfir útgefendur og rækir samskipti við alþjóðaskrifstofuna.
    Kerfi tímaritanúmera (ISSN) hefur höfuðstöðvar í París. Ísland hefur ekki gerst formlegur aðili að kerfinu en safnið pantar númer fyrir íslensk tímarit frá París eftir því sem á reynir.
    Um 9. tölul. Rit Íslandssafns (þ.e. þjóðdeildar og handritadeildar) eru einungis til notkunar á staðnum í sérstökum lestrarsölum. Að öðru leyti er svo mikið af gögnum sem kostur er, bæði íslenskum og erlendum, haft á sjálfbeina sem kallað er og er drjúgur hluti þess efnis falur til útlána. Sérstakt vélvætt öryggiskerfi er notað til að hamla gegn því að rit séu fjarlægð í heimildarleysi.
    Utan Íslandssafns er ekki um eiginlega lestrarsali að ræða heldur spildur lessæta á hinum opnu svæðum en auk þess nokkra tugi lokaðra lesherbergja sem flest eru ætluð einum notanda hvert.
    Um 10. tölul. Starfsmenn safnsins gera svokallaðar tölvuleitir fyrir notendur þegar um er að ræða gagnabanka utan safns sem selja aðgang að upplýsingunum. Gjald er þá tekið í safninu fyrir þessa þjónustu. Hins vegar er einnig til fjöldi nettengdra gagnabanka þar sem leitir eru án endurgjalds. Notendum er leiðbeint um að gera leitir í þeim sjálfir enda ætlunin að hafa allríflegt framboð af tölvum og öðrum viðeigandi búnaði á hinum almennu lessvæðum í safninu.
    Um 11. tölul. Safnið hefur sem háskólabókasafn höfuðskyldur við Háskóla Íslands. Aðrir skólar á háskólastigi svo og sérskólar hafa yfirleitt eigin bókasöfn. Að sjálfsögðu eiga slíkar menntastofnanir almennan aðgang að gagnakosti og þjónustu bókasafnsins sem þjóðbókasafns og veigamesta rannsóknabókasafns landsins.
    Safnið leitast við að hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem sérhæfir sig á ákveðnum sviðum háskólastarfsins og heldur uppi formlegu samstarfi við viðeigandi greinar, m.a. um val safngagna. Stefnt skal að því að aðalsafn svari í öllum meginatriðum þörf háskólans fyrir bókasafnsþjónustu en það starfrækir auk þess í vissum tilvikum safndeildir í byggingum háskólans sem miðast aðallega við handbókaþarfir kennara og sérfræðinga. Rit þar eru að jafnaði bundin notkun á staðnum.
    Um 12. tölul. Miðað er við að safnið fái með gögnum sínum og þjónustu dregið úr þörfinni á hefðbundinni kennslu í háskólanum. Þessi ætlan er studd svo öflugri notendafræðslu sem kostur er og er þar um hvort tveggja að ræða, tiltölulega stuttar frumkynningar og hins vegar framhaldsfræðslu sem tengd er ákveðnum greinum — í formi námskeiða eða sem hluti af námskeiðum. Fyrir þjónustu af þessu síðar nefnda tagi greiðir háskólinn sérstaklega.
    Um 13. tölul. Þjónusta við þessa mikilvægu þætti fer að verulegu leyti saman við þær skyldur sem safnið hefur við háskólann. Að öðru leyti tekur safnið mið af því hvaða bókasöfn eru til fyrir í landinu vegna einstakra atvinnugreina og rannsóknastofnana, styður við slík söfn, bætir þau upp og vísar notendum eftir atvikum til þeirra. Bókasafnið veitir jöfnum höndum þjónustu grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.
    Um 14. tölul. Svo sem vikið er að í skýringum við 6. tölul. er byggt upp í tölvukerfinu Gegni allsherjar gagnasafn. Gegnir er tölvukerfi Þjóðarbókhlöðu en auk þess eiga allmörg önnur bókasöfn fulla aðild að kerfinu, þ.e. þau beita kerfinu eftir atvikum við flestalla þætti í safnrekstrinum. Í Gegni er enn fremur haldið uppi samskrá bókasafna. Fyrir hverja bók í kerfinu nægir ein bókfræðileg færsla, jafnvel þótt eintak af bókinni sé til í mörgum söfnum. Hvert bókasafn, sem á aðild að samskránni, fær ákveðið safntákn sem birtist á skjá þegar færsla rits er kölluð fram.
    Bókasafn, sem fyrst skráir rit, er í rauninni að skrá það fyrir aðildarbókasöfn sem á eftir koma. Gegnir er þannig hugsaður sem landskerfi og samnýting hans leiðir sjálfkrafa til samvinnu í skráningu, auk þess sem upplýsingagildið er ómetanlegt því að með tiltölulega einföldum búnaði er hægt að hafa samband við kerfið hvaðanæva.
    Það styður einnig gildi Gegnis á landsvísu að hann hýsir sérstakt gagnasafn um greinar í íslenskum tímaritum og blöðum, svo og greinar um íslensk efni eða eftir íslenska menn í erlendum tímaritum.
    Skrifstofa kerfisbókavarðar veitir upplýsingar og ráðgjöf um tölvukerfið Gegni og skyld málefni.
    Um 15. tölul. Nefndir sem sinna stöðlun og samræmingu á sviði skráningar og flokkunar og útgáfu handbóka á þeim sviðum hafa lengi verið til hér á landi. Þær störfuðu um skeið í umboði Samstarfsnefndar um upplýsingamál með aðild bókafulltrúa ríkisins. Með tölvuvæðingu gagnasafna verður það æ brýnna að koma einnig upp alhliða efnisorðaskrá á íslensku. Þjóðarbókhlöðusafnið býr yfir mestri þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á líka mestra hagsmuna að gæta vegna þess hlutverks sem því er ætlað varðandi uppbyggingu gagnasafna. Það er því æskilegt að það hafi forystu um þá samvinnu sem vera þarf um þessi samræmingar- og stöðlunarverkefni.
    Bókasafnið mun einnig halda uppi sem öflugastri þjónustu við notendur varðandi heimildaleitir (tölvuleitir) í erlendum gagnasöfnum, sbr. 10. tölul. Safninu ber að hafa frumkvæði að því að taka upp og kynna nýjungar á þessu sviði jafnvel gegna um það formlegu ráðgjafarhlutverki svo sem tíðkast um hinar svokölluðu DIANE-miðstöðvar í grannlöndunum (DIANE = Direct Information Access Network for Europe). Geisladiskar (CD-ROM) bæta upp og koma að nokkru leyti í staðinn fyrir tölvuleitir og mun safnið kappkosta að gera mönnum notin af þeim sem auðveldust, m.a. með því að nettengja geisladiskastöðvarnar. Þá hlýtur safnið að hyggja að því hvenær tímabært sé að það gangist sjálft fyrir útgáfu efnis á geisladiskum, svo sem á þjóðbókaskránni og öðrum bókfræðigögnum ellegar efni sem lesið er inn í tölvutækt form með skönnun en beitingu þeirrar tækni fleygir nú fram. Einnig gæti verið um það að ræða, að safnið hvetti aðra aðila til útgáfu á geisladiskum.
    Um 16. tölul. Háskólabókasafn hefur um árabil verið landsmiðstöð varðandi sendingu íslensks efnis í millisafnalán til erlendra bókasafna. Þjóðarbókhlaða hlýtur að rækja þá skyldu áfram. Þá eru og millisafnalán fjölþættari og umfangsmeiri í þessu safni en nokkru öðru hérlendis og það er betur búið að hjálpargögnum til að verða við erfiðum beiðnum. Þróun varðandi tæknilegar aðferðir við að sinna millisafnalánum og flýta afgreiðslu þeirra er ákaflega hröð og er eðlilegt að safnið gegni forystuhlutverki og hafi á hendi ráðgjöf varðandi þessi atriði.
    Um 17. tölul. Safninu ber sem þjóðbókasafni og bókasafni stærsta háskóla landsins að eiga samstarf við hliðstæðar stofnanir erlendis og vera í fyrirsvari á landsvísu varðandi ákveðna þætti upplýsingamála almennt.
    Um 18. tölul. Þessu markmiði er sumpart sinnt með þeirri almennu þjónustu sem safnið veitir. Einnig gengst það fyrir samkomum eða sýningum í húsakynnum safnsins, ýmist eitt sér, í félagi við aðra, eða lætur einungis aðstöðuna í té. Enn fremur getur verið um það að ræða að safnið eigi aðild að menningarviðburðum sem fara fram utan húsakynna bókasafnsins.
    Í 2. mgr. 7. gr. frv. er mælt svo fyrir að kveðið skuli nánar á um hlutverk safnsins í reglugerð. Í því sambandi er rétt að minna á að gengið er út frá því að safninu beri að veita stuðning því víðtæka og vaxandi endurmenntunarstarfi sem Háskóli Íslands heldur uppi. Enn fremur ber að taka tillit til fjarkennslu sem eflaust á fyrir sér að aukast, m.a. vegna tæknilegra nýjunga í fræðslustarfinu. Er ætlunin að nánar verði kveðið á um þessi atriði í reglugerð.
    

Um III. kafla


    Í III. kafla er fjallað um ýmis málefni er lúta að fjármálum bókasafnsins svo og heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla.
    

Um 8. gr.


    Kostnaði við rekstur bókasafnsins er skipt upp í tvo meginþætti. Annars vegar er um að ræða rekstur, endurnýjun og viðhald fasteigna, búnaðar og tækja sem skal greiddur úr ríkissjóði. Er ætlunin að þetta verði sérstakur fjárlagaliður. Hins vegar er um að ræða kostnað við rekstur bókasafnsins. Er þar ætlunin að auk beinna framlaga úr ríkissjóði renni hluti af fjárveitingu Háskóla Íslands að undanskildum sértekjum til bókasafnsins, þ.e. til ritakaupa og almennrar þjónustu. Á móti fær Háskóli Íslands almenna þjónustu frá bókasafninu sem ekki er háð gjaldskrá. Af fjárveitingum til Háskóla Íslands renna nú um 4% til Háskólabókasafns og hefur Háskóli Íslands sett sér sem markmið, að hlutfallið hækki í 6% á næstu árum. Gengið er út frá því að þessar upphæðir verði til viðmiðunar í væntanlegu samkomulagi milli Háskóla Íslands og bókasafnsins.
    

Um 9. gr.


    Til þess að stuðla að hagkvæmni í rekstri bókasafnsins er veitt sérstök heimild til þess að bjóða út vissa þætti í starfi safnsins. Þá er safninu einnig veitt heimild til þess að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu fyrir sig. Dæmi um það er nýlegt samkomulag Háskóla Íslands og Ríkisspítala um að Bókasafn Landspítala annist að hluta til bókasafnsþjónustu við vissar greinar læknadeildar gegn umsömdu framlagi af hálfu háskólans.
    Varðandi ákvæði 3. mgr. má vísa til nýlegs samkomulags bankastjórnar Seðlabanka Íslands annars vegar og Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns hins vegar með samþykki menntamálaráðuneytis um að litið sé á varðveisludeild hins vandaða bókasafns Seðlabankans sem hluta af íslenskum þjóðbókakosti. Slíkt samkomulag dregur þó í engu úr þeim skyldum sem lagðar eru á þjóðbókasafnið skv. II. kafla þessa frv.
    

Um 10. gr.


    Bókasafninu er veitt heimild til þess að taka þjónustugjöld fyrir ákveðna þætti þeirrar þjónustu sem veitt er, svo sem millisafnalán, tölvuleitir, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun, úttak tölvugagna o.fl. Með gjaldskrá, sem háð er samþykki stjórnar safnsins, er kveðið á um fjárhæð þeirra þjónustugjalda sem greiða skal fyrir þessa þjónustu. Þar sem hér er aðeins um að ræða lagaheimild til töku þjónustugjalda skal þess gætt við ákvörðun gjaldanna að þau séu ekki hærri en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu.
    

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er ákvæði um grisjun efniskosts bókasafnsins en ætlunin er að þjóðbókavörður setji reglur um hana og þær hljóti samþykki stjórnar safnsins. Ákvæði þessa efnis er nauðsynlegt vegna þess meðal annars að ýmis rit bókasafnsins úreldast með tímanum.
    

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er fjallað um heimild menntamálaráðherra til þess að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð. Hér að framan hefur verið getið nokkurra atriða sem mælt skal fyrir um í reglugerð samkvæmt öðrum greinum frumvarpsins.
    

Um 13. gr.


    Í 13. gr. er mælt fyrir um brottfall laga og lagaákvæða sem eru ósamrýmanleg frumvarpsins.
    

Um 14. gr.


    Í 14. gr. er lagt til, að lögfest verði nokkur ákvæði til bráðabirgða.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu öll störf á Landsbókasafni Íslands og Háskólabókasafni lögð niður frá 30. nóvember 1994. Um réttindi þessara starfsmanna fer skv. 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmennirnir eiga því að öðru jöfnu rétt til þeirra staðna sem stofnaðar verða hjá hinu nýja bókasafni, skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Ef starfsmaður fær ekki starf hjá hinu nýja safni á hann rétt á föstum launum, sem starfa hans fylgdu, í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað sambærilegri stöðu hjá hinu nýja safni, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Rétt þykir að minna hér enn á það sem tekið er fram í almennum athugasemdum hér á undan að síður en svo eru horfur á að í hinu nýja safni verði um að ræða fækkun starfa frá því sem er í söfnunum tveimur.
    Þar sem innan tíðar mun þurfa að endurskoða lög nr. 43/1977, um skylduskil til safna, þykir að svo stöddu hentugast að færa til bráðabirgða hlutverk Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns samkvæmt lögunum til hins nýja bókasafns með slíku almennu ákvæði.
    Þar sem mikið starf er óunnið við undirbúning að rekstri hins nýja bókasafns er nauðsynlegt að stjórn safnsins verði skipuð strax eftir að lög þessi hafa tekið gildi. Þá skal staða þjóðbókavarðar auglýst laus til umsóknar með fjögurra vikna fyrirvara sem allra fyrst eftir gildistöku laganna.



Fylgiskjal II.
    

Landsbókasafn og Háskólabókasafn


Greinargerð um stöðu og starfsemi safnanna vegna sameiningar þeirra


    
    
    
    
    
Reykjavík

Desember 1993





    Efnisyfirlit           Bls.          
    Formáli                21
    Meginatriði           22
    1.0     Söguágrip      24
                   1.1     Landsbókasafn      24
                   1.2     Háskólabókasafn      24
    2.0     Lög og reglugerðir      24
                   2.1     Landsbókasafn      24
                   2.2     Háskólabókasafn      25
    3.0     Starfslið      25
                   3.1     Landsbókasafn      25
                   3.2     Háskólabókasafn      25
                   3.3     Mannafli beggja safna      26
    4.0     Ritakostur      33
                   4.1     Landsbókasafn      33
                   4.2     Háskólabókasafn      34
                   4.3     Skylduskil      36
                   4.4     Ritaskipti      37
                   4.4.1     Landsbókasafn      37
                   4.4.2     Háskólabókasafn      37
                   4.5     Sérsöfn      38
                   4.5.1     Safn Benedikts S. Þórarinssonar      38
                   4.5.2     Bókasafn Jóns Steffensen      38
                   4.5.3     Safn Einars Benediktssonar      38
                   4.5.4     Sænska safnið      38
                   4.5.5     Safn Marks Watson      38
                   4.5.6     Safn Rögnvalds Péturssonar      38
                   4.5.7     Nonnasafn      38
                   4.5.8     Leikbókmenntasafn Lárusar Sigurbjörnssonar      39
                   4.5.9     Hljómplötusafn Skúla Hansen      39
    5.0     Húsnæði      39
                   5.1     Landsbókasafn      39
                   5.2     Háskólabókasafn      39
    6.0     Tölvuvæðing      43
                   6.1     Gegnir      43
                   6.2     Landsbókasafn      43
                   6.3     Háskólabókasafn      44
    7.0     Skráning      45
    8.0     Þjónusta við notendur      46
                   8.1     Landsbókasafn      46
    8.2     Háskólabókasafn      50
    9.0     Útgáfustarfsemi      52
                   9.1          Landsbókasafn      52
                   9.1.1     Árbók og Íslensk bókaskrá      52
                   9.1.2     Íslensk hljóðritaskrá      52
                   9.1.3     Samskrár      52
                   9.1.4     Handritaskrár      53
                   9.1.5     Rit prentuð á Íslandi frá upphafi til 1844      53
                   9.1.6     Íslensk rit í frumgerð      53
                   9.1.7     Skrá um íslensk blöð og tímarit      54
                   9.1.8     Önnur rit      54
                   9.2          Háskólabókasafn      55
                   9.2.1     Ársskýrsla Háskólabókasafns      55
                   9.2.2     Kynningarefni      55
    10.0     Sýningar      55
                   10.1     Landsbókasafn      55
                   10.2     Háskólabókasafn      56
    11.0     Bókband      56
                   11.1     Landsbókasafn      56
                   11.2     Háskólabókasafn      56
    12.0     Myndastofa      57     
    13.0     Alþjóðlega bóknúmerakerfið      58
    14.0     Samvinnu- og þróunarverkefni      58
    15.0     Rekstur og fjárhagsmál      59
    Ritaskrá                62
    

TÖFLUR


    
     1.     Fastar stöður í Háskólabókasafni 1983–1992      26
     2.     Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir starfsþáttum      27
     3.     Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir menntun og starfsþáttum      28
     4.     Samanburður á mannafla: Rýmisskrá Þjóðarbókhlöðu /
          Landsbókasafn + Háskólabókasafn      29–30
     5.     Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir aldri      31
     6.     Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir kyni           31
     7.     Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir menntun      32
     8.          Mannafli í Landsbókasafni og Háskólabókasafni
          eftir stéttarfélögum      32
     9.     Aðföng Landsbókasafns 1992 (fjöldi rita)      33
     10.     Aðföng Háskólabókasafns 1992 (fjöldi rita)      34
     11.     Bókakaup Háskólabókasafns 1983–1992 (fjöldi binda)      35
     12.     Tímaritakaup Háskólabókasafns 1983–1992 (fjöldi titla)      35
     13.     Ritaskipti Háskólabókasafns 1992      37
     14.     Húsnæði Landsbókasafns 1992      39
     15.     Bókasafns- og lestrarhúsnæði Háskóla Íslands 1992      41
     16.     Aðalsafn og safndeildir Háskólabókasafns 1992:
          hillumetrar / fjöldi rita      42
     17.     Tölvubúnaður Landsbókasafns í mars 1993
          (fjöldi eininga)      43
     18.     Tölvubúnaður Háskólabókasafns í árslok 1992
          (fjöldi eininga)      45
     19.     Bindi léð á lestrarsali Landsbókasafns 1972–1992      47
     20.     Gestir á lestrarsölum Landsbókasafns 1972–1992      47
     21.     Handrit léð á lestrarsali Landsbókasafns 1972–1992      48
     22.     Útlán bóka í Landsbókasafni 1972–1992      49
     23.     Lántakendur (útlána) í Landsbókasafni 1972–1992      49
     24.     Útlán í Háskólabókasafni 1983–1992      51
     25.     Millisafnalán í Háskólabókasafni 1983–1992      51
     26.     Kostnaðarhlið útgáfustarfsemi Landsbókasafns      54
     27.     Landsbókasafn: Rekstur bókbandsstofu 1992      56
     28.     Háskólabókasafn: Bundið inn 1983–1992
          (fjöldi binda)      57
     29.     Landsbókasafn: Rekstur myndastofu 1992      57
     30.     Rekstrarkostnaður Landsbókasafns 1992      59
     31.     Rekstrarkostnaður Háskólabókasafns 1992      60
     32.     Heildarkostnaður Landsbókasafns og Háskólabókasafns 1992      61
    
    

Formáli


    
    Skýrsla þessi er samin vegna viðbúnaðar að sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns í nýrri byggingu við Birkimel.
    Greint er frá stöðu safnanna á árinu 1992 og brugðið ljósi á starfsemi þeirra næstliðinn áratug eða svo. Skýrslan er því til vitnis um stöðu og starfsemi safnanna tveggja á síðasta skeiði þeirra sem aðskilinna stofnana og getur þannig reynst mikilvæg heimild, þegar árangur hins sameinaða safns verður metinn síðar.
    Skýrslunni er þó öðru fremur ætlað að vera grunnur að því flókna skipulagsstarfi, sem myndun nýs safns er, og bregða ljósi á þann efnivið sem byggt er á, þegar upp er lagt. Þannig á skýrslan að geta nýst starfsmönnum safnanna, forráðamönnum Háskóla Íslands, stjórnmálamönnum og öðrum þeim er að sameiningarmálinu koma.
    Við gerð skýrslunnar var staðið þannig að verki, að þeir Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður og Þórir Ragnarsson aðstoðarháskólabókavörður sömdu drög að greinargerð um hvort safn fyrir sig. Auk þess tók Þórir saman yfirlit um mannafla beggja safna. Það kom svo í hlut undirritaðs að fella fyrrgreint efni saman í eina heild, samræma framsetningu eftir föngum og semja einstaka kafla, þar sem þess var þörf.
    Efni í lokakaflann um rekstur og fjárhagsmál lögðu þeir Finnbogi og Þórir fram, hvor frá sínu safni, en Þorsteinn I. Sigfússon prófessor tók saman töfluna um heildarkostnað beggja safna. Á öllum kostnaðarþáttum að vera þar til skila haldið.
    Taka ber fram, að ekki er ætíð full samsvörun á milli þess sem tilfært er um hvort safn fyrir sig. Kemur það sumpart til af því, að söfnin eru í ýmsu ólík, og eins hinu, að þau hafa ekki alltaf haldið upplýsingum til haga með sama hætti.
    María Huld Jónsdóttir og Elísabet Ruth Guðmundsdóttir, starfsmenn í Háskólabókasafni, önnuðust ritvinnslu skýrslunnar og töflugerð.
    Samstarfsnefnd um nýtt þjóðbókasafn, sem skipuð var af menntamálaráðherra 26. janúar 1993, hefur staðið fyrir samningu skýrslunnar og farið á fundum sínum rækilega yfir efni hennar. Nefndina skipa:
    Egill Skúli Ingibergsson verkfræðingur, formaður
    Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður
    Stefán Stefánsson deildarstjóri
    Þórir Ragnarsson aðstoðarháskólabókavörður
    Þorsteinn I. Sigfússon prófessor
    Ögmundur Helgason deildarstjóri
    Ritari nefndarinnar er Einar Sigurðsson háskólabókavörður.
    Það er von nefndarmanna, að þær upplýsingar, sem hér eru saman dregnar, geti að sínu leyti reynst traustur grunnur að því skipulagsstarfi, sem fram undan er við myndun nýs sameinaðs safns.
    

1. desember 1993.



F.h. Samstarfsnefndar um nýtt þjóðbókasafn.


Einar Sigurðsson.


    


Meginatriði


    
LANDSBÓKASAFN
    
Stofnað árið 1818. Samkvæmt lögum er meginhlutverk safnsins sem þjóðbókasafns að annast söfnun og varðveislu íslenskra rita, sinna rannsóknum í íslenskri bókfræði og vinna að kynningu íslenskra bókmennta og menningar.
    
Aðsetur Landsbókasafns er í Safnahúsinu við Hverfisgötu og nýtir safnið þar um 2 þús. fermetra, en að meðtöldum geymslum utan Safnahússins er húsnæði safnsins um 3 þús. fermetrar.
    
Í árslok 1992 voru starfsmenn safnsins 41 (fastráðnir og lausráðnir) í alls 33 stöðugildum. Þar af voru tæplega 4 stöðugildi kostuð af sérstakri fjárveitingu úr byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu.
    
Í safnið bættust rúmlega 7 þús. rit á árinu 1992 og í lok þess árs var ritakostur safnsins samtals rúmlega 430 þús. bindi, auk um 14 þús. handrita. Meðal aðfanga safnsins eru 2 eintök af öllum íslenskum ritum skv. lögum um skylduskil.
    
Í lestrarsölum safnsins eru rúmlega 40 sæti. Skráðir gestir í lestrarsölum voru um 10 þús. á árinu 1992 og tóku þeir rúmlega 32 þús. bækur og handrit að láni. Útlán á því ári (erlend rit) voru um 1.400 til um 380 lántakenda.
    
Safnið gefur árlega út þjóðbókaskrá um bækur og hljóðrit, svo og árbók með fræðilegu efni og skýrslu um safnið. Meðal annarra útgáfurita eru skrár um handrit safnsins, samskrá um erlend tímarit og sérskrár um einstaka efnisflokka.
    
Landsbókasafn starfrækir svæðisskrifstofu fyrir Ísland vegna alþjóðlega bóknúmerakerfisins (ISBN).
    
Safnið stendur fyrir nokkrum sýningum árlega í anddyri Safnahússins.
    
Rekstrarkostnaður Landsbókasafns nam 55 milljónum króna á árinu 1992, en rúmlega 60 milljónum króna að viðbættum húsnæðiskostnaði.
    
    
HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Stofnað árið 1940, en rætur þess liggja í söfnum embættismannaskóla þeirra, sem voru fyrirrennarar Háskóla Íslands. Stutt ákvæði eru um safnið í lögum um háskólann. Háskólaráð hefur sett safninu stjórn og markað því stefnu.
    
Meginhlutverk safnsins er að sinna þörfum kennslu og rannsókna í Háskóla Íslands, en einnig eftir atvikum þörfum atvinnuvega og fræða og rannsókna almennt í landinu.
    
Í árslok 1992 voru starfsmenn safnsins 33 (fastráðnir og lausráðnir) í alls um 26 stöðugildum. Þar af voru rúmlega 4 stöðugildi kostuð af byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu.
    
Í safnið bættust um 10 þús. rit á árinu 1992 og í lok þess árs var ritakostur safnsins samtals um 317 þús. bindi. Safnið fær eintak af öllum íslenskum ritum skv. lögum um skylduskil.
    
Aðsetur Háskólabókasafns er í aðalbyggingu háskólans, en auk þess starfrækir safnið 16 útibú í 13 byggingum og rúma þau um 80 þús. bindi. Á vegum háskólans eru um 740 lessæti í samtals 12 byggingum. Þá er safnið með bókageymslur í fáeinum stöðum.
    
Alls nemur húsnæði safnsins, að lesstofum meðtöldum, um 3.700 fermetrum.
    
Útlán í aðalsafni og útibúum voru um 37 þús. á árinu 1992, en beinn aðgangur er að meiri hluta ritakostsins og notkun hans á staðnum er ekki skráð.
    
Safnið er miðstöð millisafnalána hér á landi og voru slík lán um 7.600 árið 1992. Mest eru þetta viðskipti við erlend söfn.
    
Safnið sinnir formlegri notendafræðslu, þar sem stúdentum er leiðbeint um safnnot og heimildaleit. Í tengslum við það og til kynningar almennt gefur safnið út fjölda smárita árlega.
    
Safnið veitir notendum aðgang að geisladiskum (CD-ROM) og leitar heimilda og upplýsinga fyrir notendur í erlendum gagnabönkum (tölvuleitir).
    
Rekstrarkostnaður Háskólabókasafns nam 87 milljónum króna á árinu 1992, en að viðbættum húsnæðiskostnaði rúmlega 90 milljónum króna.

    
ANNAÐ VARÐANDI SÖFNIN
    
Söfnin tölvuvæddust hvort um sig að einhverju marki á níunda áratugnum, en árið 1991 tóku þau í notkun sameiginlegt tölvukerfi, sem hlaut nafnið Gegnir. Nálega öll erlend rit safnanna eru komin inn í kerfið og drjúgur hluti íslenskra rita. Söfnin hafa notið fjárframlaga úr byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu til tölvuvæðingarinnar, en kaupin á sjálfu tölvukerfinu voru kostuð af framkvæmdafé háskólans (happdrættisfé).
    
Heildarkostnaður beggja safna árið 1992 nam um 154 milljónum króna. Að frádregnum húsnæðiskostnaði voru rekstrargjöld þeirra 142.4 milljónir króna. Yfir helmingur þeirrar upphæðar gekk til launa, rúmlega fjórðungur til kaupa á bókum, tímaritum og öðru safnefni og tæplega fimmtungur til annarra þarfa.
    
    
1.0     Söguágrip
    
1.1     LANDSBÓKASAFN
    
Landsbókasafn Íslands hét upphaflega Íslands Stiftisbókasafn. Það var stofnað 1818, einkum að frumkvæði Danans C.C. Rafns og Hins ísl. bókmenntafélags. Safnið tók til starfa 1825, en fékk ekki fastan bókavörð fyrr en Jón Árnason þjóðsagnasafnari var ráðinn að safninu 1848. Það var til húsa á lofti Dómkirkjunnar frá 1825 og í Alþingishúsinu frá 1881, en Safnahúsið við Hverfisgötu var vígt 1909.
    
Bókakostur safnsins var í árslok 1992 um 430 þús. bindi, en auk þess er þar stærsta safn ísl. handrita, rúmlega 14 þús. skráð handrit, flest á pappír.
    
Núverandi landsbókavörður (frá 1964) er Finnbogi Guðmundsson.
    

1.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Háskólabókasafn var stofnað 1940, en rætur þess liggja í söfnum embættismannaskóla þeirra, sem voru fyrirrennarar Háskóla Íslands. Safnið hefur frá stofnun verið í aðalbyggingu háskólans, en safndeildir eða útibú á vegum þess eru til húsa á ýmsum stöðum á háskólalóð og utan hennar.
    
Árið 1940 var ritaeign safnsins rúmlega 30 þús. bindi. Í árslok 1992 er hún um 317 þús. bindi.
    
Fram til ársins 1964 var forstöðumaðurinn eini fastráðni starfsmaður safnsins. Það ár var ráðinn aðstoðarbókavörður og síðan hefur starfsmönnum fjölgað smám saman. Björn Sigfússon lét af embætti háskólabókavarðar 1974 eftir nær þriggja áratuga starf og við tók núverandi háskólabókavörður, Einar Sigurðsson.
    
2.0     Lög og reglugerðir
    
2.1     LANDSBÓKASAFN
    
Landsbókasafn Íslands er þjóðbókasafn. Meginhlutverk þess er að annast söfnun og varðveislu íslenskra rita og rita er varða Ísland, annast rannsóknir í íslenskri bókfræði, gefa út skrár íslenskra bóka og handrita og önnur rit, er íslenska bókfræði varða, og vinna að kynningu íslenskra bókmennta og menningar.
    
Safnið starfar samkvæmt lögum nr. 38/1969. Með gildandi lögum var rýmkað um heimildir til fjölgunar á bókavörðum miðað við fyrri lög nr. 44/1949. Að öðru leyti fela þau ekki í sér miklar efnisbreytingar. Samkvæmt lögunum frá 1949 var safninu sett reglugerð nr. 44/1950, en ný reglugerð hefur ekki verið sett samkvæmt gildandi lögum.
    
Safninu hefur ekki verið sett stjórn eða stjórnarnefnd.
    
    
    
2.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Meginhlutverk safnsins er að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands. Einnig veitir safnið bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega og fræða og rannsókna almennt í landinu.
    
Sérstök lög eru ekki um safnið, einungis stutt ákvæði í 36. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 131/1990. Samhljóða ákvæði eru í 64. gr. reglugerðar nr. 98/1993 um H.Í.
    
Ekki mun hafa þótt taka því að setja nánari laga- eða reglugerðarákvæði um safnið vegna hinna miklu breytinga sem í vændum eru við sameiningu þess og Landsbókasafns.
    
Hins vegar kaus háskólaráð árið 1986 fjögurra manna nefnd til að móta tillögur um leiðir til að styrkja rekstur bókasafnsins og stöðu þess í háskólanum. Tillögur nefndarinnar voru þessar í hnotskurn:
    
     1.     Nemendum verði beint að aukinni safnnotkun.
     2.     Laun og önnur rekstrargjöld verði tvöfölduð í áföngum á næstu þremur árum.
     3.     Bókakostur verði aukinn í áföngum og stefnt að því að árleg aðföng að þremur árum liðnum svari til kaupa á 6.000 bókum og 2.000 tímaritum.
     4.     Safnið fái hátíðasal háskólans til afnota.
     5.     Háskólaráð setji safninu stjórn.
    
Háskólaráð samþykkti þessar tillögur. Þetta varð til þess m.a. að ritakaup jukust verulega 1987–89, þótt settu marki yrði ekki náð (sbr. Töflur 11–12). Að því er mannahald varðar bættust í safnið nokkrar stöður á þessum árum (sbr. Töflu 1).
    
Stjórn Háskólabókasafns var fyrst skipuð árið 1986 og er litið svo á að hún sé vinnunefnd háskólaráðs í málefnum safnsins. Áskilið er að einn af fimm stjórnarmönnum sé úr röðum háskólaráðsmanna.
    
3.0     Starfslið
    
3.1     LANDSBÓKASAFN
    
Í yfirliti, sem til er um Landsbókasafn fyrir árin 1947–1971, sagði, að starfsmenn hefðu í árslok 1971 verið: landsbókavörður, tveir deildarbókaverðir, níu bókaverðir, ritari, ljósmyndari og þrír bókbindarar, alls 17 starfsmenn. Í árslok 1992 er 41 starfsmaður í safninu í alls 32.60 stöðugildum, þar af 26.25 heimiluðum. Stöðugildi þau, sem umfram eru, eru kostuð af fé úr byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu.
    
3.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Árið 1992 voru í safninu 33 starfsmenn í 25.6 stöðugildum. Þar af nema fastráðningar 17.5 stöðugildum. Tvö þeirra stöðugilda eru bundin við störf í Bókasafni Landspítala samkvæmt samkomulagi milli háskólans og spítalans. Af ofangreindum 25.6 stöðugildum eru u.þ.b. 4.6 kostuð af byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu, og gegna þeim 6 starfsmenn. Aðrar lausráðningar nema 3.5 stöðugildum, sem 6 starfsmenn gegna.

Háskólabókavörður er frá 1. febr. 1992 í leyfi frá störfum í safninu til að vinna við skipulag nýs safns í Þjóðarbókhlöðu, en sú vinna er kostuð af byggingarsjóði bókhlöðunnar.
    
Árið 1992 voru greiddar 4 millj. kr. fyrir yfirvinnu í safninu.
    
Á Töflu 1 er yfirlit um fastar stöður Háskólabókasafns síðustu 10 ár.
    
3.3     MANNAFLI BEGGJA SAFNA
    
Á Töflum 2–8 er mannafli safnanna skilgreindur út frá ýmsum viðmiðunum, svo sem starfsþáttum, menntun, aldri, kynferði, stéttarfélagsaðild o.fl. Allar tölur í töflunum tákna stöðugildi og þær taka bæði til fastráðninga og lausráðninga.
    
Á Töflu 2 er sýnd í meginatriðum skipting starfa í söfnunum tveimur árið 1992. Um er að ræða fremur grófa skiptingu, og ekki er víst að fullrar samkvæmni hafi verið gætt milli safnanna um flokkun.
    
Við samanburðinn, sem settur er fram á Töflu 4, er stuðst við svokallaða rýmisskrá nýbyggingarinnar, en þar eru tilfærðar tölur um hvaðeina sem hið nýja safn er talið þurfa til sín, þegar það er komið í fullan rekstur, þ. á m. mannafla. Hins vegar er erfitt að gera nákvæman samanburð á rýmisskrá og yfirliti um starfsþætti í söfnunum, þar sem starfsemin er ekki sundurliðuð alveg eins í báðum tilvikum. Hér hefur verið hnikað til fáeinum liðum í starfsþáttagreiningunni, og þá fæst samanburður í grófum dráttum. Þessum breytingum er lýst í skýringunum, sem fylgja töflunni.
    
    
Tafla 2     Mannafli í Lbs. og Hbs. eftir starfsþáttum
    


MYND + TAFLA


    
Tafla 3     Mannafli í Lbs. og Hbs. eftir menntun og starfsþáttum
    
    
    
TAFLA + MYNDIR


    
    
    
    
4.0     Ritakostur
    
4.1     LANDSBÓKASAFN
    
Ritakostur Landsbókasafns var samkvæmt aðfangaskrá í árslok 1972 306.094 bindi, en í árslok 1992 430.510 bindi eða 21 árs aukningin 124.416 bindi, að meðaltali 5.925 bindi á ári. Á tímabilinu 1947–1971 var aukningin 127 þús. bindi eða rúm 5 þúsund bindi á ári að meðaltali.
    
Rétt er að taka fram, að í ritaukanum eru innifalin tvö eintök af hverju íslensku riti og í tölu erlendra rita eru ekki talin t.a.m. rit Sameinuðu þjóðanna og amerískt stjórnarprent, sem veitt hefur verið viðtöku.
    
Eins og fram kemur á Töflu 9 bættust 180 eintök nýsigagna í safnið á árinu 1992, en þar er einkum um að ræða tón- og talupptökur, sem berast í skylduskilum. Heildartala um slíkt efni í Landsbókasafni liggur ekki fyrir.
    
    
Tafla 9     Aðföng Landsbókasafns 1992 (fjöldi rita)
    

TAFLA


Kaup erlendra tímarita hafa lítið verið aukin í Landsbókasafni heldur haldið við góðum stofni slíkra rita.
    
Við talningu erlendra tímarita á árinu 1991 kom í ljós, að tímaritakosturinn allur var 1.109 tímaritatitlar, þar af hættir að berast 524, en enn í gangi 585.

Aukning handrita reyndist á árunum 1947–1971 um 100 handrit á ári, en skráð handrit voru í lok þess tímabils um 12.300. Aukningin síðustu tvo áratugi hefur verið áþekk, en þó heldur minni vegna þess að héraðsskjalasöfn hafa nú víða verið sett á stofn, er sækjast eftir sama efni.
    
Í Landsbókasafni er talsverður stofn gamalla korta, og eru þau geymd í sérstökum kortaskápum. Til er spjaldskrá um kort, er Haraldur Sigurðsson tók saman á sínum tíma. Ný kort eru skráð jafnóðum í Íslenskri bókaskrá.
    
4.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Undanfarin ár hefur árleg viðbót verið 10–11 þús. bindi og er þá átt við bindi bæði bóka og tímarita.
    
Háskólabókasafn hefur frá 1941 notið skylduskila, þ.e. safnið hefur fengið endurgjaldslaust eitt eintak af öllum bókum og tímaritum sem koma út á Íslandi á ári hverju.
    
    
Tafla 10     Aðföng Háskólabókasafns 1992 (fjöldi rita)
    


TAFLA
    
Árið 1992 námu bókakaup safnsins 2.802 bókum og 1.515 tímaritsáskriftum. Þessi kaup kostuðu 30.8 Mkr. Af þessari upphæð fóru 70% í tímaritin sem eru mjög dýr í mörgum greinum. Yfirlit um ritakaup síðustu ára er á Töflum 11 og 12.


    
MYNDIR

    
    
Skylt er að geta þess að stofnanir háskólans keyptu árið 1992 236 áskriftir tímarita til viðbótar þeim 1.515 sem tilgreind eru hér að ofan (sbr. Töflu 10) og kostuðu þau um 4 Mkr. Keypt tímarit til háskólans voru því á árinu 1992 1.751 og fé til ritakaupa alls um 35 Mkr.
    
Háskólabókasafn hefur reynt eftir föngum að halda því kaupstigi bóka og tímarita sem náðist 1989. Fjárveitingar til safnsins hafa ekki dugað í þessu skyni og þá hefur ýmist verið brugðið á það ráð að velta hallanum yfir á næsta ár eða fá framlag frá Happdrætti H.Í. Framlag þetta hefur undanfarin ár numið 3–10 Mkr á ári.
    
Eins og sést á tölunum að ofan er háskólinn enn þá alllangt frá því að kaupa 6.000 bækur á ári og vera með 2.000 tímarit í áskrift, samkvæmt því markmiði sem hann setti sér 1986, sbr. kafla 2.2.
    
Háskólabókasafn hefur ekki lagt stund á söfnun handrita, heldur látið handrit sem því áskotnast ganga til handritadeildar Landsbókasafns.
    
Safnið hefur ekki heldur safnað gömlum landakortum, enda þótt það eigi fáein slík kort. Hins vegar fékk háskólinn að gjöf gott safn landakorta fyrir um fjórum áratugum frá Þorsteini Scheving Thorsteinssyni lyfsala og prýða þau veggi fundarherbergis háskólaráðs. Haraldur Sigurðsson samdi lýsingu á kortunum, sem birtist sem fylgirit með Árbók H.Í. 1979–80 (pr. 1982).

    
4.3     SKYLDUSKIL
    
Lög um skylduskil til safna nr. 43/1977 leystu af hólmi Lög um afhending skyldueintaka til bóksafna nr. 11/1949. Samkvæmt nýju lögunum var slíkum eintökum fækkað til muna, skyldu nú vera fjögur af hverju einu, en í lögum 1949 skyldu vera 4 eintök af blöðum, sem út komu einu sinni í viku eða oftar, og 12 eintök af öllu öðru prentmáli.
    
Í nýju lögunum var það nýjung, að afhent skyldu 3 eintök af hljómplötum, svo og af annars konar tón- og talupptökum, sem gefnar eru út.
    
Landsbókasafn hafði varið hluta skyldueintakanna til bókaskipta og missti þannig talsvert við þessa breytingu.
    
Nauðsynlegt er orðið að endurskoða lögin um skylduskil og taka þá tillit til ýmissar nýrrar tækni, sem rutt hefur sér til rúms.
    
Með lögum nr. 33/1941 um breytingu á lögum nr. 23/1886 um prentsmiðjur var ákveðið að Háskólabókasafn fengi eitt eintak allra skilaskyldra rita, svo sem áður er getið.
    
Framkvæmd skylduskila er nú þannig háttað, að innheimta skilaskylds efnis er alfarið á vegum Landsbókasafns. Það heldur eftir tveimur eintökum af prentuðu efni, en miðlar einu til Háskólabókasafns og einu til Amtsbókasafnsins á Akureyri. Af tón- og talupptökum varðveitir Landsbókasafn einnig tvö eintök, en miðlar hinu þriðja til Amtsbókasafnsins á Akureyri.


4.4.     RITASKIPTI
    
4.4.1     Landsbókasafn
    
Um 140 erlendir aðilar (mest stofnanir, t.d. þjóðbókasöfn, háskólar og aðrar vísindastofnanir) senda rit reglulega til Landsbókasafns.
    
Landsbókasafn sendir ár hvert að gjöf eða í skiptum 67 eintök Árbókar Landsbókasafns og 129 eintök Íslenskrar bókaskrár og hljóðritaskrár ýmsum söfnum og einstaklingum, flestum erlendis.
    
Ofangreindar sendingar fela ekki nærri alltaf í sér gagnkvæm skipti og ekki hefur verið reynt að áætla, til hve mikils fjár það efni sem kemur í skiptum verði metið.
    
Samkvæmt skylduskilalögum á Landsbókasafn kost á að fá allt að tíu eintök af allri ríkisstyrktri útgáfu. Þrjú þeirra ganga til innlendra safna (Stykkishólmur, Ísafjörður, Seyðisfjörður), önnur eftir atvikum til erlendra skiptaaðila. Þ. á m. eru fimm söfn, sem senda Landsbókasafni nokkra tugi bóka árlega samkvæmt óskalista þess. Landsbókasafn kaupir rit í nokkrum mæli hjá bókaforlögum til að senda þessum aðilum sem endurgjald.
    
4.4.2     Háskólabókasafn
    
Safnið heldur uppi gagnkvæmum ritaskiptum við fjölmarga aðila erlendis, einkum háskóla og vísindastofnanir. Eins fær safnið sent talsvert af ritum, án þess að senda nokkuð í staðinn, og héðan eru ýmis rit send, án þess að sú kvöð fylgi, að annað komi á móti.
    
Staða ritaskipta var árið 1992 svo sem frá er greint á Töflu 13. Þar er einnig tilgreint hvað safnið þáði í skiptum á því ári, en í staðinn sendir Háskólabókasafn reglulega Árbók háskólans og Kennsluskrá, Ársskýrslu Háskólabókasafns, skrá um rannsóknir við háskólann, Studia Islandica, doktorsritgerðir, svo og fáein tímarit og ráðstefnurit. Sum þeirra eru keypt til þessara þarfa.
    
Háskólabókasafn varðveitir rit sem berast Vísindafélagi Íslendinga og sér um ritaskipti félagsins. Um 130 aðilar eru á skiptaskrá og félagið fær um 170 tímarit í skiptum.
    
    
Tafla 13     Ritaskipti Háskólabókasafns 1992



TAFLA





4.5     SÉRSÖFN
    
Eftirfarandi listi yfir sérsöfn er ekki fyllilega tæmandi. Ritakostur sérsafnanna er ekki nema að hluta til inni í heildartölunum á Töflum 9–10 um ritakost Landsbókasafns og Háskólabókasafns.
    
4.5.1     Safn Benedikts S. Þórarinssonar
    
Gefið háskólanum 1935, afhent 1941. Gjöfinni fylgir það skilyrði, „að safninu sé haldið út af fyrir sig, og að háskólinn láti safnið ekki af hendi á nokkurn hátt, né neitt úr því til annarra safna eða einstaklinga, hvorki í bókaskiptum, gefins eða selt“. Í safninu eru um 8 þús. bindi íslenskra blaða, tímarita og bóka. Safnið er nú í sérstöku herbergi á 2. hæð háskólabyggingarinnar.
    
4.5.2     Bókasafn Jóns Steffensen
    
Ánafnað Háskólabókasafni 1982. Í safninu, sem lýtur einkum að sögu heilbrigðismála, eru um 5.500 bindi bóka og tímarita, auk fjölda smárita. Safnið er enn sem komið er geymt að Aragötu 3, í húseign sem próf. Jón lét fylgja bókagjöfinni.
    
4.5.3     Safn Einars Benediktssonar
    
Gefið háskólanum 1935, afhent 1950. Í safninu eru 1.225 bindi, mörg þeirra frá 16.–18. öld. Nær helmingur safnsins eru latnesk og grísk fræði, en að öðru leyti einkum rit landfræðilegs og sagnfræðilegs efnis, sum mjög fágæt.
    
4.5.4     Sænska safnið
    
Gjöf sænska þjóðþingsins til Alþingis 1930. Um 37 hillumetrar. Stendur í Landsbókasafninu, ásamt hluta bókagjafar, sem Konunglega bókasafnið í Stokkhólmi gaf Landsbókasafni 1974.
    
4.5.5     Safn Marks Watson
    
Um 1.400 bindi. Gjöf til Landsbókasafns.
    
4.5.6     Safn Rögnvalds Péturssonar
    
Gefið Landsbókasafni Íslands og Háskóla Íslands sameiginlega árið 1974 til varðveislu í Þjóðarbókhlöðu. Um 1.100 bindi.
    
4.5.7     Nonnasafn
    
Gjöf Haralds Hannessonar hagfræðings og Jesúítareglunnar til ríkisstjórnar Íslands 1987. Um 37 hillumetrar. Safninu er ætlað að vistast í Þjóðarbókhlöðu, en er enn þá í húsi Haralds, sem nú er látinn.
    
    
4.5.8     Leikbókmenntasafn Lárusar Sigurbjörnssonar
    
Menntamálaráðuneyti veitti gjafabréfi um safnið viðtöku fyrir hönd Þjóðarbókhlöðu í maí 1993. Gefendur eru börn Lárusar, sem er látinn. Safnið er enn í vörslu gefenda, um 40 kassar.
    
4.5.9     Hljómplötusafn Skúla Hansen
    
Árið 1965 gáfu erfingjar Skúla Hansen tannlæknis háskólanum hljómplötusafn hans, hátt á 4. þús. plötur. Safnið er í vörslu Háskólabókasafns.
    
5.0     Húsnæði
    
5.1     LANDSBÓKASAFN
    
Í skýrslunni um árin 1947–1971 er rakin í stuttu máli saga húsnæðismála Landsbókasafns og aðdragandi að byggingu Þjóðarbókhlöðu. Þar kemur þó ekki fram hrakfallasaga safnsins, er hrökklast hefur úr einni geymslunni í aðra utan safns. Í trausti þess, að úr bókhlöðumálinu rættist miklu fyrr en raun hefur á orðið, var í öndverðu ekki aflað þess húsnæðis utan safns, sem þurft hefði, heldur reynt að bjarga sér frá ári til árs. Tekist hefur að koma upp hillum í hluta leiguhúsnæðisins, en í öðru hefur efni verið geymt í kössum og það því orðið lítt eða ekki aðgengilegt. Þannig er hluti efnisins á Tryggvagötu 15 í kössum, og allt það efni, sem geymt er á Laugavegi 162, er í kössum.
    
Á Töflu 14 er tilgreint í fermetrum það húsrými, sem Landsbókasafn hafði til afnota á árinu 1992.
    

Tafla 14     Húsnæði Landsbókasafns 1992



TAFLA


5.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Á Töflu 15 er heildaryfirlit um það húsnæði á vegum háskólans, sem Háskólabókasafn notar eða tekið hefur verið undir lesstofur, en þær eru ekki í öllum tilvikum í umsjá safnsins. Húsnæði er flokkað í rými fyrir ritakost og starfslið annars vegar og lesrými hins vegar. Einnig kemur fram skipting húsnæðis, eftir því hvort það er á háskólalóð eða utan hennar. Fram kemur enn fremur á töflunni, að um er að ræða 739 lessæti í 12 byggingum.

Á Töflu 16 er tilgreindur hillumetrafjöldi, sem Háskólabókasafn hefur yfir að ráða, og áætlaður fjöldi rita miðað við að 30 bindi rúmist á einum lengdarmetra að jafnaði. Fram kemur að útibú (safndeildir) eru 16 talsins í 13 byggingum og rúma alls ríflega 80 þús. bindi. Í 9 tilvikum er um það að ræða, að bæði útibú og lesstofa séu á sama stað (í sömu byggingu). Auk þess sem talið er fram á töflunni, eru rit geymd í kössum á háaloftum a.m.k. tveggja bygginga á háskólalóð.






TAFLA 15





TAFLA 16



    
6.0     Tölvuvæðing
    
6.1     GEGNIR
    
Gegnir er íslenskt nafn á tölvukerfinu Libertas, sem keypt var af bresku fyrirtæki, SLS (Information Systems) Ltd. í Bristol. Um er að ræða alhliða bókasafnskerfi, sem tekur til flestra þátta í safnrekstrinum, svo sem aðfanga, skráningar, tímaritahalds, útlána og millisafnalána. Notendur hafa aðgang að kerfinu frá sérstökum útstöðvum í söfnunum. Einnig er aðgangur frá vinnustöðvum á háskólaneti og gegnum fjarskiptasamband.
    
Gegnir er sameiginlegt kerfi Háskólabókasafns og Landsbókasafns. Kaupin á kerfinu, bæði vélbúnaði og hugbúnaði, voru kostuð af framkvæmdafé Háskóla Íslands (happdrættisfé), með sérstökum samningi menntamálaráðherra og háskólans. Megintölva kerfisins er í Reiknistofnun Háskólans í Tæknigarði, en stofnunin sér um rekstur tölvunnar og tölvunets háskólans. Rekstur tölvukerfisins kostaði 6 Mkr árið 1992 og borga bókasöfnin tvö kostnað nálega til helminga.
    
Gegnir er ekki einvörðungu kerfi fyrir þessi tvö bókasöfn, heldur þjónar hann jafnframt öðrum bókasöfnum. Auk Landsbókasafns og Háskólabókasafns eiga fimm bókasöfn nú aðild að kerfinu og á þeim eftir að fjölga. Gagnasafn kerfisins nær yfir ritakost aðildarsafna, þjóðbókaskrána (Íslenska bókaskrá) og samskrá um erlend tímarit. Einnig er byrjað að skrá í Gegni greinar í íslenskum blöðum og tímaritum.
    
6.2     LANDSBÓKASAFN
    
Tölvuskráning Íslenskrar bókaskrár hófst 1980 með skránni fyrir árið 1979. Á vegum Verk- og kerfisfræðistofunnar voru gerð forrit samkvæmt Marc-sniði, síðar kölluð Ómark, fyrir skráningu íslenskra rita, setningu Íslenskrar bókaskrár með öllum aukafærslum og einnig setningu spjaldatexta. Fór vinnsla fyrst fram í tölvu Verk- og kerfisfræðistofunnar, en síðar voru öll forrit flutt í PC-tölvu Landsbókasafns og var þá hægt að fullvinna bókaskrána þar og senda á disklingum til prentunar. Einnig hafa verið gerðar samsteypuskrár með sama hætti um 5 ára tímabil hver.
    
    
    
Tafla 17

Tölvubúnaður Landsbókasafns í mars 1993 (fjöldi eininga)



TAFLA


    
Við tilkomu Gegnis 1991 var unnt að flytja Íslenska bókaskrá frá 1979–1990 inn í hann, en rit 1991 og 1992 hafa verið slegin beint inn, og eins verður að vera um rit eldri en 1979. Er nú unnið að því verkefni í samvinnu beggja bókhlöðusafnanna.
    
Unnið var á árinu 1993 að forsögn til undirbúnings forrita vegna úttaks Íslenskrar bókaskrár úr Gegni. Úttakið er síðan sent til prentunar.
    
Samskrá um erlend tímarit í íslenskum bókasöfnum og stofnunum kom fyrst út árið 1978 og árið 1980 var prentaður viðauki við þá útgáfu (sjá einnig kafla 9.1.3). Fyrsta útgáfan var ekki tölvuunnin, en strax árið 1978 voru sendar upplýsingar úr Samskrá til hinnar norrænu samskrár um tímarit (NOSP – Nordisk samkatalog for periodica), því sem næst helmingur skrárinnar, og var notast við gataspjöld við að koma þeim færslum í tölvutækt form. Upp úr 1980 voru svo gerðar ráðstafanir til að tölvuvæða skrána. Við það var notast við heimagert forrit af einfaldri gerð, sem gerði kleift að leiðrétta og endurnýja skrána annars vegar og senda upplýsingar um breytingar til NOSP hins vegar. Nýjar útgáfur 1987 og 1990 voru unnar með þessum hætti. Ekki var hægt að gera neinar leitir með þessu forriti. Árið 1991 var samskráin svo færð yfir í Gegni.
    
Árið 1990 var byrjað að nota bandríska forritið Procite til að koma upp tölvuvæddri skrá um íslensk tímarit frá og með 1974. Um 5 þús. færslur eru nú komnar inn í þá skrá. Auk þess birtist í Íslenskri bókaskrá ár hvert sérstök skrá um þau tímarit, sem hefja útkomu á því ári.
    
6.3     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Notkun tölvutækni í bókasafninu hófst árið 1984, þegar fyrst var keypt tölva til ritvinnslu. Fyrsti geisladiskurinn (CD-ROM) var keyptur 1986. Þar var um að ræða færslur frá Library of Congress ásamt skráningarforriti. Gagnagrunnur þessi nefndist BiblioFile og var hann um árabil notaður við skráningarstörf í Háskólabókasafni og a.n.l. í Landsbókasafni. Þeir skráningartextar, sem þannig urðu til, voru svo síðar færðir yfir í Gegni. Þá var í byrjun árs 1987 farið að skrá handbækur og svokölluð skammtímalán með íslenska forritinu Skrástoð. Þær skrár voru svo rúmlega ári síðar færðar yfir í Procite og þá var einnig byrjað að skrá þar lokaverkefni í völdum greinum. Þeim færslum voru jafnframt gefin efnisorð. Þessar skrár voru síðan prentaðar út fyrir notendur. Einnig hefur Procite verið notað til að halda utan um ýmsar sérskrár og lista. Eftir að Gegnir komst í gagnið hefur hann að mestu leyti tekið við hlutverki fyrrnefndra skráa.
    
Tölvunotkun Háskólabókasafns má eins og nú háttar skipta í fernt: 1) rekstur Gegnis, 2) leitir í erlendum gagnasöfnum, 3) notkun geisladiska og 4) þátttöku í þróunarverkefnum.
    
Gegnir. Háskólabókasafn hafði umsjón með vali og uppsetningu tölvukerfisins Gegnis. Meginþungi þessa verkefnis lagðist á árin 1989–91 og má segja, að við það hafi verið bundin tvö stöðugildi að jafnaði. Kerfisbókavörður, sem einvörðungu sinnir Gegni, var ráðinn til Háskólabókasafns 1990, en kerfið var tekið í notkun 1991.
    
Leitir í erlendum gagnasöfnum. Tölvuleitir með beinlínusambandi gegnum síma og gagnanet hófust í safninu 1985. Þær fela í sér að bókavörður leitar í ýmsum gagnasöfnum erlendis fyrir notendur safnsins. Þjónustan er gjaldsett. Tölvuleitir á árinu 1992 voru 185 talsins.
    
Geisladiskar (CD-ROM). Þjónustan tekur til þess að notendur hafa aðgang að geisladiskum í bókasafninu og geta leitað upplýsinga á þeim sjálfir eða með aðstoð bókavarða. Fyrsti geisladiskurinn ásamt geisladiskastöð kom í safnið 1986. Nú eru slíkar stöðvar fjórar í safninu og um 17 gagnasöfn á geisladiskum í áskrift. Skráðar heimildaleitir á geisladiskum árið 1992 voru 1.400, en hafa vafalaust verið talsvert fleiri. Hver geisladiskur getur rúmað texta allt að 300 bóka, sem eru 1.000 blaðsíður hver.
    
Samstarfsverkefni. Háskólabókasafn tekur þátt í tveimur norrænum samstarfsverkefnum. Annað er svonefnd SR-áætlun sem felst í því að koma á greiðari samskiptum um tölvunet milli samskráa á Norðurlöndum. Hitt er svonefnt ARIEL-verkefni og er þar um að ræða tilraun til að senda ljósrit greina gegnum tölvunet á milli bókasafna. Útlagður kostnaður vegna þessara verkefna var tæplega 600 þús. kr. árið 1992. Enn fremur má nefna, að safnið tók í nóvember til desember 1991 þátt í prófun á forritinu IANI, en þar er um að ræða leitarmál, sem þróað hefur verið til þess að geta leitað með sömu skipunum í gagnasöfnum, sem hafa mismunandi leitarmál.
    
Tafla 18 Tölvubúnaður Háskólabókasafns í árslok 1992 (fjöldi eininga)
    


TAFLA



7.0     Skráning
    
Skráning er grundvallarstarfsemi í hverju bókasafni, enda byggir flest þjónusta þeirra á upplýsingum, sem fyrir liggja um ritakostinn. Tölvuvinnsla skráningar færði með sér byltingu á því sviði og er a.n.l. um þann þátt málsins fjallað í síðasta kafla.
    
Árið 1988 var gerður samningur við Saztec, breskt fyrirtæki, um að færa erlenda spjaldskrá Landsbókasafns og Háskólabókasafns í tölvutækt form, um 100 þús. færslur úr hvoru safni. Háskólabókasafn hafði umsjón með þessu verkefni, sem tók þrjú ár. Unnið var að verkinu með þeim hætti, að hvort safn um sig ljósritaði sinn hluta spjaldskránna og annaðist yfirlestur og leiðréttingar að því marki sem til þess kom, áður en hið erlenda fyrirtæki skilaði af sér verkinu.

Skráning bóka í Gegni hófst í október 1991. Í október 1992 var farið að sækja færslur fyrir erlendan ritauka aðildarsafna með beinlínusambandi í bandaríska samskrá (OCLC — Online Computer Library Center), og er að því mikill vinnusparnaður.
    
Í Háskólabókasafni er hafinn innsláttur í Gegni á hinni útgefnu skrá Böðvars Kvaran og Einars Sigurðssonar um íslensk blöð og tímarit, einnig uppbygging sérstaks gagnasafns um greinar í íslenskum tímaritum og blöðum, svo sem fyrr er vikið að.
    
Á undanförnum áratugum og fram á þennan dag hefur í Landsbókasafni verið unnið að skráningu greina í íslenskum blöðum og tímaritum. Myndar þetta efni umfangsmikla spjaldskrá, sem stendur í anddyri Safnahússins. Í Árbók Landsbókasafns 1967, s. 130–31, er skrá yfir þau rit, sem þá höfðu verið efnistekin með þessum hætti.
    
Söfnin standa sameiginlega að tölvuskráningu á íslenskum ritakosti, en Landsbókasafn hefur umsjón með þeirri skráningu og annast gerð Íslenskrar bókaskrár, sem kemur út árlega, ásamt Íslenskri hljóðritaskrá.
    
Starfsfólki í söfnunum hefur á síðustu missirum verið fjölgað nokkuð á kostnað byggingarsjóðs bókhlöðunnar, eins og komið hefur fram annars staðar í þessari samantekt. Hinir nýju starfsmenn hafa einkum komið til liðs við að skrá eldri íslenskan ritakost inn í Gegni, samræma og yfirfara færslur erlendra rita, sem færðar voru vélrænt inn í gagnasafnið, og líma strikamiða á ritakostinn, sem m.a. er nauðsynlegt vegna tölvuvæðingar lánastarfseminnar.
    
8.0     Þjónusta við notendur
    
8.1     LANDSBÓKASAFN
    
Í lestrarsal safnsins eru 36 almenn sæti og að auki 4 fyrir filmulestur. Þá eru og 6 gestasæti í handritadeild.
    
Gestir hafa ekki beinan aðgang að ritum safnsins nema handbókum í lestrarsal og á handritadeild. Íslensk rit eru bundin við notkun á staðnum, en erlend rit eru lánuð út.
    
Lestrarsalur Landsbókasafns er opinn kl. 9–19 virka daga, laugardaga kl. 9–12. Mánuðina júní–ágúst er þó lokað á laugardögum.
    
Útlánasalur vegna heimlána er opinn virka daga kl. 9–16.
    
Handritadeild er opin gestum sem hér segir: 15. sept. – 30. apríl, kl. 9–19 mánud.–fimmtud., kl. 9–17 föstud.; 1. maí – 14. sept., kl. 9–17 mánud.–föstud.
    
Á Töflum 19–23 koma fram tölur um lánastarfsemi Landsbókasafns á árabilinu 1972–92.
    
Á Töflu 19 sést, að tölur binda léðra á lestrarsali leika á bilinu frá 18.639 til 30.699. Tala gesta í lestrarsölum er lengstum á bilinu 12–14 þús. (sbr. Töflu 20), og hefur hinn takmarkaði lessætafjöldi eflaust sín áhrif á hana. Ekki er heldur alltaf sem skyldi gengið eftir því, að gestir skrifi nöfn sín í gestabók safnsins.
    
    


MYNDIR


    
Eins og sést á Töflu 21 sveiflast tölur um notkun handrita allnokkuð til, eru hæstar 1974, 4.883, en lægstar 1991, 1.615. Miðað við tölur frá tímabilinu 1947–71 hefur notkun handrita minnkað til muna, en sá samanburður er ekki raunhæfur, m.a. vegna annarrar aðferðar við talningu, svo og vegna ljósritunar, en algengt er að menn fái ljósrit handrita og hafi heim með sér, en vinni ekki úr þeim í safninu sjálfu. Auk þess hafa ýmis mikið notuð handrit, einkum ættfræðihandrit, verið ljósrituð og fengin gestum til nota í safninu í stað frumrita.
    
Unnið hefur verið að því í áföngum í fjölda ára að filma íslensk blöð og tímarit til þess að hlífa frumritunum og beina heldur gestum að filmulesvélum, er þeir læsu í þau blöð og tímarit, sem þegar hafa verið filmuð. Í Árbók Landsbókasafns 1989 er birt skrá um þau íslensk blöð og tímarit, sem til eru ýmist á filmum eða fisjum. Filmulesvélar á aðallestrarsal eru nú fjórar eins og áður segir, og eru þær nær stöðugt í gangi.
    
Við athugun á útlánum safnsins á tímabilinu 1947–1971 sést, að framan af voru léð árlega 3–4 þús. bindi til á 5. hundrað lántakenda. Þegar hins vegar var á 6. tugnum tekið fyrir útlán íslenskra rita, svo sem nauðsynlegt þótti, þvarr tala lántakenda og útléðra rita til mikilla muna. Eflaust hefur það haft sín áhrif, að hætt var 1982 að gefa út Samskrá um erlendan ritauka íslenskra rannsóknarbókasafna. Við tilkomu Gegnis aftur á móti komast miklu fleiri í samband við hinn erlenda ritakost Landsbókasafns. Tölur frá árinu 1992 sýna líka, að tala útléðra rita hefur aftur hækkað nokkuð. Útlánin hafa farið fram í tölvu frá hausti 1992.
    
Reynt hefur verið síðustu missiri að kynna gestum nýjar erlendar bækur með því að hafa þær til sýnis á bókavagni í aðallestrarsal.



MYNDIR

    
8.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Afgreiðslutími. Afgreiðslustaðir í aðalsafni eru tveir. Þeir eru opnir á virkum dögum kl. 9–19 yfir vetrarmánuðina, en kl. 9–17 í júní, júlí og ágúst. Sjálft lestrarrýmið í salnum á 2. hæð er hins vegar opið kl. 8–22 alla virka daga og um helgar eins og flestar lesstofur háskólans.
    
Útlán. Útlán voru 37.093 talsins árið 1992, þar af 10.044 í útibúum. Notkun rita á staðnum er ekki skráð, en beinn aðgangur er að um 100 þús. bindum í aðalsafni og yfir 70 þús. bindum í útibúum. Tölvuvæðing útlána hófst á miðju ári 1992. Þróun síðustu 10 ára sést á Töflu 24.
    
Millisafnalán. Hér er átt við útvegun bóka að láni eða útvegun ljósrita af greinum, bæði frá öðrum söfnum og til annarra safna. Fjöldi slíkra lána síðustu 10 ár sést á Töflu 25.
    
Háskólabókasafn er miðstöð fyrir millisafnalán hér á landi. Það felur í sér að erlendir aðilar geta snúið sér til safnsins um lán á íslenskum ritum eða útvegun ljósrita. Jafnframt gegnir safnið hlutverki landsmiðstöðvar gagnvart aðilum eins og The British Library.
    
Ljósritun. Safnið starfrækir þrjár ljósritunarvélar með sjálfsalakortum, sem notendur hafa aðgang að. Tvær eru staðsettar í aðalsafni, ein að Grensásvegi 12.
    
Notendafræðsla. Hér er annars vegar um að ræða frumkynningu þar sem bókavörður heimsækir stúdenta í kennslustund og býður jafnframt skoðunarferð í safnið. Hins vegar er framhaldsfræðsla og er þá kennd heimildaleit og nemendur látnir vinna ákveðin verkefni. Þátttakendur í safnkynningu voru 1.320 árið 1992.
    
Safndeildir. Safndeildir (útibú) voru við árslok 1992 samtals 16 og tvö geymslusöfn. Bókavörslu er haldið uppi í 4 útibúum tiltekinn tíma dag hvern. Annars er um að ræða umsjón sem fólgin er í reglubundnum eftirlitsferðum, t.d. einu sinni eða tvisvar í viku.
    
    


MYNDIR



    
Nýlega var gerður samningur við Bókasafn Landspítala um að það annaðist að hluta til bókasafnsþjónustu við læknadeild, einkum við námsbraut í hjúkrunarfræði. Í þessu skyni vinna tveir af starfsmönnum Háskólabókasafns í Bókasafni Landspítala, og þar er staðsettur hluti af ritum Háskólabókasafns í þessum greinum.
    
Lestrarhúsnæði. Í ýmsum byggingum háskólans bæði á háskólasvæðinu og utan þess eru lesstofur, misstórar, fyrir nemendur skólans. Árið 1992 var fjöldi þessara sæta samtals 739. Af þessum sætum eru 60 í húsnæði bókasafnsins í aðalbyggingu og auk þess hefur safnið umsjón með nokkrum lesstofum sem tengjast útibúum. En langflestar lesstofurnar eru á vegum annarra aðila í háskólanum.
    
Í 5. kafla: Húsnæði, eru nánari upplýsingar um safndeildir og lestrarhúsnæði.
    
9.0     Útgáfustarfsemi
    
9.1     LANDSBÓKASAFN

9.1.1     Árbók og Íslensk bókaskrá
    
Á árinu 1975 varð sú breyting á útgáfu árlegrar skrár um íslenskan ritauka, að hún var ekki lengur birt í Árbók safnsins, heldur gefin út sérstök, hin fyrsta 1975 um íslensk rit ársins 1974. Haldið var þó áfram útgáfu Árbókarinnar, efnt til nýs flokks, og kom Árbók 1975 út 1976 sem fyrsta bindi hins nýja flokks. Skýrsla landsbókavarðar um starfsemi safnsins á liðnu ári var birt í lok Árbókarinnar, enn fremur birtust í henni líkt og áður ýmsar greinar og þá einkum um íslenskar bókmenntir og bókfræði. Flestar greinarnar hafa verið eftir starfsmenn safnsins. Í Árbók 1977 var tekið að birta á ensku útdrátt úr efni hennar, það ár útdráttur úr efni fyrstu þriggja binda nýja flokksins, en síðan efni hverrar Árbókar fyrir sig.
    
Tvær svokallaðar samsteypuskrár Íslenskrar bókaskrár hafa verið gefnar út, hin fyrri 1985 um rit áranna 1974–1978 og hin síðari 1992 um rit áranna 1979–1983. Unnið er að útgáfu samsteypuskrár um rit áranna 1984–88.
    
    
9.1.2     Íslensk hljóðritaskrá
    
Árið 1980 var hafin útgáfa Íslenskrar hljóðritaskrár, þ.e. skrár um hljómplötur og aðrar tón- og talupptökur, er gefnar voru út á árinu 1979. Hefur slík skrá komið út árlega síðan, og fylgir hún Íslenskri bókaskrá.
    
9.1.3     Samskrár
    
Útgáfa Samskrár um erlendan ritauka íslenskra rannsóknarbókasafna, er hafin var haustið 1970, stóð ekki nema rúman áratug. Síðustu heftin, um erlendan ritauka ársins 1981, komu út 1982. Þátttökusöfnin voru þá orðin 14. Landsbókasafnið hafði ekki bolmagn til að halda skránni gangandi, enda hafði það 1978 jafnframt ráðist í útgáfu Samskrár um erlend tímarit í íslenskum bókasöfnum og stofnunum, er reyndist hið mesta nauðsynjaverk, þar sem nú fékkst fyrst heildaryfirlit um erlendan tímaritakost landsmanna. Tveimur árum síðar, 1980, var svo gefinn út viðauki við samskrána með nýjum færslum og leiðréttingum. Bókasöfn og stofnanir, sem lögðu til efni í skrána 1978, voru 86, og samanlagður fjöldi tímarita hjá þeim var 7.757. Af þeim voru 5.694 tímarit opin (þ.e. bárust enn í söfnin), en 2.063 lokuð (þ.e. hætt að berast).
    
2. útgáfa samskrárinnar um erlend tímarit kom út 1987 og 3. útgáfa 1990, og voru báðar tölvuunnar. 57 söfn og stofnanir lögðu til efni í 3. útgáfu, og var fjöldi tímarita þá orðinn 13.965. Af þeim voru 9.724 tímarit opin, þ.e. berast enn í söfnin. Fjöldi titla í samskránni var hins vegar minni, eða 10.289, þar sem allalgengt er, að sama ritið berist í tvö eða fleiri söfn.
    
Þótt erlendu tímaritin séu komin inn í Gegni og menn geti slegið þeim upp þar, er í athugun að gefa samskrána enn út á prenti, svo að sem flestum veitist aðgangur að henni.
    
9.1.4     Handritaskrár
    
Þriðja aukabindi skrár um handritasafn Landsbókasafns kom út 1970, og eru handritanúmerin í því 1.303.
    
Unnið er nú að útgáfu 4. aukabindis skrárinnar, um handritaaukann 1970–1990, en undirbúningur þess verks var kominn vel á veg, þegar Grímur M. Helgason, deildarstjóri handritadeildar, féll frá í desember 1989. Nokkur hluti skrárinnar hefur þegar verið settur í prentsmiðju.
    
9.1.5     Rit prentuð á Íslandi frá upphafi til 1844
    
Skrá þeirri hinni miklu um rit íslenskra manna frá upphafi prentlistar á Íslandi og fram til 1844, er ráðgerð var þegar á 5. tugnum og hörð hríð var gerð að á 7. og 8. tugnum, og komin var að mestu í próförk, varð ekki fram haldið, svo sem vonir stóðu til, heldur horfið frá útgáfu hennar. Hvort tveggja var, að sá, sem mest vann að verkinu í seinustu lotunni, var ekki sáttur við tilhögun þess, og brýn verkefni, svo sem skráning samtímaritanna, knúðu fast á. Verður nú ekki séð, hvenær safnið kemur frá sér á prenti skrá um rit íslenskra manna á hinum eldri skeiðum, en hin mikla skrá er varðveitt og mun reynast traustur stofn, verði í verkið ráðist að nýju.
    
    
9.1.6     Íslensk rit í frumgerð
    
Á yfirlitinu um árin 1947–1971 var greint frá útgáfu ritflokks, er nefndist Íslensk rit í frumgerð og Landsbókasafn hratt af stað 1967, fyrst í samvinnu við Endurprent sf. og síðar Lithoprent. Þegar hið síðara hætti starfsemi, keypti Valdimar Jóhannsson í Iðunni upplag þeirra þriggja rita, er út voru komin, og stóð til, að Iðunn gæfi út 4. verkið, Lijtid ungt Støfunar Barn, eftir sr. Gunnar Pálsson með formála Gunnars Sveinssonar skjalavarðar, á tveggja alda afmæli ritsins frá 1782. Ljósprentunin var þá tilbúin, en segja má, að Iðunn hafi naumast enn hleypt ritinu út. Ekki er fyrirsjáanlegt, að haldið verði í bráð áfram útgáfu þessa ritflokks.
    
    
9.1.7     Skrá um íslensk blöð og tímarit
    
Eitt er það verkefni, er mjög hefur legið eftir hin síðari ár, og það er að taka saman og birta skrá um íslensk blöð og tímarit allt frá og með árinu 1974. En fyrir þann tíma kom slík skrá út í skránni um íslensk rit, er birt var ár hvert í Árbók safnsins. Að vísu hefur skrá um ný blöð og tímarit hvers árs verið birt i Íslenskri bókaskrá síðan 1979.
    
Landsbókasafn fékk 1988 nýja stöðu, er í var ráðinn starfsmaður gagngert til að sinna þessu verkefni. Mikið hefur þegar áunnist, þótt enn sé nokkuð í það, að slík skrá komist út.
    
9.1.8     Önnur rit
    
Árið 1986 kom út Vesturheimsprent, skrá um rit á íslensku prentuð vestan hafs og austan af Vestur-Íslendingum eða varðandi þá. Ólafur F. Hjartar deildarstjóri tók skrána saman.
    
Árið 1991 kom út á vegum Landsbókasafns ritið Ísland í skrifum erlendra manna um þjóðlíf og náttúru landsins, ritaskrá eftir dr. Harald Sigurðsson, fyrrum bókavörð og seinast deildarstjóra í Landsbókasafni.
    
Á Töflu 26 er brugðið ljósi á kostnaðarhlið útgáfustarfseminnar eftir því sem auðið verður, bæði útlagðan kostnað og tekjur af sölu ritanna.
    
    
Tafla 26     Kostnaðarhlið útgáfustarfsemi Landsbókasafns




TAFLA




    
9.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
9.2.1     Ársskýrsla Háskólabókasafns
    
Stuttar greinargerðir um starfsemi safnsins birtust frá upphafi í Árbók Háskóla Íslands. Ársskýrsla Háskólabókasafns birtist fyrst sem sjálfstætt rit árið 1970 (fyrir 1969) og hefur komið út árlega síðan. Útdrættir úr ársskýrslunum, venjulega tveimur til þremur í senn, birtast í Árbók H.Í.
    
Ársskýrslan er sett og brotin um í safninu. Upplag er 700 eintök. Prentun Ársskýrslu 1991 (pr. 1992) kostaði kr. 112.050. Skýrslunni er einkum dreift til starfsmanna háskólans og bókasafna innan lands og utan.
    
9.2.2     Kynningarefni
    
Safnið gefur út fjölda kynningarbæklinga á ári, stundum svo tugum skiptir. Um er að ræða upplýsingar um safnið og þjónustu þess, leiðbeiningar um heimildaöflun, gagnasöfn o.s.frv. Bæklingunum er dreift ókeypis, m.a. við innritun stúdenta og í tengslum við notendafræðslu.
    
Sambærilegt efni eftir starfsmenn safnsins birtist reglulega í Fréttabréfi Háskóla Íslands.
    
Safnið gefur út fréttabréf um starfsemi sína, og er það aðallega til innan húss nota. Kemur það út mánaðarlega. Í samvinnu við Landsbókasafn gefur safnið enn fremur út Gegnismál, fréttabréf um tölvukerfið Gegni. Það kemur út einu sinni á ári.
    
Safnið hefur ekki litið á það sem hlutverk sitt að standa fyrir umfangsmikilli útgáfustarfsemi. Hins vegar hafa starfsmenn þess samið eða ritstýrt fjölda bókfræðirita og rita um bókasafnsmál, sem aðrir hafa gefið út.
    
10.0     Sýningar
    
10.1     LANDSBÓKASAFN
    
Segja má, að sýningar séu fastur þáttur í starfsemi safnsins. Eru þær að jafnaði haldnar í anddyri Safnahússins. Er efnið haft í sýningarborðum, venjulega fjórum stærri borðum (150 x 66 sm) og tveimur minni (146 x 50 sm), en jafnframt er efni stundum komið fyrir á veggjum.
    
Einkum er með sýningum minnst merkra áfanga og stórafmæla. Af dæmum frá allra síðustu árum má nefna tveggja alda afmæli Rasmusar Rask (1987) og Sveinbjarnar Egilssonar (1991), aldarártíð Jóns Árnasonar (1988) og Guðbrands Vigfússonar (1989), níræðisafmæli Halldórs Laxness (1992), en sjötugsafmælis (1972) og útkomu fyrstu bókar hans, Barns náttúrunnar, var einnig minnst (1989), jafnframt því sem af hjúpuð var þá brjóstmynd skáldsins eftir norskan listamann, er menntamálaráðuneytið gaf Þjóðarbókhlöðu, en standa mun fyrst um sinn í anddyri Safnahússins.
    
Aldarafmælis danska bókaútgefandans og Íslandsvinarins Ejnars Munksgaard var minnst með sýningu 1990. Þá var efnt til sýningar sumarið 1992 til heiðurs bókaútgefandanum og bókagerðarmanninum Hafsteini Guðmundssyni áttræðum.
    
Venja hefur verið að setja upp á sumrin handritasýningu, einkum ætlaða ferðamönnum, og eru skýringar þá hafðar bæði á íslensku og ensku. Stundum er efni úr Landsbókasafni léð til sýninga í öðrum stofnunum, jafnvel til annarra landa.
    
10.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
    Safnið stendur ekki fyrir sýningum af því tagi sem tíðkaðar eru í Landsbókasafni. Sýningar hafa þó verið haldnar vegna sérstakra áfanga í sögu safnsins, opins húss í háskólanum og ekki síst bókagjafa, sem safninu hafa borist.
    
    
11.0     Bókband
    
11.1     LANDSBÓKASAFN
    
Safnið starfrækir bókbandsstofu með þremur og hálfum starfsmanni, auk þess sem það sendir stöku sinnum rit til bands utan safns. Slík viðskipti námu t.d. 160 þús. kr. árið 1991.
    
Kostnaður við rekstur bókbandsstofunnar árið 1992 kemur fram á Töflu 27. Efniskaup hafa að jafnaði numið um 200 þús. kr. á ári.
    
    
Tafla 27     Landsbókasafn: Rekstur bókbandsstofu 1992
    
    

TAFLA


    
11.2     HÁSKÓLABÓKASAFN
    
Bókbandskostnaður árið 1992 var 1.8 Mkr. Á því ári voru bundnar 786 bækur, sbr. Töflu 28. Hér er um að ræða aðkeypta bókbandsvinnu, enda rekur safnið ekki bókbandsstofu.
    
    
    
MYND     
    
    
    
12.0     Myndastofa
    
Landsbókasafn hefur lengi starfrækt eigin myndastofu. Auk þess að sinna myndgerð og örfilmun í þágu safnsins sjálfs og að nokkru Þjóðskjalasafns, gerir stofan eftirmyndir af gögnum í safninu fyrir notendur gegn gjaldi.
    
Kostnaður við rekstur myndastofu árið 1992 var svo sem frá er greint á Töflu 29.
    
    
    
    
    
Tafla 29.     Landsbókasafn: Rekstur myndastofu 1992
    

TAFLA



13.0     Alþjóðlega bóknúmerakerfið
         
Ákveðið var 1989, að svæðisskrifstofu fyrir ISBN-kerfið (International Standard Book Number) yrði haldið uppi innan Þjóðdeildar Landsbókasafns. Félag íslenskra bókaútgefenda hafði þegar 1979 mælst til þess, að safnið beitti sér í þessu máli. Um skeið lét bókafulltrúi ríkisins málið til sín taka.
    
Sem lið í undirbúningi þýddi landsbókavörður handbók um kerfið, er út kom 1990. Einnig var gerður í safninu bæklingur, þar sem helstu reglur um kerfið voru kynntar í styttra máli. Tölumerking rita samkvæmt kerfinu hófst á Íslandi í mars 1990 og hefur síðan komist á mjög góðan rekspöl. Skrifstofan sér enn fremur um útvegun alþjóðlegra tímaritanúmera (ISSN - International Standard Serial Number) frá alþjóðlegu skrifstofunni í París, en aðalstöðvar bóknúmerakerfisins eru í Berlín.
    
14.0     Samvinnu- og þróunarverkefni
    
Samstarfsnefnd um upplýsingamál, sjö manna nefnd skipuð af menntamálaráðherra, starfaði árin 1979–90. Hún sinnti margvíslegum málefnum í þágu rannsóknarbókasafna og upplýsingamiðlunar og var auk þess landsnefnd gagnvart erlendum aðilum. Landsbókavörður var formaður nefndarinnar 1979–82, en háskólabókavörður síðan. Aðstoðarháskólabókavörður var ritari nefndarinnar allan starfstíma hennar. Vinnunni lauk með álitsgerð til ráðuneytis og útgáfu bókarinnar Upplýsingar eru auðlind.
    
Starfsmenn safnanna hafa á undanförnum árum haft á hendi forystu fyrir nefndum, sem unnið hafa að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum og útgáfu handbóka um efnisgreiningu og skráningu rita.
    
Í útgáfu hinna margvíslegu skráa Landsbókasafns er fólgin mikil þjónusta við önnur söfn, bæði innan lands og utan. Auk þess hefur Landsbókasafn um langt árabil látið Þjónustumiðstöð bókasafna í té færslur íslenskra rita, er stöðin nýtti síðan til framleiðslu spjalda og seldi íslenskum söfnum. Þá er óspart leitað til safnsins og mest þjóðdeildar þess um hvers konar upplýsingar varðandi skráningu rita og íslenska bókaútgáfu. Þessir þættir eru nú leystir með nýjum og öflugri hætti en áður fyrir tilstyrk þeirra gagnasafna, sem byggjast upp í Gegni.
    
Umfangsmesta þróunarstarf Landsbókasafns og Háskólabókasafns næstliðinn aldarfjórðung hefur þó tengst byggingu Þjóðarbókhlöðu og fyrirhugaðri sameiningu safnanna í því húsi. Landsbókavörður hefur verið formaður byggingarnefndar frá upphafi, 1970, og bæði hann, háskólabókavörður og fleiri forráðamenn safnanna hafa verið þátttakendur í margvíslegum nefndarstörfum vegna málsins. Háskólabókavörður var vegna þessa í leyfi að hálfu frá daglegum störfum við safnið mánuðina maí til desember 1987 og að fullu frá 1. febrúar 1992. Á þessum tíma og endranær hefur vinna hans að málinu verið fólgin í athugun erlendra rita og skýrslna, könnunarferðum erlendis, ritun forsagna fyrir hönnuði og skilgreiningum vegna sameiningar safnanna. Upp á síðkastið hafa fleiri starfsmenn safnanna komið að þessu máli en áður, m.a. í formi starfshópa.
    
    
    
15.0     Rekstur og fjárhagsmál
    
Á Töflum 30–31 er greint frá rekstrarkostnaði hvors safns um sig á árinu 1992. Þar sést m.a., að einstakir kostnaðarliðir vega mjög misþungt í söfnunum, og á það sér að nokkru eðlilegar skýringar, þar sem hlutverk safnanna er í ýmsu ólíkt.
    
Á Töflu 32 kemur m.a. fram hlutfall milli meginþátta í sameiginlegum rekstrarkostnaði safnanna að slepptum sértekjum og húsnæðiskostnaði. Þar sést, að launagjöld nema rúmlega helmingi kostnaðar, aðföng (bækur, tímarit og annað safnefni) rúmlega fjórðungi og önnur gjöld tæplega fimmtungi. Vert er að vekja athygli á því, að aðöng eru ekki rekstrarkostnaður í strangasta skilningi, heldur er um fjárfestingu eða eignamyndun að ræða.
    
Niðurstöðutalan á Töflu 32 sýnir, að heildarkostnaður safnanna að frádregnum sértekjum, en að húsnæðiskostnaði meðtöldum, er rúmlega 154 Mkr. Það er sú grunntala, sem miða ber við, þegar rætt er um raunverulegan kostnað þessara stofnana síðustu árin fyrir sameiningu þeirra.
    
    
         
Tafla 30.     Rekstrarkostnaður Landsbókasafns 1992


TAFLA
    
    
Tafla 31.     Rekstrarkostnaður Háskólabókasafns 1992
    
    
    
TAFLA     
    
    
Tafla 32     Heildarkostnaður Landsbókasafns og Háskólabókasafns 1992
    


Ritaskrá


    
Einar Sigurðsson: Háskólabókasafnið 25 ára. (Lesbók Morgunblaðsins 8. tbl. 1966, s. 1- 2, 12-13.

— Háskólabókasafn í hálfa öld. (Lesbók Morgunblaðsins 38. tbl. 1990, s. 7–8.)

Finnbogi Guðmundsson : Úr sögu Safnahússins við Hverfisgötu. (Árbók Landsbókasafns 1980, s. 5–23.)

— Landsbókasafn Íslands 150 ára. (Árbók Landsbókasafns 1987, s. 5–24.)

Gegnismál — Fréttabréf um tölvukerfið Gegni. 1.— Rv. 1991– .

Guðni Jónsson: Saga Háskóla Íslands. Yfirlit um hálfrar aldar starf. Rv., Háskóli Íslands, 1961.

Háskólabókasafn, Ársskýrsla 1969– . Rv. 1970– . [Útdrættir úr ársskýrslunum, venjulega      tveimur til þremur í senn, birtast í Árbók Háskóla Íslands.]

Háskólabókasafn 1940–1990. Rv. 1990. [Kynningarbæklingur vegna fimmtíu ára afmælis safnsins.]

Hrefna Björg Þorsteinsdóttir: Safnahúsið við Hverfisgötu. (Vetrarvirki. Björn Th. Björnsson listfræðingur sjötugur 3. september 1992. Rv., Mál og menning, 1993, s. 293–300.)

Jón Jacobson: Landsbókasafn Íslands 1818–1918. Minningarrit. Rv. 1919–20.

Landsbókasafn Íslands, Árbók 1944–1974. 1.–31. ár. Rv. 1945–1975.

Landsbókasafn Íslands, Árbók 1975– . Nýr flokkur, 1.– ár. Rv. 1976– . [Meðal efnis í árbókum safnsins, bæði eldri flokki og yngri, hefur jafnan verið skýrsla landsbókavarðar um starfsemina á liðnu ári.]

Maurice B. Line: The changing role of Nordic academic, research and special libraries. Esbo, NORDINFO, 1992.

NORDINFO NYTT, 1993: 1 – Temanummer. [Yfirlitsgreinar um rannsóknarbókasöfn í hverju Norðurlandanna um sig; Einar Sigurðsson ritaði íslenska kaflann.]

Páll Eggert Ólason: Landsbókasafnið. Stutt yfirlit. (Árbók Landsbókasafns 1944, s. 45–     78.)

Páll Sigurðsson: Úr húsnæðis– og byggingarsögu Háskóla Íslands. Heimildir um hugmyndir, aðdraganda og framkvæmdir fram yfir 1940. Rv., Háskóli Íslands, 1986.

    Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands. Draumsýnir, framkvæmdir og svipmyndir af háskólasamfélagi 1940–1990. Rv., Háskóli Íslands, 1991.

Upplýsingar eru auðlind. Greinar um upplýsingastarfsemi í þágu vísinda og mennta. Rv., Samstarfsnefnd um upplýsingamál, 1990. [24 greinar eftir 17 höfunda.]