Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:06:36 (1578)

1996-11-21 18:06:36# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:06]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði ekki í ræðu minni að tveir kostir hefðu verið um það í viðræðum að annaðhvort fengju sveitarfélögin aukinn arð eða selt yrði. Ég veit ekki hvernig viðræður fóru þarna fram en þetta kom fram áður en viðræður hófust þannig að ég vil að því sé til haga haldið.

Mikilvægustu aðgerðirnar hjá okkur til að tryggja framvinduna í jöfnun orkuverðs og lækkun orkuverðs er ekki skipulag fyrirtækisins sem við erum að fjalla um heldur hvaða árangri nær fyrirtækið í að bæta sína rekstrarstöðu með hagræðingu og betri rekstri og árangri í að selja orku sína sem virkjuð er og ná góðum samningum um stóriðjukosti. Það eru hin mikilvægustu verkefni, ekki skipulag Landsvirkjunar sem við erum í rauninni að fjalla um. En eitt allra mikilvægasta viðfangsefnið, sem ég lít á að sé fram undan, er endurskipulagning á dreifikerfinu í landinu, þ.e. að sjá til þess að dreifingin út um landið fari fram með sem allra hagkvæmustum hætti og ég lít mjög til þeirra tillagna sem fram hafa komið frá orkunefndinni undir formennsku þjóðhagsstofuforstjórans. Það þarf að skoða þær tillögur. Ég vil minna á mjög mikið vandamál sem við höfum verið að glíma við í sambandi við dreifingu um byggðirnar, þ.e. sveitarafvæðingin. Það er mjög dýrt að halda úti því kerfi. Hvernig á að leysa það? (Forseti hringir.) Á að gera það með því að Rarik greiði eingöngu það viðhald og uppbyggingu þess kerfis eða verða ekki allir að koma þar að?