Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 238 . mál.


356. Frumvarp til lagaum almenningsbókasöfn.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.


    Almenningsbókasöfn eru upplýsinga- og menningarstofnanir. Hlutverk þeirra er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Þau skulu efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlun. Söfnin skulu hvert á sínu þjónustusvæði kappkosta að vera menningarstarfi og atvinnulífi til styrktar og hafa tiltækar upplýsingar fyrir almenning um opinberar stofnanir og þjónustu. Markmið þeirra skal vera að efla íslenska tungu og örva lestraráhuga.
    Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.
    Almenningsbókasöfn skulu hvert og eitt haga starfi sínu þannig, að komið verði við sem öflugastri samvinnu bókasafna í landinu um þjónustu við notendur.

2. gr.


    Til almenningsbókasafna teljast:
    bókasöfn fyrir almenning sem sveitarfélög reka,
    bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum, rekin af hlutaðeigandi stofnunum.

3. gr.


    Sveitarfélögum er heimilt að sameinast um rekstur almenningsbókasafns með myndun byggðasamlags eða öðrum hætti sem samræmist sveitarstjórnarlögum.

4. gr.


    Heimilt er að sameina almenningsbókasafn og bókasafn grunnskóla, enda sé gerður um það skriflegur samstarfssamningur milli bókasafnsstjórnar og skólanefndar með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna. Við slíka sameiningu skal gera ráð fyrir greiðum aðgangi almennings að þjónustu safnsins utan skólatíma.
    Heimilt skal og að stofna til samningsbundins rekstrar- eða þjónustusamstarfs milli almenningsbókasafns og bókasafns við skóla á framhaldsskóla- eða háskólastigi þar sem slík tilhögun telst henta vegna sérstakra aðstæðna.

5. gr.


    Landið skiptist í bókasafnsumdæmi. Menntamálaráðherra ákveður skiptinguna í reglugerð að fengnum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í hverju bókasafnsumdæmi er eitt umdæmissafn sem rækir þjónustu við umdæmið. Öllum bókasöfnum í hverju umdæmi ber að efla samvinnu sín í milli.

6. gr.


    Sveitarfélög í hverju bókasafnsumdæmi ákveða í sameiningu hvaða almenningsbókasafn í umdæminu skuli gegna hlutverki umdæmissafns. Menntamálaráðherra ákveður í reglugerð hvaða skilyrðum, m.a. um sérmenntað starfslið, safnkost, aðföng, tæknibúnað og afgreiðslutíma, bókasafn þurfi að fullnægja til að gegna hlutverki umdæmissafns.
    Umdæmissafn skal veita öðrum söfnum í umdæminu faglega ráðgjöf, efla samvinnu safna og vera upplýsingamiðstöð umdæmisins.
    Umdæmissafn skal eftir föngum lána eða útvega öðrum söfnum og íbúum í umdæminu þann safnkost sem þau vanhagar um.
    Umdæmissafni er heimilt að inna af hendi bókasafnsþjónustu við félög og stofnanir, t.d. skóla og sjúkrahús, og er heimilt að taka greiðslu fyrir þá þjónustu.
    Í hverju umdæmissafni skal kappkosta að koma upp upplýsingaþjónustu eða deild sem tengist atvinnulífi, m.a. ferðamálum, í umdæminu.

7. gr.


    Fyrir hverju almenningsbókasafni á vegum sveitarfélaga skal vera 3–5 manna stjórn, kjörin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum. Kjörtímabil bókasafnsstjórnar er hið sama og sveitarstjórnar.
    Sveitarstjórn setur bókasafnsstjórn erindisbréf. Standi sveitarfélög saman að rekstri bókasafns skal í samstarfssamningi kveða á um aðild hvers og eins þeirra að bókasafnsstjórn og um verkefni hennar. Sama gildir að því er varðar stjórnir umdæmissafna.

8. gr.


    Sveitarfélög ráða starfslið almenningsbókasafna sem á vegum þeirra starfa, sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og búa það nauðsynlegum búnaði.
    Við mannaráðningar skal leitast við að tryggja eftir föngum að almenningsbókasöfn hafi á að skipa starfsfólki með sérmenntun sem hæfir verksviði safnanna. Forstöðumaður almenningsbókasafns skal, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði eða jafngildu námi.
    Við hönnun bókasafnsbygginga, svo og við kaup eða leigu húsnæðis fyrir bókasafn, skal þess gætt að safnið sé öllum aðgengilegt.

9. gr.


    Framlög til almenningsbókasafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
    Standi sveitarfélög sameiginlega að rekstri almenningsbókasafns skal í samstarfssamningi kveðið á um skiptingu kostnaðar og þá m.a. tekið tillit til staðsetningar safnsins. Í samkomulagi um umdæmissafn, sbr. 6. gr., skal kveðið á um framlög sveitarfélaga í bókasafnsumdæminu til safnsins vegna hlutverks þess sem umdæmissafns.

10. gr.


    Í öllum sjúkrahúsum landsins, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum skal vera bókasafn sem hlutaðeigandi stofnun kostar og rekur. Heimilt er þó stofnun að semja við almenningsbókasafn í byggðarlaginu um bókasafnsþjónustu gegn greiðslu hæfilegrar þóknunar.
    Stjórn stofnunar skipar vistmannabókasafni stjórn og setur henni erindisbréf.

11. gr.


    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stuðlar að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veitir þeim faglega ráðgjöf og á við þau samstarf, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um stofnunina og reglugerð á grundvelli þeirra.

12. gr.


    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna almenningsbókasafna og hefur eftirlit með því að ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim sé framfylgt.
    Almenningsbókasöfn skulu árlega láta í té skýrslu til menntamálaráðuneytisins um fjármál og starfsemi hvers safns. Heimilt er ráðuneytinu að fela Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eða annarri stofnun að hafa umsjón með öflun þessara upplýsinga og úrvinnslu þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

13. gr.


    Menntamálaráðherra skipar ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna til þriggja ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, annar af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og hinn þriðji af Bókavarðafélagi Íslands. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
    Ráðgjafarnefndin veitir umsögn um erindi sem menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, einstakar sveitarstjórnir, bókasafnsstjórnir eða forstöðumenn almenningsbókasafna vísa til hennar. Nefndin getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til þessara aðila.

14. gr.


    Ríkissjóður greiðir árlega 12.300 þús. kr. í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í þeim söfnum sem lög þessi gilda um. Þessi fjárhæð skal endurskoðuð árlega til samræmis við verðlag í landinu samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.
    Sérstaka reglugerð skal setja um Rithöfundasjóð Íslands í samræmi við Rithöfundasamband Íslands.

15. gr.


    Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Reglugerðin skal undirbúin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og samráð haft við Bókavarðafélag Íslands.

16. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1997. Um leið falla úr gildi lög nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Árin 1997–2001 leggur ríkissjóður fram fé, eigi minna en 4 millj. kr. hvert ár, til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet. Fénu má verja til að veita bókasöfnum styrki til kaupa á tölvubúnaði í þessu skyni, svo og til þess að halda námskeið fyrir bókaverði og gefa út fræðsluefni fyrir almenning um hvernig færa megi sér í nyt nýja upplýsingatækni. Einnig er heimilt að veita af þessu fé styrki til annarra þróunarverkefna í þágu almenningsbókasafna, einkum rannsókna og fræðslu. Menntamálaráðherra setur reglur um notkun fjárins, þar á meðal um styrkskilmála, og tekur ákvörðun um úthlutun framlaga að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar um málefni almenningsbókasafna, sbr. 14. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Núgildandi lög um almenningsbókasöfn eru frá árinu 1976 (lög nr. 50/1976, breytt lítillega með lögum nr. 108/1988). Ýmsar forsendur hafa breyst á þeim tveimur áratugum sem síðan eru liðnir og endurskoðun laganna hefur verið á döfinni um alllangt skeið. Sem dæmi um breyttar aðstæður sem eðlilegt er að taka tillit til við slíka endurskoðun skulu eftirtalin atriði nefnd sérstaklega:
—    Stórstígar framfarir í upplýsingatækni sem hafa víðtæk áhrif á starfshætti og starfsmöguleika bókasafna.
—    Sameining sveitarfélaga víða um land og aukið samstarf þeirra hefur breytt rekstrargrundvelli almenningsbókasafna.
—    Með sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í nýrri Þjóðarbókhlöðu hefur myndast öflug stofnun sem á að geta orðið bókasafnakerfi landsins í heild öflug stoð svo sem löggjöf um hana gerir og ráð fyrir.
    Árið 1990 skipaði menntamálaráðuneytið nefnd undir forustu bókafulltrúa ríkisins og með fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bókavarðafélagi Íslands. Skyldi hún semja frumvarp til nýrra laga um almenningsbókasöfn og hafa hliðsjón af starfi nefnda sem fjallað höfðu um málefni almenningsbókasafna nokkrum árum fyrr. Nefndin skilaði tillögum sínum að lagafrumvarpi ásamt greinargerð snemma árs 1991. Við samningu frumvarps þess sem hér liggur fyrir voru þær tillögur lagðar til grundvallar, en vikið frá þeim í ýmsum atriðum í ljósi þróunar sem orðið hefur síðan þær voru lagðar fram. Einnig var byggt á álitsgerð nefndar sem menntamálaráðuneytið skipaði haustið 1995 til að fjalla um tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet, en henni var jafnframt falið að athuga frumvarpsdrögin frá 1991 með hliðsjón af þróun í tölvu- og upplýsingamálum. Sú nefnd skilaði skýrslu með tillögum sínum í janúar 1996. Þá ber að nefna ritið „Í krafti upplýsinga“ sem kom út í mars 1996, en þar er gerð grein fyrir stefnumörkun menntamálaráðuneytisins að því er varðar nýtingu nýrrar upplýsingatækni í þágu mennta og menningar. Er þar m.a. fjallað um mikilvægan þátt bókasafna í þeim efnum. Svo er einnig gert í stefnuritinu „Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið“ sem birt var í október 1996. Þar er talið æskilegt að bókasöfn „þróist í alhliða upplýsingamiðstöðvar sem tryggi öllum viðskiptavinum sínum greiðan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi, m.a. með tengslum við innlendar og alþjóðlegar fræðslumiðstöðvar og upplýsingaveitur“. (Sjá og athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.)
    Veigamestu breytingar og nýmæli sem frumvarpið gerir ráð fyrir, borið saman við núgildandi lög um almenningsbókasöfn, eru eftirfarandi:
    Í skilgreiningu á hlutverki almenningsbókasafna er lögð áhersla á það markmið að þau séu alhliða upplýsingastofnanir þar sem almenningur eigi kost á að nýta m.a. nýjustu tölvutækni til að afla margháttaðra gagna.
    Flokkun almenningsbókasafna er einfölduð og búið í haginn fyrir skipulag sem stuðlað geti að myndun öflugra umdæmissafna.
    Afnumin eru ákvæði í núgildandi lögum um lágmarksfjárframlag sveitarfélaga til almenningsbókasafna en mælt fyrir um að framlög skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags.
    Kveðið er á um ráðgjafar- og samstarfshlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns gagnvart almenningsbókasöfnum, með skírskotun til löggjafar um stofnunina.
    Fellt er niður ákvæði um sérstakan fulltrúa í menntamálaráðuneytinu er annist málefni almenningsbókasafna. Samkvæmt frumvarpinu fer menntamálaráðuneytið eftir sem áður með yfirstjórn þeirra mála, en gert er ráð fyrir heimild til að fela Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eða annarri stofnun umsjón með hluta af þeim verkefnum sem ráðuneytið hefur nú með höndum á þessu sviði.
    Breytt er ákvæðum sem lúta að menntun starfsmanna almenningsbókasafna.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði um fimm ára skeið til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet.
    Almenningsbókasöfn gegna þýðingarmiklu hlutverki fyrir menningar- og atvinnulíf þjóðarinnar og mikilvægi þess fer síst minnkandi í því „upplýsingasamfélagi“ sem talið er vera í sköpun. Rekstur almenningsbókasafna, annarra en tiltekinna stofnanabókasafna, hefur undanfarna áratugi verið að fullu á höndum sveitarfélaga og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Ákvæði frumvarpsins taka mið af því að um er að ræða verkefni sem sveitarfélögin bera ábyrgð á og því eðlilegt að þau hafi sem frjálsastar hendur um framkvæmd þess innan hins almenna ramma sem löggjöfin markar. Hins vegar er í frumvarpinu mjög byggt á því að samvinna takist með sveitarfélögum um þá skipan á málefnum almenningsbókasafna sem líklegust er til að stuðla að öflugri starfsemi safnanna, jafnframt því að lögð er áhersla á að söfnin ástundi samstarf sín á milli og eigi hlut að því að koma á samvirku bókasafnakerfi í landinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er hlutverk almenningsbókasafna skilgreint. Tekið er mið af þeirri þróun sem orðið hefur á sviði upplýsingatækni frá því að núgildandi lög voru sett og lögð áhersla á að bókasöfnin veiti almenningi færi á að nýta sér kosti hennar og möguleika. Ógrynni fróðleiks og upplýsinga er þegar og verður enn frekar í framtíðinni að finna í tölvutækum gagnasöfnum, jafnframt því sem margmiðlunartæknin stuðlar að aukinni fjölbreytni þess efnis sem á boðstólum er. Miklu skiptir að bókasöfnin verði miðstöðvar þar sem almenningi gefst kostur á að njóta nýrra tækifæra á þessu sviði. Enn um hríð mun skorta mikið á að allir hafi aðstöðu til að hagnýta tölvustudda upplýsingatækni á eigin spýtur og mun ekki síst reyna á bókasöfnin að hamla gegn ójafnræði í þeim efnum.
    Hin nýja tækni gerir bókasöfnunum m.a. auðveldara að sinna þeim þætti í starfi sínu sem lýtur að almennri upplýsingaþjónustu, bæði fyrir atvinnulíf og almenning. Að þessum þætti er sérstaklega vikið í 1. mgr. með ítarlegri hætti en í núgildandi lögum. Þar sem rætt er um upplýsingar um opinberar stofnanir og þjónustu er að sjálfsögðu ekki síst átt við starfsemi í því sveitarfélagi eða þeim sveitarfélögum sem að hverju safni standa.
    Í 1. mgr. kemur fram að þjónusta almenningsbókasafna á að miðast við fólk á öllum aldri. Mikilvægt er að söfnin leggi rækt við að höfða til barna og unglinga og stuðli þannig að því að glæða lestraráhuga þeirra. Það tengist einnig því sjálfsagða markmiði safnanna að efla íslenska tungu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um rétt allra landsmanna til að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Í því skyni er sérhverju sveitarfélagi skylt að standa að slíkri þjónustu. Í þessu felst ekki að skylt sé að reka bókasafn í hverju sveitarfélagi heldur er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti sameinast um slíkan rekstur ef öflug þjónusta verður betur tryggð á þann hátt, sbr. 3. gr.
    Í 3. mgr. er lögð áhersla á nauðsyn þess að almenningsbókasöfn og önnur bókasöfn ástundi samvinnu, notendum til hagsbóta. Með nútímatækni hafa skapast forsendur fyrir samvirku bókasafnakerfi í landinu. Slíkt samstarf hefur augljósa kosti, bæði fjárhagslega, m.a. í tengslum við skráningu og gagnaöflun, og ekki síður fyrir þá sem til safnanna leita og geta fengið fjölbreyttari og greiðari þjónustu en ella.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessari grein er bókasöfnum sem frumvarpið tekur til skipt í tvo flokka, annars vegar bókasöfn fyrir almenning sem sveitarfélög reka, hins vegar bókasöfn fyrir vistmenn stofnana, rekin af hlutaðeigandi stofnun. Í síðara tilvikinu fer því eftir eðli stofnunar hvort rekstur bókasafnsins er kostaður af ríki eða sveitarfélögum.
    Í núgildandi lögum er nokkru margbrotnari skilgreining á almenningsbókasöfnum þar sem taldar eru upp eftirfarandi tegundir þeirra, auk stofnanasafna: Bæjarbókasöfn (borgarbókasafn í Reykjavík), bæjar- og héraðsbókasöfn, héraðsbókasöfn og hreppabókasöfn. Ekki þykir þörf á að hafa þessa sundurgreiningu í lögum. Hins vegar girða ákvæði frumvarpsins á engan hátt fyrir það að almenningsbókasöfn á vegum sveitarfélaga beri mismunandi nöfn í samræmi við mismunandi rekstrargrundvöll og þjónustusvæði, sbr. og athugasemdir við 5. gr., um umdæmissöfn.

Um 3. gr.


    Ljóst er að sums staðar hagar svo til að viðunandi bókasafnsþjónusta verður betur tryggð með því að tvö eða fleiri sveitarfélög sameinist um reksturinn en að hvert sveitarfélag standi eitt sér að málum. Greinin gerir því ráð fyrir að heimild sé til slíks samstarfs, svipað og er í núgildandi lögum. Ákvæðið tekur einnig til samvinnu um rekstur svæðis- eða héraðsbókasafns þótt bókasöfn séu starfrækt í einstökum sveitarfélögum sem að slíku safni standa. Um samstarfsform fer eftir ákvörðun hlutaðeigandi sveitarfélaga innan ramma sveitarstjónarlaga.

Um 4. gr.


    Í gildandi lögum er heimild til að sameina almenningsbókasafn og skólasafn að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Hér er gert ráð fyrir að slík heimild taki til almenningsbókasafns og bókasafns grunnskóla, enda ekki með sama hætti rekstrarlegur grundvöllur fyrir beinni sameiningu við önnur skólasöfn. Síðari málsliður 1. mgr. miðar að því að tryggja að þjónusta við almenna notendur sé ekki skert óeðlilega ef til sameiningar er stofnað.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir möguleikum á rekstrar- eða þjónustusamstarfi milli almenningsbókasafns og bókasafns við framhaldsskóla eða háskóla ef sérstakar aðstæður þykja mæla með slíkri tilhögun. Nokkur dæmi eru nú um slíka samvinnu. Mikilvægt er að gerður sé formlegur samningur sem tryggi hagsmuni beggja aðila að samstarfinu.

Um 5. og 6. gr.


    Í þessum greinum er fjallað um skiptingu landsins í bókasafnsumdæmi og um hlutverk umdæmissafna.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir umdæmaskiptingu er ákveðin skal í reglugerð. Aðalsafn í umdæmi getur verið eitt af þrennu:
    Bæjarbókasafn sem starfar í kaupstað.
    Bæjar- og héraðsbókasafn sem starfar í kaupstað en rækir jafnframt þjónustu í byggðunum í kring.
    Héraðsbókasafn. Aðsetur héraðsbókasafna skal einnig ákveðið í reglugerð. Hlutverk þessara safna er ekki nánar skilgreint í lögunum sjálfum.
    Í frumvarpinu er sem fyrr gert ráð fyrir að menntamálaráðherra ákveði skiptingu landsins í bókasafnsumdæmi, en áskilið að aflað hafi verið tillagna Sambands íslenskra sveitarfélaga (sbr. 5. gr.). Eitt almenningsbókasafn í hverju umdæmi skal gegna hlutverki umdæmissafns og rækja þjónustu við önnur söfn í umdæminu, m.a. með ráðgjöf og atbeina við útvegun safngagna sem þau vanhagar um, jafnframt því að efla samvinnu safnanna og halda uppi sem öflugastri upplýsingaþjónustu. Ætlast er til að sveitarfélög í hverju bókasafnsumdæmi komi sér saman um hvaða safni er falið þetta hlutverk, enda fullnægi það tilteknum skilyrðum. Þar er um að ræða kröfur sem miða að því að tryggja að hlutaðeigandi safn hafi burði til að gegna leiðbeiningar- og þjónustuhlutverki umdæmissafns og lúta m.a. að sérmenntaðu starfsliði, safnkosti, tæknibúnaði og afgreiðslutíma samkvæmt því sem nánar yrði ákveðið í reglugerð.
    Í núgildandi reglugerð um almenningsbókasöfn, sem sett var árið 1978 (nr. 138/1978), er landinu skipt í 40 bókasafnsumdæmi. Eitt safn í hverju umdæmi er í reglugerðinni skilgreint sem „miðsafn“ og ætlað hlutverk svipað því sem frumvarpið ætlar umdæmissafni. Af þessum miðsöfnum eru 15 bæjarbókasöfn, sex bæjar- og héraðsbókasöfn og 19 héraðsbókasöfn. Reglugerðin kveður jafnframt svo á að um leið og sveitarfélag öðlist kaupstaðarréttindi verði það sjálfkrafa bókasafnsumdæmi með bæjarbókasafni. Hafi héraðsbókasafn starfað í hinum nýja kaupstað verði það bæjar- og héraðsbókasafn en bókasafnsumdæmið verði hið sama. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur „miðsöfnum“ fjölgað í 42.
    Nefnd sú, er vann að endurskoðun laga um almenningsbókasöfn 1990–91 og um getur í almennum athugasemdum hér að framan, taldi í greinargerð með tillögum sínum það vera megingalla á núgildandi skipan að landinu væri „skipt í mörg og smá bókasafnsumdæmi með miðsöfnum sem í reynd hafa ekki valdið því hlutverki að veita ráðgjöf og stuðning við hreppsbókasöfn og skólasöfn í umdæminu“. Í greinargerðinni sagði síðan m.a.:
    „Vert er að benda á að þar sem þjónusta almenningsbókasafna er virkust er löndum skipt niður í fá og fjölmenn bókasafnsumdæmi þar sem öflug aðalsöfn sjá öðrum söfnum umdæmisins fyrir faglegri aðstoð og þjónustu. Þannig eru 20 fylkisbókasöfn í Noregi (íbúatala 1988 4.221.000), 24 lénsbókasöfn í Svíþjóð (íbúatala 8.459.000), 14 miðsöfn í Danmörku (íbúatala 5.130.000) og í Finnlandi eru 16 landshlutabókasöfn (íbúatala 4.954.000). Sams konar skipan tíðkast í Bandaríkjunum og Bretlandi. Reynslan hefur sýnt að stofnun slíkra þjónustukjarna hefur úrslitaþýðingu fyrir uppbyggingu bókasafnanna og er í raun eina leiðin til að tryggja jafnari þjónustu. Þess vegna er nauðsynlegt að sveitarfélögin sameinist um rekstur fárra en öflugra umdæmissafna. Einnig er nauðsynlegt að allar tegundir bókasafna í hverju umdæmi, sérstaklega almenningsbókasöfn og skólasöfn, efli samvinnu og tengsl sín í milli. Aðeins þannig er hægt að fullnýta það fjármagn sem til þeirra er veitt og þann safnkost sem til er í hverju umdæmi.
    Nefndin leggur til að bókasafnsumdæmin séu miðuð við landshlutasamtök sveitarfélaga og verði þau því 7 talsins. Þó sé fyrst og fremst miðað við hagkvæmt samstarf sveitarfélaga og þannig möguleiki á fleiri umdæmum þar sem svo hagar staðháttum.“
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að skiptingin í bókasafnsumdæmi verði bundin í lögum, enda var það ekki tillaga framangreindrar nefndar. Eðlilegt er að um umdæmaskiptinguna séu höfð samráð við samtök sveitarfélaga og að sveitarfélög í hverju umdæmi ákveði síðan með samkomulagi sín í milli hvernig umdæmissafnshlutverkinu verði skipað. Ætla verður menntamálaráðuneytinu að hlutast til um það, eftir því sem þörf krefur, að slíkt samkomulag komist á. Miklu skiptir að þær ákvarðanir, sem hér er um að tefla, verði teknar með það í huga að raunhæfur grundvöllur verði lagður að starfi umdæmissafnanna.

Um 7. gr.


    Greinin fjallar um stjórnir almenningsbókasafna og gerir ráð fyrir að þær séu kjörnar af sveitarstjórnum sem í hlut eiga. Sú er einnig meginreglan samkvæmt núgildandi lögum, en ákvæði frumvarpsins um þetta efni eru nokkru ítarlegri. Þegar um er að ræða bókasafn sem tvö eða fleiri sveitarfélög standa að fer um stjórnaraðild einstakra sveitarfélaga eftir þeim samstarfssamningi sem gera skal um reksturinn, sbr. 3. og 9. gr. Að því er umdæmissöfn varðar er einnig gert ráð fyrir að í samkomulagi sveitarfélaga á þjónustusvæði hlutaðeigandi safns, sbr. 6. og 9. gr., sé kveðið á um það hvernig tekið verði tillit til hins sérstaka hlutverks safnsins við skipan stjórnar.

Um 8. gr.


    Beint ákvæði um að sveitarfélög ráði starfslið almenningsbókasafna á sínum vegum er ekki að finna í núgildandi lögum en leiðir efnislega af því hvernig rekstrarábyrgð er háttað.
    Í núgildandi lögum (12. gr.) er kveðið á um að við bæjarbókasöfn (borgarbókasafn í Reykjavík) og bæjar- og héraðsbókasöfn skuli forstöðumaður (yfirbókavörður) að jafnaði vera bókasafnsfræðingar, svo og að bókasafnsfræðingar skuli að jafnaði hafa forgangsrétt til bókavarðarstarfa. Mikilvægi þess að til almenningsbókasafna ráðist starfsfólk með sem traustasta menntun á starfssviði sínu er í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins áréttað með nokkru almennari hætti. Í 1. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði í reglugerð sérstök skilyrði sem umdæmissöfn þurfi að fullnægja að þessu leyti.
    Ákvæðin um húsakost og búnað eiga sér hliðstæðu í 10. gr. núgildandi laga, nema hvað hér er lögð áhersla á aðgengi með þarfir fatlaðra í huga.

Um 9. gr.


    Í þeim lögum sem nú gilda eru ítarleg ákvæði um lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna. Samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir að þau ákvæði falli brott en í stað þess mælt fyrir um að framlög til almenningsbókasafna skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
    Rökin fyrir þessari breytingu eru að hluta þau að núgildandi lagaákvæði hafa reynst örðug í framkvæmd. Þyngra vegur þó að telja verður eðlilegt að sveitarfélög taki sjálfstæða ákvörðun um framlög til þessarar starfsemi eins og ýmissa annarra verkefna sem þeim er lögskylt að sinna.

Um 10. gr.


    Ákvæði 1. mgr. um stofnanabókasöfn eru efnislega að miklu leyti hliðstæð því sem mælt er fyrir um í 6. gr. núgildandi laga. Í 2. mgr. er nýtt ákvæði um stjórnir slíkra safna sem ætlað er að stuðla að skipulegri uppbyggingu þeirra og umsjá.

Um 11. gr.


    Með sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í nýrri Þjóðarbókhlöðu myndaðist langöflugasta bókasafnsstofnun á Íslandi, bæði að því er varðar safnkost, sérhæft starfslið og aðstöðu, jafnt húsnæði sem tækjabúnað. Eðlilegt er að þessi stofnun láti að sér kveða til eflingar bókasafnakerfi landsins í heild og hafi forgöngu um að stuðla að samvirkni þess. Fyrir því er og gert ráð í 7. gr. laga nr. 71/1994 þar sem hlutverki Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er lýst. Í 11. gr. frumvarpsins er skírskotað til þeirra laga, jafnframt því að gert er ráð fyrir að þessum þætti verði gerð nánari skil í væntanlegri reglugerð á grundvelli sömu laga.

Um 12. gr.


    Í greininni er fjallað um yfirumsjónar- og eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins að því er varðar málefni almenningsbókasafna. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu frá núgildandi lögum að niður falli ákvæði um að sérstakur fulltrúi í ráðuneytinu annist þessi mál. Ekki þykir ástæða til að mæla þannig fyrir um starfsskipan í ráðuneytinu fremur en á öðrum sviðum sem undir stjórnsýslu þess falla. Sum þeirra verkefna sem samkvæmt reglugerð eru nú á hendi bókafulltrúa í menntamálaráðuneytinu eru þess eðlis að hentugt kynni að þykja að fela Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eða öðrum aðila umsjón þeirra, sbr. þá heimild sem gert er ráð fyrir í 2 mgr. þessarar greinar, svo og 11. gr.

Um 13. gr.


    Samkvæmt heimild í 10. gr. núgildandi laga hefur starfað ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna, skipuð tveimur fulltrúum, öðrum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hinum af Bókavarðafélagi Íslands. Í þessari grein frumvarpsins er gert ráð fyrir slíkri ráðgjafarnefnd með einum fulltrúa til viðbótar, tilnefndum af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Í 2. mgr. er verksvið nefndarinnar markað nokkru skýrara en í núgildandi lögum.

Um 14. gr.


    Ákvæði þessarar greinar um greiðslu í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í almenningsbókasöfnum eru efnislega óbreytt frá núgildandi lögum. Fjárhæðin sem hér er tilgreind er færð til samræmis við núverandi stöðu (sbr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1997).
    Menntamálaráðuneytið skipaði 10. júní 1996 nefnd til að kanna forsendur fyrir breytingum á gildandi lagaákvæðum um þóknun vegna afnota bóka í bókasöfnum, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn. Þess er að vænta að nefndin skili áliti áður en meðferð frumvarpsins lýkur á Alþingi.

Um 15. og 16. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í september 1995 skipaði menntamálaráðuneytið nefnd undir formennsku Þóru Óskarsdóttur bókafulltrúa til að gera tillögur um hagkvæmustu leiðina til þess að tengja bókasöfn landsins í starfrænt upplýsinganet. Nefndin skyldi taka mið af þróun í tölvu- og upplýsingamálum og þeim kröfum sem gera verður til safnanna vegna hennar.
    Í skýrslu nefndarinnar sem skilað var í janúar 1996 er bent á að til þess að almenningsbókasöfnum verði kleift að veita almenningi óheftan aðgang að upplýsingum og þekkingarmiðlum þurfi þau að hafa tækjabúnað sem veiti aðgang að internetinu og öðrum upplýsingum í tölvutæku formi. Lögbundin framlög (sveitarfélaga) til almenningsbókasafna hafi ekki verið miðuð við þann aukakostnað sem hlýst af upplýsingavæðingu og þau þurfi því að fá styrk til þess að kaupa nauðsynlegan búnað og tengingar. Nefndin leggur til að almenningsbókasöfn sem hafa opið a.m.k. 10 klst. í viku fái styrk af ríkisfé vegna stofnkostnaðar við slíkan búnað, en gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður hans verði á ábyrgð sveitarfélaganna. Einnig er lagt til að veitt verði fé til að halda námskeið fyrir bókaverði og gefa út fræðsluefni fyrir almenning um hvernig færa megi sér í nyt nýja upplýsingatækni.
    Kostnaður af framangreindum þáttum er áætlaður sem hér segir (í þús. kr.):
    30 tölvur og búnaður (30 x 220.000)  6.600
        30 prentarar (30 x 50.000)
 1.500

    Námskeið fyrir bókaverði (30 manns)     270
        Fræðslubæklingur fyrir almenning (30.000 eintök)
    650

        Samtals
 9.020

    Þá er í skýrslu nefndarinnar gerð grein fyrir áætluðum kostnaði við að fjölga þeim bókasöfnum sem eiga aðild að samskrá bókasafna í öðru hvoru þeirra tveggja stóru bókasafnakerfa sem nú eru í notkun hér á landi („Gegni“ og „Feng“). Í þeim útreikningum er miðað við að 40 bókasöfn bætist við þau sem fyrir eru (25 almenningsbókasöfn og 15 skólabókasöfn). Í Gegni er kostnaður við slíka viðbót áætlaður 1.750 þús. kr. (43.750 kr. á safn) en árlegur rekstrarkostnaður (án skráningar nýrra aðfanga) 1.180 þús. kr. (29.500 kr. á safn). Í Feng er stofnkostnaður vegna sömu viðbótar áætlaður 1.566 þús. kr. (39.150 kr. á safn) en árlegur rekstrarkostnaður 1.320 þús. kr. (33.000 kr. á safn að meðaltali en mismunandi eftir safntegund). Kostnaðartölurnar eru án virðisaukaskatts.
    Bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er að efni til reist á framangreindum tillögum og miðast við að ríkið veiti tímabundinn atbeina til að stuðla að því að bókasöfn verði fær um að veita almenningi kost á að nýta þá möguleika sem upplýsingatæknin býður.
    Í þessu samhengi skal og vísað til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar sem birtist í ritinu „Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið“ (október 1996). Í fylgiritinu „Íslenska upplýsingasamfélagið – Álitsgerðir starfshópa“ er í kafla um þátt bókasafna reifuð svofelld tillaga um „kjarnasöfn“:
    „Mikilvægt er að í ákveðnum bókasöfnum, ekki síst smærri söfnum, verði byggð upp sérþekking og reynsla í nýtingu upplýsingatækni í þágu almennings. Í því skyni verði sett á laggirnar kjarnasöfn sem samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga. Kjarnasöfn verði fyrirmynd annarra bókasafna hvað varðar beitingu upplýsingatækni í þjónustu við almenning. Tryggt verði að ekki sé alltaf um sömu bókasöfn að ræða.“
    Auk ráðstafana sem lúta beint að nýrri upplýsingatækni er gert ráð fyrir að af fjárveitingu samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sé heimilt að styrkja önnur þróunarverkefni, einkum rannsóknir og fræðslu, sem miða að því að efla starfsemi almenningsbókasafna.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um almenningsbókasöfn.


    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á hlutverki og fyrirkomulagi almenningsbókasafna í samræmi við breyttar aðstæður frá því að gildandi lög um almenningsbókasöfn voru samþykkt.
    Hlutverk bókasafnanna verði aukið þannig að þau verði upplýsinga- og menningarstofnanir fyrir almenning auk þess að vera menningarstarfi og atvinnulífi til styrktar. Með frumvarpinu er stuðlað að aukinni samvinnu bókasafna og lagður grunnur að skipulagi sem stuðlað getur að myndun öflugra umdæmissafna. Ekki er gert ráð fyrir að framangreindar breytingar hafi áhrif á kostnað ríkisins.
    Fellt er niður ákvæði um sérstakan bókafulltrúa í menntamálaráðuneytinu. Ráðuneytið fer eftir sem áður með yfirstjórn málefna almenningsbókasafna en gert er ráð fyrir að heimilt verði að fela Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eða annarri stofnun umsjón með hluta af þeim verkefnum sem ráðuneytið hefur nú með höndum á þessu sviði. Þessi tillaga getur leitt til þess að greiða þurfi starfandi bókafulltrúa biðlaun ef breyting verður á stöðu hans og bjóðist honum ekki sambærilegt starf hjá ríkinu.
    Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er lagt til að ríkissjóður leggi til 4 m.kr. á ári í fimm ár frá og með árinu 1997, samtals 20 m.kr., til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða upp á þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni og til að greiða fyrir tölvutengingu bókasafna.