Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 471 . mál.


806. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu Evrópusamnings um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna og samnings um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Evrópusamning um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var í Lúxemborg 20. maí 1980 og samning um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. október 1980.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á Evrópusamningi um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var í Lúxemborg 20. maí 1980 (hér eftir nefndur Evrópusamningurinn) og samningi um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. október 1980 (hér eftir nefndur Haagsamningurinn). Samningarnir eru prentaðir sem fylgiskjöl með tillögu þessari.
    Með lögum nr. 160/1995 voru lögfest nauðsynleg ákvæði til þess að unnt verði að standa við skuldbindingar sem samningsríki gangast undir samkvæmt samningunum.
    Efni samninganna tveggja er nátengt, en báðum er ætlað að veita úrræði í tilvikum þar sem barn er flutt ólöglega úr landi til annars lands og haldið þar gegn vilja forsjárforeldris. Um leið og millilandasamskipti aukast fjölgar hjónaböndum og samböndum fólks af ólíkum þjóðernum og í kjölfar þeirra hugsanlega hjónaskilnuðum og sundruðum fjölskyldum. Sífellt fleiri börn lenda í þeirri aðstöðu að verða bitbein foreldra sem ekki búa í sama landi og tilheyra oft ólíkum menningarheimum. Þetta hefur vakið viðbrögð á alþjóðlegum vettvangi og samstaða náðst um að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til verndar börnum í slíkri aðstöðu og að hægt sé að færa þau réttum forsjáraðilum. Samningarnir tveir eru afrakstur þessarar alþjóðlegu samvinnu. Evrópusamningurinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins, en Haagsamningurinn á vegum Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.
    Þess má geta að skv. 11. gr. samningsins um réttindi barnsins frá árinu 1989, sem Ísland hefur fullgilt, eru samningsríki skuldbundin til að gera ráðstafanir gegn því að börn séu flutt ólöglega úr landi og þeim haldið erlendis. Í því skyni skulu þau stuðla að því að gerðir séu um það tvíhliða eða marghliða samningar eða að ríki gerist aðilar að samningum sem þegar hafa verið gerðir. Ísland er ekki aðili að neinum milliríkjasamningi á þessu sviði nema Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sbr. lög nr. 29/1931. Hann hefur þó takmarkað gildi þar sem hann á aðeins við um börn foreldra sem eru eða hafa verið í hjúskap. Þar sem engir milliríkjasamningar eru að öðru leyti í gildi hvað Ísland varðar þarf að treysta á samstarfsvilja erlendra yfirvalda og innlend lög í viðkomandi ríkjum ef farið er með íslensk börn til annarra landa eða þeim haldið í öðru landi gegn vilja forsjárforeldris.
    Samningunum tveimur er ætlað að leysa sams konar vandamál, en þó gera þeir ráð fyrir nokkuð mismunandi aðferðum til þess. Evrópusamningurinn er viðurkenningar- og fullnustusamningur og sem slíkur hefðbundnari alþjóðasamningur en Haagsamningurinn. Það er grundvallarregla samkvæmt Evrópusamningnum, sbr. 7. gr. hans, að forsjárákvörðun, sem tekin er í einu samningsríki, skuli viðurkenna og fullnægja í öðru samningsríki án tillits til þess hvort brottflutningur eða hald á barni feli í sér ólögmæta athöfn. Fullgilding samningsins hefur í megindráttum í för með sér að forsjárákvörðun, sem tekin er í öðru samningsríki, öðlast sömu réttaráhrif hér á landi og ákvörðun um forsjá sem tekin er hér á landi og gagnkvæmt.
    Haagsamningurinn skuldbindur samningsríkin til að hlutast til um að börnum, sem flutt eru með ólögmætum hætti til samningsríkis eða er haldið þar, verði skilað án tillits til þess hvort fyrir hendi sé fullnustuhæf ákvörðun. Það er skilyrði fyrir beitingu Haagsamningsins að brottnám eða hald á barni sé ólögmætt samkvæmt lögum þess ríkis þar sem barnið var búsett rétt áður en það var flutt á brott eða hald hófst, sbr. 3. gr. hans. Með afhendingu er ekki tekin afstaða til þess hver sé réttmætur forsjáraðili, sbr. 19. gr. samningsins, heldur er á því byggt að úr þeirri spurningu eigi að leysa í því landi þar sem barn hefur búsetu.
    Samningarnir geta átt við hvort sem forsjá byggist á ákvörðun dómstóls eða stjórnvalds eða leiðir beint af lögum. Samkvæmt Evrópusamningnum þarf þó í síðastgreinda tilvikinu að leggja fram staðfestingu yfirvalds í búsetulandi barns um að brottnám eða hald sé ólögmætt, sbr. 12. gr. hans. Skv. 18. gr. samningsins getur samningsríki gert fyrirvara um að það skuli vera óbundið af ákvæðum 12. gr. Ekki er lagt til að sú heimild verði nýtt af hálfu Íslands frekar en gert var við fullgildingu samningsins af hálfu Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.
    Samkvæmt báðum samningunum skulu samningsríki stuðla að framgangi umgengnisréttar, sbr. 11. gr. Evrópusamningsins og 21. gr. Haagsamningsins. Haagsamningurinn skuldbindur þó ekki samningsríki til að hlutast til um afhendingu á barni til fullnustu á umgengnisrétti, en samkvæmt Evrópusamningnum skulu samningsríki viðurkenna og fullnægja ákvörðunum um umgengnisrétt á sama hátt og ákvörðunum um forsjá. Þau hafa þó heimild til að gera breytingar á inntaki umgengnisréttarins með tilliti til aðstæðna.
    Báðir samningarnir gera ráð fyrir að hægt sé að synja um úrlausn vegna ákveðinna aðstæðna. Skv. 8. gr. Evrópusamningsins er samningsríkjum skylt að grípa til aðgerða til að forsjáraðili geti endurheimt forsjá barns ef barnið og foreldrar þess hafa vegna búsetu og ríkisfangs tengsl við það ríki þar sem forsjárákvörðun var tekin og beiðni um fullnustu er lögð fram innan sex mánaða frá því að brottflutningur átti sér stað eða hald hófst. Þegar ólögmætur brottflutningur hefur átt sér stað og beiðni hefur verið lögð fram innan sex mánaða frestsins er skv. 9. gr. samningsins heimilt að synja um úrlausn, vegna nánar tiltekinna ástæðna, þegar barnið og foreldrar þess hafa ekki þau tengsl við ákvörðunarlandið sem 8. gr. byggist á. Ástæður sem heimila synjun samkvæmt greininni eru einkum þær að reglna um birtingar hafi ekki verið gætt þegar ákvörðunin, sem beðið er um fullnustu á, var tekin, lögsaga hafi ekki verið fyrir hendi eða ákvörðunin sé ósamrýmanleg innlendri ákvörðun. Ef ekki hefur átt sér stað ólögmæt athöfn eða beiðni hefur verið lögð fram eftir að sex mánaða fresturinn var útrunninn eru rýmri heimildir til synjunar, sbr. 10. gr.
    Við gerð samningsins voru skiptar skoðanir um hversu rúma heimild samningsríki ættu að hafa til að synja um viðurkenningu eða fullnustu ákvarðana. Til að leysa þann skoðanaágreining er samningsríkjum í 17. gr. samningsins veitt heimild til að gera fyrirvara við 8. og 9. gr. Með því að gera fyrirvara geta samningsríki neitað að viðurkenna og fullnægja ákvörðunum vegna ástæðna sem tilgreindar eru í 10. gr. samningsins, einnig í þeim tilvikum sem 8. og 9. gr. taka til, þ.e. þótt um sé að ræða ólögmætan brottflutning eða hald, barnið og foreldrar þess hafi tilskilin tengsl við ákvörðunarlandið og beiðni hafi verið lögð fram innan sex mánaða frestsins. Önnur samningsríki geta neitað að viðurkenna og fullnægja ákvörðun sem tekin hefur verið í ríki sem gert hefur fyrirvara af þeim ástæðum sem fyrirvarinn tekur til, þótt þau hafi ekki sjálf gert fyrirvara, sbr. 2. mgr. 17. gr. Norðurlandaþjóðirnar, sem tóku þátt í gerð samningsins, voru í hópi þeirra þjóða sem töldu að samningsríki ættu að hafa svigrúm til mats á beiðni með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Þau hafa því notfært sér heimild 17. gr. til að gera fyrirvara og er lagt til að Ísland fylgi fordæmi þeirra, enda er það í samræmi við þá grundvallarreglu íslensks barnaréttar að hagsmunir barnsins skuli vera öðrum sjónarmiðum æðri.
    Samkvæmt Haagsamningnum er ekki heimilt að gera fyrirvara við þá skyldu samningsríkja að hlutast til um að barni verði skilað til lögmæts aðila. Hins vegar eru í samningnum tilteknar sérstakar ástæður sem geta heimilað synjun, sbr. 2. mgr. 12. gr., 13. gr. og 20. gr. samningsins. Þetta eru einkum ástæður sem snúa að hagsmunum barnsins, en m.a. er mælt fyrir um að yfirvöld skuli taka tillit til afstöðu þeirra barna sem náð hafa tilskildum aldri og þroska, sbr. 2. mgr. 13. gr. Haagsamningsins.
    Mjög mikilvægt er að góð samvinna sé milli ríkja til að markmiðum samninganna verði náð. Báðir samningarnir gera ráð fyrir að sett verði á laggirnar móttökustjórnvöld til að greiða fyrir henni, sbr. 2.–5. gr. Evrópusamningsins og 6.–11. gr. Haagsamningsins. Samkvæmt lögum nr. 160/1995 er dómsmálaráðuneytið móttökustjórnvald hér á landi og er það í samræmi við tilhögun annars staðar á Norðurlöndum. Viðkomandi stjórnvöld eiga að hafa umsjón með því að þeim skyldum, sem ríki hafa tekið á sig með fullgildingu samninganna, sé fullnægt. Auk þess er þeim ætlað að annast milligöngu og veita aðstoð. Þau eiga að taka á móti og senda áfram erindi samkvæmt samningunum og aðstoða þá sem leita úrræða á grundvelli þeirra, m.a. með því að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Einnig hafa þau upplýsingar- og aðstoðarskyldu gagnvart öðrum móttökustjórnvöldum. Beiðanda er ekki skylt að leita úrræða fyrir milligöngu móttökustjórnvalds. Hann getur snúið sér beint til þess yfirvalds sem er bært til að taka ákvörðun um beiðni hans. Evrópusamningurinn byggir á því að sérreglur milli ríkja um efni sem fellur undir samninginn geti gengið framar honum í samskiptum ríkjanna, sbr. 19.–20. gr. samningsins. Tilkynningu þar að lútandi skal senda aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins við fullgildingu samningsins, sbr. 2. mgr. 20. gr. Norðurlandaþjóðirnar þrjár, sem fullgilt hafa samninginn, hafa nýtt þessa heimild til þess að veita norrænum reglum á þessu sviði forgang gagnvart samningnum og er lagt til að svo verði einnig gert af hálfu Íslands. Haagsamningurinn hefur ekki að geyma samsvarandi ákvæði. Skv. 36. gr. hans er samningsríkjum ekki heimilt að semja um aðra tilhögun en hann kveður á um, nema til að draga úr þeim takmörkunum sem geta átt við um afhendingu á barni samkvæmt honum. Lítil hætta er á árekstrum milli samninganna. Í því tilviki ætti Haagsamningurinn að hafa forgang, sbr. 34. og 36. gr. hans og 19.–20. gr. Evrópusamningsins.
    Talið er rétt að Ísland nýti heimild í 3. mgr. 26. gr. Haagsamningsins til að gera fyrirvara við 2. mgr. þeirrar greinar um að ríki skuli ekki krefja beiðanda um greiðslu kostnaðar vegna meðferðar málsins. Er ríkið þannig ekki skilyrðislaust skuldbundið til að standa straum af kostnaði beiðanda, en þó er óheimilt skv. 22. gr. samningsins að krefja beiðanda um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Skv. 3. mgr. 5. gr. Evrópusamningsins er samningsríki skuldbundið til að krefjast ekki neinnar greiðslu af þeim sem leggur fram beiðni um viðurkenningu eða fullnustu ákvörðunar vegna meðferðar málsins í því ríki og er ekki hægt að gera fyrirvara við þá skuldbindingu.
    Ísland er ekki aðili að Haagráðstefnunni um alþjóðlegan einkamálarétt. Ísland getur engu að síður gerst aðili að samningnum, sbr. 38. gr. hans. Það er skilyrði fyrir gildistöku gagnvart einstökum samningsríkjum að þau lýsi því yfir að þau viðurkenni aðild Íslands.


Fylgiskjal I.


EVRÓPUSAMNINGUR


um viðurkenningu og


fullnustu ákvarðana varðandi


forsjá barna og


endurheimt forsjár barna.



    Aðildarríki Evrópuráðsins sem undirritað hafa þennan samning,
    sem viðurkenna að í aðildarríkjum Evrópuráðsins skiptir velferð barnsins mestu máli þegar teknar skulu ákvarðanir varðandi forsjá þess,

    telja að ráðstafanir, sem gerðar eru til að tryggja að ákvarðanir varðandi forsjá barns geti hlotið almennari viðurkenningu og fullnustu, muni leiða til aukinnar verndar fyrir velferð barna,

    telja æskilegt, með þetta takmark í huga, að leggja áherslu á að réttur foreldra til umgengni sé eðlileg afleiðing forsjárréttar,
    veita athygli vaxandi fjölda tilvika þar sem börn hafa verið flutt með ólögmætum hætti yfir alþjóðleg landamæri og þeim vandkvæðum sem eru á að tryggja fullnægjandi lausn á þeim vanda sem slík tilvik valda,
    vilja gera viðeigandi ráðstafanir til að unnt sé að koma forsjá, sem hefur verið rofin á gerræðislegan hátt, á aftur,


    eru sannfærð um að í þessu skyni sé æskilegt að gera ráðstafanir sem samrýmist mismunandi þörfum og mismunandi aðstæðum og
    vilja koma á samvinnu milli yfirvalda sinna um lögfræðileg álitaefni,
    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.


    Í samningi þessum merkir:
     barn einstakling af hvaða þjóðerni sem er svo framarlega sem hann er yngri en 16 ára og hefur ekki rétt til að ráða búsetu sinni sjálfur samkvæmt lögum þess ríkis þar sem hann er búsettur eða ríkisborgari eða innlendum lögum þess ríkis sem beiðni er beint til;
     yfirvald dómstól eða stjórnvald;

     ákvörðun varðandi forsjá ákvörðun yfirvalds að því leyti sem hún varðar umönnun barnsins sjálfs, þar með talinn rétt til að ráða búsetu þess eða rétt til umgengni við það;

     ólögmætur brottflutningur brottflutning barns yfir alþjóðleg landamæri í bága við ákvörðun varðandi forsjá þess sem hefur verið tekin og er fullnustuhæf í samningsríki. Ólögmætur brottflutningur tekur einnig til:

         i.    misbrests á því að skila barni aftur yfir alþjóðleg landamæri er því tímabili lýkur er njóta mátti umgengnisréttar við það eða þegar sérhverri annarri tímabundinni dvöl lýkur á öðru landsvæði en því þar sem farið er með forsjá;
         ii.    brottflutnings sem er lýstur ólögmætur eftir á í samræmi við 12. gr.



    

I. HLUTI


Móttökustjórnvöld.


2. gr.


    1. Hvert samningsríki skal tilnefna móttökustjórnvald til að framkvæma þau störf sem samningur þessi kveður á um.

    2. Sambandsríkjum og ríkjum sem hafa fleiri en eitt réttarkerfi skal vera frjálst að tilnefna fleiri en eitt móttökustjórnvald og skulu þau ákveða valdsvið þeirra.
    3. Aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins skal tilkynnt um allar tilnefningar samkvæmt þessari grein.

3. gr.


    1. Móttökustjórnvöld samningsríkjanna skulu hafa samvinnu sín á milli og stuðla að samvinnu milli þar til bærra yfirvalda í ríkjum sínum. Þau skulu bregðast við svo fljótt sem nauðsyn krefur.
    2. Til þess að auðvelda framkvæmd þessa samnings skulu móttökustjórnvöld samningsríkjanna:
         a. tryggja að beiðnir um upplýsingar frá þar til bærum yfirvöldum, sem varða lagaatriði eða málsatvik mála sem eru til meðferðar, verði sendar áfram;

         b. láta, samkvæmt beiðni, hvert öðru í té upplýsingar um þau lög sín sem varða forsjá barna og allar breytingar á þeim lögum;
         c. tilkynna hvert öðru um öll þau vandamál sem líklegt er að komi upp við beitingu samningsins og ryðja úr vegi tálmunum fyrir beitingu hans eftir því sem unnt er.

4. gr.


    1. Hver sá sem fengið hefur í samningsríki ákvörðun varðandi forsjá barns og óskar eftir að sú ákvörðun verði viðurkennd eða henni fullnægt í öðru samningsríki getur lagt beiðni þar að lútandi fyrir móttökustjórnvald í hvaða samningsríki sem er.

    2. Beiðninni skulu fylgja þau skjöl sem nefnd eru í 13. gr.

    3. Móttökustjórnvaldið, sem fær beiðnina í hendur, skal, sé það ekki móttökustjórnvald þess ríkis sem beiðni er beint til, senda skjölin beint og án tafar til þess móttökustjórnvalds.
    4. Móttökustjórnvaldið, sem fær beiðnina í hendur, getur neitað að hafa milligöngu ef augljóst er að skilyrðum þessa samnings er ekki fullnægt.

    5. Móttökustjórnvaldið, sem fær beiðnina í hendur, skal skýra beiðandanum tafarlaust frá því hvernig beiðni hans miðar.

5. gr.


    1. Móttökustjórnvald þess ríkis, sem beiðni er beint til, skal án tafar gera eða láta gera allar þær ráðstafanir sem það telur við eiga, ef nauðsyn krefur með því að hefja málsmeðferð fyrir þar til bærum yfirvöldum sínum, til þess að:
         a. leiða í ljós hvar barnið er niðurkomið;
         b. koma í veg fyrir, sérstaklega með nauðsynlegum bráðabirgðaráðstöfunum, að hagsmunir barnsins eða beiðandans bíði skaða;
         c. tryggja viðurkenningu eða fullnustu ákvörðunarinnar;
         d. tryggja að barnið verði afhent beiðandanum ef fullnusta nær fram að ganga;
         e. tilkynna yfirvaldinu sem lagði fram beiðni um þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar og hvaða árangur þær hafa borið.
    2. Hafi móttökustjórnvald þess ríkis, sem beiðni er beint til, ástæðu til að ætla að barnið sé á landsvæði annars samningsríkis skal það senda skjölin beint og án tafar til móttökustjórnvalds þess ríkis.

    3. Hvert samningsríki skuldbindur sig til að krefjast ekki neinnar greiðslu af beiðanda, að undanskildum kostnaði við heimflutning, vegna nokkurra aðgerða sem móttökustjórnvald þess ríkis hefur framkvæmt í hans þágu skv. 1. mgr. þessarar greinar, þar með talinn kostnaður við málsmeðferð og, ef við á, vegna aðstoðar lögfræðings.

    4. Nú er viðurkenningu eða fullnustu synjað en móttökustjórnvald þess ríkis, sem beiðni er beint til, telur að rétt sé að verða við ósk beiðandans um málsmeðferð í því ríki um efnisatriði málsins og skal það þá gera það sem í valdi þess stendur til að tryggja að beiðandinn fái fyrirsvar við málsmeðferðina með ekki óhagstæðari skilyrðum en eiga við um mann sem er búsettur í því ríki og ríkisborgari þess. Í þessu skyni getur það einkum hafið málsmeðferð fyrir þar til bærum yfirvöldum sínum.


6. gr.


    1. Komi ekki annað fram í sérstökum samningum sem gerðir eru milli hlutaðeigandi móttökustjórnvalda, eða leiðir af ákvæðum 3. mgr. þessarar greinar:
         a. skulu tilkynningar til móttökustjórnvalds þess ríkis, sem beiðni er beint til, vera á hinu opinbera tungumáli, eða einu hinna opinberu tungumála, þess ríkis eða þýðing á það tungumál fylgja;
         b. skal móttökustjórnvald þess ríkis, sem beiðni er beint til, eigi að síður samþykkja að tilkynningar séu á ensku eða frönsku eða að þýðing á annað hvort þessara tungumála fylgi.
    2. Tilkynningar frá móttökustjórnvaldi þess ríkis, sem beiðni er beint til, þar með taldar niðurstöður kannana sem framkvæmdar hafa verið, mega vera á hinu opinbera tungumáli, eða á einu hinna opinberu tungumála, þess ríkis eða á ensku eða frönsku.
    3. Samningsríki getur að öllu leyti, eða að hluta, gert fyrirvara við ákvæði b-liðar 1. mgr. þessarar greinar. Þegar samningsríki hefur gert slíkan fyrirvara getur sérhvert annað samningsríki einnig beitt honum gagnvart því ríki.


II. HLUTI


Viðurkenning og fullnusta


ákvarðana og endurheimt


forsjár barna.


7. gr.


    Viðurkenna skal ákvörðun varðandi forsjá sem tekin er í samningsríki og sé hún fullnustuhæf í upphafsríkinu skal vera unnt að fullnægja henni í öllum öðrum samningsríkjum.

8. gr.


    1. Sé um ólögmætan brottflutning að ræða skal móttökustjórnvald í því ríki, sem beiðni er beint til, þegar hlutast til um að gerðar verði ráðstafanir til að forsjá barnsins verði endurheimt ef:
         a. barnið og foreldrar þess voru á þeim tíma er málsmeðferðin hófst í því ríki þar sem ákvörðunin var tekin, eða þegar hinn ólögmæti brottflutningur átti sér stað hafi hann átt sér stað áður, einungis ríkisborgarar þess ríkis, og barnið var búsett á landsvæði þess ríkis og

         b. beiðni um endurheimt var lögð fyrir móttökustjórnvald innan sex mánaða frá þeim degi er hinn ólögmæti brottflutningur átti sér stað.
    2. Ef ekki er unnt, samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni er beint til, að fullnægja fyrirmælum 1. mgr. þessarar greinar nema með því að leita til dómstóla skulu engar þær synjunarástæður, sem tilgreindar eru í þessum samningi, eiga við um málsmeðferðina fyrir dómi.
    3. Þegar gerður hefur verið samningur, sem staðfestur hefur verið af þar til bæru yfirvaldi, milli þess aðila sem fer með forsjá barnsins og annars aðila um að heimila hinum síðarnefnda umgengnisrétt og barninu, sem farið hefur verið með úr landi, hefur ekki verið skilað í lok hins umsamda tímabils til þess sem fer með forsjána skal forsjá barnsins komið á aftur í samræmi við b-lið 1. mgr. og 2. mgr. þessarar greinar. Hið sama skal gilda hafi þar til bært yfirvald tekið ákvörðun sem veitir aðila sem ekki fer með forsjá barnsins þennan rétt.


9. gr.


    1. Er ólögmætur brottflutningur hefur átt sér stað og beiðni hefur verið lögð fram hjá móttökustjórnvaldi innan sex mánaða frá brottflutningsdegi, en 8. gr. á þó ekki við, má aðeins synja um viðurkenningu og fullnustu ef:

         a. ákvörðun hefur verið tekin að fjarstöddum varnaraðila eða fyrirsvarsmanni hans og varnaraðila var ekki réttilega birt skjal það sem markaði upphaf málsmeðferðar eða samsvarandi skjal í tæka tíð til að gera honum kleift að undirbúa vörn sína, en þó getur synjun um viðurkenningu eða fullnustu ekki byggst á slíkum misbresti á birtingu ef henni varð ekki við komið vegna þess að varnaraðili leyndi dvalarstað sínum fyrir þeim sem hóf málsmeðferðina í upphafsríkinu;

         b. ákvörðun hefur verið tekin að fjarstöddum varnaraðila eða fyrirsvarsmanni hans og valdbærni þess yfirvalds, sem tók ákvörðunina, var ekki byggð á:

              i.         búsetu varnaraðila, eða

              ii.         síðasta stað þar sem foreldrar barnsins höfðu sameiginlega búsetu, enda sé að minnsta kosti annað foreldranna enn búsett á sama stað, eða
              iii.    búsetu barnsins;

         c. ákvörðunin er ósamrýmanleg ákvörðun varðandi forsjá sem varð fullnustuhæf í því ríki, sem beiðni er beint er til, áður en barnið var flutt á brott, nema barnið hafi verið búsett í því ríki, sem lagði fram beiðni, í eitt ár áður en það var flutt á brott.
    2. Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar skulu einnig gilda þótt ekki hafi verið lögð fram beiðni við móttökustjórnvald, enda sé óskað viðurkenningar eða fullnustu innan sex mánaða frá þeim degi er hinn ólögmæti brottflutningur átti sér stað.
    3. Aldrei má endurskoða erlendu ákvörðunina að því er efni hennar varðar.

10. gr.


    1. Í öðrum tilvikum en þeim sem 8. og 9. gr. taka til má eigi aðeins synja um viðurkenningu og fullnustu af þeim ástæðum sem í 9. gr. greinir heldur einnig af einhverri eftirtalinna ástæðna:

         a. ef talið er að afleiðingar ákvörðunarinnar séu augljóslega ósamrýmanlegar grundvallarreglum laga um fjölskyldur og börn í því ríki sem beiðni er beint til;
         b. ef talið er vegna breyttra aðstæðna, þar með talið vegna þess tíma sem liðinn er en þó ekki eingöngu vegna aðsetursskipta barnsins eftir ólögmætan brottflutning, að afleiðingar hinnar upphaflegu ákvörðunar séu augljóslega ekki lengur í samræmi við það sem barninu er fyrir bestu;
         c. ef barnið var á þeim tíma er málsmeðferðin hófst í upphafsríkinu:

              i.    ríkisborgari þess ríkis sem beiðni er beint til eða búsett þar og ekkert slíkt samband var við upphafsríkið;

              ii.    bæði ríkisborgari upphafsríkisins og þess ríkis, sem beiðni er beint til, og búsett í því ríki sem beiðni er beint til;

         d. ef ákvörðunin er ósamrýmanleg ákvörðun sem tekin hefur verið í því ríki sem beiðni er beint til eða sem er unnt að fullnægja í því ríki eftir að hún var tekin í þriðja ríkinu, að aflokinni málsmeðferð sem hófst áður en beiðni um viðurkenningu eða fullnustu var lögð fram, enda sé synjunin í samræmi við það sem barninu er fyrir bestu.
    2. Í sömu tilvikum má fresta málsmeðferð til viðurkenningar eða fullnustu af einhverri eftirtalinna ástæðna:

         a. ef endurskoðun upphaflegu ákvörðunarinnar er hafin með venjulegum hætti;
         b. ef málsmeðferð varðandi forsjá barnsins, sem hófst áður en málsmeðferðin hófst í upphafsríkinu, stendur yfir í því ríki sem beiðni er beint til;

         c. ef önnur ákvörðun varðandi forsjá barnsins er til fullnustu eða annarrar meðferðar varðandi viðurkenningu á þeirri ákvörðun.


11. gr.


    1. Ákvarðanir um umgengnisrétt og ákvæði í ákvörðunum varðandi forsjá sem fjalla um umgengnisrétt skulu viðurkennd og þeim fullnægt með sömu skilmálum og gilda um aðrar ákvarðanir varðandi forsjá.
    2. Þar til bær yfirvöld í því ríki, sem beiðni er beint til, geta þó sett skilyrði fyrir því að umgengni komist á og ákveðið hvernig henni skuli hagað, sérstaklega að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem aðilar hafa tekist á hendur um þetta efni.
    3. Hafi ekki verið tekin ákvörðun um umgengnisréttinn eða hafi viðurkenningu eða fullnustu á ákvörðuninni varðandi forsjá verið synjað getur móttökustjórnvald þess ríkis, sem beiðni er beint til, leitað til þar til bærra yfirvalda sinna um ákvörðun um umgengnisrétt ef sá sem krefst umgengnisréttar óskar þess.


12. gr.


    Hafi ekki verið tekin fullnustuhæf ákvörðun í samningsríki varðandi forsjá barns á þeim tíma er það var flutt á brott yfir alþjóðleg landamæri skulu ákvæði þessa samnings gilda um allar síðari ákvarðanir varðandi forsjá þess sem lýsa brottflutning þess ólögmætan og teknar eru í samningsríki að ósk einhvers þess aðila sem hagsmuna hefur að gæta.

III. HLUTI


Málsmeðferð.


13. gr.

    1. Beiðni um viðurkenningu eða fullnustu ákvörðunar varðandi forsjá í öðru samningsríki skal fylgja:

         a. skjal sem veitir móttökustjórnvaldi þess ríkis, sem beiðni er beint til, umboð til að koma fram fyrir hönd beiðandans eða til að skipa annan fyrirsvarsmann til þess;
         b. endurrit ákvörðunarinnar sem fullnægir nauðsynlegum skilyrðum um trúverðugleika;
         c. skjal sem staðfestir að varnaraðila hafi réttilega verið birt skjal það sem markaði upphaf málsmeðferðar eða samsvarandi skjal, ef ákvörðun hefur verið tekin að fjarstöddum varnaraðila eða löglegum fyrirsvarsmanni hans;

         d. ef við á, skjal sem staðfestir að ákvörðunin sé fullnustuhæf samkvæmt lögum upphafsríkisins;

         e. ef unnt er, greinargerð sem gefur til kynna hvar barnið sé niðurkomið eða líklega niðurkomið í því ríki sem beiðni er beint til;
         f. tillögur um hvernig endurheimta skuli forsjá barnsins.
    2. Þeim skjölum er að framan greinir skal, þar sem þörf krefur, fylgja þýðing samkvæmt ákvæðum 6. gr.


14. gr.


    Sérhvert samningsríki skal beita einfaldri og hraðri málsmeðferð til viðurkenningar og fullnustu á ákvörðunum varðandi forsjá barns. Í því skyni skal það tryggja að beiðni um fullnustu megi leggja fram með einfaldri umsókn.


15. gr.


    1. Áður en hlutaðeigandi yfirvald í því ríki, sem beiðni er beint til, tekur ákvörðun skv. b-lið 1. mgr. 10. gr.:

         a. skal það ganga úr skugga um hver afstaða barnsins sé, nema það sé óraunhæft sérstaklega með hliðsjón af aldri þess og þroska; og
         b. getur það óskað eftir því að allar viðeigandi kannanir verði gerðar.
    2. Kostnaður af könnunum í samningsríki skal greiddur af yfirvöldum þess ríkis þar sem þær eru gerðar.

    Beiðni um könnun og niðurstöður hennar má senda hlutaðeigandi yfirvaldi fyrir milligöngu móttökustjórnvalda.


16. gr.


    Ekki má krefjast opinberrar staðfestingar eða sambærilegra formsatriða vegna þessa samnings.

IV. HLUTI


Fyrirvarar.


17. gr.

    1. Samningsríki getur gert fyrirvara þess efnis að í tilvikum, sem 8. og 9. gr. eða önnur hvor þeirra greina taka til, megi synja um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá af þeim ástæðum sem í 10. gr. greinir og sem gera má nánari grein fyrir í fyrirvaranum.
    2. Synja má um viðurkenningu og fullnustu á ákvörðunum, er teknar hafa verið í samningsríki sem gert hefur fyrirvara skv. 1. mgr. þessarar greinar, í sérhverju öðru samningsríki af einhverjum þeim ástæðum sem sá fyrirvari tekur til.

18. gr.


    Samningsríki getur gert fyrirvara um að það skuli vera óbundið af ákvæðum 12. gr. Ákvæði samnings þessa skulu ekki gilda um ákvarðanir skv. 12. gr. sem hafa verið teknar í samningsríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.

    

V. HLUTI


Aðrir samningar.


19. gr.

    Samningur þessi skal ekki koma í veg fyrir að beita megi öðrum alþjóðasamningi sem er í gildi milli upphafsríkisins og þess ríkis sem beiðni er beint til eða öðrum lögum síðarnefnda ríkisins, sem ekki eiga rót sína að rekja til alþjóðlegs samkomulags, til þess að ná fram viðurkenningu eða fullnustu ákvörðunar.


20. gr.


    1. Samningur þessi skal ekki hafa áhrif á neinar skuldbindingar sem samningsríki getur haft gagnvart ríki, sem ekki er samningsríki, samkvæmt alþjóðasamningi er fjallar um efni sem samningur þessi tekur til.
    2. Hafi tvö eða fleiri samningsríki lögfest samræmda löggjöf varðandi forsjá barna, eða komið á sérstakri tilhögun á viðurkenningu eða fullnustu ákvarðana á þessu sviði, eða eigi þau eftir að gera það í framtíðinni, er þeim frjálst að beita þeim lögum eða þeirri tilhögun sín á milli í stað samningsins eða einhvers hluta hans. Til þess að notfæra sér þetta ákvæði skulu ríkin tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins ákvörðun sína. Einnig skal tilkynna um sérhverja breytingu eða afturköllun á slíkri ákvörðun.


VI. HLUTI


Lokaákvæði.


21. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja Evrópuráðsins. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu. Skjölum um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.


22. gr.


    1. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er þrjú aðildarríki Evrópuráðsins hafa lýst yfir samþykki sínu til að vera bundin af samningnum í samræmi við ákvæði 21. gr.


    2. Gagnvart aðildarríki, sem lýsir síðar yfir samþykki sínu til að verða bundið af samningnum, skal hann öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er skjali um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu var komið í vörslu.

23. gr.


    1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið ríki, sem ekki á aðild að ráðinu, aðild að samningnum. Skal það gert með meirihlutaákvörðun skv. d-lið 20. gr. stofnskrárinnar og með samhljóða atkvæðum fulltrúa þeirra samningsríkja sem rétt eiga til setu í nefndinni.


    2. Gagnvart ríki, sem þannig öðlast aðild að samningnum, skal hann öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðildarskjali var komið í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

24. gr.


    1. Við undirritun eða afhendingu skjals þess um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild getur ríki tilgreint það eða þau landsvæði sem samningur þessi skal taka til.

    2. Ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, fært gildi samningsins út til sérhvers annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.

    3. Yfirlýsingar, sem gefnar eru skv. 1. og 2. mgr., má afturkalla með tilliti til hvaða landsvæðis sem þar er tilgreint með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.


25. gr.


    1. Ríki, sem skiptist í tvo eða fleiri landshluta þar sem mismunandi réttarkerfi gilda um forsjá barna og um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá, getur, við undirritun eða afhendingu skjals þess um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild, lýst því yfir að samningur þessi skuli taka til allra landshluta þess eða eins eða fleiri þeirra.

    2. Ríki, sem þetta á við um, getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, fært gildi samningsins út til sérhvers annars landshluta sem tilgreindur er í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíkum landshluta fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.

    3. Yfirlýsingar, sem gefnar eru skv. 1. og 2. mgr., má afturkalla með tilliti til hvaða landshluta sem þar er tilgreindur með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.


26. gr.


    1. Hvað snertir ríki sem hefur tvö eða fleiri réttarkerfi í forsjármálum með staðbundið gildissvið:
         a. skal litið svo á að með tilvísun til laga þess ríkis þar sem maður er búsettur eða ríkisborgari sé átt við það réttarkerfi sem gildandi reglur í því ríki segja til um að eigi við eða, séu engar síkar reglur fyrir hendi, það réttarkerfi sem hlutaðeigandi maður hefur sterkust tengsl við;
         b. skal litið svo á að með tilvísun til upphafsríkisins eða þess ríkis, sem beiðni er beint til, sé, eftir því sem við á, átt við þann landshluta þar sem ákvörðunin var tekin eða þann landshluta þar sem óskað er eftir viðurkenningu eða fullnustu á ákvörðuninni eða að forsjá verði endurheimt.
    2. Ákvæði a-liðar 1. mgr. þessarar greinar gilda einnig, að breyttu breytanda, gagnvart ríkjum sem hafa í forsjármálum tvö eða fleiri réttarkerfi með persónubundið gildissvið.

27. gr.


    1. Ríki getur, við undirritun eða afhendingu skjals þess um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild, lýst því yfir að það notfæri sér einn eða fleiri þeirra fyrirvara sem fjallað er um í 3. mgr. 6. gr., 17. gr. og 18. gr. samningsins. Aðra fyrirvara má ekki gera.


    2. Samningsríki, sem gert hefur fyrirvara skv. 1. mgr., getur afturkallað hann að öllu leyti eða að hluta með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin öðlast gildi á þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.


28. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal í lok þriðja árs frá þeim degi er samningur þessi öðlast gildi, og hvenær sem er síðar að eigin frumkvæði, bjóða fulltrúum þeirra móttökustjórnvalda, sem samningsríkin hafa tilnefnt, til fundar til að kanna og greiða fyrir framkvæmd samningsins. Þau aðildarríki Evrópuráðsins, sem ekki eru aðilar að samningnum, geta átt áheyrnarfulltrúa. Gera skal skýrslu um störf hvers fundar og senda ráðherranefnd Evrópuráðsins til upplýsingar.





29. gr.


    1. Aðili getur hvenær sem er sagt samningi þessum upp með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

    2. Slík uppsögn öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tók við tilkynningunni.

30. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum ráðsins og hverju því ríki, sem gerst hefur aðili að samningi þessum, um:
         a. sérhverja undirritun;
         b. afhendingu sérhvers skjals um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild;
         c. sérhvern gildistökudag samningsins skv. 22., 23., 24. og 25. gr.;

         d. sérhverja aðra aðgerð, tilkynningu eða orðsendingu sem varðar samninginn.
    
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Lúxemborg, 20. maí 1980, á ensku og frönsku, í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textar jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit til hvers aðildarríkis Evrópuráðsins og til hvers ríkis sem boðin er aðild að samningnum.



Fylgiskjal II.


SAMNINGUR


um einkaréttarleg áhrif af brottnámi


barna til flutnings milli landa.



    Þau ríki sem undirritað hafa þennan samning,
    sem eru eindregið þeirrar skoðunar að hagsmunir barna skipti mestu máli þegar fjallað er um forsjá þeirra og
    vilja veita börnum alþjóðlega vernd fyrir skaðlegum áhrifum þess að þau séu flutt á brott með ólögmætum hætti eða haldið á ólögmætan hátt og koma á fyrirkomulagi sem tryggir að þeim sé skilað með skjótum hætti til þess ríkis þar sem þau eru búsett svo og til að tryggja verndun umgengnisréttar,
    hafa ákveðið að gera með sér samning í þessu skyni og hafa orðið ásátt um eftirfarandi ákvæði:
    

I. KAFLI

Gildissvið samningsins.

1. gr.

    Markmið samnings þessa eru:

a)    að tryggja að börnum, sem flutt eru með ólögmætum hætti til samningsríkis eða haldið þar á ólögmætan hátt, sé skilað með skjótum hætti; og
b)    að sjá til þess að forsjárréttur og umgengnisréttur samkvæmt lögum eins samningsríkis sé í raun virtur í öðrum samningsríkjum.

2. gr.

    Samningsríki skulu grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að tryggja að markmiðum samningsins verði náð innan landsvæða sinna. Í þessu skyni skulu þau beita skjótustu málsmeðferð sem völ er á.

3. gr.

    Litið skal svo á að brottflutningur eða hald á barni sé ólögmætt þegar:

a)    það felur í sér brot á forsjárrétti sem maður, stofnun eða einhver annar aðili hefur á hendi, annaðhvort einn eða með öðrum, samkvæmt lögum þess ríkis þar sem barnið var búsett rétt áður en það var flutt á brott eða því haldið; og
b)    sá aðili fór í raun með forsjána, annaðhvort einn eða með öðrum, á þeim tíma er brottflutningur eða hald átti sér stað eða hefði farið með hana ef brottflutningurinn eða haldið hefði ekki átt sér stað.
    Forsjárréttur sá, sem nefndur er í a-lið, getur einkum verið leiddur af lögum eða komið til vegna ákvörðunar dómara eða stjórnvalds, eða vegna samnings sem hefur lagalegt gildi samkvæmt lögum þess ríkis.


4. gr.

    Samningurinn skal eiga við um hvert það barn sem var búsett í samningsríki rétt áður en brot gegn forsjár- eða umgengnisrétti átti sér stað. Samningurinn á ekki við eftir að barnið nær 16 ára aldri.


5. gr.

    Í samningi þessum:
a)    felur „forsjárréttur“ í sér rétt sem varðar umönnun barnsins sjálfs og sérstaklega rétt til að taka ákvörðun um búsetu þess;

b)    felur „umgengnisréttur“ í sér rétt til að fara með barn um takmarkaðan tíma til annars staðar en þar sem það býr.

II. KAFLI

Móttökustjórnvöld.

6. gr.

    Samningsríki skal tilnefna móttökustjórnvald til að annast þau störf sem falin eru slíkum stjórnvöldum í samningnum.
    Sambandsríkjum, ríkjum með fleiri en eitt réttarkerfi eða ríkjum með sjálfstæðar staðbundnar stofnanir er frjálst að tilnefna fleiri en eitt móttökustjórnvald og að tilgreina til hvaða landsvæða vald þeirra nær. Hafi ríki tilnefnt fleiri en eitt móttökustjórnvald skal það tilnefna það móttökustjórnvald sem senda má beiðnir til svo framsenda megi þær viðkomandi móttökustjórnvaldi innan þess ríkis.



7. gr.


    Móttökustjórnvöld skulu hafa samvinnu sín á milli og stuðla að samvinnu milli þar til bærra yfirvalda í ríkjum sínum til að tryggja að börnum verði skilað með skjótum hætti og til að ná öðrum markmiðum þessa samnings.
    Einkum skulu þau, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu annarra, gera allt sem við á:
a)    til að finna hvar barn, sem flutt hefur verið á brott með ólögmætum hætti eða er haldið á ólögmætan hátt, er niðurkomið;
b)    til að koma í veg fyrir að barnið bíði frekari skaða eða að hagsmunum þeirra aðila sem mál varðar verði stefnt í frekari hættu með því að grípa til eða sjá til þess að gripið verði til bráðabirgðaráðstafana;
c)    til að tryggja að barninu verði skilað af frjálsum vilja eða til að vinsamleg lausn verði fundin á málinu;
d)    til að skiptast á upplýsingum um félagslega hagi barnsins, ef æskilegt er;

e)    til að veita upplýsingar almenns eðlis um lög ríkis síns í tengslum við beitingu samningsins;

f)    til að hefja eða greiða fyrir því að hafin verði málsmeðferð fyrir dómstólum eða stjórnvöldum í því skyni að fá barni skilað og, þegar við á, til að umgengnisréttur verði fastsettur eða tryggt að hann nái í raun fram að ganga;
g)    til að veita eða greiða fyrir því að veitt sé lögfræðileg aðstoð og ráðgjöf þar sem aðstæður krefjast þess, þar á meðal þannig að lögmenn og ráðgjafar komi inn í mál;
h)    til að þær stjórnvaldsaðgerðir verði gerðar sem taldar eru nauðsynlegar og viðeigandi til að tryggja að barninu verði skilað heilu á húfi;
i)    til að veita hvert öðru upplýsingar um framkvæmd samningsins og eyða, eftir því sem unnt er, öllum hindrunum sem standa kunna í vegi fyrir beitingu hans.
    

III. KAFLI


Börnum skilað.


8. gr.

    Hver sá maður, stofnun eða annar aðili, sem heldur því fram að farið hafi verið með barn á brott eða að því sé haldið í blóra við forsjárrétt, getur annaðhvort sótt um aðstoð til móttökustjórnvalds þar sem barnið hefur búsetu eða til móttökustjórnvalds annars samningsríkis til að tryggja að barninu verði skilað.
    Í beiðni skulu koma fram:
a)    upplýsingar um hver sé beiðandi, hvert barnið sé og hver sá maður sé sem haldið er fram að hafi farið með barnið á brott eða haldi því;
b)    upplýsingar um fæðingardag barnsins, ef þær eru fyrir hendi;
c)    þær ástæður sem beiðandi byggir kröfu sína á um að barninu verði skilað;
d)    allar upplýsingar sem fyrir hendi eru um hvar barnið sé niðurkomið og hver sá maður sé sem barnið er talið vera hjá.
    Beiðninni má láta fylgja eða bæta má við hana síðar:
e)    staðfestu endurriti af hverri þeirri ákvörðun eða samningi sem máli skiptir;
f)    vottorði eða yfirlýsingu frá móttökustjórnvaldi, eða öðru þar til bæru yfirvaldi í því ríki þar sem barnið hefur búsetu, eða frá hæfum manni, varðandi þau lög þess ríkis sem við eiga;

g)    hverju því skjali öðru sem máli skiptir.

9. gr.


    Hafi móttökustjórnvald, sem tekur við beiðni skv. 8. gr., ástæðu til að ætla að barnið sé í öðru samningsríki skal það án tafar senda beiðnina beint til móttökustjórnvalds þess samningsríkis og tilkynna móttökustjórnvaldinu, sem bar fram beiðnina, eða beiðanda, eftir því sem við á, um það.


10. gr.


    Móttökustjórnvald þess ríkis þar sem barnið er skal gera eða sjá um að gerðar séu allar ráðstafanir sem við eiga til að barninu verði skilað af frjálsum vilja.


11. gr.


    Dómstólar eða stjórnvöld samningsríkja skulu hraða málsmeðferð vegna afhendingar á barni.

    Hafi viðkomandi dómstóll eða stjórnvald ekki komist að niðurstöðu innan sex vikna frá þeim degi er meðferð máls hófst eiga beiðandi eða móttökustjórnvald þess ríkis sem beiðni er beint til, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að ósk móttökustjórnvalds þess ríkis sem ber fram beiðni, rétt á að óska eftir greinargerð um ástæður tafarinnar. Ef móttökustjórnvaldi þess ríkis, sem beiðni er beint til, berst svar skal það senda það móttökustjórnvaldi þess ríkis sem ber fram beiðni eða beiðanda, eftir því sem við á.


12. gr.


    Þegar barn hefur verið flutt á brott með ólögmætum hætti eða því er haldið á ólögmætan hátt, sbr. 3. gr., og ekki er liðið eitt ár frá þeim degi er hinn ólögmæti brottflutningur átti sér stað eða ólögmætt hald hófst, á þeim degi er málsmeðferð hefst fyrir dómstóli eða stjórnvaldi þess samningsríkis þar sem barnið er, skal viðkomandi dómstóll eða stjórnvald skipa svo fyrir að barninu skuli skilað þegar í stað.
    Jafnvel þótt málsmeðferð hafi hafist eftir að eins árs frestinum, sem vísað er til í undanfarandi málsgrein, lauk skal dómstóll eða stjórnvald einnig fyrirskipa að barninu skuli skilað, nema sýnt sé fram á að barnið hafi þá aðlagast hinu nýja umhverfi sínu.

    Dómstóll eða stjórnvald í því ríki, sem beiðni er beint til, getur stöðvað málsmeðferð eða vísað frá beiðni um að barninu sé skilað, ef það hefur ástæðu til að ætla að farið hafi verið með barnið til annars ríkis.

13. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði undanfarandi greinar ber dómstóli eða stjórnvaldi í því ríki, sem beiðni er beint til, ekki skylda til að fyrirskipa að barninu sé skilað ef sá maður, stofnun eða annar aðili sem mótmælir afhendingu þess sýnir fram á að:

a)    sá maður, stofnun eða annar aðili, sem hafði umönnun barnsins með höndum, hafi í raun ekki farið með forsjárréttinn á þeim tíma er brottflutningur átti sér stað eða hald hófst eða hafi samþykkt eða síðar fallist á brottflutninginn eða haldið; eða
b)    alvarleg hætta sé á að afhendingin muni valda barninu líkamlegum eða andlegum skaða eða á annan hátt koma því í óbærilega stöðu.

    Dómstóll eða stjórnvald getur einnig neitað að fyrirskipa að barninu skuli skilað ef það telur að barnið sé andvígt því og að það hafi náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess.
    Við mat á aðstæðum, sem fjallað er um í þessari grein, skulu dómstólar og stjórnvöld taka tillit til upplýsinga um félagslega hagi barnsins sem móttökustjórnvald, eða annað þar til bært yfirvald, þar sem barnið hefur búsetu hefur aflað.


14. gr.


    Við ákvörðun um það hvort ólögmætur brottflutningur eða hald, í skilningi 3. gr., hafi átt sér stað geta dómstólar eða stjórnvöld þess ríkis, sem beiðni er beint til, tekið beint mið af lögum þess ríkis þar sem barnið hefur búsetu og af ákvörðunum dómstóla eða stjórnvalda þar hvort sem þeir eru formlega viðurkenndir eða ekki, án þess að beitt sé sérstakri málsmeðferð, sem ella mundi eiga við, til sönnunar á efni þessara lagareglna eða til viðurkenningar á erlendum ákvörðunum.

15. gr.


    Dómstólar eða stjórnvöld í samningsríki geta, áður en þau gefa út fyrirmæli um að barni skuli skilað, óskað eftir því að beiðandi afli úrskurðar eða annarrar ákvörðunar frá yfirvöldum í ríki þar sem barn var búsett, þess efnis að brottflutningurinn eða haldið hafi verið ólögmætt í skilningi 3. gr. samningsins, enda sé mögulegt að afla slíks úrskurðar eða ákvörðunar í því ríki. Móttökustjórnvöld samningsríkja skulu aðstoða beiðendur eftir föngum við að afla slíkra úrskurða eða ákvarðana.



16. gr.


    Dómstólar eða stjórnvöld þess samningsríkis, sem barnið hefur verið flutt til eða er haldið í, skulu, eftir að þeim hefur borist tilkynning um ólögmætan brottflutning eða hald á barni í skilningi 3. gr., ekki úrskurða um forsjárréttinn fyrr en ákveðið hefur verið að barninu verði ekki skilað samkvæmt þessum samningi eða hæfilegur frestur er liðinn frá því að tilkynning var móttekin án þess að beiðni samkvæmt samningnum hafi verið lögð fram.


17. gr.


    Synjun á að skila barni samkvæmt þessum samningi verður ekki byggð á því einu að úrskurður varðandi forsjá hafi verið kveðinn upp, eða skuli viðurkenndur, í því ríki sem beiðni er beint til, en dómstólar eða stjórnvöld þess ríkis geta tekið tillit til forsendna slíks úrskurðar við beitingu samningsins.


18. gr.


    Ákvæði þessa kafla takmarka ekki heimild dómstóls eða stjórnvalds til að skipa svo fyrir hvenær sem er að barni skuli skilað.

19. gr.


    Ekki skal litið svo á að í ákvörðun um að skila barni samkvæmt þessum samningi felist efnisleg úrlausn neins álitamáls varðandi forsjá.

20. gr.


    Heimilt er að synja um afhendingu á barni samkvæmt ákvæðum 12. gr. ef hún væri óheimil samkvæmt grundvallarreglum þess ríkis, sem beiðni er beint til, um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

IV. KAFLI

Umgengnisréttur.

21. gr.

    Beiðni um aðgerðir til að ákveða umgengnisrétt eða til að tryggja að hann nái í raun fram að ganga má leggja fyrir móttökustjórnvöld samningsríkjanna á sama hátt og beiðni um að barni skuli skilað.
    Eins og segir í 7. gr. eru móttökustjórnvöldin skuldbundin til samvinnu til að greiða fyrir því að unnt sé að njóta umgengnisréttar með friðsömum hætti og að þeim skilyrðum, sem sett hafa verið fyrir umgengni, sé fullnægt. Móttökustjórnvöldin skulu, eftir því sem unnt er, gera ráðstafanir til að ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að unnt sé að njóta þessara réttinda.
    Móttökustjórnvöldin geta, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu annarra, hafið málsmeðferð eða veitt aðstoð til þess að hún verði hafin til að unnt sé að ákveða eða vernda þessi réttindi og tryggja að skilyrði fyrir umgengni séu virt.


V. KAFLI

Almenn ákvæði.

22. gr.

    Ekki má krefjast þess að lögð sé fram neins konar ábyrgð, skuldaryfirlýsing eða trygging til að ábyrgjast greiðslu útgjalda og kostnaðar af málsmeðferð fyrir dómstóli eða stjórnvaldi sem samningur þessi tekur til.

23. gr.


    Ekki má krefjast opinberrar staðfestingar eða setja áþekk formskilyrði varðandi samning þennan.

24. gr.


    Beiðnir, tilkynningar og önnur skjöl, sem send eru móttökustjórnvaldi þess ríkis sem beiðni er beint til, skulu vera á frummálinu. Þeim skal fylgja þýðing á opinbert tungumál þess ríkis, sem beiðni er beint til, eða eitt hinna opinberu tungumála þess eða, sé það ekki unnt, þýðing á frönsku eða ensku.

    Samningsríki getur þó, með því að gera fyrirvara í samræmi við 42. gr., mótmælt því að annaðhvort franska eða enska, þó ekki bæði tungumálin, sé notuð í beiðnum, tilkynningum og öðrum skjölum sem send eru móttökustjórnvaldi þess.

25. gr.


    Ríkisborgarar samningsríkjanna og þeir sem búsettir eru í þessum ríkjum skulu, í málum sem snerta beitingu þessa samnings, eiga rétt á lögfræðilegri aðstoð og ráðgjöf í öðrum samningsríkjum með sömu skilyrðum og ef þeir væru sjálfir ríkisborgarar þess ríkis og búsettir í því.


26. gr.


    Hvert móttökustjórnvald skal bera eigin kostnað við beitingu þessa samnings.
    Móttökustjórnvöld og aðrar opinberar stofnanir samningsríkja skulu ekki leggja á nein gjöld í sambandi við beiðnir sem lagðar eru fram samkvæmt samningnum. Sérstaklega geta þau ekki krafið beiðanda um greiðslu á útgjöldum og kostnaði vegna málsmeðferðarinnar eða, ef við á, vegna lögfræðilegrar aðstoðar. Þau geta þó krafist greiðslu á kostnaði sem leiðir af, eða mun leiða af, sjálfri afhendingu barnsins.


    Samningsríki getur þó, með því að gera fyrirvara í samræmi við 42. gr., lýst því yfir að það sé ekki skuldbundið til að taka á sig þann kostnað sem vikið er að í undanfarandi málsgrein og stafar af lögfræðilegri aðstoð eða af meðferð máls fyrir dómi, nema að því leyti sem þessi kostnaður fellur undir reglur þess um opinbera réttaraðstoð.
    Dómstólar eða stjórnvöld geta, þegar þau úrskurða um að barni skuli skilað eða kveða upp úrskurð um umgengnisrétt samkvæmt samningi þessum, ef við á, gert þeim, sem flutti barnið á brott eða hélt því eða kom í veg fyrir að unnt væri að njóta umgengnisréttar, að greiða nauðsynleg útgjöld sem stofnað hefur verið til af beiðanda eða fyrir hans hönd, þar á meðal ferðakostnað, kostnað sem stofnað hefur verið til eða sem greiddur hefur verið til að finna hvar barnið var niður komið, kostnað af lögfræðilegu fyrirsvari beiðandans og kostnað við að skila barninu.

27. gr.


    Móttökustjórnvaldi er óskylt að taka við beiðni þegar augljóst er að skilyrðum þessa samnings er ekki fullnægt eða að beiðnin á ekki að öðru leyti við rök að styðjast. Í slíkum tilvikum skal móttökustjórnvaldið þegar skýra beiðandanum eða, eftir því sem við á, móttökustjórnvaldinu, sem hafði milligöngu um að beiðnin var lögð fram, frá ástæðum þess.

28. gr.


    Móttökustjórnvald getur krafist þess að beiðni fylgi skriflegt umboð sem veiti því heimild til að koma fram fyrir hönd beiðanda eða til að skipa fyrirsvarsmann til þess.

29. gr.


    Samningur þessi skal ekki vera því til fyrirstöðu að maður, stofnun eða annar aðili, sem heldur því fram að brotið hafi verið gegn forsjár- eða umgengnisrétti í skilningi 3. eða 21. gr., leiti beint til dómstóla eða stjórnvalda í samningsríki, hvort sem það er gert samkvæmt samningnum eða án tillits til hans.


30. gr.


    Hverja þá beiðni, sem komið er á framfæri við móttökustjórnvöld eða beint við dómstóla eða stjórnvöld í samningsríki í samræmi við ákvæði þessa samnings, svo og skjöl og aðrar upplýsingar sem henni fylgja eða móttökustjórnvald lætur í té, skal vera heimilt að leggja fram fyrir rétti eða fyrir stjórnvöld í samningsríkjunum.


31. gr.


    Hvað snertir ríki sem hefur tvö eða fleiri réttarkerfi í málum varðandi forsjá barna sem eiga við í mismunandi landshlutum:
a)    skal litið svo á að með tilvísun til búsetu í því ríki sé átt við búsetu í ákveðnum landshluta þess ríkis;

b)    skal litið svo á að með tilvísun til laga í ríki þar sem barn hefur búsetu sé átt við lögin í þeim landshluta þess ríkis þar sem barnið hefur búsetu.

32. gr.


    Hvað snertir ríki, sem hefur tvö eða fleiri réttarkerfi í málum varðandi forsjá barna fyrir mismunandi hópa fólks, skal litið svo á að með tilvísun til laga þess ríkis sé átt við það réttarkerfi sem lög ríkisins tilgreina að eigi við.


33. gr.


    Ríki þar sem ákveðnir landshlutar hafa sínar eigin lagareglur varðandi forsjá barna er ekki skuldbundið til að beita þessum samningi ef ríki með eitt réttarkerfi væri ekki skuldbundið til þess.


34. gr.


    Samningur þessi skal, í málum innan gildissviðs hans, ganga framar samningi frá 5. október 1961 um valdbærni yfirvalda og lög sem við eiga um verndun þeirra sem eru ólögráða sökum æsku í skiptum aðila að báðum samningunum. Að öðru leyti takmarkar samningur þessi ekki beitingu alþjóðasamninga sem gilda milli upphafsríkisins og þess ríkis sem beiðni er beint til eða annarra laga síðarnefnda ríkisins til þess að fá barni, sem flutt hefur verið á brott með ólögmætum hætti eða er haldið á ólögmætan hátt, skilað eða til þess að fastsetja umgengisrétt.


35. gr.


    Í skiptum samningsríkja skal samningur þessi aðeins gilda um ólögmætan brottflutning eða hald sem á sér stað eftir að hann öðlast gildi í þeim ríkjum.
    Hafi verið gefin yfirlýsing skv. 39. eða 40. gr. skal litið svo á að með samningsríki í fyrri málsgrein sé átt við þann landshluta eða þá landshluta þar sem samningurinn hefur gildi.


36. gr.


    Ekkert í samningi þessum skal vera því til fyrirstöðu að tvö eða fleiri samningsríki komi sér saman um það sín á milli, til þess að draga úr þeim takmörkunum sem geta átt við um afhendingu á barni, að víkja frá þeim ákvæðum samningsins sem kunna að fela í sér slíkar takmarkanir.

VI. KAFLI

Lokaákvæði.

37. gr.

    Samningurinn skal liggja frammi til undirritunar af hálfu þeirra ríkja sem voru þátttakendur í Haagráðstefnunni um alþjóðlegan einkamálarétt á þeim tíma er fjórtándi fundur hennar var haldinn.
    Hann skal fullgiltur, viðurkenndur eða staðfestur og skal koma skjölum um fullgildingu, viðurkenningu eða staðfestingu í vörslu hjá utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands.

38. gr.


    Sérhvert annað ríki getur gerst aðili að samningnum.
    Aðildarskjölum skal koma í vörslu hjá utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands.

    Samningurinn öðlast gildi gagnvart ríki, sem gerist aðili að honum, fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að aðildarskjali þess er komið í vörslu.
    Aðildin hefur aðeins gildi varðandi samskipti aðildarríkisins og þeirra samningsríkja sem lýst hafa því yfir að þau viðurkenni aðildina. Slík yfirlýsing er einnig nauðsynleg af hálfu þátttökuríkis sem fullgildir, viðurkennir eða staðfestir samninginn eftir að aðild hefur átt sér stað. Yfirlýsingunni skal koma í vörslu hjá utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands. Ráðuneytið skal senda hverju samningsríki staðfest endurrit eftir diplómatískum leiðum.


    Samningurinn öðlast gildi milli aðildarríkisins og þess ríkis sem lýst hefur því yfir að það viðurkenni aðildina fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að viðurkenningaryfirlýsingunni er komið í vörslu.

39. gr.


    Sérhvert ríki getur við undirritun, fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða þegar það gerist aðili lýst því yfir að samningurinn skuli ná til allra landsvæða sem það annast alþjóðasamskipti fyrir eða til eins þeirra eða fleiri. Slík yfirlýsing öðlast gildi er samningurinn öðlast gildi gagnvart því ríki.

    Slíkar yfirlýsingar, svo og síðari útfærsla á gildissvæði, skulu tilkynntar utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands.

40. gr.


    Ef innan samningsríkis eru tveir eða fleiri landshlutar þar sem mismunandi réttarkerfi gilda um mál, sem samningur þessi fjallar um, getur það við undirritun, fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða þegar það gerist aðili lýst því yfir að samningurinn skuli ná til allra landshluta þess eða aðeins til eins þeirra eða fleiri. Það getur hvenær sem er breytt þeirri yfirlýsingu með annarri yfirlýsingu.
    Utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands skal tilkynnt um hverja slíka yfirlýsingu og skal koma skýrt fram í henni til hvaða landshluta samningurinn tekur.

41. gr.


    Þar sem framkvæmdarvaldi, dómsvaldi og löggjafarvaldi er, samkvæmt stjórnskipan samningsríkis, dreift milli miðstýrðra yfirvalda og annarra yfirvalda innan ríkisins skal undirritun, fullgilding, viðurkenning, staðfesting eða aðild þess að samningnum, eða yfirlýsing þess skv. 40. gr., ekki fela í sér neina vísbendingu um innbyrðis valddreifingu í því ríki.


42. gr.


    Sérhvert ríki getur, þó eigi síðar en þegar fullgilding, viðurkenning, staðfesting eða aðild á sér stað eða þegar gefin er út yfirlýsing skv. 39. eða 40. gr., gert annan hvorn eða báða þá fyrirvara sem 24. gr. og 3. mgr. 26. gr. gera ráð fyrir. Ekki má gera aðra fyrirvara.

    Ríki getur hvenær sem er afturkallað fyrirvara sem það hefur gert. Tilkynna skal utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands um afturköllunina.

    Fyrirvari fellur úr gildi fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að tilkynning samkvæmt fyrri málsgrein hefur verið gefin út.

43. gr.


    Samningurinn öðlast gildi fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að þriðja skjalinu um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild skv. 37. og 38. gr. er komið í vörslu.

    Samningurinn skal síðan öðlast gildi:

(1)    gagnvart hverju því ríki sem fullgildir, viðurkennir, staðfestir eða gerist aðili að honum síðar, fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að skjali þess um fullgildingu, viðurkenningu, staðfestingu eða aðild er komið í vörslu;
(2)    gagnvart sérhverju landsvæði eða landshluta, sem gildi samningsins hefur verið fært út til í samræmi við 39. eða 40. gr., fyrsta dag þriðja almanaksmánaðar eftir að gefin var út tilkynning samkvæmt greinunum.

44. gr.


    Samningurinn skal halda gildi sínu í fimm ár frá þeim degi er hann öðlaðist gildi skv. 1. mgr. 43. gr. Þetta á einnig við gagnvart ríkjum sem hafa fullgilt, viðurkennt, staðfest eða gerst aðilar að honum síðar.
    Samningurinn endurnýjast sjálfkrafa á fimm ára fresti ef engin uppsögn hefur átt sér stað.
    Tilkynna skal utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands um hverja uppsögn að minnsta kosti sex mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins. Hana má takmarka við ákveðin landsvæði eða landshluta sem samningurinn gildir gagnvart.
    Uppsögnin hefur aðeins gildi gagnvart því ríki sem hefur tilkynnt um hana. Samningurinn heldur gildi sínu gagnvart hinum samningsríkjunum.

45. gr.


    Utanríkisráðuneyti konungsríkisins Hollands skal tilkynna þátttökuríkjum ráðstefnunnar, svo og ríkjum sem gerst hafa aðilar skv. 38. gr., um eftirfarandi:


(1)    undirritanir, fullgildingar, viðurkenningar og staðfestingar skv. 37. gr.;
(2)    aðild skv. 38. gr.;

(3)    gildistökudag samningsins skv. 43. gr.;

(4)    útfærslu á gildissvæði skv. 39. gr.;

(5)    yfirlýsingar skv. 38. og 40. gr.;

(6)    fyrirvara skv. 24. gr. og 3. mgr. 26. gr. og afturkallanir skv. 42. gr.;


(7)    uppsagnir skv. 44. gr.


    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað þennan samning.

    Gjört í Haag 25. október 1980 á ensku og frönsku, í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni ríkisstjórnar konungsríkisins Hollands og eru báðir textar jafngildir. Staðfest endurrit þess skal sent, eftir diplómatískum leiðum, til hvers þess ríkis sem var þátttakandi í Haagráðstefnunni um alþjóðlegan einkamálarétt á þeim tíma er fjórtándi fundur hennar var haldinn.

EUROPEAN CONVENTION


on Recognition and Enforcement


of Decisions Concerning Custody


of Children and on Restoration


of Custody of Children



    The member States of the Council of Europe, signatory hereto,
    Recognising that in the member States of the Council of Europe the welfare of the child is of overriding importance in reaching decisions concerning his custody;
    Considering that the making of arrangements to ensure that decisions concerning the custody of a child can be more widely recognised and enforced will provide greater protection of the welfare of children;
    Considering it desirable, with this end in view, to emphasise that the right of access of parents is a normal corollary to the right of custody;
    Noting the increasing number of cases where children have been improperly removed across an international frontier and the difficulties of securing adequate solutions to the problems caused by such cases;
    Desirous of making suitable provision to enable the custody of children which has been arbitrarily interrupted to be restored;
    Convinced of the desirability of making arrangements for this purpose answering to different needs and different circumstances;
    Desiring to establish legal co-operation between their authorities,
    Have agreed as follows:

Article 1


    For the purposes of this Convention:
a.     child means a person of any nationality, so long as he is under 16 years of age and has not the right to decide on his own place of residence under the law of his habitual residence, the law of his nationality or the internal law of the State addressed;
b.     authority means a judicial or administrative authority;
c.     decision relating to custody means a decision of an authority in so far as it relates to the care of the person of the child, including the right to decide on the place of his residence, or to the right of access to him;
d.     improper removal means the removal of a child across an international frontier in breach of a decision relating to his custody which has been given in a Contracting State and which is enforceable in such a State; improper removal also in-cludes:
         i.    the failure to return a child across an international frontier at the end of a period of the exercise of the right of access to this child or at the end of any other temporary stay in a territory other than that where the custody is exercised;
         ii.    a removal which is subsequently declared unlawful within the meaning of Article 12.



PART I


Central authorities


Article 2


    1. Each Contracting State shall appoint a central authority to carry out the functions provided for by this Convention.
    2. Federal States and States with more than one legal system shall be free to appoint more than one central authority and shall determine the extent of their competence.
    3. The Secretary General of the Council of Europe shall be notified of any appointment under this Article.

Article 3


    1. The central authorities of the Contracting States shall co-operate with each other and promote co-operation between the competent authorities in their respective countries. They shall act with all necessary despatch.
    2. With a view to facilitating the operation of this Convention, the central authorities of the Contracting States:
         a. shall secure the transmission of requests for information coming from competent authorities and relating to legal or factual matters concerning pending proceedings;
         b. shall provide each other on request with information about their law relating to the custody of children and any changes in that law;
         c. shall keep each other informed of any difficulties likely to arise in applying the Convention and, as far as possible, eliminate obstacles to its application.

Article 4


    1. Any person who has obtained in a Contracting State a decision relating to the custody of a child and who wishes to have that decision recognised or enforced in another Contracting State may submit an application for this purpose to the central authority in any Contracting State.
    2. The application shall be accompanied by the documents mentioned in Article 13.
    3. The central authority receiving the application, if it is not the central authority in the State addressed, shall send the documents directly and without delay to that central authority.
    4. The central authority receiving the application may refuse to intervene where it is manifestly clear that the conditions laid down by this Convention are not satisfied.
    5. The central authority receiving the application shall keep the applicant informed without delay of the progress of his application.

Article 5


1.     The central authority in the State addressed shall take or cause to be taken without delay all steps which it considers to be appropriate, if necessary by instituting proceedings before its competent authorities, in order:
         a. to discover the whereabouts of the child;
         b. to avoid, in particular by any necessary provisional measures, prejudice to the interests of the child or of the applicant;
         c. to secure the recognition or enforcement of the decision;
         d. to secure the delivery of the child to the applicant where enforcement is granted;
         e. to inform the requesting authority of the measures taken and their results.


    2. Where the central authority in the State addressed has reason to believe that the child is in the territory of another Contracting State it shall send the documents directly and without delay to the central authority of that State.
    3. With the exception of the cost of repatriation, each Contracting State undertakes not to claim any payment from an applicant in respect of any measures taken under paragraph 1 of this Article by the central authority of that State on the applicant's behalf, including the costs of proceedings and, where applicable, the costs incurred by the assistance of a lawyer.
    4. If recognition or enforcement is refused, and if the central authority of the State addressed considers that it should comply with a request by the applicant to bring in that State proceedings concerning the substance of the case, that authority shall use its best endeavours to secure the representation of the applicant in the proceedings under conditions no less favourable than those available to a person who is resident in and a national of that State and for this purpose it may, in particular, institute proceedings before its competent authorities.

Article 6


    1. Subject to any special agreements made between the central authorities concerned and to the provisions of paragraph 3 of this Article:
         a. communications to the central authority of the State addressed shall be made in the official language or in one of the official languages of that State or be accompanied by a translation into that language;
         b. the central authority of the State addressed shall nevertheless accept communications made in English or in French or accompanied by a translation into one of these languages.
    2. Communications coming from the central authority of the State addressed, including the results of enquiries carried out, may be made in the official language or one of the official languages of that State or in English or French.

    3. A Contracting State may exclude wholly or partly the provisions of paragraph l. b of this Article. When a Contracting State has made this reservation any other Contracting State may also apply the reservation in respect of that State.

PART II


Recognition and enforcement of


decisions and restoration of


custody of children


Article 7


    A decision relating to custody given in a Contracting State shall be recognised and, where it is enforceable in the State of origin, made enforceable in every other Contracting State.

Article 8


    l. In the case of an improper removal, the central authority of the State addressed shall cause steps to be taken forthwith to restore the custody of the child where:
         a. at the time of the institution of the proceedings in the State where the decision was given or at the time of the improper removal, if earlier, the child and his parents had as their sole nationality the nationality of that State and the child had his habitual residence in the territory of that State, and
          b. a request for the restoration was made to a central authority within a period of six months from the date of the improper removal.
    2. If, in accordance with the law of the State addressed, the requirements of paragraph 1 of this Article cannot be complied with without recourse to a judicial authority, none of the grounds of refusal specified in this Convention shall apply to the judicial proceedings.
    3. Where there is an agreement officially confirmed by a competent authority between the person having the custody of the child and another person to allow the other person a right of access, and the child, having been taken abroad, has not been restored at the end of the agreed period to the person having the custody, custody of the child shall be restored in accordance with paragraphs l. b and 2 of this Article. The same shall apply in the case of a decision of the competent authority granting such a right to a person who has not the custody of the child.

Article 9


    l. In cases of improper removal, other than those dealt with in Article 8, in which an application has been made to a central authority within a period of six months from the date of the removal, recognition and enforcement may be refused only if:
          a. in the case of a decision given in the absence of the defendant or his legal representative, the defendant was not duly served with the document which instituted the proceedings or an equivalent document in sufficient time to enable him to arrange his defence; but such a failure to effect service cannot constitute a ground for refusing recognition or enforcement where service was not effected because the defendant had concealed his whereabouts from the person who instituted the proceedings in the State of origin;
          b. in the case of a decision given in the absence of the defendant or his legal representative, the competence of the authority giving the decision was not founded:
              i.         on the habitual residence of the defendant, or
              ii.         on the last common habitual residence of the child's parents, at least one parents being still habitually resident there, or
              iii.    on the habitual residence of the child;
          c. the decision is incompatible with a decision relating to custody which became enforceable in the State addressed before the removal of the child, unless the child has had his habitual residence in the territory of the requesting State for one year before his removal.
    2. Where no application has been made to a central authority, the provisions of paragraph 1 of this Article shall apply equally, if recognition and enforcement are requested within six months from the date of the improper removal.
    3. In no circumstances may the foreign decision be reviewed as to its substance.

Article 10


    1. In cases other than those covered by Articles 8 and 9, recognition and enforcement may be refused not only on the grounds provided for in Article 9 but also on any of the following grounds:
          a. if it is found that the effects of the decision are manifestly incompatible with the fundamental principles of the law relating to the family and children in the State addressed;
          b. if it is found that by reason of a change in the circumstances including the passage of time but not including a mere change in the residence of the child after an improper removal, the effects of the original decision are manifestly no longer in accordance with the welfare of the child;
          c. if at the time when the proceedings were instituted in the State of origin:
              i.    the child was a national of the State addressed or was habitually resident there and no such connection existed with the State of origin;
              ii.    the child was a national both of the State of origin and of the State addressed and was habitually resident in the State addressed;
          d. if the decision is incompatible with a decision given in the State addressed or enforceable in that State after being given in a third State, pursuant to proceedings begun before the submission of the request for recognition or enforcement, and if the refusal is in accordance with the welfare of the child.
    2. In the same cases, proceedings for recognition or enforcement may be adjourned on any of the following grounds:
          a. if an ordinary form of review of the original decision has been commenced;
          b. if proceedings relating to the custody of the child, commenced before the proceedings in the State of origin were instituted, are pending in the State addressed;
          c. if another decision concerning the custody of the child is the subject of proceedings for enforcement or of any other proceedings concerning the recognition of the decision.

Article 11


    1. Decisions on rights of access and provisions of decisions relating to custody which deal with the right of access shall be recognised and enforced subject to the same conditions as other decisions relating to custody.
    2. However, the competent authority of the State addressed may fix the conditions for the implementation and exercise of the right of access taking into account, in particular, undertakings given by the parties on this matter.

    3. Where no decision on the right of access has been taken or where recognition or enforcement of the decision relating to custody is refused, the central authority of the State addressed may apply to its competent authorities for a decision on the right of access, if the person claiming a right of access so requests.

Article 12


    Where, at the time of the removal of a child across an international frontier, there is no enforceable decision given in a Contracting State relating to his custody, the provisions of this Convention shall apply to any subsequent decision, relating to the custody of that child and declaring the removal to be unlawful, given in a Contracting State at the request of any interested person.

PART III


Procedure


Article 13


    1. A request for recognition or enforcement in another Contracting State of a decision relating to custody shall be accompanied by:
          a. a document authorising the central authority of the State addressed to act on behalf of the applicant or to designate another representative for that purpose;
          b. a copy of the decision which satisfies the necessary conditions of authenticity;
          c. in the case of a decision given in the absence of the defendant or his legal representative, a document which establishes that the defendant was duly served with the document which instituted the proceedings or an equivalent document;
          d. if applicable, any document which establishes that, in accordance with the law of the State of origin, the decision is enforceable;
          e. if possible, a statement indicating the whereabouts or likely whereabouts of the child in the State addressed;

          f. proposals as to how the custody of the child should be restored.
    2. The documents mentioned above shall, where necessary, be accompanied by a translation according to the provisions laid down in Article 6.

Article 14


    Each Contracting State shall apply a simple and expeditious procedure for recognition and enforcement of decisions relating to the custody of a child. To that end it shall ensure that a request for enforcement may be lodged by simple application.

Article 15


    1. Before reaching a decision under paragraph 1. b of Article 10, the authority concerned in the State addressed:

          a. shall ascertain the child's views unless this is impracticable having regard in particular to his age and understanding; and
         b. may request that any appropriate enquiries be carried out.
    2. The cost of enquiries in any Contracting State shall be met by the authorities of the State where they are carried out.
    Requests for enquiries and the results of enquiries may be sent to the authority concerned through the central authorities.

Article 16


    For the purposes of this Convention, no legalisation or any like formality may be required.

PART IV


Reservations


Article 17


    1. A Contracting State may make a reservation that, in cases covered by Articles 8 and 9 or either of these Articles, recognition and enforcement of decisions relating to custody may be refused on such of the grounds provided under Article 10 as may be specified in the reservation.
    2. Recognition and enforcement of decisions given in a Contracting State which has made the reservation provided for in paragraph 1 of this Article may be refused in any other Contracting State on any of the additional grounds referred to in that reservation.

Article 18


    A Contracting State may make a reservation that it shall not be bound by the provisions of Article 12. The provisions of this Convention shall not apply to decisions referred to in Article 12 which have been given in a Contracting State which has made such a reservation.

PART V


Other instruments


Article 19


    This Convention shall not exclude the possibility of relying on any other international instrument in force between the State of origin and the State addressed or on any other law of the State addressed not derived from an international agreement for the purpose of obtaining recognition or enforcement of a decision.

Article 20


    1. This Convention shall not affect any obligations which a Contracting State may have towards a non-contracting State under an international instrument dealing with matters governed by this Convention.
    2. When two or more Contracting States have enacted uniform laws in relation to custody of children or created a special system of recognition or enforcement of decisions in this field, or if they should do so in the future, they shall be free to apply, between themselves, those laws or that system in place of this Convention or any part of it. In order to avail themselves of this provision the States shall notify their decision to the Secretary General of the Council of Europe. Any alteration or revocation of this decision must also be notified.

PART VI


Final clauses


Article 21


    This Convention shall be open for signature by the member States of the Council of Europe. It is subject to ratification, acceptance or approval. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary General of the Council of Europe.

Article 22


    l. This Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date on which three member States of the Council of Europe have expressed their consent to be bound by the Convention in accordance with the provisions of Article 21.
    2. In respect of any member State which subsequently expresses its consent to be bound by it, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of the deposit of the instrument of ratification, acceptance or approval.

Article 23


    1. After the entry into force of this Convention, the Committee of Ministers of the Council of Europe may invite any State not a member of the Council to accede to this Convention, by a decision taken by the majority provided for by Article 20. d of the Statute and by the unanimous vote of the representatives of the Contracting States entitled to sit on the Committee.
    2. In respect of any acceding State, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of deposit of the instrument of accession with the Secretary General of the Council of Europe.

Article 24


    1. Any State may at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, specify the territory or territories to which this Convention shall apply.
    2. Any State may at any later date, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, extend the application of this Convention to any other territory specified in the declaration. In respect of such territory, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt by the Secretary General of such declaration.
    3. Any declaration made under the two preceding paragraphs may, in respect of any territory specified in such declaration, be withdrawn by a notification addressed to the Secretary General. The withdrawal shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of six months after the date of receipt of such notification by the Secretary General.

Article 25


    l. A State which has two or more territorial units in which different systems of law apply in matters of custody of children and of recognition and enforcement of decisions relating to custody may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, declare that this Convention shall apply to all its territorial units or to one or more of them.
    2. Such a State may at any later date, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, extend the application of this Convention to any other territorial unit specified in the declaration. In respect of such territorial unit the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt by the Secretary General of such declaration.
    3. Any declaration made under the two preceding paragraphs may, in respect of any territorial unit specified in such declaration, be withdrawn by notification addressed to the Secretary General. The withdrawal shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of six months after the date of receipt of such notification by the Secretary General.

Article 26


    l. In relation to a State which has in matters of custody two or more systems of law of territorial application:
          a. reference to the law of a person's habitual residence or to the law of a person's nationality shall be construed as referring to the system of law determined by the rules in force in that State or, if there are no such rules, to the system of law with which the person concerned is most closely connected;
          b. reference to the State of origin or to the State addressed shall be construed as referring, as the case may be, to the territorial unit where the decision was given or to the territorial unit where recognition or enforcement of the decision or restoration of custody is requested.
    2. Paragraph l. a of this Article also applies mutatis mutandis to States which have in matters of custody two or more systems of law of personal application.


Article 27


    l. Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, declare that it avails itself of one or more of the reservations provided for in paragraph 3 of Article 6, Article 17 and Article 18 of this Convention. No other reservation may be made.
    2. Any Contracting State which has made a reservation under the preceding paragraph may wholly or partly withdraw it by means of a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe. The withdrawal shall take effect on the date of receipt of such notification by the Secretary General.

Article 28


    At the end of the third year following the date of the entry into force of this Convention and, on his own initiative, at any time after this date, the Secretary General of the Council of Europe shall invite the representatives of the central authorities appointed by the Contracting States to meet in order to study and to facilitate the functioning of the Convention. Any member State of the Council of Europe not being a party to the Convention may be represented by an observer. A report shall be prepared on the work of each of these meetings and forwarded to the Committee of Ministers of the Council of Europe for information.

Article 29


    l. Any Party may at any time denounce this Convention by means of a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe.
    2. Such denunciation shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of six months after the date of receipt of the notification by the Secretary General.

Article 30


    The Secretary General of the Council of Europe shall notify the member States of the Council and any State which has acceded to this Convention, of:
          a. any signature;
          b. the deposit of any instrument of ratification, acceptance, approval or accession;
          c. any date of entry into force of this Convention in accordance with Articles 22, 23, 24 and 25;
          d. any other act, notification or communication relating to this Convention.

    In witness whereof the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Convention.

    Done at Luxembourg, the 20th day of May 1980, in English and French, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Council of Europe. The Secretary General of the Council of Europe shall transmit certified copies to each member State of the Council of Europe and to any State invited to accede to this Convention.




CONVENTION


on the Civil Aspects


of International Child Abduction



    The States signatory to the present Convention,
    Firmly convinced that the interests of children are of paramount importance in matters relating to their custody,
    Desiring to protect children internationally from the harmful effects of their wrongful removal or retention and to establish procedures to ensure their prompt return to the State of their habitual residence, as well as to secure protection for rights of access,

    Have resolved to conclude a Convention to this effect, and have agreed upon the following provisions:

CHAPTER I


Scope of the Convention


Article 1


    The objects of the present Convention are:
a)    to secure the prompt return of children wrongfully removed to or retained in any Contracting State; and

b)    to ensure that rights of custody and of access under the law of one Contracting State are effectively respected in the other Contracting States.

Article 2


    Contracting States shall take all appropriate measures to secure within their territories the implementation of the objects of the Convention. For this purpose they shall use the most expeditious procedures available.

Article 3


    The removal or the retention of a child is to be considered wrongful where:
a)    it is in breach of rights of custody attributed to a person, an institution or any other body, either jointly or alone, under the law of the State in which the child was habitually resident immediately before the removal or retention; and
b)    at the time of removal or retention those rights were actually exercised, either jointly or alone, or would have been so exercised but for the removal or retention.

    The rights of custody mentioned in sub-paragraph a) above, may arise in particular by operation of law or by reason of a judicial or administrative decision, or by reason of an agreement having legal effect under the law of that State.

Article 4


    The Convention shall apply to any child who was habitually resident in a Contracting State immediately before any breach of custody or access rights. The Convention shall cease to apply when the child attains the age of 16 years.

Article 5


    For the purposes of this Convention:
a)    `rights of custody' shall include rights relating to the care of the person of the child and, in particular, the right to determine the child's place of residence;
b)    `rights of access' shall include the right to take a child for a limited period of time to a place other than the child's habitual residence.

CHAPTER II


Central Authorities


Article 6


    A Contracting State shall designate a Central Authority to discharge the duties which are imposed by the Convention upon such authorities.
    Federal States, States with more than one system of law or States having autonomous territorial organizations shall be free to appoint more than one Central Authority and to specify the territorial extent their powers. Where a State has appointed more than one Central Authority, it shall designate the Central Authority to which applications may be addressed for transmission to the appropriate Central Authority within that State.

Article 7


    Central Authorities shall co-operate with each other and promote co-operation amongst the competent authorities in their respective State to secure the prompt return of children and to achieve the other objects of this Convention.
    In particular, either directly or through any intermediary, they shall take all appropriate measures:
a)    to discover the whereabouts of a child who has been wrongfully removed or retained;

b)    to prevent further harm to the child or prejudice to interested parties by taking or causing to be taken provisional measures;


c)    to secure the voluntary return of the child or to bring about an amicable resolution of the issues;
d)    to exchange, where desirable, information relating to the social background of the child;
e)    to provide information of a general character as to the law of their State in connection with the application of the Convention;
f)    to initiate or facilitate the institution of judicial or administrative proceedings with a view to obtaining the return of the child and, in a proper case, to make arrangements for organizing or securing the effective exercise of rights of access;
g)    where the circumstances so require, to provide or facilitate the provision of legal aid and advice, including the participation of legal counsel and advisers;
h)    to provide such administrative arrangements as may be necessary and appropriate to secure the safe return of the child;
i)    to keep each other informed with respect to the operation of this Convention and, as far as possible, to eliminate any obstacles to its application.

CHAPTER III


Return of children


Article 8


    Any person, institution or other body claiming that a child has been removed or retained in breach of custody rights may apply either to the Central Authority of the child's habitual residence or to the Central Authority of any other Contracting State for assistance in securing the return of the child.
    The application shall contain:
a)    information concerning the identity of the applicant, of the child and of the person alleged to have removed or retained the child;
b)    where available, the date of birth of the child;
c)    the grounds on which the applicant's claim for return of the child is based;

d)    all available information relating to the whereabouts of the child and the identity of the person with whom the child is presumed to be.
    The application may be accompanied or supplemented by:
e)    an authenticated copy of any relevant decision or agreement;

f)    a certificate or an affidavit emanating from a Central Authority, or other competent authority of the State of the child's habitual residence, or from a qualified person, concerning the relevant law of that State;
g)    any other relevant document.


Article 9


    If the Central Authority which receives an application referred to in Article 8 has reason to believe that the child is in another Contracting State, it shall directly and without delay transmit the application to the Central Authority of that Contracting State and inform the requesting Central Authority, or the applicant, as the case may be.

Article 10


    The Central Authority of the State where the child is shall take or cause to be taken all appropriate measures in order to obtain the voluntary return of the child.

Article 11


    The judicial or administrative authorities of Contracting States shall act expeditiously in proceedings for the return of children.
    If the judicial or administrative authority concerned has not reached a decision within six weeks from the date of commencement of the proceedings, the applicant or the Central Authority of the requested State, on its own initiative or if asked by the Central Authority of the requesting State, shall have the right to request a statement of the reasons for the delay. If a reply is received by the Central Authority of the requested State, that Authority shall transmit the reply to the Central Authority of the requesting State, or to the applicant, as the case may be.

Article 12


    Where a child has been wrongfully removed or retained in terms of Article 3 and, at the date of the commencement of the proceedings before the judicial or administrative authority of the Contracting State where the child is, a period of less than one year has elapsed from the date of the wrongful removal or retention, the authority concerned shall order the return of the child forthwith.

    The judicial or administrative authority, even where the proceedings have been commenced after the expiration of the period of one year referred to in the preceding paragraph, shall also order the return of the child, unless it is demonstrated that the child is now settled in its new environment.
    Where the judicial or administrative authority in the requested State has reason to believe that the child has been taken to another State, it may stay the proceedings or dismiss the application for the return of the child.

Article 13


    Notwithstanding the provisions of the preceding Article, the judicial or administrative authority of the requested State is not bound to order the return of the child if the person, institution or other body which opposes its return establishes that:
a)    the person institution or other body having the care of the person of the child was not actually exercising the custody rights at the time of removal or retention, or had consented to or subsequently acquiesced in the removal or retention; or
b)    there is a grave risk that his or her return would expose the child to physical or psychological harm or otherwise place the child in an intolerable situation.
    The judicial or administrative authority may also refuse to order the return of the child if it finds that the child objects to being returned and has attained an age and degree of maturity at which it is appropriate to take account of its views.
    In considering the circumstances referred to in this Article, the judicial and administrative authorities shall take into account the information relating to the social background of the child provided by the Central Authority or other competent authority of the child's habitual residence.

Article 14


    In ascertaining whether there has been a wrongful removal or retention within the meaning of Article 3, the judicial or administrative authorities of the requested State may take notice directly of the law of, and of judicial or administrative decisions, formally recognized or not in the State of the habitual residence of the child, without recourse to the specific procedures for the proof of that law or for the recognition of foreign decisions which would otherwise be applicable.


Article 15


    The judicial or administrative authorities of a Contracting State may, prior to the making of an order for the return of the child request that the applicant obtain from the authorities of the State of the habitual residence of the child a decision or other determination that the removal or retention was wrongful within the meaning of Article 3 of the Convention, where such a decision or determination may be obtained in that State. The Central Authorities of the Contracting States shall so far as practicable assist applicants to obtain such a decision or determination.

Article 16


    After receiving notice of a wrongful removal or retention of a child in the sense of Article 3, the judicial or administrative authorities of the Contracting State to which the child has been removed or in which it has been retained shall not decide on the merits of rights of custody until it has been determined that the child is not to be returned under this Convention or unless an application under this Convention is not lodged within a reasonable time following receipt of the notice.

Article 17


    The sole fact that a decision relating to custody has been given in or is entitled to recognition in the requested State shall not be a ground for refusing to return a child under this Convention, but the judicial or administrative authorities of the requested State may take account of the reasons for that decision in applying this Convention.

Article 18


    The provisions of this Chapter do not limit the power of a judicial or administrative authority to order the return of the child at any time.

Article 19


    A decision under this Convention concerning the return of the child shall not be taken to be a determination on the merits of any custody issue.

Article 20


    The return of the child under the provisions of Article 12 may be refused if this would not be permitted by the fundamental principles of the requested State relating to the protection of human rights and fundamental freedoms.

CHAPTER IV


Rights of access


Article 21


    An application to make arrangements for organizing or securing the effective exercise of rights of access may be presented to the Central Authorities of the Contracting States in the same way as an application for the return of a child.
    The Central Authorities are bound by the obligations of cooperation which are set forth in Article 7 to promote the peaceful enjoyment of access rights and the fulfilment of any conditions to which the exercise of those rights may be subject. The Central Authorities shall take steps to remove, as far as possible, all obstacles to the exercise of such rights.
    The Central Authorities, either directly or through intermediaries, may initiate or assist in the institution of proceedings with a view to organizing or protecting these rights and securing respect for the conditions to which the exercise of these rights may be subject.

CHAPTER V


General provisions


Article 22


    No security, bond or deposit, however described, shall be required to guarantee the payment of costs and expenses in the judicial or administrative proceedings falling within the scope of this Convention.

Article 23


    No legalization or similar formality may be required in the context of this Convention.

Article 24


    Any application, communication or other document sent to the Central Authority of the requested State shall be in the original language, and shall be accompanied by a translation into the official language or one of the official languages of the requested State or, where that is not feasible, a translation into French or English.
    However, a Contracting State may, by making a reservation in accordance with Article 42, object to the use of either French or English, but not both, in any application, communication or other document sent to its Central Authority.


Article 25


    Nationals of the Contracting States and persons who are habitually resident within those States shall be entitled in matters concerned with the application of this Convention to legal aid and advice in any other Contracting State on the same conditions as if they themselves were nationals of and habitually resident in that State.

Article 26


    Each Central Authority shall bear its own costs in applying this Convention.

    Central Authorities and other public services of Contracting States shall not impose any charges in relation to applications submitted under this Convention. In particular, they may not require any payment from the applicant towards the costs and expenses of the proceedings or, where applicable, those arising from the participation of legal counsel or advisers. However, they may require the payment of the expenses incurred or to be incurred in implementing the return of the child.
    However, a Contracting State may, by making a reservation in accordance with Article 42, declare that it shall not be bound to assume any costs referred to in the preceding paragraph resulting from the participation of legal counsel or advisers or from court proceedings, except insofar as those costs may be covered by its system of legal aid and advice.
    Upon ordering the return of a child or issuing an order concerning rights of access under this Convention, the judicial or administrative authorities may, where appropriate, direct the person who removed or retained the child, or who prevented the exercise of rights of access, to pay necessary expenses incurred by or on behalf of the applicant, including travel expenses, any costs incurred or payments made for locating the child, the costs of legal representation of the applicant, and those of returning the child.


Article 27


    When it is manifest that the requirements of this Convention are not fulfilled or that the application is otherwise not well founded, a Central Authority is not bound to accept the application. In that case, the Central Authority shall forthwith inform the applicant or the Central Authority through which the application was submitted, as the case may be, of its reasons.

Article 28


    A Central Authority may require that the application be accompanied by a written authorization empowering it to act on behalf of the applicant, or to designate a representative so to act.

Article 29


    This Convention shall not preclude any person, institution or body who claims that there has been a breach of custody or access rights within the meaning of Article 3 or 21 from applying directly to the judicial or administrative authorities of a Contracting State, whether or not under the provisions of this Convention.

Article 30


    Any application submitted to the Central Authorities or directly to the judicial or administrative authorities of a Contracting State in accordance with the terms of this Convention, together with documents and any other information appended thereto or provided by a Central Authority, shall be admissible in the courts or administrative authorities of the Contracting States.

Article 31


    In relation to a State which in matters of custody of children has two or more systems of law applicable in different territorial units:
a)    any reference to habitual residence in that State shall be construed as referring to habitual residence in a territorial unit of that State;
b)    any reference to the law of the State of habitual residence shall be construed as referring to the law of the territorial unit in that State where the child habitually resides.

Article 32


    In relation to a State which in matters of custody of children has two or more systems of law applicable to different categories of persons, any reference to the law of that State shall be construed as referring to the legal system specified by the law of that State.

Article 33


    A State within which different territorial units have their own rules of law in respect of custody of children shall not be bound to apply this Convention where a State with a unified system of law would not be bound to do so.

Article 34


    This Convention shall take priority in matters within its scope over the Convention of 5 October 1961 concerning the powers of authorities and the law applicable in respect of the protection of minors, as between Parties to both Conventions. Otherwise the present Convention shall not restrict the application of an International instrument in force between the State of origin and the State addressed or other law of the State addressed for the purposes of obtaining the return of a child who has been wrongfully removed or retained or of organizing access rights.

Article 35


    This Convention shall apply as between Contracting States only to wrongful removals or retentions occurring after its entry into force in those States.
    Where a declaration has been made under Article 39 or 40, the reference in the preceding paragraph to a Contracting State shall be taken to refer to the territorial unit or units in relation to which this Convention applies.

Article 36


    Nothing in this Convention shall prevent two or more Contracting States, in order to limit the restrictions to which the return of the child may be subject, from agreeing among themselves to derogate from any provisions of this Convention which may imply such a restriction.

CHAPTER VI


Final clauses


Article 37


    The Convention shall be open for signature by the States which were Members of the Hague Conference on Private International Law at the time of its Fourteenth Session.


    It shall be ratified, accepted or approved and the instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands.

Article 38


    Any other State may accede to the Convention.
    The instrument of accession shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands.
    The Convention shall enter into force for a State acceding to it on the first day of the third calendar month after the deposit of its instrument of accession.
    The accession will have effect only as regards the relations between the acceding State and such Contracting States as will have declared their acceptance of the accession. Such a declaration will also have to be made by any Member State ratifying, accepting or approving the Convention after an accession. Such declaration shall be deposited at the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands; this Ministry shall forward, through diplomatic channels, a certified copy to each of the Contracting States.
    The Convention will enter into force as between the acceding State and the State that has declared its acceptance of the accession on the first day of the third calendar month after the deposit of the declaration of acceptance.

Article 39


    Any State may, at the time of signature, ratification, acceptance, approval or accession, declare that the Convention shall extend to all the territories for the international relations of which it is responsible, or to one or more of them. Such a declaration shall take effect at the time the Convention enters into force for that State.
    Such declaration, as well as any subsequent extension, shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands.

Article 40


    If a Contracting State has two or more territorial units in which different systems of law are applicable in relation to matters dealt with in this Convention, it may at the time of signature, ratification, acceptance, approval or accession declare that this Convention shall extend to all its territorial units or only to one or more of them and may modify this declaration by submitting another declaration at any time.
    Any such declaration shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands and shall state expressly the territorial units to which the Convention applies.

Article 41


    Where a Contracting State has a system of government under which executive, judicial and legislative powers are distributed between central and other authorities within that State, its signature or ratification, acceptance or approval of, or accession to this Convention, or its making of any declaration in terms of Article 40 shall carry no implication as to the internal distribution of powers within that State.

Article 42


    Any State may, not later than the time of ratification, acceptance, approval or accession, or at the time of making a declaration in terms of Article 39 or 40, make one or both of the reservations provided for in Article 24 and Article 26, third paragraph. No other reservation shall be permitted.
    Any State may at any time withdraw a reservation it has made. The withdrawal shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands.
    The reservation shall cease to have effect on the first day of the third calendar month after the notification referred to in the preceding paragraph.

Article 43


    The Convention shall enter into force on the first day of the third calendar month after the deposit of the third instrument of ratification, acceptance, approval or accession referred to in Articles 37 and 38.
    Thereafter the Convention shall enter into force:
(1)    for each State ratifying, accepting, approving or acceding to it subsequently, on the first day of the third calendar month after the deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession;

(2)    for any territory or territorial unit to which the Convention has been extended in conformity with Article 39 or 40, on the first day of the third calendar month after the notification referred to in that Article.

Article 44


    The Convention shall remain in force for five years from the date of its entry into force in accordance with the first paragraph of Article 43 even for States which subsequently have ratified, accepted, approved it or acceded to it.
    If there has been no denunciation, it shall be renewed tacitly every five years.
    Any denunciation shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands at least six months before the expiry of the five year period. It may be limited to certain of the territories or territorial units to which the Convention applies.
    The denunciation shall have effect only as regards the State which has notified it. The Convention shall remain in force for the other Contracting States.

Article 45


    The Ministry of Foreign Affairs of the Kingdom of the Netherlands shall notify the States Members of the Conference, and the States which have acceded in accordance with Article 38, of the following:
(1)    the signatures and ratifications, acceptances and approvals referred to in Article 37;
(2)    the accessions referred to in Article 38;
(3)    the date on which the Convention enters into force in accordance with Article 43;
(4)    the extensions referred to in Article 39;
(5)    the declarations referred to in Articles 38 and 40;
(6)    the reservations referred to in Article 24 and Article 26, third paragraph, and the withdrawals referred to in Article 42;
(7)    the denunciations referred to in Article 44.

    In witness whereof the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Convention.

    Done at The Hague, on the 25th day of October, 1980, in the English and French languages, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Government of the Kingdom of the Netherlands, and of which a certified copy shall be sent, through diplomatic channels, to each of the States Members of the Hague Conference on Private International Law at the date of its Fourteenth Session.