Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1191, 120. löggjafarþing 331. mál: stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.
Lög nr. 103 14. júní 1996.

Lög um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að stofna hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar, sem nefnist Póstur og sími hf., og að leggja til hlutafélagsins allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar, réttindi, skuldbindingar og viðskiptavild svo sem nánar greinir í lögum þessum.
     Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.

2. gr.

     Tilgangur félagsins er að veita hvers konar fjarskiptaþjónustu, póstþjónustu og fjármálalega umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem þar gilda, svo og að reka aðra skylda starfsemi. Þá skal félaginu einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
     Heimilt er hlutafélaginu að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi getur hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.
     Hlutafélaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt skv. 1. mgr. þessarar greinar.
     Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

3. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gildir 2. mgr. 3. gr. laganna ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 20 gr. sömu laga ekki um tölu hluthafa.
     Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.
     Að öðru leyti skulu ákvæði laga um hlutafélög gilda um hið nýja félag.

4. gr.

     Nafnverð stofnhlutafjár skal nema 75% af bókfærðu eigin fé Póst- og símamálastofnunar samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 31. desember 1995 sem jafnframt skal gilda sem stofnefnahagsreikningur félagsins, en 25% af eigin fé skal færa í varasjóð. Hlutafé skal þó taka breytingum til hækkunar eða lækkunar samkvæmt niðurstöðu matsnefndar, sbr. 5. gr.
     Eitt hlutabréf skal gefið út við skráningu félagsins. Hlutabréf, sem gefið verður út í tengslum við stofnun félagsins eða skiptingu þess samkvæmt niðurlagsákvæði í 2. mgr. 2. gr., skal undanþegið stimpilgjöldum.

5. gr.

     Samgönguráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna til að endurmeta eignir stofnunarinnar, skuldbindingar og viðskiptavild, svo og til að leggja mat á aðra eigna- og skuldaliði efnahagsreiknings stofnunarinnar. Við endanlegt mat á stofnhlutafé skal jafnframt taka tillit til áhrifa verðbreytinga og rekstrar á efnahag á árinu 1996. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1996 og skal hlutafé félagsins ákvarðast í samræmi við þær, sbr. 4. gr.

6. gr.

     Stjórn Pósts og síma hf. skal skipuð sjö aðalmönnum og sjö til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert. Ef félaginu verður skipt í tvö félög í samræmi við niðurlagsákvæði 2. mgr. 2. gr. skulu stjórnir beggja skipaðar á sama hátt.
     Samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma hf.

7. gr.

     Póstur og sími hf. skal taka til starfa 1. janúar 1997.
     Samgönguráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.

8. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni. Þó fer um biðlaunarétt þeirra eftir þeim lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem í gildi eru við gildistöku laga þessara.
     Nú hefur félagið boðið fastráðnum starfsmanni Póst- og símamálastofnunar sambærilega stöðu hjá félaginu með eigi lakari launum en hann áður naut og fellur biðlaunaréttur þá niður ef starfsmaður hafnar boðinu eða hefur ekki samþykkt það innan sex vikna frá því honum barst boðið.
     Ef fastráðinn starfsmaður Póst- og símamálastofnunar, sem ráðinn hefur verið hjá félaginu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., fær eigi að síður greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingar þeirrar á starfsemi stofnunarinnar, sem lög þessi kveða á um, fellur sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu.
     Fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og hefur ráðist til starfa hjá félaginu með óskertum launum skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, heldur þeim réttindum gagnvart félaginu sem 12. gr. greinir, en á ekki jafnframt rétt til greiðslu lífeyris úr sjóðnum meðan hann heldur óskertum launum sínum hjá félaginu skv. 9. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, með síðari breytingum.

9. gr.

     Samgönguráðherra veitir félaginu rekstrarleyfi á tilteknum sviðum til þeirrar starfsemi sem af verkefnum félagsins leiðir samkvæmt lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Við útgáfu rekstrarleyfa getur ráðherra bundið þau þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að tryggja hagsmuni viðskiptavina félagsins.

10. gr.

     Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá fyrir félagið þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða og jafnframt tekið tillit til tækninýjunga sem haft geta áhrif á söluverð þjónustu félagsins. Setning gjaldskrár er þó háð samþykki samgönguráðherra að því er varðar verðlagningu á póst- og símaþjónustu innan lands sem er veitt vegna einkaleyfis sem félagið kann að hafa á hverjum tíma.
     Gjaldskrá fyrir einkaleyfisþjónustu öðlast gildi þegar hún hefur verið staðfest af samgönguráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

11. gr.

     Nú selur félagið búnað og þjónustu í samkeppni við aðra á frjálsum markaði og skal félagið þá í þeim tilvikum halda fjárreiðum deilda í einkaréttarþjónustu aðskildum frá öðrum rekstri. Félaginu er óheimilt að nota fjármagn frá rekstri, sem grundvallast á rekstrarleyfi, til þess að lækka verð á búnaði eða þjónustu sem seld er í samkeppni. Samgönguráðuneytið skal fylgjast með því að einkaréttarrekstur sé nægilega aðgreindur frá samkeppnisrekstri félagsins.

12. gr.

     Póstur og sími hf. skal greiða skatta eftir almennum reglum sem tíðkast um hlutafélög og arð eftir því sem afkoma félagsins leyfir.

13. gr.

     Pósti og síma hf. er skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu fyrir landsmenn sem nánar er skilgreind í reglugerð sem ráðherra setur.

14. gr.

     Nú óska stjórnvöld eftir því að Póstur og sími hf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Pósts og síma hf.

15. gr.

     Póstur og sími hf. yfirtekur í samræmi við 1. gr. allar eignir, réttindi og skuldbindingar Póst- og símamálastofnunar frá og með 1. janúar 1997. Yfirtakan veitir samningsaðilum stofnunarinnar ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 1996.
     Við yfirtöku Pósts og síma hf. á eignum, réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar 1. janúar 1997 falla úr gildi lög um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, nr. 36/1977, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skal samgönguráðherra eigi síðar en 1. júlí 1996 skipa nefnd þá sem mælt er fyrir um í 5. gr.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skal samgönguráðherra eigi síðar en 1. júlí 1996 skipa undirbúningsnefnd þá sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 7. gr. og skal nefndin taka til starfa þegar í stað.

III.
     Á stofnfundi félagsins sem haldinn skal eigi síðar en 27. desember 1996 skal samgönguráðherra skipa félaginu stjórn sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi, sbr. 6. gr.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.