Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 183 . mál.


204. Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum).

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI

Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
3.    Fyrir brot gegn 264. gr., framið innan íslenska ríkisins enda þótt frumbrotið sem ávinningur stafar frá hafi verið framið erlendis og án tillits til hver var að því valdur.


2. gr.

    Við 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. laganna bætist: eða muni sem keyptir eru fyrir ávinninginn. Ef ekki er unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings er dómara heimilt að áætla fjárhæðina.

3. gr.

    173. gr. b laganna fellur brott.

4. gr.

    Ný 264. gr. laganna færist í XXVII. kafla og verður svohljóðandi:
    Hver sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið varðhald eða fangelsi allt að 4 árum.
    Refsing getur orðið fangelsi allt að 10 árum ef um ræðir ávinning af broti skv. 173. gr. a.
    Ef ávinningur er smávægilegur og engin sérstök atvik auka saknæmi brotsins skal mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist.
    Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða varðhaldi. Varði brotið sem ávinningur stafar frá ekki þyngri refsingu en varðhaldi má láta refsingu falla niður.

II. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969.
5. gr.

    Við 1. mgr. 33. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Meðferð ávinnings af brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir 264. gr. almennra hegningarlaga. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.


III. KAFLI
Breyting á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65 21. maí 1974.
6. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna bætist við ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
    Inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla og varsla tækja, hluta eða efna til notkunar við ólöglega ræktun, framleiðslu eða tilbúning ávana- og fíkniefna er bönnuð.
    Ráðherra er heimilt að tilgreina nánar í reglugerð hvaða efni falla undir 1. mgr. og sérstaklega mikil hætta er talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
    2. mgr. verður svohljóðandi:
                  Meðferð ávinnings af brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir 264. gr. almennra hegningarlaga.
    7. og 8. mgr. verða svohljóðandi:
                  Heimilt er að gera upptækt til ríkissjóðs andvirði ólögmætrar sölu efna sem lögin taka til. Það sama gildir um ávinning af öðrum brotum á lögum þessum, fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings og muni sem eru keyptir eru fyrir ávinninginn. Ef ekki er unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings er dómara heimilt að áætla fjárhæðina. Þá skal og heimilt að gera upptæka hvers konar muni sem notaðir hafa verið eða ætlaðir eru til ólögmætrar meðferðar efna sem lögin taka til.
                  Ítrekuð brot gegn lögum þessum skulu varða aukinni refsingu, enda sé um að ræða innflutning eða dreifingu þeirra efna sem um getur í 2.–4. gr. a.
    

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55 30. mars 1987.
8. gr.

    Við 125. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Meðferð ávinnings af brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir 264. gr. almennra hegningarlaga.

V. KAFLI
Breyting á lögum um alþjóðlega samvinnu
um fullnustu refsidóma, nr. 56 19. maí 1993.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar fullnusta fer fram á beiðni um eignaupptöku samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 gilda ákvæði I. og IV. kafla 2. hluta laga og I. og IV. kafla 3. hluta laga þessara eftir því sem við getur átt.
                  Þegar fullnusta fer fram á beiðni um eignaupptöku samkvæmt samningi um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990 gilda ákvæði I. og IV. kafla 2. hluta og I. og IV. kafla 3. hluta laga þessara eftir því sem við getur átt.
    Í stað orðanna „1. eða 2. mgr.“ í 3. mgr. sem verður 5. mgr. kemur: 1.–4. mgr.
    Í stað orðanna „1. eða 2. mgr.“ í 4. mgr. sem verður 6. mgr. kemur: 1.–4. mgr.

10. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 2. gr.“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 6. mgr. 2. gr.

11. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 2. gr.“ í 26. gr. laganna kemur: 6. mgr. 2. gr.

12. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 2. gr.“ í 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: 6. mgr. 2. gr.

VI. KAFLI

Breytingar á lyfjalögum, nr. 93 20 maí 1994.

13. gr.

    Við 2. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Meðferð ávinnings af brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir 264. gr. almennra hegningarlaga.


VII. KAFLI
Gildistaka.
14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að Ísland geti fullgilt tvo alþjóðasamninga á sviði refsiréttar. Þetta eru samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 (hér eftir nefndur fíkniefnasamningurinn) og samningur um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, gerður á vettvangi Evrópuráðsins (hér eftir nefndur þvættissamningurinn). Fylgir íslensk þýðing samninganna tveggja hér á eftir sem fylgiskjöl I og II.
    Þau lög, sem nauðsynlegt er að laga að ákvæðum samninganna áður en unnt er að fullgilda þá og frumvarp þetta ráðgerir breytingar á, eru almenn hegningarlög, nr. 19/1940 varðandi ákvæði um þvætti og eignaupptöku, lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, varðandi skilgreiningu á fíkniefnabroti og um eignaupptöku og lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, varðandi meðferð erlendra beiðna um aðgerðir samkvæmt samningunum. Við gerð frumvarpsins var einnig tekið mið af tillögum verkefnisstjórnar sem dómsmálaráðherra skipaði í janúar 1996 vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum, en tillögur verkefnisstjórnarinnar um breytingar á almennum hegningarlögum birtust í lokaskýrslu hennar frá júní 1996.
    Loks eru gerðar tillögur um breytingar á þrennum sérrefsilögum, áfengislögum, nr. 82/1969, tollalögum, nr. 55/1987, og lyfjalögum, nr. 93/1994, í því augnamiði að gera refsivert þvætti ávinnings af brotum á þessum lögum.
    Markmið fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins eru að ýmsu leyti sambærileg. Á undanförnum árum hefur þróun í alþjóðlegri samvinnu til að sporna við glæpastarfsemi einkennst af aðgerðum gegn peningaþvætti, þ.e. að hægt verði að ná til og gera upptækan ágóða af afbrotum og að þeir sem fremja brotin eða aðrir geti ekki leynt, komið undan eða notið ávinningsins af þeim.
    Helsta markmið samninganna tveggja er þannig að uppræta aðalhvatann að afbrotum og glæpastarfsemi, ávinninginn sem fæst með brotunum. Samningarnir leggja þá skyldu á aðildarríki að gera þvætti ávinnings af afbrotum skýrlega refsivert brot í landslöggjöf sinni og að lagaheimildir séu til upptöku á slíkum ávinningi eða verðmætum sem ávinningnum hefur verið umbreytt í. Einnig gera samningarnir ráð fyrir víðtækri samvinnu milli aðildarríkjanna á þessu sviði, sérstaklega í tengslum við rannsóknaraðgerðir, svo sem leit og haldlagningu, svo og eignaupptöku á ávinningi af afbrotum. Á meðan ákvæði þvættissamnings Evrópuráðsins ná jafnt til ávinnings af öllum afbrotum ná ákvæði fíkniefnasamningsins sem fjalla um þvætti aðeins til ávinnings af fíkniefnabrotum. Efni fíkniefnasamningsins er hins vegar víðtækara þar sem hann skilgreinir fíkniefnabrot ítarlega og mælir fyrir um skyldu aðildarríkja til að gera slík brot refsiverð samkvæmt landslöggjöf sinni.
    Í ljósi þess að efni fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins er nátengt er hagkvæmt að nauðsynlegar lagabreytingar vegna aðildar að þeim verði gerðar í einu lagi eins og stefnt er að með frumvarpi þessu.

II. Efni fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins.

    Þótt fíkniefnasamningurinn og þvættissamningurinn kalli ekki á umfangsmeiri breytingar á íslenskri löggjöf en lagðar eru til í frumvarpinu er til hagræðingar, samhengisins vegna, vert að gefa yfirlit yfir efni þeirra í heild sinni. Hér á eftir verður rakið efni samninganna tveggja í stórum dráttum, með sérstakri áherslu á þau ákvæði þeirra sem breytingar samkvæmt frumvarpinu grundvallast á.

1. Fíkniefnasamningurinn.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 19. desember 1988 er gerður í kjölfar tveggja eldri samninga Sameinuðu þjóðanna á sviði fíkniefnamála. Þetta eru samningur um fíkniefni frá 30. mars 1961 og samningur um skynvilluefni frá 21. febrúar 1971. Ísland er aðili að báðum þessum samningum og eru þeir birtir með auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 22 og 23/1974. Markmið samninganna frá 1961 og 1971 er að skilgreina og flokka hvaða efni teljast vera fíkniefni annars vegar og skynvilluefni hins vegar og setja reglur um alþjóðlegt eftirlit með þessum efnum. Með fíkniefnasamningnum frá 1988 er hins vegar stefnt að því að berjast gegn fíkniefnabrotum og fíkniefnaverslun, bæði með hertri refsilöggjöf aðildarríkja og alþjóðlegri samvinnu.
    Á eftir inngangsákvæðum fíkniefnasamningins í 1. og 2. gr., þar sem lýst er hugtökum og gildissviði samningsins, birtist kjarnaákvæði hans í 3. gr. sem fjallar um afbrot og viðurlög. Þar kemur fram skilgreining á fíkniefnabrotum og þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum sem aðildarríkjum er skylt að gera refsiverð í landslöggjöf sinni. Á þessum skilgreiningum byggja öll eftirfarandi ákvæði samningsins þar sem rætt er um fíkniefnabrot.
    Við skilgreiningu á fíkniefnabroti í (a)-lið 1. mgr. 3. gr. er vísað til efna sem talin eru í fyrri samningum Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði frá 1961 og 1971. Er því einnig ítarlega lýst hvers kyns meðferð fíkniefna ber að gera refsiverða. Samningurinn vísar ekki einvörðungu til eldri samninga um hvaða efni teljast vera fíkni- eða skynvilluefni, heldur tiltekur einnig nýjan flokk efna svo og hluti og tæki sem aðildarríkjum ber að banna og gera meðferð á refsiverða við ákveðnar aðstæður. Er aðildarríkjum þannig skylt að gera refsiverða meðferð tækja, hluta eða efna sem talin eru í skrá I og II við samninginn ef sannað er að þau eigi að nota til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna. Í áðurgreindum skrám eru síðan talin efni sem teljast ekki öll sem slík beinlínis til fíkniefna eða skynvilluefna og heyra því undir hvorugan fyrri samning Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði. Einkenni þessara efna er hins vegar að þau eru veigamikill liður í framleiðslu fíkniefna og skynvilluefna, og eru annaðhvort hefðbundin lyfjaefni sem algengt er að séu notuð við framleiðslu á fíkniefnum eða tæknileg hjálparefni við framleiðslu þeirra.
    Í (b)- og (c)-lið 1. mgr. 3. gr. eru skilgreind þvættisbrot og er aðildarríkjum skylt að gera þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum refsiverðan verknað í landslöggjöf sinni. Verknaðarlýsing á þvætti er eftirfarandi:
—    Að afla annarra verðmæta í stað eignar eða afsala eign í þeirri vitneskju að hún sé leidd af fíkniefnabroti í þeim tilgangi að fela eða dylja að eignin var ólöglega tilkomin eða til að aðstoða hvern þann mann sem á hlut að slíku broti við að komast hjá afleiðingum gerða sinna að lögum.
—    Að fela eða dylja raunverulegt eðli eignar, tilurð hennar, staðsetningu, ráðstöfun, flutning, réttindi er tengjast henni eða eignarrétt að henni í þeirri vitneskju að hún sé leidd af fíkniefnabroti eða af hlutdeild í slíku broti.
—    Að afla eignar eða hafa vörslur hennar eða afnot í þeirri vitneskju þegar við henni var tekið að hún er ávinningur.
—    Að eiga hlutdeild í, sammælast um eða leggja á ráðin um, gera tilraun til, veita hjálp eða aðstoða við, auðvelda eða veita ráð til að fremja hvort heldur fíkniefnabrot eða brot sem felst í þvætti á ávinningi af fíkniefnabroti.
    Framangreind skilgreining á þvættisbrotum hefur orðið fyrirmynd annarra alþjóðlegra samninga og gerða sem fjalla um þvættisbrot. Má í því sambandi sérstaklega nefna þvættissamninginn og tilskipun Evrópubandalagsins nr. 91/308 um ráðstafanir gegn því að að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar.
    Reglur um refsilögsögu eru í 4. gr. samningsins. Þar eru taldar ráðstafanir sem aðildarríkjum er annaðhvort skylt eða heimilt að gera til þess að fella undir refsilögsögu sína brot sem eru lýst refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. samningsins.
    Mikilvægt ákvæði fíkniefnasamningsins er 5. gr. sem gerir aðildarríkjum skylt að setja í löggjöf sína heimildir til að gera fíkniefni, efni og tæki sem eru notuð til fíkniefnaframleiðslu og ávinning fíkniefnabrota upptækan, eða verðmæti sem koma í stað ávinnings. Þar er einnig mælt fyrir um alþjóðlega samvinnu um upptöku ávinnings af fíkniefnabrotum. Samkvæmt ákvæðinu geta ríki þar sem fíkniefnabrot er framið lagt fram beiðni í öðru aðildarríki um upptöku ávinnings af brotinu sem hægt er að rekja þangað. Um framkvæmd eignaupptökunnar og undanfarandi aðgerða, svo sem haldlagningar, fer eftir ákvæðum réttarfarslaga í því ríki sem beiðnin er send til.
    Næstu ákvæði samningsins í 6.–8. gr. fjalla frekar um alþjóðlega samvinnu aðildarríkja varðandi einstaka fíkniefnabrot. Þar birtast m.a. reglur um framsal á mönnum sem framið hafa eða eru grunaðir um að hafa framið fíkniefnabrot, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, rannsóknaraðgerðir að beiðni annars aðildarríkis svo og um flutning málsmeðferðar milli aðildarríkja til saksóknar vegna fíkniefnabrota. Ekki er þó kveðið á um afdráttarlausa skyldu aðildarríkja til að flytja málsmeðferð, heldur mælst til að þau athugi möguleika á flutningi málsmeðferðar í einstaka tilvikum ef talið er að það þjóni betur réttarvörsluhagsmunum.
    Í 9.–11. gr. samningsins eru almenn ákvæði um leiðir til þess að efla eftirlit með fíkniefnabrotum, m.a. um samvinnu og samræmingu milli lögregluyfirvalda í aðildarríkjum, eflingu þjálfunar lögreglu- og tollgæslumanna og að aðildarríki aðstoði gegnumflutningsríki, einkum þróunarlönd, til þess að auka eftirlit og uppræta flutning fíkniefna yfir landsvæði þeirra.
    Í 12.–14. gr. samningsins eru ítarleg ákvæði um eftirlit með milliríkjaverslun með efnin sem talin eru í skrám I og II með samningnum og að aðilar skuli hindra verslun með tæki og búnað sem notaður er til framleiðslu á fíkniefnum og skynvilluefnum. Einnig er fjallað um aðgerðir til að uppræta ólöglega ræktun fíkniefna og eftispurn eftir þeim.
    Í 15. og 16. gr. er fjallað um eftirlit með flytjendum í atvinnurekstri og ákveðnar kröfur gerðar til flutningsskjala á löglegum útflutningssendingum fíkniefna og skynvilluefna.
    Í 17. gr. er mikilvægt ákvæði um ólöglega verslun sjóleiðis og aðgerðir sem hægt er að grípa til gagnvart skipum þar sem grunur leikur á að stunduð sé ólögleg fíkniefnaverslun. Á grundvelli 17. gr. var gerður sérstakur samningur á vegum Evrópuráðsins 31. janúar 1995 með ítarlegri útfærslu á efni hennar um við hvaða aðstæður megi grípa til aðgerða og þá hvaða aðgerða gagnvart skipum til að uppræta ólöglega fíkniefnaverslun.
    Síðustu efnisákvæði samningsins eru ákvæði 18. og 19. gr. um eftirlit með flutningi á fíkniefnum og skynvilluefnum á fríverslunarsvæðum og um notkun póstþjónustunnar og í 20. gr. er lýst upplýsingaskyldu aðildarríkja um framkvæmd samningsins. Að lokum fjalla 21.–24. gr. samningsins um störf alþjóðlegra eftirlitsnefnda með framkvæmd samningsins og lokaákvæði um aðild, gildistöku o.fl. eru í 25.–34. gr. samningsins.

2. Þvættissamningurinn.
    Samningurinn um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990 er meðal nýjustu alþjóðasamninga sem gerðir hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins á sviði refsiréttar og réttarfars. Þvættissamningurinn sækir fyrirmynd sína að hluta til ákvæða fíkniefnasamningsins, einkum þeirra sem skilgreina þvættisbrot og skyldu aðildarríkja til að gera upptækan ávinning af afbrotum eða jafnvirði slíks ávinnings. Þvættissamningurinn geymir hins vegar mun ítarlegri reglur um alþjóðlega samvinnu og málsmeðferð með svipuðum hætti og í þeim Evrópusamningum sem þegar hafa verið gerðir á þessu sviði. Eru ákvæði um alþjóðlega samvinnu og málsmeðferð einkum felld að ákvæðum samnings Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970 sem Ísland er aðili að.
    Efni samningsins skiptist í fjóra meginkafla. Í I. kafla samningsins með 1. gr. hans er lýst nokkrum undirstöðuhugtökum sem samningurinn byggir á. Í II. kafla er fjallað um ráðstafanir sem aðildarríkjum er skylt að tryggja í innanlandslöggjöf sinni. Kjarnaákvæði í þessum kafla eru 2. og 6. gr. um eignaupptöku og þvættisbrot. Skilgreiningar sem birtast í þessum ákvæðum eru nánast orðrétt samhljóða ákvæðum fíkniefnasamningsins um sama efni enda gerðar að fyrirmynd síðarnefnda samningins. Í 2. gr. kemur fram að aðildarríkjum er skylt að gera ráðstafanir svo að unnt sé að gera upptæk tæki sem notuð eru til að fremja afbrot og ávinning af afbrotum eða eignir sem samsvara þeim ávinningi.
    Í 3.–5. gr. samningsins er fjallað um skyldu aðildaríkja til heimila með löggjöf ákveðnar rannsóknaraðgerðir í tengslum við rannsókn þvættisbrota til að greina og finna eignir sem heimilt er að gera upptækar skv. 2. gr. Meðal rannsóknaraðgerða sem skylt er að heimila í þessum tilgangi eru leit og haldlagning.
    Samkvæmt 6. gr. samningsins um þvættisbrot er aðildarríkjum skylt að gera slík brot refsiverð samkvæmt landslögum. Eins og áður sagði er verknaðarlýsing á þvættisbroti sambærileg við verknaðarlýsingu fíkniefnasamningsins að öðru leyti en því að í 6. gr. er rætt um þvætti ávinnings af öllum afbrotum, en ekki aðeins fíkniefnabrotum. Í 3. mgr. 6. gr. er tekið fram að aðildarríki geti gert refsiverð þvættisbrot sem framin eru af gáleysi en það er þó ekki fortakslaus samningsskylda.
    Efnismesti hluti þvættisamningsins er III. kafli hans, 7.–35. gr., og skiptist hann niður í sjö þætti. Í kaflanum er fjallað um alþjóðlega samvinnu og skyldu aðildarríkja, þar sem ávinningur af broti finnst, til að grípa til rannsóknaraðgerða og eignaupptöku að beiðni annars aðildarríkis þar sem rannsókn fer fram og loks eru ákvæði um málsmeðferð. Á eftir 1. þætti með almennum meginreglum um alþjóðlega samvinnu er í 2. þætti lýst skyldu aðildarríkja til rannsóknaraðstoðar hvert við annað. Skyldu aðildarríkja til bráðabirgðaráðstafana, svo sem kyrrsetningar og haldlagningar, svo og um upptöku eigna að beiðni annars aðildarríkis, er lýst í 3. og 4. þætti. Heimildir aðildarríkis til að synja um samvinnu samkvæmt samningnum eða fresta henni eru í 5. þætti og um tilkynningar um réttindi þriðja manns í eign og um vernd slíkra réttinda er fjallað í 6. þætti. Loks eru ítarlegar reglur um réttarfar, þar með talið um form og efni beiðna um aðgerðir samkvæmt samningnum og meðferð þeirra, í 7. þætti samningins. Þar kemur fram í 23. gr. að aðilum er skylt að tilnefna miðstjórnvald sem annast öll samskipti við önnur aðildarríki um beiðnir og um meðferð beiðna.
    Í IV. kafla samningins eru lokaákvæði um gildistöku, aðild, fyrirvara o.fl.

3. Aðildarríki að fíkniefnasamningnum og þvættissamningnum.
    Aðildarríki að fíkniefnasamningnum voru 133 miðað við 24. júní 1996. Ísland er nú eitt örfárra ríkja á Vesturlöndum sem ekki hafa fullgilt samninginn. Er mikilvægt að fíkniefnasamningurinn verði fullgiltur af Íslands hálfu sem fyrst, ekki síst vegna þess að fíkniefnasamningurinn er mikilvægur grundvöllur fyrir vaxandi Evrópusamvinnu um varnir gegn fíkniefnabrotum.
    Níu aðildarríki Evrópuráðsins hafa fullgilt þvættissamninginn miðað við 1. september 1996. Þetta eru Bretland, Búlgaría, Finnland, Ítalía, Litáen, Holland, Noregur, Svíþjóð og Sviss. Búist er við að tvö ríki fullgildi samninginn fljótlega og undirbúningur fyrir fullgildingu er langt kominn í 4–5 ríkjum til viðbótar. Danmörk er meðal þeirra ríkja sem væntanlega munu fullgilda samninginn fljótlega, enda hafa lagabreytingar vegna aðildar að samningum nýlega verið samþykktar. Þess má geta að aðild að samningnum stendur öllum ríkjum til boða en ekki aðeins aðildarríkjum Evrópuráðsins.

III. Íslensk löggjöf á sviði samninganna.


1. Löggjöf um peningaþvætti.
    Hugtakið peningaþvætti er tiltölulega nýtt í íslenskri löggjöf og var framan af óljóst hvernig bæri að þýða enska orðið „money laundering“. Hefur verið fallist á að nýyrðið „peningaþvætti“ lýsi best inntaki þessa erlenda hugtaks sem átti sér enga skýra samsvörun á sviði íslensks refsiréttar og þótti t.d. hugtakið „hylming“ of þröngt til að þjóna þessu hlutverki þótt það sé mjög eðlisskylt. Samkvæmt skilgreiningu á hylmingu í íslenskum refsirétti er það skilyrði að ávinningur stafi frá auðgunarbroti.
    Á síðustu árum hefur íslenskri refsilöggjöf verið breytt nokkuð til þess að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um að peningaþvætti verði gert refsivert. Miklvægasti hvati að slíkum breytingum var tilskipun ráðs Evrópubandalagsins nr. 91/308 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar. Tilskipunin öðlaðist gildi 1. janúar 1993. Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði var Ísland skuldbundið til þess að hafa lagað löggjöf sína að tilskipuninni við gildistöku EES-samningsins. Markmið áðurgreindrar tilskipunar EB er aðallega að samræma aðgerðir aðildarríkjanna til að reyna að hindra að fjármálastofnanir verði notaðar til þvættis á ágóða af brotastarfsemi og að aukið frelsi í fjármagnsflutningum og fjármálaþjónustu verði notað til peningaþvættis. Að auki er ófrávíkjanleg krafa að aðildarríki geri refsivert þvætti á ávinningi af fíkniefnabrotum en það er ekki jafn fortakslaust skuldbundið til að setja refsiákvæði um þvætti ávinnings af öðrum brotum.
    Tilskipun EB nr. 91/308 kallaði á tvenns konar breytingar á íslenskri löggjöf. Annars vegar voru sett lög, nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti til þess að hindra misnotkun á fjármálastofnunum til peningaþvættis og að þær haldi uppi ákveðnu eftirliti til þess að fylgjast með og koma upp um peningaþvætti. Hins vegar var með lögum nr. 39/1993 bætt við almenn hegningarlög nýju ákvæði, 173. gr. b, sem gerir þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum refsiverðan verknað. Sambærileg breyting var gerð með lögum nr. 49/1993 sem bættu nýrri 2. mgr. við 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt þessum nýju ákvæðum er nú refsivert að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af fíkniefnabrotum, svo og að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoða við afhendingu hans eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíku broti.
    Um þvætti ávinnings af öðrum brotum en fíkniefnabrotum eru ekki eins skýr ákvæði í íslenskri löggjöf. Ákvæði 22. gr. almennu hegningarlaganna um hlutdeild nær að nokkru leyti til þvættisbrota. Í 4. mgr. þeirra greinar er gerð refsiverð eftirfarandi hlutdeild sem felst í því að veita brotamanni eða öðrum, eftir að brot er fullframið, liðsinni til þess að halda við ólögmætum afleiðingum brots eða njóta hagnaðar af því. Ákvæði þetta áskilur þó að sá sem veitir liðsinni til að koma undan ávinningi njóti sjálfur hagnaðar af því, en það er þrengri verknaðarlýsing en kemur fram í 6. gr. þvættissamningsins. Að auki yrði ekki unnt að refsa fyrir tilraun eða hlutdeild í þvættisbroti eins og krafist er í þvættissamningnum á þessum grundvelli, þar sem brot skv. 4. mgr. 22. gr. getur ekki verið sjálfstætt brot heldur er órjúfanlega tengt öðru broti.
    Í 254. gr. almennu hegningarlaganna er sérrefsiákvæði um hylmingu í tengslum við auðgunarbrot og um áhrif ítrekunar á auðgunarbrotum og hylmingu í tengslum við slík brot er fjallað í 255. gr. Í 263. gr. laganna er síðan kveðið á um refsingu fyrir hylmingu af gáleysi í tengslum við auðgunarbrot.

2. Eignaupptaka.
    Almenn heimild til eignaupptöku er í 69. gr. almennu hegningarlaganna en skv. 3. tölul. 1. mgr. hennar er heimilt að gera upptæka með dómi muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, og enginn á löglegt tilkall til eða fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings.
    Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna er heimilt að gera upptæk til ríkissjóðs efni þau sem lögin taka til og aflað hefur verið á ólögmætan hátt eða eru á annan hátt í ólögmætri vörslu. Í 7. mgr. sömu greinar er veitt heimild til að gera upptækt andvirði ólögmætrar sölu efna sem lögin taka til, svo og hvers konar muni sem notaðir hafa verið eða ætlaðir eru til ólögmætrar meðferðar efnanna.
    Þegar litið er til skuldbindinga fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins varðandi heimildir til eignaupptöku virðist 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. hegningarlaganna uppfylla þau skilyrði sem þar eru sett. Með heimild til upptöku ávinnings af brotum, svo og jafnvirðisupptöku á fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings eru uppfyllt skilyrði samninganna um að hægt sé að gera upptækar eignir sem samsvara ávinningi af brotum. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig af dómstólum að ekki sé aðeins unnt að gera upptæka fjárhæð sem samsvarar ávinningum heldur einnig muni, t.d. bifreið, sem ávinningur af broti hefur sannanlega runnið til kaupa á.
    Sérreglan um upptöku ávinnings af fíkniefnabrotum skv. 7. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna er aftur á móti takmörkuð við andvirði ólögmætrar sölu efna sem lögin taka til auk þess sem hún kveður ekki skýrlega á um heimild til jafnvirðisupptöku. Þannig tekur ákvæðið ekki til upptöku ávinnings af öðrum brotum á lögunum en sölu efna, svo sem ávinnings sem fæst fyrir aðstoð við að flytja, dreifa eða geyma ávana- eða fíkniefni. Þegar um jafnvirðisupptöku ávinnings af fíkniefnabroti er að ræða, t.d. upptöku muna sem keyptir hafa verið fyrir ávinning af fíkniefnabroti hafa dómstólar þannig beitt 7. mgr. 5. gr. ásamt almennu heimildinni í 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. almennu hegningarlaganna.
    Við ákvörðun dómstóla um upptöku ávinnings af brotum hefur oft reynst vandasamt í framkvæmd að leggja fram gögn um nákvæma fjárhæð ávinnings af broti. Þótt ljóst sé að brotamaður hafi hagnast á broti hafa dómstólar ekki talið sér heimilt að áætla fjárhæðina þegar ekki er unnt að ákveða hana samkvæmt sönnunargögnum í málinu. Við þessar aðstæður koma upptökuákvæðin í núgildandi lögum því ekki að tilætluðum notum.

3. Skilgreining á fíkniefnabroti.
    
Skilgreiningar á fíkniefnabrotum eru í 2. og 3. gr. ávana- og fíkniefnalaganna frá 1974. Eru ávana- og fíkniefni sem falla undir 2. gr. með öllu bönnuð á íslensku yfirráðasvæði nema sérstakt leyfi ráðherra komi til. Í 3. gr. eru settar takmarkanir við því að efni þau eða lyf sem þar greinir verði notuð í öðru skyni en í læknisfræðilegum eða vísindalegum tilgangi. Eru inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla efna samkvæmt báðum þessum ákvæðum bönnuð. Í 6. gr. laganna eru talin efni sem falla undir 2. gr. Í 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. er ráðherra síðan veitt heimild til ákveða nánar talningu á efnum sem falla undir ákvæðin. Í reglugerð nr. 16/1986, með síðari breytingum, eru þessi efni talin.
    Greinamörk 2. og 3. gr. eru að verulegu leyti reist á flokkun alþjóðasamninganna tveggja frá 1961 og 1971. Þannig er í 2. gr. skírskotað til efna sem talin eru í samningnum um fíkniefni frá 1961 og í 3. gr. til samningsins um skynvilluefni frá 1971. Hugtakið ávana- og fíkniefni er hins vegar safnheiti í íslensku lögunum og almennt notað jöfnum höndum um fíkniefni og skynvilluefni samkvæmt samningunum.
    Í 4. gr. laganna er öryggisákvæði sem kveður á um að 2. og 3. gr. gildi einnig um hráefni sem unnt er að vinna úr eða breyta í ávana- og fíkniefni. Hefur þessu ákvæði einkum verið beitt um vörslu, ræktun eða aðra meðferð plantna sem unnt er að vinna ávana- og fíkniefni úr.
    Í 173. gr. a almennra hegningarlaga er lögð refsing við alvarlegri brotum á ávana- og fíkniefnalögunum, svo sem ef verknaður felst í því að láta mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni, afhenda þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt.
    Beina heimild skortir í ávana- og fíkniefnalögin til þess að refsa mönnum fyrir vörslu og meðferð tækja, hluta eða efna sem skráð eru í skrá I og II við fíkniefnasamninginn frá 1988 í þeirri vitneskju að þau skuli notuð til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna. Efnin, sem talin eru á áðurgreindum skrám, eru ekki talin upp í reglugerð á grundvelli ávana- og fíkniefnalaganna í flokki efna sem óheimil eru samkvæmt lögunum.

4. Heimildir til eignaupptöku og rannsóknaraðgerða hér á landi samkvæmt erlendri beiðni á grundvelli samninganna.
    Í lögum nr. 56/1993 um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma eru ítarleg ákvæði um fullnustu erlendra viðurlagaákvarðana, einkum á grundvelli Evrópusamnings um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 1970, svo og á grundvelli Evrópusamnings um flutning dæmdra manna frá 1983.
    Þrátt fyrir að lögin séu sett í tilefni af framangreindum Evrópusamningum er unnt skv. 1. gr. laganna, samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki og með heimild í lögunum, að fullnægja hér á landi ákveðnum viðurlagaákvörðunum sem teknar eru í öðru ríki, svo sem upptöku eigna. Í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en framangreindum tveimur Evrópusamningum ákveði dómsmálaráðuneytið hvernig fari um könnun þess hvort fullnægja megi erlendum viðurlagaákvörðunum hér á landi.
    Samkvæmt 26. gr. laganna getur dómsmálaráðherra á grundvelli samkomulags við annað ríki ákveðið hvernig ákvæðum I. og IV. kafla í 2. hluta laganna skuli beitt í samskiptum Íslands og hlutaðeigandi ríkis enda þótt í slíkri ákvörðun felist frávik frá ákvæðum þessara kafla laganna. I. kafli 2. hluta laganna fjallar um fullnustu dóma sem fullnægja má samkvæmt Evrópusamningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma. Í þessum kafla eru reglur um hvernig skuli fara með beiðni erlendis frá um eignaupptöku hér á landi. IV. kafli 2. hluta laganna geymir sameiginleg ákvæði um framkvæmd erlendra beiðna.
    Eins og sjá má af lýsingu framangreindra lagaákvæða er töluvert svigrúm til þess að framfylgja erlendri beiðni um eignaupptöku á grundvelli laganna án þess að til breytinga á þeim þurfi að koma.
    Hvað varðar beiðni samningsaðila um leit og haldlagningu til undirbúnings eignaupptöku hér á landi, heimilar 1. mgr. 78. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, haldlagningu ef ætla má að hlutir kunni að verða gerðir upptækir. Ef lagaheimild er fyrir eignaupptöku samkvæmt erlendri beiðni er skilyrðum 1. mgr. 78. gr. fullnægt og er því ekki frekari lagabreytinga þörf vegna fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins að þessu leyti. Það sama á við um skilyrði leitar skv. 89. gr. laganna um meðferð opinberra mála.

IV. Helstu breytingar sem stefnt er að með frumvarpinu.

    Lagabreytingum þeim, sem ráðgerðar eru í frumvarpinu, er ætlað að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins. Verður markmiði þeirra nú lýst í stórum dráttum en þeim verður ítarlegar lýst í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru fjórþættar:
    Í fyrsta lagi er stefnt að því gera refsivert þvætti ávinnings af öllum brotum á hegningarlögum og ákveðnum sérrefsilögum en ekki einvörðungu þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum og auðgunarbrotum eins og í núgildandi löggjöf.
    Í öðru lagi er stefnt að því að rýmka og gera skýrari lagaákvæði sem lúta að heimildum til upptöku á ávinningi af brotum og upptöku á jafnvirði slíks ávinnings.
    Í þriðja lagi er stefnt að því að gera refsiverða vörslu og meðferð tækja, hluta og tiltekinna efna sem notuð eru til framleiðslu á fíkniefnum, en slík háttsemi er ekki skýrlega refsiverð samkvæmt núgildandi löggjöf.
    Í fjórða og síðasta lagi stefnir frumvarpið að því að setja skýrlega orðaðar lagaheimildir sem grundvöll fyrir fullnustu á erlendum beiðnum um upptöku eigna hér á landi, svo og fyrir beiðni íslenska ríkisins um eignaupptöku erlendis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er ráðgerð viðbót við 4. gr. almennra hegningarlaga þess efnis að refsað verði fyrir brot á 264. gr. laganna jafnvel þótt frumbrotið sem ávinningurinn stafar frá sé framið erlendis. Ekki skiptir heldur máli hver framdi frumbrotið, t.d. hvort það var íslenskur ríkisborgari eða annar. Nauðsynlegt er að setja skýra reglu um þetta efni í ljósi fortakslausrar skuldbindingar í a-lið 2. mgr. 6. gr. þvættissamningsins þar sem segir að ekki skipti máli hvort frumbrotið fellur undir refsilögsögu samningsaðila.
    Þótti rétt að regla um þetta ætti heima í 4. gr. laganna frekar en í 6. gr. þeirra þar sem síðarnefnda ákvæðið er bundið við að unnt sé að refsa hér á landi fyrir brot sem er framið utan íslenskrar refsilögsögu. Vert er að taka fram að þvættissamningurinn leggur ekki þá skyldu á aðildarríki að víkka út refsilögsögu sína þegar þvættisbrot eru annars vegar, þannig að unnt verði að refsa manni hér á landi fyrir slík brot sem hann hefur framið erlendis. 1. gr. frumvarpsins stefnir aðeins að því að heimila refsingu fyrir brot á 264. gr. laganna, sem er framið innan íslenskrar refsilögsögu þegar ávinningur stafar frá broti sem er framið erlendis.

Um 2. gr.

    Í greininni er í fyrsta lagi lögð til viðbót við gildandi 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. þess efnis að skýrt sé kveðið á um að gera megi upptæka hluti sem keyptir eru fyrir ávinning. Þótt ákvæðið hafi í reynd verið túlkað þannig af dómstólum að það feli í sér heimild til að gera upptæka muni keypta fyrir ávinning þykir tryggara að orða heimildina sérstaklega. Er það m.a. gert í ljósi þess að sambærileg heimild verður orðuð í 5. gr. laganna um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Eins og rætt var í kafla III.2 að framan hefur stundum reynst örðugt eða jafnvel ómögulegt að afla nægra sannana um raunverulegan ávinning brotamanns af broti. Þetta getur sérstaklega átt við ef brotastarfsemi, t.d. ólögleg viðskipti, hefur sannanlega staðið um nokkurt skeið, en aðeins er hægt að leggja fram gögn um fjárhæð ávinnings í einu tilviki. Þess eru dæmi úr dómaframkvæmd að þótt brotamaður hafi sannanlega haft ávinning af broti hafi ekki verið fallist á upptöku þar sem gögn hefur skort til þess að ákveða upphæð hans. Dómstólar hafa ekki talið sér heimilt að áætla fjárhæðina þegar ekki hefur verið unnt að ákveða hana samkvæmt sönnunargögnum í málinu. Við þessar aðstæður koma núgildandi upptökuákvæði í lögum því ekki að tilætluðum notum en að nokkru leyti hefur verið hægt að ná hinum dulda ágóða með ákvörðun sektargreiðslu.
    Í norskum og dönskum hegningarlögum hefur verið brugðist við þessari aðstöðu þannig að dómstólum hefur verið veitt heimild til þess að áætla fjárhæð þegar sannað er að ávinningur hafi orðið af brotinu en gögn skortir til að meta fjárhæð hans (1. mgr. 75. gr. dönsku hegningarlaganna og 34. gr. norsku hegningarlaganna). Í 2. gr. frumvarpsins er stefnt að því að veita dómurum sambærilega heimild til mats á umfangi ávinnings. Rétt er að að leggja áherslu á að venjulegar sönnunarreglur gilda eftir sem áður um að maður hafi í reynd haft ávinning af broti.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lagt til að 173. gr. b laganna um þvætti í tengslum við fíkniefnabrot verði felld brott. Verður þessarar sérreglu ekki lengur þörf þar sem almenn regla sama efnis sem nær til allra brota á lögunum verður sett í 264. gr. laganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Ráðgert er að í 264. gr. laganna komi nýtt ákvæði og jafnframt að greinin sem nú stendur auð í XXVIII. kafla laganna sem fjallar um bætur, brottfall erfðaréttar o.fl. flytjist í næsta kafla á undan sem er XXVII. kafli um ýmis brot er varða fjárréttindi.
    Við gerð frumvarpsins var sá kostur kannaður að gera þvættisbrot refsiverð samkvæmt íslenskum lögum með því að færa út gildissvið 4. mgr. 22. gr. almennu hegningarlaganna um eftirfarandi hlutdeild. Þrátt fyrir ýmsa kosti þeirrar leiðar virtist sem vankantar yrðu fleiri á þessari tilhögun sem verður nú lýst nánar.
    Í fyrsta lagi gefur orðalag 6. gr. þvættissamningsins skýrt til kynna að ætlast sé til að þvættisbrot skuli gert að sjálfstæðu broti í landslöggjöf aðildarríkja. Í því sambandi má sérstaklega vísa til d-liðar 1. mgr. 6. gr. um að tilraun og hlutdeild í þvættisbroti skuli gerði refsiverð. Ef þvættisbrot er ekki gert að sjálfstæðu broti heldur órjúfanlega tengt frumbrotinu sem eftirfarandi hlutdeild eða aðstoð er væntanlega ógerlegt að ákæra fyrir tilaun eða hlutdeild í þvætti.
    Í öðru lagi má benda á að í 2. mgr. 6. gr. fíkniefnasamningsins er kveðið á um að brot sem skilgreind eru í 1. mgr. 3. gr. samningsins skuli talin meðal framsalsbrota, en í þessu ákvæði eru þvættisbrot talin auk annarra brota. Ef þvættisbrot stendur ekki sjálfstætt í refsilöggjöfinni getur verið mjög vandasamt að uppfylla þessa samningsskuldbindingu.
    Hér er því lagt er til að þvætti ávinnings af brotum á almennum hegningarlögum verði gert sjálfstætt refsivert brot, án tillits til þess um hvers konar brot er að ræða. Er með þessu komið til móts við skuldbindingu 1. mgr. 6. gr. þvættissamningsins. Sambærileg leið hefur verið valin í Noregi og Svíþjóð vegna aðildar að þvættissamningnum, sbr. 317. gr. norsku hegningarlaganna og 6. og. 7. gr. í 9. kafla sænsku hegningarlaganna.
    Þótt skilgreining þvættis í 1. mgr. 264. gr. verði ekki orðrétt sú sama og í áðurnefndri 6. gr. þvættissamningsins nær hún til allra atriða sem þar eru talin vegna orðanna „stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti“ í síðari málslið 1. mgr.
    Skilgreiningin á þvætti ávinnings af brotum í 1. mgr. 264. gr. er samhljóða þeirri sem kom inn í 173. gr. b almennu hegningarlaganna og 2. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna árið 1993 en þessi ákvæði eru sérreglur sem taka einvörðungu til þvættis í tengslum við fíkniefnabrot. Eins og lýst var í kafla III.1 að framan komu þessi ákvæði inn í íslenska löggjöf vegna tilskipunar EB nr. 91/308, en orðalag þeirrar tilskipunar um þvætti er nánast samhljóða verknaðarlýsingu þvættissamningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. verður unnt að refsa fyrir viðtöku og öflun ávinnings af afbroti og aðstoð við að umbreyta ávinningi í því skyni að að fela ólöglegan uppruna hans. Markmið 1. mgr. er tvíþætt. Annars vegar er skýrlega gert refsivert að maður njóti ávinnings af broti sem annar hefur framið. Hins vegar er lögð refsing við ýmsum aðferðum sem unnt er að viðhafa til að aðstoða við undanskot á ávinningi afbrota, án skilyrðis um að viðkomandi hafi nokkurn ábata af aðstoðinni. Er tiltekin í ákvæðinu sú háttsemi að geyma, flytja eða aðstoða við afhendingu ávinnings en ekki reynt að telja með tæmandi hætti hvers konar aðstoð fellur undir ákvæðið. Þannig verður refsivert að stuðla á hvers konar annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af afbroti. Í dæmaskyni má nefna að undir ákvæðið félli sú háttsemi að leyna, senda, millifæra t.d. af bankareikningum, umbreyta, veðsetja eða fjárfesta með ávinningnum.
    Ráðgert er að þvætti ávinnings geti varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Ef brot er ítrekað eða sérstaklega stórfellt, svo sem ef um ræðir verulega háar fjárhæðir eða ef þvættið hefur verið stundað kerfisbundið í atvinnustarfsemi, svo dæmi sé tekið, getur refsing orðið varðhald eða fangelsi allt að fjórum árum. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt sænskum refsilögum varðar þvættisbrot allt að tveggja ára fangelsi en allt að sex árum ef það er sérstaklega gróft. Samkvæmt norskum refsilögum varðar þvættisbrot sektum eða fangelsi allt að þremur árum en sé brotið sérstaklega stórfellt varðar það allt að sex ára fangelsi.
    Í 2. mgr. er gerð tillaga um sérreglu varðandi þvætti ávinnings af fíkniefnabroti skv. 173. gr. a laganna. Samkvæmt 173. gr. b. laganna er hámarksrefsing fyrir þvætti ávinnings af slíku broti tíu ár. Í 3. gr. frumvarpsins er stefnt að því að 173. gr. b falli brott þar sem háttsemi sem þar er lýst muni falla undir almennu regluna í 1. mgr. 264. gr. Hins vegar þykir ekki rétt að lækka refsihámark fyrir þvætti ávinnings af fíkniefnabroti frá því sem nú gildir, enda er hér um að ræða svið þar sem hvað mest hætta er á reynt sé að koma undan ávinningi.
    Í 3. mgr. er lagt til að ekki skuli höfða mál ef ávinningur sem um ræðir er mjög smávægilegur krefjist almenningshagsmunir þess ekki. Loks er unnt skv. 4 mgr. greinarinnar að færa niður refsingu ef þvætti er framið af gáleysi, og fella alveg niður ef frumbrotið varðar ekki þyngri refsingu en varðhaldi. Þess má geta að þvættissamningurinn gerir ekki fortakslausa kröfu um að þvætti framið af gáleysi verði gert refsivert í aðildarríkjum. Í a-lið 3. mgr. 6. gr. samningsins segir hins vegar að aðili geti lýst þvætti refsivert samkvæmt landslögum ef maður hefði mátt vita að eign var ávinningur.
    Rétt er að benda á að ákvæði hegningarlaganna í 254. og 263. gr. um hylmingu í tengslum við auðgunarbrot standa áfram óbreytt, en eru ekki felld inn í 264. gr. samkvæmt frumvarpinu. Verður að líta á þessi ákvæði sem sérreglur gagnvart ákvæðinu í 264. gr. með gildissvið sem verður eftir sem áður bundið við auðgunarbrot í XXVI. kafla laganna.


Um 5. gr.

    Hér er gerð tillaga um tvær breytingar á refsiákvæði áfengislaganna í 1. mgr. 33. gr. Þar sem 264. gr. almennu hegningarlaganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins hér að framan, miðast við að ávinningur komi frá broti á þeim lögum, nær ákvæðið ekki sjálfkrafa til allra brota á sérrefsilöggjöfinni nema annað sé tekið fram þar. Við mat á því hvaða sérrefsilög ættu að geyma heimild til þess að refsa fyrir þvætti ávinnings af brotum var einkum litið til þeirra sem höfðu þyngri refsimörk en sektir eða varðhald. Einnig var tekið mið af brotum sem eru líklegri en önnur til að skapa ávinning, svo sem á sérstaklega við um ólöglega áfengisssölu svo og ólöglega lyfjasölu sbr. 12. gr. frumvarpsins. Hér er því lagt til að meðferð ávinnings af brotum á áfengislögunum verði gerð refsiverð eftir því sem segir í 264. gr. almennu hegningarlaganna. Með því að ræða um „meðferð“ ávinningsins er því skírskotað til nánari verknaðarlýsingar í 264. gr.
    Í síðari málslið þessarar greinar frumvarpsins er lagt til að tilraun og hlutdeild í áfengislagabrotum verði gerðar refsiverðar, en tilvísun í III. kafla almennu hegningarlaganna skortir nú í áfengislögin.

Um 6. gr.

    Með þessu ákvæði frumvarpins er stefnt að því að verknaðir sem lýst er í (iv)-lið (a)-liðar og (ii)-lið, (c)-liðar 1. mgr. 3. gr. fíkniefnasamningsins verði skýrlega gerðir refsiverðir samkvæmt lögunum um ávana- og fíkniefni. Vegna sérstöðu efna, svo og tækja og hluta sem talin eru upp í ákvæðinu samanborið við ávana- og fíkniefni sem falla undir 2.–4. gr. laganna, þykir rétt að refsiheimild vegna meðferðar þeirra verði í sérstakri grein, 4. gr. a, í lögunum.
    Í núgildandi löggjöf skortir heimild til þess refsa mönnum fyrir vörslu og meðferð tækja, hluta eða efna sem skráð eru í skrá I og II með fíkniefnasamningnum frá 1988 í þeirri vitneskju að þau skuli notuð til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna. Efnin, sem talin eru á áðurgreindum skrám, eru ekki talin upp í reglugerð á grundvelli ávana- og fíkniefnalaganna í flokki efna sem óheimil eru samkvæmt lögunum. Úr nýlegri dómaframkvæmd hér á landi finnast dæmi þess að ekki hafi verið hægt að refsa fyrir meðferð slíkra efna vegna skorts á beinni refsiheimild þess efnis. Hefur þó verið unnt að færa háttsemina undir tilraun til fíkniefnabrots samkvæmt núgildandi lögum.
    Einkenni þessara efna er að þau eru veigamikill liður í framleiðslu ávana- og fíkniefna og eru annaðhvort hefðbundin lyfjaefni í almennri lyfjaframleiðslu eða tæknileg hjálparefni við framleiðslu þeirra. Í stað þess að vera þannig flokkuð með annaðhvort fíkniefnum eða skynvilluefnum eru þau í reynd talin með tækjum eða hlutum sem notuð til ólöglegrar framleiðslu á fíkniefnum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a er þannig ekki ætlast til að meðferð þeirra verið refsiverð á grundvelli ákvæðisins, nema hún standi í beinu sambandi við framleiðslu flutning eða dreifingu fíkniefna. Með orðalagi ákvæðisins „til notkunar“ er ætlast til að sanna verði ásetning til þess að nota efnin í þessu skyni.
    Þá skortir skýra refsiheimild í tilvikum þar sem um er að ræða vörslu, flutning eða dreifingu tækja eða hluta sem nota skal til ólöglegrar framleiðslu fíkniefna, en þessi atriði eru einnig talin í 1. mgr. 4. gr. a. Þessi lýsing getur sérstaklega átt við um hefðbundinn búnað sem notaður er við lyfjaframleiðslu almennt og er ekki ætlast til að meðferð þeirra við slíkar aðstæður verði gerð refsiverð á grundvelli ákvæðisins. Markmið ákvæðisins er að vörslur og nánar tilgreind meðferð slíkra tækja verði gerð refsiverð ef þau eru notuð til framleiðslu fíkni- eða skynvilluefna eða sannanlega á að nota þau í því skyni.
    Í 2. mgr. er veitt reglugerðarheimild til þess að ákveða nánar hvaða efni falla undir 1. mgr. ákvæðisins og sérstaklega mikil hætta er talin stafa af í alþjóðasamningum. Er hér sérstök skírskotun til þeirra efna sem talin eru í skrá I og II með fíkniefnasamningnum, en þetta eru eftirtalin efni:
    Í skrá I: Efedrín, ergómetrín, ergótamín, lýsergín sýra, 1-fenýl-2-própanón og pseudóefedrín.
    Í skrá II: Ediksýru anhýdríð, asetón, antranílsýra, etýl eter, fenýlediksýra og píperidín.
    Vegna örrar þróunar í fíkniefnaframleiðslu og nýrra efna sem upp kunna að koma og sérstök hætta stafar af þarfnast upptalning efnanna stöðugrar endurskoðunar. Til að tryggja svigrúm með hliðsjón af þessari þróun þykir rétt að efnin skv. 1. mgr. séu talin í reglugerð. Er þetta sami háttur og er hafður á varðandi talningu ávana- og fíkniefna sem falla undir 2. og 3. gr. ávana- og fíkniefnalaganna sem birtist, auk talningar í 6. gr. laganna, í reglugerð nr. 16/1986, með síðari breytingum.

Um 7. gr.

    Í a-lið 7. gr. frumvarpsins er stefnt að því að breyta núgildandi 2. mgr. 5. gr. laganna sem skilgreinir þvættisbrot. Lagt er til að vísað sé til hinnar nýju 264. gr. almennu hegningarlaganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins, í stað þess að 2. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnilaganna endurtaki orðrétt sömu skilgreiningu á þvættisbroti. Er þetta og í samræmi við önnur ákvæði sem frumvarpið leggur til að bætt verði í sérrefsilöggjöfina þar sem vísað verður til 264. gr. almennu hegningarlaganna. Þess má einnig geta að núgildandi 2. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna tiltekur aðeins þvættisbrot sem framin eru af ásetningi. Með því að vísa til 264. gr. almennu hegningarlaganna yrði hins vegar unnt að refsa fyrir gáleysisbrot, sbr. 4. mgr. 264. gr.
    Í b-lið 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á 7. og 8. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna. Þannig er ráðgert að bæta tveimur nýjum málsliðum, 2. og 3. málsl., inn í núgildandi 7. mgr. 5. gr. ávana- og fíkniefnalaganna. Núgildandi upptökuákvæði laganna í 7. mgr. nær aðeins til andvirðis ólögmætrar sölu ávana- og fíkniefna og muna sem notaðir hafa verið til meðferðar efnanna. Markmiðið með breytingu á 7. mgr. 5. gr. er tvíþætt. Annars vegar er gerð tillaga um heimild í 2. málsl. til upptöku á ávinningi af fíkniefnabrotum og munum sem sannanlega eru keyptir fyrir ávinning. Með því að takmarka núgildandi upptökuheimild við andvirði ólögmætrar sölu, kemur ákvæðið ekki að notum við t.d. upptöku á ávinningi laganna sem er ekki tengt söluandvirði eða munum sem sannanlega eru keyptir fyrir ávinning. Sem dæmi um annars konar ávinning sem hægt er að hafa af fíkniefnabroti má nefna greiðslu fyrir geymslu eða flutning fíkniefna. Fram að þessu hefur takmarkað gildi 7. mgr. 5. gr. að þessu leyti ekki komið að sök þar sem hinni almennu og víðtækari reglu 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. almennu hegningnarlaganna hefur verið beitt samhliða við upptöku eigna. Er til hagræðingar að fyllri eignaupptökuheimildir verði í ávana- og fíkniefnalögunum sjálfum fyrst slíkar heimildir eru þar á annað borð. Í 3. málsl. greinarinnar er gerð tillaga um lögfestingu samhljóða reglu þeirri sem birtist í 2. gr. frumvarpsins. Er vísað til umfjöllunar að framan um 2. gr. frumvarpsins til skýringar á tilgangi reglunnar.
    Breyting á 8. mgr. 5. gr. laganna sem fjallar um ítrekunaráhrif felst eingöngu í því að bæta 4. gr. a við upptalningu greina í ákvæðinu.

Um 8. gr.

    Hér er gerð tillaga um viðbót við refsiákvæði í 125. gr. tollalaganna. Þar sem stefnt er að því að 264. gr. almennu hegningarlaganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins hér að framan, miðist við að ávinningur komi frá broti á almennum hegningarlögum, nær ákvæðið ekki sjálfkrafa til allra brota á sérrefsilöggjöfinni nema annað sé tekið fram þar, eins og áður hefur verið nefnt. Þykir rétt að tollalög séu meðal þeirra sérlaga þar sem meðferð ólöglegs ávinnings verður gerð refsiverð. Því er lagt til að vísað verði til 264. gr. um verknaðarlýsingu á þvættisbroti með sama hætti og gert er í 5. gr. frumvarpsins varðandi áfengislög, a-lið 7. gr. varðandi ávana- og fíkniefnalög og 13. gr. varðandi lyfjalög.


Um 9. gr.

    Í 9.–12. gr. frumvarpsins eru ráðgerðar breytingar á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, vegna ákvæða fíkniefnasamingsins og þvættissamningsins um alþjóðlega samvinnu.
    Báðir samningarnir skuldbinda aðildarríki til að taka við og framkvæma eignaupptöku á ávinningi afbrota samkvæmt beiðni frá öðru aðildarríki. Um framkvæmd eignaupptökunnar fer eftir lögum þess ríkis sem upptökubeiðninni er beint til. Eins og lýst var í kafla III.4 að framan veita lög nr. 56/1993, um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, almenna heimild í a-lið 1. mgr. 1. gr., til þess að fullnægja erlendum ákvörðunum um upptöku eigna á grundvelli þjóðréttarsamnings. Þrátt fyrir þetta svigrúm sem lögin veita þykir eðlilegt að tilgreina fíkniefnasamninginn og þvættissamninginn þar með skýrum hætti. Er því lagt til í a-lið 9. gr. frumvarpins að samningarnir tveir bætist við upptalningu 2. gr. laganna í 3. og 4. mgr. og um framkvæmd beiðna eftir samningunum er síðan vísað til ákvæða laganna eftir því sem við á.
    Um framkvæmd beiðni frá öðru aðildarríki um eignaupptöku á grundvelli fíkniefnasamningsins er þannig ráðgert að ákvæðum I. og IV. kafla í 2. hluta laganna verði beitt eftir því sem við á. Verður málsmeðferðin þannig felld að meðferð beiðna um fullnustu evrópskra refsidóma, sem byggir á samningi Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma, en í kaflanum er sérstaklega fjallað um atriði sem lúta að eignaupptökubeiðni í 15. og 16. gr. Einnig munu sameiginleg ákvæði IV. kafla gilda um upptökubeiðni á grundvelli fíkniefnasamingsins. Þar er meðal annars kveðið á um í 28. gr. hvernig íslenskum lögum um meðferð opinberra mála verður beitt við framkvæmd slíkrar beiðni.
    Með tilvísun í I. og IV. kafla í 3. hluta laganna er lagt til að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að beiðast eignaupptöku í öðru samningsríki samkvæmt fíkniefnasamningnum fari eftir sömu reglum og um fullnustu íslenskra viðurlaga erlendis á grundvelli samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna verður það þannig dómsmálaráðuneytið sem ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi íslenskri ákvörðun um eignaupptöku á grundvelli fíkniefnasamningsins.
    Sambærilegar tilvísanir eru ráðgerðar vegna upptökubeiðni á grundvelli þvættissamningsins í nýrri 3. mgr. 2. gr. laganna. Gilda ákvæði sömu kafla laganna þannig um meðferð og framkvæmd hennar eftir því sem við á og ákvörðun um hvort íslensk stjórnvöld beiðast eignaupptöku í öðru aðildarríki að þvættissamningnum.
    Í b- og c-lið 9. gr. frumvarpsins eru ráðgerðar breytingar á tilvísunum í númer málsgreina 2. gr. laganna með hliðsjón af breyttri röð málsgreina.

Um 10.–12. gr.

    Í þessum greinum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á tilvísunum í númer málsgreina 2. gr. laganna með hliðsjón af breyttri röð málsgreina eftir að nýjar 3. og 4. mgr. koma inn með 9. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Hér eru ráðgerðar sambærilegar breytingar á lyfjalögum og í 5. gr. frumvarpsins varðandi áfengislög, ávana- og fíknaefnalög og tollalög um að þvætti ávinnings af broti á þessum sérlögum verði refsivert. Má vísa til athugasemda við 5. gr. um röksemdir fyrir þessari breytingu.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum, áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni, tollalögum, lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma og lyfjalögum. Lagabreytingar þessar eru nauðsynlegar til þess að Ísland geti fullgilt tvo alþjóðasamninga á sviði refsiréttar, samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samning um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir meginmarkmiði lagabreytinganna en ekki verður séð að frumvarpið hafi teljandi áhrif á kostnað ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum.



Fylgiskjal II.


RÁÐSTEFNA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA UM GERÐ
SAMNINGS GEGN ÓLÖGLEGRI VERSLUN MEÐ
FÍKNIEFNI OG SKYNVILLUEFNI
Vínarborg, Austurríki, 25.11.–20.12.1988.



SAMNINGUR SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA
GEGN ÓLÖGLEGRI VERSLUN MEÐ FÍKNIEFNI OG SKYNVILLUEFNI


Samþykktur af ráðstefnunni á 6. allsherjarfundi hennar
hinn 19. desember 1988


     Aðilar að samningi þessum,

     sem hafa verulegar áhyggjur af hinni miklu og vaxandi ólöglegu framleiðslu, eftirspurn og verslun með fíkniefni og skynvilluefni, sem eru alvarleg ógnun við heilsu og velferð manna og skaða efnahagslegan, menningarlegan og stjórnmálalegan grundvöll samfélagsins,

     hafa einnig verulegar áhyggjur af stöðugt vaxandi ásókn ólöglegrar verslunar með fíkniefni og skynvilluefni að ýmsum þjóðfélagshópum, og sérstaklega að börn eru í mörgum heimshlutum nýtt sem neyslumarkaður fyrir ólögleg efni og til ólöglegrar framleiðslu, dreifingar og verslunar með fíkniefni og skynvilluefni, sem felur í sér takmarkalausa hættu,

     gera sér ljós tengslin milli verslunar með ólögleg efni og annarrar skyldrar skipulagðrar afbrotastarfsemi, sem grefur undan lögmætu efnahagslífi og ógnar stöðuleika, öryggi og sjálfsforræði ríkja,

     gera sér einnig ljóst að verslun með ólögleg efni telst til alþjóðlegrar glæpastarfsemi, sem veita verður tafarlausa athygli og óskoraðan forgang til að kveða niður,

     vita að verslun með ólögleg efni aflar mikils fjárgróða og auðs, sem gerir fjölþjóðlegum glæpasamtökum kleift að brjóta sér leiðir inn í stjórnkerfi ríkja, lögmæta verslunar- og fjármálastarfsemi og þjóðfélagið á öllum stigum þess, og grafa þar um sig og valda spillingu,

     eru staðráðnir í því að svipta þá menn afrakstri glæpastarfsemi sinnar sem fást við verslun með ólögleg efni, og uppræta þar með helsta hvata þeirra til þess,

     vilja uppræta misnotkun fíkniefna og skynvilluefna, og þar með hina ólöglegu eftirspurn eftir slíkum efnum og hinn gífurlega gróða sem aflað er með ólöglegri verslun með þau,

     hafa í huga að ráðstafanir eru nauðsynlegar til að hafa eftirlit með ákveðnum efnum, þar með töldum forstigsefnum, framleiðsluefnum og leysiefnum, sem notuð eru við framleiðslu fíkniefna og skynvilluefna og hafa leitt til aukinnar leynilegrar framleiðslu þeirra vegna þess hve auðveldlega þau eru tiltæk,

     hafa einsett sér að bæta alþjóðlegt samstarf um að koma í veg fyrir verslun með ólögleg efni sjóleiðis,

     gera sér ljóst að ábyrgð á því að verslun með ólögleg efni sé upprætt hvílir sameiginlega á öllum ríkjum, og að til þess séu sameiginlegar aðgerðir innan ramma alþjóðlegrar samvinnu nauðsynlegar,

     viðurkenna valdbærni Sameinuðu þjóðanna á sviði varna gegn fíkniefnum og skynvilluefnum, og sem vilja að alþjóðastofnanir sem láta sig slíkar varnir varða starfi innan ramma þeirra,

     staðfesta þær meginreglur sem gildandi þjóðréttarsamningar varðandi fíkniefni og skynvilluefni hafa að leiðarljósi, og gildi þess eftirlitskerfis sem þeir setja,

     viðurkenna nauðsyn þess að efla og auka við þær aðgerðir sem kveðið er á um í Alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá 1961, sama samningi eins og honum var breytt með bókun frá 1972 um breytingar á honum, og Alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá 1971, til að bregðast við magni og umfangi ólöglegrar verslunar með slík efni og hinum alvarlegu afleiðingum hennar,

     viðurkenna einnig mikilvægi þess að styrkja og bæta virk lagaúrræði til alþjóðasamvinnu á sviði afbrotamála til að kveða niður þá alþjóðlegu glæpastarfsemi sem fólgin er í verslun með ólögleg efni,

     og vilja gera með sér víðtækan, virkan og árangursríkan alþjóðasamning, sem sérstaklega beinist að verslun með ólögleg efni, þar sem hinar ýmsu hliðar þessa vandamáls eru teknar fyrir heildstætt, sérstaklega þær sem ekki er tekið á í þeim alþjóðasamningum sem fyrir eru á sviði fíkniefna og skynvilluefna,

     koma sér hér með saman um eftirfarandi:

1. gr.


SKILGREININGAR


    Þar sem annað er ekki beinlínis tekið fram eða kemur fram af samhengi gilda eftirfarandi skilgreiningar hvarvetna í samningi þessum:
(a)         „Starfsnefndin“ merkir alþjóðaeftirlitsnefnd þá með ávana- og fíkniefnum, sem stofnsett var samkvæmt alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni, 1961, og þeim samningi eins og honum var breytt með bókun um breytingar á alþjóðasamningnum frá 1972,
(b)         „kannabisjurt“ merkir sérhverja plöntu af ættinni cannabis,
(c)        „kókarunni“ merkir sérhverja plöntu af ættinni erythroxylon,
(d)        „flytjandi í atvinnurekstri“ merkir hvern þann mann eða opinberan aðila eða aðila í einkarekstri eða öðrum rekstri, sem fæst við að flytja fólk, varning eða póst gegn greiðslu, leigu eða einhverju öðru endurgjaldi,
(e)        „nefndin“ merkir ávana- og fíkniefnanefnd fjárhags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna,
(f)        „upptaka“, sem þar sem við á, tekur einnig til þess að eign sé fyrirgert, merkir varanlega sviptingu eignar samkvæmt ákvörðun dómstóla eða annars lögbærs yfirvalds,
(g)        „afhending undir eftirliti“ merkir þá starfsaðferð að hindra ekki að ólöglegar eða grunsamlegar sendingar fíkniefna, skynvilluefna, efna sem skráð eru í skrá I eða skrá II með samningi þessum, eða efna sem koma í þeirra stað, séu send frá, um eða inn í landsvæði eins eða fleiri ríkja með vitund og undir eftirliti lögbærra yfirvalda þeirra, í því skyni að bera kennsl á fólk sem á hlut að afbrotum þeim sem lýst er í 1. mgr. 3. gr. samningsins,
(h)        „samningurinn frá 1961“ merkir Alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni, 1961,
(i)         „samningurinn frá 1961 með breytingum“ merkir Alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni frá 1961 eins og honum var breytt með bókun frá 1972 um breytingar á Alþjóðasamningnum um ávana- og fíkniefni, 1961,
(j)         „samningurinn frá 1971“ merkir Alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni frá 1971,
(k)         „ráðið“ merkir fjárhags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna,
(l)        „stöðvun“ eða „hald“ merkir tímabundið bann við umsetningu, ráðstöfun eða flutningi á eign, eða töku eignar í tímabundna vörslu eða umsjá að ákvörðun dómara eða lögbærs yfirvalds,
(m)        „ólögleg verslun“ merkir afbrot þau sem lýst er í 1. og 2. mgr. 3. gr. samnings þessa,
(n)         „fíkniefni“ merkir hvert það efni, náttúrlegt eða tilbúið, sem tilgreint er í fylgiskjali I eða II með Alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni, 1961 og þeim samningi eins og honum var breytt með bókun frá 1972 um breytingar á honum,
(o)        „ópíumvalmúi“ merkir jurt af tegundinni papaver somniferum L.,
(p)         „ávinningur“ merkir hverja þá eign sem beint eða óbeint er leidd af eða fengin með afbroti sem lýst er refsivert samkvæmt 1. mgr. 3. gr.,
(q)         „eign“ merkir verðmæti af öllu tagi, efnisleg eða óefnisleg, laus eða föst, áþreifanleg eða óáþreifanleg, og skjöl eða gögn sem að lögum sýna eignarrétt að slíkum eignum eða réttindi til þeirra.
(r)         „skynvilluefni“ merkir hvert það efni, náttúrulegt eða tilbúið, og hvert það náttúrulegt efni sem tilgreint er í fylgiskjali I, II, III eða IV með Alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni, 1971,
(s)        „framkvæmdastjóri“ merkir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna,
(t)        „skrá I“ og „skrá II“ merkir þannig tölumerkta lista yfir efni sem fylgja samningi þessum, eins og þeir breytast samkvæmt 12. gr.,
(u)         „gegnumflutningsríki“ merkir ríki sem á landsvæði sem ólögleg fíkniefni, skynvilluefni og efni sem skráð eru í skrám I og II eru flutt um, án þess að efnin séu þar til orðin eða þeim ætlað að fara þangað endanlega.

2. gr.
GILDISSVIÐ SAMNINGSINS

1.     Tilgangur samnings þessa er að stuðla að samvinnu aðilanna um að beita sér með árangursríkari hætti gegn hinum ýmsu þáttum er varða ólöglega verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem eru fjölþjóðlegs eðlis. Við framkvæmd skuldbindinga sinna samkvæmt samningnum skulu aðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir, þar með taldar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, í samræmi við þær grundvallarreglur um lagasetningu sem gilda hjá hverjum þeirra um sig.
2.     Aðilar skulu framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum með þeim hætti sem samræmist meginreglum um að fullveldisjafnræði ríkja og friðhelgi forráðasvæða þeirra skuli virt, og að ekki skuli hlutast til um innanríkismál annarra.
3.     Aðili skal ekki takast á hendur að beita dómsvaldi eða framkvæma athafnir á landsvæði annars aðila, sem yfirvöldum hins síðarnefna er einum rétt að framkvæma samkvæmt landslögum hans.


3. gr.
AFBROT OG VIÐURLÖG

1.     Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að lýsa eftirfarandi háttsemi refsiverða samkvæmt landslögum sínum, sé hún framin af ásetningi:
(a)  (i)         Að framleiða, búa til, vinna, gera, bjóða, bjóða til sölu, dreifa, selja, afhenda hverjir svo sem afhendingarskilmálar eru, stunda umboðsmennsku fyrir, senda, afhenda úr vörusendingu í flutningi, flytja milli staða eða flytja inn eða út nokkurt fíkniefni eða skynvilluefni í bága við ákvæði samningsins frá 1961, samningsins frá 1961 með breytingum, eða samningsins frá 1971,
     (ii)         að rækta ópíumvalmúa, kókarunna eða kannabisjurtir til þess að framleiða fíkniefni í bága við ákvæði samningsins frá 1961, samningsins frá 1961 með breytingum eða samningsins frá 1971,
     (iii)    að hafa vörslur eða kaupa fíkniefni eða skynvilluefni til nokkurra þeirra nota sem nefnd eru í lið (i) hér að framan,
     (iv)    að framleiða, flytja eða dreifa tækjum, hlutum eða efnum sem skráð eru í skrá I eða II í þeirri vitneskju að þau skuli notuð til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna,
     (v)         að skipuleggja, stjórna eða fjármagna hvert það brot, sem tilgreint er í (i), (ii), (iii) eða (iv) hér að framan.
(b)  (i)         Að afla annarra verðmæta í stað eignar eða afsala eign í þeirri vitneskju að hún sé leidd af broti eða brotum sem lýst eru refsiverð skv. (a)-lið þessarar málsgreinar, eða af hlutdeild í slíku broti eða brotum, í þeim tilgangi að fela eða dylja að eignin var ólöglega til komin eða til að aðstoða hvern þann mann sem hlut á að slíku broti eða brotum við að komast hjá afleiðingum gerða sinna, að lögum,
          (ii)    að fela eða dylja raunverulegt eðli eignar, tilurð hennar, staðsetningu, ráðstöfun, flutning, réttindi er tengjast henni, eða eignarrétt að henni, í þeirri vitneskju að hún sé leidd af broti eða brotum sem lýst eru refsiverð skv. (a)-lið þessarar málsgreinar eða af hlutdeild í slíku broti eða brotum.
(c)    Að því leyti sem það samræmist stjórnskipunarreglum og grundvallarreglum réttarkerfis hans:
     (i)         Að afla eignar eða hafa vörslur hennar eða afnot í þeirri vitneskju, þegar við henni var tekið, að hún sé leidd af broti eða brotum sem lýst eru refsiverð skv. (a)-lið þessarar málsgreinar eða af hlutdeild í slíku broti eða brotum,
     (ii)         að hafa vörslur tækja, hluta eða efna sem skráð eru í skrá I eða II, í þeirri vitneskju að þau séu notuð eða skuli notuð til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna,
     (iii)    að hvetja aðra opinberlega, með hvaða hætti sem er, til þess að fremja eitthvert þeirra brota sem lýst hafa verið í grein þessari, eða til að nota fíkniefni eða skynvilluefni ólöglega,
     (iv)    eiga hlutdeild í, sammælast um eða leggja á ráðin um, gera tilraun til, veita hjálp eða aðstoða við, auðvelda eða veita ráð til að fremja hvert það brot sem lýst er refsivert samkvæmt grein þessari.
2.     Innan marka stjórnskipunarreglna og grundvallarreglna réttarkerfis síns skal hver aðili gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að lýsa það refsivert samkvæmt landslögum sínum, sé um ásetning að ræða, að hafa í vörslum sínum, kaupa eða rækta fíkniefni eða skynvilluefni til einkaneyslu í bága við ákvæði samningsins frá 1961, samningsins frá 1961 með breytingum og samningsins frá 1971.
3.     Nú er vitneskja, ásetningur eða tilgangur áskilinn sem eðlisþáttur í broti skv. 1. mgr. þessarar greinar og má þá álykta þar um að hlutlægum málavöxtum.
4.(a)    Við hverju því broti sem lýst er refsivert skv. 1. mgr. þessarar greinar skal aðili leggja viðurlög sem taka mið af því hversu alvarleg þau eru, svo sem fangelsun eða aðra frelsissviptingu, fjárhagsleg viðurlög og upptöku.
(b)        Aðilar geta ákveðið að auk sakfellingar og refsingar fyrir brot sem lýst er refsivert skv. 1. mgr. þessarar greinar skuli brotamaður sæta ráðstöfunum svo sem meðferð, kennslu, eftirmeðferð, endurhæfingu eða félagslegri aðlögun.
(c)        Þrátt fyrir ákvæði undanfarandi stafliða geta aðilar ákveðið þar sem við á, í minni háttar málum að beita megi í stað sakfellingar eða refsingar ráðstöfunum svo sem kennslu, endurhæfingu eða félagslegri aðlögun, og jafnframt meðferð og eftirmeðferð, ef brotamaður er eiturlyfjaneytandi.
(d)        Aðilar geta ákveðið að í stað sakfellingar eða refsingar eða til viðbótar sakfellingu og refsingu fyrir brot sem lýst er refsivert skv. 2. mgr. þessarar greinar skuli koma ráðstafanir til meðferðar, kennslu, eftirmeðferðar, endurhæfingar eða félagslegrar aðlögunar brotamannsins.
5.     Aðilar skulu tryggja að dómstólar þeirra og önnur lögbær yfirvöld sem mál heyrir undir geti tekið tillit til málavaxta sem gera brot þau sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. þessarar greinar sérstaklega alvarleg, svo sem:
(a)         ef skipulög brotasamtök sem brotamaður tilheyrir eiga hlut að brotinu,
(b)         ef brotamaður á hlut að annarri skipulagðri alþjóðlegri brotastarfsemi,
(c)         ef brotamaður á hlut að annarri ólöglegri starfsemi sem brotið hefur gert auðveldari,
(d)         ef brotamaður hefur beitt valdi eða vopnum,
(e)         ef brotamaður gegnir opinberu starfi og brotið tengist viðkomandi starfi,
(f)         ef fólk undir lögaldri hefur orðið fyrir broti eða verið notað til að fremja það,
(g)         ef brot hefur verið framið inni á refsistofnun, menntastofnun eða stofnun til félagslegrar þjónustu eða í næsta nágrenni slíkra stofnana, eða á öðrum stað sem skólabörn og nemendur sækja til að stunda nám, íþróttir eða félagslíf,
(h)         ef viðkomandi hefur áður verið sakfelldur, einkum fyrir svipað brot, heima fyrir eða erlendis, að svo miklu leyti sem landslög aðila heimila það.
6.     Aðilar skulu leitast við að tryggja að hverjum heimildum til saksóknar sem fyrir hendi kunna að vera samkvæmt landslögum vegna brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt þessari grein sé beitt þannig að löggæsluráðstafanir vegna þeirra verði sem virkastar, og að eðlilegt tillit sé tekið til nauðsynjar þess að koma í veg fyrir að slík brot séu framin.
7.     Aðilar skulu tryggja að dómstólar þeirra eða önnur lögbær yfirvöld hafi í huga hversu alvarleg brot þau eru sem talin eru í 1. mgr. þessarar greinar og atvik þau sem talin eru í 5. mgr. þessarar greinar,við mat á möguleika þess að flýta lausn úr fangelsi eða veita skilorðslausn manni sem fundinn hefur verið sekur um slík brot.
8.     Hver aðili skal þar sem við á setja í landslögum sínum langan fyrningarfrest til málshöfðunar vegna brota sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr., og lengri fyrningarfrest ef sökunautur hefur komið sér undan málshöfðun.
9.     Hver aðili skal gera viðeigandi ráðstafanir sem samræmast réttarkefi hans til að tryggja að maður sem sakaður er um eða sakfelldur fyrir afbrot sem lýst er refsivert skv. 1. mgr. þessarar greinar, sem hittist fyrir á landsvæði hans, sé viðstaddur nauðsynlegar réttargerðir í refsimálinu.
10.     Hvað snertir samvinnu milli aðila samkvæmt samningi þessum, þar á meðal einkum samvinnu skv. 5., 6., 7. og 9. gr., skulu brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt þessari grein ekki talin skattaafbrot eða stjórnmálaafbrot, eða litið svo á sem stjórnmálasjónarmið búi að baki þeim, enda standi stjórnskipunarlög eða grundvallarreglur landslaga aðila ekki til annars.
11.     Ekkert í grein þessari skal skerða gildi þeirrar reglu að um lýsingu á brotum þeim sem hún á við um og á vörnum vegna þeirra skal farið að landslögum aðila, og skal saksótt fyrir brotin og þau sæta refsingu samkvæmt þeim lögum.

4. gr.
REFSILÖGSAGA

1.    Hver aðili:
(a)    Skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að fella undir refsilögsögu sína brot þau sem lýst hafa verið refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. þegar:
         (i)     brotið er framið á landsvæði hans,
        (ii)    
brotið er framið á skipi er siglir undir fána hans, eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum hans á þeim tíma er brotið er framið.
(b)    Má gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að fella undir refsilögsögu sína brot þau, sem lýst hafa verið refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. þegar:
         (i)    
brotið er framið af ríkisborgara hans eða af manni sem að jafnaði dvelur á landsvæði hans,
         (ii)    
brotið er framið á skipi sem aðilanum hefur skv. 17. gr. verið heimilað að grípa til viðeigandi aðgerða gegn, enda skal refsivaldi þá aðeins beitt á grundvelli samninga eða tilhögunar sem um ræðir í 4. og 9. mgr. þeirrar greinar,
         (iii)    brotið er eitt þeirra brota sem lýst eru refsiverð skv. lið (c) (iv) 1. mgr. 3. gr., og er framið utan landsvæðis hans í því skyni að fremja innan landsvæðis hans brot sem lýst er refsivert skv. 1. mgr. 3. gr.

2.    Hver aðili:
(a)    Skal einnig gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að fella undir refsilögsögu sína þau brot sem hann hefur lýst refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., þegar sökunautur er staddur á landsvæði hans og er ekki framseldur til annars aðila vegna þess að:
          (i)    brotið hefur verið framið á landsvæði hans eða á skipi er sigldi undir fána hans, eða í loftfari sem skráð var samkvæmt lögum hans á þeim tíma er brotið var framið, eða
         (ii)
    brotið hefur verið framið af ríkisborgara hans.
(b)    Má einnig gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að fella undir refsilögsögu sína brot þau sem hann hefur lýst refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., þegar sökunautur er staddur á landsvæði hans og er ekki framseldur til annars aðila.
3.     Samningur þessi útilokar ekki að beitt sé hverri þeirri refsilögsögu sem aðila ber samkvæmt landslögum sínum.

5. gr.


UPPTAKA


1.     Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að gera megi upptækt:
(a)    Ávinning sem leiddur er af brotum þeim sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., eða eign sem að verðmæti svarar til slíks ávinnings,
(b)    Fíkniefni og skynvilluefni, efni og búnað eða önnur tæki sem notuð eru eða ætluð til hvers kyns afnota við brot þau sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.
2.     Hver aðili skal einnig gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að lögbær stjórnvöld hans geti fundið, rakið og stöðvað eða lagt hald á ávinning, eignir, tæki eða hverja þá hluti aðra, sem í 1. mgr. þessarar greinar segir, til þess að gera þá síðar upptæka.
3.     Til að framkvæma ráðstafanir þær sem fjallað er um í grein þessari skal hver aðili veita dómstólum sínum og öðrum lögbærum yfirvöldum vald til að skipa svo fyrir að bankaskjöl og bókhalds- og viðskiptagögn skuli lögð fram eða hald lagt á þau. Aðilar skulu ekki synja um aðgerðir samkvæmt þessari málsgrein á grundvelli bankaleyndar.
4.(a)    Er annar aðili, sem hefur dómsvald vegna brots sem lýst er í 1. mgr. 3. gr., hefur lagt fram beiðni samkvæmt grein þessari, skal aðili sem hefur á landsvæði sínu ávinning, eignir, tæki eða nokkra aðra hluti sem taldir eru í 1. mgr. þessarar greinar:
               (i)         leggja beiðnina fyrir lögbær yfirvöld sín til þess að fá heimild til upptöku, og fylgja þeirri heimild eftir, sé hún veitt, eða
               (ii)         leggja fyrir lögbær yfirvöld sín upptökuheimild sem sá aðili sem um upptöku biður hefur útgefið skv. 1. mgr. þessarar greinar, í því skyni að framfylgja henni að því marki sem um er beðið, að því leyti sem hún varðar ávinning, eign, tæki eða einhverja aðra hluti sem um er fjallað í 1. mgr. og staðsettir eru á landsvæði þess aðila sem við beiðninni tekur.
(b)         Er annar aðili, sem hefur dómsvald vegna brots sem lýst er í 1. mgr. 3. gr., hefur lagt fram beiðni samkvæmt grein þessari, skal aðili sá sem tekur við beiðninni gera ráðstafanir til að finna, rekja og stöðva eða leggja hald á ávinning, eignir, tæki eða hverja þá hluti aðra, sem í 1. mgr. þessarar greinar segir, í því skyni að upptaka þeirra verði síðar heimiluð, annað hvort af þeim aðila sem biður um ráðstafanirnar, eða að beiðni skv. (a)-lið þessarar málsgreinar, af þeim aðila sem við beiðninni tekur.
(c)         Ákvarðanir þær og aðgerðir sem í (a)- og (b)-liðum þessarar málsgreinar segir skulu teknar eða framkvæmdar af þeim aðila sem tekur við beiðni, í samræmi við og eftir því sem mælt er fyrir um í landslögum hans og réttarfarsreglum eða hverjum þeim tvíhliða eða fjölhliða þjóðréttarsamningi, samkomulagi eða framkvæmdartilhögun sem hann er bundinn gagnvart þeim aðila sem biður um ráðstafanirnar.
(d)         Ákvæði 6.–19. mgr. 7. gr. gilda að breyttu breytanda. Í beiðni sem lögð er fram samkvæmt grein þessari skal, auk þeirra upplýsinga sem greinir í 10. mgr. 7. gr., vera:
               (i)        Varði beiðnin lið (a) (i) í þessari málsgrein, lýsing á eign þeirri sem gera skal upptæka og málavöxtum þeim sem sá aðili er biður um ráðstafanir telur nægja til að sá aðili sem er beðinn um þær geti leitað heimildarinnar samkvæmt landslögum sínum,
               (ii)         Varði beiðnin lið (a) (ii) í þessari málsgrein, löggilt samrit upptökuheimildar þeirrar sem sá aðili er biður um ráðstafanir hefur gefið út og styður beiðni sína við, málavaxtalýsing, og upplýsingar um að hvaða marki beiðst sé framkvæmdar á upptökuheimildinni,
               (iii)    Varði beiðnin (b)-lið, lýsing á þeim málavöxtum sem byggt er á af hálfu þess aðila sem biður um ráðstafanir, og lýsing á þeim aðgerðum sem um er beðið.
(e)         Hver aðili skal láta framkvæmdastjóra í té texta allra laga og reglugerða þar sem málsgrein þessi er látin koma til framkvæmda, og texta allra síðari breytinga á þeim lögum og reglugerðum.
(f)         Nú kýs aðili að setja það skilyrði fyrir ráðstöfunum skv. (a)- og (b)-liðum þessarar málsgreinar að fyrir hendi sé viðeigandi þjóðréttarsamningur, og skal hann þá líta svo á að samningur þessi veiti til þess nauðsynlegan og fullnægjandi lagagrundvöll.
(g)        Aðilar skulu leitast við að koma á með sér tvíhliða og fjölhliða samningum, samkomulagi eða tilhögun til að gera alþjóðasamvinnu samkvæmt grein þessari árangursríkari.
5.(a)    Ávinningi eða eign sem aðili gerir upptæka skv. 1. eða 4. mgr. þessarar greinar skal hann ráðstafa samkvæmt landslögum sínum og stjórnsýslureglum.
(b)        Þegar gerðar eru ráðstafanir að beiðni annars aðila samkvæmt grein þessari getur aðili tekið sérstaklega til athugunar að gera samninga um:
              (i)         Að veita andvirði ávinningsins eða eignanna, eða því fé sem fæst við sölu þeirra eða verulegum hluta þess til milliríkjastofnana sem sérhæfa sig í baráttunni gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og misnotkun slíkra efna,
             (ii)         Að skipta slíkum ávinningi eða eignum, eða því fé sem fæst við sölu þeirra, með öðrum aðilum með reglubundnum hætti í hverju tilviki, samkvæmt landslögum sínum, stjórnsýslureglum eða tvíhliða eða fjölhliða samningum sem gerðir eru í þessu skyni.
6.(a)    Hafi ávinningi verið breytt eða skipt í aðra eign má ráðstafa henni í stað ávinningsins með sama hætti og fjallað er um í grein þessari.
(b)         Hafi ávinningi verið blandað saman við eignir sem aflað hefur verið með lögmætum hætti má, án þess þó að neinn réttur til halds eða stöðvunar sé skertur, gera þær eignir upptækar allt að matsverði þess ávinnings sem blandað var saman við þær.
(c)          Tekjum eða öðrum hagnaði af
              (i)          ávinningi
               (ii)     eignum sem ávinningi hefur verið breytt eða skipt í, og
              (iii)    eignum sem ávinningi hefur verið blandað saman við,
            má ráðstafa með sama hætti og að sama marki og fjallað er um í grein þessari um ávinning.
7.     Hver aðili getur metið hvort sönnunarbyrði skuli snúið við hvað snertir lögmæti þess hvernig meintur ávinningur eða önnur eign sem láta má sæta upptöku er til komin, að því leyti sem slík ráðstöfun samræmist meginreglum landslaga hans og eðli málsmeðferðar fyrir rétti eða annars staðar.
8.     Eigi skal túlka ákvæði greinar þessarar til skerðingar á rétti grandlauss þriðja manns.
9.     Ekkert í grein þessari skal skerða gildi þeirrar reglu, að landslög aðila skulu ráða skilgreiningu og framkvæmd ráðstafana sem grein þessi fjallar um, og að um skuli fara í samræmi við þau.

6. gr.


FRAMSAL


1.     Grein þessi skal gilda um afbrot þau, sem aðilar lýsa refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.
2.     Afbrot þau sem grein þessi fjallar skuli talin meðal framsalsbrota í hverjum þeim framsalssamningi, sem fyrir hendi er milli aðila. Aðilar skuldbinda sig til að telja þau brot meðal framsalsbrota í hverjum þeim framsalssamningi, sem þeir gera á milli sín.
3.     Nú fær aðili, sem setur það skilyrði fyrir framsali að þjóðréttarsamningur sé fyrir hendi, beiðni um framsal frá öðrum aðila sem hann hefur ekki gert framsalssamning við, og má hann þá líta svo á að samnigur þessi sé lagalegur grundvöllur framsals vegna sérhvers afbrots sem grein þessi gildir um. Aðilar þeir sem krefjast þess að skýr ákvæði séu í settum lögum til að nota megi samning þennan sem lagalegan grundvöll til framsals skulu taka til athugunar að setja slík lög, eins og þörf kann að vera á.
4.     Aðilar þeir sem setja ekki það skilyrði fyrir framsali að þjóðréttarsamningur sé fyrir hendi skulu sín á milli viðurkenna afbrot þau sem grein þessi gildir um sem framsalsafbrot.
5.     Framsal skal háð þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þess aðila sem beðinn er um framsal eða í viðeigandi framsalssamningum, þar á meðal um ástæður þess að sá aðili sem beðinn er um framsal megi synja framsals.
6.     Þegar athuguð er beiðni sem tekið er við samkvæmt grein þessari má ríki það sem um framsal er beðið neita að taka hana til greina þegar dómstólar þess eða önnur lögbær yfirvöld hafa verulega ástæðu til að ætla að það myndi greiða fyrir því að einhver yrði látinn sæta lögsókn eða refsingu vegna kynþáttar, trúar, þjóðernis eða stjórnmálaskoðana, eða að það myndi af þessum sökum valda skaða einhverjum manni sem beiðnin snertir, ef fallist væri á hana.
7.     Aðilar skulu leitast við að hraða málsmeðferð við framsal og einfalda kröfur um hvernig sýnt skuli fram á málavexti við framsal vegna allra brota sem grein þessi gildir um.
8.     Í samræmi við ákvæði landslaga sinna og framsalssamninga getur sá aðili sem beðinn er um framsal, þegar hann hefur gengið úr skugga um að aðstæður séu brýnar og réttlæti það, hneppt mann sem leitað er framsals á og staddur er á landsvæði hans í gæslu að beiðni þess aðila sem biður um framsal, eða gert aðrar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nærveru hans við málsmeðferð vegna framsalsins.
9.     Án þess að skertur sé réttur aðila til að beita refsivaldi því sem honum ber að landslögum sínum skal hann, ef meintur brotamaður hittist fyrir á landsvæði hans:
(a)    sé maðurinn á þeim forsendum sem í (a)-lið 2. mgr. 4. gr. segir ekki framseldur vegna brots sem lýst er refsivert skv. 1. mgr. 3. gr., leggja málið fyrir lögbær stjórnvöld sín til saksóknar, nema samkomulag sé gert um annað við þann aðila sem um framsal biður,
(b)    sé maðurinn ekki framseldur vegna slíks brots, en aðilinn hefur fellt það undir refsilögsögu sína skv. (b)-lið 2. mgr. 4. gr., leggja málið fyrir lögbær stjórnvöld sín til saksóknar, nema sá aðili sem um framsal biður óski annars til þess að hann haldi lögsögu sinni.
10.     Ef synjað er um framsal sem beiðst er til fullnustu refsingar vegna þess að sá sem framselja skyldi er ríkisborgari þess aðila sem beðinn er um framsal, skal sá aðili ef lög hans leyfa það og eftir því sem þau lög kveða á um taka til athugunar að beiðni þess aðila sem biður um framsal að koma fram refsingu þeirri sem lögð hefur verið á samkvæmt lögum þess aðila sem biður um framsal, eða því sem eftir stendur af henni.
11.     Aðilar skulu leitast við að koma á með sér tvíhliða og fjölhliða samkomulagi til framkvæmdar á framsali og til að auka virkni þess.
12.     Aðilar geta tekið til athugunar að koma á með sér tvíhliða eða fjölhliða samkomulagi, ýmist í hverju einstöku tilviki eð almennt, um flutning manna til heimalands síns sem dæmdir hafa verið í fangavist eða aðra frelsissviptingu vegna afbrota sem grein þessi gildir um, svo þeir geti afplánað refsingu sína þar.

7. gr.


GAGNKVÆM DÓMSMÁLAAÐSTOÐ


1.     Aðilar skulu samkvæmt grein þessari veita hver öðrum alla þá dómsmálaaðstoð sem við verður komið við rannsókn, málshöfðun og dómsmeðferð vegna afbrota sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.
2.     Um gagnkvæma dómsmálaaðstoð sem veitt skal samkvæmt grein þessari má biðja í öllum eftirtöldum tilgangi:
(a)    til öflunar sönnunargagna eða skýrslna af mönnum,
(b)    til birtingar skjala,
(c)    við að framkvæma leit og leggja hald á muni,
(d)    til að rannsaka muni og vettvang,
(e)    til að afla upplýsinga og sönnunargagna,
(f)    til að afla frumrita eða staðfestra afrita af viðeigandi skjölum og gögnum, þar með töldum skjölum banka og fyrirtækja og bókhalds- og viðskiptagögnum,
(g)    til að finna og rekja ávinning, eignir, tæki eða aðra hluti til þess að sýna fram á málsatvik.
3.     Aðilar geta veitt hver öðrum gagnkvæma dómsmálaaðstoð í sérhverju formi öðru, sem leyft er í landslögum þess aðila sem um aðstoð er beðinn.
4.     Þegar um það er beðið skulu aðilar að svo miklu leyti sem samrýmist landslögum þeirra og framkvæmdarvenjum greiða fyrir og stuðla að því að menn sem fallast á að veita aðstoð eða taka þátt í málsmeðferð, þar á meðal menn sem eru í gæslu, séu viðstaddir eða tiltækir.
5.     Aðili skal ekki neita um gagnkvæma dómsmálaaðstoð samkvæmt grein þessari á grundvelli bankaleyndar.
6.     Ákvæði þessarar greinar skulu ekki hafa áhrif á skuldbindingar samkvæmt neinum öðrum þjóðréttarsamningi, tvíhliða eða fjölhliða, sem nú eða síðar gildir um gagnkvæma dómsmálaaðstoð í sakamálum að meira eða minna leyti.
7.     8.–19. mgr. þessarar greinar skulu gilda um beiðnir sem lagðar eru fram samkvæmt grein þessari ef viðkomandi aðilar eru ekki bundnir samningi um gagnkvæma dómsmálaaðstoð. Séu aðilar bundnir slíkum samningi skulu samsvarandi ákvæði hans gilda nema aðilarnir komi sér saman um að beita 8.–19. mgr. í stað þeirra.
8.     Aðilar skulu tilnefna stofnun eða, ef með þarf, stofnanir, sem bera skulu ábyrgð á og hafa heimild til að framfylgja beiðnum um gagnkvæma dómsmálaaðstoð eða framsenda þær lögbærum yfirvöldum til framkvæmdar. Tilkynna skal framkvæmdarstjóra um stofnunina eða stofnanirnar. Beiðnir um gagnkvæma dómsmálaaðstoð og öll erindi sem þær varða skulu sendar milli þeirra stofnana sem aðilarnir tilnefna, en ekki skal þetta þó hafa áhrif á rétt aðila til að senda beiðnir og erindi eftir diplómatískum leiðum, eða, ef brýnar ástæður eru til að aðilarnir verða á það sáttir, fyrir milligöngu Alþjóðasamtaka sakamálalögreglu, ef unnt er.
9.     Beiðnir skulu vera skriflegar og á tungumáli sem sá aðili sem tekur við beiðni samþykkir. Tungumál það eða þau sem hver aðili samþykkir skulu tilkynnt framkvæmdastjóra. Séu brýnar ástæður til og aðilarnir eru á það sáttir má bera beiðnir fram munnlega, en þegar skal þá staðfesta þær skriflega.
10.     Í beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð skal greina:
(a)    Hver stofnun sú er, sem beiðnina ber fram,
(b)    Efni og eðli rannsóknarinnar, saksóknarinnar eða málsmeðferðarinnar sem beiðnin varðar, og nafn og starfssvið stjórnvalds þess sem annast rannsóknina, saksóknina eða málsmeðferðina,
(c)    Samantekt um málsatvik, nema ef beiðnin er borin fram til að fá skjal birt,
(d)    Hvernig aðstoðar er beiðst, og hvernig sá aðili sem aðstoðar beiðist óskar að málsmeðferð skuli hagað í einstökum atriðum, eftir því sem við á,
(e)    Þar sem unnt er, deili á þeim mönnum sem beiðnin varðar, hvar þeir eru, og hvert þjóðerni þeirra er,
(f)    Hver er tilgangur þess að skýrslna, upplýsinga eða aðgerða er óskað.
11.     Aðili sá sem er beðinn um aðstoð getur óskað frekari upplýsinga þegar slíkt virðist nauðsynlegt til að framkvæma beiðnina samkvæmt landslögum hans, eða þegar það getur greitt fyrir framkvæmdinni.
12.     Beiðni skal framkvæmd samkvæmt landslögum þess aðila sem um aðstoð er beðinn og eftir því sem sem unnt er og að því leyti sem það er ekki andstætt lögum hans, eftir þeirri málsmeðferð sem tilgreind er í beiðninni.
13.     Aðili sá sem um aðstoð biður skal ekki senda frá sér né nota upplýsingar eða skýrslur, sem aðili sá sem um aðstoð var beðinn veitti, til annarrar rannsóknar, saksóknar eða málsmeðferðar en þeirrar sem tilgreind var í beiðni hans, nema aðili sá sem um aðstoð var beðinn samþykki það fyrirfram.
14.     Aðili sá sem um aðstoð biður getur óskað þess að sá aðili sem um aðstoð er beðinn haldi beiðninni og efni hennar leyndri, að öðru leyti en því sem nauðsynlegt er til að framkvæma hana. Geti sá aðili sem um aðstoð er beðinn ekki sinnt ósk um leynd skal hann þegar tilkynna þeim aðila um það, sem um aðstoð biður.
15.     Synja má um gagnkvæma dómsmálaaðstoð:
(a)    Ef beiðnin er ekki borin fram í samræmi vð ákvæði greinar þessarar,
(b)    Ef aðili sá sem beðinn er um aðstoð telur að framkvæmd beiðninnar sé líkleg til að hafa áhrif til skerðingar á fullveldi sínu, öryggi, allsherjarreglu eða öðrum meginhagsmunum,
(c)    Ef landslög þess aðila sem um aðstoð er beðinn myndu standa því í vegi að stjórnvöld hans gætu framkvæmt þær aðgerðir sem um er beðið vegna sambærilegs afbrots, ef rannsókn, saksókn eða málsmeðferð vegna þess hefði verið á valdi þeirra sjálfra,
(d)    Ef það væri andstætt réttarkerfi þess aðila sem um aðstoð er beðinn, að því leyti sem gagnkvæma dómsmálaaðstoð varðar, að fallast á beiðnina.
16.     Tilgreina skal ástæður fyrir synjun á beiðni um gagnkvæma dómsmálaaðstoð.
17.     Aðili sá sem beðinn er um aðstoð getur frestað gagnkvæmri dómsmálaaðstoð á þeim forsendum að hún myndi trufla rannsókn, saksókn eða málsmeðferð sem stendur yfir. Í slíkum tilvikum skal aðili sá sem beðinn er um aðstoð ráðfæra sig við þann aðila sem biður um aðstoð til að ákvarða hvort eigi að síður sé unnt að veita hina umbeðnu aðstoð samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem aðilinn sem beðinn er um aðstoð telur nauðsynlegt að setja.
18.     Vitni, sérfræðingur eða annar maður sem fellst á að gefa skýrslu í meðferð máls eða að aðstoða við rannsókn, saksókn eða dómsmeðferð á landsvæði aðila sem biður um aðstoð skal ekki sæta saksókn, gæslu, refsingu eða neinni annarri skerðingu á persónufrelsi sínu á því landsvæði vegna athafna, athafnaleysis eða sakfellinga sem áttu sér stað áður en hann yfirgaf landsvæði þess aðila sem um aðstoð er beðinn. Grið þessi skulu haldast uns vitnið, sérfræðingurinn eða maðurinn hefur, þrátt fyrir að hafa haft tækifæri til þess órofið í fimmtán daga, eða um hvert það tímaskeið sem aðilarnir eru ásáttir um, frá þeim degi er yfirvöld hafa tjáð honum að dómsmálayfirvöldum sé ekki lengur þörf á nærveru hans, eigi að síður dvalið um kyrrt á landsvæðinu af fúsum og frjálsum vilja, eða komið þangað aftur af fúsum og frjálsum vilja, hafi hann yfirgefið það.
19.     Venjulegur kostnaður af framkvæmd beiðni skal borinn af þeim aðila sem um aðstoð er beðinn ef viðkomandi aðilar verða ekki ásáttir um annað. Sé eða verði þörf á verulegum eða óvenjulegum útgjöldum til að sinna beiðninni skulu aðilarnir ráðgast um hvernig ákvarða skuli skilmála og skilyrði fyrir framkvæmd hennar og á hvern hátt kostnaðurinn skuli greiddur.
20.     Eftir því sem þörf krefur skulu aðilar athuga möguleika á að gera með sér tvíhliða eða fjölhliða samninga eða samkomulag sem þjóna myndi tilgangi þessarar greinar, gera framkvæmd hennar árangursríkari eða gefa ákvæðum hennar aukið gildi.

8. gr.
FLUTNINGUR MÁLSMEÐFERÐAR

    Aðilar skulu athuga möguleika á að flytja málsmeðferð á milli sín til saksóknar vegna brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt 1. mgr. 3. gr., í þeim tilvikum þar sem talið er að það þjóni betur réttarvörsluhagsmunum.

9. gr.


ÖNNUR SAMVINNA OG ÞJÁLFUN


1.     Aðilar skulu hafa með sér náið samstarf í samræmi við réttar- og stjórnsýslukerfi sín, í því skyni að efla árangur löggæsluaðgerða til að kveða niður afbrot þau, sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. Á grundvelli tvíhliða eða fjölhliða samninga eða samkomulags skal sérstök áhersla lögð á að:
(a)    Koma á og viðhalda boðskiptaleiðum milli lögbærra stofnana og embætta sinna til að greiða fyrir öruggum og skjótum skiptum á upplýsingum varðandi alla þætti þeirrar háttsemi sem lýst er refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., þar á meðal varðandi tengsl við aðra afbrotastarfsemi, ef aðilarnir telja ástæður til þess,
(b)    Starfa hver með öðrum við eftirgrennslan varðandi háttsemi sem lýst er refsiverð skv. 1. mgr. 3. mgr. og er fjölþjóðlegs eðlis, um:
         (i)    Hverjir það eru, hvar þeir eru og hvað þeir aðhafast sem grunaðir eru um að tengjast háttsemi sem lýst er refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.,
         (ii)    Tilflutning á ávinningi eða eignum, sem fengnar eru af slíkum brotum,
          (iii)    Tilflutning á fíkniefnum, skynvilluefnum, efnum sem skráð eru í skrám I og II með samningi þessum, og tækjum sem notuð eru eða ætluð eru til afnota við að fremja slík brot,
(c)    Þar sem við á og heimilt er samkvæmt landslögum, og þannig að gætt sé öryggis starfsmanna og leyndar um einstakar aðgerðir, að mynda sameiginlega starfshópa til að framkvæma ákvæði greinar þessarar. Embættismenn hvers aðila sem í slíkum starfshópi eru skulu starfa á þann hátt sem lögbær stjórnvöld þess aðila sem aðgerðirnar skulu fara fram hjá veita heimild til, og skulu hlutaðeigandi aðilar í öllum slíkum tilvikum sjá um að fullveldi þess aðila sem aðgerðirnar fara fram hjá sé virt til hlítar,
(d)    Sjá fyrir nauðsynlegu magni efna til greiningar eða rannsóknarnota, þar sem það á við,
(e)    Greiða fyrir aukinni samræmingu á störfum lögbærra stofnana sinna og embætta og stuðla að skiptum á starfsmönnum og öðrum sérfræðingum, þar á meðal með því að senda samvinnufulltrúa.
2.     Hver aðili skal að því marki sem nauðsynlegt er hlutast til um, móta eða bæta sérstakar þjálfunaráætlanir fyrir löggæslumenn sína og aðra starfsmenn, þar með talda tollgæslumenn, sem vinna skulu gegn afbrotum þeim sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. Í slíkum áætlunum skal sérstök áhersla lögð á:
(a)    Aðferðir við að koma upp um og vinna bug á afbrotum þeim sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.,
(b)    leiðir og aðferðir sem menn þeir nota sem grunaðir eru um að tengjast afbrotum sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., sérstaklega í gegnumflutningsríkjum, og viðeigandi gagnráðstafanir,
(c)    að fylgjast með inn- og útflutningi fíkniefna og skynvilluefna, og efna sem tilgreind eru á skrám I og II,
(d)    að finna og fylgjast með tilfærslum á ávinningi og eignum sem leiddar eru af brotum þeim sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., fíkniefnum og skynvilluefnum og efnum sem tilgreind eru á skrám I og II, og tækjum sem notuð eru við eða ætluð til nota við að fremja slík brot,
(e)    aðferðir sem notaðar eru við að yfirfæra, fela eða dylja slíkan ávinning, eignir og tæki,
(f)    öflun sönnunargagna,
(g)    aðferðir við eftirlit á fríverslunarsvæðum og í fríhöfnum,
(h)    nútíma löggæsluaðferðir.
3.     Aðilar skulu styðja hverjir aðra við að skipuleggja og framkvæma rannsóknar- og þjálfunaráætlanir sem ætlaðar eru til sameiginlegrar nýtingar á sérþekkingu á þeim sviðum sem fjallað er um í 2. mgr. greinar þessarar, og skulu í því skyni einnig eftir því sem við á nota svæðisbundnar og fjölþjóðlegar ráðstefnur og málþing til að stuðla að samvinnu og hvetja til umræðu um málefni sem varða þá sameiginlega, þar á meðal sérstök viðfangsefni varðandi gegnumflutiningsríki og þarfir þeirra.

10. gr.
ALÞJÓÐLEG SAMVINNA OG AÐSTOÐ VIÐ
GEGNUMFLUTNINGSRÍKI

1.     Aðilar skulu beint sín á milli eða fyrir milligöngu þar til bærra alþjóðastofnana eða svæðastofnana vinna saman við að aðstoða og styðja að því marki sem unnt er gegnumflutningsríki, en einkum þó þróunarlönd, sem slíkrar aðstoðar eða stuðnings þarfnast, með tæknilegum samvinnuáætlunum um viðskiptabönn og aðrar áþekkar aðgerðir.
2.     Aðilar geta beint sín á milli eða fyrir milligöngu þar til bærra alþjóðastofnana eða svæðastofnana skuldbundið sig til að veita slíkum gegnumflutningsríkjum fjárhagsaðstoð til að bæta og styrkja hið nauðsynlega innra skipulag sitt til að hafa eftirlit með og hindra verslun með ólögleg efni.
3.     Aðilar geta gert með sér tvíhliða eða fjölhliða samninga eða samkomulag til að auka árangur alþjóðlegrar samvinnu samkvæmt grein þessari og geta í því sambandi tekið til athugunar að gera fjárhagslegar ráðstafanir.

11. gr.
AFHENDING UNDIR EFTIRLITI

1.     Ef meginreglur réttarkerfis hvers um sig leyfa, skulu aðilar eftir því sem þeim er unnt gera nauðsynlegar ráðstafanir til að beita megi með viðeigandi hætti afhendingu undir eftirliti á alþjóðlegum vettvangi á grundvelli samninga eða tilhögunar sem samkomulag hefur náðst um, til þess að þekkja deili á mönnum sem tengjast brotum sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. og til að sækja þá til saka.
2.     Ákvarðanir um afhendingu undir eftirliti skulu teknar í hverju tilviki fyrir sig og má þegar þörf krefur taka til athugunar fjárhagslega tilhögun og samkomulag varðandi beitingu lögsögu þeirra aðila sem mál varðar.
3.     Ólöglegar sendingar sem samþykkt er að afhenda undir eftirliti má með samþykki þeirra aðila sem mál varðar stöðva í flutningi og senda síðan áfram þannig að fíkniefnin eða skynvilluefnin séu að nokkru leyti látin óhreyfð eða fjarlægð, eða annað látið í þeirra stað.

12. gr.
EFNI SEM ALGENGT ER AÐ NOTUÐ SÉU VIÐ
ÓLÖGLEGA FRAMLEIÐSLU FÍKNIEFNA OG SKYNVILLUEFNA

1.     Aðilar skulu gera þær ráðstafanir sem þeir telja viðeigandi til að hindra að efnum sé komið undan, sem tilgreind eru í skrám I og II og notuð eru við ólöglega framleiðslu fíkniefna og skynvilluefna, og skulu vinna saman í þessum tilgangi.
2.     Búi aðili eða starfsnefndin yfir upplýsingum sem að mati hans eða hennar kunna að krefjast þess að efni verði fellt inn í skrá I eða skrá II skal tilkynna það framkvæmdarstjóra og veita honum þær upplýsingar sem styðja tilkynninguna. Málsmeðferð sú sem lýst er í 2.–7. mgr. þessarar greinar gildir einnig þegar aðili eða starfsnefndin búa yfir upplýsingum sem réttlæta að efni sé fellt niður úr skrá I eða II, eða að efni sé flutt úr annarri skránni í hina.
3.     Framkvæmdarstjóri skal senda slíkar tilkynningar og allar þær upplýsingar sem hann telur við eiga til aðilanna og nefndarinnar, og til starfsnefndarinnar í þeim tilvikum er aðili sendir tilkynningu. Aðilar skulu senda framkvæmdarstjóra athugsemdir sínar við tilkynningu hans, ásamt öllum upplýsingum þeim til stuðnings sem auðveldað geta starfsnefndinni mat sitt og nefndinni ákvörðun sína.
4.     [Nú telur starfsnefndin, með tilliti til umfangs, mikilvægis og fjölbreytni leyfilegrar notkunar efnis og þess hvort unnt og hversu auðvelt sé að nota önnur efni bæði í leyfilegum tilgangi og til ólöglegrar framleiðslu fíkniefna og skynvilluefna:
(a)    að það sé oft notað við ólöglega framleiðslu fíkniefnis eða skynvilluefnis,
(b)    að magn og umfang ólöglegrar framleiðslu fíkniefnis eða skynvilluefnis sé alvarleg ógnun við almennt heilsufar eða valdi alvarlegum félagslegum vanda, þannig að aðgerða á alþjóðavettvangi sé þörf,
og skal hún þá greina nefndinni frá mati sínu á efninu, þar á meðal líkleg áhrif þess að efninu sé bætt inn í skrá I eða II á bæði leyfileg not og ólöglega framleiðslu, ásamt tillögum um aðgerðir til eftirlits sem í ljósi mats hennar myndu við eiga, ef um það er að ræða.] 1)
1) Aths. þýð.: Hér er texti 4. mgr. 12. gr. þýddur eins og hann er tilgreindur á leiðréttingarskjali Fjárhags- og félagsmálaráðs dags. 20. desember 1988, merktu E/CONF. 82/15/Corr.2, en ekki eins og hann er tilgreindur í upphaflegum heildartexta samningsins.
5.     Nefndin getur með hliðsjón af þeim athugasemdum sem aðilar láta í té og athugasemdum og tillögum starfsnefndarinnar, en mat hennar skal vera ákvarðandi hvað snertir vísindaleg atriði, svo og með eðlilegri hliðsjón af öllum öðrum atriðum sem máli skipta, ákveðið með atkvæðum tveggja þriðju hluta nefndarmanna að fella efni inn í skrá I eða II.
6.     Framkvæmdarstjóri skal greina öllum ríkjum og öðrum sem eru eða eiga rétt á að verða aðilar að samningi þessum, svo og starfsnefndinni, frá öllum ákvörðunum nefndarinnar samkvæmt grein þessari. Skulu slíkar ákvarðanir öðlast fullt gildi gagnvart hverjum aðila eitt hundrað og áttatíu dögum eftir dagsetningu erindis hans.
7.(a)    Ákvarðanir nefndarinnar samkvæmt grein þessari skulu sæta endurskoðun af hálfu ráðsins að beiðni aðila, sé beiðni um það lögð fram innan eitt hundrað og áttatíu daga frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun. Beiðni um endurskoðun skal send framkvæmdarstjóra ásamt öllum viðeigandi upplýsingum sem liggja henni til grundvallar.
(b)        Framkvæmdarstjóri skal senda nefndinni, starfsnefndinni og öllum aðilum afrit beiðni um endurskoðun ásamt viðeigandi upplýsingum, og bjóða þeim að leggja fram athugasemdir sínar innan níutíu daga. Allar athugasemdir sem mótteknar eru skulu sendar ráðinu til athugunar.
(c)        Ráðið getur staðfest eða hrundið ákvörðun nefndarinnar. Tilkynning um ákvörðun ráðsins skal send öllum ríkjum og öðrum sem eru eða eiga rétt á að verða aðilar að samningi þessum, svo og nefndinni og starfsnefndinni.
8.(a)    Án þess að skert sé almennt gildi ákvæða 1. mgr. þessarar greinar og ákvæða samningsins frá 1961, samningsins frá 1961 með breytingum og samningsins frá 1971, skulu aðilar gera þær ráðstafanir sem þeir telja við eiga til að fylgjast með framleiðslu og dreifingu efna í skrá I og skrá II, sem fram fer á landsvæði þeirra.
(b)     Í þessu skyni geta aðilar:
              (i)         Haft eftirlit með öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem fást við framleiðslu og dreifingu slíkra efna,
              (ii)         gert fyrirtæki og aðstöðu þar sem slík framleiðsla eða dreifing kann að fara fram háða skilyrtu starfsleyfi,
              (iii)    krafist þess að leyfishafar afli sérstaks leyfis til að stunda framangreindan rekstur,
              (iv)    komið í veg fyrir að slík efni safnist fyrir hjá framleiðendum og dreifingaraðilum í meira magni en því sem eðlileg starfræksla og ríkjandi markaðsaðstæður heimta.
9.     Hvað snertir efni á skrám I og II skal hver aðili gera eftirtaldar ráðstafanir:
(a)         Koma á og halda uppi skipan til að fylgjast með millilandaverslun með efni á skrám I og II, til að betur megi greina viðskipti sem grunsamleg eru. Slíkri skipan skal komið á í náinni samvinnu við framleiðendur, innflytjendur, útflytjendur, heildsala og smásala, sem skulu greina lögbærum yfirvöldum frá grunsamlegum pöntunum og viðskiptum.
(b)         Heimila að hald sé lagt á hvert það efni sem skráð er á skrá I eða II, ef nægileg ástæða er til að ætla að það skuli nota við ólöglega framleiðslu fíkniefnis eða skynvilluefnis.
(c)         Tilkynna svo fljótt sem unnt er lögbærum stjórnvöldum og embættum viðkomandi aðila ef ástæða er til að álíta að efni á skrá I eða II sé innflutt, útflutt eða gegnumflutt til ólöglegrar framleiðslu fíkniefna eða skynvilluefna, og sérstaklega greina þá einnig frá upplýsingum um greiðslutilhögun og aðra nauðsynlega þætti sem álitið byggist á.
(d)         Gera skylt að merkja og skjalfesta á viðeigandi hátt innflutning og útflutning. Á verslunarskjölum, svo sem vörureikningum, farmskrám, tollskjölum, flutningsskjölum og öðrum sendingarskjölum skal greina heiti efni þeirra sem innflutt eru eða útflutt eins og þau eru skráð á skrá I eða II, magn það sem inn- eða útflutt er, og nöfn og heimilisföng útflytjandans og innflytjandans, svo og móttakandans, ef það er fyrir hendi.
(e)         Sjá um að skjöl þau sem um er fjallað í (d)-lið þessarar málsgreinar séu geymd í tvö ár hið skemmsta, og að hægt sé að gera þau tiltæk lögbærum stjórnvöldum til skoðunar.
10.(a)    Auk þess sem greinir í 9. mgr. og samkvæmt beiðni þess aðila sem hagsmuna hefur að gæta til framkvæmdarstjóra skal hver aðili sem efni á skrá I er flutt út frá tryggja að áður en útflutningurinn fer fram sendi lögbær stjórnvöld hans lögbærum stjórnvöldum innflutningsríkisins eftirfarandi upplýsingar:
                 (i)         Nöfn og heimilisföng útflytjanda og innflytjanda, svo og móttakandans, ef það er fyrir hendi,
                  (ii)         heiti efnisins á skrá I,
                   (iii)     magn efnisins sem útflutt skal,
                   (iv)    áætlaða innflutningshöfn og áætlaðan sendingardag,
                   (v)         sérhverjar aðrar upplýsingar sem aðilar verða ásáttir um.
(b)         Aðili getur gert strangari eða harðari eftirlitsráðstafanir en í málsgrein þessari segir, telji hann þær æskilegar eða nauðsynlegar.
11.     Þegar aðili veitir öðrum aðila upplýsingar skv. 9. og 10. mgr. þessarar greinar getur sá aðili sem upplýsingarnar veitir krafist þess að aðilinn sem fær þær haldi leyndum öllum upplýsingum um iðnað, atvinnurekstur, viðskipti, sérfræðiverk eða vinnuaðferðir, sem leynt eiga að fara.
12.     Hver aðili skal árlega veita starfsnefndinni upplýsingar í því formi og á þann hátt sem hún ákveður og á eyðublöðum sem hún lætur í té, um:
(a)         Magn efna á skrám I og II sem hald er lagt á, og hvar þau eru upprunnin, ef það er vitað,
(b)         öll þau efni sem ekki eru á skrá I eða II, sem í ljós er leitt að hafi verið notuð við ólöglega framleiðslu fíkniefna eða skynvilluefna, og aðili telur svo mikilvæg að vekja beri athygli starfsnefndarinnar á þeim,
(c)         aðferðir til að koma efnum undan eða framleiða þau ólöglega.
13.     Starfsnefndin skal árlega gefa nefndinni skýrslu um framkvæmd þessarar greinar, og skal nefndin með hæfilegum fresti endurskoða hvort tilgreiningar á skrám I og II séu fullnægjandi og viðeigandi.
14.     Ákvæði greinar þessar taka ekki til lyfja eða annarra tilreiddra efna sem innihalda efni á skrám I eða II, sem eru þannig samsett að nýting efnanna eða úrvinnsla þeirra geti ekki farið fram án vandkvæða eða með aðferðum sem auðveldlega eru tiltækar.

13. gr.
TÆKI OG BÚNAÐUR

    Aðilar skulu gera þær ráðstafanir sem þeir telja við eiga til að hindra að verslað sé með eða komið undan tækjum og búnaði til framleiðslu eða tilbúnings á fíkniefnum og skynvilluefnum, og skulu eiga með sér samvinnu í þessu markmiði.

14. gr.


AÐGERÐIR TIL AÐ UPPRÆTA ÓLÖGLEGA RÆKTUN


FÍKNIEFNAJURTA OG ÚTRÝMA ÓLÖGLEGRI


EFTIRSPURN EFTIR FÍKNIEFNUM OG SKYNVILLUEFNUM


1.     Engar ráðstafanir sem aðilar gera samkvæmt samningi þessum skulu ganga skemmra en ákvæði þau sem gilda um upprætingu á ólöglegri ræktun jurta sem innihalda fíkniefni og skynvilluefni og um útrýmingu á ólöglegri eftirspurn eftir fíkniefnum og skynvilluefnum samkvæmt samningnum frá 1961, samningnum frá 1961 með breytingum, og samningnum frá 1971.
2.     Hver aðili skal gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir ólöglega ræktun á og útrýma jurtum sem innihalda fíkniefni eða skynvilluefni, svo sem ópíumvalmúa, kókarunna og kannabisjurtum, sem ræktaðar eru ólöglega á landsvæði hans. Með þeim ráðstöfunum sem gripið er til skulu grundvallarmannréttindi virt og eðlilegt tillit tekið til þeirra venjubundnu nota sem leyfileg eru, þar sem gögn liggja fyrir um hefð fyrir slíkum notum, og til umhverfisverndar.
3.(a)    Aðilar geta haft með sér samvinnu til að gera útrýmingaraðgerðir árangursríkari. Meðal annars getur slík samvinna þar sem við á falið í sér aðstoð við samræmda atvinnuuppbyggingu í sveitum er leiði til þess að aðrir kostir bjóðist í stað ólöglegrar ræktunar, sem staðið getur undir sér efnahagslega. Taka ber til athugunar þætti á borð við aðgang að mörkuðum, hverjar auðlindir séu tiltækar og ríkjandi félagshagfræðilegar aðstæður áður en slíkum uppbyggingaráætlunum í sveitum er hrint í framkvæmd. Aðilar geta samið um hverjar þær samvinnuráðstafanir aðrar, sem við eiga.
(b)        Aðilar skulu einnig greiða fyrir skiptum á vísindalegum og tæknilegum upplýsingum og upplýsingum um framkvæmd rannsókna varðandi útrýmingu.
(c)        Hvarvetna þar sem landamæri aðila liggja saman skulu þeir leitast við að eiga með sér samvinnu um útrýmingarráðstafanir á landsvæðum hvers um sig sem að landamærunum liggja.
4.     Aðilar skulu gera viðeigandi ráðstafanir sem beinast að því að útrýma eða draga úr ólöglegri eftirspurn eftir fíkniefnum og skynvilluefnum með það að markmiði að draga úr mannlegum þjáningum og uppræta fjárhagslegan hvata til ólöglegrar verslunar. Ráðstafanir þessar má meðal annars grundvalla á tilmælum Sameinuðu þjóðanna, sérhæfðra stofnana Sameinuðu þjóðanna svo sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinar, og annarra þar til hæfra stofnana, og á heildardrögum þeim um samvinnu á vettvangi ýmissa fræðigreina sem samþykkt voru af alþjóðaráðstefnunni um misnotkun lyfja og ólöglega meðferð þeirra sem haldin var 1987, að því leyti sem lýtur að stofnunum á vegum ríkisvalds og utan þess og viðleitni einkaaðila á sviði forvarna, meðferðar og endurhæfingar. Geta aðilar komið á með sér tvíhliða eða fjölhliða samkomulagi eða tilhögun sem miðar að því að uppræta eða draga úr ólöglegri eftirspurn eftir fíkniefnum og skynvilluefnum.
5.     Aðilar geta einnig gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að eyða eða ráðstafa með lögmætum hætti á fyrri stigum málsmeðferðar fíkniefnum, skynvilluefnum og efnum á skrá I eða II sem hald hefur verið lagt á eða gerð hafa verið upptæk, og til að nota megi sem sönnunargögn efni í nauðsynlegu magni sem greiningarniðurstaða liggur réttilega fyrir um.

15. gr.
FLYTJENDUR Í ATVINNUREKSTRI

1.     Aðilar skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að flutningatæki sem flytjendur reka í atvinnuskyni séu ekki notuð við að fremja brot þau sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr., og geta slíkar ráðstafanir tekið til sérstakrar tilhögunar sem komið er á í samráði við flytjendur í atvinnurekstri.
2.     Hver aðili skal krefjast þess af flytjendum í atvinnurekstri að þeir geri eðlilegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að flutningatæki þeirra séu notuð til að fremja afbrot sem lýst hafa verið refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr. Meðal slíkra varúðarráðstafana geta verið:
(a)     Sé aðalatvinnustöð flytjanda í atvinnurekstri á landsvæði aðila:
         (i)    Að þjálfa starfsmenn við að greina úr grunsamlegar vörusendingar eða grunsamlegt fólk,
          (ii)    að hvetja til ráðvendni starfsmanna,
(b)     Ef flytjandi í atvinnurekstri stundar starfsemi innan landsvæðis aðila:
         (i)    Að fá farmskrár afhentar fyrirfram, hvarvetna þar sem það er unnt,
         (ii)    að nota gáma með innsiglum sem sýna hvort þau hafi verið rofin, og hver hefur innsiglað,
         (iii)    að tilkynna viðkomandi yfirvöldum eins fljótt og unnt er um allar grunsamlegar aðstæður sem kunna að tengjast því að framin séu brot sem lýst eru refsiverð skv. 1. mgr. 3. gr.
3.     Hver aðili skal leitast við að tryggja að flytjendur í atvinnurekstri og viðkomandi yfirvöld á inn- og útflutningsstöðum og öðrum tollgæslusvæðum starfi saman til þess að koma í veg fyrir aðgang að flutningatækjum eða farmi án heimildar, og til að framkvæma viðeigandi öryggisráðstafanir.

16. gr.
FLUTNINGSSKJÖL OG MERKINGAR Á ÚTFLUTNINGSVÖRUM

1.     Hver aðili skal krefjast þess að löglegar útflutningssendingar fíkniefna og skynvilluefna séu réttilega skjalfestar. Auk skjalfestingar samkvæmt kröfum sem gerðar eru í 31. gr. samningsins frá 1961, 31. gr. samningsins frá 1961 með breytingum og 12. gr. samningsins frá 1971 skulu verslunarskjöl, svo sem vörureikningar, farmskrár, tollskjöl, flutningsskjöl og önnur sendingarskjöl tilgreina heiti fíkniefnanna eða skynvilluefnanna sem flutt eru út, á þann hátt sem gert er í viðeigandi fylgiskjölum með samningnum frá 1961, samningnum frá 1961 með breytingum og samningnum frá 1971, magn það sem flutt er út, nafn og heimilisfang útflytjanda og innflytjanda, og vörumóttakanda, ef það er fyrir hendi.
2.     Hver aðili skal krefjast þess að sendingar fíkniefna og skynvilluefna séu ekki ranglega merktar.

17. gr.
ÓLÖGLEG VERSLUN SJÓLEIÐIS

1.     Í samræmi við alþjóðlegan hafrétt skulu aðilar hafa með sér alla þá samvinnu sem unnt er til að stöðva ólöglega verslun sjóleiðis.
2.     Aðili sem hefur rökstuddan grun um að skip er siglir undir fána hans eða sýnir ekki fána eða skrásetningarmerki fáist við ólöglega verslun getur óskað aðstoðar annarra aðila við að stöðva þessa notkun þess. Þeir aðilar sem beðnir eru um slíkt skulu veita aðstoðina á þann hátt sem þeim er unnt.
3.     Aðili sem hefur rökstuddan grun um að skip sem neytir réttar til siglinga að alþjóðalögum og siglir undir fána eða sýnir skrásetningarmerki annars aðila fáist við ólöglega verslun getur tilkynnt það fánaríkinu, óskað staðfestingar á skráningu, og sé hún staðfest óskað heimildar fánaríkisins til að grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart skipinu.
4.     Skv. 3. mgr. eða samningum sem í gildi eru milli aðila, eða samkvæmt hverju því samkomulagi eða tilhögun sem þeir koma annars á með sér, getur fánaríkið meðal annars heimilað beiðniríkinu:
(a)     Að ganga um borð í skipið,
(b)    að leita í skipinu,
(c)    ef ummerki finnast um tengsl við ólöglega verslun, að grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart skipinu, farmi þess eða mönnum um borð.
5.     Þegar gripið er til aðgerða samkvæmt þessari grein skulu hlutaðeigandi aðilar hafa hliðsjón af þeirri nauðsyn að öryggi mannslífa á hafinu sé ekki stefnt í hættu, öryggi skipsins, og því að ekki séu skertir verslunarhagsmunir eða lagalegir hagsmunir fánaríkisins eða þeirra ríkja annarra sem hagsmuna hafa að gæta.
6.     Í samræmi við skuldbindingar sínar í 1. mgr. þessarar greinar getur fánaríkið sett þau skilyrði fyrir heimild sinni sem það og beiðniríkið verða ásátt um, það á meðal skilyrði varðandi ábyrgð.
7.     Hvað 3. og 4. mgr. þessarar greinar snertir skal aðili svara fljótt og greiðlega beiðni annars aðila um ákvörðun um hvort skip sem siglir undir fána hans eigi rétt á að gera það, og beiðni um heimild sem sett er fram skv. 3. mgr. Er hver aðili öðlast aðild að samningi þessum skal hann tilnefna stjórnvald, eða, ef með þarf, stjórnvöld, til að taka við síkum beiðnum og svara þeim. Slíkar tilnefningar skulu fyrir milligöngu framkvæmdarstjóra tilkynntar öllum öðrum aðilum innan mánaðar frá því er þær eru gerðar.
8.     Aðili sem gripið hefur til einhverra aðgerða samkvæmt grein þessari skal þegar tilkynna viðkomandi fánaríki árangur þeirra.
9.     Aðilar skulu taka til athugunar að koma á með sér tvíhliða samkomulagi eða svæðasamkomulagi eða tilhögun til að framkvæma ákvæði þessarar greinar, eða stuðla að auknum árangri þeirra.
10.     Aðgerðir skv. 4. mgr. þessarar greinar skulu einungis framkvæmdar af herskipum eða herloftförum, eða öðrum skipum eða loftförum sem greinilega eru auðkennd og sjá má að gegna stjórnvaldsfyrirmælum samkvæmt heimild.
11.     Við allar aðgerðir sem gripið er til samkvæmt grein þessari skal höfð hliðsjón af þeirri nauðsyn að valda ekki truflun eða skerðingu á réttindum og skyldum strandríkja eða beitingu lögsögu af þeirra hálfu samkvæmt reglum alþjóðlegs hafréttar.

18. gr.
FRÍVERSLUNARSVÆÐI OG FRÍHAFNIR

1.     Aðilar skulu gera ráðstafanir til að stöðva ólöglega verslun með fíkniefni, skynvilluefni og efni á skrám I og II á fríverslunarsvæðum og í fríhöfnum, sem ekki ganga skemmra en þær sem beitt er á öðrum landsvæðum þeirra.
2.     Aðilar skulu leitast við að:
(a)    Fylgjast með flutningi á vörum og fólki á fríverslunarsvæðum og í fríhöfnum, og veita lögbærum stjórnvöldum sínum í því skyni heimild til að leita í farmi og skipum við komu og brottför, þar á meðal í lystiförum og fiskiskipum, svo og í loftförum og ökutækjum, en einnig á áhöfnum og farþegum og í farangri þeirra, þar sem við á,
(b)    koma á og halda uppi skipan til að greina vörusendingar sem grunur leikur á að innihaldi fíkniefni, skynvilluefni eða efni á skrám I og II er fara frá eða koma til fríverslunarsvæða eða fríhafna,
(c)    koma á og halda uppi skipan til að fylgjast með því sem á sér stað á hafnar- og viðlegusvæðum og á flugvöllum og landamærastöðvum innan fríverslunarsvæða og í fríhöfnum.

19. gr.
NOTKUN PÓSTÞJÓNUSTUNNAR

1.     Í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningum Alþjóða póstmálasambandsins og grundvallarreglur landslaga sinna skulu aðilar gera ráðstafanir til að stöðva notkun póstþjónustunnar til ólöglegrar verslunar, og skulu þeir hafa með sér samvinnu í þeim tilgangi.
2.     Meðal ráðstafana þeirra sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. þessarar greinar skulu einkum vera:
(a)    Samræmdar aðgerðir til að koma í veg fyrir og stöðva notkun póstþjónustunnar til ólöglegrar verslunar,
(b)    að þar til bærir löggæslumenn komi á og beiti aðferðum til rannsóknar og eftirlits sem ætlað er að greina ólöglegar sendingar fíkniefna, skynvilluefna og efna á skrá I og II í pósti,
(c)    aðgerðir á sviði löggjafar sem gera kleift að afla þeirra sönnunargagna á viðeigandi hátt, sem þörf er á vegna meðferðar máls í dómi.

20. gr.
UPPLÝSINGAR SEM AÐILAR VEITI

1.     Aðilar skulu fyrir milligöngu framkvæmdarstjóra veita nefndinni upplýsingar um hvernig samningur þessi verkar á landsvæðum þeirra, þar á meðal:
(a)    Texta laga og reglugerða sem settar eru til að framkvæma samning þennan,
(b)    málsatvik í málum um ólöglega verslun innan lögsögu þeirra, sem þeir telja mikilvæg vegna þess að ný tilhneiging komi þar fram, vegna magns þess sem um ræðir, vegna uppruna efnanna, eða vegna þeirra aðferða sem beitt hefur verið við brotin.
2.     Aðilar skulu veita upplýsingar þessar á þann hátt og svo tímanlega sem nefndin kann að óska eftir.

21. gr.
STÖRF NEFNDARINNAR

    Nefndin hefur heimild til að fjalla um öll málefni sem varða tilgang samnings þessa, en einkum
(a)    skal nefndin á grundvelli þeirra upplýsinga sem aðilar veita skv. 20. gr. fylgjast með framkvæmd samningsins,
(b)    getur nefndin komið fram með tillögur og almenn tilmæli á grundvelli athugunar á upplýsingum sem aðilar veita,
(c)    getur nefndin vakið athygli starfsnefndarinnar á hverju því málefni er varða kann störf starfsnefndarinnar,
(d)    skal nefndin í málum sem starfsnefndin vísar til hennar skv. (b)-lið 1. mgr. 22. gr. grípa til þeirra aðgerða sem hún telur við eiga,
(e)    getur nefndin eftir þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í 12. gr. breytt skrá I og II,
(f)    getur nefndin vakið athygli ríkja sem ekki eru aðilar að samningnum á ákvörðunum og tilmælum sem samþykkt eru samkvæmt samningi þessum, í því skyni að þau taki til athugunar aðgerðir sem samræmast þeim.

22. gr.
STÖRF STARFSNEFNDARINNAR

1.     Án þess að hafa áhrif á störf nefndarinnar skv. 21. gr. eða störf starfsnefndarinnar og nefndarinnar samkvæmt samningnum frá 1961, samningnum frá 1961 með breytingum eða samningnum frá 1971,
(a)    hafi starfsnefndin á grundvelli athugunar á upplýsingum sem hún, framkvæmdarstjóri eða nefndin hefur tiltækar, eða upplýsinga sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa látið í té, ástæðu til að ætla að markmiðum samnings þessa í málefnum sem varða valdsvið hennar sé ekki náð, getur hún boðið aðilum, einum eða fleiri, að veita allar upplýsingar sem máli skipta.
(b)    Hvað snertir 12., 13. og 16. gr.:
         (i)    Að afloknum aðgerðum skv. (a)-lið þessarar greinar getur starfsnefndin, telji hún víst að það sé nauðsynlegt, skorað á þann aðila sem um ræðir að gera þær ráðstafanir til úrbóta sem með tilliti til aðstæðna virðast nauðsynlegar til að framkvæmd verði ákvæði 12., 13. og 16. gr.
          (ii)    Áður en aðgerðir skv. (iii) hér að neðan eru framkvæmdar skal starfsnefndin fara með það sem trúnaðarmál sem henni og hlutaðeigandi aðila hefur farið á milli samkvæmt undanfarandi liðum.
         (iii)    Komist starfsnefndin að raun um að viðkomandi aðili hafi ekki gert ráðstafanir til úrbóta sem skorað hefur verið á hann að gera samkvæmt þessum staflið, getur hún vakið athygli aðilanna, ráðsins og nefndarinnar á málinu. Í hverri þeirri skýrslu, sem starfsnefndin kann að birta samkvæmt þessum lið skulu sjónarmið hlutaðeigandi aðila einnig tilgreind, ef hann óskar þess.
2.     Hverjum þeim aðila, sem hefur beinna hagsmuna að gæta um málefni sem fjallað er um á fundi starfsnefndarinnar samkvæmt þessari grein skal boðið að láta sækja fundinn fyrir sína hönd.
3.     Í tilvikum þar sem ákvörðun starfsnefndarinnar samkvæmt grein þessari er ekki samþykkt samhljóða skal geta sjónarmiða minni hlutans.
4.     Ákvarðanir starfsnefndarinnar samkvæmt grein þessari skulu teknar með atkvæðum tveggja þriðju hluta allra nefndarmanna.
5.     Er starfsnefndin rækir störf sín skv. (a)-lið 1. mgr. þessarar greinar skal hún sjá um að trúnaður sé virtur um allar upplýsingar er henni kunna að berast.
6.     Ábyrgð nefndarinnar samkvæmt þessari grein tekur ekki til framkvæmdar á alþjóðasamningi eða samkomulagi sem aðilar gera með sér samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
7.     Ákvæði þessarar greinar taka ekki til ágreinings milli aðila sem fellur undir ákvæði 32. gr.

23. gr.
SKÝRSLUR STARFSNEFNDARINNAR

1.     Starfsnefndin skal árlega gera skýrslu um störf sín þar sem unnið er úr þeim upplýsingum sem henni eru tiltækar og þar sem við á lýst útskýringum sem aðilar hafa veitt eða óskað hefur verið af þeim, ef um það er að ræða, og tilgreindar athugasemdir og tilmæli sem starfsnefndin kann að vilja gera. Starfsnefndin getur gert þær skýrslur aðrar sem hún telur þörf á. Skal leggja þær fyrir ráðið fyrir milligöngu nefndarinnar, en nefndin getur gert þær athugasemdir sem henni þykir ástæða til.
2.     Skýrslur nefndarinnar skulu sendar aðilum og skal framkvæmdarstjóri síðan birta þær. Aðilar skulu leyfa óhefta dreifingu þeirra.

24. gr.
BEITING STRANGARI RÁÐSTAFANA
EN KRAFIST ER Í SAMNINGI ÞESSUM

    Aðili getur gert harðari eða strangari ráðstafanir en kveðið er á um í samningi þessum ef hann telur slíkar ráðstafanir æskilegar eða nauðsynlegar til að koma í veg fyrir eða stöðva ólöglega verslun.

25. gr.
ENGIN FRÁVIK FRÁ RÉTTINDUM OG SKYLDUM
SAMKVÆMT FYRRI ALÞJÓÐASAMNINGUM

    Í ákvæðum samnings þessa skulu ekki talin felast frávik frá réttindum sem aðilar njóta eða skyldum sem þeir hafa tekið á sig samkvæmt samningnum frá 1961, samningnum frá 1961 með breytingum eða samningnum frá 1971.

26. gr.
UNDIRRITUN

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg frá 20. desember 1988 til 28. febrúar 1989, og síðan í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, af hálfu
(a)    allra ríkja,
(b)    Namibíu, sem Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram fyrir,
(c)    svæðastofnana um efnahagssamvinnu sem bærar eru til að stunda samningaviðræður um, semja um og framkvæma atriði sem samningur þessi fjallar um, og gilda tilvísanir í samningi þessum til aðila, ríkja eða embætta um þær stofnanir innan þeirra takmarka sem valdmörk þeirra setja.

27. gr.
FULLGILDING, STAÐFESTING, SAMÞYKKT
EÐA FORMLEG STAÐFESTINGARGERÐ

1.     Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt af hálfu ríkja og af hálfu Namibíu, sem Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram fyrir, og formlegri staðfestingargerð af hálfu svæðasamtaka um efnahagssamvinnu, sem fjallað er um í (c)-lið 26. gr. Fullgildingar-, staðfestingar- eða samþykktarskjöl og skjöl um formlegar staðfestingargerðir skulu afhent framkvæmdarstjóra til varðveislu.
2.     Í skjölum sínum um formlega staðfestingargerð skulu svæðasamtök um efnahagssamvinnu lýsa því hvar valdmörk þeirra liggja hvað snertir málefni sem samningur þessi gildir um. Skulu samtökin einnig tilkynna framkvæmdarstjóra um allar breytingar á valdmörkum sínum hvað snertir málefni sem samningur þessi gildir um.

28. gr.
AÐILD

1.     Samningur þessi skal liggja frammi til aðildar af hálfu allra ríkja, af hálfu Namibíu, sem Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram fyrir, og af hálfu svæðasamtaka um efnahagssamvinnu, sem fjallað er um í (c)-lið 26. gr. Skal aðild fara fram með afhendingu aðildarskjals til framkvæmdarstjóra.
2.     Í aðildarskjölum sínum skulu svæðasamtök um efnahagssamvinnu lýsa því hvar valdmörk þeirra liggja hvað snertir málefni sem samningur þessi gildir um. Skulu samtökin einnig tilkynna framkvæmdarstjóra um allar breytingar á valdmörkum sínum hvað snertir málefni sem samningur þessi gildir um.

29. gr.


GILDISTAKA


1.     Samningur þessi skal öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag er ríki eða Namibía, sem Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram fyrir, afhenda framkvæmdarstjóra til varðveislu hið tuttugasta fullgildingar-, staðfestingar-, samþykkis- eða aðildarskjal.
2.     Gagnvart hverju ríki eða Namibíu, sem Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram fyrir, sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningi þessum eftir að tuttugasta fullgildingar-, staðfestingar-, samþykkis- eða aðildarskjal hefur verið afhent, skal samningurinn öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag er fullgildingar-, staðfestingar-, samþykkis-, eða aðilarskjal hefur verið afhent.
3.     Gagnvart hverjum þeim svæðasamtökum um efnahagssamvinnu, sem fjallað er um í (c)-lið 26. gr., sem afhenda skjal um formlega staðfestingargerð eða aðildarskjal, skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir afhendinguna, eða á þeim degi er samningurinn öðlast gildi skv. 1. mgr. þessarar greinar, hvort sem síðar verður.

30. gr.
UPPSÖGN

1.     Aðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til framkvæmdarstjóra.
2.     Uppsögn skal öðlast gildi gagnvart viðkomandi aðila einu ári eftir þann dag er framkvæmdarstjóri veitti tilkynningunni viðtöku.

31. gr.
BREYTINGAR

1.     Hver aðili getur gert tillögur til breytinga á samningi þessum. Skal aðilinn senda framkvæmdarstjóra texta breytingarinnar og rök fyrir henni, er hann skal síðan framsenda öðrum aðilum og spyrja þá hvort þeir samþykki hina fyrirhuguðu breytingu. Hafi fyrirhugaðri breytingu sem þannig hefur verið dreift til aðila ekki verið hafnað af neinum þeirra innan tuttugu og fjögurra mánaða frá dreifingu hennar skal litið svo á sem hún hafi verið samþykkt, og skal hún öðlast gildi gagnvart aðila níutíu dögum eftir að hann hefur afhent framkvæmdarstjóra skjal þar sem hann lýsir samþykki sínu við að vera bundinn af breytingunni.
2.     Hafi einhver aðili hafnað fyrirhugaðri breytingu skal framkvæmdarstjóri ráðfæra sig við aðilana, og óski meirihluti þeirra þess skal hann leggja málið ásamt þeim athugasemdum sem aðilarnir kunna að hafa gert fyrir ráðið, sem getur ákveðið að kalla saman ráðstaefnu skv. 4. mgr. 62. gr. stofnskrár hinna Sameinuðu þjóða. Breytingarbókun skal gerð um hverja þá breytingu sem af slíku ráðstefnuhaldi leiðir. Skal þess krafist að samþykki við að vera bundinn af ákvæðum slíkrar bókunar sé sérstaklega tjáð framkvæmdarstjóra.

32. gr.
LAUSN DEILUMÁLA

1.     Nú rís deila milli tveggja eða fleiri aðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa, og skulu aðilar þá ræðast við í því skyni að leysa deiluna með samningi, rannsókn, milligöngu, sátt, gerð, aðstoð svæðastofnana eða dómsmeðferð, eða á annan friðsamlegan hátt að þeirra eigin vali.
2.     Hverri þeirri deilu sem ekki verður leyst á þann hátt sem lýst er í 1. mgr. þessarar greinar skal að ósk einhvers ríkis sem aðild á að deilunni vísað til ákvörðunr alþjóðadómstólsins.
3.     Nú á svæðastofnun um efnahagssamvinnu sem fjallað er um í (c)-lið 26. gr. aðild að deilu sem ekki er unnt að leysa á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar, og getur hún þá fyrir milligöngu ríkis sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum farið þess á leit að ráðið biðji um ráðgjafarálit skv. 65. gr. samþykkta dómstólsins, en litið skal svo á sem álitið geri út um málið.
4.     Hvert ríki getur við undirritun eða fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt samnings þessa, eða við aðild, eða hver svæðastofnun um efnahagssamvinnu við formlega staðfestingargerð eða aðild, lýst því yfir að viðkomandi aðili telji sig óbundinn af 2. og 3. mgr. þessarar greinar. Aðrir aðilar skulu ekki bundnir ákvæðum 2. og 3. mgr. gagnvart aðilum sem gefið hafa slíka yfirlýsingu.
5.     Hver sá aðili sem gefið hefur yfirlýsingu skv. 4. mgr. þessarar greinar getur hvenær sem er afturkallað hana með tilkynningu til framkvæmdarstjóra.

33. gr.
GILDIR TEXTAR

    Arabískur, kínverskur, enskur, franskur, rússneskur og spænskur texti samnings þessa eru jafngildir.

34. gr.
VÖRSLUAÐILI

    Framkvæmdarstjóri skal vera vörsluaðili samnings þessa.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa lögfullt umboð, undirritað samning þennan.
    GERT Í VÍNARBORG, í einu frumriti, hinn tuttugasta desember 1988.



Viðauki.

Skrá I
Efedrín
Ergómetrín
Ergótamín
Lýsergín sýra
1-fenýl- 2-própanón
Pseudóefedrín
    Sölt efna þeirra sem tilgreind eru á skrá þessari, hvarvetna þar sem slík sölt geta verið til.

Skrá II
Ediksýru anhýdríð
Asetón
Antranílsýra
Etýl eter
Fenýlediksýra
Píperidín
    Sölt efna þeirra sem tilgreind eru á skrá þessari, hvarvetna þar sem slík sölt geta verið til.



Fylgiskjal III.


SAMNINGUR UM ÞVÆTTI, LEIT, HALD OG UPPTÖKU
ÁVINNINGS AF AFBROTUM


INNGANGUR

    Aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki er undirritað hafa samning þennan,

    sem líta til þess að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu aðildarríkja þess,

    eru sannfærð um að fylgja verði sameiginlegri refsiréttarstefnu er miðast að vernd þjóðfélagsins,

    líta svo á að í baráttu við alvarlega glæpi, sem eru vaxandi alþjóðlegt vandamál, sé nauðsynlegt að beita nútímalegum og áhrifaríkum ráðum sem eru alþjóðleg að umfangi,

    telja að eitt af þeim ráðum sé að svipta afbrotamenn afrakstri afbrota sinna,

    og líta svo á að til að ná því markmiði verði einnig að koma á alþjóðlegri samvinnutilhögun, er starfi sem greiðlegast,

    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


I. KAFLI
HUGTAKANOTKUN
1. gr.
Hugtakanotkun.

    Í samningi þessum merkir:
    „ávinningur“ hvaða efnahagsleg gæði sem er, sem aflað er með afbroti. Getur hann verið hver sú eign, sem fellur undir skilgreiningu b-liðar þessarar greinar,
    „eign“ eign af hvaða tagi sem er, hvort sem hún er efnisleg eða óefnisleg, laus eða föst og skjöl eða gögn sem að lögum sýna eignarrétt að slíkum eignum eða réttindi til þeirra,
    „tæki“ hverja þá eign sem með einhverjum hætti er notuð eða nota skal, að öllu eða einhverju leyti, til að drýgja brot með,
    „upptaka“ hverja þá refsingu eða ráðstöfun sem dómur kveður á um að aflokinni málsmeðferð vegna afbrots eða afbrota, sem hefur í för með sér endanlega sviptingu eignar,
    „frumbrot“ hvert það afbrot sem ávinningur hefur orðið til við, ef ávinningurinn getur orðið andlag brots sem skilgreint er í 6. gr. samnings þessa.

II. KAFLI

RÁÐSTAFANIR SEM GERÐAR SKULU Á VETTVANGI EINSTAKA RÍKJA

2. gr.

Ráðstafanir vegna upptöku.

1.     Hver aðili skal með löggjöf og á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að honum sé unnt að gera upptæk tæki og ávinning, eða eignir sem samsvara þeim ávinningi sem um er að ræða.
2.     Hver aðili getur við undirritun, eða þegar hann afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt, lýst því yfir í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að 1. mgr. þessarar greinar eigi aðeins við um þau brot eða þá flokka brota sem tilgreind eru í yfirlýsingunni.

3. gr.

Rannsóknar- og bráðabirgðaráðstafanir.


    Hver aðili skal með löggjöf og á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að honum sé unnt að greina og rekja eignir sem gera má upptækar samkvæmt 1. mgr. 2. gr., og koma í veg fyrir alla verslun með slíkar eignir, yfirfærslu þeirra og ráðstöfun.

4. gr.

Sérstakar rannsóknarheimildir og rannsóknaraðferðir.


1.     Hver aðili skal með löggjöf og á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að heimila dómstólum eða öðrum þar til bærum yfirvöldum að mæla svo fyrir að gögn með upplýsingum um bankastarfsemi, fjármál og verslunarviðskipti skuli afhent eða hald lagt á þau, svo framkvæma megi aðgerðir þær sem fjallað er um í 2. og 3. gr. Aðili má ekki neita að gera ráðstafanir samkvæmt þessari grein á grundvelli bankaleyndar.
2.     Hver aðili skal taka til athugunar að gera með löggjöf og á annan hátt þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að honum sé unnt að beita sérstökum rannsóknaraðferðum sem auðvelda að ávinningur sé greindur og rakinn, og afla sönnunargagna sem að því lúta. Aðferðir þessar geta meðal annars falið í sér að teknar séu ákvarðanir um vöktun, eftirlit, fjarskiptahlustanir eða aðgang að tölvukerfum, eða að tiltekin skjöl skuli afhent.

5. gr.

Réttarvernd.


    Hver aðili skal með löggjöf eða á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að tryggja að þeir sem aðgerðir skv. 2. og 3. gr. hafa áhrif á og hagsmuna eiga að gæta njóti virkra lagalegra úrræða til verndar réttindum sínum.

6. gr.

Þvættisbrot.


1.     Hver aðili skal með löggjöf og á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að eftirtalin háttsemi varði refsingu að landslögum, þegar um ásetning er að ræða:
    að afla annarra verðmæta í stað eignar eða afsala eign í þeirri vitneskju að hún sé leidd af broti eða brotum í þeim tilgangi að fela eða dylja að eignin var ólöglega til komin eða til að aðstoða hvern þann mann sem hlut á að slíku broti eða brotum við að komast hjá afleiðingum gerða sinna, að lögum,
    að fela eða dylja raunverulegt eðli eignar, tilurð hennar, staðsetningu, ráðstöfun, flutning, réttindi er tengjast henni, eða eignarrétt að henni, í þeirri vitneskju að hún sé ávinningur,
    og að því leyti sem það samræmist stjórnskipunarreglum og grundvallarreglum réttarkerfis hans:
    að afla eignar eða hafa vörslur hennar eða afnot í þeirri vitneskju, þegar við henni var tekið, að hún var ávinningur,
    að eiga hlutdeild í, sammælast um eða leggja á ráðin um, gera tilraun til, veita hjálp eða aðstoða við, auðvelda eða veita ráð til að fremja hvert það brot sem lýst er refsivert samkvæmt grein þessari.
2.     Þegar ákvæði 1. mgr. þessarar greinar eru framkvæmd eða þeim beitt, gildir eftirfarandi:
    Ekki skiptir máli hvort frumbrotið fellur undir refsilögsögu aðila.
    Kveða má svo á að lýsing á brotum í þeirri málsgrein taki ekki til þeirra sem frömdu frumbrotið.
    Álykta má um vitneskju, ásetning eða tilgang sem eðlisþátt í broti samkvæmt þeirri málsgrein af hlutlægum, raunverulegum málavöxtum.
3.     Hver aðili getur gert þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að allar eða einhverjar þeirra athafna sem fjallað er um í 1. mgr. séu lýstar refsiverðar að landslögum í einhverjum eða öllum tilvikum þegar brotamaður:
    hefði mátt vita að eign var ávinningur,
    framdi verknaðinn í auðgunarskyni,
    framdi verknaðinn til að stuðla að framkvæmd frekari brotastarfsemi.
4.     Hver aðili getur við undirritun eða þegar hann afhendir fullgildingar-, staðfestingar, samþykktar- eða aðildarskjal sitt, lýst því yfir í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að 1. mgr. þessarar greinar eigi aðeins við um þau frumbrot eða þá flokka frumbrota sem tilgreind eru í yfirlýsingunni.

III. KAFLI

ALÞJÓÐLEG SAMVINNA

1. þáttur.

Meginreglur um alþjóðlega samvinnu.

7. gr.

Almennar meginreglur og ráðstafanir til alþjóðlegrar samvinnu.


1.     Aðilar skulu eins og framast er unnt eiga samvinnu um að rannsaka og höfða mál sem miða að upptöku tækja og ávinnings.
2.     Hver aðili skal með löggjöf og á annan hátt gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að hann geti með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í þessum kafla sinnt beiðnum um:
    upptöku á tilteknum eignum sem eru ávinningur eða tæki, svo og upptöku á ávinningi sem felst í kröfu um peningagreiðslu samsvarandi ávinningnum að verðgildi,
    aðstoð við rannsókn og bráðabirgðaráðstafanir með tilliti til upptöku af öðru hvoru því tagi sem fjallað er um í a-lið.

2. þáttur.


Rannsóknaraðstoð.


8. gr.

Aðstoðarskylda.


    Aðilar skulu eins og framast er unnt veita hver öðrum, eftir beiðni þar um, alla aðstoð við að greina og rekja tæki, ávinning og aðrar eignir sem sætt geta upptöku. Slík aðstoð skal meðal annars felast í hverjum þeim ráðstöfunum sem beinast að því að leggja fram og tryggja sönnunargögn um tilvist, staðsetningu eða tilflutning, eðli, lagalega stöðu eða verðmæti slíkra eigna.

9. gr.

Framkvæmd aðstoðar.


    Aðstoð skv. 8. gr. skal framkvæmd eftir því sem landslög þess aðila sem beiðni er beint til leyfa og í samræmi við þau, og á þann hátt sem beiðnin tilgreinir, að því marki sem það samrýmist þeim lögum.

10. gr.

Upplýsingar veittar án beiðni.


    Fari það ekki í bága við rannsókn eða rekstur máls á vegum hans sjálfs, getur aðili án undanfarandi beiðni afhent öðrum aðila upplýsingar um tæki og ávinning þegar hann telur að þær kunni að vera viðtökuaðilanum að gagni við að byrja eða framkvæma rannsókn eða meðferð refsimáls, eða kunni að leiða til þess að beiðni verði borin fram samkvæmt þessum kafla.

3. þáttur.


Bráðabirgðaráðstafanir.


11. gr.

Skylda til bráðabirgðaráðstafana.


1.     Aðili skal að beiðni annars aðila sem höfðað hefur refsimál eða mál til upptöku eigna gera nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir, svo sem að kyrrsetja eða leggja hald á eign, eða til að koma í veg fyrir viðskipti með eign, yfirfærslu hennar eða ráðstöfun, ef hún getur síðar orðið andlag kröfu um upptöku eða ef síðar kann að vera unnt að uppfylla slíka kröfu með henni.
2.     Aðili sem veitt hefur viðtöku beiðni um upptöku skv. 13. gr. skal, sé þess óskað, gera þær ráðstafanir sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar hvað snertir hverja þá eign sem er andlag beiðninnar eða ef síðar kann að vera unnt að uppfylla beiðnina með henni.

12. gr.

Framkvæmd bráðabirgðaráðstafana.


1.     Bráðabirgðaráðstafanir skv. 11. gr. skulu framkvæmdar eftir því sem landslög þess aðila leyfa sem beiðni er beint til, í samræmi við þau, og á þann hátt sem beiðnin tilgreinir, að því marki sem það samrýmist þeim lögum.
2.     Áður en fallið er frá bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt þessari grein skal sá aðili sem beiðni er beint til ávallt þegar unnt er veita þeim aðila sem beiðnina leggur fram kost á að færa fram rök fyrir því að ráðstöfunin skuli haldast.

4. þáttur.


Upptaka.


13. gr.

Skylda til upptöku.


1.     Aðili sem tekið hefur við beiðni annars aðila um upptöku á tækjum eða ávinningi á landsvæði sínu skal:
    framfylgja ákvörðun dómstóls þess aðila sem beiðni leggur fram um upptöku tækjanna eða ávinningsins, eða
    leggja beiðnina fyrir lögbær yfirvöld sín til þess að fá heimild til upptöku, og fylgja þeirri heimild eftir, sé hún veitt,
2.     Til framkvæmdar á b-lið 1. mgr. þessarar greinar skal hver aðili ávallt þegar nauðsynlegt er vera bær til að höfða mál til upptöku samkvæmt eigin lögum.
3.     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda einnig um upptöku sem felst í því að krafa er gerð um greiðslu peninga sem svara til verðmætis ávinnings, og eign sem fullnustu má leita í er staðsett hjá þeim aðila sem beiðni er beint til. Ef svo stendur á og krafan er ekki greidd skal sá aðili sem beiðni er beint til, þegar koma skal fram upptöku samkvæmt 1. mgr., leita fullnustu kröfunnar í hverri þeirri eign sem tiltæk er til þess.
4.     Ef beiðni um upptöku varðar ákveðna eign geta aðilar samið svo sín á milli að sá aðili sem beiðni er beint til megi koma upptökunni fram með þeim hætti að krafist sé greiðslu peninga sem svara til verðmætis eignarinnar.

14. gr.


Framkvæmd upptöku.


1.     Um meðferð máls til ákvörðunar og um fullnustu upptöku skv. 13. gr. fer að lögum þess aðila sem beiðni er beint til.
2.     Sá aðili sem beiðni er beint til er bundinn af niðurstöðum um atvik máls eins og þær koma fram í sakfellingu eða ákvörðun dómstóls aðila sem beiðni leggur fram, eða að því leyti sem þau koma óbeint fram af sakfellingunni eða ákvörðuninni.
3.     Hver aðili getur við undirritun eða þegar hann afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt lýst því yfir í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að gildi 2. mgr. þessarar greinar sé háð þeim takmörkunum sem leiðir af stjórnskipunarlögum og meginreglum réttarkerfis hans.
4.     Ef ákvörðun um upptöku felst í greiðslu peninga skal þar til bært yfirvald þess aðila sem beiðni er beint til umreikna fjárhæðina í gjaldmiðil sinn á því gengi sem í gildi var þegar ákvörðun var tekin um að framfylgja upptökunni.
5.     Í máli skv. a-lið 1. mgr. 13. gr. á sá aðili sem beiðni leggur fram einn rétt á að taka ákvörðun um beiðni um endurskoðun upptökuákvörðunar.

15. gr.

Eignir sem gerðar hafa verið upptækar.


    Eignir sem gerðar hafa verið upptækar af þeim aðila sem beiðni er beint til skal ráðstafað af þeim aðila samkvæmt landslögum hans.

16. gr.

Réttur til upptöku og hámarksverðmæti þess upptæka.


1.     Beiðni um upptöku skv. 13. gr. hefur ekki áhrif á rétt þess aðila sem leggur hana fram til að framfylgja upptökuákvörðuninni sjálfur.
2.     Ekki má túlka neitt í samningi þessum á þann veg að heildarverðmæti upptekinnar eignar megi fara fram úr þeirri fjárhæð sem tilgreind er í upptökuákvörðun. Telji aðili að slíkt geti komið fyrir skulu þeir aðilar sem málið varðar eiga með sér viðræður til að hindra það.

17. gr.

Fangelsun vegna vangreiðslu.


    Sá aðili sem beiðni er beint til má ekki beita fangelsun vegna vangreiðslu né neinni annarri ráðstöfun til skerðingar á frelsi manns vegna beiðni skv. 13. gr., hafi sá aðili sem beiðni bar fram getið þess í beiðninni.

5. þáttur.


Synjun um samvinnu og frestun hennar.


18. gr.

Synjunarástæður.


1.     Synja má um samvinnu samkvæmt þessum kafla, ef:
    umbeðnar aðgerðir væru andstæðar grundvallarreglum laga þess aðila sem beiðni er beint til,
    framkvæmd beiðni er líkleg til að stofna í hættu fullveldi, öryggi, allsherjarreglu eða öðrum mikilvægum hagsmunum þess aðila sem beiðni er beint til,
    sá aðili sem beiðni er beint til telur að það mál sem hún varðar sé ekki svo mikilvægt að hinar umbeðnu aðgerðir séu réttlætanlegar,
    afbrot það sem beiðni lýtur að er stjórnmálaafbrot eða skattabrot,
    sá aðili sem beiðni er beint til telur að það myndi vera andstætt reglum sínum um ne bis in idem ef hinar umbeðnu aðgerðir væru framkvæmdar, eða
    það brot sem beiðni lýtur að teldist ekki afbrot samkvæmt lögum þess aðila sem beiðni er beint til, væri það framið í lögsögu hans. Hvað snertir samvinnu skv. 2. þætti á synjunarástæða þessi þó aðeins við að því leyti sem umbeðin aðstoð felur í sér þvingunaraðgerðir.
2.     Einnig má synja um samstarf skv. 2. þætti að því leyti sem umbeðin aðstoð felur í sér þvingunaraðgerðir, svo og um samstarf skv. 3. þætti, ef ekki væri unnt samkvæmt lögum þess aðila sem beiðni er beint til að gera hinar umbeðnu rannsóknar- eða réttarfarsráðstafanir í tengslum við sams konar mál innanlands.
3.     Þegar lög þess aðila sem beiðni er beint til krefjast þess má einnig synja um samstarf skv. 2. þætti að því leyti sem umbeðin aðstoð felur í sér þvingunaraðgerðir, svo og um samstarf skv. 3. þætti, ef umbeðnar ráðstafanir eða hverjar þær ráðstafanir aðrar sem sambærileg áhrif hafa væru aðeins leyfilegar samkvæmt lögum þess aðila sem beiðni leggur fram ef dómari eða annað yfirvald á sviði dómgæslu, þar með talinn opinber saksóknari, hefur veitt til þess heimild í starfi sínu á sviði refsimála.
4.     Einnig má synja um samstarf skv. 4. þætti þessa kafla ef:
    lög þess aðila sem beiðni er beint til kveða ekki á um upptöku vegna brots af því tagi sem beiðnin lýtur að,
    samvinna væri, þó með fyrirvara um þá skyldu sem kveðið er á um í 3. mgr. 13. gr., andstæð meginreglum þeirra landslaga aðila sem beiðni er beint til er fjalla um hámark eignaupptöku með tilliti til sambands afbrots og:
        i.    efnahagslegs hagræðis sem talið kann að verða ávinningur af því, eða
        ii.    eigna sem taldar kunna að verða tæki til að drýgja brotið með
    vegna fyrningar má eigi lengur beita upptöku samkvæmt lögum þess lands sem beiðni er beint til,
    beiðnin er ekki í tengslum við fyrri sakfellingu eða dómsákvörðun, eða við yfirlýsingu í slíkri ákvörðun um að eitt eða fleiri afbrot hafi verið framin, sem ákvörðun eða beiðni um upptöku byggðist á, eða
    upptöku verður annað hvort ekki framfylgt hjá þeim aðila sem beiðni leggur fram, eða ákvörðun um hana er enn áfrýjanleg með venjulegum hætti,
    beiðnin lýtur að upptökuákvörðun sem á rætur að rekja til ákvörðunar sem gerð er í fjarveru þess sem hún beinist gegn, og við málsmeðferð þess aðila sem beiðni leggur fram og leiddi til úrlausnarinnar var að mati þess aðila sem beiðni er beint ekki gætt lágmarksréttar til varnar sem viðurkennt er að beri hverjum þeim sem sakaður er um refsivert brot.
5.     Að því er 4. mgr. þessarar greinar varðar telst ákvörðun ekki tekin í fjarveru sökunauts:
    hafi hún verið staðfest eða tekin eftir að hlutaðeigandi hefur haldið uppi vörnum, eða
    hafi hún verið tekin á áfrýjunarstigi í máli sem hlutaðeigandi hefur áfrýjað.
6.     Þegar metið er í tengslum við ákvæði f-liðs 4. mgr. þessarar greinar hvort veittur hafi verið lágmarksréttur til varnar skal sá aðili sem beiðni er beint til hafa hliðsjón af því hvort hlutaðeigandi hefur vísvitandi reynt að komast undan réttvísinni eða hvort hann hefur ekki neytt lagalegra úrræða gegn þeirri úrlausn sem gerð var að honum fjarstöddum, þótt hann hafi átt þess kost. Hið sama gildir þegar hlutaðeigandi hefur verið löglega stefnt og hann hefur hvorki kosið að mæta né að óska þess að máli hans sé frestað.
7.     Aðili skal ekki synja um neina samvinnu samkvæmt þessum kafla á grundvelli bankaleyndar. Þegar landslög krefjast þess getur aðili óskað þess að beiðni um samvinnu sem felur í sér að bankaleynd sé rofin sé samþykkt af dómara eða öðru yfirvaldi á sviði dómgæslu, þar með töldum opinberum saksóknara, í meðferð starfa sinna á sviði refsimála.
8.     Eftirfarandi er með fyrirvara um það sem segir í b-lið 1. mgr. þessarar greinar:
    Sá aðili sem beiðni er beint til skal ekki bera það fyrir sig sem hindrun á að veita samvinnu samkvæmt þessum kafla, að sá sem rannsókn sætir eða upptökuákvörðun stjórnvalda þess aðila sem beiðni leggur fram beinist gegn, er lögpersóna.
    Ekki má bera fyrir sig að maður, sem ákvörðun um upptöku ávinnings beinist gegn, hafi síðan látist, eða það, að lögpersóna sem ákvörðun um upptöku ávinnings beinist gegn hafi síðan verið leyst upp, sem hindrun á því að samvinna sé veitt skv. a-lið 1. mgr. 13. gr.

19. gr.

Frestun.


    Sá aðili sem beiðni er beint til getur frestað því að framkvæma beiðni ef það myndi stofna í hættu rannsókn eða málarekstri eigin stjórnvalda.

20. gr.

Beiðni sinnt að hluta eða með skilyrðum.


    Áður en samvinnu samkvæmt þessum kafla er synjað eða frestað skal sá aðili sem beiðni er beint til, þegar við á og að höfðu samráði við þann aðila sem beiðni leggur fram, taka til athugunar hvort unnt sé að sinna beiðninni að hluta eða með þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg.

6. þáttur.


Tilkynningar um réttindi þriðja manns og um vernd þeirra.


21. gr.

Birting skjala.


1.     Aðilar skulu veita hver öðrum alla mögulega gagnkvæma aðstoð við birtingu réttarfarsskjala fyrir þeim sem bráðabirgðaráðstafanir og upptaka eigna varða.
2.     Grein þessari er í engu ætlað að hafa áhrif á:
    möguleika á því að senda réttarfarsskjöl fyrir atbeina póstþjónustunar beint til viðtakenda erlendis,
    þann möguleika að yfirmenn á sviði dómgæslu, embættismenn eða önnur þar til bær stjórnvöld þess aðila þar sem skjal á uppruna sinn birti réttarfarsskjöl beint fyrir atbeina stjórnvaldaerindreka eða yfirmanna á sviði dómgæslu, embættismanna eða annarra þar til bærra stjórnvalda þess aðila sem skjal skal sent til,
nema sá aðili sem skjal skal sent til veiti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins yfirlýsingu um hið gagnstæða þegar undirritun fer fram eða þegar hann afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt.
3.     Þegar réttarfarsskjöl, sem gefin hafa verið út hjá þeim aðila sem sendir þau, eru birt erlendis þeim sem bráðabirgðaráðstafanir eða upptökuákvarðanir varða, skal sá aðili tilgreina hver þau réttarúrræði eru, sem samkvæmt lögum hans eru tiltæk þeim.

22. gr.


Viðurkenning á erlendum ákvörðunum.


1.     Þegar fjallað er um beiðni um samvinnu skv. 3. eða 4. þætti skal sá aðili sem beiðni er beint til viðurkenna allar ákvarðanir á sviði dómgæslu sem teknar eru hjá þeim aðila sem beiðni leggur fram og lúta að réttindum sem þriðji maður telur til.
2.     Viðurkenningu má synja:
    ef þriðji maður hafði ekki nægilegt tækifæri til að halda fram rétti sínum,
    ef ákvörðunin er ósamrýmanleg ákvörðun sem þegar hefur verið tekin í sama máli hjá þeim aðila sem beiðni er beint til,
    ef ákvörðun er ósamrýmanleg allsherjarreglu hjá þeim aðila sem beiðni er beint til, eða
    ef ákvörðunin var tekin í andstöðu við ákvæði um skylduvarnarþing í lögum þess aðila sem beiðni er beint til.

7. þáttur.


Reglur um réttarfar og aðrar almennar reglur.


23. gr.

Miðstjórnvald.


1.     Aðilar skulu koma sér saman um miðstjórnvald, fleiri en eitt ef þörf krefur, sem sjá skulu um að senda beiðnir sem lagðar eru fram samkvæmt þessum kafla og svara þeim, framkvæma það sem um er beðið, eða framsenda þær þeim stjórnvöldum sem bær eru til að sinna þeim.
2.     Þegar hver aðili afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild skal hann skýra aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins frá heiti og aðsetri þeirra stjórnvalda sem tilnefnd hafa verið skv. 1. mgr. þessarar greinar.

24. gr.

Milliliðalaus samskipti.


1.     Miðstjórnvöld skulu hafa milliliðalaus samskipti hvert við annað.
2.     Í bráðatilvikum má senda beiðnir og orðsendingar samkvæmt þessum kafla milliliðalaust frá yfirvöldum á sviði dómgæslu, að meðtöldum opinberum saksóknurum, hjá þeim aðila sem beiðni leggur fram, til sams konar yfirvalda þess aðila sem beiðni er beint til. Þegar svo stendur á skal um leið senda afrit til miðstjórnvalds þess aðila sem beiðni er beint til, fyrir milligöngu miðstjórnvalds þess aðila sem beiðni leggur fram.
3.     Allar beiðnir og orðsendingar skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar má senda fyrir milligöngu Alþjóðasamtaka sakamálalögreglu (Interpol).
4.     Nú er beiðni send skv. 2. mgr. þessarar greinar og yfirvaldið er ekki bært til að fjalla um hana, og skal það þá framsenda beiðnina þar til bæru stjórnvaldi í ríkinu, og tilkynna milliliðalaust þeim aðila sem beiðni leggur fram, að það hafi verið gert.
5.     Beiðnir og orðsendingar skv. 2. þætti þessa kafla, sem ekki varða þvingunaraðgerðir, geta þar til bær stjórnvöld þess aðila sem beiðni leggur fram sent milliliðalaust þar til bærum stjórnvöldum þess aðila sem beiðni er beint til.

25. gr.

Form beiðni og tungumál.


1.     Allar beiðnir samkvæmt þessum kafla skulu vera skriflegar. Nota má nútímaaðferðir í fjarskiptum, svo sem símbréf.
2.     Að öðru leyti en því sem segir í 3. mgr. þessarar greinar skal ekki krefjast þess að beiðnir eða fylgiskjöl þeirra séu þýdd.
3.     Þegar undirritun fer fram eða þegar aðili afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt getur hann lýst því yfir í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að hann áskilji sér rétt til að krefjast þess að beiðnum til hans og fylgiskjölum með þeim fylgi þýðing á tungumál hans eða á eitt af opinberum tungumálum Evrópuráðsins, eða á eitt þessara tungumála sem hann tilgreinir. Við það tækifæri getur hann lýst sig reiðubúinn til að taka við þýðingum á eitthvert annað mál sem hann tilgreinir. Hinir aðilarnir mega þá beita gagnkvæmnisreglunni.

26. gr.

Löggilding.


    Skjöl sem send eru í tengslum við framkvæmd þessa kafla eru undanþegin kröfum um sérstaka staðfestingu.

27. gr.

Efni beiðni.


1.     Í beiðni um samvinnu samkvæmt þessum kafla skal tilgreina:
    hvaða yfirvald ber beiðni fram, og hvaða yfirvald fer með rannsókn eða málsrekstur,
    tilgang beiðni og ástæður hennar,
    efni máls, þar á meðal þau atvik sem máli skipta (svo sem hvenær, hvar og við hvaða aðstæður brot var framið) og sem rannsóknin eða málsreksturinn lýtur að, nema um sé að ræða beiðni um birtingu,
    og að því leyti sem samvinna felur í sér þvingunaraðgerðir:
        i.    texta viðeigandi laga, en sé það ekki unnt greinargerð um þau lög sem um málið gilda, og
        ii.    að þær ráðstafanir sem beiði er um eða hverjar þær ráðstafanir aðrar sem sömu áhrif hafa megi gera á landsvæði þess aðila sem beiðni leggur fram samkvæmt lögum hans sjálfs,
    og þegar nauðsynlegt er og að því marki sem unnt er:
        i.    deili á þeim manni eða mönnum sem um er að ræða, þar á meðal nafn, fæðingardag og fæðingarstað, þjóðerni og dvalarstaði, svo og aðsetur, ef um lögpersónu er að ræða, og
        ii.    hver sú eign er sem samvinna varðar, hvar hún er, tengsl hennar við viðkomandi mann eða menn, tengsl hennar við brotið ef um það er að ræða, svo og allar fyrirliggjandi upplýsingar um réttindi annarra í eigninni, og
    öll sérstök tilhögun á málsmeðferð, sem sá aðili sem beiðni leggur fram kann að óska eftir að fylgt sé.
2.     Í beiðni um bráðabirgðaráðstafanir skv. 3. þætti er lýtur að því að hald sé lagt á eign sem fullnustu má leita í samkvæmt upptökuákvörðun er felur í sér kröfu um greiðslu peninga skal einnig tilgreina hámarksfjárhæð þá sem fullnustu er leitað fyrir í eigninni.
3.     Að viðbættum þeim upplýsingum sem getið er um í 1. mgr. skal beiðni skv. 4. þætti einnig fylgja:
    ef a-liður 1. mgr. 13. gr. á við:
        i.        staðfest eintak upptökuákvörðunar dómara þess aðila sem beiðni leggur fram, og greinargerð um forsendur hennar, séu þær ekki tilgreindar í ákvörðuninni sjálfri,
        ii.        staðfesting þar til bærs stjórnvalds þess aðila sem beiðni leggur fram um að upptökuákvörðun sé fullnustuhæf og að hún sé ekki undir áfrýjun með venjulegum hætti,
        iii.    upplýsingar um að hve miklu leyti óskað er fullnustu ákvörðunarinnar, og
    iv.    upplýsingar um nauðsyn bráðabirgðaráðstafana.
    ef b-liður 1. mgr. 13. gr. á við, greinargerð um þau málsatvik sem byggt er á af þeim aðila sem beiðni leggur fram, er nægir til að sá aðili sem beiðni er beint til geti aflað ákvörðunar samkvæmt eigin lögum,
    ef þriðji maður hefur átt þess kost að krefjast réttar síns, skjöl þar sem sýnt er fram á að svo hafi verið gert.

28. gr.

Gallar á beiðni.


1.     Nú fullnægir beiðni ekki ákvæðum þessa kafla eða veittar upplýsingar nægja ekki til að aðili sá sem beiðni er beint til geti fjallað um hana, og getur hann þá farið þess á leit við þann aðila sem beiðni leggur fram að hann breyti beiðninni eða veiti viðbótarupplýsingar henni til fyllingar.
2.     Sá aðili sem beiðni er beint til getur sett lokafrest til móttöku slíkra breytinga eða viðbótarupplýsinga.
3.     Meðan beðið er breytinga eða viðbótarupplýsinga sem óskað hefur verið vegna beiðni skv. 4. þætti þessa kafla getur sá aðili sem beiðni er beint til gert hverja þá ráðstöfun sem fjallað er um í 2. og 3. þætti þessa kafla.

29. gr.

Fleiri en ein beiðni.


1.     Nú fær sá aðili sem beiðni er beint til fleiri en eina beiðni skv. 3. og 4. þætti þessa kafla sem lúta að sama manni eða eign, og hindrar það þá ekki að aðilinn sinni þeim beiðnum sem varða bráðabirgðaráðstafanir.
2.     Ef fleiri en ein beiðni er lögð fram skv. 4. þætti þessa kafla skal sá aðili sem þeim er beint til athugunar að ráðfæra sig við þá aðila sem leggja þær fram.

30. gr.

Skylda til að veita rökstuðning.


    Sá aðili sem beiðni er beint til skal rökstyðja allar ákvarðanir sínar um að synja eða fresta samvinnu sinni samkvæmt þessum kafla eða binda hana skilyrðum.

31. gr.

Upplýsingar.


1.     Sá aðili sem beiðni er beint til skal þegar skýra þeim aðila sem beiðni leggur fram frá:
    til hvaða aðgerðar hefur verið gripið á grundvelli beiðni samkvæmt þessum kafla,
    til hvers sú aðgerð hefur endanlega leitt, sem gripið hefur verið til á grundvelli beiðni,
    ákvörðun sinni um að synja eða fresta samvinnu samkvæmt þessum kafla, eða binda hana skilyrðum að öllu eða einhverju leyti,
    hverjum þeim aðstæðum sem koma í veg fyrir að unnt sé að framkvæma umbeðna aðgerð eða eru líklegar til að tefja hana til muna, og
    ef um ræðir bráðabirgðaráðstafanir gerðar á grundvelli beiðni skv. 2. og 3. þætti, hvað reglur það eru í landslögum hans sem leiða sjálfkrafa til brottfalls ráðstöfunar.
2.     Sá aðili sem beiðni leggur fram skal þegar skýra þeim aðila sem beiðni er beint til frá:
    sérhverri endurskoðun, ákvörðun eða öðru sem veldur því að upptökuákvörðun er ekki lengur fullnustuhæf að öllu eða einhverju leyti, og
    öllum nýjum atvikum, bæði hvað snertir staðreyndir máls og lög, sem valda því að ekki er lengur ástæða til aðgerðar samkvæmt þessum kafla.
3.     Þegar aðili óskar upptöku hjá fleiri en einum aðila á grundvelli sömu upptökuákvörðunar skal hann tilkynna um beiðnina öllum aðilum sem fullnusta ákvörðunarinnar varðar.

32. gr.

Takmarkanir á notkun.


1.     Sá aðili sem beiðni er beint til getur sett það skilyrði fyrir framkvæmd hennar að stjórnvöld þess aðila sem beiðni leggur fram noti hvorki né framsendi upplýsingar þær og málsgögn, sem aflað verður, í þágu annarra rannsóknar eða annarra málaferla en tilgreint er í beiðni, nema hann samþykki það fyrirfram.
2.     Hver aðili getur við undirritun, eða þegar hann afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt, lýst því yfir í yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins að án fyrirfram veitts samþykkis hans megi stjórnvöld aðila sem beiðni leggur fram hvorki nota né framsenda upplýsingar eða málsgögn sem hann lætur í té samkvæmt þessum kafla, í þágu annarrar rannsóknar eða annarra málaferla en tilgreint er í beiðni.

33. gr.

Leynd.


1.     Sá aðili sem beiðni leggur fram getur óskað þess að sá aðili sem beiðni er beint til haldi leyndum þeim atvikum sem hún byggist á og efni hennar, að öðru leyti en því sem óhjákvæmilegt er til að framkvæma megi beiðnina. Sé þeim aðila sem beiðni er beint til ekki unnt að uppfylla kröfuna um leynd skal hann þegar skýra þeim aðila sem beiðni leggur fram frá því.
2.     Sá aðili sem beiðni leggur fram skal, sé það ekki andstætt grundvallarreglum landslaga hans og sé farið fram á það við hann, halda leyndum öllum málsgögnum og upplýsingum sem sá aðili lætur í té sem beiðni er beint til, að öðru leyti en því sem óhjákvæmilegt er vegna þeirra rannsókna eða málaferla sem lýst er í beiðninni.
3.     Mæli landslög hans ekki fyrir um annað skal aðili sem fengið hefur upplýsingar án beiðni skv. 10. gr. sinna öllum óskum þess aðila um leynd, sem veitir þær.Geti hann ekki sinnt þeim óskum skal hann þegar skýra þeim aðila sem sendi upplýsingarnar frá því.

34. gr.

Kostnaður.


    Sá aðili sem beiðni er beint til skal bera venjulegan kostnað af að sinna henni. Sé nauðsynlegur kostnaður af því að sinna beiðni verulegur eða óvenjulegur skulu aðilar hafa með sér samráð til að koma sér saman um með hvaða skilmálum beiðnin skuli framkvæmd og hvernig bera skuli kostnað af henni.

35. gr.

Skaðabætur.


1.     Nú hefur verið höfðað mál til greiðslu skaðabóta vegna athafnar eða athafnaleysis er varðar samvinnu samkvæmt þessum kafla, og skulu þá hlutaðeigandi aðilar taka til athugunar að hafa með sér samráð eftir því sem við á, til að ákvarða hvernig skipta skuli hugsanlegum skaðabótagreiðslum milli þeirra.
2.     Aðili sem skaðabótamál hefur verið höfðað gegn skal leitast við að veita hinum aðilanum upplýsingar um málið, ef sá kann að eiga þar hagsmuna að gæta.

IV. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

36. gr.

Undirritun og gildistaka.


1.     Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja Evrópuráðsins, svo og þeirra sem ekki eru aðilar að ráðinu, en hafa tekið þátt í að semja hann. Geta þau lýst samþykki sínu við að bindast samningnum með:
    undirritun án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt, eða
    undirritun með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt, og eftirfarandi fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt.
2.     Fullgildingar-, staðfestingar- og samþykktarskjöl skulu fengin aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.
3.     Samningur þessi gengur í gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er þrjú ríki, sem að minnsta kosti tvö eru aðildarríki Evrópuráðsins, hafa lýst samþykki sínu við að bindast honum samkvæmt ákvæðum 1. mgr.
4.     Gagnvart undirritunarríki sem síðar lýsir yfir samþykki sínu við að vera bundið samningnum öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því er það lýsir samþykki sínu við að vera bundið honum samkvæmt ákvæðum 1. mgr.

37. gr.

Aðild að samningnum.


1.     Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins að höfðu samráði við samningsríkin boðið hvaða ríki sem er, sem ekki á aðild að Evrópuráðinu og ekki hefur tekið þátt í samningu hans, að gerast aðili að honum með ákvörðun sem tekin er með þeim meirihluta sem tilskilinn er í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða atkvæðum fulltrúa þeirra samningsríkja sem rétt eiga til setu í nefndinni.
2.     Gagnvart ríki sem þannig gerist aðili öðlast samningurinn gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

38. gr.

Staðbundið gildissvið.


1.     Hvert ríki getur við undirritun eða þegar það afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt, tilgreint það eða þau landssvæði, sem samningur þessi á að ná til.
2.     Hvert ríki getur hvenær sem er síðar lýst því yfir við aðalframkvændastjóra Evrópuráðsins að samningur þessi nái til hvaða annars landsvæðis sem er, sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Öðlast samningurinn gildi gagnvart því landsvæði fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst slík yfirlýsing.
3.     Yfirlýsingu sem gefin er samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum má með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra afturkalla fyrir hvert það landsvæði sem þar er tilgreint. Öðlast afturköllunin gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst slík tilkynning.

39. gr.

Afstaða til annarra samninga og samþykkta.


1.     Samningur þessi hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur sem leiðir af fjölhliða þjóðréttarsamningum um sérstök málefni.
2.     Aðilar að samningi þessum geta gert með sér tví- eða fjölhliða samning um þau málefni sem samningur þessi fjallar um, til að fylla eða treyst ákvæði hans eða auðvelda framkvæmd meginreglna hans.
3.     Nú hafa tveir eða fleiri aðilar þegar gert með sér samkomulag eða samning um efni sem fjallað er um í samningi þessum, eða hafa með öðrum hætti fest samskipti sín í sessi hvað það efni varðar, og er þeim þá rétt að framkvæma samninginn eða samkomulagið eða hafa þá skipan á samskiptunum sem um er að ræða, í stað samnings þessa, ef það er alþjóðlegri samvinnu til framdráttar.

40. gr.

Fyrirvarar.


1.     Hvert ríki getur við undirritun eða þegar það afhendir fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal sitt lýst því yfir að það nýti sér einn eða fleiri þeirra fyrirvara sem kveðið er á um í 2. mgr. 2. gr., 4. mgr. 6. gr., 3. mgr. 14. gr., 2. mgr. 21. gr., 3. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 32. gr. Aðra fyrirvara má ekki gera.
2.     Hvert ríki sem gert hefur fyrirvara samkvæmt undanfarandi málsgrein getur afturkallað hann að öllu eða einhverju leyti með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Öðlast afturköllunin gildi þann dag er aðalframkvæmdastjóri veitir henni viðtöku.
3.     Aðili sem gert hefur fyrirvara við ákvæði samnings þessa getur ekki krafist þess að annar aðili framkvæmi það ákvæði, en ef fyrirvari hans er gerður að hluta eða bundinn skilyrði getur hann þó krafist þess að ákvæðið verði framkvæmt að því marki sem hann hefur samþykkt það sjálfur.

41. gr.

Breytingar.


1.     Hver aðili getur lagt fram tillögur til breytinga á samningi þessum, og skal aðalframkvæmdastjóri senda þær aðildarríkjum Evrópuráðsins og öllum ríkjum sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa gerst aðilar að samningnum eða verið boðin aðild samkvæmt ákvæðum 37. gr.
2.     Breytingatillögur aðila skulu sendar Evrópunefnd um afbrotamálefni, og skal hún leggja fyrir ráðherranefndina álit sitt á þeirri breytingu sem lögð er til.
3.     Ráðherranefnd skal fjalla um breytingartillöguna og álit það sem Evrópunefnd um afbrotamálefni hefur lagt fyrir hana, og getur hún samþykkt breytinguna.
4.     Texti hverrar breytingar sem ráðherranefnd samþykkir skv. 3. mgr. þessarar greinar skal framsendur aðilum til staðfestingar.
5.     Hver sú breyting, sem samþykkt er skv. 3. mgr., öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að allir aðilar hafa skýrt aðalframkvæmdarstjóra frá staðfestingu sinni.

42. gr.


Lausn deilumála.


1.     Evrópunefnd um afbrotamálefni skal veittur kostur á að fylgjast með túlkun og framkvæmd samnings þessa.
2.     Nú kemur upp deila milli aðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa, og skulu þeir þá leitast við að leysa hana með samningum eða með hverjum öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali, svo sem með því að leggja deiluna fyrir Evrópunefnd um afbrotamálefni, í gerðardóm, en ákvörðun hans skal vera bindandi fyrir aðilana, eða fyrir Alþjóðadómstólinn, eftir því sem viðkomandi aðilar verða ásáttir um.

43. gr.

Uppsögn.


1.     Hver aðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til Aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2.     Uppsögnin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi, er aðalframkvæmdastjóra berst tilkynningin.
3.     Samningur þessi gildir þó áfram um fullnustu skv. 14. gr. á upptöku sem hefur verið beðið um samkvæmt ákvæðum samnings þessa fyrir gildistökudag uppsagnar.

44. gr.

Tilkynningar.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum ráðsins og hverju því ríki sem gerst hefur aðili að samningi þessum um:
    sérhverja undirritun,
    sérhverja afhendingu á fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- og aðildarskjölum.
    sérhvern gildistökudag samnings þessa skv. 36. og 37. gr.,
    sérhvern fyrirvara sem gerður er skv. 1. mgr. 40. gr.
    sérhverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu sem samning þennan varðar.

    Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa lögfullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Strassborg, 8. nóvember 1990 á ensku og frönsku í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textar jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit til allra aðildarríkja Evrópuráðsins, til þeirra ríkja sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í samningu samnings þessa, og til allra ríkja sem boðið er að gerast aðilar að honum.