Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


    
1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 249 . mál.


371. Frumvarp til lagaum umgengni um auðlindir sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafaþingi 1995.)I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Markmið laga þessara er að bæta umgengni um auðlindir sjávar og stuðla að því að þær verði nýttar með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina.
    

II. KAFLI

Veiðar.

2. gr.

    Skylt er að hirða og koma með að landi allan afla. Þó getur ráðherra ákveðið með reglugerð að sleppa skuli lifandi fiski sem er undir tiltekinni lengd og fæst í ákveðin veiðarfæri.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefði verið unnt að komast hjá á þeim veiðum sem um er að ræða. Þá er heimilt að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi. Loks er heimilt að varpa fyrir borð innyflum, hausum, afskurði og öðru sem fellur til við verkun eða vinnslu um borð enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti. Um skyldur varðandi skip sem leyfi hafa til fullvinnslu um borð fer eftir ákvæðum laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.
    

3. gr.

    Bátum undir 20 brúttótonnum að stærð er óheimilt að stunda veiðar með þorskfisknetum frá 1. nóvember til febrúarloka. Liggi brúttótonnamæling á báti ekki fyrir skal miðað við 20 brúttórúmlestir.
    

4. gr.

    Fiskistofa skal fylgjast með aflasamsetningu fiskiskipaflotans þannig að jafnan liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um aflasamsetningu skipa eftir stærð og gerð skips, gerð og búnaði veiðarfæra, veiðislóð og veiðitíma. Skal Fiskistofa taka saman og birta árlega yfirlit yfir aflasamsetningu fiskiskipaflotans á liðnu fiskveiðiári.
    Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflamarki nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, jafnt þeirri tegund eða þeim tegundum sem veiði beinist sérstaklega að sem og líklegum meðafla af öðrum tegundum.
    

5. gr.


    Net og önnur veiðarfæri, sem skilin eru eftir í sjó, skulu dregin með eðlilegum og reglubundnum hætti eftir því sem aðstæður leyfa.
    Fiskistofu er heimilt að taka eða láta taka upp veiðarfæri sem ekki hefur verið vitjað með eðlilegum hætti. Sama á við um veiðarfæri sem liggja í sjó eftir að veiðitímabili lýkur, svo og veiðarfæri sem eru ólögleg eða eru á svæðum þar sem notkun þeirra er óheimil.
    Fiskistofa skal krefja eigendur veiðarfæra, sem dregin eru úr sjó samkvæmt heimild í 2. mgr., um kostnað sem af því hlýst. Verði ekki upplýst hver er eigandi veiðarfæra er Fiskistofu heimilt að selja veiðarfærin og rennur andvirði þeirra að frádregnum kostnaði til Hafrannsóknastofnunarinnar.
    

III. KAFLI

Vigtun sjávarafla.

6. gr.

    Öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum enda sé hann seldur á opinberum fiskmörkuðum þar sem vigtunaraðferðir og eftirlit er viðurkennt af Fiskistofu. Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að bræðslufiski sé landað í fiskimjölsverksmiðjur erlendis, enda sé eftirlit með löndun og vigtun afla talið fullnægjandi. Þegar sérstaklega stendur á t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar, getur Fiskistofa heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis. Skal slíkt leyfi bundið því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða kostnað vegna annarra sambærilegra eftirlitsaðgerða sem Fiskistofa telur nauðsynlegar.
    

7. gr.

    Allur afli skal veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Skal við vigtunina nota löggilta vog. Vigtun skal framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hefur til þess löggildingu. Sé hafnarvog ekki í verstöð eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur Fiskistofa tímabundið leyft vigtun með öðrum hætti.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Fiskistofa veitt einstökum aðilum leyfi til vigtunar án þess að afli sé veginn á hafnarvog að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á löndunarstað. Slíkt leyfi skal því aðeins veitt að veruleg vandkvæði séu á því að vega aflann á hafnarvog, eftirlit hafnar sé nægilegt og innra eftirlit þess aðila sem í hlut á sé traust, auk þess sem vigtunarbúnaður sé löggiltur og vigtun framkvæmd af löggiltum vigtarmanni.
    Fiskiskipum skal óheimilt að landa sjávarafla í öðrum höfnum en þeim sem sjávarútvegsráðuneytið heimilar og uppfylla kröfur um aðstöðu og eftirlit sem nánar skal kveðið á um í reglugerð. Sjávarútvegsráðherra er heimilt að veita aðlögunartíma að þessu ákvæði til allt að tveggja ára.
    

8. gr.

    Löggiltir vigtarmenn er vigta sjávarafla skulu gæta þess að fara í hvívetna eftir reglum um framkvæmd vigtunar, skráningu upplýsinga og skil á þeim.
    

9. gr.

    Eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum hafnaryfirvalda er heimill aðgangur að fiskiskipum, flutningstækjum, fiskverkunum og birgðageymslum sem nauðsynlegur er til að vigta sjávarafla eða hafa eftirlit með vigtun hans. Hafnaryfirvöld skulu senda Fiskistofu jafnharðan upplýsingar um landaðan afla í því formi sem ráðherra ákveður með reglugerð.
    Ráðuneytið skal að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og Hafnasamband sveitarfélaga kveða nánar á um það í reglugerð hvernig afli skuli veginn og upplýsingum um landað aflamagn safnað.
    

10. gr.

    Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki komið við vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Skipstjóra fiskiskips er skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega. Ákveði ráðherra á grundvelli laga um stjórn fiskveiða að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki skal undirmálsfiski haldið aðgreindum frá öðrum afla um borð og hann veginn sérstaklega. Skipstjóra ber að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns.
    Skipstjórar fiskiskipa skulu halda sérstaka afladagbók sem Fiskistofa leggur til. Þá er skipstjórum skipa sem vinna afla um borð skylt að halda um vinnslu aflans sérstaka vinnsludagbók sem Fiskistofa leggur til.
    

11. gr.

    Ökumaður flutningstækis er flytur afla frá skipshlið skal kynna sér samsetningu farmsins eins og kostur er og gefa vigtarmanni upplýsingar um hann. Ökumanni er óheimill annar akstur með óveginn afla en stystu leið frá skipshlið að hafnarvog, að undanteknum þeim tilvikum þegar Fiskistofa hefur veitt undanþágu frá vigtun á hafnarvog, sbr. 2. mgr. 7. gr.

12. gr.

    Starfsmenn hafnarvoga skulu sannreyna að uppgefin tegund vigtaðs afla sé rétt með beinni skoðun úrtaks úr lönduðum afla. Sama á við varðandi afla sem gefinn er upp sem undirmálsafli. Skulu þeir með reglubundnum hætti gefa Fiskistofu yfirlit yfir framkvæmdar úrtaksskoðanir og niðurstöður þeirra.
    

13. gr.

    Kaupandi afla skal ganga úr skugga um að afli sem hann tekur við hafi verið veginn samkvæmt gildandi reglum um vigtun sjávarafla.
    Kaupandi afla skal fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla í því formi og með þeim hætti er ráðuneytið ákveður.
    

IV. KAFLI

Framkvæmd og viðurlög.

14. gr.

    Fiskistofa og eftirlitsmenn í hennar þjónustu annast eftirlit með framkvæmd laga þessara. Getur Fiskistofa enn fremur leitað aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslunnar í því skyni.
    Heimildir Fiskistofu og eftirlitsmanna samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða gilda um eftirlit samkvæmt lögum þessum.
    

15. gr.

    Fiskistofa skal svipta hvert það skip leyfi til veiða í atvinnuskyni sem veitt hefur umfram aflamark. Veita skal skipi leyfi að nýju ef aflamark þess á fiskveiðiárinu er aukið þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan aflamarksins.
    Nú veiðir skip ítrekað umfram aflamark á sama fiskveiðiári og skal þá svipta það leyfi til veiða í atvinnuskyni, til viðbótar því sem segir í 1. mgr., í tvær vikur við fyrstu ítrekun, í sex vikur við aðra ítrekun en til loka fiskveiðiárs við þriðju ítrekun, þó aldrei skemur en tólf vikur.
    Áður en skip er svipt leyfi samkvæmt 1. og 2. mgr. skal Fiskistofa, að jafnaði þegar veitt hefur verið eða aflamarki ráðstafað þannig að einungis standi eftir einn tíundi hluti eða minna af aflamarki af einhverri tegund sem skipi var úthlutað í upphafi fiskveiðiárs, tilkynna útgerð skips að til leyfissviptingar kunni að koma. Skal útgerð þá jafnframt gefinn kostur á að kynna sér gögn er málið varðar og koma athugasemdum sínum á framfæri.

16. gr.

    Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara.
    Við fyrsta brot skal leyfissvipting ekki standa skemur en tvær vikur og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en sex vikur og ekki lengur en eitt ár.
    

17. gr.

    Hafi skip ítrekað verið svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni samkvæmt 15. og 16. gr. laga þessara getur Fiskistofa ákveðið að veiðieftirlitsmaður skuli vera um borð á kostnað útgerðar í tiltekinn tíma, allt að tveimur mánuðum. Skal útgerð skips þá greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanns um borð þar með talinn launakostnað.
    

18. gr.

    Fiskistofa skal afturkalla leyfi til vigtunar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ef hlutaðeigandi aðili, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim kafla.
    

19. gr.

    Ákvörðunum Fiskistofu samkvæmt þessum kafla verður skotið til sjávarútvegsráðuneytis enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra samkvæmt þessari grein frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    

20. gr.

    Sjávarútvegsráðuneytinu er heimilt, að fengnum tillögum Fiskistofu, að svipta uppboðsmarkað fyrir sjávarafla rekstrarleyfi samkvæmt lögum um það efni ef markaður eða þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt honum.
    

21. gr.

    Ákvarðanir stjórnvalda samkvæmt þessum kafla má bera undir dómstóla. Slíkt málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

22. gr.

    Fiskistofa skal reglulega birta opinberlega upplýsingar um sviptingu veiðiheimilda samkvæmt þessum kafla. Skal þar tilgreina heiti skips, skipaskrárnúmer, útgerð skips, tilefni leyfissviptingar og til hvaða tímabils svipting nái. Þá skulu birtar opinberlega ákvarðanir um afturköllun heimilda samkvæmt 18. og 20. gr. laga þessara.
    

23. gr.

    Upplýsingar um aflahlutdeild einstakra skipa, úthlutun aflamarks til þeirra, afla einstakra skipa og ráðstöfun aflaheimilda eru opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að. Fiskistofa skal reglulega birta upplýsingar um þau skip sem veitt hafa umfram aflaheimildir. Þá skal Fiskistofa árlega birta upplýsingar um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla á liðnu fiskveiðiári.
    

24. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.
    Við fyrsta brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 krónum og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 krónum eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 800.000 krónum og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 krónum, sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.
    Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota gegn lögum þessum eftir því sem við á.
    

25. gr.

    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 24. gr. má ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga, sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð, eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

26. gr.

    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    

V. KAFLI

Breyting á lögum nr. 38, 15. maí 1990,

um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

27. gr.

    Ákvæði 19. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir brot á lögum þessum, eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um auðlindir sjávar.
    

28. gr.

    Ákvæði 20. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.
    Við fyrsta brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 krónum og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 krónum eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 800.000 krónum og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 krónum, sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.
    Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota gegn lögum þessum eftir því sem við á.
    

29. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 20. gr. a, er orðast svo:
    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 20. gr. má ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga, sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð, eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    

30. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 20. gr. b, er orðast svo:
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

31. gr.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.
    

32. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 16. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 11. gr. laga nr. 36/1992 og 10. gr. laga nr. 87/1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Auðlindir sjávar eru sameign þjóðarinnar sem verður að nýta þannig að þær gefi sem mestan arð. Tæp 80% af útflutningstekjum Íslendinga eru af sjávarafurðum. Góð umgengni um þessar auðlindir er því augljóslega eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar. Upplýsingar um afla og aflasamsetningu eru mikilvægasta forsendan sem fiskifræðingar styðjast við þegar lagt er mat á ástand stofna og afrakstursgetu þeirra. Ráðgjöf fiskifræðinga er sá þáttur sem vegur þyngst þegar tekin er ákvörðun um leyfilegan hámarksafla. Rangar eða ónákvæmar upplýsingar um afla leiða óhjákvæmilega til ónákvæmni í útreikningi varðandi ástand fiskstofna, og þar með eykst hættan á að of nærri þeim verði gengið.
    Sjávarútvegsráðherra skipaði nefnd í maímánuði 1994 til að fjalla um hvernig megi bæta umgengni um auðlindir sjávar. Samstarfsnefnd um bætta umengni um auðlindir sjávar var meðal annars falið að meta í hve miklum mæli sjávarafla er varpað fyrir borð á íslenskum skipum og hvernig auka megi kjörhæfni veiðarfæra svo og að kanna með hvaða hætti megi bæta nýtingu aukaafla og enn fremur hvernig bæta megi virkni veiðieftirlits. Í nefndinni eiga eftirtaldir aðilar sæti: Guðjón A. Kristjánsson, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmundur Karlsson, Fiskistofu, Guðni Þorsteinsson, Hafrannsóknastofnun, Helgi Laxdal, Vélastjórafélagi Íslands, Kristján Þórarinsson, Landssambandi íslenskra útvegsmanna (formaður), Snorri Rúnar Pálmason, Sjávarútvegsráðuneyti og Sævar Gunnarsson, Sjómannasambandi Íslands.
    Ráðuneytið fór þess á leit við nefndina í septembermánuði árið 1994 að hún hraðaði tillögugerð er lyti að því hvernig mætti koma í veg fyrir að afla væri varpað fyrir borð og hvernig auka mætti virkni veiðieftirlits. Nefndin skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í desember 1994. Verða hér nefnd helstu atriði skýrslunnar, en að öðru leyti er vísað til hennar í fylgiskjali I. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fiski sé varpað fyrir borð og að fiski sé landað framhjá vigt. Í áfangaskýrslunni er meðal annars bent á að nauðsynlegt sé að aflaheimildir byggi á vísindalegri ráðgjöf og að afli fari ekki fram úr heimildum auk þess sem samræmi þurfi að vera í aflaheimildum milli tegunda. Bent er á að reglur um veiðar og umgengni um auðlindina þurfi að vera einfaldar og skýrar og veiðieftirlitið markvisst og það skuli beinast að þeim vandamálum sem við er að glíma hverju sinni. Viðurlög við brotum eigi að vera ströng og þyngjast við endurtekin brot.
    Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að lagaákvæði, er varða umgengni um auðlindir sjávar, skorti og því þurfi að setja ákveðnar lagareglur um umgengnina og viðurlög við brotum gegn þeim. Enn fremur eru tillögur um útfærslu á ýmsum atriðum sem nefndin telur að bæta þurfi úr.
    Í ársbyrjun var samið frumvarp er að mestu byggði á tillögum nefndarinnar og var það lagt fyrir Alþingi í febrúarlok. Frumvarpið varð ekki útrætt á vorþinginu enda lauk þinghaldi óvenju snemma vegna Alþingiskosninganna. Frumvarpið vakti hins vegar miklar umræður. Í júnímánuði síðastliðnum fór ráðherra þess síðan á leit við Samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar að hún færi yfir frumvarpið í ljósi umræðna sem orðið höfðu um efni þess. Nefndin skilaði áliti sínu til ráðherra í septembermánuði síðastliðnum. Er það birt sem fylgiskjal II með frumvarpi þessu. Þar sem nefndin fer yfir fyrra frumvarp grein fyrir grein í umsögn sinni er texti frumvarps þess sem flutt var á síðasta þingi birtur sem fylgiskjal III til þess að auðveldara sé að glöggva sig á umsögn nefndarinnar. Nefndin styður helstu sjónarmið fyrra frumvarps en gerir þó tillögur um breytingar á einstökum atriðum. Er frumvarp þetta byggt á fyrra frumvarpi en tillit hefur verið tekið til flestra athugasemda nefndarinnar og frumvarpinu breytt til samræmis við þær. Drög að frumvarpi þessu voru enn lögð fyrir nefndina til umsagnar og er sú umsögn birt á fylgiskjali IV. Í samræmi við þær ábendingar sem þar koma fram hafa athugasemdir við 16. gr. frumvarpsins verið endurskoðaðar. Þá hefur verið bætt inn í 10. og 12. gr. frumvarpsins ákvæðum varðandi undirmálsfisk í framhaldi af tillögum nefndarinnar um að undanþiggja á ný hluta undirmálsfisks frá aflamarki.
    Í frumvarpinu er kveðið skýrar á um ýmsar reglur, sem lúta að umgengni um auðlindir sjávar og þær gerðar markvissari. Þá er einnig kveðið á um til hvaða viðurlaga skuli gripið, ef út af er brugðið.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins er almenn lýsing á markmiðum þess.
    Í öðrum kafla frumvarpsins eru ákvæði sem lúta veiðum. Er þar lagt til að eftirfarandi ákvæði verði lögfest:
—    Bann við að henda fiski í hafið.
—    Bann við netaveiðum báta undir 20 brúttótonnum frá 1. nóvember til loka febrúar.
—    Að óheimilt verði að hefja veiðiferð án þess að skip hafi veiðiheimildir í þeim tegundum, sem líklegt er að fáist í veiðiferðinni.
—    Að skylt verði að draga reglulega veiðarfæri, sem skilin eru eftir í sjó, svo sem net og línu. Heimilt verði á kostnað eiganda að draga upp veiðarfæri sem ekki er sinnt.
    Í þriðja kafla frumvarpsins eru ákvæði, sem lúta að vigtun sjávarafla. Þessi ákvæði eru að efni til að mestu leyti samhljóða gildandi reglugerð um vigtun sjávarafla en þó er kveðið með skýrari hætti á um skyldur og ábyrgð þeirra aðila, sem að vigtun sjávarafla koma.
    Fjórði kafli fjallar um framkvæmd laganna og viðurlög. Fiskistofa og eftirlitsmenn í hennar þjónustu annast framkvæmdina. Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um viðbrögð stjórnvalda vegna brota á lögum þessum. Er hér um að ræða mjög mikilvægt nýmæli. Gert er ráð fyrir að skip verði svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í ákveðinn tíma og að ítrekun brots varði lengri leyfissviptingu. Auk þess er gert ráð fyrir að aðili geti misst leyfi til vigtunar afla, standi hann ekki rétt að vigtun. Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé að svipta uppboðsmarkað starfsleyfi vegna brota á reglum um vigtun sjávarafla. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um að stórfelld og ítrekuð ásetningsbrot geti auk sekta varðað varðhaldi eða fangelsi.
    Í fimmta kafla er lagt til að breytingar verði gerðar á lögum um stjórn fiskveiða til samræmis við ákvæði sem er að finna í fjórða kafla frumvarpsins varðandi framkvæmd leyfissviptinga og viðurlög.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um markmið frumvarpsins. Um það efni vísast nánar til almennra athugasemda hér að framan.
    

Um 2. gr.


    Með 1. mgr. er lagt til að lögfest verði sú meginregla að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla. Um rök að baki henni vísast til almennra athugasemda og fylgiskjals I með frumvarpinu. Lögin um stjórn fiskveiða ganga út frá að þessi meginregla gildi og hún er beinlínis orðuð í 19. gr. rgl. nr. 406/1995 sem sett er á grundvelli þeirra laga. Í tilvitnaðri grein reglugerðarinnar eru ákvæði um að sleppa skuli lifandi þorski, ufsa og ýsu undir vissum stærðarmörkum er fæst á handfæri. Þessi fiskur er almennt lífvænlegur og því full ástæða til að kveða á um skyldu til að sleppa honum. Er því lagt til að slík regla skuli gilda áfram en ráðherra er falið að ákveða við hvaða stærðarmörk skuli miðað. Samkvæmt núgildandi reglum er miðað við 50 cm lengd varðandi þorsk og ufsa en 45 cm varðandi ýsu. Þá getur ráðherra ákveðið að fleiri veiðarfæri komi til greina í þessu sambandi en handfæri. Mætti þar t.d. hugsa sér að skylt yrði að sleppa undirmálsfiski er veiddist í gildrur.
    Með 2. mgr. eru veittar þrjár undanþágur frá meginreglunni um að komið skuli með allan afla að landi. Í fyrsta lagi er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt ef ekki hefði verið unnt að komast hjá því á viðkomandi veiðum. Í annan stað er heimilt að henda fyrir borð fiski af ókvótabundnum tegundum enda hafi tegundin ekki verðgildi. Er vakin sérstök athygli á því að ekki er heimilt að fiski af kvótabundnum tegundum sé hent fyrir borð þótt verðlaus sé í einstökum tilvikum. Skilyrði fyrir því að heimila megi að öðrum tegundum sé hent er að tegundin hafi ekki verðgildi. Í því sambandi verður að telja að allar tegundir sem manneldismarkaður er fyrir hafi verðgildi. Varðandi aðrar tegundir hlýtur verðgildismatið ávallt að vera nokkuð vandasamt. Loks er heimilað að varpa fyrir borð fiskhlutum sem falla til við verkun eða vinnslu um borð enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti. Í upphafi má reikna með að heimilt verði við ísfiskveiðar að henda fiskúrgangi öðrum en hrognum og lifur. Eftir því sem möguleikar aukast til arðbærrar nýtingar fiskúrgangs dregur hins vegar úr heimildum til að henda fiskúrgangi.
    

Um 3. gr.


    Lengi hefur verið rætt um að banna eigi minnstu bátunum netaveiðar að vetrarlagi, fyrst og fremst vegna þess að þeir nýti afla illa og hendi miklu vegna þess hve oft veður hamlar að vitjað sé um net, en einnig af öryggisástæðum. Umgengnisnefndin gerir tillögur um slíkt bann samanber IV. kafla, lið 2.5 í fylgiskjali I með frumvarpinu. Það er nokkuð vandasamt að ákveða til hvaða stærðar báta og hvaða tímabils slíkt bann skuli taka. Nefndin gerir tillögur um síðara atriðið og er þeim fylgt í frumvarpi þessu. Varðandi fyrra atriðið var miðað við 30 brúttótonn í frumvarpi því sem flutt var á síðasta þingi. Umgengnisnefndin taldi þau mörk sett of hátt, sbr. fylgiskjal II, og er til samræmis við það nú lagt til að miðað verði við 20 brúttótonn.
    

Um 4. gr.


    Með 1. mgr. er lagt til að sú skylda verði lögð á Fiskistofu að fylgjast með aflasamsetningu fiskiskipaflotans þannig að jafnan liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um samsetningu afla skipa er mismunandi veiðar stunda eftir stærð og gerð skips, gerð og búnaði veiðarfæra, veiðislóð og veiðitíma. Þetta er að sjálfsögðu gert að vissu marki nú þegar, enda hlýtur slík upplýsingasöfnun að vera forsenda alls veiðieftirlits. Hér er reiknað með að þessi þáttur starfseminnar verði efldur mjög enda eru glöggar upplýsingar af þessu tagi nauðsynlegar til að framfylgja ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar.
    Með 2. mgr. er lagt til að lögfest verði með ótvíræðum hætti sú sjálfsagða regla að skip hafi við upphaf veiðiferðar aflaheimildir er duga fyrir líklegum afla af öllum tegundum í ferðinni.
    

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að Fiskistofa fái heimild til að taka upp eða láta taka upp veiðarfæri sem vanrækt eru þannig að ætla megi að afli sem í þau fæst skemmist.
    Heimildin nær einnig til að taka upp veiðarfæri sem ekki er hirt um að draga úr sjó við lok veiðitímabils, svo sem grásleppunet sem eru í sjó eftir lok grásleppuvertíðar.
    Þá er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti tekið upp veiðarfæri sem lögð hafa verið á svæðum þar sem bannað er að leggja veiðarfæri af þeirri gerð, svo sem línu sem lögð hefur verið á svæði þar sem línuveiðar eru bannaðar.
    Eðlilegt og sanngjarnt er að sá sem ábyrgur er fyrir ólögmætri notkun veiðarfæranna beri þann kostnað sem því fylgir að aflétta hinu ólögmæta ástandi og er því gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli krefja eigendur veiðarfæranna um þann kostnað. Séu eigendur hins vegar óþekktir má selja veiðarfærin til að mæta kostnaðinum og skal það sem umfram kann að vera renna til Hafrannsóknastofnunarinnar.
    

Um 6. gr.


    Í þessari grein er sett fram sú meginregla að öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum, sem að einhverju eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, verði þau að landa hér á landi og að vigta í íslenskri höfn. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að selja ísfisk á opinberum uppboðsmörkuðum erlendis sem hafa fengið viðurkenningu sjávarútvegsráðuneytisins til þess. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið setji með reglugerð nánari skilyrði fyrir leyfisveitingu en einstök leyfi verði veitt að undangenginni úttekt Fiskistofu á vigtunaraðferðum og eftirliti á markaðnum. Er þetta í samræmi við núverandi framkvæmd. Þá er í greininni gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð veitt undanþágu frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða fisk sem veiddur er til bræðslu. Fyrst og fremst mundi þetta ákvæði eiga við um loðnu, en íslensk skip hafa selt loðnu til bræðslu erlendis þegar vinnslugeta hér á landi hefur ekki verið nægileg til að taka við aflanum. Loks er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis standi sérstaklega á, til dæmis ef um alvarlega vélarbilun eða annað tjón er að ræða. Kostnaður vegna ferðar eftirlitsmanns Fiskistofu til að fylgjast með löndun og vigtun eða vegna annarra nauðsynlegra ráðstafana Fiskistofu skal borinn af útgerð viðkomandi skips. Með vinnslu um borð er átt við alla aðra vinnslu en slægingu, sem og ef afli er frystur eða saltaður um borð.
    

Um 7. gr.


    Hér er í 1. mgr. kveðið á um hvernig skuli standa að vigtun á afla. Meginreglan er sú, að afli skuli veginn á löggilta hafnarvog og skal vigtunin framkvæmd af starfsmanni hafnarinnar sem er löggiltur vigtarmaður. Er þetta eðlilegt þar sem allur afli sem landað er hér á landi fer um einhverja af um það bil 60 höfnum landsins. Vigtunarkerfið hefur verið byggt upp kringum hafnarvogir og mikið átak hefur verið gert í því að styrkja hafnirnar í sessi. Þær aðstæður geta komið upp að ekki sé unnt að uppfylla skilyrði um vigtun á hafnarvog í löndunarhöfn, til dæmis vegna bilunar í hafnarvog, vegna þess að hún henti ekki til ákveðinnar vigtunar eða að löggiltur vigtarmaður sé tímabundið forfallaður. Því er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti heimilað tímabundnar undanþágur frá framangreindum skilyrðum.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti heimilað fyrirtækjum að sjá um að vigta afla þrátt fyrir að hann hafi ekki verið veginn áður á hafnarvog, enda séu veruleg vandkvæði á vigtun á hafnarvog. Ekki er gert ráð fyrir að þessi heimild verði nýtt hvað varðar vigtun á botnfiski, nema ströng skilyrði varðandi skráningu og eftirlit séu uppfyllt.
    Í 3. mgr. er gerð tillaga um að einungis megi landa afla í þeim höfnum sem uppfylla kröfur um nauðsynlega aðstöðu og eftirlit. Er gert ráð fyrir því að sjávarútvegsráðuneytið samþykki einstakar hafnir sem fiskihafnir. Er þessi tillaga í samræmi við hugmyndir umgengnisnefndar og vísast um hana til fylgiskjals II.
    

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um að þeir löggiltu vigtarmenn sem annast vigtun, hvort sem það er gert á hafnarvog eða annars staðar samkvæmt heimild Fiskistofu, fylgi þeim aðferðum við vigtun, skráningu á upplýsingum og skil á nótum og skýrslum sem lög og reglur varðandi vigtun sjávarafla segja til um á hverjum tíma.
    

Um 9. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða ákvæðum 1. og 2. mgr. 16. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða, og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um skyldur skipstjóra hvað varðar vigtun á afla. Hann skal sjá til þess að afla sé haldið aðgreindum eftir tegundum um borð, sé þess nokkur kostur vegna stærðar skipsins og í öllum tilvikum skal hann sjá til þess að hver tegund verði vegin sérstaklega. Einnig skal hann tryggja að vigtarmaður fái réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann þannig að skráning á honum verði rétt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skráningu á afla meðan á veiðiferð stendur. Er gert ráð fyrir að auk afladagbóka verði færðar vinnsludagbækur um borð í skipum sem vinna afla um borð. Sambærilegt ákvæði er nú í 3. mgr. 16. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið á um ábyrgð ökumanns flutningstækis. Er þess krafist að hann kynni sér sem kostur er farminn sem fluttur er og gefi vigtarmanni upplýsingar um hann. Enn fremur er lagt til að honum verði gert að aka stystu eðlilegu leið til hafnarvogarinnar frá skipshlið. Þar með er loku fyrir það skotið að ökumaður geti sagst vera á leið á hafnarvogina ef hann er stöðvaður með óveginn fisk á bílnum langt frá höfninni.
    

Um 12. gr.


    Lögð er ótvíræð skylda á starfsmenn hafnarvoga að sannreyna með beinni skoðun úrtaks að uppgefin tegund vigtaðs afla sé rétt.
    

Um 13. gr.


    Til að efla eftirlit er nauðsynlegt að leggja þá skyldu á kaupendur afla að þeir kanni uppruna hans og hvernig staðið hafi verið að vigtun.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldur kaupenda til að skrá og skila skýrslum um ráðstöfun afla og framleiðslu. Er þetta ákvæði nauðsynlegt til að unnt sé að safna upplýsingum um framleiðslu í sjávarútvegi og er einnig mikilvægur þáttur í eftirliti með veiðum sem meðal annars fer fram með þeim hætti að upplýsingar um landaðan afla eru bornar saman við upplýsingar framleiðenda um kaup og ráðstöfun afla.
    

Um IV. kafla.


    Í þessum kafla er að finna ákvæði sem lúta að framkvæmd laganna og reyndar að nokkru leyti framkvæmd laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, auk þess sem kaflinn hefur að geyma ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum.
    Sjálfsagt er að leggja þungar refsingar við brotum á jafnmikilvægum lögum og hér um ræðir, ekki síst ef brot eru ítrekuð eða stórvægileg. Í 24.–26. gr. er lagt til að það verði gert, þar á meðal að unnt verði að gera lögaðilum að greiða sektir þótt sök verði ekki sönnuð á þá einstaklinga sem í þágu hans starfa. Jafnframt er gert ráð fyrir að alvarleg brot á lögunum geti varðað varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum og er þar tekið mið af refsingum fyrir meiri háttar efnahagsbrot, svo sem auðgunarbrot og skattsvik.
    Það eitt að lýsa brotin refsiverð er þó ekki nóg til þess að búa svo um hnúta, eins og nokkur kostur er í lögum, að ákvæðum laganna verði fylgt í framkvæmd. Enginn vafi leikur á því að virkasta ráðið til þess er að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið er gegn ákvæðunum. Til þessa hefur leyfissviptingu nær einvörðungu verið beitt til þess að aflétta ólögmætu ástandi, til dæmis þegar afli skips hefur verið kominn yfir leyfilegt aflamark. Aftur á móti hefur þessu úrræði lítið verið beitt í refsiskyni gagnvart þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum fiskveiðilöggjafarinnar, jafnvel margítrekað, enda þótt heimild hafi verið til þess í lögum.
    Í 15. og 16. gr. er hins vegar lagt til að skip verði fortakslaust svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í tiltekinn tíma ef um er að ræða brot á þessum lögum eða ítrekuð brot á lögum um stjórn fiskveiða. Í síðarnefndu tilvikunum yrðu skip að sjálfsögðu svipt leyfi meðan þau hefðu ekki heimild til frekari veiða, t.d. vegna þess að þau hefðu veitt umfram leyfilegt aflamark, en jafnvel þótt aflamarkið mundi aukast stæði leyfissviptingin í tvær vikur til viðbótar við fyrstu ítrekun og svo framvegis. Í 18. og 20. gr. er og að finna hliðstæð ákvæði sem miða að því, eftir því sem frekast er kostur, að koma í veg fyrir að brotið verði gegn ákvæðum laganna.
    Þar sem veiðileyfissvipting felur í sér skerðingu á mjög mikilvægum atvinnuréttindum eru að sjálfsögðu miklir hagsmunir í húfi. Af þeim sökum verður að gera þær kröfur til þeirra stjórnvalda, sem um þessi mál fjalla, að þau virði þær grundvallarreglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni sem sjálfsagðar þykja við aðstæður sem þessar.
    Svipting leyfis eða afturköllun þess er sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun og því gilda um hana ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við á. Af þeim ákvæðum er sérstök ástæða til að nefna svonefnda andmælareglu, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga. Í þeirri reglu felst í fyrsta lagi að skýra þurfi hlutaðeigandi frá að mál hans sé til athugunar, í öðru lagi ber að gefa honum kost á að kynna sér gögn í máli hans og í þriðja lagi veita honum færi á að tjá sig um það áður en því er ráðið til lykta. Með tilliti til þessarar reglu er gerð sú tillaga í 3. mgr. 15. gr. að útgerð verði að jafnaði veitt eins konar viðvörun um að afli skips sé farinn að nálgast leyfilegt aflamark og til leyfissviptingar komi ef farið verður fram úr því marki. Slík viðvörun er hugsuð sem tilkynning um upphaf máls í skilningi 14. gr. stjórnsýslulaga, þannig að þá strax verði útgerðinni gefinn kostur á að koma að andmælum ef hún telur að upplýsingar þær, sem á er byggt, séu að einhverju leyti rangar eða málatilbúnaði að öðru leyti áfátt. Þannig hefði gefist svigrúm til andmæla áður en til leyfissviptingar kæmi, en að öðrum kosti gæfist naumur tími til þess vegna þess að óhjákvæmilegt er að grípa til sviptingar um leið og afli skips fer fram úr leyfilegu aflamarki.
    Við samningu ákvæða um heimild til þess að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni í þessum kafla hefur og verið horft til tveggja annarra reglna í stjórnsýslulögum, það er til jafnræðisreglunnar í 11. gr. laganna og meðalhófsreglunnar í 12. gr. þeirra. Með tilliti til jafnræðisreglunnar er lagt til að reglur um það hvenær til leyfissviptingar verði gripið og hversu lengi svipting skuli vara verði í senn fortakslausar og ítarlegar þannig að allir sitji að þessu leyti við sama borð. Segja má að sú tilhögun í 3. mgr. 15. gr., að gefa með góðum fyrirvara til kynna að til sviptingar kunni að koma, eigi rætur að rekja til meðalhófsreglunnar og hið sama má segja um þann hátt að svipting skuli standa í sífellt lengri tíma við hvert ítrekað brot.
    Í lögum nr. 36/1992 segir að Fiskistofa skuli starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála og heyri undir sjávarútvegsráðherra. Í samræmi við þetta hlutverk Fiskistofu og stöðu hennar í stjórnkerfinu er eðlilegt að hún taki ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa, hvort sem er vegna brota á þessum lögum eða lögum um stjórn fiskveiða. Þeim ákvörðunum verður skotið til sjávarútvegsráðuneytisins og þær eftir atvikum bornar undir dómstóla, svo sem fram kemur í 19. og 21. gr.
    Í kaflanum er að öðru leyti að finna ákvæði sem með einum eða öðrum hætti snúa að framkvæmd á lögum þessum eða lögum um stjórn fiskveiða. Verða þau skýrð hér á eftir, hvert fyrir sig, eftir því sem ástæða þykir til.
    

Um 14. gr.


    Í samræmi við lög nr. 36/1992 er kveðið á um að Fiskistofa skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna, svo og eftirlitsmenn í þjónustu hennar. Tekið er fram að þessir aðilar hafi sömu heimildir til þess að rækja þetta eftirlitshlutverk og fram koma í lögum um stjórn fiskveiða, samanber nú lög nr. 38/1990, einkum 3. mgr. 17. gr. laganna. Þá er kveðið á um að Fiskistofa geti leitað aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslu í þessu skyni.
    

Um 15. gr.


    Í þessari grein er mælt svo fyrir að Fiskistofu sé skylt að svipta hvert það skip leyfi til veiða í atvinnuskyni sem veitt hefur umfram leyfilegt aflamark af einhverri fisktegund. Við mat á því hvort veitt hafi verið umfram aflamark í þessu sambandi verður að sjálfsögðu að taka tillit til heimilda til tegundatilfærslu og færslu aflaheimilda milli ára. Nær sviptingin til hvers konar veiða í atvinnuskyni, en er ekki einskorðuð við þá tegund eða tegundir sem of mikið hefur verið veitt af. Ákvæði 2. og 3. mgr. eru skýrð í athugasemdum um IV. kafla og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 16. gr.


    Hér er mælt svo fyrir að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni hafi útgerð, áhöfn eða aðrir þeir, sem í þágu útgerðar starfa, brotið gegn ákvæðum þessara laga. Með síðastnefndu orðalagi er átt við aðra starfsmenn en þá, sem eru í áhöfn skips, og jafnframt þá, er starfa í þágu útgerðar sem verktakar, til dæmis bifreiðastjóra og aðra stjórnendur flutningstækja. Ákvæðið nær hins vegar að sjálfsögðu ekki til brota þeirra sjálfstæðu aðila sem útgerðin á viðskipti við með aflann t.d. ætti greinin ekki við ef aðili óháður útgerðinni verður uppvís að því að hafa rangt við varðandi úrtaksvigtun þannig að bæði hagsmunir útgerðar og almannahagsmunir séu fyrir borð bornir.
    

Um 17. gr.


    Rétt þykir að Fiskistofa geti ákveðið að veiðieftirlitsmaður á hennar vegum skuli vera um borð í skipi í allt að tvo mánuði samfleytt ef skipið hefur ítrekað verið svipt leyfi samkvæmt 15. og 16. gr. Þessi heimild er eitt af þeim úrræðum, sem lagt er til að lögfest verði, til þess að koma í veg fyrir brot á þessum lögum og lögum um stjórn fiskveiða.
    

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um 19. gr.


    Hér er kveðið á um heimild til þess að skjóta ákvörðunum Fiskistofu samkvæmt 14.–18. gr. til sjávarútvegsráðuneytisins með stjórnsýslukæru. Um hana gilda almennar reglur, þar á meðal ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, að öðru leyti en því að lagt er til að kærufrestur verði einn mánuður í stað þriggja mánaða.
    

Um 20. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um 21. gr.


    Í greininni er, til að taka af allan vafa, mælt svo fyrir að ákvarðanir stjórnvalda samkvæmt IV. kafla verði bornar undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki er þörf á að skjóta ákvörðunum Fiskistofu til sjávarútvegsráðuneytisins áður en þær verða bornar undir dómstóla af þeim sem hlut eiga að máli hverju sinni.
    

Um 22. gr.


    Hér er lagt til að skylt sé að birta opinberlega upplýsingar um sviptingu veiðileyfa skv. 15. og 16. gr., svo og afturköllun heimilda skv. 18. og 20. gr. Eiga sömu rök við þessa grein og 23. gr.

Um 23. gr.


    Lagt er til að lögfest verði sú meginregla að upplýsingar um úthlutun aflamarks til einstakra skipa og önnur þau atriði, sem upp eru talin í greininni, skuli vera opinberar upplýsingar sem öllum skuli heimill aðgangur að. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að almenningur skuli að öðru jöfnu eiga aðgang að upplýsingum í stjórnsýslunni. Við það bætist þörf á því að sem flestir eigi kost á að fylgjast með framkvæmd laga á þessu sviði, en með því móti má fremur búast við að brot á lögunum upplýsist.

Um 24. gr.


    Áður hefur verið gerð grein fyrir því að ástæða sé til að sama refsing liggi við alvarlegum brotum á þessum lögum og meiri háttar efnahagsbrotum. Í greininni er hnykkt á því að um refsivert brot sé að ræða hvort sem það er framið af ásetningi eða gáleysi, auk þess sem hlutlæg refsiábyrgð er lögð á lögaðila í 25. gr. Þá er leitast við að þrengja nokkuð refsiramma frá því sem venja er, þar sem mælt er fyrir um tilteknar sektarfjárhæðir vegna brota á lögunum þótt óhjákvæmilegt sé að láta dómstólum eftir verulegt svigrúm vegna þess hve brotin geta verið ólík að eðli og umfangi. Ef um er að ræða stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot er gert ráð fyrir að dæmt verði hvort tveggja refsivist og sektir.

Um 25. og 26. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um V. kafla.


    Í samræmi við hlutverk Fiskistofu er eðlilegt að fela henni að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir brot á lögum um stjórn fiskveiða í stað sjávarútvegsráðuneytisins, svo sem nú er fyrir mælt í 19. gr. laga nr. 38/1990. Til þess að tryggja samræmi í framkvæmd varðandi leyfissviptingar er lagt til að í þeim lögum verði vísað um það atriði til þessara laga. Jafnframt er ráð fyrir því gert að ákvæði um refsingar og refsikennd viðurlög í lögum um stjórn fiskveiða verði samhljóða þeim ákvæðum í þessum lögum.

Um 27. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um 28.–30. gr.


    Þessi ákvæði eru sem fyrr segir samhljóða ákvæðum 24.–26. gr. og vísast til athugasemda um þær greinar.
    

Um 31. og 32. gr.


    Greinar þessar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.
    

Bréf til sjávarútvegsráðherra frá


samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar.
(1 síða.)Tillögur um úrræði gegn útkasti fisks og löndun fram hjá vigt.


(Áfangaskýrsla samstarfsnefndar um bætta umgengni sjávar.)(11 síður.)
Fylgiskjal II.

Samstarfnefnd um bætta umgengni
um auðlindir sjávar:


Umsögn um frumvarp til laga um umgengni um auðlindir sjávar.


(September 1995.)(10 síður.)Fylgiskjal III.


    Meginmál frumvarps til laga um umgengni um auðlindir sjávar sem lagt var fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994–1995 er hér birt til hægðarauka þar sem sá texti var lagður til grundvallar í umsögn samstarfsnefndar um bætta umgengni um auðlindir sjávar sem birt er sem fylgiskjal II.
    

Frumvarp til laga


um umgengni um auðlindir sjávar.


(Þskj. 706, 431. mál á 118. löggjafarþingi.)(7 síður.)
Fylgiskjal IV.

    

Bréf til sjávarútvegsráðherra frá


samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar.


(29. nóvember 1995.)


    

(1 síða.)
Fylgiskjal V.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um umgengni um auðlindir sjávar.

    Tilgangur með frumvarpi þessu er að bæta umgengni um auðlindir sjávar. Lagt til að hert verði eftirlit með afla, meðferð hans á sjó og vigtun við löndun. Er með því ætlað að laga veikleika í núverandi löggjöf við framkvæmd á aflastjórnun. Frumvarp þetta var flutt á 118. þingi en varð ekki útrætt. Það er nú endurflutt með nokkrum minni háttar breytingum, og er gerð grein fyrir þeim í athugasemdum og fylgiskjölum með frumvarpinu.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skal Fiskistofa fylgjast með aflasamsetningu fiskiskipaflotans þannig að jafnan liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um aflasamsetningu skipa. Þá verður óheimilt að hefja veiðiferð skips nema skipið hafi aflamark sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni. Í athugasemdum við 4. gr. er skýrt frá að reiknað sé með að þessi þáttur starfseminnar verði efldur mjög. Í 5. gr. er lagt til að Fiskistofa fái heimild til að taka upp veiðarfæri sem liggja í sjó og vanrækt eru. Í 6.–13. gr. er fjallað um vigtun afla, skráningu, eftirlit og skyldur viðkomandi aðila í því sambandi.
    Hinar hertu umgengnisreglur sem lagðar eru til í frumvarpi þessu leggja aukna vinnu á veiðieftirlit Fiskistofu. Þar eru nú 23–24 störf við veiðieftirlit, en fylgjast verður með um 60 höfnum kringum landið. Það er mat fjármálaráðuneytisins að framfylgd þessa frumvarps kalli á fjölgun um 2–3 störf við veiðieftirlit og að kostnaður við þau störf og starfsemi tengda þeim geti orðið 6–10 m.kr. Í lögum nr. 38/1990, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að kostnaður við veiðieftirlit verði borinn uppi af sérstöku gjaldi — veiðieftirlitsgjaldi. Því verður að gera ráð fyrir að hækka verði veiðieftirlitsgjaldið af þessum sökum svo að viðbótarkostnaðurinn falli ekki á ríkissjóð.