Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 151 . mál.


166. Frumvarp til laga


um póstþjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)


I. KAFLI

Gildissvið laganna og markmið.

1. gr.

    Lög þessi gilda um póstþjónustu og aðra starfsemi er varðar viðtöku, flokkun, flutning og skil á póstsendingum gegn greiðslu.
    Markmið laganna er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt.
    

II. KAFLI

Orðskýringar.

2. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     Póstsending: Hvers konar bréf eða önnur sending, sem flutt er með póstþjónustuaðila.
     Póstmeðferð: Viðtaka, flokkun, flutningur og skil á póstsendingum.
     Póstþjónusta: Póstmeðferð hvers konar bréfa og annarra sendinga, með eða án utanáskriftar.
     Grunnpóstþjónusta: Póstmeðferð bréfa og annarra sendinga með utanáskrift, sem vega allt að 20 kg að þyngd.
     Póstþjónustuaðili: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.
     Póstrekandi: Aðili sem annast einn eða fleiri þætti grunnpóstþjónustu.
     Rekstrarleyfishafi: Aðili sem hefur leyfi til grunnpóstþjónustu skv. 11. gr. laganna.
     Einkaréttarhafi: Aðili sem samkvæmt sérstöku leyfi fer með einkarétt og skyldur ríkisins skv. IV. kafla laganna.
     Póstkassi: Kassi sem ætlaður er fyrir viðtöku og uppsöfnun bréfapóstsendinga, til frekari póstmeðferðar.
     Frímerki: Gjaldmiðill, útgefinn af ríkinu, sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu. Frímerki skal bera áletrunina „ÍSLAND“.
     Gjaldmerki: Merki, sem ætluð eru til álímingar á póstsendingar og notuð eru af póstþjónustuaðilum og með auðkenni þeirra, til staðfestingar því að greitt hafi verið fyrir póstþjónustu.
     Fjármunapóstsending: Greiðsluviðskipti með millifærslum (póstgíró), póstávísanir, póstkröfur og önnur fjármunaþjónusta.
    

III. KAFLI

Yfirstjórn póstmála.

3. gr.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með póstmálum hér á landi og eftirlit með framkvæmd laga þessara.
    

IV. KAFLI

Skyldur ríkisins og einkaréttur.

4. gr.

Skyldur ríkisins.

    Íslenska ríkið skal tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu vegna eftirfarandi sendingartegunda:
    Bréfa, án tillits til innihalds, sem lögð eru í umslög eða sambærilegar umbúðir með utanáskrift.
    Skriflegra utanáritaðra orðsendinga með sérstöku innihaldi, þar með talinna póstkorta. 
    Annarra sendinga með utanáskrift og prentuðu innihaldi, sem er að öllu leyti eins, t.d. verðlista og bæklinga án ytri umbúða.
    Dagblaða, vikublaða og tímarita, með utanáskrift eða annarri sambærilegri tilgreiningu.
    Böggla með utanáskrift.
    Jafnframt skal ríkið tryggja póstmeðferð vegna eftirfarandi þjónustuþátta:
    Fjármunapóstsendinga.
    Ábyrgðarsendinga.
    Verðsendinga.
    Sendinga með blindraletri.
     Í reglugerð skal kveðið á um þyngdarmörk, umfang og nánari skilgreiningu sendinga skv. 1. og 2. mgr.
    

5. gr.

Þjónustuskylda til og frá útlöndum.


    Um þjónustuskyldu ríkisins vegna grunnpóstþjónustu til og frá útlöndum fer samkvæmt alþjóðlegum samningum.

6. gr.

Einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar.


    Ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga hér á landi:
    Bréfa í umslögum eða sambærilegum umbúðum með sýnilegri áritun, allt að 350 g að þyngd án tillits til innihalds. Einkarétturinn fellur þó niður sé burðargjald slíkra sendinga meira en fimmfalt burðargjald fyrir bréf sem falla undir lægsta gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá.
    Annarra ritaðra orðsendinga eða prentaðra tilkynninga með utanáskrift og sérstöku innihaldi sem eru innan þeirra marka um þyngd og burðargjald er greinir í 1. tölulið, þar með talinna póstkorta.
    Ríkið hefur einnig einkarétt til póstmeðferðar á póstsendingum skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr., öðrum en hraðsendingum, sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi. Hefur ríkið enn fremur einkarétt til póstmeðferðar á slíkum póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.
    Einkarétturinn nær ekki til póstmeðferðar með verðlista, bæklinga, blöð og tímarit með utanáskrift sé innihald allra sendinga eins og án umbúða eða um þær búið í gagnsæjum umbúðum.
    Sérhverjum er heimilt að sinna póstþjónustu innan eigin starfsemi.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um takmörkun eða afnám einkaréttar vegna póstmeðferðar póstsendinga sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi, svo og á póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.
    

7. gr.

Uppsetning póstkassa.


    Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri og á stöðum sem almenningur hefur aðgang að.

8. gr.

Útgáfa frímerkja.


    Íslenska ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja.
    

9. gr.

Auðkenni.


    Íslenska ríkinu er einu heimilt að nota póstlúður, með eða án stjörnu eða örva, í myndmerki til auðkenningar póstþjónustu.
    

10. gr.

Póstsendingar sem fluttar eru til útlanda í því skyni


að senda þær aftur til Íslands.


    Ef póstsendingar sem falla undir grunnpóstþjónustu eru fluttar frá landinu til póstmeðferðar í öðru landi, með það fyrir augum að þær séu sendar aftur hingað til lands og bornar út hér á landi, getur póstrekandi neitað að taka við þeim.
    

V. KAFLI

Rekstrarleyfi, skyldur o.fl.

11. gr.

Útgáfa rekstrarleyfa.

    Öðrum en þeim sem fengið hafa til þess rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar er óheimilt að annast grunnpóstþjónustu. Í rekstrarleyfi skal tilgreina til hvaða þátta grunnpóstþjónustu rekstrarleyfið nær og þær kvaðir og skilyrði sem leyfinu fylgja.
    Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu skuli undanþegnir rekstrarleyfi.
    

12. gr.

Útgáfa rekstrarleyfis til einkaréttarhafa.


    Íslenska ríkinu er heimilt að fela póstrekanda að fara með einkarétt sinn og skyldur samkvæmt lögum þessum.
    Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi til að annast einkarétt ríkisins skv. IV. kafla laganna.

13. gr.

Skilyrði.


    Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 11. og 12. gr. Skulu skilyrðin vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa.
    Rekstrarleyfi skulu að jafnaði vera tímabundin.
    Í skilyrðum fyrir leyfisveitingu skal m.a. kveðið á um:
    að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs,
    að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur,
    að tryggt sé að almenningur njóti aðgengis að grunnpóstþjónustu,
    að skylt sé að annast sérstök verkefni, þótt þau séu ekki arðbær, sbr. 4. gr. laganna,
    að gjaldskrá einkaréttarhafa sé háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrár fyrir einkaréttarþjónustu sæti eftirliti hennar, sbr. VI. kafla laganna,
    að virtar séu uppgjörs- og bókhaldsreglur, sem settar kunna að vera,
    að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar vegna skila á póstsendingum til viðtakenda ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar rekstrarleyfishafa kemur,
    að rekstrarleyfishafi sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar fjárhagslega stöðu á hverjum tíma, með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun,
    að alþjóðasamningar á sviði póstmála séu virtir,
    að rekstrarleyfishafi taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði póstmála.
    Heimilt er að breyta skilyrðum fyrir rekstrarleyfi, enda hafi forsendur fyrir því breyst eða þær brostið. Skilyrðum má einnig breyta til samræmis við breytingar á lögum og reglum og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, auk skilyrða skv. 3. mgr., sett einkaréttarhafa almenn skilyrði sem varða skyldur ríkisins skv. 4. gr. Þá getur stofnunin gert einkaréttarhafa að gefa út frímerki og nota sérstakt auðkenni fyrir starfsemi sína, t.d. póstlúður, með eða án stjörnu og örva, eða annarra tákna. Einkaréttarhafi getur heimilað þriðja aðila að nota auðkennið, enda starfi hann í hans þágu.
    

14. gr.

Skylda til að bera út dagblöð, vikublöð og tímarit.


    Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita á Íslandi samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi að öðru leyti. Samgönguráðherra skilgreinir nánar í reglugerð hvað teljist til dagblaða, vikublaða og tímarita samkvæmt þessari grein.
    Póst- og fjarskiptastofnun ber að bæta einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi samkvæmt gjaldskrá hans og því gjaldi sem samgönguráðherra mælir fyrir um skv. 1. mgr. fyrir sambærilegar sendingar.
    

15. gr.

Flutningur fyrir einkaréttarhafa.


    Aðilum, sem annast flutning á póstsendingum fyrir einkaréttarhafa, er óheimilt, án samþykkis einkaréttarhafans, að hafa meðferðis aðrar sendingar við slíkan flutning. Aðilum sem halda uppi reglubundnum farþegaflutningum er þó heimilt að flytja slíkar sendingar með flutningatækjum sínum.

16. gr.

Skylda til að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu.


    Hver sá sem heldur uppi reglubundnum flutningum innan lands eða til útlanda er skyldugur til, sé þess óskað, að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu milli endastöðva og póststöðva á leiðinni, enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar njóta forgangs fram yfir annan vöruflutning.
    

17. gr.

Ábyrgðar- og verðsendingar.


    Póstsendingar er unnt að senda sem ábyrgðarsendingar. Enn fremur er unnt að senda póstsendingar, þar með talda böggla, sem verðsendingar.

VI. KAFLI

Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár o.fl.

18. gr.

Viðskiptaskilmálar fyrir grunnpóstþjónustu, uppgjörs- og bókhaldsreglur.

    Póstrekendur skulu semja og birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sína sem um grunnpóstþjónustu gilda. Póstrekendur skulu senda til Póst- og fjarskiptastofnunar svo fljótt sem auðið er viðskiptaskilmála sína, svo og breytingar á þeim.
    Gjaldskrár fyrir grunnpóstþjónustu skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þær skulu vera gagnsæjar og í samræmi við jafnræðisreglur.
    Einkaréttarhafi skal gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem lýtur einkarétti. Gjaldskráin skal staðfest af Póst- og fjarskiptastofnun.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð sérstakar reglur um bókhald póstrekenda, sundurgreiningu þess og fjárhagslegan aðskilnað milli póstþjónustu og annars reksturs og milli einkaréttarþjónustu og annarrar þjónustu.
    

19. gr.

Gjaldfrjálsar póstsendingar.


    Póstsending sem ekki ber gjald samkvæmt alþjóðasamningum skal einnig vera gjaldfrjáls innan lands.
    

VII. KAFLI

Skráning póstrekenda, merking pósts o.fl.

20. gr.

Skráningarskylda.

    Póstrekendum, öðrum en þeim sem hafa rekstrarleyfi skv. 11. gr. eða fara með einkarétt ríkisins skv. 12. gr., ber að skrá starfsemi sína hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skráningarskyldu póstrekenda, þar með talið hvaða upplýsingar skuli veita við skráningu.
    

21. gr.

Merking pósts.


    Póstsendingar skulu merktar með áprentun eða öðru auðkenni er sýni hvaða póstrekendur annast póstmeðferð þeirra.

22. gr.

Gjaldmerki.


    Póstþjónustuaðilum er heimilt að nota til álímingar á póstsendingar gjaldmerki til staðfestingar því að greitt hafi verið fyrir póstþjónustu. Skulu slík gjaldmerki bera auðkenni viðkomandi póstþjónustuaðila.
    

VIII. KAFLI

Almennar reglur um póstþjónustu.

23. gr.

Afhending póstsendingar.

    Póstsendingu skal dreift til eða afhent þeim sem hún er stíluð á eða hefur umboð til móttöku hennar, í pósthólf viðkomandi eða þangað sem utanáskrift segir að öðru leyti til um.

24. gr.

Vörslur póstsendinga.


    Póstsending telst í vörslu póstþjónustuaðila frá viðtöku og þar til hún hefur verið afhent viðtakanda í samræmi við 23. gr.
    

25. gr.

Bréfakassar og bréfarifur.


    Húseigendum er skylt að hafa bréfarifur á útihurðum eða setja upp bréfakassa í eða við hús sín á eigin kostnað.
     Samgönguráðherra setur nánari ákvæði þar um í reglugerð.
    

26. gr.

Ráðstöfunarréttur yfir póstsendingu.


    Sendandi telst eigandi og hefur ráðstöfunarrétt yfir póstsendingu, sem hann hefur afhent póstþjónustuaðila, uns hún hefur verið afhent viðtakanda.
    

27. gr.

Hættulegir hlutir o.fl.


    Póstsending má ekki innihalda neitt sem bannað er að flytja eða dreifa eða sem að ytra útliti ber með sér eitthvað ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi.
    Óskylt er að taka við póstsendingu sem hætta getur stafað af eða erfiðleikar eru á að flytja, svo og hlutum sem óheimilt er að flytja samkvæmt öðrum lögum eða reglum.
    

28. gr.

Verðmæti.


    Póstsendingar, aðrar en ábyrgðarsendingar og verðsendingar, mega ekki innihalda peningaseðla, mynt eða neins konar verðskjöl á handhafa, dýra málma, skartgripi eða hliðstæð verðmæti.

29. gr.

Óskilapóstur, ógreiddar og vangreiddar póstsendingar o.fl.


    Samgönguráðherra getur mælt fyrir um í reglugerð hvernig fara skuli með póstsendingar sem ekki verður komið til skila, hvort heldur til viðtakanda eða sendanda, svo og sendingar sem bera það með sér að vera ógreiddar eða vangreiddar.
    Samgönguráðherra er á sama hátt heimilt að mæla fyrir um meðferð póstsendinga sem lenda fyrir mistök hjá öðrum póstþjónustuaðila en þeim sem ætlað var að annast sendinguna.
    

IX. KAFLI

Greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu.

30. gr.

Jöfnunargjald.

    Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga til að fjármagna skyldubundna grunnpóstþjónustu þar sem slík þjónusta er óarðbær skal innheimta álag, jöfnunargjald, sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Skal jöfnunargjaldið lagt á alla rekstrarleyfishafa í hlutfalli við bókfærða veltu af grunnpóstþjónustu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem rekstrarleyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi. Sá þáttur rekstrarleyfishafa sem lýtur leyfisbundinni starfsemi hér á landi skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
    Jöfnunargjaldið samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega í upphafi hvers árs, í fyrsta skipti 1. janúar 1998.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í póstþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita þjónustuna, um útreikning rekstrartaps og um álagningu jöfnunargjalds á rekstrarleyfishafa.
    Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. 14. gr. skal greiddur með framlagi úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    

31. gr.

Fjárframlög.


    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita fjárframlög til rekstrarleyfishafa sem annast óarðbæra þjónustu skv. 30. gr. eftir umsókn viðkomandi. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að umsækjandi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartap sé af starfseminni og hvernig það sundurliðist. Þá getur stofnunin við umsókn um fjárframlög krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðilum að yfirfara umsóknina, ásamt fylgigögnum. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa áður en ákvörðun er tekin um fjárframlög samkvæmt ákvæði þessu.
    Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Telji Póst- og fjarskiptastofnun eða rekstrarleyfishafi að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega er unnt að krefjast endurskoðunar á framlaginu.
    Nú er hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi viðkomandi.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal skera úr ágreiningi um fjárframlög, þar á meðal um endurskoðun slíkra framlaga.
    

X. KAFLI

Póstleynd o.fl.

32. gr.

Póstleynd.

    Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.
    Öllum sem starfa við póstþjónustu, hvort sem er samkvæmt ráðningarsamningi eða verksamningi, er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    

33. gr.

Undanþágur.


    Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar þær póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila, til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru, svo unnt sé að endursenda þær. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Hið sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendingu vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda.
    Böggla sem fluttir eru til landsins frá útlöndum má opna ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.
    Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra, þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri það með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari reglur um póstleynd og opnun póstsendinga án dómsúrskurðar.
    

XI. KAFLI

Skaðabætur.

34. gr.

Gildissvið kaflans.

    Ákvæði þessa kafla eiga einungis við um grunnpóstþjónustu.
    

35. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.


    Skaðabætur greiðast ekki fyrir glataðar póstsendingar, nema póstrekandi hafi tekið á sig slíka ábyrgð sérstaklega, sbr. þó 36.–38. gr. Sama gildir þótt innihaldið glatist að nokkru eða öllu leyti.
    Póstrekanda er óskylt að greiða skaðabætur þegar póstsendingum seinkar, hver svo sem orsökin kann að vera.

36. gr.

Ábyrgðarsendingar og bögglar.


    Fyrir ábyrgðarsendingar og böggla, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um hámark ábyrgðar sem póstrekendur skulu taka á sig samkvæmt ákvæði þessu.

37. gr.

Verðsendingar.


    Fyrir verðsendingar, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis, en þó aldrei hærri en nemur hinu tilgreinda verði.

38. gr.

Fjármunapóstsendingar.


    Póstrekandi ber fulla ábyrgð á því fé sem hann hefur tekið við til sendingar sem fjármunapóstsendingu.

39. gr.

Óbeint tjón.


    Skaðabætur ná aðeins til verðs þess hlutar sem glatast hefur eða þeirrar rýrnunar sem hinir skemmdu hlutir hafa orðið fyrir.
    Eigi er skylt að bæta ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða aðrar óbeinar afleiðingar skaðans.

40. gr.

Póstsendingar á milli landa.


    Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa skal farið samkvæmt gildandi milliríkjasamningum.
    Verði tjón á sendingu meðan hún er á íslensku póstsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða, enda sé það hagstæðara fyrir hlutaðeigandi tjónþola.
    

41. gr.

Sérstök tilvik.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum undantekningartilvikum mælt fyrir um það með úrskurði að póstrekandi skuli þrátt fyrir ábyrgðartakmarkanir greiða skaðabætur fyrir póstsendingar, ef tjónið er slíkt og aðstæður allar þess eðlis að ákvæði þessa kafla um takmarkaðar skaðabætur þykja ekki eiga við, t.d. þar sem tjóni er valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans.
    

42. gr.

Fyrning skaðabótakröfu.


    Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan árs frá því viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.
    

XII. KAFLI

Milliríkjasamningar.

43. gr.

Póstþjónusta við önnur lönd.

    Ákvæði laga þessara gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.
    

44. gr.

Þátttaka póstrekenda í alþjóðlegu samstarfi.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að póstrekendur skuli taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.
    

XIII. KAFLI

Viðurlög.

45. gr.

    Brot á lögum þessum varða sektum, en varðhaldi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Gáleysisbrot skulu varða sektum.
    Brot gegn X. kafla laganna um póstleynd varða sektum eða varðhaldi eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé brotið framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
    

XIV. KAFLI

Reglugerðir.

46. gr.

    Reglugerðir um framkvæmd laga þessara setur samgönguráðherra.
    

XV. KAFLI

Gildistaka og brottfallin lög.

47. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Jafnframt falla úr gildi póstlög, nr. 33 5. maí 1986, með síðari breytingu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.

    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem samgönguráðherra setti á laggirnar til þess að endurskoða lög um fjarskipti og lög um póstþjónustu og semja frumvarp að lögum um sérstaka stofnun á sviði fjarskipta- og póstmála, sem tæki að sér f.h. ríkisins umsjón með fjarskiptamálum hér á landi, svo sem nánar verður lýst síðar.
    Með frumvarpinu er markmiðið að færa íslensk póstlög til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í Evrópu á sl. árum. Sú breyting, sem hér er lögð til, leiðir til grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi og stjórn póstmála hér á landi. Má m.a. nefna að núgildandi póstlög, nr. 33/1986, gera ráð fyrir einkarétti Póst- og símamálastofnunar til að safna saman, flytja og bera út nánar tilgreindar sendingar, sbr. 4. gr. laganna. Í frumvarpi þessu er einkaréttur til póstmeðferðar færður til ríkisins auk þess sem hann er þrengdur og afmarkaður nánar en verið hefur. Með lögum nr. 107/1996, um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986, voru gerðar breytingar sem einkum eiga rætur sínar að rekja til þess að hlutafélag í eigu ríkisins, Póstur og sími hf., tekur við réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar 1. janúar 1997, í samræmi við lög nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Ekki voru þá gerðar frekari breytingar á póstlögum en nauðsynlegt var talið vegna fyrrgreindrar formbreytingar á rekstri Póst- og símamálastofnunar. Gert var ráð fyrir að lög nr. 107/1996 tækju gildi 1. janúar 1997.
    Við endurskoðun póstlaga var höfð hliðsjón af tillögum að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar, sem lagðar hafa verið fyrir Evrópuþingið og Ráðherraráðið (hér eftir nefndar tilskipunartillögur ESB) . Verður greint frá meginatriðum þeirra hér á eftir.
    Jafnframt var horft til nýlegra laga í Danmörku og frumvarps til póstlaga sem lagt hefur verið fyrir norska Stórþingið. Auk þess hefur verið höfð hliðsjón af þróun löggjafar um póstþjónustu í Svíþjóð og Finnlandi en gerð verður grein fyrir nokkrum efnisatriðum í löggjöf þessara grannþjóða okkar hér á eftir.
    

II. Um þróun póstmála í Evrópu.

    Hér á eftir verður farið nokkrum orðum um tillögur að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu sambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar sem lagðar hafa verið fyrir Evrópuþingið og Ráðherraráðið (tilskipunartillögur ESB).
    Í inngangi tillagnanna segir m.a.: „Póstþjónustan er ómissandi tæki til samskipta og viðskipta og er því sérstaklega mikilvæg fyrir samfélagslega og viðskiptalega starfsemi sambandsins. Í aðildarlöndum sambandsins myndar póstþjónustan um 1,3% af brúttótekjum landanna, að henni starfa um 1,8 milljónir manna og þar af eru 1,4 milljónir starfsmenn opinberra póstrekenda. Póstþjónusta sambandsins meðhöndlar um 80 milljarða sendinga á ári hverju og þar af eru 3 milljarðar sendinga milli landa sambandsins. Afkastamikla og virka póstþjónustu í Evrópu verður því að líta á sem forsendu fyrir frekari þróun samkeppnishæfni og atvinnusköpunar í evrópsku hagkerfi. Því er það mjög mikilvægt að tryggja á öllu bandalagssvæðinu hágæðapóstþjónustu sem er aðgengileg fyrir alla notendur á viðráðanlegu verði. Tryggja verður fjárhagslegan grundvöll þessarar þjónustu.“ (Óopinber þýðing.)
    Í framhaldi af grænbók framkvæmdanefndar ESB um þróun sameiginlegs markaðar fyrir póstþjónustu, sem út kom í júní 1992, fól ráðherraráðið í febrúar 1994 framkvæmdanefndinni að vinna að tillögum að nauðsynlegum ráðstöfunum til að móta stefnu sambandsins í póstmálum. Ráðstafanir þessar skyldu einkum beinast að skilgreiningu á grunnpóstþjónustu, skyldum þeirra sem falið verður að veita hana, skilgreiningu á þeim þjónustugreinum sem eiga að vera innan grunnpóstþjónustunnar og á gæðum og nauðsynlegri stöðlun. Lögð var áhersla á að ráðstafanir þær sem lagðar yrðu til væru gagnsæjar, einfaldar og auðveldar í stýringu, til þess að tryggja sem ákjósanlegust skilyrði fyrir eftirlit og framkvæmd.
    Í júlí 1995 lagði framkvæmdanefndin fram tillögur sínar að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu sambandsins og um aukin gæði þjónustunnar (tilskipunartillögur ESB). Jafnframt lagði nefndin fram drög að tilkynningu um framkvæmd samkeppnisreglna á póstsviðinu, einkum um mat á ákveðnum ráðstöfunum einstakra ríkja varðandi póstþjónustu (hér eftir nefnd tilkynningardrögin). Þetta er talinn nauðsynlegur undanfari þess að í fyrsta sinn verði komið á fót innan bandalagsins grunnþjónustu í póstinum og jafnframt verði póstmarkaðurinn smátt og smátt opnaður fyrir aukinni samkeppni. Þetta verður að gerast í tveimur þrepum til þess að gefa þeim sem nú annast póstreksturinn nægilegan tíma til aðlögunar að nýjum aðstæðum. Áhersla er á það lögð að ráðstafanir til samræmingar á póstþjónustusviðinu séu í takt við þau skref sem stigin eru til aukins frelsis.
    Í tilskipunartillögum ESB er að finna samræmdar reglur fyrir póstsviðið á sambandssvæðinu, en í tilkynningardrögunum er leitast við að gefa aðilum á þessu sviði nauðsynlegar skýringar á framkvæmd löggjafar Evrópusambandsins. Þau munu auðvelda aðildarlöndunum og öðrum að meta hvort reglur þeirra og rekstrarhættir séu í samræmi við stofnsáttmála Evrópusambandsins, einkum ákvæði sáttmálans um samkeppni, frelsi til að veita þjónustu og frelsi til staðfestu.
    Tilskipunartillögur ESB eru m.a. byggðar á grein 100a í stofnsáttmálanum og beinast að því að koma á samræmdum reglum um grunnpóstþjónustu, þjónustu sem háð er einkaleyfi, gæði þjónustunnar og um tæknistaðla.
    Tilskipunartillögur ESB gera ráð fyrir skyldu til að veita öllum borgurum um allt svæði sambandsins grunnpóstþjónustu, án tillits til búsetu og á viðráðanlegu verði. Jafnframt gera þær ráð fyrir að öllum notendum grunnþjónustunnar sé tryggð hágæðaþjónusta (universal service). Þessi ákvæði eru afar mikilvæg fyrir afskekkt svæði innan aðildarlandanna og fyrir jaðarbyggðir bandalagsins. Sem stendur er sú skylda að veita grunnþjónustu og reglur um gæði þjónustunnar ekki alltaf greinilega skilgreind í lögum og reglum aðildarlanda samningsins um EES og því getur stundum reynst torvelt að framfylgja þeim.
    Á svæðum þar sem ekki er fyrir hendi virk grunnpóstþjónusta verða almenningur og fyrirtæki að leita til hraðflutningsfyrirtækja og greiða miklu hærra verð til þess að fá örugga og skjóta þjónustu. Hættan á háu verði er meiri eftir því sem miðstöð viðskiptalífsins er fjær þeim stað þar sem sendingin er póstlögð.
    Tilskipunartillögur ESB munu skylda þau aðildarríki, sem ekki hafa sem stendur strangar reglur um grunnpóstþjónustu og gæði þjónustunnar, til að leggja þeim sem hafa framkvæmd þjónustunnar með höndum slíka skyldu á herðar. Þetta mun koma notendum til góða (bæði sendendum og viðtakendum), einkum þeim sem búa á afskekktum svæðum og jaðarsvæðum.
    Til þess að tryggja fjárhagslega afkomu grunnpóstþjónustunnar er í tilskipunartillögunum skilgreindur samræmdur rammi fyrir þær þjónustugreinar sem hafa má í einkarétti, þ.e. samsöfnun, flutning, flokkun og útburð á innlendum pósti sem er allt að 350 g að þyngd og þar sem burðargjaldið er lægra en fimmfalt lágmarksburðargjald (þ.e. burðargjald 20 g bréfa hér á landi, nú 175 kr. (5 sinnum 35)). Þá er einnig gert ráð fyrir því í tilskipunartillögunum að komið verði á fót jöfnunarsjóði sem hefur það að markmiði að greiða niður grunnpóstþjónustu þar sem óhagkvæmt er að inna hana af hendi.
    Samkvæmt tilskipunartillögunum er gert ráð fyrir að póstur frá öðrum sambandslöndum (incoming cross-border mail) geti áfram verið hluti af einkaréttarþjónustu, a.m.k. til 31. desember 2000. Mun ákveðið eigi síðar en 30. júní 1998 hvort þeirri dagsetningu verði frestað, að teknu tilliti til þess hvernig mál hafa og munu þróast. Póstur frá öðrum sambandslöndum er að meðaltali 4% af póstmagninu innan bandalagsins og 3% af tekjum þeirra sem reka grunnpóstþjónustu. Opnun þessa hluta markaðarins fyrir samkeppni mun því væntanlega aðeins hafa takmörkuð áhrif og ætti ekki að skaða þá póstrekendur sem annast einkaréttinn. Hún mun samt sem áður vera umtalsvert skref að því marki að mynda sameiginlegan markað fyrir póstþjónustu innan bandalagsins. Aðildarríkin geta tekið upp hlutlægt, gagnsætt og réttlátt leyfisveitingakerfi sem m.a. ætti að hindra að frelsið verði misnotað til þess að beina þangað innlendum pósti fram hjá einkaréttarþjónustunni.
    Samkvæmt tilskipunartillögunum getur markpóstur með sama hætti verið hluti af einkaréttarþjónustunni til 31. desember 2000. Markpóstur er bréfapóstsendingar þar sem um er að ræða sams konar skilaboð sem send eru til ákveðins fjölda viðtakenda í markaðs- og auglýsingaskyni. Að meðaltali er markpóstur innan bandalagsins 17% af póstmagninu og 12% af tekjum þeirra sem annast rekstur grunnpóstþjónustunnar. Framkvæmdanefndin ákveður fyrir 30. júní 1998 hvort markpóstur eigi að vera hluti einkaréttarþjónustunnar eftir 31. desember 2000. Í frumvarpi þessu er ekki fjallað sérstaklega um markpóst, þannig að um póstmeðferð slíks pósts gilda sömu reglur og um aðra grunnpóstþjónustu.
    Í síðasta lagi á fyrri helmingi ársins 2000 á að taka einkarétt til póstmeðferðar, sem gert er ráð fyrir í núverandi tilskipunartillögum, til rækilegrar endurskoðunar.
    Að því er gjaldskrá varðar er þess krafist í tilskipunartillögunum að aðildarríkin virði meginregluna um að gjöld fyrir grunnpóstþjónustuna séu viðráðanleg og taki mið af kostnaði. Aðildarlöndum er þó heimilt að ákveða að gjöld fyrir grunnpóstþjónustu séu hin sömu um allt landsvæði þeirra.
    Þeir sem fara með einkarétt og bera skyldur ríkisins til póstmeðferðar eru skyldugir til að koma á fót gagnsæju kostnaðarbókhaldskerfi og aðskildu reikningsskilakerfi, annars vegar fyrir einkaréttarþjónustuna og hins vegar póstþjónustu utan einkaréttar.
    Enn fremur, og í samræmi við meginregluna um aðskilnað stjórnvaldsstarfa og rekstrarstarfa, er í tilskipunartillögunum mælt fyrir um að sett verði á laggirnar í sérhverju aðildarlandi eftirlitsstofnun sem sé óháð póstrekendum. Er gert ráð fyrir þeirri stofnun í sérstöku lagafrumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að reglur Rómarsamningsins og einkum og sér í lagi samkeppnisreglur hans gildi um póstmeðferð. Í áðurgreindum tilkynningardrögum framkvæmdanefndarinnar er gerð grein fyrir því eftir hvaða meginreglum nefndin hyggst koma í framkvæmd samkeppnisreglum sáttmálans á póstsviðinu. Þannig verður smátt og smátt og undir eftirliti komið á frjálsræði á póstmarkaðnum, jafnframt því að áfram verða við lýði öryggisráðstafanir til að tryggja framkvæmd grunnpóstþjónustunnar.
    Framkvæmdanefndinni er ljóst að póstsviðið ræður miklu um framþróun efnahagslífs í Evrópu. Verður því að koma á jafnvægi milli nauðsynlegrar einkaréttarþjónustu og beitingu samkeppnisreglna innan sambandsins þar sem hvort um sig bætir hitt upp og styrkir.
    

III. Þróun póstmála á Íslandi.

    Með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að taka inn í löggjöf sína samþykktir Evrópusambandsins er varða póstmál, sbr. 7. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem segir að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila. Munu Íslendingar því þurfa að laga löggjöf sína að nefndum tilskipunartillögum þegar þær öðlast gildi.
    Saga póstþjónustu á Íslandi er löng. Tilskipun um að koma á reglubundinni póstþjónustu á Íslandi var gefin út 13. maí 1776 og þótti frá upphafi ástæða til þess að hið opinbera hefði hönd í bagga með þjónustunni, til þess að fyllsta öryggis væri gætt og unnt væri að tryggja að bréf og sendingar kæmust á leiðarenda. Jafnframt má nefna að 1782 hóf fyrsti landpósturinn göngu sína og 90 árum síðar eða 1872 var skipaður póstmeistari í Reykjavík með tilskipun frá 26. febrúar sama ár um póstmál á Íslandi og rekstur póstþjónustu falinn sérstakri ríkisstofnun, Póststjórninni. Árið eftir, eða 1873, var fyrsta íslenska frímerkið gefið út. Hinn 13. september 1901 voru fyrstu póstlögin sett en þeim síðan breytt með lögum frá 16. nóvember 1907. Var meginmál breytingarlaganna fellt inn í lögin frá 1901 og þau gefin út svo breytt, sem póstlög, 16. nóvember 1907, nr. 43/1907. Samkvæmt lögunum skyldi póstmeistarinn í Reykjavík hafa á hendi „stjórn hinna íslenzku póstmála innanlands undir yfirstjórn stjórnarráðs Íslands“. Póstlög, 7. maí, nr. 5/1921, leystu af hólmi póstlögin frá 1907. Samkvæmt þeim skyldi hinum íslensku póstmálum stjórnað af aðalpóstmeistara, sen hefði umsjón með rekstri póststarfa.
    Með póstlögum, nr. 31/1940, var skilgreindur einkaréttur póststjórnarinnar til flutnings á bréfum og öðrum sendingum innan lands og til útlanda. Póstlögum, nr. 31/1940, var breytt lítillega með lögum nr. 73/1954. Í nýjum póstlögum, nr. 33/1986, var gert ráð fyrir einkarétti Póst- og símamálastofnunar á póstsendingum, með sambærilegum hætti og gert hafði verið með lögum nr. 31/1940. Eins og áður segir voru gerðar breytingar á lögum nr. 33/1986 með lögum nr. 107/1996 til samræmis við lög nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Var gert ráð fyrir að lög nr. 107/1996 öðluðust gildi 1. janúar 1997.
    Velta póstþjónustunnar hér á landi er nú um 2,6 milljarðar kr. á ári en peningavelta, þ.e. inn- og útborganir, samtals um 80 milljarðar kr. á ári. Um 100 þús. sendingar eru meðhöndlaðar dag hvern af póstþjónustunni og af póststörfum hafa á annað þúsund manns atvinnu, auk ýmissa verktaka í flutningum og landpóstþjónustu.
    

IV. Norræn löggjöf um póstmál.

    Hér á eftir verður farið fáeinum orðum um nýlega löggjöf um póstþjónustu í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.
    

Danmörk.

    Dönsku póstlögin eru frá 8. febrúar 1995 og koma í stað póstlaga frá 1989. Í lögunum er staðfest skylda ríkisins til að halda uppi nánar skilgreindri póstþjónustu („grunnpóstþjónustu“) fyrir alla landsmenn. Enn fremur er einkaréttur ríkisins til flutnings tiltekinna póstsendinga skilgreindur.
    Lögin eiga við um alla þá sem í atvinnuskyni taka að sér flutning og dreifingu áritaðra póstsendinga. Eigendur fyrirtækja sem taka að sér flutning áritaðra póstsendinga allt að 20 kg skulu láta skrásetja þau hjá „Posttilsynet“. Þau lúta einnig reglum um t.d. póstleynd og meðferð óskilasendinga.
    Lögin taka mið af tilskipunartillögum ESB, sbr. það sem segir um þær hér á undan. Gert er ráð fyrir að ráðherra póstmála veiti sérstakt leyfi til reksturs þeirrar póstþjónustu sem ríkið er með lögum skuldbundið til að annast eða hefur einkarétt á.
    

Noregur.

    Í Noregi hefur verið lagt fyrir Stórþingið frumvarp til póstlaga (1996), sem koma á í stað póstlaga frá 1928, með breytingum frá 1952. Í frumvarpinu er kveðið á um skyldu ríkisins til að sjá landsmönnum öllum fyrir grunnpóstþjónustu á sanngjörnu verði. Gert er ráð fyrir að nánar tilgreind þjónusta lúti einkarétti og að „Postverket“ fari með hana. Til að annast aðra póstmeðferð þurfa póstrekendur að hafa til þess leyfi, sem samgönguráðuneytið gefur út. Þar er einnig gert ráð fyrir heimild til að leggja á þá sem veita póstþjónustu þjónustugjöld og sérstakt jöfnunargjald til að fjármagna óarðbæra póstþjónustu í dreifðum byggðum landsins.
    

Svíþjóð.

    Sænsku póstlögin eru frá árinu 1993. Þau kveða á um skyldu ríkisins til að tryggja aðgang allra landsmanna að almennri póstþjónustu. Engin einkaréttarákvæði eru í lögunum og eftirlit með póstþjónustu er falið sérstakri eftirlitsstofnun. Sérstök póstlög þekktust ekki áður í Svíþjóð. Frá og með 1. janúar 1994 varð „Posten“ í Svíþjóð hlutafélag.
    

Finnland.

    Finnsku póstlögin öðluðust gildi 1. janúar 1994, á sama tíma og „Post Finland“ þar í landi varð hlutafélag. Í lögunum er gert ráð fyrir að úthlutað verði leyfum til fyrirtækja sem annast póststarfsemi. Þau verða einnig að lúta reglum um þagnarskyldu og óskilapóst. Ákvæði eru um sérstaka eftirlitsstofnum. Hvergi er í lögunum að finna ákvæði um einkarétt.
    Þess má geta að Finnland og Svíþjóð eru einu aðildarríki Evrópusambandsins þar sem ekki er gert ráð fyrir einkarétti á einstökum þáttum póstþjónustu.
    

V. Meginstefna frumvarpsins og helstu nýmæli.

    Eins og áður segir var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af stefnu Evrópusambandsins í póstmálum, eins og henni eru gerð skil í tilskipunartillögum ESB. Í fyrsta skipti er stefnt að því í íslenskri löggjöf um póstþjónustu að skilgreina hugtakið grunnpóstþjónusta (universal service), en það orð er notað í frumvarpinu. Grunnpóstþjónusta er skilgreind sem viðtaka, flutningur, flokkun og skil á bréfum og öðrum sendingum með utanáskrift sem vega allt að 20 kg.
    Fjölmörg nýmæli eru í frumvarpinu. Í fyrsta lagi má nefna að íslenska ríkið er skuldbundið til þess að tryggja landsmönnum reglulega póstþjónustu á sendingum sem taldar eru upp í 4. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi er tekin upp ný skilgreining á einkarétti ríkisins til póstmeðferðar nánar tilgreindra póstsendinga og er þar tekið mið af tilskipunartillögum ESB. Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ríkið geti falið einum eða fleiri póstrekendum með sérstöku rekstrarleyfi að annast rekstur þeirrar póstþjónustu sem ríkið skuldbindur sig til að veita öllum landsmönnum. Fleiri nýmæli er að finna í frumvarpinu sem nánar verður gerð grein fyrir í athugasemdum við einstök ákvæði þess.
    

VI. Yfirlit yfir helstu efnisatriði frumvarpsins.

    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið laganna og markmið. Lögunum er ætlað að taka til hvers konar póstþjónustu hér á landi gegn greiðslu, þ.e. viðtöku, flutnings, flokkunar og skila á hvers konar bréfum og öðrum sendingum, með eða án utanáskrift. Markmið frumvarpsins er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt.
    Í II. kafla eru helstu hugtök frumvarpsins skýrð og er þar að mestu um að ræða hugtök sem ekki hafa áður verið notuð í póstlögum. Samkvæmt því sem þar kemur fram er gerður greinarmunur á grunnpóstþjónustu og annarri póstþjónustu, sem tekur til hvers konar póstsendinga, með eða án utanáskriftar. Í ákvæðinu er einnig gerður greinarmunur á aðilum sem veita póstþjónustu eftir því hvort og hvaða leyfi þeir hafa til að veita þjónustuna og hversu víðtæk þjónustan er sem þeir veita. Eru veitendur póstþjónustu flokkaðir sem póstþjónustuaðilar, póstrekendur, rekstrarleyfishafar og einkaréttarhafar.
    Samkvæmt III. kafla frumvarpsins fer samgönguráðherra með yfirstjórn póstmála hér á landi, en umsjón með póstmálum færist hins vegar úr höndum samgönguráðherra til sérstakrar stofnunar, Póst- og fjarskiptastofnunar, sem gert er ráð fyrir að komið verði á laggirnar. Er í því sambandi vísað til sérstaks lagafrumvarps um þá stofnun.
    Skyldur ríkisins og einkaréttur er afmarkaður í IV. kafla frumvarpsins. Samkvæmt því skuldbindur ríkið sig til að tryggja landsmönnum öllum reglulega grunnpóstþjónustu á ákveðnum sendingartegundum. Einkaréttur ríkisins til nánar tilgreindra póstsendinga er einnig skýrt afmarkaður í IV. kafla frumvarpsins, mun skýrar en í núgildandi lögum, auk þess sem gert er ráð fyrir að einkarétturinn verði takmarkaðri en nú er. Einkaréttur ríkisins nær samkvæmt kaflanum einnig til uppsetningar póstkassa, útgáfu frímerkja og til notkunar viðurkennds auðkennis póstþjónustunnar.
    V. kafli frumvarpsins fjallar um rekstrarleyfi, skyldur o.fl. Er það sett sem skilyrði til að annast grunnpóstþjónustu að viðkomandi hafi til þess sérstakt rekstrarleyfi. Í kaflanum er einnig kveðið á um að íslenska ríkinu sé heimilt að fela póstrekanda með sérstöku leyfi að fara með einkarétt sinn og skyldur skv. IV. kafla. Má gera ráð fyrir að einkaréttur og skyldur ríkisins verði þá á sömu hendi, þannig að einkaréttarhafa verði sett það skilyrði að fullnægja skyldum ríkisins samkvæmt frumvarpinu. Í kaflanum eru talin upp ýmis skilyrði sem sett munu fyrir leyfisveitingu.
    Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um viðskiptaskilmála og gjaldskrár, en samkvæmt frumvarpinu er lögð á það áhersla að viðskiptaskilmálar séu sýnilegir. Er því gert ráð fyrir að þeir sem fara með grunnpóstþjónustu birti opinberlega viðskiptaskilmála sína og að þeir séu sendir Póst- og fjarskiptastofnun svo fljótt sem auðið er.
    VII. kafli fjallar um skráningu póstrekenda, merkingu pósts o.fl.
    Í VIII. kafla er að finna almennar reglur um póstþjónustu. Eru það ákvæði um afhendingu pósts, vörslur póstsendinga, ráðstöfunarrétt yfir póstsendingum o.fl. Eiga ákvæði kaflans við um hvort tveggja, póstsendingar innan grunnpóstþjónustu og aðrar póstsendingar.
    IX. kafli frumvarpsins fjallar um greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu. Er gert ráð fyrir því að heimilt sé að tryggja með fjárframlögum að póstþjónusta sé veitt, jafnvel þótt hún sé óarðbær. Er lagt til að heimilt verði að innheimta svokallað jöfnunargjald í þessum tilgangi.
    Í X. kafla eru ákvæði um póstleynd. Er gert ráð fyrir því að meginreglan verði, líkt og í núgildandi lögum, að einungis sé heimilt að veita upplýsingar um póstsendingar að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt sérstakri heimild í lögum. Þó er gert ráð fyrir undanþágum frá þeirri meginreglu í nánar tilgreindum tilvikum.
    XI. kafli frumvarpsins ber heitið skaðabætur og er þar m.a. að finna ákvæði um takmörkun ábyrgðar vegna póstþjónustu. Ákvæði kaflans eiga einungis við um grunnpóstþjónustu.
    Í XII. kafla eru ákvæði um milliríkjasamninga og þær skuldbindingar sem slíkir samningar geta haft í för með sér.
    Í XIII. kafla er fjallað um viðurlög við brotum á ákvæðum frumvarpsins og í XIV. kafla um heimild til að setja reglugerð um framkvæmd póstmála. Í XV. kafla er gildistökuákvæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er gildissvið frumvarpsins tilgreint. Frumvarpið tekur til póstþjónustu í víðtækri merkingu, en ekki eingöngu til grunnpóstþjónustu. Þannig taka ákvæði frumvarpsins í raun til hvers konar viðtöku, flutnings, flokkunar og skila, á hvers konar bréfum og öðrum sendingum, með eða án utanáskriftar. Þess ber þó að geta að flest ákvæði laganna varða samkvæmt efni sínu einungis grunnpóstþjónustu, eins og hún er skilgreind í frumvarpinu, en önnur ákvæði, þar með talin öll ákvæði í VIII. kafla frumvarpsins, eiga við um hvers kyns póstþjónustu.
    Samkvæmt 1. mgr. fellur hvers kyns póstþjónusta undir frumvarpið, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þá falla einnig undir frumvarpið allir þeir sem annast póstþjónustu, nema annað leiði af einstökum ákvæðum frumvarpsins. Þannig falla t.d. flutningafyrirtæki eins og sérleyfishafar og flugfélög almennt séð undir frumvarpið, svo framarlega sem þessir aðilar inna af hendi a.m.k. einn af framangreindum þáttum póstþjónustu, sem oftast nær er flutningur pósts. Með flutningi á póstsendingum í þessu sambandi er átt við almennan flutning eða dreifingu sendinga, en ekki flutning einstakra sendinga sem flutningafyrirtæki annast milliliðalaust fyrir sendendur eða viðtakendur.
    Frumvarpið tekur eingöngu til póstþjónustu sem veitt er gegn greiðslu. Þannig tekur frumvarpið t.d. ekki til póstþjónustu vegna eigin sendinga, jafnvel þótt kostnaður vegna póstþjónustu sé greiddur af viðskiptavinum viðkomandi eða reiknaður inn í þá þjónustu sem látin er í té. Þegar hins vegar aðrir inna þjónustuna af hendi gegn greiðslu fellur hún undir frumvarpið. Sem dæmi má nefna að útburður á morgun- og dagblöðum, sem útgáfufyrirtæki annast sjálf, fellur ekki undir frumvarpið. Láti útgáfufyrirtæki hins vegar aðra annast dreifingu blaðanna fyrir sig gegn greiðslu fellur sá þáttur undir frumvarpið. Sama á við þegar útgáfufyrirtæki taka að sér, gegn greiðslu, útburð og dreifingu á öðru efni, með eigin blöðum eða tímaritum.
    Þá er það einnig skilyrði að um nokkuð reglulega þjónustu sé að ræða. Þannig mundi póstþjónusta aðila í eitt og eitt skipti ekki falla undir frumvarpið, jafnvel þótt greitt væri fyrir þjónustuna.
    Í 2. mgr. kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að tryggja heimilum, fyrirtækjum og stofnunum um land allt hagkvæma og virka póstþjónustu. Með orðinu „hagkvæma“ er einkum átt við að þjónustan sé á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hennar njóta.
    Þá segir í 2. mgr. að tryggð skuli „virk“ póstþjónusta um land allt. Með því er lögð áhersla á að póstur sé borinn út reglulega um land allt. Er þá verið að vísa til grunnpóstþjónustu og þeirra sem slíka þjónustu annast. Skulu önnur ákvæði frumvarpsins skýrð með hliðsjón af þessum megintilgangi frumvarpsins. Sem dæmi um hvað teljist virk eða regluleg póstþjónusta má nefna að við það er miðað í tilskipunartillögum ESB að tryggt sé að póstur innan grunnpóstþjónustu sé borinn út frá póststöð og til viðtakanda hvern virkan dag og ekki sjaldnar en fimm sinnum í viku, nema við alveg sérstakar aðstæður eða þegar landfræðilegar aðstæður eru með þeim hætti að ekki er unnt að krefjast útburðar svo oft.
    

Um 2. gr.

    Hér eru skilgreind öll grundvallarhugtök sem fram koma í frumvarpinu, en slíkar orðskýringar eru nýmæli í póstlögum.
    Fyrst er að finna skýringu á hugtakinu póstsendingu, sem er skilgreint sem hvers konar bréf, eða önnur sending, sem flutt er með póstþjónustuaðila. Undir hugtakið geta því fallið hvers kyns sendingar, stórar og smáar, svo framarlega sem þær eru fluttar með svokölluðum póstþjónustuaðila, en það hugtak nær samkvæmt frumvarpinu yfir alla þá aðila sem veita póstþjónustu.
     Póstmeðferð er skilgreind sem viðtaka, flokkun, flutningur og skil á póstsendingum.
     Póstþjónusta er samkvæmt frumvarpinu skilgreind sem viðtaka, flutningur, flokkun og skil á hvers konar bréfum og öðrum sendingum, með eða án utanáskriftar. Ekki er talið nauðsynlegt að annast alla framangreinda þætti heldur nægir að unnið sé við einn þeirra. Þannig telst það t.d. til póstþjónustu þegar aðili flytur bréf eða aðrar sendingar, þótt viðkomandi hafi hvorki tekið við sendingunni frá sendanda né skilað henni til viðtakanda. Hugtakið póstþjónusta tekur yfir bréf og aðrar sendingar, með eða án utanáskriftar.
    Undir hugtakið póstþjónustu fellur ekki flutningur einstakra sendinga sem flutningsaðilar taka að sér milliliðalaust fyrir einstaka sendendur eða viðtakendur, enda sé slík þjónusta ekki meginverkefni viðkomandi þjónustuaðila. Sem dæmi þar um má nefna að flutningur einstakra sendinga, t.d. með flugvél eða langferðabifreið, sem sendandi kemur sjálfur til viðkomandi flutningafyrirtækis telst ekki póstsending nema megintilgangur fyrirtækisins sé að annast slíkar sendingar, líkt og hjá alþjóðlegum hraðflutningafyrirtækjum.
    Hugtakið grunnpóstþjónusta er grundvallarhugtak frumvarpsins. Hugtakið er skilgreint sem póstmeðferð bréfa og annarra sendinga með utanáskrift sem vega allt að 20 kg. Skilgreining hugtaksins er í samræmi við skilgreiningu samkvæmt tilskipunartillögum ESB.
     Póstþjónustuaðili er sá aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu, þ.e. viðtöku, flutning, flokkun eða skil á hvers konar bréfum og öðrum sendingum, með eða án utanáskriftar.
     Póstrekandi er þrengra hugtak en póstþjónustuaðili þar sem slíkur aðili annast einn eða fleiri þætti grunnpóstþjónustu í atvinnuskyni, en ekki aðra víðtækari þjónustu.
     Rekstrarleyfishafi hefur sérstakt leyfi til grunnpóstþjónustu skv. 11. gr. frumvarpsins. Hugtakið er þrengra en póstrekandi þar sem ekki er sjálfgefið að póstrekandi hafi sérstakt leyfi til að annast grunnpóstþjónustu, sbr. 2. mgr. 11. gr. Má þó gera ráð fyrir að margir póstrekendur muni afla sér rekstrarleyfis, a.m.k. þeir sem annast fleiri en einn þátt grunnpóstþjónustu.
     Einkaréttarhafi er sá aðili sem samkvæmt sérstöku leyfi fer með einkarétt ríkisins skv. IV. kafla frumvarpsins. Má einnig gera ráð fyrir að honum verði falið að bera skyldur ríkisins skv. 4. gr. frumvarpsins.
    Hugtakið póstkassi kemur fram í 7. gr. frumvarpsins, en þar er gert ráð fyrir einkarétti ríkisins á uppsetningu þeirra á almannafæri og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Er hugtakið hér skilgreint sem kassi sem ætlaður er til viðtöku og uppsöfnun bréfapóstsendinga til frekari póstmeðferðar.
     Frímerki er skilgreint sem gjaldmiðill, útgefinn af ríkinu, sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu. Einnig kemur fram að frímerki skuli bera áletrunina „ÍSLAND“.
    Þá er hugtakið gjaldmerki skilgreint í frumvarpinu, en líkt og ráða má af skilgreiningunni er um að ræða merki sem póstþjónustuaðilar geta notað í rekstri sínum sambærileg frímerkjum. Hins vegar má gera ráð fyrir að póstrekandi, sem fer með einkarétt og ber skyldur ríkisins, muni gefa út frímerki í umboði þess og nota það í starfsemi sinni. Geta aðrir póstrekendur þá notað gjaldmerki í sínum rekstri. Gjaldmerki bera ekki áletrunina „ÍSLAND“.
    Rétt þykir að skilgreina hugtakið fjármunapóstsendingar í frumvarpinu, vegna þess hversu mikilvægur þáttur þess er innan póstþjónustunnar. Gert er ráð fyrir að önnur grundvallarhugtök póstþjónustu, svo sem bögglar, ábyrgðarbréf, verðbréf o.s.frv., verði skilgreind í reglugerð.
    

Um 3. gr.

    Í greininni er fjallað um yfirstjórn póstmála hér á landi. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að yfirstjórn póstmála verði hjá samgönguráðherra, en að sjálfstæð stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, taki alfarið við umsjón með póstmálum hér á landi og hafi með höndum eftirlit með framkvæmd laganna. Sérstakt lagafrumvarp hefur verið samið um stofnunina, skipulag hennar og hlutverk, og vísast til þess að því er varðar frekari umfjöllun um stofnunina.
    Nauðsynlegt er samhliða þeirri breytingu sem gerð er á almennri skipan póstmála að setja á laggirnar sérstaka stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun sem hefur með þá stjórnsýslu að gera sem ýmist hefur verið falin samgönguráðuneyti eða Póst- og símamálastofnun. Eftir formbreytingu á Póst- og símamálastofnun samkvæmt lögum nr. 103/1996 og með tilliti til ákvæða frumvarps þessa er ekki talið æskilegt að dagleg stjórnsýsla póstmála sé hjá samgönguráðuneytinu. Er því gert ráð fyrir að hún flytjist að mestu leyti frá ráðuneytinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Svo sem nánar er vikið að í nefndu frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt gert ráð fyrir sérstakri úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sem ætlað er að taka að mestu leyti við stjórnsýsluhlutverki samgönguráðherra í póstmálum, en gert er ráð fyrir að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, sem kveður upp fullnaðarúrskurð á stjórnsýslustigi. Með þessu fyrirkomulagi er tekið tillit til krafna tilskipunartillagnanna um sjálfstæðan og óháðan stjórnsýsluaðila á sviði póstmála ( national regulatory authority of the postal operators) og til þess að samgönguráðherra mun fara með hlutafé ríkisins í Pósti og síma hf., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 103/1996.
    

Um 4. gr.

    Samkvæmt greininni er íslenska ríkið skuldbundið til að tryggja landsmönnum með reglubundnum hætti póstþjónustu vegna sendingartegunda sem nánar eru tilgreindar í samtals níu töluliðum. Í 1. mgr. eru tilgreindar í fimm töluliðum sendingartegundir innan grunnpóstþjónustu. Í 2. mgr. er síðan vísað til þjónustuþátta í fjórum töluliðum sem ríkið skal tryggja, án þess þó að um grunnpóstþjónustu sé að ræða. Þegar segir í ákvæðinu að slík þjónusta skuli veitt með „reglubundnum hætti“ er rétt að vísa til áðurgreindrar viðmiðunar í tilskipunartillögunum, þar sem segir að aðildarríki skuli tryggja útburð innan grunnpóstþjónustu, frá póststöð og til viðtakanda hvern virkan dag og ekki sjaldnar en fimm sinnum í viku, nema við alveg sérstakar aðstæður eða þegar landfræðilegar aðstæður eru með þeim hætti að ekki er unnt að krefjast útburðar svo oft.
    Rétt er að vekja á því athygli að samkvæmt greininni skuldbindur ríkið sig ekki eingöngu til að tryggja landsmönnum öllum bréfapóstsendingar, dagblöð, bögglasendingar o.s.frv. heldur skal ríkið einnig sjá til þess að landsmenn geti sent bréf með ábyrgð eða sem verðsendingu, jafnframt því sem það skal sjá til þess að unnt sé að senda bréf með póstkröfu og greiða með póstgíró, auk þess að tryggja aðra fjármunapóstþjónustu.
    Gera má ráð fyrir að aðili sem fær leyfi skv. 11. eða 12. gr. geti að einhverju leyti þurft að taka á sig skyldur þær sem mælt er fyrir um í ákvæði þessu. Einnig má gera ráð fyrir því að sá aðili sem fer með einkarétt ríkisins muni annast þjónustu sem ríkið skuldbindur sig til að tryggja samkvæmt greininni.
    Samgönguráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um þyngdarmörk, umfang og nánari skilgreiningu þessara sendinga. Samkvæmt því skal hann til að mynda skilgreina hugtök eins og bögglar, ábyrgðarsendingar, verðsendingar o.s.frv., en þessi grundvallarhugtök póstmála eru hvergi skilgreind í lögunum.
    

Um 5. gr.

    Í greininni er ákvæði um skyldur ríkisins að því er varðar póstsendingar milli landa, en þjónustuskyldan fer samkvæmt alþjóðlegum samningum. Hér er fyrst og fremst átt við samninga Alþjóðapóstsambandsins (UPU) sem Ísland er aðili að, en gildandi samningar voru undirritaðir í Seoul haustið 1994. Enn fremur er um að ræða samninga við einstök ríki og einstök póstyfirvöld.

Um 6. gr.

    Hér er gerð grein fyrir þeim póstsendingum sem lúta skulu einkarétti. Er í því efni að mestu leyti fylgt tilskipunartillögum Evrópusambandsins. Gert er ráð fyrir að einkarétturinn samkvæmt frumvarpinu verði afmarkaður með mun nákvæmari hætti en í núgildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir því að ríkið fari með einkaréttinn. Mun Póst- og fjarskiptastofnun síðan veita leyfi til að fara með þennan einkarétt ríkisins, sbr. 12. gr.
    Gert er ráð fyrir því að einkarétturinn nái skv. 1. mgr. til bréfa í umslögum og sambærilegum umbúðum með sýnilegri áritun, allt að 350 g að þyngd og annarra ritaðra orðsendinga og prentaðra tilkynninga með utanáskrift og sérstöku innihaldi, þar með talinna póstkorta, sem eru innan fyrrgreindra marka um þyngd. Með umslögum í 1. mgr. er átt við bréf sem lokað er aftur, hvort sem þau eru límd eða þeim lokað með öðrum hætti. Einkarétturinn fellur þó niður ef burðargjald póstsendinga er meira en fimmfalt burðargjald fyrir bréf sem falla undir lægsta gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá. Lægsti gjaldflokkur er nú 20 g bréf, en burðargjald þeirra er 35 kr. Er því gert ráð fyrir að einkaréttur falli niður á sendingum þar sem heildarburðargjald vegna póstsendinga er hærra en 175 kr. (5 sinnum 35), ef miðað er við núgildandi gjaldskrá.
    Ríkið hefur samkvæmt ákvæðinu einkarétt til póstmeðferðar á fyrrgreindum póstsendingum sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi, svo og á póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum. Undanþegnar eru þó svonefndar hraðsendingar ( courier mail), sem m.a. alþjóðleg hraðflutningafyrirtæki annast.
    Samkvæmt 3. mgr. er þó gert ráð fyrir að einkaréttur nái ekki til verðlista, bæklinga, blaða og tímarita með utanáskrift, ef innihald allra sendinganna er eins og þær eru án umbúða, eða þegar búið er um sendingarnar í gagnsæjum umbúðum. Þannig fellur t.d. tímarit sem sett er í utanárituð umslög undir einkaréttinn, að uppfylltum öðrum skilyrðum frumvarpsins, en tímarit sem pakkað er inn í gagnsætt plast eða er án umbúða fellur ekki undir einkaréttinn, jafnvel þótt ritað sé utan á það og það sé undir 350 g að þyngd. Undanþága þessi er bundin við þau tilvik sem nefnd eru í 3. mgr.
    Samkvæmt frumvarpinu er einnig viðurkenndur réttur hvers og eins til að sinna póstþjónustu innan eigin starfsemi. Sem dæmi þar um má nefna póst sem sendur er á milli útibúa banka og varðar starfsemi hans. Einstaklingum og fyrirtækjum er þannig sjálfum heimilt að annast alla póstmeðferð póstsendinga sem berast þeim eða þeir senda frá sér. Þeim er hins vegar óheimilt að fá þriðja aðila til að annast slíka póstmeðferð, ef hún er bundin einkarétti skv. 1. mgr.
    Samgönguráðherra er heimilt að þrengja einkaréttinn með reglugerð. Þannig er samgönguráðherra heimilt að mæla fyrir um takmörkun eða afnám einkaréttar vegna póstmeðferðar póstsendinga til og frá landinu. Er ekki gert ráð fyrir því í tilskipunartillögunum að póstsendingar til viðtakenda í heimalandinu séu bundnar einkarétti, en stefnt er að því að einkaréttur til póstmeðferðar póstsendinga sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum falli utan einkaréttar eftir 31. desember 2000. Ekki þykir rétt að afnema einkarétt hér á landi á fyrrnefndum sendingum að svo stöddu, en heppilegt þykir að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að afnema eða takmarka einkaréttinn að liðnum hæfilegum aðlögunartíma.

Um 7. gr.

    Ákvæði þetta er sambærilegt 2. gr. laga nr. 107/1996, um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986, og tekur af allan vafa um einkarétt ríkisins til að setja upp póstkassa á almannafæri og á stöðum sem almenningur hefur aðgang að, svo sem við verslanir eða verslunarmiðstöðvar, opinberar byggingar o.s.frv. Ákvæðið er einnig í samræmi við tilskipunartillögurnar, en þar er gert ráð fyrir heimild aðildarríkja til einkaréttar á uppsetningu póstkassa með það að markmiði að tryggja festu og öryggi (public order and public security) við notkun þeirra. Aðildarríkjum er einnig heimilt að tilnefna ákveðinn aðila til að annast þennan einkarétt sinn og má gera ráð fyrir að það verði sá aðili sem ber skyldur ríkisins skv. 4. gr. frumvarpsins. Hugtakið póstkassi er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 8. gr.

    Hliðstætt ákvæði er í 25. gr. núgildandi póstlaga að öðru leyti en því að þar er einkarétturinn í höndum Póst- og símamálastofnunar, en eftir að stofnuninni hefur verið breytt í hlutafélag 1. janúar 1997 fer ríkið með þennan rétt, sbr. 4. gr. laga nr. 107/1996, um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986. Ríkið getur þó falið einstökum póstrekendum að fara með þennan rétt sinn, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Heimild til þessa er einnig að finna í tilskipunartillögunum. Hugtakið frímerki er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 9. gr.

    Samkvæmt gildandi póstlögum hefur Póst- og símamálastofnun einkarétt til notkunar auðkennisins, en með lögum nr. 107/1996, um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986, er Pósti og síma hf. fengin heimild til notkunar þess. Samkvæmt frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að notkunarheimildin verði hjá ríkinu, sem síðan getur framselt heimildina til þess aðila sem fer með einkarétt og ber skyldur ríkisins skv. IV. kafla laganna.
    

Um 10. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða. Með þessu ákvæði er reynt að koma í veg fyrir að sendendur pósts hér á landi geti póstlagt sendingar í öðru landi, sem berast eiga hingað til lands, til þess að njóta þar hagstæðari burðargjalda. Hafi póstrekandi vitneskju um að póstsending sem berst hingað til lands sé upprunnin með slíkum hætti getur hann neitað að taka við henni.
    Heimild er fyrir slíku ákvæði í Alþjóðapóstsamningnum. Slíkar sendingar ( remail) geta raskað jafnvægi milli ríkja því að ef póstrekendur í einstökum ríkjum bjóða upp á „remail“ með hagstæðum burðargjöldum leiðir það til þess að þau senda út mun meiri póst en þau flytja inn og fá því umtalsverð burðargjöld, þrátt fyrir að þjónustan sé að verulegu leyti innt af hendi í heimalandinu þar sem ekkert burðargjald er innheimt.
    

Um 11. gr.

    Samkvæmt frumvarpinu er öðrum en þeim sem fengið hafa til þess rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar óheimilt að sinna grunnpóstþjónustu. Aðili sem tekur við, flytur, flokkar eða skilar bréfum og öðrum sendingum með utanáskrift, sem vega allt að 20 kg, verður því að hafa rekstrarleyfi til þeirrar starfsemi sinnar. Með þessu móti er unnt að tryggja eftirlit með grunnpóstþjónustu neytendum til hagsbóta. Leyfisveiting eða eftir atvikum synjun verður að vera málefnaleg og að öðru leyti í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993.
    Í rekstrarleyfinu sjálfu skal tilgreina nánar til hvaða þátta grunnpóstþjónustu rekstrarleyfið nær, þ.e. til hvaða framangreindra þjónustuþátta það tekur, hvort það er bundið við ákveðin svæði o.s.frv. Í leyfinu skulu einnig tilgreindar nákvæmlega þær kvaðir og þau skilyrði sem leyfinu fylgja.
    Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu séu undanþegnir rekstrarleyfi. Þannig getur samgönguráðherra mælt fyrir um að ekki sé þörf á sérstöku leyfi vegna tiltekinnar starfsemi sem að öllu jöfnu telst þó til grunnpóstþjónustu. Sem dæmi má nefna aðila sem einungis annast flutning á póstsendingum á milli staða, eftir atvikum með annars konar sendingum. Er ráðherra heimilt að undanþiggja slíkan aðila skyldu til rekstrarleyfis, enda hlýtur að teljast óþarflega viðurhlutamikið að krefjast sérstaks rekstrarleyfis fyrir slíka starfsemi. Hann telst þó póstrekandi, sbr. orðskýringu í 2. gr., og er því skráningarskyldur skv. 20. gr. Með því móti hefur Póst- og fjarskiptastofnun eftir sem áður eftirlit með slíkri starfsemi.
    Rétt er að leggja á það áherslu að skilyrði fyrir leyfisveitingu, sem og önnur ákvæði kaflans, eiga einungis við um grunnpóstþjónustu en ekki aðra póstþjónustu. Þannig þarf t.d. ekki sérstakt rekstrarleyfi til póstþjónustu á sendingum sem ekki bera utanáritun og sendingum sem eru meira en 20 kg að þyngd.
    

Um 12. gr.

    Samkvæmt gildandi póstlögum er gert ráð fyrir að Póst- og símamálastofnunin fari með einkarétt til nánar tilgreindrar póstþjónustu. Í IV. kafla frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir því að ríkið fari með einkaréttinn. Póst- og fjarskiptastofnun veitir síðan tilteknum aðila leyfi til að annast þessa þjónustu. Gert er ráð fyrir því að póstrekandi, sem hefur leyfi til að annast einkarétt ríkisins, beri einnig skyldur þess skv. 4. gr. frumvarpsins, sbr. orðalagið „að fara með einkarétt sinn og skyldur samkvæmt lögum þessum“.
    

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er gert ráð fyrir því að sett verði skilyrði fyrir leyfisveitingu skv. 11. og 12. gr. Geta skilyrðin verið mismunandi eftir því hversu víðtæk leyfisveitingin er og til hvaða þátta hún nær. Þannig má ætla að ítarleg skilyrði verði sett fyrir leyfi til að fara með einkarétt ríkisins, m.a. skilyrði er varða skyldur ríkisins skv. 4. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. þurfa skilyrðin þurfi að vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa. Verða skilyrðin einnig að uppfylla að öðru leyti almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu rekstrarleyfi að jafnaði vera tímabundin. Þannig skal almennt tímabinda rekstrarleyfi og taka tímabilið fram í leyfinu sjálfu. Þó er heimilt að hafa rekstrarleyfi ótímbundið, t.d. að því er varðar þann aðila sem fer með einkarétt og skyldur ríkisins, enda er heppilegast fyrir neytendur að ákveðin festa sé á þeim rekstri grunnpóstþjónustu.
    Í 3. mgr. eru talin upp þau skilyrði sem setja má fyrir leyfisveitingu. Eins og áður hefur komið fram má gera ráð fyrir að skilyrðin séu fleiri þegar rekstrarleyfið er víðtækara og tekur yfir fleiri þætti og að þau séu færri eftir því sem leyfið er takmarkaðra.
    Skilyrði a–j í 3. mgr. eru einungis nefnd í dæmaskyni. Að vísu má gera ráð fyrir að skilyrðin sem þar eru talin upp séu þau sem helst muni reyna á í framkvæmd.
    Skilyrðin sem nefnd eru í 3. mgr. eru m.a.:
    Að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs. Skv. 9. gr. frumvarps til laga um Póst- og fjarskiptastofnun skal greiða sérstakt gjald fyrir útgáfu leyfisbréfa og skráningu einstakra póstrekenda. Samkvæmt sömu grein skulu rekstrarleyfishafar greiða árlega rekstrargjald sem verður tiltekið hlutfall af bókfærðri veltu. Skilyrði um að greitt skuli leyfisgjald og rekstrargjald er sjálfsagt í ljósi þessa og leiðir í raun af sjálfu sér.
    Að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur. Sem dæmi um slíkar kröfur má nefna að póstur sé borinn út á ákveðnum svæðum og með ákveðnu millibili, t.d. fimm sinnum í viku, líkt og gert er ráð fyrir sem meginreglu í tilskipunartillögunum. Þá má nefna skilyrði um að póstafgreiðsla verði starfrækt á tilteknum svæðum eða að þær myndi ákveðið net. Má einnig nefna að viðkomandi taki að sér meðferð ábyrgðar- og verðsendinga o.s.frv.
    Að skylt sé að annast sérstök verkefni, þótt þau séu ekki arðbær, en kostnaður vegna þeirra fengist eftir atvikum bættur úr jöfnunarsjóði skv. IX. kafla laganna.  
    Að gjaldskrá einkaréttarhafa sé háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að hún sæti eftirliti hennar, en skv. 18. gr. frumvarpsins skal Póst- og fjarskiptastofnun staðfesta gjaldskrá fyrir póstþjónustu sem bundin er einkarétti.
    Að virtar séu uppgjörs- og bókhaldsreglur. T.d. að ólíkir þjónustuþættir séu aðgreindir í bókhaldi og að greint sé á milli þjónustu innan einkaréttar og þjónustu sem er í samkeppni. Er rétt að benda á að samkvæmt tilskipunartillögunum skal vera aðskilið reikningsskilakerfi fyrir einkaréttarþjónustu annars vegar og póstþjónustu utan einkaréttar hins vegar.
    Að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar vegna skila á póstsendingum til viðtakenda, ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar viðkomandi rekstrarleyfishafa kemur. Með þessu er reynt að tryggja að neytendur verði ekki fyrir tjóni eða óþægindum þrátt fyrir að rekstur leyfishafa stöðvist af fjárhagsástæðum, en tryggingin væri notuð til að fjármagna kostnað af því að koma pósti sem safnast hefur fyrir hjá leyfishafanum til skila.
    Að rekstrarleyfishafi sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar fjárhagslega stöðu á hverjum tíma. Markmið þessa skilyrðis er á sama hátt og fyrrgreint skilyrði sett til að tryggja hagsmuni neytenda. Til þess að sinna eftirliti sínu að þessu leyti gæti Póst- og fjarskiptastofnun m.a. krafist þess að sjá ársreikninga leyfishafa og jafnvel beitt öðrum eftirlitsúrræðum samkvæmt frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Má einnig gera ráð fyrir að stofnunin geti beitt úrræðum 5. gr. frumvarps til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, ef ekki er orðið við tilmælum stofnunarinnar um úrbætur í fjárhagsmálum, þar með talinni sviptingu rekstrarleyfis.
    Að rekstrarleyfishafi taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði póstmála. Þegar gert er ráð fyrir að veitandi þjónustu ( operator) taki þátt í slíku alþjóðasamstarfi geta yfirvöld tilnefnt leyfishafa til að taka þátt í samstarfinu. Má gera ráð fyrir að það yrði oftast sá aðili sem fer með einkarétt ríkisins og ber skyldur þess skv. 12. gr.
    Önnur skilyrði sem nefnd eru í 3. mgr. 13. gr. skýra sig sjálf. Það skal áréttað að skilyrðin sem þar eru nefnd eru ekki tæmandi.
    Skilyrði sem sett eru fyrir rekstrarleyfi geta breyst í samræmi við breyttar forsendur. Þá má einnig breyta eða bæta við skilyrðum í samræmi við breytingar á lögum og reglum, t.d. ef auknar þjónustuskyldur verða lagðar á ríkið samkvæmt lögum, þá verður sá aðili sem fer með skyldur ríkisins að uppfylla þær skyldur, þrátt fyrir að þær komi ekki sérstaklega fram í leyfinu. Sama á við ef alþjóðasamningar gefa tilefni til breytinga á skilyrðum. Ástæða þess að notað er orðalagið „gefa tilefni til“ er sú að alþjóðasamningar eru ekki alltaf sjálfkrafa skuldbindandi. Sé um að ræða alþjóðasamning sem er skuldbindandi fyrir Ísland að þjóðarétti þar sem er gert ráð fyrir auknum skyldum getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt slíkar aukaskyldur á rekstrarleyfishafa, jafnvel þótt ekki sé kveðið á um þær í rekstrarleyfinu. Ber leyfishöfum annars að taka tillit til allra slíkra breytinga í starfsemi sinni, þótt þær varði ekki sérstaklega skilyrði sem þeim hafa verið sett.
    Eins og áður hefur verið nefnt má gera ráð fyrir að einkaréttarhafa verði sett sérstaklega almenn skilyrði fyrir þeirri starfsemi sem tilheyrir þjónustuskyldunni, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig sett það sem skilyrði að einkaréttarhafi annist frímerkjaútgáfu, sbr. 8. gr., og skyldur til að nota auðkenni skv. 9. gr. Einkaréttarhafa er heimilt að veita þriðja aðila leyfi til notkunar auðkennisins, enda starfi hann í þágu hans. Þannig getur einkaréttarhafi t.d. veitt þeim sem annast landflutning pósts sem verktaki heimild til að setja auðkennið á bifreiðar sínar.
    

Um 14. gr.

    Samkvæmt greininni er samgönguráðherra heimilt að mæla fyrir um að aðilar sem fara með einkarétt ríkisins skuli annast póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita á Íslandi samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi að öðru leyti. Samkvæmt ákvæðinu hefur ráðherra heimild til að setja gjaldskrá sem miðar að því að burðargjöld vegna dagblaða, tímarita og vikublaða verði sem jöfnust um land allt, þannig að landsmenn allir eigi kost á slíkum prentmiðlum á sambærilegu verði.
    Samgönguráðherra skal skilgreina nánar í reglugerð hvað teljist til dagblaða, vikublaða og tímarita samkvæmt greininni, þ.e. hvert umfang þeirra og útbreiðsla þurfi að vera til þess að þau falli undir ákvæðið.
    Gert er ráð fyrir því í 2. mgr. að Póst- og fjarskiptastofnun bæti einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi fyrir sambærilega sendingar samkvæmt gjaldskrá hans og því gjaldi sem mælt er fyrir um í sérstakri gjaldskrá skv. 1. mgr. Kostnað sem rekja má til ákvörðunar samgönguráðherra um að greiða niður póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita skal skv. 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins greiða úr ríkissjóði.
    

Um 15. gr.

    Ákvæðið kemur í stað 6. gr. núgildandi póstlaga og tekur nú einungis til þeirra aðila sem annast flutning á póstsendingum fyrir einkaréttarhafa. Á helstu póstleiðum má gera ráð fyrir að flutningsaðilar flytji almennt ekki annan varning sem hugsanlega getur valdið töfum eða öðrum óþægindum. Almennt stuðlar það að skjótum og öruggum póstflutningum. Einkaréttarhafi getur þó samþykkt að flutningsaðili hafi meðferðis aðrar sendingar, enda getur slíkt verið hagkvæmt fyrir báða aðila sem og neytendur, t.d. á fáfarnari leiðum.
    

Um 16. gr.

    Hliðstætt ákvæði er í 13. gr. núgildandi póstlaga. Hér er þó gert ráð fyrir að flutningsskyldan sé takmörkuð við grunnpóstþjónustu.
    

Um 17. gr.

    Samhljóða ákvæði er að finna í 1. og 2. mgr. 2. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 18. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skulu póstrekendur semja og birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sína sem gilda um grunnpóstþjónustu. Skulu póstrekendur einnig senda viðskiptaskilmála til Póst- og fjarskiptastofnunar svo fljótt sem auðið er, svo og breytingar á þeim.
    Með vísan til tilskipunartillagna ESB skulu gjaldskrár innan grunnpóstþjónustu vera kostnaðartengdar, gagnsæjar og í samræmi við jafnræðisreglur.
    Gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti skal staðfest af Póst- og fjarskiptastofnun. Hefur stofnunin almennt eftirlit með gjaldskrá fyrir einkaréttarþjónustu og gætir þess að hún sé í eðlilegu samræmi við kostnað af því að veita viðkomandi þjónustu (cost-based). Að öðru leyti fer um eftirlit með gjaldskrám og viðskiptaskilmálum samkvæmt almennum reglum, m.a. samkeppnislögum, nr. 8/1993.
    Samkvæmt 4. mgr. hefur samgönguráðherra heimild til að setja í reglugerð sérstakar reglur um bókhald póstrekenda, sundurgreiningu þess og aðskilnað milli póstþjónustu og annars reksturs og milli þjónustu sem bundin er einkarétti og annarrar þjónustu. Er síðastnefndur aðskilnaður sérstaklega mikilvægur þar sem reikningsskilakerfi póstrekenda skal samkvæmt tilskipunartillögunum vera aðskilið fyrir einkaréttarþjónustu annars vegar og póstþjónustu utan einkaréttar hins vegar. Mun samgönguráðherra setja reglugerð þar um í samræmi við EES-reglur. Að öðru leyti fer um fjárhagslegan aðskilnað einkareksturs póstrekanda og samkeppnisrekstur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.

Um 19. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 20. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 20. gr.

    Í 20. gr. er gert ráð fyrir að öllum póstrekendum beri að skrá starfsemi sína hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Hugtakið póstrekandi er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins. Rekstrarleyfis- og einkaréttarhafar eru einnig póstrekendur. Þeir þurfa þó ekki að skrá sig sérstaklega hjá Póst- og fjarskiptastofnun þar sem þeir eru þegar á skrá þar sem leyfishafar. Póstrekendur sem ekki þurfa sérstakt leyfi til starfsemi sinnar, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins, þurfa hins vegar samkvæmt ákvæðinu að skrá starfsemi sína sérstaklega hjá Póst- og fjarskiptastofnun, svo að stofnunin geti sinnt eftirlitsskyldu sinni gagnvart þeim.
    Samgönguráðherra setur nánari reglur um skráningarskyldu póstrekenda, m.a. hvaða upplýsingar skuli veita við skráningu.
    

Um 21. gr.

    Til að ekki fari á milli mála hvaða póstrekandi fer með póstmeðferð viðkomandi sendinga skulu allar póstsendingar merktar með áprentun eða öðru einkenni sem sýnir hvaða póstrekendur annist póstmeðferð þeirra. Ákvæði þetta er m.a. sett til að tryggja að unnt sé að koma póstsendingum sem hafa misfarist aftur til þess póstrekanda sem tekið hefur að sér meðferð póstsins. Ákvæðið ætti einnig að koma í veg fyrir að póstrekandi geti vikið sér undan því að koma póstsendingu á leiðarenda.
    Ákvæðið á einungis við um póstsendingar innan grunnpóstþjónustu. Þannig þurfa aðilar sem veita þjónustu með óáritaðan póst ekki að merkja sendingar með þessum hætti.
    

Um 22. gr.

    Íslenska ríkinu er einu heimilt að gefa út frímerki, en hugtakið frímerki er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins. Líkt og áður hefur komið fram getur ríkið falið póstrekanda að fara með þennan rétt sinn, en gera má ráð fyrir að það verði sá aðili sem fer með einkarétt ríkisins og ber skyldur þess skv. 12. gr. frumvarpsins.
    Öðrum póstþjónustuaðilum, hvort sem þeir starfa við grunnpóstþjónustu eða ekki, er samkvæmt þessari grein heimilt að nota til álímingar svokallað gjaldmerki. Gjaldmerki hefur sambærilega verkun og frímerki þar sem það staðfestir áður en póstþjónusta er veitt að greitt hafi verið fyrir þjónustuna. Hugtakið gjaldmerki er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins.
    

Um VIII. kafla.

    Ákvæði VIII. kafla eiga við um póstþjónustu í víðtækri merkingu, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Þannig taka ákvæði kaflans til allrar póstþjónustu, hvort sem um er að ræða grunnpóstþjónustu, póstþjónustu bundna einkarétti eða aðra póstþjónustu.
    

Um 23. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og lögfest til að taka af öll tvímæli um það hverjum megi afhenda póstsendingu. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft.
    

Um 24. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 27. gr. gildandi póstlaga.
    

Um 25. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 12. gr. núgildandi póstlaga.

Um 26. gr.

    Greinin er efnislega samljóða 14. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 27. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 15. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 28. gr.

    Hliðstæð ákvæði eru í 16. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 29. gr.

    Ákvæði sambærileg við 1. mgr. er að finna í 18. og 24. gr. núgildandi laga. Hér er gert ráð fyrir að samgönguráðherra setji í reglugerð ákvæði um meðferð óskilapósts, þ.e. hvort og hvenær slíkur póstur skuli eyðilagður o.s.frv. Þá er einnig gert ráð fyrir að ráðherra setji ákvæði í reglugerð um sendingar sem bera það með sér að vera ógreiddar eða vangreiddar, þ.e. hvort og þá hvernig þeim skuli skilað til sendanda eða komið til viðtakanda o.s.frv.
    Sú staða getur komið upp að póstsending lendi fyrir mistök hjá öðrum póstþjónustuaðila en þeim sem ætlað var að annast þá sendingu og hefur fengið greitt fyrir þjónustuna. Líklegast má telja að slík tilfelli komi oftast upp þegar póstur er settur í póstkassa, án þess þó að gert hafi verið ráð fyrir því að sá aðili sem tæmir kassann skyldi annast sendinguna. Til að tryggja að sendingunni verði samt sem áður komið á leiðarenda mætti t.d. setja í reglugerð ákvæði um að sá sem annast meðferð sendingarinnar fái einhverja þóknun fyrir.
    

Um 30. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu skal eftir 1. janúar 1998 leggja á rekstrarleyfishafa sérstakt gjald, jöfnunargjald, til að fjármagna skyldubundna grunnpóstþjónustu þar sem slík þjónusta er óarðbær. Skal gjaldið lagt á í því skyni að tryggja að grunnpóstþjónustu verði sinnt í dreifbýli og annars staðar þar sem slík þjónusta mun augljóslega ekki skila arði. Er ákvæði þetta í samræmi við tilskipunartillögu ESB, sem gerir ráð fyrir að aðildarríki setji á fót jöfnunarsjóð ( compensation fund), en greiða skal úr sjóðnum til þeirra aðila sem inna af hendi óarðbæra skyldubundna grunnpóstþjónustu, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Skal jöfnunargjaldið innheimt í hlutfalli við bókfærða veltu af starfseminni.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds skal farið eftir ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Eru það því innheimtuaðilar ríkissjóðs sem innheimta gjaldið en þeir skulu standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í póstþjónustu, um útreikninga, álagningu o.fl.
    Gert er ráð fyrir því að kostnaður sem rekja má til ákvörðunar ráðherra skv. 14. gr. verði greiddur úr ríkissjóði, en að kostnaður af annarri óarðbærri en skyldubundinni grunnpóstþjónustu verði greiddur af leyfishöfum í gegnum jöfnunarsjóðinn.
    

Um 31. gr.

    Þegar Póst- og fjarskiptastofnun berst beiðni um fjárframlög skal stofnunin afla nákvæmra upplýsinga um tap af viðkomandi starfsemi og í hvaða þáttum tapið er fólgið. Í þessu sambandi getur stofnunin krafist upplýsinga frá viðkomandi rekstrarleyfishafa og um sundurgreiningu taprekstursins. Í ákveðnum tilvikum kann að reynast nauðsynlegt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa til að meta raunverulegt rekstrartap af starfseminni.
    Ef rekstrarleyfishafi nýtur fjárframlags samkvæmt þessum kafla laganna er gert ráð fyrir að sá þáttur starfseminnar geti lotið sérstöku eftirliti, ef þörf krefur. Í greininni er mælt fyrir um að jöfnunargjaldið skuli ekki ákveðið til lengri tíma en eins árs í senn, í þeim tilgangi að tryggja virkara eftirlit með slíkum fjárframlögum. Jafnframt er settur sá varnagli að endurskoða megi fjárframlög á tímabilinu að frumkvæði Póst- og fjarskiptastofnunar eða þess sem þiggur fjárframlög úr jöfnunarsjóðnum, ef forsendur hafa breyst.
    Gerð er krafa um bókhaldslegan aðskilnað þeirrar starfsemi sem nýtur fjárframlags samkvæmt þessum kafla frá annarri starfsemi rekstrarleyfishafa. Er ákvæðið í samræmi við grunnsjónarmið 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.
    Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun um fjárframlög samkvæmt ákvæði þessu.
    

Um 32. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 11. gr. núgildandi póstlaga. Samkvæmt þeim er meginreglan sú að ekki sé heimilt að veita upplýsingar um póstsendingar eða notkun póstþjónustu nema að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum. Sem dæmi um heimildir í öðrum lögum má nefna 45. gr. tollalaga, nr. 55/1987 og 94. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 9. gr. núgildandi póstlaga nema hvað gert er ráð fyrir að ákvæðið eigi við um alla þá sem starfa við hvers kyns póstþjónustu, sem launþegar eða verktakar, en núgildandi lagaákvæði tilgreinir einungis starfsmenn Póst- og símamálastofnunar.
    

Um 33. gr.

    Ákvæði 1. mgr. um undanþágur frá póstleynd er samhljóða 10. gr. núgildandi póstlaga.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli um að böggla frá útlöndum megi opna ef nauðsyn þykir til ákvörðunar aðflutningsgjalda. Hins vegar er áréttað að lokaðar bréfasendingar megi ekki opna til ákvörðunar slíkra gjalda, nema í viðurvist viðtakanda.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota og póstsendingar til látinna manna. Eru ákvæðin sett í samræmi við tilmæli umboðsmanns Alþingis, sbr. álit hans í máli nr. 365/1990, þar sem umboðsmaður lýsir þeirri skoðun sinni að þörf sé á að „endurskoða gildandi póstlög með það fyrir augum að setja skýrari ákvæði í lög um heimildir Póst- og símamálastofnunar til þess að afhenda póstsendingar öðrum en þeim, er utanáskrift segir til um, þar á meðal skiptaráðanda við gjaldþrot, eða til að setja slíkar reglur í reglugerð“. Í samræmi við nefnt álit umboðsmanns er lagt til í 3. mgr. að póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota megi afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, ef þær bera það með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Þykir ekki rétt að afhenda skiptastjórum bréf nema þau varði sýnilega fjárhagsmálefni þrotamanns, t.d. bréf sem bera það með sér að vera frá lánastofnunum o.s.frv., þar sem þrotabú tekur ekki við öðrum réttindum þrotamanns en fjárhagslegum, sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá má einnig benda á heimild skiptastjóra skv. 3. mgr. 82. gr. laganna til að fá kveðinn upp úrskurð um aðgang að gögnum búsins. Önnur bréf en þau sem varða fjárhagsmálefni þrotamanns, t.d. einkabréf, má því ekki afhenda skiptastjóra og nýtur þrotamaður vafans í þeim efnum. Sama regla gildir um opinber skipti látinna manna.
    Þegar félag, t.d. hlutafélag, er úrskurðað gjaldþrota er heimilt að afhenda skiptastjóra, eftir beiðni hans, allar póstsendingar sem berast hinu gjaldþrota félagi því að bréf sem berast skulu ópersónulegum aðilum teljast ekki einkabréf í fyrrgreindum skilningi.
    Þegar um einkaskipti dánarbúa er að ræða skulu hins vegar allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús, nema þær beri það með sér að vera einkabréf. Ástæða þess að forráðamaður fær öll önnur bréf en einkabréf er sú að forráðamaður er í flestum tilfellum tengdur hinum látna nánum böndum, líklega maki hans eða annar erfingi eða aðili sem ráðinn er af slíkum aðilum til að skipta búi hins látna. Þykir rétt að slíkir aðilar hafi víðtækari aðgang að pósti en skipaðir skiptastjórar. Er því gert ráð fyrir að þeir fái afhentan allan póst nema hann beri það sérstaklega með sér að vera einkabréf. Skal slík sending endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.
    Gert er ráð fyrir því að samgönguráðherra setji í reglugerð nánari reglur um póstleynd og opnun póstsendinga án dómsúrskurðar, þ.e. við hvaða aðstæður megi opna póstinn, hvað teljist einkabréf, hvaða bréf teljist sýnilega varða fjárhagsmálefni þrotamanns o.s.frv.
    

Um 34. gr.

    Í greininni eru ákvæði um gildissvið XI. kafla. Kaflinn fjallar fyrst og fremst um skaðabætur og takmörkun ábyrgðar og ákvæði hans eiga einungis við um grunnpóstþjónustu, en ekki aðra póstþjónustu, þar sem ekki þykja rök til þess að takmarka ábyrgð vegna slíkra almennra sendinga í lögum.
    

Um 35. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er sambærilegt við 28. gr. núgildandi laga. Þó er hér gert ráð fyrir að póstrekandi geti tekið á sig ábyrgð á glötuðum almennum bréfapóstsendingum í viðskiptaskilmálum sínum. Í 2. mgr. er nýmæli um að póstrekanda sé óskylt að greiða skaðabætur þegar póstsendingum seinkar, hver svo sem orsökin kann að vera. Rökin fyrir þessu ákvæði eru þau sömu og fyrir ábyrgðartakmörkun skv. 1. mgr. Er ákvæði þessa efnis að finna í póstreglugerð, nr. 161/1990, en rétt þykir að lögfesta ábyrgðartakmörkunina.
    

Um 36. gr.

    Greinin er efnislega samljóða 29. gr. núgildandi laga. Þó er gert ráð fyrir þeirri breytingu að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um hámark ábyrgðar en nú er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði hámarkið í gjaldskrá. Er það í samræmi við breytingar sem fyrirhugað er að verði á yfirstjórn póstmála.
    

Um 37. gr.

    Greinin er samhljóða 30. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 38. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 31. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 39. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 32. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 40. gr.

    Greinin er samhljóða 33. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 41. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 34. gr. núgildandi póstlaga. Samkvæmt henni er unnt að beina kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar sem getur þá mælt fyrir um að vikið skuli frá ákvæðum þessa kafla um takmörkun ábyrgðar, þannig að greiddar skuli bætur, t.d. samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Sem dæmi þar um er nefnt ef tjóni er valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans, en fleiri tilvik geta komið til.

Um 42. gr.

    Greinin er samhljóða 35. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 43. gr.

    Greinin er samljóða 37. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 44. gr.

    Grein þessi er nýmæli, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti mælt fyrir um að póstrekendur taki þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála. Skylda til slíkrar starfsemi getur verið eitt af skilyrðum fyrir rekstrarleyfi, sbr. 13. gr. frumvarpsins.
    

Um 45. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvæði um viðurlög vegna brota gegn öðrum ákvæðum frumvarpsins verði einfölduð frá núgildandi lögum. Þannig er gert ráð fyrir því að brot gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum en að gáleysisbrot varði einungis sektum. Sé brot gegn póstleynd hins vegar framið í ávinningsskyni má refsa með fangelsi allt að þremur árum.

Um 46. gr.

    Samhljóða ákvæði er í 38. gr. núgildandi póstlaga.
    

Um 47. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um póstþjónustu.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um fjarskipti og frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun í kjölfar stofnunar hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar um næstu áramót. Í frumvarpinu er lagt til að í lögum um póstþjónustu verði samgönguráðherra heimilað að fela einkaaðilum að annast póstþjónustu sem ríkið hefur eitt veitt hingað til.
    Í 4. gr. frumvarpsins skuldbindur íslenska ríkið sig til að tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu á tilteknum sendingartegundum en einkaréttur ríkisins til almennrar póstmeðferðar er skilgreindur í 6. gr. frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu getur ríkið veitt einkaaðilum leyfi til að fara með einkarétt sinn og skyldur samkvæmt rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun. Í leyfinu skal tilgreint til hvaða þátta grunnpóstþjónustu leyfið nær og þær kvaðir og skilyrði sem leyfinu fylgja. Kveðið er á um skilyrði fyrir leyfisveitingu í 13. gr. frumvarpsins. Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga til að fjármagna skyldubundna grunnpóstþjónustu á svæðum og þjónustusviðum þar sem slík þjónusta er óarðbær, t.d. vegna strjálbýlis, skal innheimta jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar. Ber leyfishöfum að aðskilja hinn óarðbæra þátt starfseminnar bókhaldslega frá annarri starfsemi.
    Samkvæmt 14. gr. frumvarpsins er samgönguráðherra heimilt að mæla fyrir um að rekstrarleyfishafar annist almenna póstmeðferð utanáritaðra dagblaða, vikublaða og tímarita á Íslandi samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi að öðru leyti. Gert er ráð fyrir því að kostnaður vegna þessa verði greiddur með framlagi úr ríkissjóði eftir sem ákveðið er í fjárlögum. Nú eru póstburðargjöld innritaðra blaða og tímarita greidd eftir sérstakri verðskrá en stjórnmálaflokkar og samtök fá aukinn 50% afslátt og 25% afsláttur er veittur frá verðskrá af menningar- og trúmálaefni. Samkvæmt lauslegri áætlun Póst- og símamálastofnunar nema þessar niðurgreiðslur nú allt að 400 m.kr. á ári.
Neðanmálsgrein: 1
„Proposal for a European Parliament and Council directive on common rules for the development of Community postal service and the improvement of quality of service.“ (95/C 322/10.)
Neðanmálsgrein: 2
„Draft notice from the Commission on the application of the competition rules to the postal sector and in particular on the assessments of certain State measures relating to postal services.“ (95/C 322/03.)