Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1313, 117. löggjafarþing 199. mál: áburðarverksmiðja ríkisins.
Lög nr. 89 24. maí 1994.

Lög um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti Áburðarverksmiðjan hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja Áburðarverksmiðju ríkisins, þ.e. verksmiðjuna sjálfa ásamt öllu fylgifé hennar, til hins nýja hlutafélags.
     Landbúnaðarráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins. Nefnd, sem ráðherra skipar, skal meta eignir og skuldir verksmiðjunnar. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags.

2. gr.

     Tilgangur félagsins skal vera að framleiða og selja áburðarefni, svo og önnur starfsemi samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

3. gr.

     Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa í félaginu við stofnun þess. Landbúnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu. Honum er heimilt að selja öll hlutabréf í félaginu eða hluta þeirra.

4. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, gilda ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 115. gr. sömu laga gilda ekki um tölu hluthafa. Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um félagið.

5. gr.

     Hlutabréf í félaginu, útgefin í tengslum við stofnun þess, skulu undanþegin stimpilgjöldum. Að öðru leyti greiðir félagið opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.

6. gr.

     Fastráðnum starfsmönnum Áburðarverksmiðju ríkisins skal boðið sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

7. gr.

     Stjórn hlutafélagsins skulu skipa fimm menn, kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, svo og jafnmargir varamenn þeirra.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Áburðarverksmiðjan hf. yfirtekur eignir og rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins 1. júlí 1994 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 43/1971, um Áburðarverksmiðju ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Áburðarverksmiðjan hf. skal hafa á hendi einkasölu á tilbúnum áburði og er engum öðrum en henni heimilt að framleiða né flytja hingað til landsins tilbúinn áburð. Þetta ákvæði fellur úr gildi þegar ríkissjóður hefur selt meiri hluta hlutafjár í félaginu, þó eigi síðar en 1. janúar 1995.
II.
     Ábyrgð ríkissjóðs á lánssamningum Áburðarverksmiðju ríkisins, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara, helst til loka samningstíma umræddra skuldbindinga. Áburðarverksmiðjan hf. skal yfirtaka skuldbindingar Áburðarverksmiðju ríkisins samkvæmt þessum lánssamningum við stofnun og jafnframt veita ríkissjóði fullnægjandi veð í eignum sínum sem tryggingu fyrir skaðleysi ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 1994.