Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 145 . mál.


336. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp þetta er hluti af ýmsum skattalagabreytingum ríkisstjórnarinnar sem margar orka mjög tvímælis eða eru beinlínis fráleitar. Það á t.d. við um lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarbyggingar og viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði. Tekjuöflunin samkvæmt þessu frumvarpi er sérstaklega merkt lækkun vörugjalda og þar með er skattbyrði að færast frá neyslusköttum yfir í launatengd gjöld.
    Að hinu leyti er uppgefin ástæða sú að ríkisstjórnin hafi í vor ákveðið að samræma tryggingagjald milli atvinnugreina, þ.e. hækka gjaldið á þær útflutnings- og framleiðslugreinar sem verið hafa í lægra þrepi og lækka hinar. Það er út af fyrir sig eðlilegt sjónarmið að stefna að slíkri samræmingu en á hitt ber að líta að með þessu færist þunginn af greiðslunum yfir á mannaflsfrekar framleiðslugreinar. Spurningin er einnig á hvaða grundvelli slík samræming eigi að vera, hvort miða eigi við hlutfall af launagreiðslum eða e.t.v. eitthvað annað. Loks verður að horfast í augu við að breytingin íþyngir verulega þeim greinum sem taka á sig hækkunina en ekki er þar með sagt að þær séu vel í stakk búnar til að mæta slíku. Það á a.m.k. hvorki við um fiskvinnsluna né landbúnaðinn.
    Annar minni hluti telur afar óvarlegt að standa svona að þessum breytingum og lýsir allri ábyrgð af því á hendur ríkisstjórninni.
    Yfirlýsingar um tengsl þessa máls við EES-samninginn hafa verið afar misvísandi. Gefið var í skyn af hálfu ríkisstjórnar að nauðsynlegt væri að samræma tryggingagjald á allar greinar vegna athugasemda frá ESA. Þetta var síðan dregið til baka.
    Ástæða er til að vara við lækkun atvinnuleysistryggingagjalds og samsvarandi hækkun almenna tryggingagjaldsins sem frumvarpið felur einnig í sér. Því miður er með öllu óvíst hvort sú tímabundna minnkun atvinnuleysis sem lögð er til grundvallar áætlun um minni fjárþörf atvinnuleysistryggingasjóðs verður varanleg.
    Þá er 2. minni hluti andvígur a-lið 2. tölul. í breytingartillögum meiri hlutans á þskj. 325 um að taka Staðlaráð og Icepro inn í þennan gjaldstofn. Eðlilegast er að fjárveitingar til slíkra hluta komi af fjárlögum ef ríkið kostar þá eða styrkir.
    Annar minni hluti tekur hins vegar ekki afstöðu til b-liðar 2. tölul. í breytingartillögum meiri hlutans sem felur í sér að gjaldstofn tryggingagjalds verði breikkaður þannig að hluti launagreiðenda í lífeyrissjóðsiðgjöldum verði að fullu tekinn inn í stofninn.

Alþingi, 12. des. 1996.



Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal I.


Umsögn Bændasamtaka Íslands.


(22. nóvember 1996.)



(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. Bændasamtaka Íslands,


Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal II.


Umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva.


(22. nóvember 1996.)



(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. Samtaka fiskvinnslustöðva,


Ágúst H. Elíasson.




Fylgiskjal III.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(9. október 1996.)



(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna,


Kristján Ragnarsson.