Fjárreiður ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 17:44:47 (6148)

1996-05-15 17:44:47# 120. lþ. 138.11 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[17:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess að það hefði verið mjög gott að hlusta á fyrstu ræðurnar. Það komu fram rök sem maður hlustaði á að sjálfsögðu. En þegar haldnar eru 40 ræður að meðaltali tæpur klukkutími á lengd, þá fara rökin að endurtaka sig aftur og aftur og aftur og þá fer athyglin að dofna. Það var það sem ég átti við. Ég sagðist ekkert hafa óttast um neina geðheilsu. Ég sagðist hafa óttast um mína vitsmunalegu heilsu að vera að hlusta aftur og aftur á sömu rökin. Mér finnst það alveg óþarfi. Menn geta bara vísað í það að einhver annar þingmaður hafi komið með áður í stað þess að vera að tyggja þau aftur og aftur. Það þarf ekki að segja þetta svona oft nema menn búist við því að enginn hlusti. Það er það sem ég átti við.

Í 40 ræðum voru kannski svona 10--20 atriði sem menn voru að ræða. Það er óþarfi að tala um það í 40 ræðum. Það er það sem ég átti við. Menn geta ekki búist við því að fólk fjölmenni á fund til þess að hlusta á svona útþynntar ræður. Sumar ræðurnar voru virkilega útþynntar. Það liðu kannski tíu mínútur eða kortér áður en einhver punktur kom í ræðuna hjá sumum hv. þm. Ég get bara farið með hv. þm. í gegnum þær ræður sem þannig er ástatt með. Aðrar voru virkilega góðar og ég geri ráð fyrir að flestir hafi lagt mikla vinnu í þetta. En það er óþarfi að koma í 40 ræðum alltaf með sömu rökin. Það er óþarfi. Það er það sem ég átti við.