Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:34:26 (3555)

1996-03-05 16:34:26# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:34]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Mér fannst þegar ég heyrði ræður þeirra tveggja ágætu þingmanna sem hafa tekið til máls á undan mér að þær hafi verið samdar áður en ráðherra svaraði vegna þess að það er að sönnu rétt að (Gripið fram í: Ég er hræddur um að það svar hafi verið áður líka ...) og að efni utandagskrárumræðunnar, það er ástæða til þess. Hins vegar hefur það komið fram í svari ráðherra að unnið er að því að lækka útgjöld þessa fólks sem nemur skerðingunni og jafnvel gott betur því að það er alveg rétt hjá hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni, að verðlagið skiptir einnig máli. Það ættum við kannski að hafa í huga á fleiri sviðum því að auðvitað miða aðgerðir okkar á miklu fleiri sviðum að því að halda verðlagi í landinu niðri og það skiptir máli fyrir þetta fólk eins og aðra.

Hins vegar er ljóst að hér er um það að ræða að skerða heimildarbætur og það leiðir hugann að skipulagi þessara mála yfirleitt og skipulagi Tryggingastofnunar hvort ekki er rétt að færa hluta af verksviði Tryggingastofnunar til sveitarfélaga að þessu leyti, að Tryggingastofnun hafi það hlutverk að vera öryggisnet en að sveitarfélögin annist í ríkari mæli einstaklingsbundin málefni. Ég held að það væri þarfara að ræða þetta erfiða mál á þeim nótum en að flytja þessa tilfinningaþrungnu heimastíla sem hafa verið fluttir á undan ræðu minni.