Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 607, 121. löggjafarþing 175. mál: Landsvirkjun (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.).
Lög nr. 9 26. febrúar 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.

2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Ríkissjóður, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa lagt Landsvirkjun til eigendaframlög í formi stofnframlaga, sbr. 4. gr. og sameignarsamning aðila frá 27. febrúar 1981, og í formi sérstakra eiginfjárframlaga.
     Landsvirkjun greiðir eigendum arð af eigendaframlögum skv. 1. mgr. og af eigendaframlögum sem eigendur kunna síðar að leggja fram til Landsvirkjunar.
     Eigendaframlög skv. 1. mgr., svo sem þau hafa verið endurmetin miðað við 31. desember 1995, sbr. samning eignaraðila frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi aðila, og eigendaframlög, er síðar kunna að verða lögð fram, skulu framreiknuð til verðlags hvers tíma samkvæmt byggingarvísitölu og ákveður ársfundur Landsvirkjunar, að fenginni tillögu stjórnar, arðgreiðslu sem hundraðshluta þeirrar fjárhæðar.
     Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.

3. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn Landsvirkjunar skal skipuð sjö mönnum. Ráðherra orkumála skipar þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Ráðherra orkumála skipar formann stjórnarinnar úr hópi þeirra stjórnarmanna sem hann skipar. Á stjórnarfundum skal atkvæði formanns vega tvöfalt.
     Varamenn, jafnmargir, skulu kosnir og skipaðir á sama hátt.
     Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá ársfundi Landsvirkjunar á viðkomandi ári til ársfundar á næsta ári.
     Ársfundur ákveður þóknun stjórnarmanna.
     Nánari ákvæði um starfshætti stjórnarinnar skulu sett í reglugerð.

4. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
     Stjórn Landsvirkjunar fer með málefni fyrirtækisins og skal annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
     Forstjóri annast daglegan rekstur fyrirtækisins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
     Stjórn Landsvirkjunar skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
     Einungis stjórn Landsvirkjunar getur veitt prókúruumboð.
     Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.
     Nánari ákvæði um starfssvið stjórnar og forstjóra skulu sett í reglugerð.

5. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Halda skal í aprílmánuði ár hvert ársfund Landsvirkjunar. Á ársfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi Landsvirkjunar síðastliðið starfsár.
  2. Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
  3. Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Landsvirkjunar og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar á reikningsárinu.
  4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.
  5. Lýst kjöri stjórnar.
  6. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
  7. Umræður um önnur mál.

     Rétt til setu á ársfundi eiga einn fulltrúi hvers eignaraðila, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Ráðherra orkumála tilnefnir fulltrúa ríkissjóðs á ársfundinum. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi skal vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra.
     Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið ársfundar skal setja í reglugerð.

6. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Halda skal sérstakan samráðsfund Landsvirkjunar þegar að loknum ársfundi fyrirtækisins ár hvert. Fulltrúar á samráðsfundi skulu vera sem hér segir:
     Fjórir menn tilnefndir af ráðherra orkumála, fjórir menn kosnir af Reykjavíkurborg og fjórir menn kosnir af Akureyrarbæ. Þá skulu hver hinna einstöku landshlutasamtaka sveitarfélaga eiga rétt á að kjósa á aðalfundi sínum fjóra menn til setu á samráðsfundinum. Í reglugerð skal nánar kveðið á um kosningu fulltrúa á samráðsfund. Varamenn skulu skipaðir eða kosnir á sama hátt og aðalmenn.
     Verði um að ræða fjölgun eignaraðila skal taka skipan samráðsfundar til endurskoðunar.
     Stjórn og forstjóri Landsvirkjunar skulu sitja samráðsfundinn.
     Á samráðsfundinum skal kynna afkomu Landsvirkjunar og áætlanir og ræða þau atriði er þar koma fram. Skal þar sérstaklega fjalla um mál er varða öryggi í vinnslu og flutning raforku um landið, svo og atriði er varða raforkuverð. Þá skal á samráðsfundi ræða raforkumál er varða einstaka landshluta eftir því sem ástæða er til.
     Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið samráðsfunda skal setja í reglugerð.

7. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Starfsár Landsvirkjunar og reikningsár er almanaksárið.
     Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju og skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar.
     Ársfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.
     Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning Landsvirkjunar í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju og í því sambandi kanna bókhaldsgögn fyrirtækisins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og skal áritunin fylgja ársreikningnum sem skýrsla hans.

8. gr.

     Í stað 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Ákvæði samkeppnislaga gilda um Landsvirkjun.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Umboð núverandi stjórnar Landsvirkjunar skal haldast þar til á fyrsta ársfundi fyrirtækisins eftir gildistöku laga þessara, en fellur þá niður.

Samþykkt á Alþingi 12. febrúar 1997.