Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 22:21:15 (6684)

1996-05-28 22:21:15# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[22:21]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram að nefndin sem samdi framhaldsskólafrv. samdi líka grunnskólafrv. og skilaði frá sér ítarlegri skýrslu um grunn- og framhaldsskólann. Það er því alveg ljóst að menn hafa verið að skoða þessi mál í fullu samhengi.

Það var spurt um hvað það væri sem tryggði að það yrði aukning eða fjölbreyttara starfsnám í framhaldsskólanum samkvæmt þessu frv. Það er fullljóst að í þessu frv. er verið að opna leiðir til þess að efla starfsnámið. Það er einmitt lögð mjög mikil áhersla á fjölbreytni þess, að það þurfi að verða miklu meira og fjölbreyttara. Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á stuttar starfsnámsbrautir og að byggja þurfi þær upp með miklu markvissari hætti en hefur verið gert til þessa. Það veltur síðan gríðarlega mikið á framkvæmdinni, ef þetta frv. verður að lögum, hvort okkur tekst að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Við höfum hvergi farið þá leið að koma með útfærslur á því hvar eigi að bera niður, hvar það er nákvæmlega sem eiga að koma nýjar starfsnámsbrautir, en við bentum vissulega á ýmis svið í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu.