Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 932, 121. löggjafarþing 148. mál: sala notaðra ökutækja (leyfisbréf, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 20 17. apríl 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi taka til sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja sem fram fer með eftirgreindum hætti:
  1. Milliganga um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi milligönguaðilans.
  2. Sala á notuðum skráningarskyldum ökutækjum í eigu seljandans þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi hans.

     Lögin taka ekki til nauðungarsölu notaðra ökutækja.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi viðskiptaráðherra.
     Viðskiptaráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til starfsemi samkvæmt lögum þessum.
     Heimilt er bifreiðasala að leggja inn til ráðuneytisins starfsleyfi sitt. Óheimilt er honum að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins á innlögn leyfisins.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eru lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og lögum um sölu notaðra ökutækja.
  2. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Hafa forræði á búi sínu.
  3. 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptamönnum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum sem bifreiðasalar. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingaskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
  4. 5. tölul. 1. mgr. verður 6. tölul.
  5. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr.
  6. 4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða yfirmaður viðkomandi starfsemi innan þess skal fullnægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 1. mgr.

     Aðili sem sviptur hefur verið leyfi skv. 9. gr. skal sitja námskeið og standast prófkröfur, sbr. 6. tölul., áður en honum er veitt starfsleyfi á ný.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Gögn þessi skulu fylgja afsali og skal bifreiðasali jafnframt varðveita þau í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þar á meðal er ráðherra heimilt að kveða á um sérstaka skrá þar sem fram komi fyrri eigendur og tjónaferill viðkomandi ökutækis.


5. gr.

     Á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Bifreiðasali skal með áberandi hætti vekja athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun, þar á meðal þegar um skipti á bifreiðum er að ræða. Einnig er skylt að leyfisbréf vegna starfseminnar liggi frammi á starfsstöð.

6. gr.

     Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Eftirlit.

7. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsstöð bifreiðasala er.
     Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli lögreglustjóra eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna, og skal þá lögreglustjóri tilkynna það viðskiptaráðherra sem sviptir viðkomandi starfsleyfi.
     Nú rekur aðili starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án tilskilinna réttinda, og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva þá starfsemi, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

8. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 11. gr. laganna og orðast svo:
     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. apríl 1997.