Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1211, 120. löggjafarþing 437. mál: stjórn fiskveiða (veiðar krókabáta).
Lög nr. 105 19. júní 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Orðin „þó er óheimilt að breyta leyfðum heildarafla þorsks eftir 15. apríl“ í 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     Við 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: nema bátur komi í stað báts sem hefur verið dæmdur óbætandi vegna sjótjóns.

3. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða á þorskaflahámarki, krókabátar, skulu frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 stunda veiðar skv. 9. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum og línu, eða einungis með handfærum, sbr. 6. mgr. þessarar greinar. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, og til hrognkelsaveiða í net.
     Krókabátum gefst frá og með fiskveiðiári því sem hefst 1. september 1996 kostur á að velja á milli þess að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 4.–5. mgr. og þess að stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga eftir annarri hvorri þeirra aðferða sem nánar er lýst í 6.–10. mgr. Eigandi krókabáts skal tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 1. júlí 1996. Innan sama frests getur eigandi krókabáts komið fram athugasemdum við Fiskistofu um útreikning á þorskaflahámarki. Velji eigandi krókabáts ekki fyrir tilskilinn tíma skal bátur stunda veiðar á þorskaflahámarki. Sætti eigandi sig ekki við úrskurð Fiskistofu um þorskaflahámark getur hann, innan mánaðartíma frá því að úrskurður liggur fyrir, skotið málinu til sérstakrar kærunefndar sem ráðherra skipar. Skal hún skipuð þremur mönnum og skal formaður hennar fullnægja skilyrðum til að vera skipaður héraðsdómari. Úrskurðir kærunefndar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnkerfisins.
     Heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta skal vera 13,9% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs en þó ekki lægri en 21.500 lestir, miðað við óslægðan fisk. Frá þessari heildarþorskaflaviðmiðun dragast 500 lestir til og með fiskveiðiárinu 1998/1999, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II laga nr. 83/1995.
     Þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost velja skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam hlutfalli hvers báts í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995.
     Heimilt er að framselja þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta en það er háð því skilyrði að allt hámarkið sé flutt af viðkomandi bát, enda falli veiðileyfi niður og rétti til endurnýjunar sé afsalað. Heimilt er að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Enn fremur er heimilt að flytja til krókabáts á þorskaflahámarki, innan hvers fiskveiðiárs, úthlutað aflamark í þorski skv. 7. gr., um þann flutning gilda almennar reglur um flutning aflamarks. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning þorskaflahámarks milli báta og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn.
     Bátum sem velja sóknardaga gefst kostur á að velja um að stunda veiðar með handfærum og línu skv. 7.–8. mgr. þessarar greinar eða einungis með handfærum skv. 9.–10. mgr. þessarar greinar. Sóknardagur telst vera 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Ráðherra getur heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr., sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háfiskum, séu utan sóknardaga.
     Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta er velja að stunda veiðar með handfærum og línu skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark, skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 skulu sóknardagar þessara báta vera 84, miðað við veiðar með handfærum. Ef bátur rær með línu skal margfalda fjölda nýttra daga með tölunni 1,9 á tímabilinu frá 1. maí til 1. september, en með tölunni 1,35 á öðrum tíma. Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala alls af línu fyrir hvern sóknardag en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 500 krókar séu á línu í hverjum bala.
     Fjöldi sóknardaga þeirra báta er þennan kost velja er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 1997, með því að reikna meðalafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksafla þeirra á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skal fækka eða fjölga um heila daga og er broti sleppt.
     Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta er velja að stunda veiðar með handfærum eingöngu skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 1996 skulu sóknardagar þessara báta vera 84.
      Fjöldi sóknardaga þeirra báta er þennan kost velja er ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 1997, með því að reikna meðalafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksafla þeirra á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skal fækka eða fjölga um heila daga og er broti sleppt.

4. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
     Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.
     Ráðherra er heimilt að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga, enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.

5. gr.

     2. tölul. 3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     Fyrri málsliður 6. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Við 4. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Tefjist skip frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar eða veiðileyfis samkvæmt þessari grein.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 1996, nema ákvæði 2. gr. sem öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Heimild til að framselja þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta, með því skilyrði að allt hámarkið sé flutt af viðkomandi bát, veiðileyfi falli niður og rétti til endurnýjunar sé afsalað, skal taka þegar gildi. Enn fremur skal heimild 2. mgr. 6. gr. a er varðar sjóstangaveiðimót þegar taka gildi.

II.
     Reikna skal sérstaka viðbótaraflahlutdeild til handa skipum sem stundað hafa línuveiðar á fiskveiðiárunum 1993/1994, 1994/1995 og 1995/1996 í mánuðunum nóvember, desember, janúar og febrúar þar sem afli var aðeins að hálfu talinn til aflamarks skv. 6. mgr. 10. gr. Skal samanlögð viðbótaraflahlutdeild þessara skipa vera jöfn hlutfallinu milli 30 af hundraði línuafla þeirra á þessum þremur árum í framangreindum mánuðum af þorski og ýsu og úthlutaðs heildaraflamarks af sömu tegundum á sömu árum að viðbættum samanlögðum hálfum línuafla í framangreindum mánuðum á sömu árum hins vegar. Skal aflahlutdeild allra skipa endurreiknuð að teknu tilliti til þessa.
     Viðbótaraflahlutdeild línuskipa af hvorri tegund skv. 1. mgr. skal skiptast milli þeirra í hlutfalli við þann afla af tegundinni sem ekki taldist til aflamarks vegna reglna um línutvöföldun á tveimur bestu af framangreindum þremur fiskveiðiárum.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1996.